Fantagóðar "franskar" lambarifjur með bökuðu tómatsalati og sætum kartöflum að hætti Bryndísar

undirbúningur 

Eins og fram hefur komið á heimsíðunni minni þá fórum við fjölskyldan í heimsókn til Íslands núna í júlí síðastliðinn. Við vorum í langþráðu frí og okkur gafst auðvitað tækifæri að hitta vini og vandamenn. Ísland er best á sumrin. Er ekki íslenska sumarið að lengjast? Svo virðist sem hlýnun jarðar hafi þessar jákvæðu aukaverkanir! Og kannski veitir ekki af, fyrir Frónbúa - sólin lyftir manni upp og lætur manni líða betur. Þegar heim var komið til Svíþjóðar vorum síðan heldur óheppin með veður, skýjað og rigning samfleytt í þrjár vikur með einstaka undantekningum. En maður lætur svoleiðis ekkert svekkja sig. 

Við náðum að hitta bestu vini okkar í heimsókninni og þar á meðal æskuvin minn, Sverri Norðfjörð, og eiginkonu hans Bryndísi og strákana þeirra, Hákon og Pétur. Þetta var einkar ljúft kvöld. Bryndís sá um matargerðina og Sverrir sá um að fylla á glösin. Ég hef oft nefnt það hversu góður kokkur Bryndís er - og við vorum alls ekki svikin í þetta skiptið - aldeilis ekki! Þetta var svo góður réttur að ég reyndi að leika hann eftir eins vel og ég gat fyrir mömmu og pabba þegar þau komu síðan í heimsókn til okkar til Lundar í byrjun ágúst. 

Þessi meðferð á rifjunum er almennt kölluð frönsk aðferð til að meðhöndla lambahrygg. Þá varðveitir maður meira af sjálfum rifjunum. Maður sker burtu hluta af síðunni af og hreinsar síðan kjötleifar af rifjunum þannig að beinin standi út. 

Þetta hefur ekki mikil áhrif á lokaniðurstöðuna - kannski verður hryggurinn safaríkari? Eitt er nokkuð víst að rétturinn verður ansi tignarlegur fyrir vikið. Myndbandið hérna fyrir neðan, í boði www.cooking.com, sýnir ágætlega hvernig maður ber sig að - nema það myndi aldrei hvarfla að mér að skera svona mikið af fitunni frá - enda hefur fitan mikil áhrif á bragðið. Að mínu mati væri það skynsamlegra að hreinsa fituna frá eftir að maður hefur eldað lambið, þá hefur hún að minnsta kosti þjónað tilgangi sínum ... maður á svo við samvisku sína hvort maður ákveður að gæða sér á henni. Það þyrfti allavegana ekki að spyrja móður mína tvisvar sinnum hvort maður ætti að kasta fitunni eða borða hana!

 

Fantagóðar "franskar" lambarifjur með bökuðu tómatsalati og sætum kartöflum að hætti Bryndísar 

Eins og kom fram í innganginum þá var það Bryndís sem eldaði þennan rétt - og ég kom hvergi nærri. Ég stóð hliðina á Sverri þegar hann skar niður kjötið og horfði á með aðdáunaraugum þegar maturinn var undirbúinn. Ég passaði einna helst upp á að verða ekki þurrbrjósta á meðan aðrir unnu hörðum höndum í eldhúsinu. 

SverrirogBryndís 

Fyrst voru rifjurnar þrifnar og þurrkaðar. Þá voru þær saltaðar og pipraðar og síðan brúnaðar að utan á heitri pönnu, rétt til þess að loka kjötinu. Þá voru þær settar til hliðar á meðan næstu skref voru undirbúin. 

kryddhjúpur 

Kryddblandan var búin til úr handfylli af nýrifnum parmaosti, hvítlauksrifi, handfylli af brauðmylsnu, handfylli af steinselju, basil og fersku timian og svo salti og pipar sem var allt hakkað saman í matvinnsluvél þangað til að það varð að fallegri heiðgrænni mylsnu sem ilmaði dásamlega. 

sinnep 

Næst var síðan að smyrja lambarifjurnar með sinnepi.

lambahjúpur 

Og síðan velta þeim upp úr mylsnunni.

lambarifjur 

Þá var þeim raðað í eldfast mót og þær bakaðar við 200 gráðu hita þangað til að kjarnhitinn náði um 65 gráðum.

 bakað salat

Með matnum bar Bryndís fram þetta ljómandi góða bakaða tómatsalat, sem var heit útgáfa af ítalska tricolore, þykkar sneiðar af tómat, lauk, mozzarellaosti, salt, pipar, basillauf og nokkrar greinar af timian. Þá var hún einnig með ofnbakaðar sætar kartöflur sem hafði verið velt upp úr jómfrúaroliu, saltaðar og pipraðar og svo bakaðar í ofni þangað til mjúkar. 

lambarifjur 

Svo gerði hún einfalda hvíta sósu úr sýrðum rjóma, muldu hvítlauksrifi, skvettu af sírópi, niðurskornum gúrkubitum, salti og pipar. Ljúffengt.

 niðurskurður 

Með matnum drukkum við meðal annars þetta prýðisgóða Trivento Tribu Pinot Noir frá því 2010. Ég varð nánast heilaþveginn af myndinni Sideways sem var vinsæl hér um árið - en aðalpersóna þeirrar myndar, Miles, hélt mikið upp á Pinot vín en fyrirleit Merlot, af einhverri einkennilegri ástæðu. Þetta vín er dökk rúbinrautt í glasi. Léttur ilmur af plómum og berjum. Ágætt fylling og aðeins eikað í lokin. Þetta er ágætis vín og mér fannst það passa ljómandi vel með matnum.

væna flís af feitum sauð 

Bon appetit. 


Kraftmikið pasta penne með ljúfengri eggaldin- og tómatsósu

Það hefur verið erfitt að byrja að vinna aftur eftir langt sumarfrí. Ég er búinn að vera í heilar fimm vikur í leyfi. Ég hef aldrei tekið svona langt frí áður. Venjuega hef ég notað tækifærið og unnið einhvers staðar annars staðar, út í sveit, svona rétt til að hysja upp tekjurnar aðeins - og eiga fyrir lífsins lystisemdum. En að þessu sinni ákvað ég að núna muni maður njóta sumarsins. Og maður er aldeilis búinn að hafa það gott - alltof lengi. Og ég held að það sé þess vegna sem maður hefur verið heldur lúinn síðastliðna daga. Ég veit hreinlega ekki hvort að ég muni leggja í að fara í svona langt frí aftur, ætli ég taki mér ekki styttri frí næsta sumar í nokkrum lotum. 

Jæja, að matnum. Þessi réttur var innblásinn úr einni af matreiðslubókum Marcellu Hazan, sem oft hefur verið eignað að hafa kynnt alvöru ítalska matargerð fyrir Bretum og Bandaríkjamönnum. Hún gaf út nokkrar bækur en bókin sem við eigum heitir, Essentials of Classical Italian Cooking, og kom út árið 1992. Þessi bók er auðvitað alger klassíker. Besta Spaghetti Bolognase sem eldað hefur verið á þessu heimili var elduð af bróður mínum upp úr þessari biblíu ítalskrar matargerðar. 

Þessi uppskrift, sem er til umfjöllunar að þessu sinni, er lítið annað en tómatsósa "with a twist". En þessi snúningur sem verður til við að bæta steiktu eggaldini við réttinn kúvendir honum algerlega. Ég hef í gegnum tíðina aldrei verið neitt sérstakur aðdáandi eggaldins. En eftir að hafa lesið aðeins meira um þetta einkennilega bjúglaga fyrirbæri hefur skoðun mín á því líka breyst. Ég hafði augljóslega ekki kunnað að elda eggaldin - alltént ekki þannig að mig langaði til að borða það aftur. En eftir að ég fór að steikja hann í ríkulegu magni af olíu þangað til að það verður gullin brúnt, þá umbreytist eggaldinið algerlega. Það fær djúpt, ríkulegt og jafnvel dálítið heitt bragð. Ég hvet alla til að prófa þessa sáraeinföldu uppskrift, hún er algerlega gómsæt.

 heimagerður serviettuhringur

Á meðan við föndruðum í eldhúsinu bjó Valdís, dóttir mín, til nokkra laglega servíettuhringi.  

 Kraftmikið Pasta penne með steiktu eggaldin- og tómatsósu

eggaldin 

Fyrst er að huga að því að gera tómatsósuna. Eins og kom fram þá er hún afar einföld. Fyrst er að skera niður smátt heilan hvítan lauk, nokkur hvítlauksrif og steikja í 3-4 msk jómfrúarolíu við lágan til miðlungs hita þangað til hann er lungamjúkur og ljúffengur (þarna væri möguleiki að skvetta smá rauðvíni á pönnuna óski maður þess - en ég gerði það ekki). Svo setti ég tvær dósir af góðum ítölskum niðursoðnum tómötum saman við og leyfði hitanum að koma rólega upp. Auðvitað er saltað og piprað ríkulega. Niðursoðnir tómatar eru auðvitað misjafnir að gæðum - sumir súrir og aðrir sætir. Fyrir þá sem lenda í því að vera bara með súra tómata er auðvitað lítið mál að redda því með því að setja smá sykur saman við sósuna. Við bættum síðan handfylli af basillaufum við í lokin og leyfðum sósunni að malla á lágum hita á meðan hugað var að eggaldinum. 

DSC_0507 

Eggaldinið var skorið niður í sneiðar og lagt á pappír. Salti var sáldrað yfir og svo fékk eggaldinið að svitna talsvert áður en það fór á pönnuna. Vökvinn dregst í eldhúsbréfin. Panna er sett á eld og kannski hálfum sentimetra af olíu sett á pönnuna - hérna má nota bara venjulega jómfrúarolíu. Eggaldinið er síðan steikt á báðum hliðum þangað til gullinbrúnt.

gullinneggaldin 

Það er dáldið gaman að fylgjast með þessu steikjast á pönnunni (ég veit, I am a foodnerd!). Fyrst tekur maður eftir því hvernig eggaldinið sogar í sig olíuna (og maður fær mórall) en svo tekur maður gleði sína á nýjan leik þegar maður sér að það lætur frá sér olíuna á nýjan leik þegar það er tilbúið. Þannig að þegar það er jafnmikið af olíu á pönnunni og þegar maður byrjaði - þá er eggaldinið tilbúið. Tekið af pönnunni og lagt á eldhúsbréf. Skorið niður í heldur smáa bita og blandað saman við tómatsósuna. 

eggaldinstómatsósa 

a mano

Með matnum vorum við með einfalt salat; bara grænt salat úr garðinum, papríka, gúrka, steinselja og nokkrar svartar kalamata olífur - smávegis af brauði og svo auðvitað penne sem var bara soðið eftir leiðbeiningum í söltu vatni þangað til "al dente". Þegar pastað er tilbúið er sósunni hrært saman við og svo reif ég nóg af parmaosti yfir. 

Með matnum fengum við okkur bara smáræði af þessi ágæta ítalska víni. A Mano Primitivo frá því 2007. Þetta vín er á góðu verði hérna í Svíþjóð. Þetta vín er frá Apulien sem er rétt fyrir utan Taranto, sem er á skaga rétt sunnan við miðju Ítalíu. Þetta er ágætt vín - kraftmikið - mjög dökkt í glasi, ilmar af miklum ávexti. Ljúft á bragðið, tannín og með löngu eftirbragði.

 meðpasta

Bon appetit!  

 


Dásamleg ítölsk pott-steik með kartöflumús, tómatsalati og góðu rauðvíni

Það var snemma í seinustu viku að ég ákvað að elda þennan rétt. Af einhverri ástæðu fór ég að rifja upp ferðalag til Boston sem ég og Snædís fórum í árið 2005. Þá var Snædís ólétt af stráknum okkar, honum Vilhjálmi Bjarka sem varð sex ára í síðustu viku. Á því ferðalagi fórum við á nokkra ágæta veitingastaði, m.a. ítalska veitingastaðinn Maggiano's Little Italy sem er við Colombus Avenue. Við rötuðum þarna inn snemma á sunnudagskvöldi og fengum ágætis borð. Þetta er huggulegur staður með dökkum viðarinnréttingum og rauðköflóttum dúkum á borðum. Okkur var færð brauðkarfa sem hefði náð að seðja hungur í meðalstóru þorpi í þróunarlöndunum - dísus! Efst á matseðlinum var í boði "All Authentic Italian Pot Roast - only on Sundays". Og auðvitað varð ég að prófa þetta - en ekki hvað?

DSC_0089 

Og ég var ekki svikinn! Bragðið var djúpt og arómatískt...og svínakjöt er stundum bara alveg fullkomið. Bragðið af svínakjöti getur oft orðið alveg frábært, sér í lagi feitir bitar, sem hafa verið eldaðir lengi. Fitan einhvern vegin eldast burtu en skilur eftir kjötið - meyrt - þannig að það bráðnar undir tönn. Og þessi réttur er þannig. Hann er fullkominn fyrir bita eins og svínahnakka - vel fitusprengdan. Svoleiðis biti passar vel fyrir langa eldun við lágan hita. 

 Sumir myndu halda því fram að svona réttir sé matur sem passar best fyrir köld vetrarkvöld. Og það er vissulega rétt. Það hefur samt verið svo ári haustlegt upp á síðkastið. Sumarið hefur verið heldur dapurlegt svona "veðurfræðilega" séð. Það hefur verið skýjað, rignt meira en góðu hófi gegnir og verið hvasst af og til. Ekki að undra að maður sé farinn að hugsa um haustið sem venjulega hefur ekki látið á sér kræla fyrr en um miðjan september í fyrsta lagi...allavegana síðan að við fluttum hingað. Og þess vegna eldar maður svona dásamlegan rétt. Endilega prófið þennan, ég lofa að hann á ekki eftir að svíkja! 

 Dásamleg ítölsk pott-steik með kartöflumús, tómatsalati og góðu rauðvíni

DSC_0090 

Þetta er réttur sem maður byrjar að elda um miðjan dag og þarf síðan ekkert að huga að aftur fyrr en um kvöldmatarleytið. Bara gleyma matnum í ofninum við lágan hita og huga að öðru hverju á meðan.

DSC_0094 

Fyrst er að gera að grænmetinu. Skera niður heilan hvítan lauk, 3-4 stæðilegar nýjar gulrætur, 2-3 sellerístangir, 5-6 hvítlauksrif og síðan hálfan fennelhaus, skera allt heldur gróft niður.

Síðan er að þurrka 1,5 kg af beinlausum grísahnakka að utan (þá karmelliserast hann betur) og síðan salta og pipra og nudda svo smá hveiti í kjötið. Þá er að hita olíu í stórum potti og þegar fer að rjúka úr pottinum er steikin sett í pottinn og steikt við háan hita til að loka henni. Lokuð á öllum hliðum. Sett til hliðar.

DSC_0096 

Þá er hitinn lækkaður og smáræði af olíu er bætt í pottinn og grænmetinu skellt útí og steikt í nokkrar mínútur. Salta og pipra smávegis til þess að hjálpa til að draga vökva úr grænmetinu og losa "fondinn" sem varð til við steikingu á kjötinu og situr oft fast við botninn eða hliðarnar á pottinum. Grænmetið er steikt þangað til mjúkt og þá er kjötið sett aftur í pottinn.

Þá hellir maður tveimur dósum af niðursoðnum tómötum saman við, jafnmikið af vatni, 400 ml af rauðvíni, smávegis af kjötkrafti og hrært saman. Síðan setti ég 2-3 greinar af rósmaríni og 5-6 greinar af timiani út í pottinn. Lokahnykkurinn var að setja nokkra Karljóhann sveppi saman við. Þeir höfðu verið þurrkaðir fyrir nokkrum vikum (settir í skál - sjóðandi vatn saman við og látið standa í 30 mínútur) og þegar þeir hafa þanist eilítið út í vatninu er því bætt í pottinn (bæði sveppunum og vökvanum). Hrært saman, saltað og piprað og suðunni leyft að koma upp - og soðið í nokkrar mínútur. Þá er potturinn settur í forhitaðan 120-130 gráðu heitan ofn og látið vera þar í 3-4 tíma. 

DSC_0097 

Kjötið verður algerlega lungamjúkt við þessa meðferð og nánast dettur í sundur þegar það er tilbúið. Þegar komið er að kvöldverðartíma er kjötbitinn færður á disk og leyft að hvíla í nokkrar mínútur á meðan sósan er smökkuð til og soðin aðeins niður til að þykkja hana - kannski í 10 mínútur. Það þurfti ekki að gera mikið við hana þar sem hún var núna orðinn kraftmikil með eindæmum og einstakega ljúffeng.

DSC_0098 

Við sóttum nokkrar kartöflur út í garð. Þær voru þrifnar, flysjaðar og svo soðnar í ríkulega söltuðu vatni þangað til mjúkar. Þá var vatninu hellt af. Því næst voru þær stappaðar, saltað og piprað, smá smjörklípa og mjólk bætt saman við og hrært vel vel saman.

DSC_0104 

da vinci

Við gerðum þetta sáreinfalda tómatsalat með blönduðum fallegum smáum tómötum sem við höfðum keypt á markaðnum um morguninn. Við keyptum kannski 5-6 tegundir af tómötum, sem við skárum niður í helminga og settum í skál. Gerði smá dressingu úr balsamikediki, jómfrúarolíu, salti og pipar og sáldraði yfir. Blandaði síðan handfylli af ferskri niðurskorinni steinselju og basil saman við.

Með matnum drukkum við gott ítalskt rauðvín frá Toskana héraði. Da Vinci Chianti frá 2008 varð fyrir valinu í þetta sinnið. Þetta vín er gert úr blöndu af Sangiovese þrúgum (90%) og svo Merlot þrúgum sem fær síðan að liggja á eikartunnum í hálft ár. Vínið er fallega rúbinrautt. Ilmar af plómum og vínberjum. Mjúkt á tungu með smávegis tannínum og ljúfu eftirbragði. Passaði ákaflega vel með matnum að mér fannst.

DSC_0106 

Bon appetit.  

 

 


Allt í steik! Kolagrilluð langhangin nautasteik með kryddsmjöri, heitu sveppasalati og kartöflugratíni

undirbúningur 

Ég var í gærkvöldi við það að birta færslu um kantarellur og nýfundna ást mína á þessum dásamlega svepp þegar að vinnutölvan mín lagði upp laupana. Bara dó - bar fyrir sig að hún gæti ekki fundið harða diskinn. Déskotans tölvur. Ég flippaði auðvitað eins og mér einum er lagið. Hafði ekki bakkað upp tölvuna í tæpar þrjár vikur og sá því fyrir mér að að hluti af rannsóknargögnunum mínum sem og sumarleyfismyndirnar væru fyrir bí. Í morgun hafði ég síðan samband við tölvugaurinn - sem sagði mér að það væri alltaf hægt að bjarga þessu. Mér létti stórkostlega! 

Ég hafði þó haft vit á því að bakka upp gögnin mín fyrir nokkrum vikum þannig að að tapið er ekki stórkostlegt - en það er alltaf fúlt að lenda í svona. Sér í lagi þegar forvörnin er svo einföld! Jæja, maður lærir svo lengi maður lifir. Er ekki nær að snúa sér að matnum.

Í einni af hverfisbúðunum hefur hangið nautakjöt sem hefur verið hengt upp á mismunandi tímapunktum síðan í vor. Glæsilegir nautahryggir og lundir hafa fengið að hanga í þar til gerðum skáp í að minnsta kosti 10 vikur. Niðurstaðan var vægast sagt girnileg. Kjötið hefur fengið á sig dökkan og fallegan lit og leit afar spennandi út. 

nautakjöt 

Allt í steik! Kolagrilluð langhangin nautasteik með kryddsmjöri, heitu sveppasalati og kartöflugratíni

Það góða við að grilla steik er að svona matseld er einföld - en þó er auðvelt að klúðra henni. Helstu mistökin felast í því í að ofelda steikina. Slíkt er að mínu mati bannað. Oft er talað um þrjár leiðir til að elda steik; rare, medium rare og svo ruined (ónýtt!). Fátt er ógirnilegra en að tyggja einhvern skósóla!

kryddsmjör 

Fyrst var að huga að því að gera kryddsmjörið. Ég hafði keypt smjör í Frakklandi sem ég hafði ætlað í svona hlutverk - franskt smjör með grófu sjávarsalti, namminammi. Fyrst var að láta 100 gr af smjöri ná herbergishita, bæta við smátt skornum berki af hálfri sítrónu, 2 smátt skornum hvítlauksrifjum, smávegis af smátt saxaðri sítrónumelissu og steinselju og svo auðvitað nýmöluðum pipar. Þessu er síðan hnoðað saman og svo rúllað út í pylsu, sett í álpappír og inn í kæli. 

gratín 

Síðan er að huga að því að gera gratínið - sem að þessu sinni var alveg klassíkt. Kartöflurnar voru skornar næfurþunnt niður í matvinnsluvél. Raðað í eldfast smurt mót. 300 ml af matreiðslurjóma hellt út á, salt, pipar, smávegis af nýmuldum negul. Svo setur maður auðvitað ost ofaná. Bakað í ofni, 180 gráðu heitum, í tæpan klukkutíma - jafnvel fimm korter. 

 sveppir

Áhugi minn á sveppum hefur stóraukist seinustu vikurnar - það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem kíkir á bloggið mitt. Þetta er ekki villisveppasalat - allt fengið úr búð - enda var þessi máltíð elduð áður en að sveppatímabilið byrjaði.

 sveppasalat

Hita grill - blússhita! Grilla fyrst sveppina - blöndu af venjulegum hvítum sveppum, skógarsveppum og svo portobellosveppum. Salta og pipra auðvitað og setja síðan til hliðar á grillinu. 

grillað

Steikurnar eru penslaðar með olíu, saltaðar og pipraðar og síðan eldaðar í 1-2 mínútur á hvorri hlið, allt eftir þykkt steikanna og svo hita grillsins. Látnar standa í nokkrar mínútur undir álpappír til að jafna sig áður en maður gæðir sér á þeim. 

matur 

montecillo

Á meðan steikurnar hvíla er um að gera að klára að gera heita sveppasalatið. Sveppunum er blandað í skál, safa úr hálfri sítrónu settur yfir, smá lögg af góðri jómfrúarolíu, saltað og piprað og svo er nokkrum matskeiðum af niðurskorinni steinselju blandað saman við.

Með matnum fengum við okkur rauðvín. Að þessu sinni varð fyrir valinu vín frá Spáni - Montecillo Gran Reserva frá því 2003. Vínið er dálítið rústrautt í glasi, ansi kröftugur ilmur, ber. Bragðið er einnig kröftugt, dáldið kryddað með löngu og góðu eftirbragði. 

Kjötið var hreint út sagt afbragð. Meyrt og bragðmikið. Ég var feginn að hafa ekki verið með þunga sósu - kjötið fékk að njóta sín á þennan hátt betur en ella. 

letseat! 

Bon appetit! 


Sumarveisla; Insalata Tricolore með heimagerðum mozzarella í forrrétt og pönnusteiktur kjúklingur með nýjum kantarellum


norway.gif

Maður hefur auðvitað eins og allur heimurinn horft dofinn af hryllingi yfir því sem átti sér stað föstudagseftirmiðdaginn þann 22. júlí í Noregi síðastliðinn. Að svona atburðir skulu geta átt sér stað í Noregi er erfitt að skilja! Maður fyllist þó lotningu og von þegar maður horfir á viðbrögð Norðmanna við þessum skelfilega atburði - hvernig þeir hafa staðið saman og sýnt að svona ofbeldi mun ekki brjóta þá á bak aftur. Ég mun aldrei gleyma setningu sem var sögð í kjölfarið - "Om en man kan visa så mycket hat, tänk hur mycket kärlek vi alla kan visa tillsammans" - Og þeir sýna kærleikann í verki. Lífið verður auðvitað að halda áfram. Við verðum að efla lýðræðið, opna okkar samfélög og tala gegn því hatri sem Norðmenn, kannski við öll, urðum fyrir. 

Við höfum verið í sumarleyfi saman hérna í sunnanverðri Svíþjóð. Við erum búin að vera saman í sumarfríi síðan í byrjun júlí. Við höfum tekið því all rólega - ætluðum að njóta veðurblíðunnar sem vanalega er á þessum tíma árs. En veðrið hefur ekki beint leikið við okkur. Það hefur eiginlega verið skýjað og rignt stanslaust seinustu vikurnar - með tilheyrandi gleði. Einhver veðurfræðingur sagði í sjónvarpinu núna á föstudagskvöldið að Lundur hefði fengið versta sumarveðrið í júlí. Og ekki ljúga veðurfræðingar - sama hvað Bogomil Font og Flís hafa um þau mál að segja.

emilogyda.jpg

Við höfum reynt að vera dugleg. Ég fór pílagrímsför til Kaupinhafnar í uppáhaldsbúðina mína, hwl.dk, sem selur græjur í eldhúsið og verðlaunaði mig fyrir að hafa verið tvær vikur í héraði. Við hjónin erum að reyna að læra á línuskauta með Valdísi dóttur okkar. Við fórum með tengdamúttu á Ales steinanna við Kåseberga, fengum gamla vini okkar, Rakel og Zúnka í heimsókn, fórum með krakkana í skemmtigarðinn í Bakken, og svo brugðum við okkur til Smálandanna, með ömmu Lilju og afa Ingvari, í seinustu viku og skoðuðum garð Astridar Lindgren. Mér fannst hann alveg stórkostlegur. Þegar maður hefur vaxið upp við bækurnar hennar var meiriháttar að fá að ganga í gengum Þyrnirósargarð frá Kirsuberjadal. Skoða Mattíasarkastala og sjá Ronju og Birki leika sér í skóginum. Ég held að ég hafi skemmt mér jafnvel og grísirnir mínir! 

kantarella.jpg

Ég hef líka reynt að sinna eldhúsinu mínu eftir fremsta megni sem og nýja áhugamálinu mínu, sveppatýnslu. Ég hef reykt beikon, plokkað kantarellur og karljóhann sveppi, gert kjúklingasoð, tekið upp kartöflur, sinnt garðinum, tekið til í bílskúrnum, sett saman nýtt Weber grill, eldað á hverju kvöldi. En hef samt verið latur að blogga - en það stendur allt til bóta. 

Já, og meðan ég man; Mig langar líka til að nota tækifærið og óska eftir athugasemdum. Fátt gleður manns heimska hjarta meira en þegar lesendur skilja eftir athugasemdir, vangaveltur eða spurningar um matinn eða eigin uppskriftir. Mér þætti vænt um að fleiri myndu skilja eftir nokkur orð hérna á síðunni minni.

Sumarveisla; Insalata Tricolore með heimagerðum mozzarella í forrrétt og pönnusteiktur kjúklingur með nýjum kantarellum

valdistricolore.jpg

Ég og Valdís höfum lengi ætlað að búa til mozzarellaost. Einhver hvíslaði því að okkur að slíkt væri ákaflega einfalt. Og það reyndist alveg hárrétt. Ég pantaði hráefni (sítrónusýru og ostasalt - ekki joðsalt) og bók frá www.cheesemaking.com. Fyrst setti ég 3,5 lítra af nýmjólk í pott og bætti saman við 1,5 tsk af sítrónusýru (leyst upp í 100 ml af vatni) og hrærði vel saman. Hitaði síðan upp í 32 gráður. Þá bætti ég við 1/4 töflu af rennet, uppleystri í 70 ml af vatni, og blandaði varlega saman við. Lét síðan blönduna standa í 5-10 mínútur og síðan skar í sundur osta"curdinn" og hitaði svo aftur upp, núna í 40 gráður. Hrærði saman og núna sér maður að osturinn hefur skilið sig frá "whey-inu". Osta-curdinn er síðan veiddur upp úr vökvanum og settur í skál. Vökvanum er hellt að mestu frá. Ég valdi síðan að setja ostinn í örbylgjuofninn í eina mínútu, hnoða síðan ostinn, hella vökvanum sem skilst frá úr skálinni. Endurtók þetta tvisvar sinnum, en hitaði ostinn minna í hvert sinn - 30 sek. Þegar osturinn fer að teygjast án þess að slitna er hann tilbúinn. Settur inn í kæli. Ég gerði ostinn nákvæmlega eftir leiðbeiningum Ricki Carroll - sem sýnir sína aðferð í vídeoinu hérna fyrir neðan.

Osturinn var síðan skorinn niður í þykkar sneiðar og raðað ofan á þykkar sneiðar af tómötum og svo skreytt basillaufi. Góðri jómfrúarolíu sáldrað yfir, smá balsamikedikskremi og svo auðvitað saltað og piprað. 

tricolore_1101318.jpg

Kantarellurnar höfðum við týnt um morguninn í skógunum í kringum Sjöbo sem er á miðjum Skáni. Þar fundum við bæði kantarellur og kóngssveppi og nokkra aðra skilda pípusveppi. Við vorum ansi stolt af veiðunum. 

 kantarellur_1101320.jpg

Við fundum að minnsta kosti 2 1/2 líter af fallegum stórum kantarellum.

karljohan.jpg

Og svo nokkrar tegundir af pípusveppum - Nokkra geysistóra karljóhann sveppi. Stærðina má sjá af pennanum á myndinni.

 brunsopp_1101323.jpg

Nokkra - Boletus Badíus (brunsopp á sænsku).

 sandsopp.jpg

Og einnig nokkra sandsoppa (sandpíplusvepp? - á latínu Suillus variegatus) 

Ég er búinn að vera að lesa um sveppatýnslu í nokkrum bókum - The Complete Mushroom Book eftir Antonio Carlucci, Mushrooms eftir John Wright og tilheyrir bókaseríu The River Cottage Handbooks og svo hef ég einnig stuðst við forrit í símanum sem ég keypti og kallast Svampguiden. Ég þekki núna fjóra sveppi með nokkru öryggi sem ég hef týnt mér til matar og hafa smakkast dásamlega. Fái einhver innblástur til sveppatýnslu af þessum lestri - þá þarf alltaf að fara varlega. Það er til heill hellingur af eitruðum sveppum sem ber að varast. 

 kantarelluraponnu.jpg

En víkjum nú aftur að matargerðinni. Fyrst var að hreinsa kantarellurnar og skera niður lítillega - en þó mikilvægt að hafa ágæta bita, þannig njóta sveppirnir sín betur. Steikti smátt skorinn lauk, ásamt nokkrum smátt skornum hvítlauksrifjum í smá olíu á miðlungs heitri pönnu. Bætti síðan sveppunum saman við og steikti þangað til að þeir voru mjúkir. Saltaði og pipraði. Lagði til hliðar. 

kjuklingur_1101326.jpg

Tók nokkrar kjúklingabringur og lamdi út þangað til að þær voru um 1,5 sentimetra þykkar. Saltaði og pipraði og raspaði góðu lagi af parmaosti yfir. Steikti síðan á pönnu upp úr klípu af smjöri/olíu í fimm mínútur á hvorri hlið. Þegar kjúklingurinn var eldaður var hann lagður til hliðar í volgan ofn á meðan haldið var áfram með sósuna sem gerð var á pönnunni. Smávegis hveiti var hellt á pönnuna og hrært í til að búa til roux (smjörbollu), síðan skvettu af hvítvíni - sauð niður áfengið, svo bætti ég við 2-3 dl af nýju heitu kjúklingasoði á pönnuna og hræðri saman. Sveppunum var hellt út á pönnuna, 2-3 dl af rjóma, saltað og piprað. Soðið upp, smakkað til og bragðbætt eins og smekkur manns segir til. Síðan er kjúklingabringunum aftur bætt útí - hitað í gegn og borið fram í pönnunni.

isosunni.jpg

Með matnum vorum við einnig með nýjar kartöflur úr garðinum sem við höfðum tekið upp saman daginn áður. Það er meiriháttar, finnst mér, hvað grísirnir mínir höfðu gaman að því að taka upp kartöflurnar með mér.

_kartoflur.jpg

Kartöflurnar voru soðnar í söltuðu vatni í sex mínútur. Síðan settar í ofnskúffu með heitri andafitu og steiktar í smá stund, saltað og piprað og síðan sett inn í 200 gráðu heitan ofn í 30 mínútur. 

 salat_1101329.jpg

Með matnum gerði Valdís dóttir mín þetta fallega salat. Græn salatlauf úr garðinum, rauðar papríkur, vínber, rauðlaukur og svo niðurskorinn heimagerður mozzarellaostur. Smá olía, salt og pipar og balsamedik.

maturabor_um-1.jpg

Við drukkum gott vín með matnum. Terrazas de los Andes Malbec Reserva frá því árið 2008 sem er argentískt vín. Þetta vín er dökkt í glasi. Talsverður ávöxtur og krydd í nefið sem kemur líka fram í bragðinu. Gott eftirbragð - jarðbundið og langt. Gott vín sem er líka ágætt á veskið. 

Bon appetit!


Dásamleg nauta prime-ribroast með furusveppasósu, brokkáli með gráðaosti og heilbökuðum kartöflum

 Eilífsdalur

Jæja - þetta verður síðasta færslan frá Lækjarkoti að sinni, því verr og miður. Þetta voru dásamlegir dagar í fallega Lækjarkotinu. Við vorum líka einkar veðurheppin, fengum íslenskt sumar rétt fyrstu dagana, en svo þegar komið var í Kjósina leit sólin fram úr skýjunum og dvaldi þar með okkur allan tímann. Og fátt er betra en íslensk sumarnótt, að sitja í heita pottinum og horfa út á spegilslétt Meðalfellsvatnið. Og halda svo veislur - mitt uppáhald.

Eins og kom fram í síðustu færslum vorum við með fullt hús gesta nær allan tímann. Og það var frábært. Þetta laugardagskvöld var engin undartekning - við vorum sennilega 12 fullorðin við borðið auk barna. Húsið var fullt af gleði, mat og góðum vínum. Svona eiga laugardagskvöld í sveitinni að vera.

Fórum og sóttum kjötið að Hálsi (http://hals.is/) sem er í Kjósinni. Þar reka ábúendur, Þórarinn og Lisa,  litla verslun þar sem hægt er að kaupa vörur sem eru unnar á bænum, bæði nautakjöt og svo ýmsar sultur og fleira góðgæti sem húsfreyjan útbýr. Þetta er falleg lítil sveitaverslun og gaman að sjá að svona fyrirtæki þrífist. Hvet fólk til að líta þarna við.  

á gítar 

Dásamleg nauta prime-ribroast með furusveppasósu, brokkáli með gráðaosti, heilbökuðum kartöflum

furusveppir 

Við fengum nokkur nautabein með steikunum okkar sem við notuðum í að undirbúa soðið fyrir sósuna. Fyrst var að nudda beinin með olíu, salta og pipra og svo setja á grillið við óbeinan hita í nokkrar mínútur til að brúna þau. Síðan var bara gert eins og á að gera, steikja gróft skorinn lauk, tvær sellerísstangir, tvær gróft skornar gulrætur og nokkur hvítlauksrif í olíu með salti og pipar þar til mjúkt. Þá er að bæta við beinunum og svo setja vatn þangað til að það flýtur yfir beinin. Nokkur lárviðarlauf og láta suðuna koma upp. Þegar hitinn eykst fer brúnlituð froða að birtast á yfirborðinu - allir púritanar myndu fleyta henni ofan af sem ég og gerði. Hvað gerist geri maður þetta ekki er erfitt að segja - en soðið yrði gruggugra en ella - en hvort að það hefði áhrif á bragðið verða gáfaðri menn en ég að greina frá um. 

sveppir 

Svo var bara að sjóða beinin eins lengi og tími leyfði og síðan að sjóða vökvann niður um sjötíu prósent. Sía soðið og leggja til hliðar. Pabbi og mamma áttu furusveppi sem æskuvinur pabba, Diddi fiðla og kona hans Ásgerður, höfðu tínt í Borgarfirðinum. Þau höfðu þurrkað þá þannig að þá þurfti að bleyta í þeim með heitu vatni. Leiðbeiningar kveða á um að maður eigi síðan að henda vatninu - en slíkt finnst mér fásinna, þannig að það fékk að blandast soðinu. Til að drýgja sveppina hafði ég einnig keypt nokkra sveppi sem ég skar niður þunnt. Steikti sveppina upp úr smjöri ásamt furusveppunum.

 kjöt

Næsta skref var að búa til smjörbollu; 90 gr af smjöri, jafnmikið af hveiti hitað í potti og svo var soðinu hellt saman (1 1/2 lítra) við og hrært stöðugt. Sveppunum var bætt saman við og suðan látin koma upp. 250 ml af rjóma var síðan bætt saman við, saltað og piprað. Soðið niður í nokkrar mínútur þangað til að að sósan var þykk og falleg.

ágrillinu

Það þurfti ekki að gera mikið við nautakjötið. Það var nuddað upp úr jómfrúarolíu, salti og pipar og svo látið hvíla á meðan að kolin á tunnugrillinu hans föður míns hitnuðu. Steikurnar voru síðan grillaðar í 2 mínútur á hvorri hlið þangað til að þær voru eldaðar eins og best er (að mínu mati) - medium rare. 

af grillinu 

 Ef þetta er ekki girnilegt þá veit ég ekki hvað!

 pabbimeðbrokkál

Við suðum brokkál stutta stund, en það var splúnkunýtt frá Frú Laugu á Laugalæk (fann búðina á Facebook), í söltuðu vatni. Þá bjuggum við til einfalda ostasósu - bita af Ljúflingi, bita af blámygluosti, skvettu af rjóma og dálitlu (!) smjöri; sett á eld þangað til að osturinn var bræddur.

brokkálssósa 

Brokkkálið var svo sett í eldfast mót og svo var ostasósunni hellt varlega yfir. Saltað vel og piprað. 

brokkálmeðsósu

Grilluðum einnig kartöflur með matnum, fyrst voru þær forsoðnar í nokkrar mínutur í söltuðu vatni, svo hristar með smá olíu, salti og pipar og svo slengt á grillið í 15-20 mínútur þangað til að maturinn var tilbúinn.

kartöflur 

Með matnum drukkum við algerlega stórfenglegt vín - Montes Alpha M frá því 2006 sem er vín frá Chile. Þetta er vín sem er að mestu leyti gert út Cabernet Sauvignion 80%, Cabernet Franc 10%, Merlot 5% og Verdot þrúgum. Þetta vín keypti ég í tollinum á leið til landsins - það er ekki gefins og ég hef aldrei lagt í að kaupa þetta áður - en mig hefur langað mjög lengi að prófa það. Þeir sem lesa bloggið mitt vita hversu hrifinn ég er af víni frá þessum framleiðenda. Ég held ég þurfi varla að tíuanda það - Montes Alpha Cabernet Sauvignion er eitt af mínum uppáhalds vínum frá því að ég byrjaði að drekka vín að einhverju viti. Þetta er dökkt vín í glasi - fallega þykkt og lekur af börmunum þegar því hefur verið velt í glasinu. Bragðið af dökkum ávöxtum, jafnvel útí lakkrís, djúpt eikað og með löngu eftirbragði. Hlakka til að drekka það aftur. 

 matur-1

 Bon appetit. 


Besta "like father like son" fiskisúpan með blálöngu, keilu, humri, rækjum og dásamlegri bláskel

 sólarlagílækjakoti

Við höfum varið síðustu dögunum hérna í Lækjarkoti og hér hefur verið fullt hús gesta. Á föstudaginn ókum við feðgar til Reykjavíkur í leit að matföngum og fórum víða. Við komum við í fiskversluninni á Kirkjuteignum og sóttum keilu og blálöngu. Síðan stoppuðum við í Frú Laugu á Laugalæknum þar sem við sóttum bláskelina sem ég hef verið að dásama síðustu dagana. Pabbi átti humar og humarskeljar heima í Lönguhlíðinni sem við tókum einnig með okkur upp í sveit. Þessa súpu gerðum við feðgar saman - enda heitir súpan eftir því. Hún var elduð í sátt og samlyndi, svona að  mestu leyti - okkur greindi lítillega um hversu mikið af einu og öðru en náðum þó alltaf málamiðlun. Og úr varð þessi súpa ... sannkölluð óskasúpa. 

Síðustu daga hef ég eldað og borðað mikið af fisk. Það á sér auðvitað einfalda skýringu. Það er vegna þess að íslenskur fiskur er svo ótrúlega góður. Þetta er eitt af því sem maður saknar mikið hérna úti. Ég hef oft skrifað um það áður. Þó reyna Svíar að bjóða upp á góðan fisk. En það er bara ekki hægt að keppa við þau gæði sem við höfum á Íslandi, að selja fisk sem var dregin upp úr hafinu daginn áður - eða um nóttina - ferskan strax daginn eftir.

Það var nóg um gesti í kotinu þennan dag. Auk mín og fjölskyldu minnar voru mamma og pabbi, tengdapabbi, mágkona mín og fjölskylda hennar, bróðir tengdapabba og konan hans ásamt barnabarni og svo vinafólk okkar með þrjú börnin sín. Þannig að hér var fullt hús af gleði. Og fátt passar betur í svona stórar óvæntar veislur en að elda súpu og brauð - og fátt betra. Og súpuuppskrift er alltaf hægt að stækka sársaukalaust. 

Besta "like father like son" fiskisúpan með blálöngu, keilu, humri og dásamlegri bláskel

flatkakameðþorskalifur 

Bjó til eldsnöggan forrétt handa gestunum. Þegar ég heimsótti Ísland í apríl þá gaf Vigdís vinkona mín mér að smakka birkireykta þorskalifur sem mér fannst afar ljúffeng. Ég hafði keypt nýjar flatkökur frá sveitabakaríinu Auðkúlu sem ég fékk í Frú Laugu í Laugalæknum (nýja uppáhaldsbúðin mín í Reykjavík) sem voru alveg sérlega bragðgóðar. Úr varð því þessi ákaflega einfaldi og rústík forréttur - flatkaka með birkireyktri þorskalifur og steinselju. 

 humarskel

Fyrsta skrefið í þessari súpugerð var að gera soð - það er eiginlega alltaf mikilvægasta skrefið í allri súpu eða sósugerð. Við áttum svo mikið af humarskel að það var ekkert annað í stöðunni en að gera kröftugt humarsoð.

soð 

Við steiktum fyrst einn niðurskorinn stóran lauk, 2-3 sellerísstangir, 2-3 niðursneiddar gulrætur, nokkur hvítlauksrif, nokkra gamla niðursneidda sveppi og svo 4-5 greinar af timian í nokkrum matskeiðum af olíu. Saltað og piprað. Þegar þetta var orðið mjúkt og glájandi settum við fullt af humarskel í pottinn og steiktum í 5 mínútur þegar við bættum við einni dós af tómatpúré og steiktum áfram í fimm mínútur. Hrært vel í skelinni og hún mulin eins mikið og unnt var. Síðan var bætt við 4 lítrum af vatni, þannig að það flaut yfir, og suðan látin koma upp og þetta síðan soðið af krafti í 2-3 klukkustundir með lokið á. Síðan var soðið látið sjóða niður í 2/3 og svo síað og lagt til hliðar á meðan næstu skref eru stigin.

 grænmeti

Við skárum síðan niður tvær sellerístangir smátt, einn heilan hvítan lauk, skárum tvær papríkur niður í þunna strimla, 2-3 gulrætur niður með skrælara, 2-3 vorlauka, 8-9 fallega sveppi og einn heilan púrrulauk. Og ekki má gleyma góðum bita af ferskum engifer! Grænmetið var fyrst steikt upp úr olíu þangað til að það var mjúkt og fallegt.

 grænmetiísúpu

Þá bættum við saman við talsverðu magni af hvítvíni - kannski sem nemur heilli flösku og leyfðum áfenginu að sjóða burt. Þá helltum við soðinu saman við og leyfðum suðunni að koma upp á nýjan leik. Saltað og piprað. 750 ml af rjóma var hellt saman við og suðunni leyft að koma upp aftur. Smakkað til. Settum meiri fiskikraft, lauf af nokkrum greinum af timian, saltað og piprað og svo var nokkrum matskeiðum af chilli garlic sósu bætt saman við. Svona leikur maður sér þangað til að súpan sjálf er orðin bragðgóð.

fiskur2 

Þegar maður sér fram á að fara að bera súpuna fram þá fer maður að bæta fisknum saman við. Fyrst keilunni og blálöngunni, svo bláskelinni, síðan humrinum og síðan var góðri handfylli af rækjum bætt saman við rétt áður en súpan var borin fram.

 hvílíkfiskisúpa2

Fiskurinn tekur ekki nema 6-7 mínútur að eldast, humarinn 4-5 mínútur, bláskelinn eitthvað svipað og svo rækjurnar bara 2 mínútur. Skreytt með steinselju, eða öðru laufkryddi sem maður á út í glugga. 

vafningsbrauð 

Borið fram með heimagerði grilluðu brauði. Brauðið geri ég nær alltaf eins og hef margoft sett það inn á bloggið mitt. Fyrst að vekja ger í 300 ml af ylvolgu sykruðu (20 gr sykur) vatni. Blanda saman 500-700 gr af hveiti, 2,5 tsk af salti og 3 msk olíu í skál. Þegar gerið er vaknað er vökvanum hellt saman við. Hnoðað rækilega í 5-7 mínútur. Látið hefast þangað til að deigið hefur að minnsta kosti tvöfaldast. Svilkona mín, Inga Dóra, fékk síðan þessa fínu hugmynd að lemja deigið niður og deila niður í nokkra hluta, rúlla út í langa pulsu og síðan vefja í kringum birkigreinar. Penslað með olíu, saltað og piprað og svo grillað þangað til gullinbrúnt. 

vafningsbrauðtilbúið

Með matnum drukkum við m.a. Peter Lehmann Layers hvítvín frá því 2010. Þetta vín er frá Ástralíu frá framleiðanda með sama nafni sem ég kann sérstaklega vel við. Þetta vín er blandað úr fimm ólíkum tegundum; Semillion, Chardonnay, Pinot gris, Sauvignion blanc og Muscat þrúgum. Þetta er ávaxtaríkt vín - pínulítið út í sætari kantinn og rann ljúflega niður með matnum. Þetta vín er líka á ansi góðu verði - undir tvö þúsund kall. Þannig að mér fannst ég fá mikið fyrir peninginn.

 matur

Bon appetit!


Heilgrillaður Hagavatnsurriði með sítrónuhollandaise og einföldum soðnum kartöflum í Lækjarkoti

eldaðundirbláumhimni 

Við erum búin að vera í eindæma góðu yfirlæti núna seinustu daga. Eins og ég nefndi í síðustu færslu þá erum við stödd á Íslandi um þessar mundir umvafin uppáhaldsfólkinu okkar; fjölskyldu og vinum. Mikið höfum við það gott! Það er alltaf gott að vera saknað en á á sama tíma verður maður pínu hryggur vegna alls þess sem maður missir af. En svona er það nú - og þá er ekkert annað að gera en að njóta þess tíma sem maður á með vinum sínum... er það ekki?

Vinir okkar, Vigdís og Bassi, keyptu hús við Bergstaðastræti nýverið og þarfnast mikilla viðgerða. Þau hafa unnið sleitulaust í húsinu seinustu vikur og mánuði og við höfum fylgst spennt með þeim í gegnum fésbókina. Núna um helgina höfum við fengið að aðstoða þau í garðinum en hann var vaxinn þéttum kerfli sem hafði tekið ástfóstri við bakgarðinn. Aldrei hafði ég séð annað eins. Hvílíkt rótarkerfi - maður fyllist bara lotningu fyrir þessu illgresi. Við grófum upp eins mikið og unnt var, síðan lögðum við dagblaðapappír yfir, svo moldarlag og því næst var tyrft yfir ósköpin. Vonum að þetta dugi til að uppræta þessa árans plöntu - sem er reyndar vinsæl til matargerðar, sér í lagi í franskri matargerð. Hefur sætt anísbragð! 

urriðitilundirbúnings 

Seinnipartinn í gær fórum við að útrétta og ég sótti fisk í Hafbergsbúðina í Álfheimum. Finnst hún alveg frábær. Lenti á spjalli við fisksalann og við urðum sammála því að það væri skynsamlegast að prófa urriða sem hafði verið veiddur í net í Hagavatni stuttu áður. Við keyrðum síðan í glampandi sól sem leið lá upp í sumarhús foreldra minna við Meðalfellsvatn í Kjós. Ég og faðir minn slógum upp útieldhúsi - blíðan var þvílík - og þá er best að elda utandyra. 

Það var líka sérlega gaman að börnin mín, Villi og Valdís og frændi þeirra Marteinn, gátu verið með mér í eldhúsinu. Þau voru spennt að fá að hjálpa til. Og ég var sérstaklega stoltur af dóttur minni sem hélt vel á spöðunum og stýrði verkinu af miklum sóma og skipaði bróður sínum og frænda fyrir í matseldinni. Við grilluðum fiskinn í stórri tunnu sem pabbi minn lét útbúa einhvern tíma fyrir löngu síðan en hefur lítið notað.

fiskur í Portugal 

Hugmynd af þessum rétt er fengin úr nokkrum áttum; þegar ég var í Porto í Portúgal á ráðstefnu í byrjun apríl fórum gengum niður á höfn og settumst á fátæklegan veitingastað þar sem fiskurinn var grillaður úti á götu - hreint út sagt stórkostlegur. Síðan hafði ég einhvern tíma gert lax "en papillote" með karmelliseruðum sítrónusneiðum, sjá hér, og svo sá ég þennan girnilega urriða í borðinu hjá þessum ágæta fisksölumanni í Hafberg. Og svona fór um sjóferð þá...

Heilgrillaður Hagavatnsurriði með sítrónuhollandaise og einföldum soðnum kartöflum í Lækjarkoti

ValdísogVilli 

Það þarf vart að hafa mörg orð um eldamennsku eins og þessa - svo einföld var hún! Fyrst var auðvitað að setja upp þetta útieldhús - en það voru fá og snör handtök og pabbi og ég vorum ekki lengi að því (það tók svo lengri tíma að ganga frá - en það er önnur saga).

sítrónur 

Það næsta sem var á dagskrá var að skera niður nokkrar sítrónur og steikja upp úr smjörklípu á pönnu, þar til þær tóku á sig gullinn lit og síðan leggja til hliðar í smástund á meðan fiskurinn er undirbúinn.

troðnirfiskar 

Fiskarnir voru síðan þvegnir og þurrkaðir. Saltaðir og pipraðir að innan og síðan settar nokkrar sítrónusneiðar ásamt smá knippi af steinselju. Saltaðir vel að utan. Hita grillið vel og rækilega.

 komnirágrillið

Fiskurinn er síðan grillaður við blússhita yfir kolum í fínu tunnunni hans föður míns. Ætli það hafi ekki tekið um 7-10 mínútur á hvorri hlið - það er lítið mál að sjá hvenær fiskurinn er tilbúinn, bara að kroppa aðeins í hann. Kosturinn við að elda fiskinn heilan er líka sá að það eru minni líkur að hann verði þurr - beinin og skinnið verja hann mögulegum mistökum kokksins.

 þjóðernisást 

Hollandaisesósan, sem er ein af móðursósunum í franskri matargerð, er gerð á eftirfarandi hátt (mín útgáfa er ekki eins og hin upprunalega - í sveitinni svindlar maður). Ein matskeið af dijon sinnepi er sett í skál ásamt sex eggjarauðum. 50 ml af rjóma er bætt saman við (púritanar munu eitthvað segja við þessu - en almennt er rjómi ekki notaður í smjörsósur) og síðan er einn teningur af fiskikrafti mulinn saman við. Hrært saman. Sett yfir vatnsbað og þegar blandan er farin að hitna og þykkna er teningum af köldu smjöri bætt saman við einn og einn í senn - samtals kannski 300 gr af smjöri (ég veit - mikið smjör!- það væri hægt að nota creme fraiche- ég hef gert bernaise með bara creme fraiche en slíkt var ekki til hérna í bústaðnum, sjá hér). Það verður að gæta sérstaklega að því að hita ekki sósuna um of - þar sem þá munu ekki eldast og verða að ommilettu. Það þarf því að halda í skálinu til að finna hversu heit hún er - hræra stöðugt - taka skálina af hitanum þegar maður finnur að hún er að ofhitna - og tempra hitann með því að bæta við smjöri. Og þá er ekkert mál að búa þessa sósu til.

Síðan setti ég nokkrar matskeiðar af ferskum nýkreistum sítrónusafa. Nú er mikilvægt að smakka sig æafran, salta og pipra eftir smekk.

sítrónuhollandaise 

Kartöflurnar voru síðan soðnar eins og lög gera ráð fyrir. Settar í skál og velt upp úr smáræði af olíu og saltað og piprað. 

grillaður 

Chablis

Með matnum drukkum við þetta ágæta Chablis vín sem Snædís sótti í ÁTVR. Öll Chablisvín koma frá svæðinu í kringum smábæinn Chablis sem er í norðanverðu Búrgúndarhéraði. Þetta vín er framleitt af vínsamlagi þrjúhundruð vínbænda sem búa í kringum bæinn. Vínið fær nafn sitt einmitt frá ánni La Sereine sem rennur framhjá bænum. Bærinn er geysifagur. Við vorum þarna á ferðinni í fyrra þegar við ókum um norðausturhluta Frakklands í húsbíl. Eitt besta kvöldið var þegar við gistum í Chablis og eldaðuðum þennan gómsæta kjúklingarétt, sjá hér. En ég ætlaði að skrifa um þetta prýðisgóða La Chablisienne La Sereine Chablis frá því 2007. Þetta vín er fallega ljósgult á litin, sítrónukeimur ásamt léttum ávexti á tungu, smá sýra. Mjög gott hvítvín sem passaði vel með matnum. 

 komniráfat

Bon appetit!


Frábær fiskiveisla í Lönguhlíðinni; besta bláskelin, grillaður humar og lúðucheviche

island1 

Við fjölskyldan erum í heimsókn á Íslandi um þessar mundir. Frumburðurinn minn hún Valdís hefur verið hérna í tæpar þrjár vikur og verið eins og blóm í eggi í stanslausu dekri hjá öfum og ömmum. Snædís og örverpið, hann Vilhjálmur, komu núna á miðvikudaginn og svo kom ég síðastur á föstudagskvöldið. Pabbi og Valdís tóku á móti mér á flugvellinum - Ísland var í essinu sínu - ekta sumarveður; skýjað, rok og grámi, en samt eitthvað svo heillandi. Mér finnst það alltaf sérstök tilfinning að koma heim og keyra til Reykjavíkur í gegnum hraunið - þessa mosagrónu eyðimörk. 

Það var tekið frábærlega á móti mér þegar heim var komið. Fjölskyldan sameinuð á nýjan leik. Skelfing hvað maður getur saknað allra - oft fattar maður það ekki fyrr en maður hittist á nýjan leik. Pabbi hafði staðið vaktina í eldhúsinu. Og sá hafði verið duglegur. Hann hafði byrjað að undirbúa þessa matarveislu kvöldið áður með því að verka smálúðuna. Þó að ceviche sé einfaldur réttur þá verður maður að huga að því helst daginn áður. 

 Frábær Fiskiveisla í Lönguhlíðinni; besta bláskelin, grillaður humar og lúðucheviche

Ekkert af þessum mat var eldaður af undirrituðum, ég sat bara við borðbrúnina umvafinn fjölskyldunni minni og lét dekra við mig. Og það kann hann faðir minn betur enn flestir og hann á því allan heiðurinn af matargerðinni. Takk pabbi!  Ég fékk að smakka nýjan íslenskan bjór - Gæðing. Hann er bruggaður í Skagafirði af brugghúsi sem ber sama nafn (http://gaedingur-ol.is/). Þetta er ljómandi frískandi bjór af lager gerð. 

ceviche 

Hann byrjaði á því að huga að smálúðunni kvöldið áður. Smálúða var maríneruð í blöndu af ferskum límónu, sítrónu- og appelsínusafa. Þegar ávextirnir eru kreistir er aldinkjötið líka skafið innan úr þeim með skeið til að það fylgi með. Handfylli af niðursöxuðu kóríander er bætt við, auk hvítlauks og svarts pipar. í þessum legi lá lúðan í sólarhring í kæliskáp og stöku sinnum rótað í blöndunni. Tveimur tímum áður en lúðan var borin fram var smátt saxaðri papríku, bæði rauðri og gulri, bætt útí ásamt smáttskorinni steinselju. Salat sett á disk og blandan lögð ofan á og loks skreytt með sítrónusneiðum.

Þessi réttur er sérlega gómsætur, en mörgum finnst það koma spánskt fyrir sjónir að borða hráan fisk, þar sem lúðan er ekki formlega elduð. En fiskurinn "eldast" í áxaxtasafanum. Sýran í honum hleypir fisknum og hann fær á sig aðra og þéttari áferð eins og gerist þegar hann eldast með því að hita fiskinn. Og niðurstaðan er sérlega bragðgóð og frískandi. 

meiraceviche 

Pabbi gerði einnig frábæran rétt - nokkurskonar bláskelssúpu og notaði bláskel sem keypt var hjá bændamarkaði Frú Laugu á Laugalæknum. Þessi skel kom úr Breiðafirðinum - fyrirtækið heitir Íslensk bláskei (http://blaskel.is/index.html) og það verður að segjast að þetta er ein sú glæsilegasta sem ég hef séð. Þéttur og bragðgóður kræklingur - sá besti sem ég hef nokkru sinni smakkað.

júsíbláskel 

Uppskriftin sem pabbi studdist við, er að mestu komin frá Jamie Oliver. Best er að elda kræklinginn á wok-pönnu. Fyrst var að setja wokinn á fullan hita og reyna að fá hans eins heitan og mögulegt er. Þá er er að setja 1-2 matskeiðar af olíu á pönnuna og svo 2 kg af bláskel - hrært í rækilega í smá stund og þá er ætt við; tveimur smátt skornum hvítlauksrifjum, þremur smátt skornum sítrónugrösum, tveimur rauðum chilli-um - auðvitað söxuðum, þremur sentimetrum af smátt skornum engifer, 1 msk af sesamolíu, 4-5 niðursneiddum vorlaukum, salti og pipar og síðan 1-2 handfyllum af ferskum kóríander. Hrært í þessu annað kastið þangað til að kræklingurinn hefur opnað sig (muna að henda þeim sem opna sig ekki = ónýtir) og bæta þá við safa úr 2-3 límónum, einni dós af góðri kókósmjólk og slettu af hvítvíni. Láta suðuna koma upp og bera fram. 

humar 

Pabbi gerði einnig humar á það sem ég get núna sagt, á hefðbundinn hátt, þar sem ég hef bloggað um það nokkrum sinnum áður. Humrinum er lyft upp úr skelinni og grillaður með hvítlauksolíu.

Með matnum drukkum við vín sem Snædís keypti í tollinum núna á leiðinni til landsins. Þetta var Montes Chardonnay 2009 sem er vín í ódýrari kantinum frá þessum framleiðanda. Ég hef oft bloggað um stóru systur þessa víns, Montes Alpha Chardonnay - sem er líka sérlega ljúffengt vín. Þetta er vín sem ég hef smakkað áður - fyrir nokkrum árum síðan. Ljóst á lit. Þykkt í glasi - ávaxtaríkt, smá sýra og smjörkennt eins og Chardonnay vill vera (sem gerir þau svo góð!).

matur 

 Bon appetit!


Gómsæt frönsk veisla innblásinn af nýafstaðinni Parísarferð; Steikt Fois gras, Confit du Canard, Quiche Lorraine og rillete au versatile fyrir góða gesti

Eiffelatnight 

Eins og ég hef getið til í seinustu færslum nýverið þá vorum við hjónin í rómantískri ferð um París í upphafi júnímánaðar. Við höfðum ætlað að fara til Parísar lengi. Ég hef komið til Parísar einu sinni áður fyrir rétt rúmum þremur árum og þá bara í einn dag. Ég steig um borð í svona "túristarútu" og fór í bíltúr um Parísarborg. Vægast sagt varð ég algerlega orðlaus (þeir sem þekkja mig persónulega vita að slíkt gerist sjaldan). Og þetta var alveg mögnuð ferð - þó stutt væri. Hvílík fegurð - hvert sem maður leit voru magnaðar byggingar, styttur og minnismerki. Þetta er þriðja sinn í stuttan tíma sem ég set inn mynd af einkennismerki borgarinnar - af Eiffel turninum - en við fórum þó miklu víðar...ég lofa!

Signa 

Ég var alveg staðráðinn í að fara þangað aftur - hvernig er hægt að verjast aðdráttarafls "La Ville-Lumière - borg ljósanna"? Ég held að það sé ekki hægt. Þetta var árið 2008. Sama ár gaf Sigríður Gunnarsdóttir út bókina Sælkeragöngur um París - og sú bók var ekki til að draga úr áhuga mínum - sem var þó mikill fyrir. Einhvern veginn fór það svo að að við skrifuðumst á nokkrum sinnum. Hún hafði meira segja boðist til að ganga með mér eina sælkeragönguferð! Því miður fór það svo að hún var á ferðalagi þessa helgi og við náðum ekki að kíkja við í heimsókn, Sigríður var þó ekki langt undan. Myndin hérna að neðan var tekin þar sem við sátum á steinbekk í Toullier garðinum þar við stoppuðum um stund og fengum okkur smá hressingu - gerist varla betra?.

stoppað til að lesa 

Við erum þegar farin að planleggja næstu ferð. Ég hafði lofað dóttur minni, Valdísi, að þegar hún verður 15 ára myndum við fara saman að skoða París.  Hún verður ellefu ára núna í desember þannig að það er ekki svo langt að bíða! Ég hlakka jafnmikið til og hún. Kannski gefumst við upp og förum fyrr, hver veit?

quicheeseses 

Við fórum víða um París. Gengum þvers og kurs á milli hverfa borgarinnar. Frá hótelinu okkar sem lá nálægt Signubokkum og Eiffelturnsins, til Trocadero, í gegnum Champs Elyssee, í gegnum Toullier garðana, fram hjá Louvre,  til yndislega Montmartre, Óperuhverfið, Marais, Latínuhverfið, Montparnasse, Isle de la Cite og St. Germain des Pres.

Borgin er auðvitað kyngimögnuð (Er einhver í vafa um að ég fíli París?). Við gengum frá morgni til kvölds, stöppuðum við á fallegum kaffihúsum og veitingahúsum sem okkur fannst hugguleg. Við pöntuðum engin borð, eltum engar Michelin stjörnur - bara það sem gengum fram á og okkur fannst girnilegt. Við borðuðum meðal annars á 130 ára gömlum veitingastað í Montmarte þar sem við sátum undir laufkrónu fallegs trés sem myndaði þak staðarins - rómantískt! 

undirlauftré 

Gómsæt frönsk veisla innblásinn af nýafstaðinni Parísarferð; Steikt Fois gras, Confit du Canard, Quiche Lorraine og margskonar rillette fyrir góða gesti 

Ég hef nokkrum sinnum bloggað um fois gras, enda er þessi matur í uppáhaldi hjá mér. Þessi matur er auðvitað algerlega "decadent" og markar algeran hátind hedonismans. Siðferðilega er þessi matur líka á grensunni! Ég ætla ekkert að fara út í þá sálma hér - áhugasamir geta leikandi vafrað um netið og áttað sig á því. Fyrir þá sem ekki vita þá er Fois gras lifur úr gæs sem hefur fengið geysilega kolvetnisríka fæðu þannig að lifrin verður afar feitt. Bragðið er sérstakt - flauelsmjúkt alveg. Mér finnst gott að elda það á eftirfarandi hátt: lifrin er skorin í sneiðar og steikt í eigin fitu í eitt augnablik. Lagt á baguettesneiðar sem hafa verið steiktar upp úr hvítlauksolíu og síðan setur maður smáræði af rifsberjahlaupi ofaná. Namminamm. Með þessum rétt er best að drekka sæt vín, Sauternes er klassískt að drekka með en við áttum það ekki - og drukkum bara kampavín í staðinn, ekkert hálfkák þar!

foisgras 

Það er ekki flókið að elda Confit du Canard - alltént ekki í þetta skiptið. Auðvitað er hægt að gera þetta sjálfur. Ég hafði hins vegar keypt niðursoðin andalæri. Þau hafa verið soðin í nokkrar klukkustundir í eigin fitu og svo pakkað í dósir. Dósirnar eru síðan fylltar af andafitunni. Þegar maður opnar eina svona dollu þá þarf maður einungis að strjúka því mesta af fitunni af. Og leggja á ofnskúffu og baka í forhituðum ofni, 180 gráður, þangað til að skinnið á fuglinum er orðið stökkt og fallegt. 

 confit du canard

Ég spara alltaf andafituna, hún er svo bragðgóð, og nota hana til dæmis við að útbúa bestu ofnsteiktu kartöflur í heimi!!! Eins og ég nefndi þá er lítið mál að gera svona sjálfur. Ég hef prófað að gera confit du lagopede (rjúpnaleggi) sem var alveg ljúffengt - sjá hér.  

 quiche lorraine

Quiche Lorraine gerði ég að mestu eftir uppskrift úr bók Juliu Childs, The Art of Mastering French Cooking, og var nokkurn vegin gerð á eftirfarandi hátt; Fyrst er að gera botninn. Setti 200 gr af hveiti, hálfa teskeið af salti, 1/4 tsk sykur, síðan 150 gr af ósöltuðu smjöri (köldu, skorið í tenginga) í matvinnsluvél - blandaði saman með því að "pulsa" deigið. Þegar bitarnir voru orðnir á stærð við baunir, bætti ég varlega saman við 75-100 ml af köldu vatni. Hnoðaði deigið í kúlu og vafði inn í plastfilmu og setti síðan inn í ísskáp þar sem það fékk að standa í klukkustund.

Ofninn er síðan forhitaður í 180 gráður. Þegar deigið er síðan tekið úr ísskápnum þarf að hafa heldur hraðar hendur - því eftir því sem maður dregur lappirnar - hitnar deigið og verður ómeðfærilegra og byrjar að brotna í sundur og verða leiðinlegt. Fært yfir í smurt mót, gatað hressilega með gaffli (til að hindra að deigið rísi meðan það bakast) og síðan bakað í 8-10 mínútur. 

kominn á disk 

Á meðan gerir maður fyllinguna: Ég steikti 300 gr af beikoni þangað til stökkt og fallegt. Raspaði síðan 150 gr af cheddar osti (fann ekki gryere í búðinni) ofan í heitan botninn. Setti síðan beikonið. Þá blandaði ég saman 3 stórum eggjum við 1 bolla af rjóma og 1 bolla af feitri mjólk, saltaði og pipraði, síðan hnífsodd af negul,  og hrærði síðan vel saman. Hellti þessari blöndu yfir ostinn og beikonið og setti inn í heitan ofninn. Bakan er bökuð í 30-35 mínútur þartil fallega gullinn og er farinn að brúnast eilítið. Flutti yfir á disk og borin fram með smávegis af klettasalati.

rillette 

Gerði síðan nokkrar ólíkar kæfur, rillette. Við höfðum keypt andarillette í Frakklandi og haft með okkur heim. Síðan gerði ég graslaukskæfu, ef hægt er að kalla þetta kæfu. Setti handfylli af graslauk í skál, 1 smáttskorið hvítlauksrif, salt, pipar og svo hrærði saman við nokkrar matskeiðar af creme fraiche. Gerði líka laxakæfu. Penslaði 200 gr af laxaflaki með hvítlauksolíu, salt og pipar og bakaði í 180 gráðu heitum ofni þartil að fiskurinn var eldaður í gegn, salt, pipar, smá sítrónusafi, matskeið af smjöri og svo var þetta hrært saman þangað til þetta varð að laxakæfu. Í lokin gerði ég eggaldinsrillette. Skar niður eitt heilt eggaldin í sneiðar, penslaði með olíu, saltaði og pipraði og svo var það grillað á heitri pönnu þangað til eldað í gegn. Þá var eggaldinið stappað niður með matskeið af creme fraiche, skvettu af olíu, salti og pipar. Borið fram með nýju baguette. 

 ostar

cotes

Var einnig með nokkra franska osta, Camenbert, brie au meaux, chevre geitaost og síðan Vacherol ost. Þeir fengu að standa á borðinu í klukkustund áður en maður gæddi sér á þeim, þannig fær bragðið betur að njóta sín. 

Síðan drukkum við auðvitað franskt rauðvín með matnum, en ekki hvað? Að þessu sinni vorum við með vín frá Guigal Cotes du Rhone - frá Rínardalnum frá árinu 2007. Þetta vín er ansi gott, það er blanda úr þremur þrúgum, Syrah 60%, grenache 30 % og restin er mourvedre þrúgur. Vínið fær samkvæmt heimildum á netinu að liggja á eikarfati í eitt ár áður en það er sett á markað. Þetta er vín er fallega rautt, lyktar af berjum, kryddað. Langt eftirbragð, eikað og bragðgott. Annars kostur við þetta vín er að það er ansi vinalegt fyrir budduna. 

 Bon appetit! 

 


Dásamlegur humar og ljómandi lúðusteik með mörðum kartöflum og beurre blanc hjá mömmu og pabba

Ég fór í heimsókn til Íslands um miðjan apríl síðastliðinn. Ég var einn á ferðinni, tilgangur ferðarinnar var að koma og taka þátt í Íslandsmótinu í skvassi. Ég hef oft nefnt það á síðunni minni að ég er mikill áhugamaður um þessa frábæru íþrótt. Ég hef spilað mikið skvass eftir að ég fluttist til Svíþjóðar. Hérna er rótgróin klúbbur sem ég er meðlimur að og það er fátt betra að loknum stressandi vinnudegi að fá útrás inná skvassvelli. Annars ætlaði ég mér enga sérstaka hluti á þessu skvassmóti annað en að taka þátt. Það var samt gaman að vinna A flokk karla. Hef einsett mér að taka þátt að ári og þá komast inn í meistaraflokkinn. Sjáum hvernig gengur. 

IMG_4538 

Annars tók hún elsku móðir mín á móti mér á flugvellinum og ók með mig til Reykjavíkur. Þau höfðu boðist til að hýsa mig þessa daga og það var sannarlega gott að koma heim aftur. Þau kunna líka að dekra við mann. Ég hafði mátt velja hvað var í matinn og auðvitað vildi ég hafa fisk í matinn. Splunkunýja lúðu og humar! Við fórum niður í fiskbúðina í Vogunum - Hafbergs og keyptum þessar fallegu lúðusteikur.

Foreldrar mínir höfðu boðið Sigga afa og ömmu Deddu í mat og við áttum saman alveg sérstaklega ljúfa kvöldstund. Við ræddum um allt á milli himins og jarðar og skemmtum okkur vel. 

 Dásamlegur humar og ljómandi lúðusteik með mörðum kartöflum og beurre blanc hjá mömmu og pabba

lúða 

Ég fékk að aðstoða foreldra mína sem sáu að mestu um matseldina. Pabbi útbjó humarinn og mamma sá um lúðuna. Ég bar ábyrgð á sósunni. Við höfðum matargerðina eins einfalda og hugsast gat. Það þarf ekkert að vera með neitt vesen þegar maður er með splunkunýjan íslenskan fisk. Ég fæ bara vatn í munninn við að hugsa til þessarar máltíðar. Sem betur fer erum við á leiðinni til Íslands í lok næstu viku...hvað ætli verði á borðum?

humar 

Eins og ég nefndi þá útbjó faðir minn humarinn. Ég hef bloggað held ég oftar en einu sinni um þessa humaruppskrift - seinast fyrir ári síðan. Maður klippir bara upp humarhalana og veiðir samtímis görnina úr. Humarinn er ekki alveg tekin úr skelinni heldur fær að hanga föst á skelinni sem er síðan lokað aftur og humarhalinn fær þannig að hvíla ofan á hálflokaðri skelinni. Svo er ekkert annað að gera en að maka þessu vel uppúr kraftmikilli hvílauksolíu og grilla í blússheitum ofni í örfáar mínútur. Borið fram með nokkrum rúkólalaufum og svo pönnusteiktu hvítlauksbrauði.

Með svona "winning concept" var haldið ótrautt áfram í lúðusteikina sem var meðhöndluð á svipaðan hátt og humarinn, nóg af hvítlauksolíu, salt, pipar, nokkrar smjörklípur og svo inn í undir heitt grillið. Eldað í 12-15 mínútur enda var steikin þykk.

 grilluðlúða

Ég hef áður sagt frá beurre blanc sem er klassísk smjörsósa til að bera fram með hvítum fisk, hún er engu síðri með laxi. Beurre blanc - sem þýðist hvítsmjör - er sósa sem er uppruninn frá frönskum kokki, Clémence Lefeuvre, sem í upphafi tuttugustu aldarinnar ætlaði að búa til hollandaise sósu en gleymdi að setja eggjarauðurnar út í og bar því á borð eggjarauðalausa hollandaise sósu - mistökin urðu að rífandi lukku! Og þannig varð til Beurre blanc. Það eru nokkrar leiðir að því að gera beurre blanc en í sósuna á aldrei að setja rjóma! Svona gerir maður; 50 ml af hvítvíni er sett í pott ásamt smátt skornum skarlottulauk, 50 ml af fiskisoði bætt saman við. Soðið upp og leyft að sjóða niður um þriðjung. Þá er 100 gr af góðu smjöri bætt saman við og þetta þeytt saman með töfrasprota. Saltað og piprað eftir því sem við á.

kartölfur 

Með matnum bárum við einnig fram marðar kartöflur - svona má láta mistökin fá girnilegra nafn. Þetta voru einfaldlega kartöflur sem höfðu verið soðnar aðeins of lengi (með hýðinu á). Örlög þeirra var að vera lamin með trésleif og bragðbættar með góðri jómrúarolíu, ferskum sítrónusafa, salti og pipar. Wholla - svona hverfa mistökin eins og dögg fyrir sólu. Við bárum einnig salat fram með matnum; rúkóla, tómatar og svo vínber ásamt einfaldri dressingu úr olíu, sítrónusafa og smá sírópi. 

Með matnum drukkum við Montes Alpha Chardonnay frá því 2007 sem ég hafði tekið með mér áleiðinni í gegnum tollinn. Þetta eru vín sem hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér.  Þetta er chileskt vín - Chardonnay eins og nafnið gefur tilkynna og mér finnst sérlega ljúffengt. Fallega gullið vín, lyktar af ferskum ávöxtum, þykkt á tungu með frískandi og eikuðu eftirbragði. 

matur 

 Bon appetit 

 


Stolið sælgæti; Berjajógúrtís með myntulaufi

Fátt er betra en að eiga helgarfrí þegar sólin skín og heiðskýr himininn hvelfist yfir mann. Svona á að byrja helgarnar. Valdís dóttir mín hefur hreinlega iðað af spenningi síðastliðna daga og vikur vegna þess að hún er á leiðinni til Íslands. Og núna síðustu daga hefur það náð algeru hámarki. Hún hefur byrjað alla daga og endað einnig með orðunum "ÉG ER AÐ FARA TIL ÍSLANDS"! Hún flaug til Íslands um miðjann dag í gær - ein - frá Kastrup, og það var ekki til að minnka spenningin. Ég man þegar ég flaug einn í fyrsta sinn, þá níu ára gamall á leiðinni frá Englandi þar sem við bjuggum um skeið, að heimsækja afa og ömmu. Ég fékk að sitja hjá flugstjóranum í lofttaki og það fannst mér magnað. Mér skilst að með auknum öryggiskröfum sé allt svoleiðis fyrir bí! Allaveganna þá komst dóttir mín heil að höldnu til Íslands. 

Ég hef upp á síðkastið horft á einstaka þátt með uppáhalds sjónvarpskokknum mínum og þar sá ég þessa uppskrift... og ég verð að játa að hún stolin! Man ekki alveg hversu nákvæmlega en hún er nógu lítið breytt að ég verð að játa á mig þær syndir. Fyrir þá sem vita hvaðan - þá megið þið endilega leggja inn ágiskun í athugasemdakerfið! 

Stolið sælgæti; Berjajógúrtís með myntulaufi

Þessi uppskrift er eins einföld og þær verða! 500 ml af af léttri vanillujógúrt (hann notaði gríska jógúrt minnir mig) er sett í blandara og við hana eru sett 500 gr af frosnum blönduðum berjum - ég notaði blöndu af skógarberjum; rifsber, jarðarber, bláber, hindber og brómber. Svo setti ég 4-5 msk af sírópi saman við og blandaði kröftuglega saman.

Setti síðan blönduna í mót og setti í frystinn - bara í 30-45 mínútur á meðan við borðuðum kvöldmat. Þetta var alveg gómsætt - það bara verður að segjast! Svo góður að ég varð að koma honum áleiðis. Hvet alla til að prófa.

Þetta er fullkominn uppskrift fyrir sumarið sem mér skilst að nú sé loksins komið á Íslandi! 

berjaís 

Bon appetit! 


Steiktar svínakótilettur með chevre chaud, nýjum aspas, ofnbökuðum kartöflum og rauðvínsglasi

Eiffel

Við hjónin brugðum okkur til Parísar í rómantíska helgarferð síðastliðna helgi. Það er búið að vera lengi á döfinni að fara og njóta "La Ville-Lumière - the city of light". Og núna gafst tækifærið. Síðastliðin helgi var löng helgi í Svíþjóð, á fimmtudaginn var uppstigningadagur og svo núna á mánudaginn var þjóðhátíðardagur Svíþjóðar. Við bættum bara við sumarleyfisdegi á föstudaginn og þá vorum við til í slaginn. Við flugum til Parísar á miðvikudagskvöldinu eftir stressandi vinnudag og gistum á litlu hóteli rétt við Eiffel turninn á bökkum Signu. Við náðum því að eiga fimm ljúfa daga í Borg ljósanna og nutum alls sem borgin hefur upp á að bjóða. 

porkTil að hita upp fyrir ferðina þá eldaði ég fransk-innblásna máltíð helgina áður. Eins og ég hef nefnt áður í einhverri færslunni þá hef ég mikið verið að lesa matreiðslubækur Stephané Reynauds sem er vinsæll franskur matreiðslumaður. Fyrsta bók hans, Pork and Sons, kom út árið 2007 og varð afar vinsæl. Síðan hefur hann gert nokkrar aðrar matreiðslubækur sem allar eru sérlega smekklegar. Þó finnst mér sú fyrsta alltaf best. Sú bók fjallar einvörðungu um rétti sem innihalda svínakjöt og er bókin í raun óður til svínsins. Inngangur bókarinnar, þar sem farið er í gegnum slátrunarferlið, setur tóninn fyrir uppskriftirnar sem eru ákaflega girnilegar. Eftir að hafa skoðað bókina - varð þessi uppskrift til. 

svínakótilettur 

Það var líka gaman að fara í bæinn til að versla fyrir þessa máltíð. Við hjóluðum niður í Saluhallen og keyptum svínakótilettur hjá vinum mínum í Holmgrens, ég gat ekki látið vera að kaupa eina sneið með beininu á. Svo rölti ég yfir til ostabásinn og keypti nokkrar sneiðar af frönskum geitaosti - Chevre. Geitaostur er auðvitað ekki allra en mér finnst hann sérstaklega góður, sér í lagi ef hann hefur verið eldaður - chevre chaud.

Núna á vorin og snemmsumars er aspastími hérna í norðanverðri. Þá er aspasinn bestur. Nálægt Lundi eru margir bændur sem rækta aspas. Maður getur hljólað til þeirra og verslað hann beint af bóndanum - alveg splunkunýjann. Það er auðvelt að læra þekkja ferskan aspas - stofninn er ennþá ferskur og ekki trénaður eins og þegar maður kaupir hann á veturna. 

aspas 

Í þessa færlsu skelli ég einu lagi úr myndinni Amelie - rétt svona til að setja mann í réttar stellingar fyrir Frakkland... og París og jafnvel Montmartrehverfið - en myndin gerist að mestu þar.  

Steiktar svínakótilettur með chevre chaud, nýjum aspas, ofnbökuðum kartöflum og rauðvínsglasi

 Ég byrjaði á því að setja svínakótiletturnar í pækil í 2-3 klukkutíma. Það er bæði til þess að bragðbæta kjötið en ekki síður til þess að færa vökva aftur inn í vöðvann - svo að það haldi sér meyru og góðu. Að útbúa pækil er afar einfalt. 3 lítrar af vatni, 1/2 bolli sykur, 1/2 bolli salt og svo krydd eftir eigin smekk. Ég setti krydd sem mér finnst sóma svínakjöti vel; nýmöluð fennelfræ, lárviðarlauf, salvía og nokkur piparkorn. Setti svo Svínakótiletturnar í og lét inn í kæli í 2-3 klukkustundir. 

pækill 

Að þeim tíma liðnum voru þær teknar upp úr pæklinum, þurrkaðar. Ég skar aðeins inn í fituröndina áður en þær voru steiktar til að flýta fyrir elduninni. Margir myndu skera eitthvað af fitunni af. Ég held þó að það sé betra að elda kjötið með fitunni, þannig hindrar maður einnig að kjötbitinn þorni upp, og svo getur maður valið hvort að maður skeri hana af á eftir. Steikt svínafita er líka ári góð þannig að fyrir syndaseli er gott að hafa hana meðferðis.

svín 

 Síðan var ekkert annað að gera en að bræða smá smjör/olíu á pönnu og steikja í stutta stund við miðlungshita þar til létt brúnaðar að utan. Setti kótiletturnar síðan í eldfast mót og inn í 180 gráðu heitan ofn í 15-20 mínútur. 

 aspas

Næsta skref var að grilla aspasinn á pönnu. Rétt áður hafði ég velt aspasnum upp úr smáræði af jómfrúarolíu, saltað og piprað og setti síðan á blússheita grillpönnu. Síðan er lítið annað að gera en að færa aspasinn á disk og jafnvel rífa smávegis parmaost yfir. 

aspas-1 

Við gerðum einnig ofnbakaðar kartöflur með matnum og fórum í öllu og einu eftir því sem ég skrifaði í færslu hérna um daginn. Sjá hér. Í stuttu máli gengur það út á að; flysja, forsjóða í 6 mín, vatn frá, sáldra hveiti yfir, salt og pipar, steikja í ofnskúffu og baka síðan í ofni í 45 mínútur.  Við höfðum keypt nýjar kartöflur frá Båstad. Það er ekkert betra en ný uppskera!

kartöflur 

 Þá var næsta skref að steikja chevre ostinn. Chevre osturinn sem ég keypti var hefðbundinn franskur geitaostur. Chaud þýðir bara að maður ber hann fram heitann - að þessi sinni steiktur á pönnu! Hann var skorinn niður í rausnarlegar sneiðar og settur á þurra pönnu. Þetta er fremur feitur ostur sem bráðnar vel þannig að það þarf ekkert að bæta fitu á pönnuna. 

chevre og salvía 

teyssier

Þegar búið var að steikja ostinn þá steikti ég nokkur salvíulauf upp úr smá olíu, bara í eitt augnablik, þau poppast aðeins og vera stökk á nokkrum sekúndum. Matnum var svo raðað fallega upp. Fyrst svínakótiletta á diskinn, svo ein sneið af að chevre geitaosti og svo nokkur salvíulauf. Þessi brögð, svínakjöt, chevre og salvía passa einkar vel saman!

Með matnum drukkum við auðvitað franskt vín með matnum. Að þessu sinni vorum við með flösku sem ég er búinn að eiga síðan í fyrra þegar við vorum á ferð okkar um Frakkland. Chateu Teyssier Grand Cru frá því 2006. Þetta er vín frá St. Emillion sem er í Bordeauxhéraði sem liggur í suðvesturhluta Frakklands. Við vorum þó ekki á ferðinni um þetta svæði í fyrra en það er engin afsökun fyrir að ekki smella sér á nokkrar flöskur af þessu ágætisvíni. Vínið, sem er unnið að mestu úr Merlot þrúgum og svo lítilræði af Cabernet Franc, er bragðgott vín. Dökkt vín, lyktar af þroskuðum ávöxtum og eik og sama er að finna í bragðinu. 

 svínogchevre

 Bon appetit!


Mögnuð GRILLVEISLA fyrir hundrað manns; Naut, lamb, kjúklingur - bulgursalat, taichiki, pestó og heimagert brauð

undirbúningur 

Núna um seinustu helgi var hin árlega götuveisla Púkagrandans (núna má maður segja árlega þar sem þetta var í annað sinn hún var haldin!). Ég var meðstjórnandi í undirbúningsnefndinni sem í ár var undir stjórn Latífu í húsi nr. 36 og svo Signýjar Völu kollega míns úr húsi númer 7. Auðvitað komu fleiri nágrannar að skipulagi þessarar hátíðar. Ég gerði fátt annað en að huga að matnum og naut auðvitað liðsinnis Latífu, sem er kokkur. Það má líka snúa þessu við og segja að ég hafi liðsinnt henni - allaveganna unnum við ákaflega vel saman.

tjaldið 

Þeir sem fylgjast með blogginu muna kannski eftir því að ég gerði grein fyrir veislunni í fyrra. Þá elduðum við heilgrillað lamb, nokkur lambalæri og svo hamborgara fyrir börnin. Veislan heppnaðist vel og það var sérstaklega gaman að fá að kynnast nágrönnum sínum svona vel. Í fyrra eignuðust við góða vini sem við höfum hitt reglulega síðan í fyrra. Alveg frábært. 

latifagerirpestó 

Undirbúningurinn hefur líka verið skemmtilegur - við hittumst nokkrum sinnum vikunum fyrir stóra daginn og skipulögðum og deildum niður verkefnum. Svíar kunna að skipuleggja betur en flestir. Í götunni eru um 35 hús og 26 fjölskyldur voru skráðar til þátttöku. Við vorum með fjölbreytilega leiki fyrir börnin, hoppukastala sem vakti mikla gleði og svo auðvitað sameiginlegan kvöldverð. Við nutum einnig lifandi tónlistar. Þetta var stórskemmtilegt. 

 Mögnuð GRILLVEISLA fyrir hundrað manns; Naut, lamb, kjúklingur - bulgursalat, taichiki, pestó og heimagert brauð

chili 

Latífa sá um að panta inn allan mat í gegnum eldhúsið sem hún rekur. Á fimmtudagskvöldið komu Latífa og Signý Vala í heimsókn til mín og þá var sko brett upp ermarnar. Allt kjöt var hreinsað og þurrkað og lagt í ólíkar marineríngar.

marinering 

Lambið var marinerað í olíu, hvítlauk, rósmaríni, rauðum chilli, sítrónusafa ásamt berkinum og auðvitað fullt af salti og pipar.

lambamarinering 

Nautið var marinerað í smáttskornum lauk, olíu, heilum helling af papríkudufti, salti og pipar. 

nautamarinering 

Kjúklingabringurnar voru síðan marineraðar í thai sweetchilli sósu, hvítlauk, olíu, salti og pipar.

 ólívurmarinering

Svo gerðum við einnig marineraðar ólífur. Við höfðum keypt stóran dúnk af ólífum sem við veltum upp úr olíu, salti, pipar, chilli og svo kúmeni. Dúndurgóð og kraftmikil kryddolía.

grillgerð 

Maturinn var settur í stór ílát og geymdur í ískáp þangað til á laugardagsmorguninn. Um morguninn söfnuðust nokkrir galvaskir karlar úr hverfinu og byrjuðu að setja upp tjaldið. Ég varði mestum hluta morgunsins í að útbúa grillið. Í þetta sinn var ekki eins ríkulegt úrval af steinum í boði eins og í fyrra þannig að ég brá á það ráð að grafa holu. Grindina átti ég frá því í fyrra.

grillgerð2 

Við fengum steina frá Hans Örtegren og Jóni Þorkeli. Ég klæddi síðan holuna að innan með álpappír. Reistum síðan útieldhús, gerðum smá skjólvegg. Og svo var ekkert annað að gera en að kveikja upp og byrja að grilla. 

eldurinn 

Latífa hafði yfirumsjón með brauðgerðinni. Hún fékk hjálp við frá Signýju og Snædísi. Fyrst vakti hún pressuger í skál, blandaði saman við mjólk, vatni, sírópi og salti og leyfði þessu að blandast í nokkrar mínútur í hrærivél. Síðan hellti hún mestmegnis hveiti, smá hveitihlíð og haframjöli rólega saman við þangað til að hún var kominn með fallegan deigklump. Sem fékk síðan að hefast í nokkrar klukkustundir.

 baguettur

Það er erfitt að segja nákvæmlega til með hlutföll þar sem Latífa eldar mest með hjartanu. Ætli hún hafi ekki sett 500 gr af vökva (blöndu af mjólk og vatni), einn klump af pressugeri, 2-3 msk af sírópi, 1 msk af salti og síðan 1-1,5 líter af hveiti - mest hvítu hveiti og svo kannski fjórðung hveitiklíð/heilhveiti. Ein svona blanda var nóg fyrir 2 brauðhleifa og mér finnst líklegt að við höfum bakað að minnsta kosti 20 brauðhleifa þegar allt kom til alls. Svo gerðu þær líka heilan helling af baguettum ekki með svo ólíkri uppskrift nema hvað það var einvörðungu notað hvítt hveiti. Deigið fékk að hefast í nokkrar klukkustundir áður en það var mótað í brauðhleifa, leyft að hefast aftur í að minnsta kosti þrjú korter áður en það var sett í heitan ofninn. Latífa vill ekki baka í blástri heldur einungis með "convection" - hún segir að brauðið bakist rólegar við það og verði betri. Það hlýtur bara að vera rétt því að brauðin voru stórkostlega vel heppnuð!

bruschetta  

Ég sá um að útbúa tómatblönduna fyrir brúsketturnar og gerði það í litla útieldhúsinu sem við höfðum útbúið. Það er ljúft að standa útí í sólinni og elda. Og ekkert finnst mér segja "sumar" meira en bruchettur með fallegum rauðum sætum tómötum, basilíku, steinselju, góðri jómfrúarolíu og salti og pipar. Fátt er meira frískandi. 

bruchettur2 

Við grilluðum fyrst brauðið í eitt augnablik á hvorri hlið og svo var tómatblöndunni raðað ofan á og svo var snittunum dreift í mannskapinn. 

bruchettugerð 

Stina í húsi númer 6 gerði bulgursalatið - Nóg af iceberg salati, tómötum, gúrku, papríku og svo bulgur. Latífa sá einnig um að gera taichiki sósuna, blöndu af jógúrt, smáttskornum hvítlauk, agúrku, salt, pipar og smá síróp fyrir til að fá smá sætu.  Svo var einnig gert pestó úr olíu, sólkjarnafræjum, steinselju, salti og pipar. 

 kjöt

Við drukkum með matnum úr búkollum sem höfðu verið sóttar yfir Eyrarsundið. Og auðvitað gátu menn síðan unnið á þorsta sínum með dönsku öli. Það hafði auðvitað verið sótt í sömu veifann!

 matur

Það virtist vera almenn ánægja með matinn. Hann brann aðeins að utan. Þetta voru nú stórar steikur eins og sést á myndunum en ekkert var að því sem var fyrir innan. Kjötið var að mínu mati fullkomlega eldað - en var notaður hitamælir sem sagði til um hvenær kjötið var tilbúið undir hnífinn og ofan í gestina. Þannig klúðrar maður öngvu! Nágrannar okkar virtust alltént kunna að meta matinn. Á myndinni hérna fyrir neðan sjást þær Malin og Signe raða á diska sína með bros á vör.

Sjáumst að ári. 

 MalinogSigne

Bon appetit! 


Gómsætt heimagert Gnocchi di Patate með heimagerðu Pestó

Valdís gerir gnocci 

Það er langt síðan að ég gerði gnocchi síðast. Og það var meira að segja svo að ég bloggaði um það þegar ég gerði það seinast. Það var haustið 2007 og þá gerði ég gnocchi á sama hátt og nú nema hvað þá gerði ég afar einfalda og ljúffenga tómatsósu. Í þetta sinnið hafði ég gert heimagert pestó sem ég notaði á lambalæri og setti á bloggið mitt ekki fyrir svo löngu, sjá hér. Þar sem ég geri eiginlega alltaf of mikið var dálítill afgangur af pestóinu. Einhverjum dögum síðar átti ég síðan afgang af kartöflum og þá var ekki eftir neinu að bíða. 

Þessum rétti kynntumst við fyrst þegar við vorum á ferðalagi um Piemonte hérað í norðanverðri Ítalíu fyrir 12 árum síðan. Þar er gnocchi algengur matur. Það var alger tilviljun að ég pantaði mér þennan rétt - ég hélt að ég hefði pantað pastað sem heitir sama nafni en fékk í stað þess skál með litlum kúlum hjúpuðum sósu. Gnocchi er öðruvísi undir tönn en pasta, mjúkt og deigkennt og að mér finnst -afar ljúffengt.

Það að gera hveitibollur - dumplings - er auðvitað engin nýjung og hefur verið gert flestum löndum síðastliðinn tvö þúsund ár. Kartöflupasta er hinsvegar nýrra á nálinni og var fyrst gert á sextándu öld þegar Spánverjar höfðu komið með kartöflur til ræktunar frá ferðum sínum til Suður Ameríku. Þá varð til þetta pasta - Gnocchi di Patate. 

 Gnocchi di patate með heimagerðu pestói

pestó 

Í þetta skipti gerði ég hefðbundið kartöflupasta en það má gera eins og þessi uppskrift kveður á um með kartöflum og hveiti en það er vel hægt að blanda við pastadeigið, ricottaosti, sætum kartöflum, spínati, kryddjurtum eða það sem manni dettur í hug. Það er líka gaman að því að Valdís, dóttir mín, átti ekki í miklum vandræðum með að taka þátt gnocchigerðinni. 

gnocchi 

Eitt kíló af mjölmiklum kartöflum er soðið eins og vant er í söltuðu vatni. Þegar kartöflurnar eru soðnar er vatninu hellt frá og kartöflurnar flysjaðar og stappaðar. Við kartöflurnar er bætt 2 eggjum, 1 msk af jómfrúarolíu, smá Maldon salti og nýmöluðum pipar, 2 msk af nýrifnum parmesan osti og síðan 150 gr af hveiti (stundum þarf að bæta við meira hveiti til að deigið verði þétt). Hráefnunum er svo blandað vel saman og hnoðað í fremur þykkt deig. Smá bútar er klipnir af deiginu og hver bútur rúllaður út í langa pulsu, skorinn niður í munnbitastóra bita og rúllað varlega með gafli.

pastasodid 

Kartöflupastað er soðið í miklu söltuðu vatni, pastað sekkur til botns og þegar það er tilbúið flýtur það upp á yfirborðið. Þá er það veitt upp úr (helst með götóttri skeið - þannig að vatnið lekið af.

matur 

Pestógerð er leikur einn. Það má nánast nota hvaða grænu lauf sem er og eiginlega hvaða hnetur sem er. Ég hef gert pestó úr basilíku, steinselju, klettasalati, kóríander, líka úr blöndu af hinu og þessu - m.a. notað smá rósmarín og timían - allt verður þetta þrusugott. Að nota ristaðar furuhnetur er líka klassíker, en það má líka sleppa því að rista þær eða nota aðrar tegundir af hnetum t.d. 

12006

valhnetur eða pekanhnetur. Í þetta sinn gerði ég hefðbundið pestó; notaði lauf af þremur basillíkuplöntum, handfylli af ristuðum furuhnetum, 70-100 gr af rifnum grana padano osti, salt og pipar og svo auðvitað jómfrúarolíu þangað til að maður er komið með þá þykkt sem maður vill.

Með matnum vorum við bara með hvítvínstár úr búkollu.  Við drukkum Drostdy-Hof Chardonnay Voigner úr búkollu. Ég kaupi nokkuð oft vín frá þessum framleiðanda. Þetta eru alltaf ansi góð kaup - gott verð. Þetta er vín frá Suður Afríku. Þetta er ljómandi gott vín á búkollu - mildur gulur litur, ávaxtaríkt og fremur þurrt. Ísskalt og frískandi. 

Bárum einnig heitan brauðhleif fram með matnum. Bara svona hleif sem maður kaupir hálfbakaðan, penslar með smá vatni og bakar þar til gullinbrúnt. Einfalt.

pasta med pesto 

Bon appetit 


Pottþéttar pönnusteiktar kjúklingabringur með strengjabaunum, hrísgrjónum og einfaldri sósu

 grímsvötn

Það eru búið að vera ljúft að vera í Lundi þessa seinustu daga. Seinustu helgi vorum við með götuveislu í Púkagrandanum líkt og í fyrra. Þetta var sannkölluð fjölskylduhátíð. Við byrjuðum að undirbúa þetta fyrir næstum tveimur mánuðum síðan. Þátttakan var alveg frábær og dagurinn heppnaðist alveg stórvel. Bæði ungir sem aldnir voru ánægðir með daginn. Geri betur grein fyrir því í næstu færslu. 

Annars erum við hjónin ansi spennt. Við splæstum í ferð til Parísar í næstu viku. Erum búin að velja skemmtilegt hótel nálægt Eiffelturninum og erum að kortleggja hvað við ætlum að kíkja á og hvaða veitingastaði við ætlum að heimsækja. Það er búið að vera draumur okkar lengi að heimsækja París. Þeir sem lesa bloggið mitt ættu að sjá að ég er ekki lítið snortinn af franskri matargerð og matarhefð. Frakkar kunna þetta!

Ég er auðvitað pínulítið stressaður, með ferðina, með þetta eldgos vofandi yfir mér - og ég vona auðvitað að þetta hafi ekki eins víðtæk áhrif og í fyrra þegar Evrópa lamaðist í rúma viku. Tók eftir frétt í morgun, að flugmenn Ryanair flugu í gegnum rauða svæðið í kringum Skotland og sáu hvorki ösku, þoku og ekki varð flugvélin fyrir neinu tjóni. Sjáum hvað setur - og vonum að eldfjallið fari nú að slaka á. Óska öllum þeim sem búa suður af Vatnajökli það besta - það fólk þarf raunverulega að líða fyrir þessar náttúruhamfarir. Mínar kvartanir eru auðvitað bara hjómið eitt í samanburði við það sem lagt er á það góða fólk. Gangi ykkur vel!

 París

Pottþéttar pönnusteiktar kjúklingabringur með strengjabaunum, hrísgrjónum og einfaldri sósu

Þetta er réttur sem er fljótlegur og fantagóður.  Hann er eiginlega tilbúinn á rétt rúmum tuttugu mínútum. Fyrst er að huga að því að setja hrísgrjónin yfir. Þau taka tæplega því tuttugu mínútur - þau eru auðvitað bara soðin eftir leiðbeiningum. 

sósa 

Næsta skref er að bræða tvær matskeiðar af smjöri og smávegis af jómfrúarolíu í heitri pönnu. Á meðan það er að bráðna - er kjúklingur flattur út í tæplega tveggja sentimetra þykkar sneiðar. Þetta er hægt að gera með kjöthamri, eigi maður engan slíkan þá getur maður bara lamið hann með nærlægu áhaldi - þung panna gerir alveg sama gagn. Smá ábending: hyljið bringurnar með plastfilmu eða setjið í poka áður en þig lúskrið á þeim - annars endar kjúklingasafinn útum allt. Síðan er kjúklingurinn saltaður og pipraður og smávegis af sætu papríkudufti sáldrað yfir og svo er bringunum skellt út í heita pönnuna og steikt í fimm mínútur á hvorri hlið.

 kjúklingabringur

Hitið 200 ml af vatni og setjið útí 1/2 - 1 tening af kjúklingakrafti - látið suðuna koma upp og geymið þangað til að búið að er að steikja kjúklinginn. Í öðrum potti hitið hálfan líter af vatni og þegar suðan er kominn upp, saltið vatnið og setjið tvö handfylli af strengjabaunum. Sjóðið skv. leiðbeiningum - þetta tekur ekki nema nokkrar mínútur. Þegar baunirnar eru soðnar, hellið vatninu frá og setjið í skál. Síðan er smá skvettu af olíu blandað saman við, smá saxaðri ferskri steinselju, myntu og salti og pipar.

matur-1 

cloudy bay

Þegar kjúklingurinn er gegnumsteiktur er hann lagður til hliðar í eitt augnablik á meðan sósan er gerð. Það er auðvitað ekkert að því að setja kjúklinginn í heitan ofn (70 gráður) á meðan maður eldar sósuna. Fyrst setur maður 2 msk af hveiti á pönnuna og hrærir saman við fituna í pönnunni - við það verður til smjörbolla sem þarf að elda í nokkrar mínútur, til þess að elda burtu hveitibragðið. Síðan hellir maður kjúklingasoðinu saman við, smávegis í einu, og hrærir vandlega. 2 msk af creme fraiche hrært saman við, safa úr hálfri sítrónu, salti og pipar. Soðið í nokkrar mínútur. 

Með matnum fengum við okkur hvítvínsglas. Í þetta sinnið fengum við okkur vín frá Nýja Sjálandi - Cloudy Bay Sauvignion Blanc frá því 2008. Þetta er ljómandi gott hvítvín. Létt og gott vín - ávaxtaríkt á tungu með frískandi eftirbragði. Þetta vín passaði vel með matnum - sem var líka léttur og góður. 

matur2 

Bon appetit! 

 


Ofngrillaður lax með mísóhjúp, ofnbökuðu blönduðu grænmeti, hrísgrjónum með wasabesósu

Eins og ég hef oft nefnt hérna áður þá er ekki eins auðvelt að verða sér útum góðan fisk hér eins og heima á Fróni - það er nú eitt af því sem við Íslendingar getum montað okkur af ... gæðin á þeim fisk sem við fáum að kaupa í búðunum. Og hvað sem allir segja þá er hann að minnsta kosti helmingi ódýrari en sá fiskur sem ég er að kaupa hérna, frosinn, sem ku vera af Íslandsmiðum. Annars skilst mér að það sé byrjað að selja íslenskan fisk í Malmö í verslun sem heitir Gallerí Fisk. Ég á ennþá eftir að heimsækja þau!  

Ég fékk bók Heston Blumenthal í afmælisgjöf frá brósa og Snædísi - The Big Fat Duck Cookbook - sem er mögnuð matreiðslubók. Þessi bók er samt miklu meira en það; þetta er sjálfsævisaga, pökkuð fallegum ljósmyndum, fallegum teiknuðum myndum og endalaus uppspretta innblásturs. Maðurinn er auðvitað galinn - en á mjög jákvæðan hátt. Hann hefur tekið matseld alveg á nýtt plan - vísindi og vísindalegar aðferðir eru notaðar óspart. Hann ræðir um upplifun á mat, ekki bara eitthvað fyrir bragðlaukana og lyktarskynið - heldur einnig fyrir augað, eyrun og jafnvel snertingu. Í bók sinni eru honum tíðrætt um bragðlaukana - salt, súrt, beiskt, sætt og svo umami (bragðlaukar eru sennilega flóknari en þetta - við virðumst skynja margar ólíkar tegundir af beiskju, kalk, fitu og jafnvel með sérstaka bragðlauka fyrir það sem bragðast svalandi). 

lax 

Umami er eitthvað sem þýðist yfir á ensku savory (bragðmikið) og birtist æ oftar á síðum matreiðslubóka, tímarita og í blaðagreinum um mat. Umami er auðvitað ekkert nýtt á nálinni - því var lýst fyrst fyrir rúmri öld í Japan og hefur verið á tungum Vesturlandabúa núna seinustu árin. Umami er einkennandi bragð af mörgum mat; kjöti, ostum, soya sósu svo eitthvað sé nefnt. Marineraðar ansjósur eru oft notaðar sem bragðaukandi efni til að lyfta öðrum bragðeiginleikum upp á þennan hátt. Umami er oft tengt við MSG - sem er bragðaukandi efni - og mörgum líkar illa við af ólíkum ástæðum sem ég ætla ekki að tíunda hérna. Fyrir þá sem fá sér japanska mísósúpu áður en þeir fá sér súshí þá er hún einnig dæmigerð fyrir umami. Og því ekki að nota hana sem bragðaukandi efni. 

 Ofngrillaður lax með mísóhjúp, ofnbökuðu blönduðu grænmeti, hrísgrjónum með wasabesósu

Þetta er einfaldur réttur (my signature sentance). Ég hafði keypt mísósúpuduftsskammta - einn lítill poki fyrir einn bolla af súpu. Setti einn slíkan í pott, 150 ml af vatni, 3-4 msk af soya sósu og síðan eina matskeið af hunangi. Þetta sauð ég síðan rólega niður þangað til að einungis 30-40 ml af vökva var eftir. Leyfði því að kólna aðeins svo að það þykknaði og hægt var að pensla það á laxinn.

grænmeti 

Skárum niður gula, rauða og græna papríku, kúrbít og svo rauðlauk. Setti í eldfast mót, velti upp úr smá jómfrúarolíu, salt og pipar og bakaði í 200 gráðu heitum ofni í 30 mínútur. Suðum einnig hrísgrjón með matnum.  

 misó

Setti ofnskúffu yfir gasloga og hitaði vel upp. Smá olíu í skúffuna og setti síðan 1300 gramma laxabita í ofnskúffuna, með roðið niður penslaði og síðan mísó "glazinum" sem ég hafði búið til. Steikti laxaflakið í nokkrar mínútur og setti síðan skúffuna inn í ofninn með grillið á fullu. Steikti í 15 mínútur eða þartil laxinn var eldaður. 

humar 

Fann einnig 4 humarhala sem ég hafði átt afgangs í frystinum sem ég ákvað að elda með á sama hátt og með laxinn. 

 misólax

montes

Gerði síðan einnig hvítasósu, 200 ml af creme fraiche, 2 hvítlauksrif, salt og pipar og svo 2-3 teskeiðar af wasabepaste. Hrærði saman og smakkaði til. 

 Drukkum ágætt hvítvín með matnum.  Þetta er vín frá Chile - Sauvignion Blanc frá því 2010. Ég hef lengi kunnað að meta vín frá þessum framleiðanda. Ég hef oft nefnt það á þessari bloggsíðu að fyrsta vínið sem ég kunni að meta var frá þessum sama framleiðanda - Montes Alpha Cabernet Sauvignion - það er nú orðið ansi langt síðan. Alltént er þetta létt og frískandi hvítvín sem er stórgott með mat sem þessum. Þetta er ávaxaríkt vín - í þurrari kantinum með smá sýru á tungunni. Ljómandi gott og einnig vinalegt á veskið!

 

 

matur 


Það nýjasta af grillinu: Eldgrillaðar flatbökur og Suðræn Svínarif með maískólfum

tómatar og basil 

Sumarið er löngu komið hérna í Suður Svíþjóð. Veðrið hefur leikið við okkur síðastliðnar þrjár til fjórar vikurnar. Hitinn hefur farið yfir tuttugu stig og það er alveg ljóst að yngstu meðlimir fjölskyldunnar njóta sín fram í hið ýtrasta. Öll börnin í hverfinu eru úti að leika sér frá því þau koma heim úr skólanum og eru úti fram á kvöld. Hérna er allt fullt af barnafjölskyldum þannig að hér er ansi fjörugt. Þetta líkist dáldið því þegar kúnum er sleppt út á vorin - hoppa og gleðjast.

Og ekki leiðist manni þetta sjálfum - Það er eitthvað svo dásamlegt að fylgjast með vorinu. Sjá hvernig lífið hreinlega springur fram! Það er ekki annað hægt en að elska vorið. Og það kom snemma í ár - vonum að sumarið verði okkur gott. Og ekkert annað stendur til. Ég fer í frí eftir fjórar vikur. Við ætlum að koma í heimsókn til Ísland í byrjun júlí og vera heima í 12 daga. Ætli við reynum ekki að ferðast eitthvað um Frónið - Ísland er auðvitað best á sumrin. 

Og eins og gefur að skilja - þá kallar svona veður á að maður standi úti við grillið. Við erum búin að grilla ýmislegt. Auk þess sem ég blogga um í þetta sinn höfum við grillað kjúkling, skötusel, pylsur, hamborgara að sjálfsögðu, ýmiskonar grænmeti; kúrbít, papríkur, eggaldin og kartöflur. Það er alltaf gaman að grilla. Ég er meira farinn að grilla á kolum en ég gerði áður. Ég á einnig gamalt gasgrill - sem bara hangir saman á ryði að utan og fitu að innan. Ég held alltaf að það sé á síðustu metrunum, það lýtur út eins og það sé að fara að hrynja - það hefur orðið alelda oftar en ég get talið - en þraukar samt. Sjáum hvort að það standi af sér sumarið.

 Grillfréttir: Eldgrillaðar flatbökur og Suðræn Svínarif með maískólfum

Þetta blogg inniheldur engar nýjungar - ég hef áður, vorið og sumarið 2009 bloggað um báða þessa rétti. En það er nú bara svo að suma rétti þarf að fjalla um oftar en einu sinni. 

eldbökuð 

Eldgrillaðar flatbökur

Eldgrillaðar flatbökur eru auðvitað veislumatur. Það er mikilvægt að gera botnana þunna, þannig að þeir eldist hratt og verði stökkir og góðir. Deigið er gert á eftirfarandi hátt; 2 tsk þurrger og 30 g af sykri er sett í 350 ml af ylvolgu vatni. Hrært saman og gerinu leyft að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur um 10-15 mín. 500 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hnoða deigið vel - þannig hefast það betur og bragðast betur. Þá er að leyfa því að hefast - í nokkrar klukkustundir. Deigið er nóg í 5-6 þunnbotna 12 tommu flatbökur.

pizza 

Gerði einfalda tómatsósu; tómatar í dós, tómatpuré, venjuleg tómatsósa, salt, pipar, oregano, 

Drosdty

steinselja - sett í pott og hitað upp og leyft að sjóða í dálitla stund. Ofaná flatbökurnar settum við það sem við fundum í ísskápnum. Skinku, salami, sveppir, kapers, lauk. Notaði rifin mozzarellaost sem var sáldrað yfir - einstaka flatbaka fékk einnig nokkrar klípur af rjómaosti. Saltað og piprað og svo auðvitað heimagerð hvítlauksolía.  

Borið fram með heimagerðri hvítlauksolíu, salti og pipar og nokkrum tárum úr rauðvínsbúkollu sem að þessu sinni var Drostdy-Hof Shiraz Pinotage. Þetta er vín sem ég hef ekki smakkað áður svo ég muni eftir. Ég hef bragðað Cape Red frá sama merki og auðvitað hvítvínin en ekki þetta . Þetta er fyrirtakspizzuvín - því er ekki að neita!  Þetta er bragðgott, frískandi rauðvín. Ágætis berjabragð og ljúft eftirbragð. Meira er ekki hægt að krefjast af víni á búkollu.

matur 

 Suðræn svínarif með maískólfum 

Ég var með 3 heil svínarif, sem var búið að skera í tvo bita. Oft er mælt með því að taka himnuna innan úr rifjabúrinu - en ég lét hana bara vera - veit ekki hvort að það skiptir máli - heldur kannski inni raka í kjötinu, lógíst? Rifin lögð í stóra skúffu og 1,5 lítrum af eplasíder og safa úr 4-5 sítrónum  hellt yfir. Rifin fengu að liggja í þessari lausn í rúma tvo klukkutíma.

reykofn 

Þá voru þau þurrkuð og þurri kryddmarineringu nuddað inn í kjötið. Fyrir þetta magn af kjöti útbjó ég þessa marineringu; tæplega 3/4 bolli púðursykur, hálfur bolli sæt papríkuduft, 4 msk svartur pipar, 4-5 msk gróft salt, 2 msk af reyktu sjávarsalti, 2-3 tsk hvítlauksduft, 2-3 tsk laukduft, 2-3 ceyenne pipar og einnig dáldið af chilli. Þessu var svo nuddað í kjötið og látið standa í tvo klukkutíma. 

Rifin voru grilluð við óbeinan hita - að mestu (eins og pláss leyfði - einstaka sinnum urðu einhver af þeim að liggja í hitanum) - rifjunum var reglulega snúið og staflað upp til að jafna eldunina - þetta tekur að minnsta kosti þrjár klukkustundir - sem gefur nóg tíma til að slaka á og sötra á nokkrum köldum bjórum! Þegar um 30 mínútur eru eftir af elduninni er BBQ sósunni penslað á. Þarna gefst færi á að gera sína eigin sósu; úr td. siderediki, tómatsósu, Worchestershire sósu, sykri, sinnepi, tabaskó og hluta af kryddinu sem fór á kjötið. Ég verð að játa að ég gerði það ekki - ég fór styttri leið - ég hafði dottið inn á sósu sem heitir Sweet baby Ray's barbeque sauce - og hún er góð! Lét mér nægja það.  

Með matnum bárum við fram maískólfa - fátt er nú klassískara en slíkt - alltént með svona mat. Kólfunum var pakkað inn í álpappír og látið vera aftast á grillinu í rúma klukkustund. Það var ætlununin að fá sér gott rauðvín með þessum mat, en sumt kallar bara á aðeins eitt, sérstaklega svona kryddaður matur. Þannig að við fengum okkur bara bjór með matnum að þessu sinni! Og hann lukkaðist stórvel í þetta skiptið, kjötið lungamjúkt og bráðnaði í munni. 

svínarif 

 Bon appetit! 


Ljómandi SJÖ klukkutíma lambalæri með ekta lambasósu og ostakartöflugratíni

undirbúningur 

Hef nýlega byrjað að lesa eina af bókum Michael Pollan, In defence of Food, sem fjallar um hvernig við á Vesturlöndum meðhöndlum matinn okkar. Bæði hvernig hann er framleiddur, hvernig við förum með skepnurnar sem við síðan leggjum okkur til munns, hvernig ræktum grænmetið okkar, hvernig við förum síðan með hráefnið, hvaða efnum við blöndum saman við það og svo síðast en ekki síst hvar/hvernig við borðum. Þetta er áhugaverð lesning - talsvert í anda bókarinnar The Omnivores Dilemma sem ég las seinasta sumar sem einnig er lesning sem vekur mann til umhugsunar. 

Við ræðum þetta mikið á heimilinu. Dóttir mín, Valdís, sem er 10 ára hefur mikinn áhuga á matargerð og hvernig við förum með dýrin. Við erum núna að horfa á myndina Food Inc saman í nokkrum hlutum og erum svona að velta fyrir okkur hvernig þetta fer allt fram - frá útsæði til franskrar kartöflu. Frá eggi til ofnbakaðs kjúklings. Það eru mikil viðbrögð um hvernig dýrum er slátrað. Grænmetið vekur færri spurningar - en það kemur kannski seinna. 

Eitt af því sem hann nefnir inngangi bókar sinnar hittir - Manifestóið hans - alveg í mark hjá mér; maður á að borða mat! svo segir hann líka að maður eigi auðvitað að passa hversu mikið maður borðar og maður eigi að leggja áherslu á að borða grænmeti. Ég á oft erfitt með að passa magnið en ég held að á mínum borðum sé alvöru matur, eldaður frá grunni, gerður úr góðu hráefni - og mikið af grænmeti. Það sem Hr. Pollan er að tala um þegar hann er að tala um alvöru mat þá er hann að tala um ekta hráefni, ekki eitthvað bæti- og aukaefna bættan mat sem inniheldur efni sem engin skilur eða veit hvernig lítur út! Það er gaman að fylgjast með þeirri grósku sem núna er í gangi á Íslandi; vakningu um hvernig kjúklingar og svín eru "framleidd" og ósk eftir lífrænni framleiðslu! Virkilega áhugavert!

undirbúningur2 

Jæja víkjum okkur að uppskrift dagsins. Hún er eins ekta og hægt er að hafa það! Ekta íslenskt lambalæri sem átti að vera í matinn á páskadag en vegna ofáts á lambaskönkum á föstudaginn langa og svo grilluðu læri hjá Jóni og Álfu á laugardaginn fyrir páska var ákveðið að geyma páskalambið í viku - fram að Valborgarmessu sem er haldin hátíðlega hérna í Svíþjóð.  

Í bók Stéphane Reynauds, 365 good reasons to sit down to eat, er frábær uppskrift á blaðsíðu 162; Seven hours leg of lamb. Ég á nokkrar bækur eftir þennan franska matreiðslumann; Rotis og Ripalles sem eru líka virkilega girnilegar bækur en uppáhaldið mitt er án efa Pork & Sons - sem er bara tileinkuð svínakjöti. Frábær matreiðslubók. Síðan sá ég einnig umfjöllun um þessa aðferð á síðum Fréttatímans fyrir nokkru - þar skrifa Þórir Bergsson og Gunnar Smári Egilsson frábæra pistla um mat, endilega kíkið á það. Það var ekki ekkert annað að gera en að prófa. 

 Ljómandi SJÖ klukkutíma lambalæri með ekta lambasósu og osta-kartöflugratíni

 áleiðíofninn

Aðferðarfræðin er eins einföld og hugsast getur. Það eina sem gildir er að byrja snemma. Rölta niður í eldhús um hádeigisbilið og kveikja á ofninum. Stilla hann á hundrað. Síðan er bara að raða hlutunum á sinn stað. Nokkrar gulrætur eru flysjaðar og skornar niður í grófa bita ásamt tveimur laukum, tveimur hvítlaukum og nokkrum sellerístöngum. Sett í ofnpott. Síðan er lambið nuddað með olíu, saltað og piprað og síðan sett ofan á grænmetið. Nokkur piparkorn eru sett með og svo 4-5 lárviðarlauf. Síðan er 6-700 ml af vatni sett í botninn á pottinum, nokkrum rósmarínlaufum dreift yfir. Lokið sett á pottinn, hann inn í ofn og svo var beðið í sjö klukkutíma.  

DSC_0073 

Að fimm og hálfum tíma liðnum byrjar maður að huga að kartöflugratíninu. Nokkrar karftöflur eru skornar niður og raðað í eldfast mót, smurt með hvítlauksolíu. Á milli laga raðar maður hvítmygluosti, kannski cheddar í næsta lag, mögulega blámygluosti. Einum pela af matreiðslurjóma er síðan hellt yfir, saltað og piprað og svo er auðvitað toppað með osti sem bráðnar vel, cheddar til dæmis.

ostagratín 

Þegar lambið er tilbúið er það látið standa í nokkrar mínútur og á meðan útbýr maður sósuna. Soðinu er hellt í gegnum sigti og látið standa í smástund. Fitan flýtur upp á yfirborðið og henni fleytti ég af. Síðan útbjó ég smjörbollu í potti, 30 gr af smjöri, jafnmikið af hveiti. Fyrst bræðir maður smjörið, svo er hveitið sáldrað yfir og eldað í nokkrar mínútur þannig að hveiti bragðið minnkar (það er gott að muna að eftir því sem maður eldar smjörbollu lengur þá minnkar geta þess að þykkja sósuna). Soðinu er síðan hellt varlega saman við - hrærið stöðugt. Síðan er ekkert annað að gera en að "balansera" sósuna: smá rjómaskvetta, salt, pipar og kannski smá rifsberjasulta.

 lamb

Þegar lambið er búið að hvíla í smá stund er því rennt undir blússheitt grillið í ofninum - svo að það verði stökkt og girnilegt að utan. 

Peter Lehmann shiraz

Með matnum drukkum þetta ljúffenga rauðvín Peter Lehmann Futures Shiraz frá því 2007. Ég lengi verið hrifinn af vínum frá þessum framleiðanda. Ég er ennþá að vinna mig í gegnum það sem við keyptum þegar við komum tilbaka frá Austurríki og birgðum við okkur aðeins upp, m.a. af þessu ágæta víni.  Þetta er ljómandi gott vín. Dökkur litur, verkar þykkt. Ilmar af plómum, eik. Lifandi bragð, dökkur ávöxtur og eikað vín með góðu eftirbragði.  

Ég hvet alla til að prófa þessa uppskrift. Bragðið af lambinu var alveg kyngimagnað - og kjötið hreint út sagt bráðnaði í munni. Alveg ógleymanleg máltíð! 

 lambnærmynd

Bon appetit! 

 


Ótrúlegir indverskir lambaskankar með hrísgrjónapilaf, grilluðu nanbrauði og karmelliseruðum gulrótum og íslenskum bjór

sítrónuroglime 

Var á Íslandi í seinustu viku í stuttri heimsókn. Náði að hitta heilmikið af vinum og ættingjum þrátt fyrir að ég var bara á skerinu í fimm daga. Ég gaf mér þessa íslandsför í 35 ára afmælisgjöf og tók þátt í Íslandsmótinu í skvassi. Það var virkilega skemmtilegt. Því miður náði ég ekki inn í meistaraflokkinn (Takk fyrir það Hilmar) en náði að vinna A flokkinn. Og varð bara nokkuð rogginn - þrátt fyrir að hafa ekki komist í meistaraflokkinn!

Ég fór líka í skoðunarferð um Reykjavík og var glaður þegar ég fór í gegnum miðbæinn. Mikið af fallegum nýjum gamaldags húsum og svo auðvitað Harpan - ég varð alveg orðlaus - þvílík bygging! Svo var veðrið líka ótrúlegt - umhleypingar - 20 ólík veður á einum degi, svona gerist bara á Íslandi! Ég var alveg uppgefinn eftir heimsóknina og það hefur endurspeglast hérna á heimasíðunni minni og ég hef verið latur við uppfærslurnar upp á síðkastið. 

 myntaogkoriander

Annars hefur allt verið á fullu síðan að ég kom heim. Nóg að gera í vinnunni, í garðinum, spila skvass og auðvitað elda. Tengdapabbi, Eddi, hefur verið hérna í heimsókn síðustu vikuna og við höfum reynt að dekra aðeins við hann. Hann hefur greitt með sér, verið duglegur að taka til og ganga frá eftir matinn og séð um að bursta tennurnar í syni mínum. Honum finnst mikið sport að afi hans, tannlæknirinn, sjái um tennurnar í sér. Það er svo sannarlega gott að hafa húskarl! 

Þetta er annars búnir að vera alveg einstakir páskar. Hérna hefur verið glampandi sól og tuttugu stiga hiti síðan snemma í seinustu viku og stefnir í annað eins næstu vikuna. Börnin hafa verið leikandi sér úti allan liðlangan daginn, allir léttklæddir í sólbaði, kynnt hefur verið á grillunum og grilllyktin, ilmur af elduðu kjöti, hefur legið yfir hverfinu. Stemningin hefur verið frábær.

Þessi réttur var gerður á föstudaginn langa. Bróðir minn stóð nærri því alfarið að matseldinni. Ég var honum aðeins innan handar við að skera niður hráefni, grilla nanbrauð og svo elda gulræturnar. En niðurstaðan var svo góð að það var ekki annað hægt en að gera grein fyrir þessu á blogginu. 

 krydd

Ótrúlegir indverskir lambaskankar með hrísgrjónapilaf, grilluðu nanbrauði og karmelliseruðum gulrótum og íslenskum bjór

marinering

Við sóttum lambaskankana í Saluhallen daginn áður enda þurfti að marinera kjötið í sólarhring. Byrjað er á því að stinga lítil göt í lambið svo marineringin geti smogið inn í kjötið. Marineringin er útbúin þannig að; 3 tsk cardamonfræ, 2 gulir laukar, 8 hvítlauksrif,  4 cm engifer, 3-5 græn chilli, 6 tsk cumin, 2 tsk negulnaglar, 2 ½ mtsk sítrónusafi og síðan 400 ml hrein óbragðbætt jógúrt eru sett í matvinnsluvél og maukað. Helmingnum af marineringunni er smurt vel á lambið og það síðan geymt í ísskap í einn sólarhring.  Daginn eftir er hinn helmingur af marineringunni ásamt möndlum, sykrinum og jógúrtinni maukað saman í matvinnsluvél og síðan smurt á lambið. Eldað á vægum hita, 160 gráður í 4 klukkustundir.

lambaskankar 

Borið fram með myntusósu - sem er hreint útsagt ótrúlega frískandi sósa; Hún er gerð á eftirfarandi hátt: tvö búnt af koriander og tvö búnt af myntu, 1 grænt epli (kjarnhreinsað), 1 grænn chilli,  2 msk af hreinni jógúrt, einn laukur, smá sítrónusafa, örlítið af hlynsýrópi, auðvitað salt og pipar. Þetta fær allt að hittast í matvinnsluvél og blandað vel saman. Borið fram í fallegri skál.  

nanbrauð 

Jæja þá að Nanbrauðinu. 500-600 ml af hveiti er sett í skál, smávegis af fínu salti og svo 2 msk af olíu. 3 tsk sykri er leyst upp í volgri mjólk og svo er gerið sett saman við og vakið í mjólkinni. Mjólkurgerblöndunni er svo blandað saman við hveitið og hrært saman. um 200 ml af Ab mjólk (eða jógúrt, eða fiftyfifty mjólk og Ab mjólk) hrært saman við og smávegis mjólk. Deigið er hnoðað þar til það verður mjúkt og meðfærilegt og hætt að klístrast við hendurnar á manni. Látið hefast í 30 mínútur (lengur ef það er hægt). Smábitar eru svo klipnir af deiginu og flattir út með fingrunum í lófastórar þunnar kökur sem eru pennslaðar með hvítlauksolíu og saltaðar með Maldon salti og svo grillaðar á blússheitu grilli.  

gulrætur 

Gerði einnig þennan gulrótarrétt. Flysjaði 5-6 stórar gulrætur og skar síðan niður í munbitastóra bita. Sauð þá þar til mjúkir í gegn í söltuðu vatni - 15 mínútur kannski. Vatninu síðan hellt frá og gulræturnar fá að kólna smávegis. Á meðan er karmella útbúinn í pönnu. Hálfur bolli af sykri er settur á pönnu og yfir hita, matskeið af vatni sett með. Sykurinn leysist fljótlega upp og brúnast lítillega - passa sig að láta þetta ekki brenna (bara yfir meðallágum hita). Þá er einni teskeið af þurrkuðu engifer sett saman við ásamt sama magni af kúmeni. Hrært saman. Gulrótunum þvínæst bætt saman við og brúnaðar í þessari sykurblöndu. Þegar vel hjúpað og klístrað sett í skál og svo smávegis af niðursneiddri steinselju bætt saman við.

salat 

Bárum fram mjög einfalt tómat- og lauksalat. 2 tómatar og laukar eru sneiddir niður næfurþunnt í mandólíni. Raðað á disk. Smá olía og hvítvínsedik sáldrað yfir. Saltað og piprað. Gerðum einnig hrísgrjónapilaf. Smjörklípa leyst upp í pönnu, síðan voru 3 smáttskorinn hvítlauksrif steikt þar til glansandi. Þá var 2 tsk af túrmeriki og 1 tsk af byriani bætt saman við og svo fjórir bollar af forelduðum hrísgrjónum. Steikt þar til hitað í gegn og farið að brúnast lítillega. Saltað og piprað. 

úlfur 

Með matnum fengum við okkur bjór - Íslenskan Úlf frá Bruggsmiðjunni Borg, sem ég hafði tekið með mér frá Íslandi. Þetta er Indian Pale Ale sem mér fannst passa ákaflega vel með indverskum mat, Bjórinn er bruggaður úr "pale" malti. Þessi tegund var fyrst brugguð á sautjándu öld í Englandi, nálægt höfn þar sem flutningsskip á leið til og frá Indlandi lögðust að höfn og var gjarnan flutt út til Indlands og þótti henta vel fyrir langa sjóferð og varð jafnvel betri fyrir vikið. Það skýrir nafngiftina. Úlfur er kraftmikil bjór sem vel þolir að standa við hliðina á bragðsterkum indverskum mat. Þetta er þurr bjór, bragðmikill og jafnvel beiskur - með ávaxtakenndum tónum. Fantagóður. Nafni minn, Ragnar Freyr - bjórmaður hefur einnig fjallað um þennan drykk á síðunni sinni, sjá hér.

matur 

Bon appetit! 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband