26.12.2018 | 13:28
Jólaísinn að hætti Vilhjálms Bjarka - með súkkulaðikurli og heimagerðri jarðaberjasultu
Ég vaknaði upp á aðfangadagsmorgun og áttaði mig á því að ég hafði gleymt að gera ísinn fyrir aðfangadagsmáltíðina. Það er auðvitað engin sérstök katastrófa, það er alltaf hægt að kaupa ís út í búð og redda sér fyrir horn. Og allt stefndi í slíka lausn. Sem eru pínu vonbrigði, ég hef jú lagt dálítinn metnað undanfarin ár, í að prófa mig áfram í ísgerðinni. En eftir smá skraf og ráðagerðir var lagt í að reyna - þó að það stæði á tæpasta vaði að ná þessu. Vilhjálmur Bjarki, sonur minn og miðjubarn, var kominn með uppskrift sem hann langaði að prófa.
Og það vantaði ekki metnaðinn, súkkulaðikurl og svo heimagerð jarðaberjasulta. Það var því lítið annað að gera en að bretta upp ermar.
Jólaísinn að hætti Vilhjálms Bjarka - með súkkulaðikurli og heimagerðri jarbaberjasultu
Að gera ís er í raun sáraeinfalt. Bara að fylgja þessum einföldu skrefum.
Fyrir ísinn
4 egg
100 g sykur
1 vanillustöng
500 g rjómi
Fyrir sultuna
250 g jarðaber
75 g sykur
safi úr hálfri sítrónu
Kurlið:
1 plata af rjómasúkkulaði
Fyrsta skrefið er að aðskilja eggjarauðurnar frá eggjahvítunum.
Næst er að þeyta eggjarauðurnar saman við sykurinn.
Svo er eggjablandan bragðbætt með vanillufræjum. Næst er að þeyta eggjahvíturnar og blanda varlega saman við þeyttan rjóma. Væri ferlið stöðvað þarna væri maður kominn með dásamlegan vanilluís. En Villi vildi sko halda áfram.
Næst var að huga að jarðaberjunum. Villi sneiddi þau niður í fjórðunga.
Svo setti hann berin í pott, ásamt sykri og smá vatnsskvettu og sítrónusafa og sauð upp. Blandan fékk að sjóða niður við lágan hita í 10-15 mínútur, þar til jarðaberin voru orðin flauelsmjúk.
Svo var að hakka niður súkkulaðið.
Það vantar sko ekki einbeitingarsvipinn á þennan unga myndarmann. Svo blandaði hann súkkulaðikurlinu saman við vanilluísinn.
Svo var ísblöndunni komið fyrir í kaldri Kitchenaid ísgerðarskál. Þetta skref er í raun ekki nauðsynlegt en gerir það að verkum að ísinn frosnar í minni kristöllum og áferðin verður mýkri heldur en hann fær þegar hann er settur beint í frystinn.
Þegar berin voru orðin mjúk stappaði hann þau niður í fallega og ljúffenga sultu og gæddi sér á jarðaberjum samtímis.
Svo setti hann helminginn af ísnum í botninn á formi og setti svo sultu nokkuð jafnt yfir og svo annað lag af ís yfir.
Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var stoltur! Og hann var líka nokkuð sáttur við verkið.
Og þetta hafðist. Um kvöldið hafði ísinn náð að frjósa og var ótrúlega ljúffengur.
Og með heimagerðri súkkulaðisósu. Þetta var sko punkturinn yfir i-ið!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2018 | 18:31
Himneskt hvítt hreindýraragú með penne pasta og heimagerðu hvítlauksbrauði með einföldu vínberjasalati
Maður gleymir því eiginlega á milli ára hvað það er dimmt í desember. Sólin lætur ekki sjá sig fyrr en undir hádegi og hverfur áður en að vinnudegi lýkur. Fyrir marga er myrkrið ansi þrúgandi og þá skiptir máli að reyna að létta sér lífið eitthvað. Sem betur fer býður desember upp á heilmikið af uppákomum sem geta létt manni lundina. Margir hittast í jólaglögg, en okkur hjónunum var einmitt boðið í eina slíka til Arnfríðar og Guðmundar, vina okkar. Þar var margt um manninn og mikil gleði.
Dagurinn í gær var líka ansi eftirminnilegur, en þá söng jólakórinn okkar á tvennum tónleikum. Síðan í október höfum við nokkur saman hist og sungið jólalög undir mildri en faglegri stjórn Hildigunnar Einarsdóttir söngdívu. Forsprakki hópsins, Eyrún Baldursdóttir, fékk þá hugmynd fyrir nokkrum árum síðan, að stofna jólakór og að sá kór ætti að syngja fyrir sjúklinga Landakotsspítala. Í gær gerðum við það, og gott betur því við tróðum líka upp á Líknardeild spítalans. Þetta hefur verið sannarlega ánægjuleg helgi.
Auk þess að hitta vini og ættingja og syngja og gleðjast þá má líka létta sér lundina með því að njóta ljúffengs matar og drykkjar. Sumar uppskriftir eru hreinlega betur til þess fallnar en aðrar að létta manni lundina í svartasta skammdeginu. Þessi kemur klárlega til álita sem meðferð við vetrarrökkrinu.
Himneskt hvítt hreindýraragú með penne pasta og einföldu ostahvítlauksbrauði
Það eru margir sem eru svo heppnir að eiga hreindýrahakk í frystinum en fyrir þá sem ekki eiga slíkt má vel nota nautahakk.
Hráefnalisti fyrir sex
500 g hreindýrahakk
hálfur rauður laukur
1 sellerístöng
1 gulrót
2 hvítlauksrif
250 ml hvítvín
3 lárviðarlauf
vöndull af ferskum kryddjurtum (rósmarín, timjan, steinselja)
1 stór pakki rjómaostur
150 ml rjómi
3 msk Worcherstershiresósa
250 ml vatn
1 msk villikraftur
Nóg af parmaosti
salt og pipar
600 g penne pasta
ríkulega saltað vatn
blönduð salatlauf
1/2 rauð papríka
1/2 gul papríka
200 g vínber
6 brauðsneiðar
Smjör
hvítlauksduft
Rifinn ostur
Eins og allir góðir pottréttir eða súpur þá byrjar maður á sama máta - með þrenndinni, mirepoix, sem er laukur, sellerí og gulrót - nema ég bæti alltaf við hvítlauk þar sem ég er forfallinn hvítlauksfíkill.
Svo er grænmetið steikt upp úr olíu eða smjöri þangað til að það er orðið mjúkt og farið að ilma dásamlega. Saltið og piprið. Svo er það tekið til hliðar.
Næst er svo að brúna hakkið þar til að hefur tekið á sig lit. Þá er grænmetinu bætt saman við ásamt nokkrum lárviðarlaufum og þetta steikt saman í nokkrar mínútur.
Næst er að bæta við víninu - suðunni hleypt upp og svo látið sjóða niður þangað til að lítið sem ekkert er eftir af vökva í kássunni.
Svo setti ég vatn og kraft og sauð áfram í 10-15 mínútur.
Svo var kássan bragðbætt með því að láta þennan fallega kryddvönd sjóða með nokkra stund.
Þar á eftir setti ég heila öskju af rjómaosti. Þessi uppskrift er ekkert léttmeti - og til að tryggja að ég gengi yfir öll velsæmismörk þá setti ég líka smá rjóma.
Svo fékk ragú-ið að krauma í þrjúkorter eða svo við lágan hita. Smakkað til með salti, pipar og Worchestershire sósu.
Sauð pasta í nóg af söltuðu vatni.
Þegar pastað var tilbúið var vatninu hellt frá og ragúinu blandað saman við. Raspaði svo heil ósköp af parmaosti við pastað.
Færði svo pastað yfir á disk, og sáldrði smáræði af steinselju yfir.
Kristján Kristjánsson, leikstjóri og meðframleiðandi minn, kom í mat og hann fékk hlutverkið að útbúa salat sem varð afar ljúffengt; með grænum laufum, gulri papríku, tómötum og vínberjum.
Með matnum nutum við svo þessa ljúffenga víns, Sasso Al Poggio, sem er framleitt í Toscana. Framleiðandann hef ég heimsótt og meira að segja snætt hádegisverð úti á vínökrunum þar sem þessar þrúgur vaxa. Þetta er oft kallað Super-Toscana vín - blanda úr Sangiovese þrúgunni og svo Cabernet og Merlot. Þetta er "stórt" vín - pakkað af ilmi og bragði - ávöxtur, pínu sultað - smá lakkrískeimur. Dásamlegur sopi.
Með matnum útbjuggum við einnig einfalt hvítlauksbrauð. Smurðum brauðsneiðar með smjöri, hvítlauksdufti og röspuðum svo Ísbúa óðalsost yfir.
Þessi matur var hreinasta sælgæti.
Svartnættið í desember er auðsigrað með svona veislumat!
9.12.2018 | 19:45
Maturinn sem hóf þetta allt: Dásamlegt Spaghetti Carbonara með foccacia með kirsuberjatómötum, ólívum og hvítlauk
Ég hef oft greint frá því að það var þessi réttur sem var kveikjan að blogginu mínu. Það er ekki löng saga að segja frá því. Rétturinn var lengi vel í algeru uppáhaldi hjá mér og það var orðið þannig að þegar, að loknum annasömum degi, að ég var spurður hvað ætti að vera í matinn, þá svaraði ég ávallt "Spaghetti Carbonara". Ekki slæm uppástunga, rétturinn er jú fljótlegur og verður tilbúinn nokkurn veginn á sama tíma og það tekur pastað að sjóða í pottinum. Sem hentar vel að loknum krefjandi degi, ekki satt?
Og niðurstaðan er ótrúlega ljúffeng þegar vel tekst til. Beikon, egg, parmaostur, pipar og spaghetti. Þetta getur eiginlega ekki geigað. En það er þó magnað, að sama hversu oft ég hef eldað þennan rétt þá verður hann eiginlega aldrei alveg eins! Fyrir því eru margar ástæður; mismunandi beikon, ostur, en líklega er mikilvægasta skýringin sú hvernig eggin eru elduð. Hitinn frá soðnu Spaghetti-inu er það sem eldar eggin og séu það of heitt þá verður til eggjahræra. Við rétt hitastig umbreytast eggin í silkimjúka sósu sem hjúpar spaghetti-ið og verður ævintýrilega ljúffengt - umami sprengja!
En það skýrir sennilega ekki hvernig bloggið varð til. Það var sumsé þannig að mér fannst ég vera að grípa til Spaghetti Carbonara einum of oft og fannst eins og mig vantaði einhvern innblástur, mögulega smá ögrun í eldhúsinu. Eitthvað sem fengi mig til að reyna að prófa að elda nýja og spennandi rétti. Og þá datt mér í hug að halda dagbók á netinu, í formi bloggs. Og þannig varð bloggið mitt til. Þann 9. desember 2006 byrjaði ég að blogga. Og ekki var fyrsta færslan merkileg - engar myndir - en uppskriftin déskoti góð, þó að ég segi sjálfur frá!
Því er fleygt að í upphafi skuli endinn skoða - en ég get ekki sagt að ég hafi gert það þegar ég byrjaði að blogga! Ekki hafði ég ímyndað mér í eina mínútu að tólf árum síðar hefði ég verið búinn að blogga rúmlega 800 færslur um mat og vín með á annað þúsund uppskriftum, gefið út fjórar matreiðslubækur, komið fram í tugum matreiðsluþátta og væri meira að segja byrjaður að framleiða slíka þætti sjálfur. Aldrei hvarlaði að það mér. Það er óendanlega ánægjulegt að hugsa um þetta skemmtilega ferðalag og alla þá gleði sem það hefur fært mér. Fyrir það er ég sérstaklega þakklátur!
Maturinn sem hóf þetta allt: Dásamlegt Spaghetti Carbonara með foccacia með kirsuberjatómötum og ólívum.
Það eru margar sögur á bak við þennan ljúffenga rétt. Fólk virðist nokkuð einhuga um að hann eigi rætur að rekja til Rómar og svæðanna þar í kring. Sumir halda því fram að hann hafi fyrst verið eldaður í Appenine fjöllunum sem liggja austan við Róm. Aðrir benda á nafnið alla carbonara - "að hætti kolanámumannsins" og að piparinn sem sáldrað er yfir eigi að minna á kolarykið. Þá segja sumir að rétturinn hafi orðið til í undir lok seinni heimstyrjaldarinnar þegar Bandaríkjamenn höfðu tekið Róm. Þeir munu hafa skaffað innfæddum egg og beikon og Ítalirnir snarað þessu fram. En hver svo sem tilurðin var - þá er rétturinn ljúffengur.
Hráefnalisti fyrir sex
600g Spaghetti
300 g beikon
6 egg (þá má bæta við eggjarauðum vilji maður hafa sósuna enn "ríkulegri")
100 g parmaostur
salt og nóg af pipar
500 gr hveiti
30 gr salt
3 msk jómfrúarolía
300 ml vatn
15-20 gr ger
30 gr sykur
1 pakki kirsuberjatómatar
handfylli grænar ólívur
handfylli svartar kalamata ólívur
nokkur hvítlauksrif
salt og pipar
500 gr af hveiti er sett í skál með 30 gr af salti og 3 msk af jómfrúarolíu. Svo er 300 ml af ylvolgu vatni blandað saman við 15-20 gr af geri og 30 gr af sykri. Gerinu er svo leyft að vakna í vatninu, sem sést best á því að lögurinn freyðir hressilega.
Þegar gervatnið er tilbúið er því blandað hægt og rólega saman við hveitið og hnoðað vandlega í u.þ.b. 10 mínútur, þar til verður að mjúkum deighnetti. Deiginu er svo leyft að hefast í 1-2 klukkustundir háð því hvað tíminn leyfir.
Þegar deigið er búið að hefast vel er það lamið niður og flatt vel út. Hvítlauksolía eða bara jómfrúarolía er sett í ofnskúffu og dreift vel í alla króka og kima. Svo er deigið lagt á ofnskúffuna og aðlöguð þannig að hún fyllir nokkurn veginn út í skúffuna.
Síðan bjó ég til hóla, grópir og dali með fingrunum og hellti yfir meiri olíu/hvítlauksolíu. Ólívum og tómötum var bætt ofan á og þrýst niður í deigið. Síðan dreifði ég handfylli af fersku rósmaríni og timiani yfir og að lokum nóg af salti og pipar. Setti síðan yfirbreiðu yfir á nýjan leik og lét hefast aftur í þrjú korter. Þegar deigið hefast í annað sinn drekkur það í sig hluta olíunnar - og gefur brauðinu sitt einkennandi bragð og áferð!
Svo var bara að baka brauðið í 200 gráðu heitum ofni í 20 mínútur. Að lokum skreytti ég brauðið með fersku basil sem ég hafði skorið niður í strimla.
Næsta skref var svo að skera beikonið niður í smáa bita og sem ég steikti við miðlungshita þangað til að þeir voru orðnir stökkir.
Væri maður að gera beikon algerlega að forskrift rómverja myndi maður nota Guanciale sem er framleitt úr grísakinn og ekki reykt eins og gert er við venjulegt beikon. En það er ekki auðvelt að nálgast það, því er ver og miður.
Þegar maður gerir alvöru Carbonara þá notar maður alla beikonfituna.
Nóg af eggjum, í skál.
Fullt af parmaosti.
Nóg af pipar.
Og svo hræra.
Takið eftir að það er engin rjómi. Samkvæmt ítölskum reglum á aldrei, ég endurtek - aldrei, að nota rjóma. Slíkt er eiginlega dauðasynd!
Almennt er talað um að 100 g af pasta dugi fyrir manninn. Og það er það svo sannarlega rétt þegar þessi réttur er annars vegar, þar sem hann er einkar seðjandi.
Það á ekki að brjóta pastað. Og það á að sjóða það í ríkulega söltu vatni - nóg af vatni. Sumir segja einn líter fyrir hver 100 grömm af pasta.
Hérna kemur svo flóknasti hluti eldamennskunnar. Það er að hafa snarar hendur. Hella vatninu af pastanu frá, færa það yfir í stóran disk eða skál og blanda beikoninu og eggjablöndunni saman við.
Svo þarf að hræra eggjasósuna vandlega saman við þannig að spaghettí-ið hjúpist vandlega af sósunni og að hún eldist í varmanum sem kemur af heitu pastanu.
Auðvitað er það punkturinn yfir i-ið að gæða sér á góðu víni með matnum. Masi Brolo Campofiorin Oro passar ljómandi vel með Carbonara. Þetta vín er frábrugðið hefðbundnu Campofiorin að því leyti að í þessu víni er Oseleta þrúgan notuð sem er talin hafa verið mikið notuð í vín á tímum Rómverja en hefur verið nærri óþekkt síðan. Eigandi Masi, Sandro Boscaini, sem við hittum í fyrra í Veróna, sagði okkur söguna af því þegar hann fann fyrir tilviljun fjóra slíka vínviði hjá vínbónda í Valpollicella. Hann hefur síðan þá lagt sig eftir að endurvekja ræktun þrúgunnar og varðveitt hana og hann notar hana í vínin sem þau framleiða. Vínið er alltént afar ljúffengt - kraftmikið með miklum og breiðum ávexti sem er í fínu jafnvægi og með löngu og mjúku eftirbragði.
Bon appetit!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
2.12.2018 | 18:50
Fullveldiskvöldverður - kryddhjúpað lambaprime með snöggri portobellosveppasósu og litríkum appelsínubættum gulrótum
Fullveldisdagurinn var í gær eins og flestir Íslendingar hafa nú án efa tekið eftir. Margir brugðu sér niður í bæ, hvort sem heldur til að mótmæla eða til að taka þátt í hátíðarhöldunum og létu ekki nístíngskuldann aftra sér. Ég gat því miður tekið þátt í hvorugu þar sem ég stóð vaktina á Landspítalanum þessa helgi. Það hefur verið nokkuð spennuþrungin stemming á spítalanum í aðdraganda að lokun Hjartagáttarinnar. Það er erfitt að spá um hvernig fer - en ljóst er að álagið á sjúkrahúsinu er ekkert að leysast enda gera ráðamenn lítið til að greiða úr þessum vandræðum.
Og þá sérstaklega þegar maður finnur fyrir álagi í kringum sig er gott að koma heim og gleyma sér í eldhúsinu. Um helgar ver ég oft löngum tíma í eldhúsinu, það er, jú, mitt uppáhaldsherbergi og þar kann ég svo vel við mig. En þegar maður er á vakt verður maður að aðlaga sig að því. Þessi uppskrift var því nokkuð viðeigandi þar sem hún var snöggelduð - svona miðað við laugardagsmáltíð á fullveldisdeginum.
Fullveldismaturinn - kryddhjúpað lambaprime með snöggri portobellosveppasósu og litríkum appelsínubættum gulrótum
Íslensku hráefni var eins og svo oft áður gert hátt undir höfði, ef ekki í dag, hvenær þá?
Fyrir fjóra
1 kg lambaprime
2 msk kryddblanda (t.d. rósmarín, timjan, blóðberg)
1 msk jómfrúarolía
birkireykt salt
pipar
300 g regnbogagulrætur
safi úr heillri appelsínu
börkur af hálfri appelsínu
2 msk hlynsíróp
50 g smjör
salt og pipar
250 g portobellosveppir
1/2 rauðlaukur
1 hvítlauksrif
1 dós sýrður rjómi
50 ml rjómi
1 msk tómatpúre
1 tsk djion sinnep
salt og pipar
Þessar gulrætur gleðja mig sérstaklega. Það er gaman að sjá að nú er hægt að kaupa íslenskar regnbogagulrætur.
Byrjið á að flysja gulræturnar.
Svo skar ég börkinn af hálfri appelsínu og saxaði smátt. Dreifði berkinum yfir allar gulræturnar.
Næst var að setja safa úr heilli appelsínu, skvettu af jómfrúarolíu, síróp og svo salt og pipar. Leyfði gulrótunum að marinerast í 10 mínútur eða svo.
Bræddi svo smjörklípu á pönnu og steikti gulræturnar í 10 mínútur áður en ég færði þær í eldfast mót og bakaði í 30 mínútur í 180 gráðu heitum ofni.
Það er skemmtilegt að hafa þetta fjölbreytt.
Næst var það lambið. Nuddaði það með jómfrúarolíu. Svo útbjó ég kryddblöndu með heilmiklu af rósmaríni, blóðbergi, timjan, oregano, og lítilræði af hvítlauksdufti. Nuddaði kryddinu einnig inn í kjötið.
Svo saltaði ég með birkireyktu salti og pipar. Lét standa í um 10 mínútur eða svo til að marinerast fyrir steikingu. Kryddið fær því dálítinn tíma til að setja mark sitt á kjötið. Það hefði að sjálfsögðu ekki verið óskynsamlegt að marinera kjötið lengur.
Bræddi svo smjör á pönnu og brúniði lambið að utan á hverri hlið. Setti svo hitamæli í kjötið og setti í 160 gráðu heitan ofn.
Á meðan var hugað að sósunni. Skar sveppina, rauðlaukinn og hvítlaukinn vandlega.
Laukurinn og sveppirnir voru steiktir í smjöri í nokkrar mínútur áður en hvítlauknum var bætt saman við. Steikt svo áfram í nokkrar mínútur til viðbótar við miðlungshita. Gætið að því brenna ekki hvítlaukinn. Saltið og piprið.
Setti næst eitt rauðvínsglas sem var svo soðið niður um 3/4. Bætti næst við 1 msk af fljótandi lambakrafti.
Næsta skref var að bæta sýrðum rjóma, rjóma, tómatpúre og dijon út í sósuna. Smakkað til með salti og pipar.
Með matnum opnuðum við rauðvín frá Languedoc-Roussillon sem er eitt af vínræktarhérðum Frakklands. Þetta er La Baume la Jeunesse Syrah 2015. Þetta er vín sem ég hef smakkað áður þannig að ég vissi að hverju ég gekk. Þessi árgangur er ljúffengur - mikið ávaxtabragð í góðu jafnvægi, sumpart pínu sultað og með mjúku eftirbragði.
Þetta var nokkuð snöggelduð veislumáltið á fullveldisdaginn.
En hún var sannarlega veislumáltið!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
25.11.2018 | 11:22
Seiðandi andabringuragú frá grunni með bucatini og parmaosti - heimsótt aftur - með breytingum þó!
Þessi uppskrift er í raun upprifjun á rétti sem ég eldaði fyrir meira en ári þegar ég var á ferðalagi um Ítalíu við tökur á fyrstu þáttunum í sjónvarpsþáttunum sem nú hafa fengið nafnið Læknirinn í Eldhúsinu, ferðalag bragðlaukanna. Ég tók samt smá snúning á hana þar sem ég var eiginlega að elda hana í fyrsta sinn heima, eftir að hafa fengið kennslu frá Raffaele Boscaini, syni Sandro Boscaini víngerðamanni og eiganda Masi í Valpolicella á Ítalíu.
Ég var að taka til í frystinum mínum og fann þar nokkrar andabringur frá því fyrr á árinu sem höfðu grafist undir öðru hráefni. Það var því kjörið að heimsækja þessa uppskrift á nýjan leik.
Seiðandi andabringuragú frá grunni með bucatini og parmaosti - heimsótt aftur
Snúningurinn var kannski ekki allan hringinn, kannski bara nokkrar gráður. En þessi uppskrift er það ljúffeng að það er þess virði að gefa henni gaum aftur. Nokkrun atriðum var breytt; annað pasta, annað vín, annað soð, gleymdi kartöflumjölinu og svo útbjó ég andafitu, aðeins nánar um það hér að neðan.
Fyrir fjóra
500 g andakjöt (af bringu eða legg)
1 gulrót
1 sellerístöng
1 lítill rauður laukur
2 hvítlauksrif
2 msk tómatpúré
2 dósir niðursoðnir tómatar
2 lárviðarlauf
1 rósmaríngrein
1 glas rauðvín
250 ml kjúklingasoð
heimagerð andarfita til steikingar
salt og pipar
Andabringur eru auðvitað algert sælgæti og einhver myndi kannski dæsa yfir meðferðinni sem hún fær í þessari uppskrift. En efasemdamenn hvet ég til að prófa.
Það er mikil fita í húðinni á bringunni. Hana skar ég frá og sneiddi í litla bita.
Ég hellti einni eða tveimur msk af jómfrúarolíu í pott og hitaði rólega upp. Lagði síðan húðina í pottinn og eldaði í um 45 mínútur við lágan hita þannig að fitan rann úr húðinni.
Fékk um 150 ml af fitu úr þessum þremur andabringum, hluta notaði ég í uppskriftina og afganginn á ég til betri tíma, til dæmis til að gera bestu kartöflur í heiminum!
Næst var að skera gulræturnar, rauðlaukinn og selleríið í litla bita.
Svo var ekkert annað að gera en að nota fínu andafituna mína.
Grænmetið var steikt þangað til að það var mjúkt og ilmandi. Saltað og piprað.
Hakkaði andabringurnar vandlega niður.
Og brúnaði kjötið svo í andafitunni, ekki allt í einu - handfylli í senn. Ef það er of mikið kjöt í pottinum þá sýður þaðð frekar en að brúnast.
Bætti svo grænmetinu saman við.
Ég átti afgang af þessu ljúffenga rauðvíni og notaði það í sósuna.
Setti svo tómatana saman við auk tómatmauks.
Svo setti ég nokkrar greinar af fersku timian og rósmaríni og það fékk að krauma með í um klukkustund. Svo voru greinarnar veiddar frá áður en að maturinn var borinn fram.
Sjóðið pasta skv. leiðbeiningum. Auðvitað má nota hvaða pasta sem er en þetta finnst mér vera ljómandi gott. Bucatini er frábrugið spaghetti að því leytinu til að það er aðeins þykkara og holt að innan. Þannig hefur það sérstaka burði til að láta hjúpast af sósunni.
Svo er bara að tylla sér við matarborðið og bjóða öðrum með. Sonur minn, Vilhjálmur vill alltaf mikinn parmaost, eiginlega þannig að það sést varla í pastað undir. Hann verður sælkeri!
Þetta vín er alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég tel mig bera einhverja ábyrgð á því að það hafi verið flutt inn í fyrra. Við vorum í ferð um Ítalíu við tökur á fyrstu þáttunum af Ferðalagi bragðlaukanna. Ég fékk að gæða mér á þessu víni þegar við vorum í heimsókn hjá Masi (að sjálfsögðu) í Veróna. Þetta vín er framleitt í Argentínu og er blanda úr Corvina þrúgunni (sem er í öllum Valpollicella vínum) og svo Malbec (sem er vinsælasta þrúgan í Argentínskum vínum). Blandan er einkar góð. Þetta er kraftmikið vín sem fer vel með bragðmiklum mat eins og þessum. Það er bragðmikið, kryddað, eikað - í góðu jafnvægi og með löngu hreinu eftirbragði.
Bon appetit!
18.11.2018 | 10:32
Ótrúlega góður hreindýra-Wallenbergari með kartöflumús, blönduðum baunum í skírðu smjöri og ferskum rifsberjum
Snemma haust fara margir veiðimenn á stúfana austur á firði til að skjóta hreindýr. Ég fór fyrir mörgum árum síðan kollega mínum, Bergþóri Björnsyni, sem á rætur að rekja til Vopnafjarðar. Það var sannarlega eftirminnileg ferð. Bergþór skaut dýrið en við áttum það saman svo hálfur skokkur féll í minn hlut. Hreindýrakjöt er ævintýralega gott sé það eldað rétt og margir bera það fram á hátíðardögum, eins og á jólunum eða á áramótunum. Þegar hreindýr er fellt verða ekki til einvörðungu hátíðarbitar, talsvert af kjötinu er hakkað og er þá notað meira hvunndags. En það er svo sannarlega hægt að elda stórkostlega máltíð úr hreindýrahakki. Þetta er eitt dæmi um slíkt.
Fyrir þá sem ekki hafa aðgang að hreindýrahakki má vel gera ljúffenga Wallenbergara úr nautahakki eða kálfahakki (eins og kveður á í upprunalegu uppskriftinni).
Wallenbergare - heitir eftir sænskum herramanni Marcus Wallenberg. Tvennum sögum fer af því hvernig þessi réttur varð til. Einhver vill halda því fram að yfirkokkurinn á veitingastaðnum Cecil í Stokkhólmi hafi töfrað fram réttinn á þriðja áratug síðustu aldar. En svo vilja aðrir halda því fram að eiginkona Marcusar, Amalía, eigi allan heiðurinn. Því kýs ég að trúa. Svo mat býr maður til af öllu hjarta.
Ótrúlega góður hreindýra-Wallenbergari með kartöflumús, blönduðum baunum í skírðu smjöri og ferskum rifsberjum
Hráefnalisti fyrir sex
1 kg hreindýrahakk
5 eggjarauður
250 ml rjómi
Villibráðakryddblanda
nokkur einiber
svört, græn og rauð piparkorn
salt
heimagerð brauðmylsna
150 g grænar baunir
150 g edamame baunir
400 g smjör - skírt
1 kg kartöflur
100 ml rjómi
100 g smjör
salt og pipar
nokkrar greinar rifsber
Komið hakkinu fyrir í skúffu eða skál.
Blandið kryddblöndunni saman við. Ég átti afgang frá þeirri sem ég vann með Kryddhúsinu í fyrra, en hún fæst ekki lengur. Það er þó vandræðalaust að nálgast eitthvað viðlíka hjá þeim ennþá eða bara kryddblöndu að eigin vali.
Svo muldi ég einiber og pipar í mortéli og blandaði saman við ásamt salti.
Setti svo kjötið í hrærivél og blandaði vel saman við eggjarauðurnar.
Og svo 2/3 af rjómanum.
Svo blandaði ég restinni af rjómanum saman við með sleif. Eftir lestur á netinu er það gert til að forðast að kjötbollurnar verði gúmmíkenndar. Ég ákvað jafnframt að blanda deigið ekki alveg þangað til að það væri eins og kjötfars eins og uppskriftir gera ráð fyrir. Það er gaman að hafa áferð á matnum. Sér í lagi þar sem maður er að vinna með flott hráefni eins og hreindýr.
Svo var bara eftir að móta bollurnar - í heldur stóra pökka og hjúpa þá með brauðmylsnu.
Næsta skref er að brúna bollurnar að utan heitu smjöri.
í
Raðaði þeim í ofnskúffu og bakaði í ofni þangað til að kjarnhiti náði um 70 gráðum.
Næst var að sjóða baunir í ríkulega söltu vatni. Hella svo vatninu frá og setja aftur í pottinn.
Því næst hellti ég skírðu smjöri saman við og hitaði upp.
Skírt smjör er gert með því að hita smjör í potti þannig að það bráðnar alveg. Undanrennupróteinin fljóta upp en mjólkurpróteinin sökkva til botns. Þeim sem fljóta upp er skafið ofan af og svo er smjörinu hellt ofan af þeim sem hafa sokkið til botns.
Kartöflumúsin var einföld. Flysjaðar kartöflur eru soðnar í ríkulega söltu vatni. Svo var smjörinu og rjómanum blandað saman við og svo saltað og piprað eftir smekk. Það má bæta meira smjöri saman við - mun meira sé maður í stuði!
Með matnum drukkum við þetta dásemdar vín - Villa al Cortile Brunello di Montalcino frá 2013. Ég hef heimsótt þennan framleiðenda og fengið að smakka það allt frá því að það var ávaxtasafi og svo hvern árgang á tunnu þangað til að það var sett á flösku. Ég hef áður smakkað 2012 árganginn og hann var ekki síður ljúffengur. Þetta vín er einkar ávaxtaríkt, með djúpum ilmi og bragði og sterkum jarðartónum og löngu eftirbragði.
Maturinn heppnaðist dásamlega.
Ég hvet ykkur til að prófa. Smjöraðri máltið er erfitt að finna!
18.11.2018 | 10:31
Ljúffengir ofnbakaðir kartöflustaflar með hvítlauksolíu og 12 mánaða svörtum Tind úr Skagafirði
Það er morgunljóst að kartöflur og ostur passa ótrúlega vel saman (reyndar passa kartöflur líka rosalega vel með rjóma og smjöri). Nýverið kom frétt á vegginn minn á Facebook að það væri verið að setja á markað nýjan íslenskan ost. Kannski ekki alveg nýjan - um er að ræða ostinn Tind, sem er óðalsostur sem fær þroskast í 12 mánuði, umlukinn svörtu vaxi. Með því að láta ostinn þroskast lengur dýpkar bragðið heilmikið og tekur á sig annan tón.
Mér finnst sérstaklega gaman að nota svona osta í matargerð. Ég komst á bragðið með þetta þegar ég bjó í Svíþjóð. Þar kynntist ég osti - Västerbotten - sem mér finnst mjög ljúffengur og finnst gott að nota, t.d. í gratín. Hann fær einmitt að þroskast í nokkra mánuði eins og Tindur - sem er líka þeim kostum gæddur að bráðna vel.
Faðir minn á heiðurinn af þessari uppskrift - en hann er mikill unnandi kartaflna, eiginlega sama hvernig þær eru eldaðar. En þegar maður veltir þeim upp úr hvítlauksolíu og osti - þá er maður að miða á stjörnurnar.
Ljúffengir ofnbakaðir kartöflustaflar með hvítlauksolíu og 12 mánaða svörtum Tind úr Skagafirði
Fyrir sex
500 g kartöflur
6 msk hvítlauksolía
200 g svartur Tindur (eða Tindur, Búri eða t.d. Cheddar)
salt og pipar
timjan til skrauts.
Þetta er auðvitað sára einföld uppskrift - en það er oft þannig - einfalt og sérlega ljúfengt.
Ostinn nálgaðist ég í Ostabúðinni á Skólavörðustígnum. En mér skilst að hann komi ekki í almenna sölu fyrir en eftir áramótin. Fram að þeim tíma má að sjálfsögðu nota venjulegan Tind - hann gefur þessum ekkert eftir þó svo hin svarti hafi aðeins dýpri karakter. Þá má að sjálfsögðu líka prófa Búra eða cheddar. Það myndi án efa slá í gegn þar sem allir þessir ostar eiga það sameiginlegt að bráðna vel!
Skerið kartöflurnar niður heldur þunnt. Auðvitað má gera það með mandólíni - en það breytir í raun ekki miklu.
Kartöflunum er svo velt upp úr hvítlauksolíu. Saltað og piprað.
Svo er það aðaleikarinn. Þetta er fantagóður ostur - bragðmikill en mjúkur á bragðið.
Svo er bara setja fallega svuntu á föður sinn og fá hann til að saxa ostinn í smáa bita.
Svo er bara að raða upp kartöfluskífunum upp, gæta sína að dreifa ostinum á milli laga.
Aðalmálið er að láta kartöflustaflana halda jafnvægi. Skreyta með timjan.
Svo er bara að baka kartöflurnar í þrjú kortér við 180 gráðu hita.
Svo er lítið að annað að gera en að gæða sér á þessu sælgæti!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
17.11.2018 | 11:27
Ljúffengir ofnbakaðir kartöflustaflar með hvítlauksolíu og 12 mánaða svörtum Tind úr Skagafirði
Það er morgunljóst að kartöflur og ostur passa ótrúlega vel saman (reyndar passa kartöflur líka rosalega vel með rjóma og smjöri). Nýverið kom frétt á vegginn minn á Facebook að það væri verið að setja á markað nýjan íslenskan ost. Kannski ekki alveg nýjan - um er að ræða ostinn Tind, sem er óðalsostur sem fær þroskast í 12 mánuði, umlukinn svörtu vaxi. Með því að láta ostinn þroskast lengur dýpkar bragðið heilmikið og tekur á sig annan tón.
Mér finnst sérstaklega gaman að nota svona osta í matargerð. Ég komst á bragðið með þetta þegar ég bjó í Svíþjóð. Þar kynntist ég osti - Västerbotten - sem mér finnst mjög ljúffengur og finnst gott að nota, t.d. í gratín. Hann fær einmitt að þroskast í nokkra mánuði eins og Tindur - sem er líka þeim kostum gæddur að bráðna vel.
Faðir minn á heiðurinn af þessari uppskrift - en hann er mikill unnandi kartaflna, eiginlega sama hvernig þær eru eldaðar. En þegar maður veltir þeim upp úr hvítlauksolíu og osti - þá er maður að miða á stjörnurnar.
Ljúffengir ofnbakaðir kartöflustaflar með hvítlauksolíu og 12 mánaða svörtum Tind úr Skagafirði
Fyrir sex
500 g kartöflur
6 msk hvítlauksolía
200 g svartur Tindur (eða Tindur, Búri eða t.d. Cheddar)
salt og pipar
timjan til skrauts.
Þetta er auðvitað sára einföld uppskrift - en það er oft þannig - einfalt og sérlega ljúfengt.
Ostinn nálgaðist ég í Ostabúðinni á Skólavörðustígnum. En mér skilst að hann komi ekki í almenna sölu fyrir en eftir áramótin. Fram að þeim tíma má að sjálfsögðu nota venjulegan Tind - hann gefur þessum ekkert eftir þó svo hin svarti hafi aðeins dýpri karakter. Þá má að sjálfsögðu líka prófa Búra eða cheddar. Það myndi án efa slá í gegn þar sem allir þessir ostar eiga það sameiginlegt að bráðna vel!
Skerið kartöflurnar niður heldur þunnt. Auðvitað má gera það með mandólíni - en það breytir í raun ekki miklu.
Kartöflunum er svo velt upp úr hvítlauksolíu. Saltað og piprað.
Svo er það aðaleikarinn. Þetta er fantagóður ostur - bragðmikill en mjúkur á bragðið.
Svo er bara setja fallega svuntu á föður sinn og fá hann til að saxa ostinn í smáa bita.
Svo er bara að raða upp kartöfluskífunum upp, gæta sína að dreifa ostinum á milli laga.
Aðalmálið er að láta kartöflustaflana halda jafnvægi. Skreyta með timjan.
Svo er bara að baka kartöflurnar í þrjú kortér við 180 gráðu hita.
Svo er lítið að annað að gera en að gæða sér á þessu sælgæti!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2018 | 10:18
Kjúklingur Milanese með spaghetti og tómatsósu gerða frá grunni úr íslenskum tómötum!
Síðastliðna daga hef ég verið í Svíþjóð að vinna að doktorsverkefni mínu við Háskólann í Lundi. Á miðvikudagsmorgun stóðst ég miðbiksmat og fékk leyfi til að halda áfram að vinna að verkefninu. Það voru ánægjuleg tímamót og mér var mikið létt. Þetta hefur verið ansi langt ferðalag - og það er nú formlega hálfnað. Það verður spennandi að halda áfram með verkefnið á Íslandi.
Það verður því eitthvað reynt til að halda upp á þennan áfanga þegar heim verður komið. Þessi réttur er alveg kjörinn - þar sem hann er sérlega ljúffengur og fremur fljótlegur, svona miðað við margt annað. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég skrifa um þennan rétt. Þegar bloggið mitt var ársgamalt, í desember 2007, eldaði ég hann í fyrsta skipti. Og ég eldaði hann eiginlega bara af forvitni þar sem mér fannst þessi samsetning - djúpsteikt kjúklingabringa og spaghetti saman eiginlega stórfurðulegt. En viti menn - Ítalar vita sínu viti þegar það kemur að matargerð - þetta var sérstaklega ljúffengt.
Og nú prófaði ég að elda sósuna frá grunni úr íslenskum tómötum!
Kjúklingur Milanese með spaghetti og tómatsósu gerða frá grunni úr íslenskum tómötum!
Hráefnalisti fyrir 4
4 kjúklingabringur
handfylli hveiti
4 egg
brauðmylsna (helst heimagerð)
1/2 tsk hvítlauksduft
salt og pipar
olía til steikingar
500 g krisuberjatómatar
2 skalottulaukar
2 hvítlauksrif
handfylli ferskt basil
1 kúfuð teskeið tómatpúré
50 ml rjómi
salt og pipar
400 g spaghetti
eins mikið af parmaosti og mann lystir
basil til skreytingar
Ég verð að játa að sósuna hafði ég gert áður. Þannig er mál með vexti að í lok sumar áskotnaðist mér kílóavís af dásamlegum, ferskum, íslenskum tómötum sem við notuðum í tengslum við tökur á þáttunum, Lambið og miðin, sem verða sýndir í vetur á Sjónvarpi Símans. Auðvitað vildi ég ekki að neitt af þeim færu til spillis svo ég bjó ég til sneisafullan pott af tómatsósu og setti í poka og geymdi í frysti fyrir seinni tíma. Og nú var sá tími kominn!
En sósan er nauðaeinföld. Bara að skera niður laukinn og hvítlaukinn og steikja við miðlungshita í nokkrar mínútur þangað til að hann verður mjúkur. Svo er tómötunum, niðurskornum, bætt saman við og þeir steiktir í nokkrar mínútur. Þá eru þeir maukaðir með kartöflustöppu og smá vatni er bætt saman við. Handfylli af fersku basil er sett út í ásamt salti og pipar. Sósunni var svo leyft sjóða niður í 30 mínútur við lágan hita. Deildi henni svo niður í poka og frysti.
En nú var kominn tími til að nota sósuna. Skellti henni beint í pottinn með smá skvettu af vatni og hressti sósuna við með teskeið af tómatpúre. Meira þurfi ekki!
Svo var bara að grípa töfrasprota og mauka sósuna vandlega. Lét hana svo krauma við lágan hita á meðan ég sinnti kjúklingum og pastanu.
Ég byrjaði á því að fletja kjúklinginn út með kjöthamri þannig að bringan var jafnþunn. Svo velti ég henni upp úr hveiti sem ég hafði bragðbætt með hvítlauksdufti, salti og pipar. Því næst var bringan færð yfir í eggin sem ég hafði hrært saman og bragðbætt með því sama og fór í hveitið. Það skiptir máli að bragðbæta bæði hveitið og eggin. Þannig verður kjúklingurinn mun bragðmeiri.
Svo lagði ég bringuna í brauðmylsnu (brauð sem hafði orðið afgangs úr heimsóknum í Brauð & Co svo að hún var líka einkar ljúffeng).
Svo var kjúklingabringan steikt upp úr heitri olíu þangað til að hún var elduð í gegn. Fékk að hvíla í nokkrar mínútur á meðan pastað var klárað.
Pastað var soðið í söltuðu vatni þangað til að það var al dente og þá var vatninu hellt frá og því bætt saman við sósuna.
Þá var ekkert annað að gera en að raða á disk. Snéri pastanu upp á kjötgaffal og bjó til fallega spaghettipylsu.
Með matnum nutum við flösku af víni frá Rioja, The invisible man, sem er framleitt af Casa Rojo sem er vínframleiðandi sem við heimsóttum nú á dögunum þegar við vorum að taka upp þættina, Ferðalag bragðlaukanna, sem eru við það að fara í sýningu á Sjónvarpi Símans. Verða frumsýndir í línulegri dagskrá þriðjudaginn 20. nóvember næstkomandi. En vínið er einkar ljúffengt - ávaxtaríkt með ljúfum kryddtónum á tungu. Passaði vel með matnum.
Það var gaman að elda þennan rétt aftur - alltof langt síðan síðast.
Bon appetit!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2018 | 20:23
Dásamlegur og vel nuddaður lambaframpartur á beði af nýju íslensku hvítkáli, eplum og lauk!
Ég elska haustin! Reyndar er ég þannig gerður að ég nýt hverrar árstíðar fyrir sig - en haustin eru í sérstöku uppáhaldi, en þá kemur á markaðinn fullt af splunkunýju grænmeti og svo auðvitað kjöt af nýslátruðu lambi.
Frændur okkar í Noregi kunna svo sannarlega að njóta lambakjöts og hvítkáls, en þjóðarréttur Norðmanna er einmittt Får i Kål - sem er eins einfaldur og hugsast getur. Þar sjóða menn jafnan hlut af lambakjöti og hvítkáli með fullt af heilum svörtum pipar í rúmar tvær klukkustundir. Galdurinn ku vera að þjappa kjötinu og kálinu á víxl í potti svo að hann verði alveg troðinn upp að börmum!
Þó að ég hafi þjóðarrétt Norðmanna bak við eyrað ætla ég að víkja ærlega af sporinu og sækja innblástur til Jamie Oliver, Simon Hutchinson og meira að segja Marco Pierre White. Það er þá eins gott að rétturinn heppnist vel!
Annars erum við stödd, eins og svo oft áður, í Kjósinni í sumarhúsi foreldra minna. Markmiðið er að ganga til rjúpna á morgun upp í dal. Hann er ansi erfiður yfirferðar svo það er gott að næra sig vel daginn fyrir gönguferðina.
Dásamlegur og vel nuddaður lambaframpartur á beði af nýju íslensku hvítkáli, eplum og lauk!
Hráefni fyrir 6
1 lambaframpartur
1 hvítkálshaus frá gróðrarstöð Sigrúnar
3 epli
1 laukur
4 hvítlauksrif
4 ansjósuflök
1 lambateningar
4 greinar rósmarín
handfylli timjan
6 msk jómfrúarolía
salt og pipar
Borið fram með rjómalagaðri sveppasósu, kartöflum sem voru svo góðar að þær munu koma í sérstakri færslu og svo einföldu, en mjög svo ljúffengu salati.
Ég keypti þetta ferska hvítkál í nærlægri matvöruverslun. Hvítkál ætti maður að nota oftar - ég ætla í ár að prófa aftur að gera súrkál - sem ég hef lært að meta á endurteknum ferðum mínum til Austurríkis (panta mér alltaf væna pylsu með súrkáli og sterku sinnepi - nammi namm). Skal gera grein fyrir því í færslu á komandi vikum.
Alltént skar ég hvítkálshausinn gróflega, sem og eplin og laukinn og lagði allt saman í stóra olíuborna ofnskúffu.
Svo útbjó ég magnaða kryddolíu. Allt hugsað til að magna upp umami bragðið af réttinum. Hafið engar áhyggjur af ansjósunum - þær bráðna og hverfa og skilja ekkert fiskibragð eftir. Maukaði flökin saman við hvítlauk og tvo lambateninga í nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu.
Svo var olíunni hellt yfir og nuddað vandlega inn í kjötið.
Svo var bara að dreifa kryddjurtum yfir og krydda vel með salti og pipar. Setti álpappír yfir og bakaði í 170 gráðu heitum forhituðum ofni í þrjár og hálfa klukkustund.
Sko, ilmurinn var nóg til að gera mann veikan í hnjánum. Öll fitan hafði bráðnað og kjötið var lungamjúkt! Lungamjúkt segi ég. Og bragðið kyngimagnað. Sérstaklega þar sem ég hafði tekið það út úr ofninum, saltað aðeins og sett undir grillið í nokkrar mínútur til að reyna að poppa aðeins upp lambafituna.
Við gerðum rjómalagaða sveppasósu með matnum. Um uppáhaldssósuna mína hef ég bloggað margoft! ;) - Hægt er að lesa um aðferðina hérna!
Set kartöflurnar inn á bloggið í vikunni en þær voru klikkaðar - með nýjum íslenskum osti - Svörtum Tind1
Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða rauðvín sem er frá Rioja á Spáni. En þar var ég í heimsókn í síðasta mánuði og tók upp sjónvarpþætti sem verða sýndir á Sjónvarpi Símans. Þetta vín er algert afbragð. Gert úr 100% tempranillo þrúgu - vínið er frá 2011 svo það hefur fengið langan tíma á eikartunnu og svo á flösku. Þetta vín er fallega rúbinrautt í glasi, ilmar af þroskuðum berjum og sultu. Svipað á tungu með ljúffengum eikartónum sem entust lengi.
Hvet ykkur öll til að prófa að elda lambaframpart með þessum hætti. Allir voru sammála um að það hafði heppnast sérstaklega vel í þetta skiptið.
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
21.10.2018 | 13:04
Spænskt innblásinn kjúklingur í chorizo, pimenton og íslenskum papríkum
Í nýlegri heimsókn okkar til Spánar heimsóttum við meðal annars Laguardia - sem er lítið þorp í norðanverðu Rioja héraði. Þegar maður stendur á borgarvirkinu er horft yfir á landamærin sem skilja að Rioja og Baskaland. Fegurðin er ógleymanleg. Við heimsóttum þennan bæ einnig síðastliðið vor þegar við vorum þar nokkur í heimsókn og það var eiginlega skylda að heimsækja bæinn aftur. Hann er einkar fallegur, er nær allur innan hárra borgarmúra sem vörðu bæjarbúa á öldum áður fyrir ofríki ræningja og ribbalda.
Allsstaðar var tekið vel á móti okkur. Við fórum á frægan vínbar þar sem hægt er að njóta vínsopa langt neðanjarðar í gömlum víngeymslum sem gerðar hafa verið upp til að veita þyrstum ferðalöngum veigar. Í borginni er nokkrar fallegar matvöruverslanir - og ein þeirra, slátrarinn, framleiðir meðal annars þessa ljúffengu chorizo pylsu sem við fengum að smakka áður en við keyptum nokkrar. Ég var svo sannarlega ekki svikinn af þessum kaupum.
Spænskt innblásin kjúklingur í chorizo, pimenton og íslenskum papríkum
Hráefnalisti fyrir sex
6 kjúklingabringur
250 g chorizopylsa
1 msk pimenton - sætt
1 msk pimenton - sterk reykt
3 msk hveiti
jómfrúarolía til steikingar
2 nýjar rauðar íslenskar papríkur
1 rauðlaukur
3 hvítlauksrif
salt og pipar
hrísgrjón
salat - blönduð græn lauf, rauðlaukur, kirsuberjatómatar, agúrkur,
einföld salatdressing - olía, sítrónusafi, salt og pipar
Ég notaði bara helminginn af þessari pylsu sem slátrarinn hafði pakkað vandlega inn fyrir mig.
Skar pylsuna í munnbitastóra bita.
Pylsuna setti ég svo á pönnuna - og lét hitann koma upp - þannig að þær gæfu sem mest af fitunni frá sér og myndu í staðinn bragðbæta kjúklinginn og grænmetið.
Var reyndar með sjö bringur - en sex hefðu verið nóg. Það er alltaf ágætt að geta tekið afganginn með sér í vinnuna daginn eftir.
Ég setti bringurnar í plastpoka og lamdi þær nokkrum sinnum svo að þær yrðu nokkuð jafnflatar og myndu þess vegna steikjast jafnt.
Papríkuduft er ekki það sama og papríkuduft. Ég notaði tvennskonar papríkuduft, annars vegar milt - svona til að leggja grunninn og svo reykt papríkuduft til að gefa þessu hressilegt bragðkikk!
Papríkuduftinu var svo blandað saman við hveiti ásamt salti og pipar.
Ég hafði nælt mér í þessa papríku. Hún er einkar bragðgóð.
Svo skar ég niður einn rauðlauk, nokkuð þunnt.
Þegar chorizopylsurnar voru búnar að gefa frá sér heilmikið af fitu bætti ég papríkunum á pönnuna, svo lauknum og hvítlauknum og steikti þar til grænmetið var fallega mjúkt. Þá tók ég það til hliðar um stund.
Næst var að steikja kjúklingabringurnar að utan. Þegar þær höfðu tekið á sig lit lagði ég þær í eldfast mót og tyllti grænmetinu og pylsunum ofan á. Ég lét að sjálfsögðu ekkert af olíunni fara til spillis og hellti henni yfir þannig að ekkert af bragðinu myndi sleppa frá okkur.
Ilmurinn í eldhúsinu var dásamlegur þegar ég tók réttinn úr ofninum. Skreytti með lferskri steinselju.
Með matnum bar ég fram þetta ítalska rauðvín. Auðvitað hefði ég átt að opna einhvern Spánverja með matnum - en maður er ekki alltaf með kveikt á perunni. En það skipti engu þar sem vínið var ljúffengt og rann ljúflega niður. Ég hafði togað tappann úr úr Corte Giara Ripasso frá Valpolicella sem er skammt fyrir utan Verona. Þetta vín minnir óneitanlega á Amarone vín - það er fallegt á litinn, með þéttum ilmi af ávexti, sultað, með kryddkeim og með ljúfu og löngu eftirbragði.
Ekki bara var maturinn ljúffengur - þá var hann líka fallegur á að horfa. Það er gaman þegar mörg skilningarvit eru örvuð.
Hvet ykkur til að prófa þennan rétt - hann var fljótlegur og ljúffengur!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
7.10.2018 | 18:18
Snöggsteiktar nautasteikur ala Marco Pierre White í grænpiparsósu með ofnbökuðum kartöflum og fersku salati
Ég hef verið að horfa á Michelin- og sjónvarpskokkinn Marco Pierre White á Youtube upp á síðkastið. Fyrir þá sem ekki vita þá var hann líklega einn af fyrstu stjörnukokkum Bretlands. Hann rak nokkra veitingastaði, af þeim var Harvey's í London þekktastur og hann þjálfaði aðrar verðandi stjörnur eins og Gordon Ramsey. Hann var þekktur skapofsamaður og tók Gordon upp eftir honum þegar hann fór að reka eigin eldhús með öskrum, blóti og ragni eins og frægt er orðið. Á miðjum áttunda áratugnum var hann yngsti kokkurinn til að fá þrjár Michelin stjörnur, þá aeðins 33 ára gamall (met hans var þó slegið nokkrum árum síðar). Árið 1999 - öllum að óvörum - hengdi hann upp svuntuna sína og hætti að starfa í eldhúsi.
Eitthvað þurfti hann þó að gera til að draga fram lífið og rekur í dag veitingastaði, hefur gefið út fjölda matreiðslubóka og komið fram í sjónvarpi - og er forríkur. Það orkaði þó tvímælis þegar hann gerðist talsmaður Knorr fyrirtækisins, sem flestir þekkja, og sagði þá vera leynivopn sitt í eldhúsinu og hafa verið það um langt árabil. Hneykslunaralda gekk yfir fylkingu matreiðslumanna sem margir gera allt frá grunni!
Eins og flestir þá nota ég kraft (bæði teninga, duft og vökva) - það er auðvitað fljótlegt. En maður verður ekkert sérlega innblásinn þegar maður les innihaldslýsinguna - þarna er auðvitað salt og fita auk bragðaukandi efna eins og gerextract og mónósódíum glútamat og svo smá kjöt. Ekki að það sé eitthvað slæmt - en kannski ekki eitthvað sem þriggja stjörnu kokkur myndi státa sig af. Þannig að ég varð að prófa.
Snöggsteiktar nautasteikur að hætti Marco Pierre White í grænpiparsósu með ofnbökuðum kartöflum og fersku salati
Þetta telst seint vera merkileg eldamennska - en þar sem þetta heppnaðist vel þá fannst mér skemmtilegt að greina frá því.
Svo má jafnframt benda á að ég er ekki talsmaður Knorr - maður má nota hvaða kraft sem er, frá hvaða merki sem er! Þetta var bara það sem ég átti til í skúffunni.
Hráefnalisti fyrir 6
6 steikur (200-250g)
3 msk jómfrúarolía
2 kjötkraftsteningar
pipar
smjör til steikingar
Fyrir sósuna
4 msk Worchestershire sósa
400 ml rjómi
3 msk þurrkuð græn piparkorn
salt og pipar eftir smekk
kartöflur
4 msk hvítlauksolía
ferskt timjan
salt og pipar
blanda af íslensku grænmeti
Ég notaði sumsé venjulegan nautatening.
Og maukaði hann vel niður í jómfrúarolíu með fingrunum.
Svo var nautakraftsmaukinu bara nuddað vandlega inn í kjötið.
Næst var að steikja kjötið að utan í nógu af smjöri þangað til að það var fallega karmelliserað á hvorri hlið. Ég steikti í tæpar 2 mínútur á hvorri hlið og setti svo steikurnar til hliðar á meðan ég útbjó sósuna.
Og þetta er með aleinföldustu sósum sem ég hef gert! Hellti Worchestershiresósunni á pönnuna og sauð upp og svo niður um helming.
Næst, nóg af rjóma - sem var líka látin krauma og sjóða niður um þriðjung.
Svo var bara að bæta grænum piparkornum saman við og láta krauma í tvær til þrjár mínútur í viðbót.
Svo var lítið annað að gera en að koma steikunum fyrir og bera á borð fyrir svanga gesti.
Við höfðum auðvitað byrjað á kartöflunum. Fyrst skornar niður í helminga, velt upp úr hvítlaukolíu og svo bragðbættar með salti, pipar og fersku timjan. Bakað í forhituðum 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur.
Salatið var heldur ekki flókið, enda þarf það ekkert að vera það. Bara að raða fersku íslensku grænmeti ofan á fersk salatblöð sem búið er að skola. Smá fetaostur til að lyfta því upp og gefa aðra áferð.
Ég greip þessa flösku með mér þegar ég var á leið í gegnum tollinn síðast. Þetta vín hef ég smakkað einu sinni áður fyrir tæpum tveimur árum. Ég hef lengi verið hrifinn af Malbec vínum frá Argentínu - sér í lagi eftir að ég heimsótti landið vegna ráðstefnu fyrir fimm árum. Þetta vín er frá 2015 - dökkrautt, næstum blekað, í blasi - ljúfir tónar af berjum, jafnvel bláberjum, eik. Flauelsmjúkt á tungu með ljúft og breitt eftirbragð.
Svo var bara að raða á diska og setjast niður og njóta.
Og það er óhætt að hvetja ykkur til að prófa - þetta varð einstaklega bragðgóð og bragðmikil steik!
Bon appetit!
3.10.2018 | 19:19
Tribjút til Tjöruhúsins, taka tvö - rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy
Eins og ég nefndi í færslu í byrjun september, sjá hérna, þá fórum við fjölskyldan í ferðalag um Vestfirðina síðastliðið sumar. Þá heimsóttum við meðal annars Tjöruhúsið á Ísafirði sem er án efa einn besti fiskveitingastaður á Íslandi. Síðan við fórum þangað hef ég mælt með þessum stað við flesta sem hafa áhuga.
Einn af réttunum sem við borðuðum á veitingastaðnum var eldaður af syni aðalkokksins, en sonurinn er rétt rúmlega tvítugur. Hann virðist ætla að verða föðurbetrungur. Og það er ekkert að því sem faðir hans eldar - réttirnir hans eru vissulega ljúffengir. Ljúffengir!
Þessi uppskrift er innblásin frá Tjöruhúsinu - mér tókst þó ekki að líkja algerlega eftir því sem við gæddum okkur á í veitingahúsinu - en þetta er tilraun mín til að útbúa eftir minni, bragðlaukaminni, það sem við fengum að borða þar.
Ef sonur kokksins á Tjöruhúsinu les þetta, þá má hann gjarnan senda mér sína uppskrift. Og þó að mín hafi heppnast vel, þá var hans útgáfa enn betri.
Tribjút til Tjöruhúsins, taka tvö - Rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy
Þetta er auðvitað alger fusion eldamennska. En svona verða stundum góðar uppskriftir til - með tilraunum.
Það er líka gaman að elda með íslensku hráefni, eins og saltfiski, og svo auðvitað splunkunýtt íslenskt grænmeti. Og það er nóg í boði af því um þessar mundir - eins og það er öll haust!
Hráefnalisti fyrir 6 manns
1,2 kg saltfiskur - hnakkastykki
100 g smjör
2 msk hveiti
pipar
100 g púðursykur
4-5 msk romm
30 g smjör
handfylli pekan hnetur
600 g stórar gulrætur
3-4 greinar rósmarín
5-6 lauf fersk salvía
3 msk hvítlauksolía
50 g smjör
2-3 msk hunang (eða hlynsíróp)
250 g pak choy
safi úr heilli sítrónu
2 msk jómfrúarolía
1 msk sherrý edik
salt og pipar
Ég gerði karamellu, setti sykurinn í botninn á stórum pottinn, og kveikti undir - á lágum hita og beið eftir því að sykurinn bráðnaði. Þegar hann fór að bráðna á jaðrinum dró ég hann inn að miðju þannig að hitinn dreifist jafnar um pönnuna og sykurinn bráðni jafnt. Þegar sykurinn var bráðnaður bætti ég við rommi og smjöri. Lét standa í augnablik á meðan ég sinnti saltfisknum.
Á meðan smjörið bráðnaði á pönnu, velti ég saltfisknum upp úr hveiti og pipraði aðeins. Steikti svo fiskinn upp úr smjörinu.
Bætti handfylli af pekanhnetum á pönnuna og steikti með í nokkrar mínútur.
Hellti svo rommsírópinu á pönnuna.
Steikti svo áfram í nokkrar mínútur - alls um 10 mínútur.
Gulræturnar tóku lengri tíma - þannig að ég hefði átt að byrja færsluna á þeim - þær taka um klukkustund í ofninum. Byrjaði á því að flysja þær og skera í nokkuð jafnstóra bita. Gat dobblað Snædísi til að hjálpa mér. Það þurfti engar sérstaka fortölur.
Gulrótunum var svo raðað í eldfast mót sem ég hafði penslað með hvítlauksolíu. Bragðbætti með smjöri, ferskum kryddjurtum og svo hunangi. Bakaði í 180 gráðu heitum ofni í klukkustund eða svo.
Nú er hægt að fá íslenskt pok choy - sem er í raun bara afbrigði af því sem við þekkjum sem kínakál - en þetta afbrigði er það sem er algengast í heiminum.
Ég ákvað að gufusjóða það yfir kjúklingasoði og nokkrum sítrónusneiðum í nokkrar mínútur.
Svo var bara að leggja það á disk og bragðbæta með olíu, sítrónusafa, ediki, salti og pipar.
Með matnum drukkum við þetta ljúffenga rauðvín frá norðanverðu Rioja héraði - Ramon Bilbao. Þetta vín er unnið úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta vín tók ég þátt í að velja til innflutnings nú í vor þegar mér var boðið í heimsókn til Rioja. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum, milt kryddað með ljúffengu eikarbragði. Passaði ákaflega vel með saltfiskinum.
Og hér er hann kominn - rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy.
Afar ljúffengt!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2018 | 19:27
Vel hangið og betur kryddað lambalæri með marglitu blómkáli, ekta soðsósu, soðnum kartöflum og ljúffengu rauðvíni
Við komum heim frá Spáni í gærkvöldi eftir vikudvöl við tökur á nýjum sjónvarpsþáttum. Þetta var sannarlega mikil upplifun - það er eiginlega erfitt að lýsa þessu nákvæmlega. Þetta er ekki frí - þar sem maður er að fullu í tökum. eiginlega frá morgni til kvölds. En það mætti lýsa þessu sem ótrúlega skemmtilegri vinnuferð - þar sem allir eru að sýna manni sínar bestu hliðar í mat og drykk. Að auki var ég líka sérstaklega heppinn með vinnufélaga - teymið sem við Kristján Kristjánsson leikstjóri höfum verið að vinna með nú í sumar og í þessari ferð eru skemmtilegt með eindæmum.
Rek þessa ferð nánar í næstu færslu - og svo auðvitað í þáttunum sem verða á dagskrá nú í vetur. Ég er nokkuð spenntur að sýna ykkur afraksturinn.
Sumarið var ennþá á Spáni í vikunni sem leið og hitinn náði stundum yfir þrjátíu stig - og rakt. Það var því óneitanlega frískandi að stíga úr Leifsstöð og fá í fangið dásamlegt íslenskt haust. Og gærdagurinn var einstaklega fallegur - kvöldið heiðskýrt og á himnunum dönsuðu norðurljósin í næturmyrkrinu.
Og þetta er haust-uppskrift - vel eldað lambalæri með flestu af því sem mér finnst tilheyra. Í sjálfu sér ekki margt nýtt á ferðinni - meira bara verið að skerpa á því hvernig má hlúa að hefðunum.
Vel hangið og betur kryddað lambalæri með marglitu blómkáli, ekta soðsósu, soðnum kartöflum og ljúffengu rauðvíni
Hráefnalisti
1 lambalæri
3 msk jómfrúarolía
3 msk birkisíróp
handfylli þurrkuð kryddblanda af eigin vali (rósmarín, mynta, blönduð piparkorn, allrahanda, einiber - eitthvað í þá áttina)
1/2 flaska gott rauðvín
mirepoix - gulrætur, laukur, hvítlaukur og sellerí
200 ml vatn
Salt og pipar
2 sellerísstangir
1 rauðlaukur
2 gulrætur
2 hvítlauksrif
3 lárviðarlauf
grillað lykilbein
vatn til að þekja
salt og pipar
allur vökvi af lærinu
smjörbolla
50 g af smjöri
3 hausar af blómkáli
salt og pipar
5-6 msk hvítlauksolía
1 kg nýjar kartöflur
Ég sótti þetta læri í kjötborðið í Hagkaup í Kringlunni - þeir eru með skáp þar sem kjötið er látið hanga og meyrna í nokkrar vikur. Lærið sem ég hafði keypt hafði fengið að hanga í tvær vikur. Margir hafa það að venju að láta læri meyrna í ísskáp í 5-7 daga í umbúðunum áður en það er eldað. Það er líka góð hugmynd.
Það er auðvitað hægt að kaupa lærið án lykilbeinsins - eða biðja kjötkaupmanninn um að fjarlægja það fyrir þig. Ég lagði í þetta sjálfur - en það er nú ekki svo flókið - bara að elta beinið með beittum hníf, og fara varlega. Þá hefst þetta að lokum. Og þeim mun oftar sem maður gerir þetta þeim mun betra.
Svona á það að líta út þegar búið er að skera það frá. Það eina sem ég gerði var að maka það sem dálítilli jómfrúarolíu, salta og pipra og grilla svo inní blússheitum ofni í nokkrar mínútur.
Næsta skref var að undirbúa lærið fyrir ofninn. Skar gulrætur, hvítlauk, sellerí og lauk gróflega og setti í ofnpott ásamt jómfrúarolíu, rauðvíni, vatni og lárviðarlaufi.
Nuddaði lærið með jómfrúarolíu og penslaði með birkisírópi.
Sáldraði svo kryddblöndunni sem ég hafði útbúið jafnt yfir lærið. Saltaði og pipraði. Bakaði svo í 160 gráðu forhituðum ofni þangað til að kjarnhiti lærisins hafði náð 52 gráðum. Þá tók ég það út og lét það hvíla í 30 mínútur. Þá saltaði ég það ennþá meira og brúnaði undir heitu grilli í örskamma stund.
Á meðan lærið var í ofninum hugaði ég að sósunni. Skar niður mirepoix grænmetið og steikti í smjöri og olíu með lárviðarlaufi. Saltaði og pipraði. Kom svo brúnuðu lykilbeininu fyrir í pottinum og hellti vatni í pottinn. Hitaði að suðu og lét krauma í um 90 mínútur. Gætti þessa að fleyta froðunni sem flýtur upp á yfirborðið ofan af - þannig verður sósan fallegri á litin.
Næst var að sinna blómkálinu. Mér höfðu áskotnast þessi fallegu marglitu blómkálshöfuð.
Snyrti þau aðeins og kom fyrir á götóttri ofnskúffu.
Ég bý það vel að eiga gufuofn frá Bosch sem er einfaldur í notkun. Kom vatninu fyrir og gufusauð blómkálið í 20 mínútur í ofninum.
Svo var bara að pensla það með hvítlauksolíu og salta rækilega.
Þá var bara að klára sósuna. Þykkti síað soðið í smjörbollu.
Smakkaði til með smá sultu, salti og pipar og ögn af worchestershiresósu. Loks smjörklípa til að fá fallegan gljáa.
Svo var bara að bera herlegheitin á borð.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég blogga um þetta vín; Masi Tupungato Corbec frá 2015. Þetta er blanda af Corvina og svo Malbec. Corvina þrúgan rekur uppruna sinn til Valpolicella en er ræktað í Argentínu sem er síðan blandað við Malbec (sem er algengasta þrúgan sem notuð er í argentínskri víngerð). Þetta vín er fallega dökkrúbinrautt í glasi. Ilmar af ávexti, smá súkkulaði, vanillu og svo eru eikartónar. Bragðið passar ljómandi við ilminn og hefur góða fyllingu og þægilega mjúkt eftirbragð. Þetta er dúndurvín.
Þetta er að mínu mati - klassísk haustmatargerð. Og heppnaðist frábærlega.
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2018 | 17:26
Stolin uppskrift; Mangó, avókadó og bleikjusashimi - blóm með ponzusósu - mín útgáfa
Ég hitti nýverið Dröfn Vilhjálmsdóttur matarbloggara og lífskúnstner og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að smakka þennan rétt hjá henni. Þvílíkur réttur - ferskur og bragðmikill. Auðvitað gætuð þið smellt á þennan hlekk - og farið beint yfir á síðuna hennar og gert upprunalegu útgáfuna. Ég skil ykkur bara mætavel!
Nokkrum dögum eftir að við hittumst var ég með gesti í mat og auðvitað varð ég að kynna vini mínum fyrir þessari frábæru uppskrift. Og til þess að hafa eitthvað til að skrifa um - varð ég auðvitað að breyta henni lítillega. Þannig finnst mér skemmtilegt að elda - elda eftir minni og reyna að líkja eftir einhverri matarupplifun.
Svo er líka sagt að það að herma eftir einhverjum sé hæsta form hóls!
Ekki er verra hvað þetta er fljótlegur forréttur. Hann verður eiginlega bara tilbúinn þegar maður er búinn að skera niður í hann og raða honum á disk.
Stolin uppskrift; Mangó, avókadó og bleikjusashimi-blóm með ponzusósu - mín útgáfa.
Fyrir sex
400 g bleikja
2 avókadó
1 stórt mangó
50 g fetaostur
salat til skrauts
sítrónusafi
3 msk jómfrúarolía
3 msk soyasósa
2 cm engifer
1 hvítlauksrif
1/2 rauður chili
1 tsk sykur
safi úr hálfri sítrónu
1 msk ristuð sesamfræ
salt og pipar
Ég held að það sé skynsamlegt að byrja á því að gera sósuna. Sósur eins og þessar njóta þess að fá að kynnast í tvö til þrjú kortér áður en þær eru notaðar - þannig fá hráefnin smástund til að blandast saman.
Ég byrjaði á því að rífa engifer og hvítlaukinn með rifjárni og setja saman við olíuna, sítrónusafann, sykurinn og soyasósuna. Svo kjarnhreinsaði ég chilipiparinn og bætti saman við.
Svo var þurrristuðum sesamfræjum bætt saman við og smakkað til með salti og pipar.
Næst var að sinna bleikjunni. Ég hafði keypt Klausturbleikju í Fiskbúðinni við Sundlaugaveginn. Það hefði eins mátt nota Fjallableikju eða jafnvel lax.
Skar bleikjuna í þunnar sneiðar og penslaði þær svo með smáræði af sítrónusafa. Þannig eldar maður fiskinn lítillega.
Þessi mynd er eiginlega bara til að sýna að mér tókst að kaupa ekki bara eitt heldur tvö fullkomlega fersk avókadó. Hélt eiginlega að þetta væri algerlega ómögulegt á Íslandi! Skar það svo niður í sneiðar eins og mangóið.
Svo var lítið annað að gera en að raða réttinum saman. Ég gerði tilraun til að raða þessu upp eins og einhvers konar blómi. Skreytti með muldum fetaosti, nokkrum salatblaðatoppum og reyndi svo að dreifa ponzusósunni jafnt yfir.
Með þessum rétti bar ég fram þetta ljúffenga hvítvín, Leyda Reserva Sauvignion Blanc frá 2016. Þetta vín er frá Chile. Þetta er nokkuð ferskur sopi - með vanillu og pínu sætum rúsínukeim í nefi og svo mjúk smjörkennd sítróna á bragðið. Bar sig vel með bragðmiklum forréttinum.
Þetta var sannarlega góður forréttur.
Það var vel þess virði að stela honum af Dröfn - ég á án efa eftir að gera hann aftur.
Eins og oft áður þá hafa síðustu dagar verið heldur annasamir. Held að flestir geta sagt slíkt hið sama, skólar að hefjast og starfsmenn að koma saman eftir sumarfrí og bretta saman upp ermar. Maður finnur líka fyrir þessu á stofunni - það berast heldur fleiri tilvísanir og á spítalanum heldur róðurinn áfram að þyngjast. Það verður spennandi að sjá hvernig við náum að klóra okkur fram úr enn einum vetrinum á Landspítala Háskólasjúkrahúsi.
Og það verður að segjast að þegar vinnan er krefjandi er mikilvægt að geta notið frítímans - til að hlaða batteríin og undirbúa sig fyrir verkefnin sem blasa við. Það er okkur ákaflega mikilvægt að eiga athvarf í sumarhúsi foreldra minna í Kjósinni. Þangað er sérlega ljúft að fara - skella sér í pottinn, með bjórglas í hendi og spjalla við fólkið sitt umlukinn náttúrunni á alla kanta.
Þessa máltíð gerði ég einmitt um liðna helgi. Ég hafði sótt kjötið í Kjötkompaníið sem var að helda upp á afmælið sitt. Þeir gáfu smakk af nokkrum steikum og mér fannst bragðið einna best af þessari steik. Mínútusteik er skorin af mjöðminni og þykir almennt ekki vera merkilegur biti en þegar skrokkurinn fær að hanga í rúmar fjórar vikur meyrnar það svo um munar.
Magnaðar mínútusteikur með rauðvínssósu frá grunni, gratíni og ostafylltum sveppum
Það eru allavegana tvær leiðir til að gera rauðvínssósu frá grunni. Það er auðvitað þessi leið sem ég geri núna - hún myndi líklega teljast hefðbundinn aðferð við að byggja sósu frá grunni. Svo er það hin - ad modum Leif Mannerström - sem er sænskur sjónvarpskokkur sem notið hefur vinsælda í áratugi. Hann gaf út sína fyrstu matreiðslubók 1981 og hann er ennþá á fullu kominn á áttræðisaldurinn.
Hans aðferð byggir á því að sjóða hráan rauðlauk, lárviðarlauf og piparkorn niður í rauðvíni og þegar það hefur rýrnað umtalsvert er soðinu bætt saman við - þannig er laukurinn óeldaður og bragð sósunnar verður talsvert frábrugðið. Ekkert verra - bara öðruvísi. Ég hef bloggað um hana áður - sjá hérna.
Fyrir átta
1600 g mínútur steikur
4 msk jómfrúarolíu
nokkrar tegundir af pipar
salt
500 g sveppir
1/2 rauðlaukur
50 g smjör
salt og pipar
1/2 chaumes ostur
1 kg nýjar kartöflur
250 ml rjómi
100 g rifinn ostur
salt og pipar
300 ml rauðvín
300 ml nautasoð
1 rauðlaukur
1 stjörnuanís
handfylli timjan
klípa af smjör
salt og pipar
Ég lét steikurnar ná herbergishita áður en ég fór að vinna með þær - það er talað um að kjötið "sjokkerist" síður þegar það fer á grillið hafi það fengið að ná herbergishita.
Aðal áherslan við þessa marineringu var ólíkar tegundir af pipar - ég var með tvennskonar svartan pipar - hefðbundinn tellincherry pipar og svo Comet-pipar frá Jövu, rósapipar og svo græn piparkorn. Comet-piparinn er ögn kryddaðri en hefðbundinn pipar og hefur tóna sem minnir á allrahanda.
Makaði olíu á steikurnar og svo piparinn, salt auðvitað og svo örlítið af blandaðri kryddblöndu - þeirri sem var seld undir mínum merkjum í fyrra - en hvaðeina hefði auðvitað dugað.
Ég fékk föður minn til að útbúa sveppina. Hann tók stilkana úr og saxaði niður.
Ég fann ein lerkisvepp fyrir framan bústaðinn - og auðvitað var hann saxaður niður og hafður með!
Svo voru stilkarnir steikur með fínt skornum rauðlauk, salti og pipar í klípu af smjöri í nokkrar mínútur og svo færðir yfir í sveppina.
Svo var vænni klípu af osti tyllt ofan á. Bakað í forhituðum 180 gráðu heitum ofni í 35 mínútur.
Fyrst var laukurinn skorinn niður í sneiðar og steiktur upp úr smjöri. Ég bætti einum stjörnuanís saman við - það kemur ekkert lakkrísbragð - en hinsvegar verður laukurinn mun bragðmeiri fyrir vikið. Laukurinn er brúnaður í að minnsta 15-20 mínútur við lágan hita til að fá laukbragðið almennilega fram og sæta hann í leiðinni.
Svo var bætt saman við nokkrum greinum af timjan. Hefði ég átt lárviðarlauf hefði það fengið að fara á með á þessum tíma. Saltað og piprað.
Næst rauðvínið. Það er um að gera að nota vín sem manni finnst gott að drekka. Það er ekkert vit í því að gera sósu úr ónýtu víni!
Svo er vínið soðið, þannig að áfengið sýður upp, og sósan sýður niður um tvo þriðju. Þá er það kjötsoðinu bætt saman við og sósan soðin niður aftur um þriðjung.
Þá er henni hellt í gegnum sigti og síuð vandlega.
Sósan er svo bragðbætt með salti og pipar eins og þörf krefur og svo smá klípu af smjöri bætt saman við til að fá fallegan gljáa á sósuna.
Það þarf nú ekki að eyða mörgum orðum í gratínið. Hægt er að lesa til um gerð þess, til dæmis hérna.
Svo er bara að grilla steikurnar á blússheitu grilli.
Og þær þurfa ekki langan tíma á grillinu - þetta eru mínútusteikur!
Með matnum drukkum við þetta frábæra rauðvín sem ég hef gætt mér á nokkrum sinnum áður; Baron de Ley Finca Monasterio frá 2015. Þetta á spánskt rauðvín frá Rioja héraði - og ég er einmitt að fara aftur á þessar slóðir bara í næstu viku, þó að ég heimsæki ekki þennan framleiðenda í þetta skiptið. Hvað sem því líður þá er þetta vín fallega dökktrúbinrautt í glasi. Kröftugur og kryddaður ávaxtailmur með þéttu ávaxtabragð. Ljúffent.
Sósan heppnaðist með eindæmum vel!
Verði ykkur að góðu!
4.9.2018 | 08:53
Innblástur frá Tjöruhúsinu - Blálanga í tælenskri piparsósu, með ferskum agúrkum og kóríander
Þessi réttur er innblásinn af heimsókn okkar á Tjöruhúsið á Ísafirði. Mér tókst að næla mér í nokkra daga frí í júlímánuði og við fjölskyldan skelltum okkur í stutta ferð um Vestfirðina, alltof stutta! Þarna væri gaman að vera lengur. Og ég verð að játa að þangað hef ég einvörðungu komið einu sinni áður, en það var þegar ég var læknanemi á öðru ári og var boðinn í heimsókn í Menntaskólann á Ísafirði til að halda erindi á vegna Ástráðs (sem er forvarnarverkefni um kynsjúkdóma og kynheilbrigði - sem er enn við líði). Þá dvaldi ég einungis dagpart - en ég man eftir því að hafa alltaf ætlað að skunda þangað aftur. Og svo leið og beið og svo loks átján árum síður tókst mér að snúa aftur. Hvílík náttúrufegurð.
Við komum til Ísafjarðar að kvöldlagi eftir drjúgan akstur inn og út firðina í Ísafjarðardjúpi. Fyrsta daginn skruppum við í gönguferð um bæinn, fórum í sund á Bolungarvík og svo snæddum við kvöldverð á Tjöruhúsinu.
Og þetta var mögnuð heimsókn. Húsnæðið er fallegt - rústrautt að utan með svörtu þaki. Maður greiðir fyrir aðgang að hlaðborði - og það virðist engan enda taka. Ég verð að játa að ég fór í þrígang til að fá að smakka sem mest. Og síðasta ferðin var eiginlega best - þá sýndist mér að rúmlega tvítugur sonur eigandans væri tekin við og töfraði fram tvær pönnur - eina sem ég er að reyna að líkja eftir í þessari uppskrift og svo aðra þar sem hann hafði eldað saltfisk í rommsírópssósu með ristuðum valhnetum, hljómar örlítið klikkað en var dásamlegt.
Innblástur frá Tjöruhúsinu - Blálanga í tælenskri piparsósu, með ferskum agúrkum og kóríander
Fyrir 6
1,2 kg blálanga
1 kúrbítur
3 vorlaukar
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
3 msk piparsósa
2 msk teriyakisósa
1 msk soyasósa
hálf agúrka
1/2 fínt skorin papríka
50 g smjör
3 msk
salt og smá pipar
Byrjaði á því að sneiða rauðlaukinn, hvítlaukinn, kúrbítinn og vorlaukinn (sparaði endana til að skreyta með í lokinn) í olíu og smjöri þangað til að þetta varð mjúkt og ilmandi. Saltaði og pipraði lítillega.
Skar svo blálönguna í bita.
Kom svo fisknum fyrir á pönnunni og saltaði og pipraði og steikti á báðum hliðum.
Ég hafði keypt þessa sósu í Víetnam market - en hún er ljómandi góð. Vilji maður hafa minni hita í réttinum mætti prófa að nota Hoisin sósu í staðinn.
Blandaði piparsósunni, teriyaki og soyasósunni saman.
Hellti svo sósunni yfir fiskinn og eldaði hann í gegn í sósunni.
Því næst skreytti ég pönnuna með ferskum agúrkum, smátt skornum vorlauksendum og papríkum.
Með matnum drukkum við þetta ljúfa rósavín frá Masi, Rosa dei Masi. Mér þykir vænt um þennan framleiðenda en ég heimsótti hann í maí í fyrra þegar við vorum við tökur á þættinum, Læknirinn á Ítalíu. Það var ógleymanleg heimsókn. Vínið er bragðgott og frekar bragðríkt fyrir rósavín en það er framleitt með appasimento aðferðinni, þannig að hluti berjanna er þurrkaður í nokkrar vikur áður en þau eru kreist - en sú aðferð þéttir bragðið af víninu.
Borið fram með soðnum Basmati grjónum.
Ég hvet ykkur til að prófa, þetta var einstaklega ljúffengt!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2018 | 18:31
Gamaldags lambarifjur með rótargrænmeti, sveppasósu og splunkunýju íslensku spergilkáli
Þessi réttur telst nú vera nokkuð hefðbundinn samkvæmt flestum mælikvörðum. Engum sérstökum brögðum var beitt við eldamennskuna, ekkert sous vide né öfug steikingaraðferð. Það var þó einn aukaleikari sem sló alveg í gegn í þessari máltíð - þó allir hafi skilað ljúffengu og góðu starfi! Ég tók eftir því í gær þegar ég var að kaupa í matinn, að á miðju gólfi í grænmetisdeildinni var búið að stilla upp stæðu af glænýju íslensku spergilkáli. Ég er mikil unnandi spergilkáls og deili þeim áhuga með börnunum mínum sem taka vel til matar síns þegar það er í boði.
Þessi máltíð var því eiginlega byggð upp í kringum meðlætið. Ég fann líka nýjar íslenskar kartöflur og gulrætur. Þetta er nú eiginlega það sem ég elska við haustið - það er öll ljúffenga uppskeran sem blasir við okkur í lok sumars! Ekki að kjötið hafi valdið vonbrigðum - ég var með lambarifjur og svo gerði ég ljúffenga sveppasósu. Það eru hreinlega aldrei nógu margar uppskriftir með ljúffengri sveppasósu.
Gamaldags lambarifjur með rótargrænmeti, sveppasósu og splunkunýju íslensku spergilkáli
Hráefnalisti fyrir 6 manns
1,2 kg lambarifjur
2 msk jómfrúarolía
kryddblanda að eigin vali (helst heimagerð)
börkur af hálfri sítrónu
salt og pipar
500 g kartöflur
500 g gulrætur
50 g smjör
1 msk hveiti
2 greinar rósmarín
salt og pipar
250 g sveppir
1 gulur laukur
2 hvítlauksrif
50 g smjör
1/2 villisveppaostur
250 ml rjómi
100 ml hvítvín
1/2 tsk dijon sinnep
1/2 tsk rifsberjasulta
salt og pipar
500 g spergilkál
2 hvítlauksrif
2 sneiðar sítróna
2 msk góð jómfrúarolía
safi úr 1/4 sítrónu
25 g parmaostur
salt og pipar
Ég byrjaði á því að skera tígla í lambapuruna. Það eykur yfirborðið og auðveldar marineringunni að komast djúpt inn í kjötið.
Nuddaði kjötið vandlega upp úr jómfrúarolíu. Ég notaði kryddblöndu sem ég útbjó í fyrra í samstarfi við Krydd og Tehúsið - bætti þó saman við hana fínt röspuðum sítrónuberki, salti og pipar.
Skar gulræturnar og kartöflurnar gróflega og steikti í smjöri með fersku rósmaríni, salti og pipar.
Stráði svo örlitlu hveiti yfir - þannig loðir smjörið betur við. Steikti rótargrænmetið áfram í eina til tvær mínútur áður en að ég færði það yfir eldfast mót og setti inn í 180 gráðu heitan ofn í tæpa klukkustund.
Afar ljúffengt - stökkt og bragðmikið að utan og lungnamjúkt að innan.
Ég hef bloggað nokkrum sinnum um sveppasósur á þessum vettvangi. Og það ekkert skrítið - ég elska sveppasósur. Mér finnst þær eiginlega passa með hvaða kjöti sem er.
Þessi varð gerð með nokkuð hefðbundu sniði. Byrjaði á því að skera lauk, hvítlauk og sveppi niður og steikja í smjöri. Bragðbætti með salti og pipar og fersku timjan sem hefur verið að vaxa útí garði í sumar. Steikti í nokkrar mínútur þangað til að sveppirnir fóru að taka á sig fallegan brúnan lit.
Þá var ekkert annað að gera en að hella eins og einu glasi af hvítvíni saman við og sjóða upp áfengið.
Sauð svo vínið niður um rúmlega helming og bætti þá við vatni í pottinn og vænni skvettu af fljótandi lambakrafti. Lét þetta krauma í 10 mínútur eða svo.
Næst á dagskrá var að skera niður um það bil helminginn af villisveppaosti - frekar gróflega og bæta saman við sósuna. Hrærði vel saman við - þannig leysist hann betur upp. Næst rjómi og látið krauma áfram. Að lokum þarf að smakka sósuna til - þá ákveður maður hvort að sinnep og sulta eigi erindi í sósuna, já, eða salta og pipra eftir smekk.
Það er langt síðan að ég sá svona fallegt spergilkál. Dökkgrænt og ilmaði af akri og jörð. Það er um að gera að prófa þetta núna - tímabilið er ekki langt.
Frekar en að sjóða það í söltuðu vatni - ákvað ég að reyna að lyfta því aðeins á stall (bókstaflega). Setti vatn í botninn á stórum potti og skellti tveimur hvítlauksrifjum saman við.
Svo tvær sítrónusneiðar og sigtinu komið fyrir.
Skar spergilkálið niður í helminga og sauð með lokið á í sex til sjö mínútur.
Kom síðan spergilkálinu fyrir á disk og sáldraði parmaosti, sítrónusafa og svo jómfrúarolíu - Olio Principe sem ég fékk gefins um daginn og er einkar ljúffeng. Saltaði og pipraði.
Lambið var svo steikt upp úr miklu af smjöri. Fyrst með puruna niður, og þegar því hefur verið snúið þá er smjörinu ausið yfir með skeið.
Þegar kjötið hefur fengið á sig fallegan lit er því komið fyrir í eldföstu móti og svo bakað í 180 gráðu heitum ofni þangað til að kjarnhiti nær 50 gráðum.
Látið standa í fimm til tíu mínútur áður en það sneitt niður og borið á borð.
Með matnum bar ég fram Trivento Golden Reserve Malbec sem er framleitt í Mendozadalnum í Argentínu. Eins og sjá má myndinni er þetta vín sem notið hefur talsverðar hylli útí í heimi og hlaut Gyllta glasið árið 2018. Og það kemur ekkert á óvart að vínið hafi verið vinsælt. Það er dökkt í glasi, mikil ávöxtur - kirsuber, eik, kaffi á tungu og þrungið eftirbragð. Gaf matnum ekkert eftir!
Þetta var stórkostleg máltið - gamaldags, en sígildar lambarifjur með rjómalagaðri sveppasósu - nýju íslensku rótargrænmeti og svo dúndur spergilkáli sem sló í gegn!
Verði ykkur að góðu!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2018 | 19:51
Seiðandi svínalundir sous vide með gljáðum perum, bökuðum osti og splunkunýjum íslenskum kartöflum
Sumarfríinu fer senn að ljúka og haustið fer að ganga í garð. Og ég er fullur tilhlökkunar, fullur þakklætis fyrir upplifanir sumarsins. Ég hef verið upptekinn bæði við leik og störf. Vinnan hefur verið krefjandi - starfið á spítalanum hefur verið annasamt - mikið af veiku fólki sem hefur þurft aðstoð spítalans sem hefur barist við að veita fullnægjandi þjónustu sökum, þrátt fyrir mikið plássleysi. En þökk sé ótrúlegu starfsfólki sjúkrahúsins höfum við komist hjá stórslysum og veitt, að mínu mati, frábæra þjónustu á afar strembnum tímum.
Í fríunum mínum hef ég sinnt áhugamáli mínu af kappi. Ég hef, eins og fram hefur komið á blogginu mínu, verið önnum kafinn ásamt frábæru tökuliði að því að taka upp sjónvarpsseríu fyrir sjónvarp Símans - Lambið og miðin. Við höfum farið víða - Mývatn, Húsavík, Naustavík, Hveravellir, Hellnar, Búðir, Kirkjufell við Grundarfjörð, Stykkishólmur og Flatey - verið undir Eyjafjöllum, í Bakkafjöru og að lokum í Vestmannaeyjum. Við höfum notið þeirra forréttinda að kynnast ótrúlegum hópi fólks sem elskar íslenskan mat og íslenska náttúru. Ég vona innilega að við komum upplifunum okkar og þeirra sómasamlega til skila. Afraksturinn verður sýndur á næsta vetri.
Þá hef ég líka farið í alvöru frí - fór nokkrar ferðir í sumarbústað foreldra minna í Kjósinni, til Vestfjarða og nú erum við fjölskyldan nýkomin heim úr stórkostlegu fríi í Róm og Toskana. Tengdafaðir minn fagnaði sjötugsafmæli sínu með því að bjóða stórfjölskyldunni í fallegt hús í Alberoro í Toskana þar sem við nutum samvista í vikutíma í dásamlegu veðri.
Nú sit ég á flugvelli og skrifa þessa færslu - en ég er einmitt á leiðinni til Lundar þar sem ég mun sitja kúrs í vísindasiðfræði við háskólann í Lundi.
Þessi uppskrift varð til í einni af ferðum okkar í Kjósina.
Seiðandi svínalundir sous vide með gljáðum perum, bökuðum osti og splunkunýjum íslenskum kartöflum
Hráefnalisti fyrir 10 manns
2 kg svínalundir
salt og pipar
jómfrúarolía
10 perur
50 g smjör
2 msk hunang
handfylli valhnetur
2 msk balsamik edik
1 gullostur
1 stóri dímon
2 hvítlauksrif
2 msk hvítvín
2 msk hvítlaukolía
salt og pipar
1 kg nýjar íslenskar kartöflur
handfylli pæklaðar gúrkur (gherkins)
Ég byrjaði á því að setja Vouto sous vide tækið í gang. Það er gaman frá því að segja að sala þessa tækis gekk vel fyrir jólin í fyrra og í samvinnu við Margt Smátt munum við koma með fleiri vörur á markað fyrir jólin sem verða í boði sem jólagjafir til fyrirtækja. Við ætlum að sjálfsögðu að halda áfram að bjóða upp á þetta tæki, en verðum líka með lofttæmingartæki, svuntu, hníf og skurðarbretti undir mínu merki og Vuoto. Segi meira frá því þegar nær dregur.
Ég stillti tækið á 62 gráður og þannig fást svínalundirnar lungamjúkar og góðar. Ég pipraði þær áður en ég setti þær í poka, lofttæmdi og setti svo í vatnsbaðið í 90 mínútur.
Ég notaði uppáhaldsostana mína í þessa uppskrift, Stóra Dímon sem er ljúffengur blámygluostur ...
... og til að hafa smá jafnvægi þá notaði ég líka einn gullost.
Ég lagði þá í eldfast mót sem ég hafði penslað með hvítlauksolíu. Næst var að gata þá vandlega með gaffli.
Þvínæst hellti ég matskeið af hvítvíni yfir á hvorn ost, tyllti svo hvítlauksrifi ofan á. Svo var auðvitað saltað og piprað. Setti svo álpappír ofan á ostinn og bakaði við 160 gráður í forhituðum ofni í 40 mínútur.
Osturinn bráðnaði saman í dásamlega ilmandi og seiðandi ostasósu.
Næst var að sjóða kartöflurnar í ríkulega söltuðu vatni í 15 mínútur.
Þá var að undirbúa perurnar. Ég bræddi fyrst smjörið og leysti svo hunangið upp í heitu smjörinu. Bætti svo balsamik edikinu saman við og lét krauma við lágan hita í nokkrar mínútur.
Þá bætti ég við handfylli af gróflega söxuðum valhnetum og lét krauma í eina til tvær mínútur í viðbót.
Næst skref var að flysja, helminga og kjarnhreinsa fimm perur og leggja í eldfast mót. Þær voru svo bakaðar í 35 mínútur í 160 gráðu heitum ofni.
Girnilegt, ekki satt?
Með matnum nutum við þessa víns, Ramon Bilbao Reserva frá 2012. Ég tók þátt í að velja þetta vín til innflutnings ásamt nokkrum öðrum vínspekúlöntum. Þetta er ljúffengt vín framleitt úr Tempranillo þrúgum. Það er fallega dökkrautt í glasi, með þéttum ilm af dökkum ávexti, með ljúffengu ávaxtabragði með smá súkkulaðitónum og mildri eik.
Svínalundirnar voru svo teknar upp úr vatnsbaðinu, penslaðar með jómfrúarolíu, saltaðar og pipraðar og svo rétt brúnaðar að utan á blússheitu grilli.
Svo var bara að sneiða lundirnar niður ofan í mannskapinn.
Perurnar lagði ég á beð af fersku íslensku salati.
Amma Lilja og Ragga Lára, yngsta dóttir mín, sáu um að rölta um lóðina og týna saman í fallegan blómvönd sem var settur á mitt borðið.
Svo var bara að njóta. Það er erfitt að lýsa því hversu ljúffengar nýjar íslenskar kartöflur eru þegar þeim er velt upp úr bökuðum osti. Hreint út sagt stórkostlegt.
Þetta var sannkölluð veislumáltíð!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
Matur og drykkur | Breytt 21.8.2018 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.8.2018 | 07:19
Safaríkur þríosta sveitaborgari með stökkum heimafrönskum
Það kemur mér eiginlega endalaust á óvart hversu góð máltíð hamborgarar eru. Bandaríkjamenn eru sannfærðir um að þeir eigi heiðurinn af þessari ljúffengu uppgötvun. En sagan er auðvitað mun lengri. Líklega voru Mongólar fyrstir til að snæða hakkað kjöt í stríðsferðum sínum á þrettándu öldinni. Flestar þjóðir Evrópu hafa líka hakkað kjöt og mótað það í einhverslags bollur. En hver fann upp hamborgarann eins og við þekkjum hann í dag?
Líklega mega Bandaríkjamenn eiga heiðurinn af því. En ennþá er deilt um hver var fyrstur til. Samkvæmt heimildum mun fyrsti hamborgarinn hafa litið dagsins ljós á Louis Lunch í New Haven í Conneticut fylki árið 1895. Þá herma fregnir líka að sami réttur hafi verið borinn á borð í Seymor í Wisconsin. En kannski voru það Menchen bræðurnir sem tróðu kjötbollu á milli tveggja brauðsneiða á bæjarhátíð í Hamburg í New York fylki. Hvað sem um þetta má segja er hægt að halda því fram að hamborgarinn hafi tröllriðið heiminum.
Og ekki skrítið. Þetta er ótrúlega ljúffeng máltíð sé vel staðið að gerð hans.
Safaríkur þríosta sveitaborgari með stökkum heimafrönskum
Ég sótti nautahakkið í Kjöthöllina og fékk þau til að hakka fyrir mig nautaframpart og blanda því saman við nautafitu til að fá fullkomið hlutfall á milli kjöts og fitu. Að mínu mati (og flestra annarra) er best að hafa 80 prósent kjöt á móti 20 prósent fitu.
Hráefnalisti fyrir 6 manns
800 g nautahakk
salt og pipar
tómatar
salat
pæklaðar agúrkur
djion sinnep
majónes
nokkrar sneiðar af;
Havarti
Cheddar
Ísbúa
600 g kartöflur
salt og pipar
Mótaði hamborgarana í 120-150 g bollur og flatti þær vandlega út.
Ég notaði nokkrar tegundir af osti. Fólk fékk auðvitað að velja sjálft hvaða osta það vildi hafa á hamborgarann.
Hver ostur hefur sína eiginleika. Ég notaði að sjálfsögðu alla ostana á minn borgara.
Til að gera eldamennskuna auðveldari þá útbjó ég ostsneiðarnar á disk þannig að þær voru tilbúnar þegar borgaranum var snúið.
Hamborgarinn var eldaður á blússheitu grilli. Ekki gleyma að salta og pipra.
Þegar hamborgaranum var snúið tyllti ég ostinum ofan á þannig að han fengi að bráðna yfir kjötið.
Það er ágætt að leyfa hamborgaranum að hvíla í nokkrar mínútur á meðan brauðið er ristað á grillinu. Svo er bara að byggja upp hamborgarann; Smyrja brauðið með djion og majónesi, tylla grænmetinu bæði undir og ofan á - og byrja að hlakka til.
Kartöflurnar voru skornar í bita og steiktar í heitri olíu þangað til að þær voru stökkar að utan, gullinbrúnar og mjúkar að innan.
Með hamborgarnum bárum við fram ljúffengt rauðvín frá Ástralíu. 19 Crimes er rauðvín frá 2016 og er gert úr blöndu af Shiraz, Grenache og Mataró þrúgum. Vínið ilmar af ávexti, þéttum plómum og hefur svipað bragð á tungu með góðu jafnvægi og þægilegu eftirbragði. Passaði fullkomlega með hamborgaranum.
Verði ykkur að góðu!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 07:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)