Færsluflokkur: Matur og drykkur

Ofur-Osta samloka, hver sigrar - Óðals Búri eða Cheddar?

 

Að elda ostasamloku er einfalt. Ofur einfalt. Og ef það er gert rétt er það alveg einstaklega ljúffengt. Það eru nokkur skref sem þarf að fylgja. Almennt er það nú þannig að einfaldur matur byggir á því að maður noti góð hráefni. Og þar leikur osturinn auðvitað lykilhlutverk. 

 

Það verður eiginlega að biðjast afsökunar á þessu brauði, þar sem ég er að nota hvítt samlokubrauð. En ég hef nú sagt það áður að það er eiginlega alveg gagnlaust - nema þegar kemur að því að útbúa rosalega ljúffenga ostasamloku. Það má auðvitað nota aðrar tegundir af brauði - og niðurstaðan er alltaf ljúffeng. Aðalkosturinn við brauðið er að það tekur á sig svo fallegan lit þegar það er steikt á pönnu að það er eiginlega erfitt að toppa það. Maður borðar, jú, líka með augunum. Jafnframt verður það ögn sætara á bragðið við steikinguna og það rímar ákaflega vel við bráðinn ostinn. 

 

Ofur-Osta samloka, hver sigrar - Óðals Búri eða Cheddar?

 

Fyrir tvær ofur-ostasamlokur

 

4 brauðsneiðar

2 msk djionsinnep (sætt með smá hlynsírópi)

1/2 tsk ferskt timjan

Nóg af rifnum Óðals Búra

Nóg af rifnum Óðals Cheddar 

75 g smjör (til að smyrja og til steikingar) 

 

 

 

Það er auðvelt að elda þegar maður er með gott hráefni. 

 

 

Fyrst var að smyrja brauðið með sinnepinu.

 

 

Svo var að raspa yfir nóg af búra. Sáldraði nokkrum timjan greinum með.

 

 

Gerði eins við Cheddar ostinn.

 

 

Smurði brauðið að utan með smjöri. Ansi ríkulega.

 

 

Galdurinn er svo að steikja á heldur lágum hita. Það liggur ekkert á.

 

 

Maður er síðan verðlaunaður fyrir þolinmæðina.

 

 

Og verðlaunaður aftur!

 

Við vorum fjögur í heimilinu og staðan var hnífjöfn. Ég og Ragga vorum hrifnust af Cheddar ostinum en Snædís og Villi kusu Óðals Búra.

 

Svona getur þetta verið. Spurningin er hvaða ost ætti ég að prófa næst?

 

-------

 

 

 

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

 


Svipmyndir frá páskum 2019 - Úrbeinað lambalæri troðið af villisveppaosti og bláberjasultu og með rótargrænmeti, bestustu sveppasósunni og sætum gulrótum

 

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ég eldi lambalæri á páskadag - það hefur lengi legið fyrir. Það hef ég gert eiginlega síðan að ég byrjaði að búa og erfði þá hefð í beint frá móður minni. Fyrir mér snúast páskarnir mun meira um páskamatinn en nokkru sinni sælgætisátið - enda er ég enginn sérstakur nammigrís. 

 

Þessi uppskrift er ekkert rosalega frábrugðin því sem ég gerði í fyrra, enda er það svona með hefðirnar. Maður er sjaldan að umbylta frá því árið áður - meira að byggja ofan á reynslubankann og kannski teygja sig í þessa eða hina áttina. Stundum fer maður auðvitað einhver skref til baka. 

 

Svipmyndir frá páskum 2019 - Úrbeinað lambalæri troðið af villisveppaosti og bláberjasultu og með rótargrænmeti, bestustu sveppasósunni og sætum gulrótum 

 

Fyrir 6

 

Lambið

 

1 lambalæri

1/2 krukka bláberjasulta

3 msk Yfir holt og heiðar krydd

4 msk jómfrúarolía

1/2 villisveppaostur (restin fer í sósuna) 

nokkrar greinar ferskt timjan

salt og pipar

 

Blandað rótargrænmeti

 

400 g kartöflur 

400 g sætar kartöflur

400 g seljurót

2 rauðlaukar

1 hvítlaukur

5 msk hvítlauksolía

nokkrar greinar ferskt rósmarín

salt og pipar

 

Sósan 

 

250 g sveppir

50 g smjör

600 ml lambasoð frá grunni (sjá uppskrift neðar)

250 ml rjómi

2 msk þurrkaðir sveppir

salt og pipar

 

8 marglitar gulrætur

2 msk hlynsíróp

1 msk jómfrúarolía

 

 

 

Þetta hefst allt á lambalærinu. Það er um að gera að láta það standa á borði í nokkrar klukkustundir til að ná herbergishita. Vanari menn segja að þetta hjálpi kjötinu við að eldast jafnara en ella.

 

 

Með beittum hníf er ekki mikið mál að skera út beinið. Bara að fara varlega og er skera meðfram beininu. 

 

 

Ég útbjó olíumauk úr kryddblöndunni minni (Yfir holt og heiðar). Bætti við smá salti. 

 

 

Ég nuddaði innra byrðið með kryddmaukinu, setti svo bláberjasultu, svo timjan og smátt skorinn hvítlauk. Svo lagði ég sneiðar af villisveppaosti ofan á. 

 

 

Að binda upp lærið var eiginlega tveggja manna verk. Ég fékk móður mína til að hjálpa mér. Nudduðum ytra byrðið vandlega með kryddblöndu. Lærið var svo sett í ofnskúffu og bakað við 180 gráður þangað til að kjarnhiti náði rétt rúmlega 60 gráðum (fólk í minni fjölskyldu vill hafa kjötið heldur vel eldað).

 

 

Mamma tók að sér að leggja grunninn að soðinu. Skera lauk, sellerí, gulrætur og nokkur hvítlauksrif og steikja í olíu. Þegar grænmetið er mjúkt er ristuðum beinum bætt saman við og steikt áfram í nokkrar mínútur. Þá er bætt við glasi af góðu rauðvíni, nóg af vatni og kryddvendi saman og látið krauma í nokkrar klukkustundir. 

 

 

Næsta stig í sósugerðinni var að brúna sveppi í smjöri. Þegar þeir voru búnir að taka á sig fallegan lit bætti ég við soðinu sem ég hafði síað, ásamt nokkrum þurrkuðum sveppum og restinni af villisveppapostinum. Þetta fékk að krauma í þrjú korter. Bætti svo við rjóma, smá krafti og soya til að skerpa á henni. Salt og pipar. Þykkt með lítilræði af maizenamjöli. 

 

 

Faðir minn sá um grænmetið. Skar niður allt rótargrænmetið í jafna bita, velti upp úr olíu. Hann laumaði heilum hvítlauksrifjum á milli - sem gáfu ótrúlega ljúffengan hvítlaukskeim.

 

 

Móðir mín skreytti borðið í sveitinni og var þemað, líkt og maturinn, á nokkuð hefðbundnum nótum.  

 

 

Gleymdi næstum því gulrótunum. Þær voru flysjaðar, forsoðnar í sex mínútur, velt upp úr hlynsírópi og jómfrúarolíu og bakaðar í þrjú korter í 180 gráðu heitum ofni. 

 

 

Páskavínið að þessu sinni var Baron de Ley Gran Reserva frá því 2011. Þetta er þrusugott vín - mikið bragð - súkkulaði í bland við mikinn ávöxt. Sömu tónar á tungu nema kannski aðeins kryddaðra. Passaði vel með matnum sem einnig var ansi pakkaður af bragði.

 

 

Þetta var alveg meiriháttar páskamáltið!

 

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Geggjað kjúklingasnitzel með krydd- og skalottulaukssmjöri með bökuðum sætum kartöflum og spínati

 

Auðvitað ætti ég að vera elda ekta vínarsnitzel eftir þeirri aðferð sem ég lærði af Harald, yfirkokkinum á Das Seekarhaus skíðahótelinu í Obertauern. Hægt er að sjá hvernig við elduðum þá uppskrift á sjónvarpi Símans - nýju þættirnir mínir - Ferðalag bragðlaukanna - Alparnir -  voru að fara í loftið á Premium núna um páskana. Þeir verða sýndir fljótlega í línulegri dagskrá. 

 

 

En svona er það svo oft með matarupplifun. Ein uppskrift vekur manni innblástur og kveikir nýjar hugmyndir til að prófa að gera hana aðeins öðruvísi. Og þessi var talsvert öðruvísi að því leyti að ég notaði kjúkling í stað kálfakjötsins og djúpsteikti það frekar en að elda það í skírðu smjöri (sem er auðvitað besta leiðin). Og ég stoppaði ekki þar - þetta er gerólík uppskrift. 

 

Geggjað kjúklingasnitzel með krydd- og skalottulaukssmjöri með bökuðum sætum kartöflum og spínati

 

Fyrir fimm 

 

5 kjúklingabringur

hveiti

4 egg 

brauðmylsna 

hvítlauksduft

sítrónupipar

salt 

 

200 g smjör

2 hvítlauksrif

basil, steinselja

1 skalottulaukur

sítrónusafi 

 

2 sætar kartöflur

200 g spínat

1/2 dós fetaostur

4 msk hvítlauksolía

rósmarín

salt og pipar 

 

 

Það er gott að byrja að gera kryddsmjörið. Ég mýkti smjörið í örbylgjuofni í nokkrar sekúndur og blandaði svo við smáttskornum skalottulauk, hvítlauk og kryddjurtum saman við. Bætti sítrónusafa við og pipraði lítillega. Setti á bökunarpappír og vafði upp í karmellu og setti aftur inn í kælinn.

 

 

Næst voru það kartöflurnar. Þær voru flysjaðar og skornar í netta tenginga. Velt upp úr hvítlauksolíu, fersku rósmaríni og salti og pipar. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur. Þá var spínatinu bætt saman við, blandað varlega saman (svo að kartöflurnar yrðu ekki að mauki) og leyft að koðna niður með heitum kartöflunum. 

 

 

Það er mikilvægt að bragðbæta hveitið. Ég setti fullt af salti og sítrónupipar. 

 

 

Sama gildir um eggin, þau þarf að hræra saman með  örlitlu af vatni, salta og pipra. 

 

 

Kjúklingurinn er flattur út með kjöthamri (best er að setja hann í þykkan plastpoka og lemja hann varlega). Svo er settur í hveitið, svo eggið, því næst brauðmylsnuna ...

 

 

...og þaðan út í heita olínuna. Steikt í nokkrar mínútur.

 

 

Setti að lokum alla steiktu bitana í 180 gráðu heitan ofn í 10 mínútur.

 

 

Svo var að huga aftur að kartöflunum. Ég tók þennan fetaost og braut hann niður aðeins með gaffli. 

 

 

Svo muldi ég ostinn yfir kartöflurnar og spínatið. Skreytti með smáttskornum ferskum kryddjurtum, basil og steinselju.

 

 

Með matnum drukkum við Valiano 6.38 Chianti Classico frá því 2010. Þetta vín er gert að mestu úr Sangiovese þrúgu eins og einkennir flest vín frá Toskana en þetta er blandað með 10% Merlot. Þetta rauðvín er einkar bragðmikið - með ríkulegum ávexti, smá vanillu og piparkeim - ljúffengt og langt eftirbragð. 

 

 

 

Þetta var alveg einstaklega vel heppnaður réttur - lungamjúkur kjúklingur með fullt af kryddsmjöri.

 

Svo má líka prófa sig áfram með kalkúnn - það er líka einstaklega ljúffengt.

 

 

Verði ykkur að góðu. 

 

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

 

 

 

Páskaupphitun - lambalundir með Yfir holti og heiðum, gullostafylltum sveppum og ofnsteiktum kartöflum

 

Það líður að páskum og þá er hefð fyrir því að bera fram lambakjöt. Þetta er svo sannarlega ekki nýtt af nálinni og á sér mörg þúsund ára sögu. Þessi hefð á rætur að rekja til Pesach hátíðar Gyðinga  þegar þeir fagna frelsun undan þrælahaldi Egypta. Þá þurfti að fórna lambi Guði til dýrðar.  Páskar kristinna manna falla á sama tíma að fyrirmynd Gyðinga - en þar táknar lambið fórn Jesú sem samkvæmt kirkjunnar mönnum dó fyrir syndir okkar á krossinum. Þetta er allt gott og gilt. Ég borða lamb af því að það er svo einstaklega ljúffengt. 

 

Margir hafa þann háttinn á að elda heilar steikur eins og lambalæri eða frampart en það er ekkert síður hátíðlegt að elda lambið í minni bitum, eins og lundum. Það tekur líka mun skemmri tíma. 

 

 

Í þessari uppskrift er að finna kryddblöndu sem ég þróaði í samstarfi við Kryddhúsið. Við tókum upp þráðinn nýlega og hægt er að kaupa þessa blöndu í Melabúðinni, Fjarðarkaupum, Hagkaup og von bráðar verður hún til sölu í Krónunni ásamt fleiri góðum kryddum. 

 

Páskaupphitun - lambalundir með Yfir holti og heiðum, gullostafylltum sveppum og ofnsteiktum kartöflum

 

Hráefnalisti

 

Fyrir 6 

 

1,3 kg lambalundir

3 msk rósmarínbragðbætt jómfrúarolía

2 msk yfir Holt og heiðar kryddblanda 

2 msk ferskar kryddjurtir (rósmarín, timjan)

salt og pipar

 

1 kg kartöflur 

1 hvítlaukur

handfylli timjan/rósmarín

salt og pipar

 

6 stórir sveppir

1/2 laukur

2 hvítlauksrif

4 msk brauðmylsna

6 þykkar sneiðar af gullosti

3 msk hvítlauksolía

salt og pipar

 

400 ml lambasoð

200 ml rauðvín

250 ml rjómi

salt og pipar

1 msk soya sósa

1 tsk rifsberjasulta

1 tsk Yfir holt og heiðar-kryddblanda 

 

Ég fékk góða aðstoð frá föður mínum þannig að þessi eldamennska gekk snurðulaust fyrir sig! 

 

 

 

Byrjið á því að skola af lambinu og þerrið það svo vandlega. 

 

 

Hellið rósmarínolíunni yfir kjötið og nuddið það svo upp úr kryddblöndunni. 

 

 

Bætið við ferskum kryddjurtum og svo salti og pipar. Látið standa í um klukkustund fyrir öll brögðin að blandast.

 

 

Kartöflurnar voru nú nógu einfaldar. Bara velta þeim með hvítlauknum upp úr jómfrúaroliu, kryddjurtum, salti og pipar. Baka í 200 gráðu heitum ofni í þrjú til fjögur kortér. 

 

 

Mér finnst fylltir sveppir vera alveg ótrúlega ljúffengir. Byrjð á því að fjarlægja innan úr sveppnum og saxa fínt niður og steikja upp úr smjöri með lauk, hvítlauk og brauðmylsnu. Saltið og piprið. 

 

Fyllið svo sveppinn aftur með blöndunni og tyllið gullostsneið ofan á. 

 

 

Bakið í heitum ofni þangað til að þeir eru gullinbrúnir og ilma stórkostlega.

 

 

Með matnum deildum við flösku af Casa Rojo Machoman Monastrell frá Jumilla á Spáni sem liggur klukkustund vestan við Alicante. Þetta vín er framleitt úr Monastrell þrúgunni og er nokkuð kraftmikið vín - dökk sulta, kryddað með miklu eftirbragði.

 

 

Það þarf ekki langan tíma til að elda lambalundir. tvær til þrjár mínútur á hvorri hlið og láta svo hvíla í 10 mínútur áður en sagt er "gjörið svo vel".

 

Sósan var með einfaldasta móti. Víni hellt í pott soðið niður um helming, kraftmiklu lambasoði bætt saman við og soðið niður um þriðjung, svo rjómi. Soðið áfram. Þykkt með maizena mjöli og bragðbætt með sultu, soya og svo salti og pipar. Einföld en ljúffeng.

 

 

Þetta var veislumáltið! 

 

-------

 

 

 

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Fermingarveisla Galore - Villi Bjarki fermist - seiðandi Minestrone súpa með pestó, dásamlegir heitir réttir, ljúffengir ostar, brauð og brauðsalöt handa vinum og vandamönnum

 

Sonur minn, Vilhjálmur Bjarki fermdist borgaralega nú um helgina. Hann hefur tekið námskeið á vegum Siðmenntar og kunni vel við þá fræðslu sem þar var veitt. Það var gaman að sjá hversu stór hópur valdi að ferma sig á þennan hátt nú í ár. Sjálfur valdi ég að ferma mig ekki þegar ég var táningur þar sem ég hef aldrei verið trúaður maður, ég er ekki einu sinni skírður. Ég hefði sosum geta fermt mig borgaralega á sínum tíma - en þá var sú ferming á sínu fyrsta ári. En ég valdi að sitja á hliðarlínunni og hef ekki séð eftir því. 

 

 

Frumburðurinn minn, Valdís Eik, er líka ófermd en við bjuggum í Svíþjóð á þeim tíma og þar er ferming ekkert fyrirbæri á meðal unglinga og því fór þetta eiginlega bara framhjá henni og okkur. En Villa langaði til að fermast og fannst borgaraleg ferming vera spennandi. Og það var sannarlega gaman að safna fjölskyldunni saman og fagna með þessum unga og dásamlega manni. Við hjónin erum svo einlæglega stolt af syni okkar - hann er hlýr, greindur og góður ungur maður. 

 

Fermingarveisla Galore - Villi Bjarki fermist - seiðandi Minestrone súpa með pestó, dásamlegir heitir réttir, ljúffengir ostar, brauð og brauðsalöt handa vinum og vandamönnum

 

Hann fékk sjálfur að velja matseðilinn. Hann vildi hafa hádeigisverð með súpu og brauði fyrir ættmenni og vini. Við ræddum lengi um hvaða súpu hann myndi vilja hafa á boðstólum - og úr varð minestrone súpa sem er í miklu uppáhaldi hjá honum. 

 

Minestrone með pestó handa 60 manns

 

5 stórar gulrætur

6 sellerísstangir

3 laukar

10 hvítlauksrif

6 lárviðarlauf

15 l vatn

1 flaska hvítvín

20 kjúklingateningar

1,5 kg pasta

6 litlar papríkur

8 tómatar

6 greinar rósmarín

handfylli basil og steinselja

salt og pipar

 

 

Allar góðar súpur byrja á mirepoix - gulrótum, sellerí og lauk sem er steikt í jómfrúarolíu. Ég bæti alltaf við hvítlauk, þar sem ég er forfallinn hvítlauksfíkill. Grænmetið er steikt þangað til að það mýkist vel og þá er heilli flösku af góðu hvítvini bætt saman við og soðið niður um helming þannig að allt áfengi sjóði upp. 

 

 

Ég útbjó stóran kryddvöndul sem ég lagði ofan í pottinn og bætti svo vatninu og kraftinum saman við. Þetta fékk að krauma í nokkrar klukkustundir. Saltað og piprað. 

 

 

Ég fékk góða aðstoð frá foreldrum mínum og bróður, sem skáru niður tómatana og papríkurnar sem var bætt útí á síðasta klukkutímanum. Þegar 15 mínútur voru eftir af eldunartímanum bættum við pastanu saman við. 

 

Við vorum með ljúffengt pestó frá Rustichella sem við hresstum aðeins við með nýrri basilíku, meiri parmaosti og þynntum aðeins út með meiri jómfrúarolíu. 

 

 

 Súpan heppnaðist einstaklega vel og Villi var einkar ánægður með niðurstöðunar.

 

Við gerðum einnig fjóra stóra heita rétti. Allir voru þeir ólíkir. Það verður nú að vera smá fjölbreyttni í þessu. 

 

 

Pabbi útbjó magnaða hvítlauksolíu sem við notuðum til að pensla allar ofnskúffurnar. 

 

 

Ég skráði ekki nákvæmlega hjá mér hversu mikið fór í hverja ofnskúffu. Í fyrstu fór sirka 500 g af steiktu beikonkurli, fullt af smátt skorinni papríku, gullostur í næfurþunnum sneiðum og svo rifinn ostur og eitthvað af rifinni steinselju. Helltum svo blöndu af 15 eggjum og 500 ml af rjóma, sem hafði verið söltuð og pipruð, í hvert fat. Og að sjálfsögðu brauð - fyrst sneiðar neðst - en svo fullt af niðurrifnu brauði ofan á.

 

 

Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn.

 

 

Í næstu skúffu fór svo gróft brauð, einn stór haus af sperilkáli, muldar valhnetur og mangóchutney. Lögðum svo yfir þunnar sneiðar af Stóra Dímon og rifinn ost. Settum álíka magn af eggja- og rjómablöndu.

 

 

Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn.

 

 

Þessi er svo alger klassík. Skinka, aspas úr dós og camenbert í þunnum sneiðum. Eggja- og rjómablanda líkt og áður og svo rifinn ostur. Og muna að bleyta brauðið úr safanum úr dósinni!

 

 

Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn. Sælgæti.

 

 

Þessi var líka alveg frábær. Pepperóni, skinka og svo hvítlaukssteiktir sveppir. Höfðingi í þunnum sneiðum og svo rifinn ostur. Jafnmikið af rjóma og eggjablöndu.

 

 

Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn. Ótrúlega ljúffengt.

 

Við buðum einnig upp á salöt með brauðinu sem við keyptum í Brauð&Co. 

 

 

Bróðir minn sá um túnfiskssalatið. Sex dósir af túnfiski í vatni þeytt saman með átta soðnum eggjum, fullt af majónesi og svo smátt skornum vorlauk og hálfum rauðlauk. Saltað og piprað.

 

 

Faðir minn á svo heiðurinn af þessu rækjusalati. Eitt kíló af rækjum og átta soðin eggjum, fjórar smátt skornar papríkur, hálfur rauðlaukur, nóg af majónesi og handfylli af steinselju. Saltað og piprað. 

 

 

 

Það var eiginlega þessi réttur sem sló í gegn. Heill risavaxinn ostur, Stóra Dímon var pakkað inn í smjördeig (notaði tvo pakka af upprúlluðu smjördeigi). Amma Habbý fékk svo það hlutverk að skreyta ostinn. Svo var hann penslaður með eggjablöndu. 

 

 

Hann var svo bakaður við 200 gráður í 35 mínútur þangað til að deigið var orðið gullið að utan. Þessi var borðaður upp til agna! 

 

 

Við höfðum einnig aðra osta á boðstólunum. Stóran Gullost. Klassík.

 

 

Þá bárum við einnig fram stóran Höfðingja og aðra osta, vínber, ýmsar sultur og fjölbreytt úrval af niðursneiddum pylsum úr ýmsum áttum. 

 

 

Til hamingju með daginn þinn, elsku sonurinn okkar - Vilhjálmur Bjarki. 

 


Dásamlega lambakjöt - sjö tíma lambalæri, nú með balsamikdöðlumauki, ofureinföldu salati og fullkomnum kartöflum - heimsótt aftur

 

Þeim sem lesa síðuna mína ættu að vera nokkuð ljóst að ég elska lambakjöt. Það er án efa það hráefni sem ég hef í algeru uppáhaldi. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að íslenskt lambakjöt sé framúrskarandi gott og betra en lambakjötið sem ég hef bragðað erlendis. Ég held að bragðgæðin séu aðalega fólgin í því að það er nánast sjálfalið á fjalli og lifir á bragðgóðum grösum; fjalldrapa og lyngi. Slíkt skilar sér í bragðinu, það hlýtur bara að vera. 

 

Þetta lambalæri er langeldað. Og ekkert lítið langeldað - sjö klukkustundir eru, jú, eiginlega bróðurpartur dags. Við svona langa eldun við lágan hita verður lambið eiginlega mauksoðið og fellur hreinlega af beinunum. Ég hef eldað lambalæri með þessum hætti margoft. Ætli ég hafi ekki bloggað fyrst um það fyrir sex árum síðan, sjá hérna

 

Svo gæti þessi uppskrift verið gráupplögð fyrir þá sem vilja taka smá snúning á páskalambið. 

 

Dásamlega lambakjöt - sjö tíma lambalæri, nú með balsamikdöðlumauki, ofureinföldu salati og fullkomnum kartöflum - heimsótt aftur

 

Hráefnalisti

 

1 lambalæri

4 gulrætur

2 sellerísstangir

1 rauðlaukur

handfylli blönduð piparkorn

handfylli döðlur

8 hvítlauksrif

2 msk balsamedik

jómfrúarolía

salt og pipar

 

1 kg kartöflur

100 gr smjör

2 msk hveiti 

salt og pipar

 

Salat

 

1 gul papríka

2 tómatar

2-3 msk fetaostur

2 msk frönsk salatdressing (heimagerð að sjálfsögðu)

 

 

Fyrst var að undirbúa beðið undir lambið. Þarna skiptir máli að vanda sig - þar sem þarna eru fyrstu skrefin stigin til að gera sósuna.

 

Skar gulræturnar, rauðlaukinn og selleríið í bita og lagði í ofnpott. Hellti nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu yfir ásamt handfylli af piparkornum.

 

 

 

 

 

 

 

Þá var að útbúa balsamikdöðlumaukið. 

 

 

Fjarlægði steininn úr döðlunum og setti í matvinnsluvél ásamt hvítlauknum, balsamediki og svo jómfrúarolíu þangað til að blandan varð að mauki. Saltaði og pipraði. 

 

 

Næsta skref var svo að smyrja döðlumaukinu á í jöfnu lagi.

 

 

Þessi mynd er eiginlega bara af því mér finnst hún vera svo falleg. Hellti víni og vatni með í pottinn til að leggja grunn að sósunni.

 

 

Ég gerði einfalda franska dressingu. Blandaði olíu, balsamediki, sinnepi, smátt skornu hvítlauksrifi, hlynsírópi vandlega saman. Saltaði og pipraði.

 

 

Ég notaði að sjálfsögðu íslenskt salat.

 

 

Raðaði tómötum, papríkum ofan á, ásamt fetaosti og rifinni ferskri steinselju.

 

 

Lærið var svo sett inn í 90 gráðu heitan ofn í rúmar sex klukkustundir. Ég síaði allan vökva frá og sauð upp með rjóma, salti og pipar. Sósan varð afar ljúffeng.

 

 

Með matnum bárum við fram kartöflur sem ég kalla fullkomnar kartöflur. Þær eru fyrst flysjaðar og svo forsoðnar í sex til sjö mínútur í söltuðu vatni. Þá er vatninu hellt frá og þeim velt upp úr hveiti og salti og svo steiktar í nokkrar mínútur upp úr smjöri (eða andafitu sé hún tils taks). Svo eru þær bakaðar í ofni í klukkustund þangað til að þær eru dásamlega gullinbrúnar.

 

 

Með matnum drukkum við þetta ljúffenga spænska rauðvín frá vinum mínum hjá Casa Rojo. Þetta vín er framleitt í Ribera del Duero dalnum. Vínið er framleitt úr Tinto Fino þrúgum og er einstaklega ljúffengt með lambakjöti. Þetta er bragðmikið vín sem er með mjúkri eik í eftirbragðinu með smá súkkulaðitónum sem passaði vel með matnum.

 

 

Lambið var eins mjúkt og hægt var að hugsa sér og datt hreinlega af beinunum. Það þurfti ekki hníf til að taka það í sundur. Balsamikdöðlumaukið var ótrúlega ljúffengt á bragðið.

 

Dásamleg máltíð - verði ykkur að góðu!

 

-------

 

 

 

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

 

 


Heimabakstur: Ekki hnoða mig - saðsamt og ljúffengt súrdeigsbrauð

 

Hvað er betra en brakandi stökkt nýbakað súrdeigsbrauð,? Jú, það er að skera volgt brauðið niður og smyrja það með þykku lagi af smjöri! Sælgæti! Það verður þó að viðurkenna að ég baka mun sjaldnar nú en áður. Því kenni ég um bökurum Brauð & Co sem hafa lyft brauðmenningu á Íslandi í áður óþekktar hæðir. En þó að brauðið hjá þeim sé afar ljúffengt þá er eitthvað sérstaklega verðlaunandi við að baka. Taka hveiti og umbreyta því í saðsaman og ljúffengan brauðhleif. 

 

Heimabakstur: "Ekki hnoða mig" - saðsamt og ljúffengt súrdeigsbrauð

 

Ég hef stundum fengið súr hjá þeim í Brauð og Co og haldið honum lifandi heima í einhverjar vikur. En það er í sjálfu sér ekki flókið að útbúa hann sjálfur. Það er gnæg af uppskriftum á netinu. Þessa uppskrift bjó ég til fyrir Grillbókina mína sem kom út vorið 2016.

 

Annars hafa "ekki hnoða mig" brauð verið nokkuð vinsæl á undanförnum árum. Aðferðin hefur lengi verið til en bandaríski bakarinn Jim Lahey gerði henni hátt undir höfði í bók sinni My Bread sem kom út árið 2012. Ég gerðist svo djarfur að stela þessari uppskrift, breyta lítillega og nota í eina af matreiðslubókunum mínum - auðvitað breytti ég henni aðeins, svona rétt til að létta á samviskunni. 

 

Á seinni árum varð mér líka ljóst að það er vel hægt að gera þessa uppskrift með súrdeigi og sú aðferð er engu flóknari. Það eina sem þarf er tími. Og hver á ekki nóg af honum? 

 

Þessi aðferð er þó frábrugðin hefðbundnum brauðbakstri á þann hátt að deigið er ekkert hnoðað (eins og nafnið gefur vissulega til kynna), það fær að hefast í rúmlega hálfan sólarhring og er mun blautara en það brauðdeig sem maður er almennt vanur. 

 

Fyrir súrdeigið

 

5 dl vatn

100 g spelthveiti

50 g heilhveiti

50 g rúgmjöl

 

 

Hellið vatninu og öllu mjölinu í krukku og hrærið vandlega saman. Látið standa í opinni krukkunni í einn til tvo daga við stofuhita til að fanga villta gerið sem finnst í umhverfi okkar. Hrærið reglulega í krukkunni. Eftir einn til tvo daga má setja lok á krukkuna en látið hana standa áfram við stofuhita í um viku eða þangað til gerið fer að ilma eins og ferskur bjór eða brauð að hefast. Gætið þess að hræra a.m.k. tvisvar daglega í krukkunni. Geymið síðan súrdeigið í ísskáp. Þegar tekið er af því þarf að „mata“ það með því að bæta hveiti og vatni í krukkuna til að halda því við. Gott súrdeig getur lifað í ár og öld!

 

Fyrir tvö meðalstór súrdeigsbrauð

 

Þessi uppskrift byggir á ákveðnum hlutföllum. Það er settur einn hlutur af súrdeigi, tveir af vatni og svo þrír af hveiti. 

 

400 ml súrdeig

800 ml vatn

1600 g hveiti 

3 tsk salt

 

 

Afsakið gæðin á myndunum. Tók myndirnar síðla kvölds rétt áður en ég fór í háttinn. Byrjaði á því að setja súrinn í stóra skál.

 

 

Næst var svo hveiti, vatn og salt.

 

 

 

Svo er deigið hrært í örskamma stund þangað til að það er vel blandað saman. 

 

 

Viskastykki breitt yfir og deigið látið hefast til morguns.

 

 

Deigið hafði tvöfaldast í stærð og ilmurinn af því var dásamlegur.

 

 

Svo var bara að móta það í tvo hleifa.

 

 

Ég setti steypujárnspott inn í ofn og blússhitaði ofninn. Þegar potturinn var orðinn funheitur kom ég deiginu fyrir í pottinum og bakaði með lokið á í 20 mínútur og svo án loks í aðrar 20 mínútur eða svo.

 

 

Mér fannst brauðið takast nokkuð vel.

 

 

Prófaði að skera í seinni hleifinn, svona kross og bakaði á sama hátt nema þegar ég tók lokið af setti ég 2 ísmola í botninn á ofninum til að búa til gufu og fá þannig meiri lit á skorpuna.

 

 

Brauðin fengu svo að kólna á grind í klukkustund áður en þau voru sneidd niður.

 

 

Uppáhaldsaðferðin mín við að borða nýtt súrdeigsbrauð er með nóg af smjöri.

 

Brauðið var himneskt.


Fantagóðir þorskhnakkar innblásnir frá Austurlöndum fjær með steiktu grænmeti

 

Ég vona að enginn frá Austurlöndum fjær lesi þessa uppskrift því hérna úir og grúir saman hráefni hvaðanæva að. Þarna er að finna eitthvað frá Kóreu og sitthvað frá Indlandi. Það er langt á milli þessara landa en í huga manns, þá er þetta svo skammur vegur. Sérstaklega þegar maður hefur ekki komið þangað. Þá verður bara að duga að ferðast á bragðlaukunum. Þeir geta borið mann hálfa leið umhverfis hnöttinn. 

 

Og þessi uppskrift er gráupplögð til að lífga upp á vikuna. Og svo er hún líka fljótleg. 

 

Fantagóðir þorskhnakkar innblásnir frá Austurlöndum fjær með steiktu grænmeti

 

Þau framandi hráefni sem er að finna í þessari uppskrift er hægt að kaupa í þeim asísku mörkuðum sem er að finna á höfuðborgarsvæðinu. 

 

Hráefnislisti fyrir fimm

 

1 kg þorskhnakkar

4 hvítlaukrif

7 cm engifer 

4 msk jómfrúarolía

3 kaffir lime blöð

1 msk Gochugang (chilipaste)

1 msk siracha sósa

2 msk tómatmauk

1 dós af niðursoðnum tómötum

1 msk papríkuduft

1 msk garam masala duft 

1 kúrbítur

1 haus blómkál

1 bolli edame baunir

1/2 rauð papríka

 

 

 

Fyrsta skrefið er að skera niður hvítlauk og engifer og steikja helminginn í jómfrúarólíu þangað til að eldhúsið ilmar dásamlega.

 

 

Þá er að bæta kaffirlime blöðum saman við og steikja í mínútu í viðbót.

 

 

Þá er að bæta við chilimauki (paste), tómötum og tómatmauki og steikja áfram í mínútu eða svo við lágan hita.

 

 

Lokaskrefið við sósugerðina er að bæta við smá skvettu af sirachasósu. 

 

 

Næst var að huga að fiskinum. Nuddaði hann upp úr jómfrúarolíu og svo var hann kryddaður með blöndu af papríkudufti og garam masala. 

 

 

Fiskurinn var svo steiktur í nokkrar mínútur í jómfrúarolíu. 

 

 

Færði hann svo yfir í eldfast mót og hellti sósunni yfir og bakaði í 15 mínútur í 180 gráðu heitum ofni.

 

 

Seinni helmingurinn af engifernum og hvítlauknum var næst steiktur í jómfrúarolíu.

 

 

Grænmetið var korið niður og steikt á meðan fiskurinn var í ofninum. 

 

 

Með matnum nutum við svo flösku af Ramon Bilbao Sauvignion Blanc frá því 2017. Þetta er ferskt hvítvín sem hefur bragð af sítrusávexti og smá eik í eftirbragðinu. Sómdi sér vel með þessum bragðmikla og bragðgóða rétt. 

 

 

Þetta var sko veisla í miðri viku.

 

Bon appetit!


Ljúffengur lax með sítrónu-hollandaise, með smjörsteiktum sykurbaunum og salati að hætti Valdísar

 

Þessi réttur var á óskalista allra í fjölskyldunni þegar við komum heim af skíðum nýverið. Allir sem einn voru sólgnir í laxinn sem ég var með á boðstólum. 

 

Hollandaisesósa er ein af frönsku móðursósunum. Í flestum matreiðslubókum eru áhugakokkar nánast varaðir við þar sem því er haldið fram að auðvelt sé að skemma sósuna með röngum aðferðum. En ef maður kynnir sér málið, þó ekki nema stuttlega, má finna leiðir til að gera smjörsósur á einfaldan hátt án þess að hleypa eggjunum. 

 

Galdurinn við að fá hnausþykka hollandaise sósu er í raun furðueinfaldur en hún byggir á því að "skíra" smjörið áður en sósan er gerð. Að "skira" smjörið er leið til að hreinsa mjólkur- og undanrennueggjahvítuefnin úr smjörinu en samt halda góða bragðinu. 

 

Ljúffengur lax með sítrónu-hollandaise, með smjörsteiktum sykurbaunum og salati að hætti Valdísar

 

Hráefnalisti fyrir sex

 

1,5 kg laxaflak skorið í 6 jafnstóra bita

sítrónuolía

sítrónusneiðar

salt og pipar

 

Fyrir sósuna

 

2 msk hvítvínsedik

1 msk sítrónusafi

6 eggjarauður

300-350 g smjör

rifinn börkur af hálfri sítrónu

 

Fyrir salatið 

 

1 poki af íslensku salati

1/2 rauð papríka

1 tómatur

1/2 agúrka

1/2 hnúðkálshaus

handfylli graskersfræ

3 msk heimagerð salatdressing (3 hlutar jómfrúarolía, 1 hluti balsamedik, 1/2 hvítlauksrif, 1 tsk dijon, 1/2 tsk hlynsíróp, salt og pipar)

 

Fyrir sykurbaunirnar

 

300 g sykurbaunir

50 g smjör

2 hvítlauksrif

1/2 rauður laukur

salt og pipar

 

 

Að mínu mati hefjast eiginlega allar góðar uppskriftir á smjöri, og þessi uppskrift er sannarlega engin undantekning.

 

 

Skerið smjörið í bita og setjið í pott.

 

 

Látið krauma undan smjörinu í nokkrar sekúndur. Mjólkurpróteinin sökkva til botns en undanrennupróteinin fljóta ofaná.

 

 

Byrjið á því að fleyta undanrennupróteinunum ofan af. Bíðið um stund og leyfið smjörinu að kólna aðeins, þá aðskiljast mjólkurpróteinin betur frá og falla til botns.

 

 

Næsta skref er að hella skýrðu smjörinu í annað ílát. Þrífa pottinn og hella skírðu smjöri aftur í pottinn.

 

Ástæða þess að maður "skírir" smjörið er til að fá þykkari sósu. Það eru nefnilega próteinin í smjörinu sem binda vökvann og þegar maður er laus við þau fær maður mikið þykkari sósu.

 

 

Aðskiljið eggjarauðurnar frá eggjahvítunum. Til eru margar leiðir. Það er alltaf hætta á því að eggjarauðan springi - en það skiptir auðvitað engu máli.

 

 

Setjið edikið og sítrónusafann í pott og sjóðið niður um helming eða svo. Tilgangurinn með þessu skrefi er að þétta bragðið. Þessari blöndu er svo blandað saman við eggjarauðurnar. Það er mikilvægt að þeyta þær vandlega þannig að þær næstum tvöfaldist í rúmmáli.

 

 

Þá bragðbætti ég sósuna með berkinum af hálfri sítrónu sem ég raspaði niður með microplane rifjárni.

 

 

Næsta skref var að hita smjörið aftur og svo bæta því smám saman við eggjarauðurnar. Þannig fær maður hnausþykka sósu sem næstum stendur sjálf. 

 

Skreytti hana svo með ferskri steinselju sem ég hafði skorið smátt. 

 

 

Laxinn var ofureinfaldur. Smurði hann með jómfrúarolíu, saltaði og pipraði og steikti hann í þrjár mínútur með roðið niður á heitri pönnu. Upp úr smjöri auðvitað. 

 

 

Raðaði svo á eldfast mót og lagði nokkrar sítrónusneiðar ofan á og bakaði því næst í ofni í 15-20 mínútur við 180 gráður. 

 

 

Færði svo yfir á disk og bar fram. 

 

 

Sykurbaunirnar voru fljótlegar, enda þurfa þær varla nokkra eldun. Fyrst skárum við lauk og hvítlauk smátt og steiktum upp úr smjöri áður en baununum var bætt samanvið. Steikt í nokkrar mínútur og sett í skál. Saltað og piprað. 

 

 

Frumburðurinn minn, Valdís Eik, fékk að sjá um salatið. Hún skolaði salatið og lagði á disk. Raðaði svo skornu grænmetinu ofan á. 

 

 

Graskersfræin voru ristuð á þurri pönnu áður en þeim var sáldrað yfir salatið. 

 

 

Hún gerði franska salatdressingu fyrir salatið. Þrír hlutar jómfrúarolía á móti einum hlut balsamedik sem var svo bragðbætt með hálfu hvítlauksrifi, einni teskeið dijon, einni og hálfri teskeið hlynsírópi, og svo salti og pipar. 

 

 

Þessu var svo dreift yfir salatið. 

 

 

Með matnum nutum við Mar de Frades Albarino frá Spáni. Vínið kemur frá norðvestur hluta Spánar og liggur að Atlantshafinu. Þetta er dásamlega frískt hvítvín, þurrt með miklum ávexti.

 

 

Þetta var sannkölluð veislumáltið.

 

Verði ykkur að góðu!

 

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Dásamlegt öfugt eldað lambafile á salatbeði með bláberjum og sherrívinagrettu - og með cheddarostsgratíni

 

Íslenskt lambakjöt er dásamlega ljúffengt. Eiginlega alltaf þegar mig langar til að lyfta mér upp dettur mér að elda eitthvað ljúffengt og þá leikur lambakjöt eiginlega alltaf stórt hlutverk. Og þó að íslenskt lambakjöt sé í eiginlegum skilningi ekki villibráð - þá er villikeimur af lambinu þar sem það lifir á íslensku hálendi í nokkra mánuði áður en því er slátrað að hausti. 

 

Og þó mér finnst eiginlega best að langelda til dæmis frampart þá hefur maður ekki alltaf tíma til þess. Þá eru bitar eins lambafilé alveg kjörnir. 

 

Í þessari færslu reyndi ég að herma eftir aðferð sem ég hef áður reynt með nautakjöti, sjá hérna. Svo kallað "reverse sear". Þessi aðferð byggir á því að salta (marinera) kjötið fyrst í 30-60 mínútur. Þá má einnig líta á þetta sem þurran pækil (dry brine). Því næst er kjötið bakað í ofni við 100-110 gráður þangað til að vissu hitastigi er náð, oftast nokkrum gráðum undir því sem fólk óskar eftir. Í lokin er kjötið steikt á pönnu upp úr olíu eða smjöri til að brúna það fallega að utan. 

 

Dásamlegt öfugt eldað lambafile á salatbeði með bláberjum og sherrívinagrettu - og með cheddarostsgratíni

 

Og þó að maturinn hafi heppnast vel, þá fékk ég nokkrar athugasemdir - "hvar er sósan?" Hérna var vinagrettan látin duga. Og kjötið var það mjúkt að ekki þurfti á sósu að halda.

 

Fyrir sex 

 

1400 g af lambafilé

2-3 msk góð jómfrúarolía

góð lambakryddblanda að eigin vali (þessi (Yfir holt og heiðar) gæti komið aftur á markað von bráðar). 

1 msk blóðberg

1 msk salt 

pipar eftir smekk. 

blandað salat (að sjálfsögðu íslenskt)

1/8 haus rauðkál

handfylli ferskt bláber

1/4 agúrka

1 box piccóló tómatar

handfylli ristaðar valhnetur

salt og pipar

 

Fyrir vinagrettuna

 

4 msk góð jómfrúarolía

1 msk sherrý edik

1 msk birkisíróp

1 tsk dijon sinnep

1 hvítlauksrif

salt og pipar

 

1 kg kartöflur

400 ml rjómi

200 g cheddarostur

2 hvítlauksrif

salt og pipar

 

 

 

Það er gaman að segja frá því að kryddblandan sem ég bjó til, Yfir holt og heiðar, kemur aftur á markað, lítillega endurbætt, hjá Kryddhúsinu fljótlega. Þangað til má í raun nota hvaða kryddblöndu sem er - t.d. lambaveisluna frá Kryddhúsinu. Sú blanda er ágætur millileikur. 

 

 

Ég byrjaði á því að nudda olíu, kryddi og svo salti inn í lambakjötið og leyfði því að standa í 30 mínútur.

 

 

Á meðan var að huga að kartöflunum. Sneiddi þær eins þunnt og ég gat. Velti þeim upp úr smá hvítlauksolíu og raðaði í eldfast form. Saltaði og pipraði og hellti rjómanum yfir.

 

 

Ég er hrifinn af þessum osti. Bæði er hann bragðgóður og bráðnar vel - en hann brúnast líka fallega í gratínum. 

 

 

Verið rausnarleg með ostinn! Gratínið er svo bakað í ofni í klukkustund við 180 gráður. Það er ágætt að hafa álpappír yfir fyrstu þrjú korterinn eða svo, annars er hætt við því að osturinn brúnist um of.

 

 

Það er svo í ljómandi lagi að láta gratínið standa úti á borði í 10 mínútur eða svo áður en maður gæðir sér á því. Allir vita hversu heitar kartöflur geta orðið.

 

 

Svo var að gera vinagrettuna. Það er einfalt, bara blanda saman í skál og hræra vandlega saman.

 

 

Ég notaði að sjálfsögðu íslenskt salat sem beð fyrir kjötið. 

 

 

Þegar kjötið hafði náð 46 gráðum í kjarnhita var það tekið úr ofninum og steikt í smjöri og brúnað fallega að utan.

 

Þá var það sneitt í heldur þunnar sneiðar og lagt ofan á salatbeðið ásamt þunnt skornu rauðkáli og kirsuberjatómötum.

 

 

Ég þurrristaði handfylli af valhnetum og muldi yfir. 

 

 

Til að setja punktinn yfir i-ið stráði ég handfylli af bláberjum og rifnu oregano yfir lambið og sáldraði svo vínagrettunni yfir.

 

 

 

 

Með matnum drukkum við flösku af Matua Pinot Noir frá Nýja Sjálandi. Þetta er ljómandi rauðvín, þægilegt, milt Pinot með ávaxtakeim, sem fer afar vel með lambakjöti. 

 

 

Þetta var sérstaklega ljúffeng máltíð!

 

Bon appetit!

 

-------

 

 

 

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband