Færsluflokkur: Matur og drykkur

Ævintýraleg tacoveisla - smjörsteiktar risarækjur í chili, djúpsteiktur skötuselur, langeldaður grís með fullt af salsa, pækluðu grænmeti, geggjuðu crema de coríander og chipotle mayo

 

Þetta varð að algerri orgíu, matarorgíu það er að segja. Við, alnafnarnir - Ragnar Freyr Ingvarsson og Rúnarsson (nafni minn gengur þó alla jafna undir nafninu Freysi - er heimilislæknir í Hafnarfirði og nautnaseggur fram í fingurgóma - hægt er að lesa um ævintýri hans í eldhúsinu hérna). Við hófumst handa í fyrra fallinu. Höfðum lagt drög að þessari veislu á spjallþræði dagana á undan og því var gengið beint til verks bæði í búðinni og þegar heim var komið. 

 

Ákveðið hafði verið að gera tacokökur frá grunni. Freysi vildi gera tvennskonar kökur - bæði maískökur og einnig hveitikökur. Þá höfðum við einnig ákveðið að gera nokkrar tegundir af salsa, pækla grænmeti og toppa þetta svo með tveim tegundum af bragðbættum sósum. Þetta átti svo að máta við ósköpin öll af bjór og víni. 

 

Gestir kvöldsins voru vinir okkar til tveggja áratuga. Auk Freysa kom eiginkona hans Sigrún Ása, Elva Brá og maðurinn hennar, Ólafur Hólm. Þá komu einnig Magnús og Hafdís. Þessi hópur samanstendur af fimm sálfræðingum, tveimur læknum og einum trommara. Dúndur hópur! 

 

Jæja, það er best að byrja á þessu!

 

Ævintýraleg tacoveisla - smjörsteiktar risarækjur í chilli, djúpsteiktur skötuselur, langeldaður grís með fullt af salsa, pækluðu grænmeti, geggjuðu crema de coríander og chipotle mayo

 

 

 

Við byrjuðum á svínakjötinu þar sem það stóð til að elda það í að minnsta kosti fjóra klukkutíma. 

 

 

Fyrst var að leggja grunninn; 

 

3 þykkar sneiðar af grísahnakka

1 purusteik - 1,2 kg 

4 msk chipotle mauk

4 msk jómfrúarolía

2 gulir laukar

1 rauðlaukur

2 sellírsstangir

4 gulrætur

6 hvítlauksrif

2 kanilstangir

4 lárviðarlauf

3 stjörnuanísar

1 msk kóríanderfræ

1 msk broddkúmen

1 msk rósapipar

3 lime

50 ml rauðvínsedik 

250 ml rauðvín

1 líter vatn

salt og pipar

 

Allt grænmetið var skorið niður og lagt í botninn á ofnpotti ásamt öllu kryddinu.

 

 

Fyrst skar ég puruna af svíninu (hugmyndin var að elda hana sér). Svo var kjötið nuddað upp úr jómfrúarolíu og chipotlemauki og lagt ofan á allt grænmetið.

 

Potturinn var fyrst settur á gashellu og hitaður þannig að vökvinn sauð í nokkrar mínútur. Þá var lokið sett á og inn í 160 gráðu heitan ofn í 4-5 klukkustundir - síðustu tvo tímana lækkaði ég hitann í 130 gráður.

 

 

Svo var það skötuselurinn.

 

600 g skötuselur

2 lime

2 msk jómfrúarolía

1 msk hvítvínsedik

4 hvítlaukrif

salt og pipar

 

Skar himnurnar burt og fiskinn í munnbitastóra bita. Lagt í marineringu með limesafa, jómfrúarolíu, ediki, smátt skornum hvítlauk, salti og pipar. Hann fékk að marinerast í tvo til þrjá klukkutíma.

 

Næst var að djúpsteikja fiskinn í einföldu tempuradeigi;

 

Einn bolli af hveiti

1 msk matarsódi

1 msk kartöflumjöl

1 tsk sykur

1 tsk salt

ískalt sódavatn (breytilegt magn eftir hveiti, en bætt saman við þangað til að deigið minnir á þykkt lím).

 

Þá var vökvanum hellt frá - og fisknum velt upp úr hveiti, síðan tempúradeiginu og djúpsteikt þangað til að hjúpurinn var fallega gullinn að utan.

 

Við vorum svo með tvennskonar rækjur - innfluttar risarækjur og svo stórar íslenskar rækjur.

 

250 g íslenskar rækjur

250 g risarækjur

50 ml jómfrúarolía

3 hvítlauksrif, pressuð

2 tsk nýmalað cumin

1 tsk hvítlaukssalt

2 tsk chilipipar

1 tsk papríkuduft

1 tsk sjávarsalt

 

Rækjunum var leyft að þiðna. Marineringin var útbúin með því að blanda öllum hráefnunum saman og svo hellt yfir rækjurnar. Þetta fékk að marinerast í nokkrar klukkustundir. Svo voru rækjurnar steiktar upp úr smjöri.

 

 

Sonur minn tók að sér verkefni í eldhúsinu. Hann sá um að skera grænmeti - gera marineringu fyrir fiskinn sem og að útbúa baunasalsað.

 

 

Ragnar Freyr - hafði nokkrar áhyggjur af því hvernig ég slumpaði á magn í brauðgerðinni. Hann hafði yfirumsjón með tortillugerðinni. 

 

Hér er svo uppskriftin af hveitikökunum; 

 

370 g hveiti

1 tsk lyftiduft, 

1 tsk salt, 

80 ml jómfrúarolía  

240 ml volgt vatn

 

Hægt er að lesa allt um aðferðina, hérna - á síðunni hans Freysa. 

 

Fyrir maískökurnar

 

250 g maísmjöl - (keypt í asísku búðinni í Skeifunni)

340 ml volgt vatn

1-2 tsk salt 

jómfrúarolíu til að pensla kökurnar fyrir steikingu. 

 

Þetta var svo hnoðað vandlega saman. Bæði deigin fengu að standa í rúma klukkustund til að taka sig. 

 

 

Magnús mætti glaðbeittur og var ómetanlegur í framleiðslu á óteljandi tortillakökunum.

 

 

Þegar Óli mætti - var hægt að setja upp framleiðslulínu. Það var enginn sem sagði að þessi veisla hafi verið auðveld.

 

 

Og svo voru kökurnar steiktar - hveitikökurnar voru þurrsteiktar á frytop pönnunni á nýju eldavélinni minni. 

 

 

En maískökurnar voru steiktar með smáræðis jómfrúarolíu sem var penslað á þær.

 

 

Fyrr um daginn lögðum við gulrætur, fennel og grænt epli í einfaldan pækil. Ég útbjór pækil úr 1 bolla af ediki, 2/3 bollum af vatni, 1/3 hluta sykri og dash af salti. 

 

Þessu dreifði ég jafnt yfir tvær flysjaðar gulrætur, eitt fennel og eitt græn epli. Gulræturnar voru skornar í strimla með flysjara, fennelið var skorið í sneiðar með mandólíni og eplið var skorið í litla teninga. Fékk að standa á borði í þrjá til fjóra klukkutíma. Það er auðvitað betra að láta þetta standa yfir nótt - en þetta heppnaðist samt ótrúlega vel. 

 

 

Og nú mátti bara veislan byrja. Hún hófst í heita pottinum - allir gestir fengu freyðivínsglas. Ég hafði keypt Casa Rojo Cava Molto Negre - sem er einstaklega ljúffengt spænskt freyðivín. Vín frá þessum framleiðenda þekki ég nokkuð vel þar sem við heimsóttum þessa vínekru haustið 2018 þegar við vorum að taka upp sjónvarpsþætti rétt fyrir utan Alicante. Þessa þætti er ennþá hægt að sjá á Sjónvarpi Símans Premium.

 

 

Kjötið fékk að standa í 30 mínútur á borði til að jafna sig áður en það var rifið niður. Síaði allt soðið sem hafði orðið til og hellti yfir kjötið ásamt tveimur til þremur matskeiðum af hlynsírópi. 

 

 

Fært yfir í skál og skreytt með kóríander.

 

 

Rækjurnar voru eins og nefnt var að ofan steiktar í smjöri í nokkrar mínútur og svo settar í skál og skreyttar með rifnum kóríander og lime sneiðum.

 

 

Örlög risarækjanna voru eins.

 

 

Mér hefur sjaldan tekist jafnvel með djúpsteikingu eins og í þetta skipti. Hjúpurinn var einstaklega stökkur og góður - og skötuselurinn einstaklega mjúkur og ljúffengur.

 

 

Vökvanum var hellt af pækluðu gulrótunum, fennelnum og eplunum. Þetta heppnaðist einnig vel - pæklað grænmetið var vitanlega aðeins undir tönn. En það gaf réttinum bara aukinn karakter.

 

 

Með matnum drukkum við meðal annars La Celia Reserva Malbec 2018 frá Argentínu. Þetta er bragðmikið og gott rauðvín með góðri fyllingu, ferskt á tungu - með miklu bragði af sultuðum ávexti og súkkulaði. 

 

 

Við gerðum tvennskonar sósur með matnum. Annars vegar Crema de Coriander - gerð úr sex msk af majónesi, tvemur hvítlauksgeirum og þremur búntum af kóríander - maukað saman með töfrasprota og sett á flösku.

 

Chipotle majó var einfalt - blandaði saman tveimur matskeiðum af chipotlemauki við sex matskeiðar af majónesi. Hrært vel saman og sett á sprautuflösku.

 

 

Baunasalsað var ótrúlega ljúffengt;

 

1 dós svartar baunir

4 hvítlauksgeirar

1/2 rauður chili

1/2 rauð papríka

1 lítill rauðlaukur

2 msk steinselja

safi úr einu lime

2 msk jómfrúarolía

salt og pipar

 

Baunirnar voru skolaðar og settar í skál ásamt smátt söxuðum hvítlauk, chili, papríku, rauðlauk, steinselju. Bragðbætt með limesafa, jómfrúarolíu og salt og pipar.

 

 

Mangósalsað var klikkað;

 

1 mangó

1 rauður kjarnhreinasaður chili

1 lítill rauðlaukur

2 msk jómfrúarolía

safi úr einni lime

2 msk steinselja

 

Mangóið var flysjað og skorið í litla bita og sett í skál ásamt smátt söxuðum chili, rauðlauk, steinselju. Bragðbætt með limesafa, jómfrúarolíu og salt og pipar.

 

Hefði notað kóríander - en eiginkona mín glímir við kóríanderóþol. En hún bætir það upp með öðrum kostum.

 

 

Freysi gerði þessa ljúffengu avócadósalsa;

 

4 avocado

safi úr 3 lime

3 grillaðir maís stönglar

2 búnt af kóríander 

1 rauður chili skorinn fínt 

3 vorlaukur

salt og pipar

 

Avócadóið var opnað, steinnin fjarlægður og svo skorið í kubba og blandað saman við hakkaðan, grillaðan maís, rifið kóríander, limesafa, niðursneitt chili og vorlauk. Saltað og piprað. 

 

Svo gerðum við einnig pico de gallo - tómatsalsa. 

 

250 g sólskinstómatar

1 rauðlaukur

1 búnt kóríander

1/2 chili

safi úr einu lime

1 msk jómfrúarolía

2 msk rauðvínsedik

salt og pipar

 

Tómatarnir voru sneiddir niður, kjarnhreinsaðir og settir í skál ásamt smátt skornum rauðlauk, kóríander, chili, limesafa, ólíu, ediki. Bragðbætt með salti og pipar. 

 

 

 

Freysi grillaði einnig ferskan ananas í sneiðum sem hann skar niður smátt. Geggjað!

 

 

Það var bakað endalaust af hveitikökum.

 

 

Og hellingur af maískökum.

 

 

Svo var bara að raða saman. Hérna er maískaka með baunasalsa, djúpsteiktum skötusel, pico de gallo tómatsalsa, pæklaðri gulrót og kóríanderkremi. Prófaði að para Úlfey India Pale Ale með - alger draumur.

 

 

Svo þessi; hveitikaka með pico de gallo tómatsalsa, rifnu svínakjöti, grilluðum ananas, pækluðu fennel, purunni (hún var steikt inn í ofni þangað til að hún poppaði og var svo brotin niður í bita) - bragðbætt með chipotlemajó. Unaður.

 

 

Hér var svo maískaka með pico de gallo, smjörsteiktum íslenskum rækjum, pækluðum rauðlauk, pomengranat epli og kóríanderkremi. Orgía fyrir bragðlaukana.

 

 

Til að setja svo punktinn yfir i-ið kom Elva með þessa pavlóvurúllu fyllta með þeyttum rjóma, hindberjum og sítrónucurd skreytta með pistasíum og hindberjum. Uppskriftin er efni í aðra færslu.

 

Svo var spjallað, hlegið og dansað. Fullkominn dagur með frábærum vinum.

 

Bon appetit!

 

-------

 

 

 

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Langeldað og ljúffengt Ossoboco með gremolata borið fram með Risotto Milanese með beurre acido og saffran - sælgæti!

 

Þetta er einstaklega ljúffengur réttur - en eins og allt sem er svona ljúffengt þá tekur eldamennskan dálítinn tíma. Og ekki að hún sé neitt sérstaklega flókin - það tekur bara drykklanga stund að umbreyta seigum bita eins og kálfaskanka (ossobuco) yfir í kjötbita sem bráðnar í munni. 

 

Þessi réttur er frá nítjándu öldinni og var fyrst borinn á borð á svæðunum í kringum Milanó á Norður Ítalíu. Hann ber öll helstu kenniteikn matargerðar frá Lombardy - sem er heldur frábrugðin hefðbundinni ítalskri matargerð þar sem hún einkennist af nautakjöti, hrísgrjónum og smjöri. 

 

Og fyrir þá sem hafa verið að strengja einhver sérstök heit um þessi áramót til dæmis um almenna hófsemi eftir nautnir jólahátíðarinnar - þá ögrar þessi réttur þeim aðeins. Hann er, það sem við myndum kalla, "rich" eða ríkulegur. Ætli risotto-ið sé ekki það sem kemur honum yfir strikið - en hrísgrjón eru auðvitað ekkert nema kolvetni sem síðan er drekkt í dásamlegu smjöri og fullt af parmaosti (parmesan). 

 

En svo getur maður alltaf fengið sér lítið á diskinn - og bara einu sinni, borðað þar til maður er mettur og látið þar við sitja? 

 

Langeldað og ljúffengt Ossoboco með gremolata borið fram með Risotto Milanese með beurre acido og saffran  - sælgæti! 

 

Fyrir 8 

 

2 kg ossobuco í sneiðum 

hveiti 

2 hvítir laukar

4 sellerísstangir

5 gulrætur í heldur stórum bitum

1/2 flaska gott hvítvín

1 l kjúklingasoð

kryddvöndull (timjan, rósmarín, steinselja) 

salt og pipar 

 

Fyrir gremolata 

 

sítrónubörkur af hálfri sítrónu

2 msk fersk steinselja

2 hvítlauksrif

salt og pipar 

 

Fyrir risotto alla milanese

 

1 gulur laukur

1 sellerístangir

4 hvítlauksrif

600 g arboriohrísgrjón

250 ml hvítvín 

1 1/2 L kjúklingasoð

1 g saffran

75 g burro acido (sjá neðar)

100 g parmaostur

salt og pipar

 

 

Mér hafði áskotnast þetta fallega nautakjöt - vel fitusprengt. Það hafði verið skorið í þykkar sneiðar sem mér finnst passa svo vel í ossobuco. Vissulega eru flestar uppskriftir af ossobuco með kálfakjöti - en stundum þarf að leika fingrum fram.

 

 

Ég notaði að sjálfsögðu íslenskar gulrætur. 

 

 

Þær voru flysjaðar og skornar í veglega bita. Steiktar með skornum lauk, sellerí og hvítlauk í smjöri þangað til að grænmetið er orðið mjúkt. Saltið og piprið.

 

 

Kjötinu er velt upp úr bragðbættu hveiti. Hveitið er bragðbætt með salti, pipar og hvítlauksdufti.

 

 

Takið grænmetið til hliðar, brúnið kjötið að utan og bætið svo grænmetinu saman við

 

 

Ég notaði ríflega hálfa flösku af hvítvíni - sauð upp áfengið, skellti kryddvöndli saman við og bætti svo við kjúklingasoði. Náði upp suðunni og setti svo inn í 150 gráðu heitan ofn í rúma þrjá tíma. Þá má bara slaka á. Þetta eldar sig eiginlega sjálft. Þar til það kemur að risottoinu. Það er ekki flókið - en það þarf að hræra í því stöðugt - til að fá það sem best. 

 

 

 

Ég notaði Rustichella d'abruzzo Arborio hrísgrjón. Þó að það standi suðutími á pakkanum þá gildir það ekki alveg um risottogerð, hún tekur aðeins lengri tíma. 

 

Byrjið á því að steikja smátt skorinn lauk og sellerí í smjöri og þegar grænmetið er mjúkt og glansandi bætið þá grjónunum saman við og steikið þangað til að það fer að glansa á jöðrunum. Þá hellir maður hvítvíni saman við og sýður upp. Svo er bætt við ausu eftir ausu af kjúklingasoði og soðið niður á meðan stöðugt er hrært í. 

 

 

Saffran er dýrasta krydd sem selt er - en sem betur fer fer lítið magn langt í matargerð. Mér skilst að verðið fyrir kílóið í fyrra hafi verið í kringum 500.000 krónur. Það er oft hærra - en það er háð uppskerunni. Það er vandasamt að tína saffran. Á hverju blómi vaxa einvörðungu nokkrir þræðir - og þeir eru afar viðkvæmir og það þarf að týna þá hvern fyrir sig.

 

 

Mér finnst gott að láta saffranið liggja í heitu vatni áður en ég bæti því saman við risottoið. Þegar hrísgrjónin eru orðin "al dente" - þá eru þau tilbúin fyrir lokaskrefið. 

 

 

Ég fékk þetta smjör að gjöf frá ítölskum kokki, Marco Fadiga, sem er yfirkokkur hjá Moet & Chandon. Burro acido - sem á íslensku myndi kallast súrsmjör. Og þetta er frekar einfalt. Vín er hitað í potti með ediki og fínt skornum skalottukauk. Sjóðið upp vínið svo áfengið gufi upp. Sjóðið svo vínið, edikið og laukinn áfram þangað til að laukurinn er mjúkur. Skerið kalt smjörið niður í kubba og bætið varlega saman við og hrærið með písk. Þegar allt smjörið er uppleyst er því hellt í gegnum sigti. Þrýst á eftir með sleikju. Vökvinn sem rennur af er svo settur í poka í hæfilegum skömmtum og fryst. Notað eftir þörfum. 

 

 

Bætið saman við 75 g af súrsmjöri og 100 g af rifnum parmaosti og hrærið saman við. Látið standa í tvær mínútur áður en það er borið fram. 

 

 

Og þá er bara að bera herlegheitin á borð.

 

 

Með matnum nutum við þessa ítalska rauðvíns Sasso al Poggio frá 2015. Þetta er vín sem flokkast með Super Toskan vínum - gert úr blöndu af Merlot, Sangiovese og Cabernet þrúgum. Þetta vín er í talsverðu uppáhaldi hjá mér. Vorið 2017 heimsótti ég þessa vínekru og naut dásemdar hádegisverðar á hæð á miðri ekrunni. Ég fer alltaf þangað í huganum þegar ég tek sopa af þessu ljúffenga víni sem er pakkað af bragði - dökkum kirsuberjum - gott og langt eftirbragð í góðu jafnvægi.

 

 

Þetta var unaðsleg veisla. 

 

Gleðilegt ár. 

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Svipmyndir frá aðfangadag - dásamlegar rjúpur með þéttri villibráðarsósu, besti svínahamborgarahryggurinn - sykurbrúnaðar kartöflur, rauðkál, waldorf salati og tvennskonar sósur

 

Mikið geta jólin verið yndislegur tími! Það er fátt ljúfara en að gera vel við sig og sína í mat og drykk. Og jólin eru fyrirtaksafsökun fyrir að ganga skrefinu lengra en ég geri dags daglega og njóta sín alveg í botn. Að þessu sinni vorum við með rjúpur. Það er ansi langt síðan að ég eldaði rjúpur. Held að það sé kominn heill áratugur - alltént er svo langt síðan að ég birti færslu þess efnis. 

 

Ég var því aðeins ryðgaður í rjúpueldamennskunni. Ég var þó alveg ákveðinn í því að eyðileggja ekki matinn eins og er löng hefð fyrir því að gera. Margir sjóða nefnilega rjúpuna í margar klukkustundir - vissulega fæst út úr því magnað soð - og jafnvel mögnuð sósa - en rjúpan verður skraufaþurr. Auðvitað snöggsteikir maður bringuna! Annað er bara hringavitleysa. 

 

Konan mín, Snædís Eva, var þessu algerlega mótfallin. Forfeður hennar hafa soðið líftóruna úr rjúpunni í margar kynslóðir og hún ætlaði svo sannarlega að halda í hefðina. Rjúpan hennar yrði, sko, soðin. Og ekkert múður. Það var því farin leið beggja. 

 

Og ekki bara leið beggja - börnin tóku ekki í mál annað en að svínahamborgarahryggur væri á boðstólunum. Við fórum því leið allra! En ég er ekki að kvarta - ég fékk að elda þetta allt saman. Ég fékk líka góða hjálp. Mamma og pabbi voru mætt hér á Þorláksmessu og svo bættist bróðir minn í hópinn á aðfangadag. 

 

Læt fylgja með uppáhaldsjólalagið mitt - Walking in the air - nú í upprunalegu útgáfunni þar sem Peter Auty syngur.

 

 

 

 

 

Svipmyndir frá aðfangadag - dásamlegar rjúpur með þéttri villibráðarsósu, besti svínahamborgara- hryggurinn - sykurbrúnaðar kartöflur, rauðkál, waldorf salat og tvennskonar sósur

 

 

 

Rjúpnasoðið var heldur einfalt. Beinagrindur af nokkrum rjúpum voru saltaðar og pipraðar og svo brúnaðar í smjöri. Þá var tveimur eða þremur gulrótum, sellerístöngum og einum rauðlauk bætt saman við. Steikt saman um stund. 

 

 

Bætti við nokkrum einiberjum og lárviðarlaufum. Svo var fleytt yfir með vatni og þetta látið krauma varlega í nokkra klukkutíma - þangað til að það hafði soðið niður um þrjá fjórðu.

 

 

Forrétturinn var líka með hefðbundnu sniði - nema í ár hafði Snædís veitt laxinn sjálf. Það fannst mér gera máltíðina ennþá meira verðlaunandi. Þessi lax var líka nýttur alveg í topp, kannski muna einhverjir eftir því hvernig fór fyrir hrognunum, en hægt er að lesa um það hérna.

 

Við létum reykja fiskinn. 

 

 

Og svo var hann líka grafinn. Það er einfalt að gera slíkt sjálfur - og hef gert það reglulega fyrir jólin. Hér prófaði ég að nota Tanqueray í marineringuna - Sjá hérna - en auðvitað má sleppa því.

 

 

Ég keypti hrygginn að þessu sinni í Hagkaupum - ég hafði prófað hann í fyrra og var mjög ánægður með hann. Í ár var hann eldaður með hefðbundnu sniði eins og börnin mín óskuðu eftir, sjá hérna.

 

 

Ég gerði mitt besta að para vínið vel með matnum. Með svínahamborgarahryggnum hafði ég hugsað mér að prófa Moillard Vosne-Romanée frá Búrgúnd - en þetta er mjög ljúffengt Pinot Noir frá 2014. Ég heimsótti einmitt þessa vínekru nú seint í haust og fékk að smakka vínið úti á miðri ekrunni. Þetta er ljúffengt vín - gegnsætt eins og frönsk Pinot vilja vera, með mildum ávexti - keim af dökkum berjum - sólberjum og þroskuðum jarðarberjum. Með rjúpunum valdi ég bragðmikið vín - Penfolds Max's frá Ástralíu - sem er blanda af Shiraz og Cabernet þrúgum. Þetta er vín er dökkfjólublátt í glasi - kraftmikið berjabragð - tannínríkt með löngu eftirbragði. Dúndurvín. 

 

 

Þó að maður haldi í hefðirnar verður maður að mjaka þeim áleiðis - lítil skref í senn. Að þessu sinni gerði ég gljáan á svínahamborgarahrygginn með því að nota þetta ljúffenga sinnep sem er líka frá Búrúndarhéraði. Við heimsóttum Edmont Fallot verksmiðjuna í sömu heimsókn. Þetta sinnep er bragðbætt með sólberjum og er algert sælgæti. Ég blandaði því saman við smáræði af hlynsírópi og makaði því svo á hrygginn. 

 

 

Þetta heppnaðist sérstaklega vel. 

 

 

Og déskoti heppnaðist svínahamborgarahryggurinn vel í ár. Hann var eldaður við 180 gráður þangað til að hitinn náði 70 gráðum. Og hann var svo mjúkur og safaríkur.

 

 

Ætli vandasamasta verkið sé ekki að brúna kartöflurnar - okkur tekst eiginlega alltaf að klúðra þessu á hverju ári. En samt verða þær alltaf ljúffengar. Við vorum í þessu saman ég og mamma - og að þessu sinni heppnaðist þetta bara nokkuð vel. Við erum að ná þessu.

 

 

Svo var það rjúpusósan. Það fór engin smáræðisvinna í hana. Fyrst auðvitað soðið. Svo fannst Snædísi það ekki nógu bragðmikið - þannig að það var soðið niður enn frekar. Öllum brögðum var beitt til að ná henni góðri. Smá sulta - smá villibráðarkraftur og þar fram eftir götunum. Og á lokametrunum hafðist þetta. Snædís brosti út af eyrum. Sósan varð auðvitað að vera góð til að þræla niður skráfaþurri soðinni rjúpunni.

 

 

Þar sem bróðurpartur fjölskyldunnar vildi ekki eyðileggja jólamatinn - var rjúpubringunum velt upp úr hveiti og steiktar í skamma stund upp úr smjöri. Svo sett inn í ofn þar til kjarnhiti náði 52 gráðum.

 

 

Rjúpan varð sérlega ljúffeng. Ragnhildur Lára - sem var að smakka rjúpu í fyrsta skipti var himinlifandi með steiktu rjúpuna og hámaði hana í sig.

 

 

Þessi máltíð var svo sannarlega eftirminnileg!

 

Gleðileg jól!

 

------

 

 

 

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Gjafalisti - þetta eru gjafirnar sem ég gaf sjálfum mér á árinu - og ein frá Snædísi!

Ég hefði auðvitað átt að setja þennan lista saman fyrr í mánuðinum en ég ber fyrir mig sígilda afsökun - það er bara alltaf svo mikið að gera. Er það eiginlega ekki þannig hjá okkur öllum? 

 

Hér eru bestu og skemmtilegustu græjurnar sem ég eignaðist á árinu - og einhverjar sem ég á án efa eftir að verða mér út um. 

 

Gjafalisti - þetta eru gjafirnar sem ég gaf sjálfum mér á árinu - og ein frá Snædísi!

 

Það segja flestir að það sé óþolandi að gefa mér gjafir. Oftast vegna þess að ef mig langar í eitthvað, og hef ráð á því, þá læt ég bara vaða og kaupi það sjálfur. Það er svona að vera óþolinmóður og vera forfallinn dótakall í eldhúsinu. 

 

 

Það var eiginlega vandræðalegt hvað mig langaði mikið í þessar vörur þegar þær komu á markað. Og þegar ég var á ferðalagi um Frakkland í nóvember við tökur á Ferðalagi bragðlaukanna rakst ég á þessar vörur í einni fallegri leikfangabúð í bænum Beaune. Og mér tókst að plata Snædísi til að gefa mér þessa í snemmkomna jólagjöf. 

 

 

Þetta er ferköntuð steikarpanna með loki með afsteypu af Han Solo. Barnið í mér þoldi ekki við og ég burðaðist með þessa með mér til Íslands. 

 

 

Svo er það þessi. Ég á eftir (kannski) að fá mér þennan - það er eiginlega erfitt að réttlæta að kaupa þennan - enda er hún á um 900 dollara. Þannig að það er ólíklegt að ég láti verða af því. En þessi pottur er flottur. Mjög flottur! 

 

 

Ég lét þó verða af að skipta um eldavél á árinu þar sem gamla mín var komin til ára sinna og var farin að þurfa reglulegt viðhald. Þessi kallast Ilve professional Plus II og er frá Ítalíu. Ég hreinlega elska steikarpönnuna og hún er í mjög reglulegri notkun. Ofninn er líka þræl öflugur og kemst í 300 gráður sem er mjög fínt hitastig til að gera flatbökur. Þessar vélar fást í Kokku!

 

 

Ég fékk aðstoð til að smíða þetta grill í sumar. Ég elska að halda stórar veislur og það er fátt betra en að elda heilan skrokk fyrir gestina. Ekki bara er það ljúffengt - það er líka skemmtilegt.

 

 

Á ferðalagi mínu um Frakkland heimsótti ég Edmond Fallot sinnepsgerðina í Beaune. Ég tók auðvitað með mér nokkrar krukkur heim. Þetta sinnep fæst í Hagkaup, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 

 

 

Þessi íslenska pönnukökupanna sló í gegn á árinu enda alger vinnuhestur. Ég notaði mína þegar ég var í Las Vegas að elda fyrir veislu á vegum Kerecis. Hún fæst einnig í Kokku, sjá hérna

 

 

Svo verð ég eiginlega að benda á þessar tvær pönnur. Þær eru báðar frá Lodge - þessi hérna fyrir ofan er 34 cm í þvermál. Mér finnst hún frábær en hún er ansi þung. 

 

Þessi er líka frá Lodge en kallast Blacklock og er mun léttari og auðveldari að eiga við hana í eldhúsinu. Þær fást báðar í Kokku.

 

 

Þetta áhald, pastagerðargræja - chittarra, fékk ég að gjöf í sumar þegar ég heimsótti Abruzzo og fór á kvöldnámskeið í pastagerð. Með þessu áhaldi er unnt að gera pasta frá því héraði sem heitir sama nafni.

 

 

 

Ég á nokkur Microplane rifjárn - en þetta nota ég einna mest. Algert þarfþing til að rífa ost og sítrónubörk. Það fæst í Kokku, sjá hérna

 

Svo skemmdist hvítlaukspressan mín á árinu og ég er að vona að þessi endi í einhverjum af pökkunum sem bera mitt nafn. 

 

Þetta voru gjafirnar sem ég naut mest á árinu. 

 

Gleðileg jól!

 

 

 


Hátíðarmaturinn 2019? Úrbeinaður og fylltur hreindýrahryggur, eldaður sous vide, með púrtvínssósu frá grunni, seljurótarmús, hvítlaukssteiktum strengjabaunum og fullkomnum ofnsteiktum kartöflum

 

Fyrsti í aðventu er nú um helgina og margir án efa farnir að leiða hugann að jólamatnum. Flestir halda í hefðirnar. Sjálfur er ég íhaldsmaður þegar það kemur að því að elda fyrir jólin. Ég er alinn upp við svínahamborgarahrygg frá blautu barnsbeini en eiginkona mín, Snædís Eva, ólst upp við rjúpur. Á aðfangadag held ég því oftast í hefðirnar - og reyni að sætta báða arma fjölskyldunnar. Aðra hátíðardaga er í raun frítt spil. Kalkúninn kemur auðvitað sterkur inn - og svo hangikjötið.

 

Fyrir þá sem hafa aðgang að villibráð - þá er í raun fátt hátíðlegra. Þessi uppskrift verður endurtekin - líklega á áramótum.

 

Þetta er ekki flókin uppskrift - en hún krefst tíma. Þetta er eldamennska sem þarf fjórar til fimm klukkustundir - sem í raun ætti ekki að koma að sök. Bróðurpartur vinnunnar er fólginn í því að bíða eftir soði eða eftir því að hryggurinn verði klár í vatnsbaðinu. Og þó að ég hafi eldað hrygginn "sous vide" þá er lítið mál að elda hann í ofni. Ætli ég myndi ekki ráðleggja að elda hann við 160 gráður og nota kjarnhitamæli. Það skiptir eiginlega höfuðmáli - því auðvitað vill maður ekki klúðra jólaeldamennskunni. Hvaða kjarnhiti er svo æskilegur - er mat hvers og eins - ég kaus að hafa kjötið "medium rare" - og stillti tækið á 54 gráður.

 

Hátíðarmaturinn 2019? Úrbeinaður og fylltur hreindýrahryggur, eldaður sous vide, með púrtvínssósu frá grunni, seljurótarmús, hvítlaukssteiktum strengjabaunum og fullkomnum ofnsteiktum kartöflum

 

Fyrir sex til átta

 

hreindýrahryggur

handfylli bláber

villibráðakryddblanda frá Kryddhúsinu

1 msk blóðberg

2 msk jómfrúarolía

1 msk ferskt timjan

1 msk ferskt rósmarín

 

Fyrir sósuna

 

2 gulrætur

2 sellerísstangir

1 gulur laukur

2 hvítlauksrif

2 lárviðarlauf

100 ml púrtvín

2 l af vatni

salt og pipar

 

Smjörbolla (60 g smjör, 60 g hveiti)

Edmont Fallot cassis bragðbætt sinnep (í staðinn fyrir sinnep og sultu)

 

Meðlætið

 

1 seljurót

100 g smjör

150 ml rjómi

salt og pipar

 

250 g strengjabaunir

50 g smjör

1 hvítlauksrif

100 ml hvítvín

salt og pipar

 

700 g kartöflur

2 msk hveiti

2 msk andarfita

salt og pipar

 

 

Fyrsta skrefið er að úrbeina hrygginn. Það mun reynast einhverjum aðeins snúið. Það er upplagt að lesa sér aðeins til áður en hafist er handa. Án efa er hægt að leita fanga á netinu - og áreiðanlega má finna einhver myndskeið. Hér er myndskeið þar sem verið er að úrbeina lambahrygg - sem gott er að hafa til hliðsjónar. Galdurinn er að fylgja beininu - í hvívetna.

 

Næsta skref er að nudda kjötið með jómfrúarolíu og bragðbæta með kryddblöndunni, blóðbergi, ferskum kryddjurtum og bláberjum.

 

 

Þá er að binda hrygginn upp og koma fyrir í poka og innsigla með vakúmvél. 

 

 

Eins og ég nefndi hér að ofan þá stillti ég tækið á 54 gráður og eldaði kjötbitana í þrjár klukkustundir.

 

 

Á meðan kjötið var í vatnsbaðinu þurfti að huga að sósunni. Ég nuddaði beinin upp úr jómfrúarolíu, saltaði og pipraði og brúnaði í heitum ofni í nokkrar mínútur. Sneiddi gulrætur, sellerí, lauk og hvítlauk í bita og steikti upp úr olíu. Saltaði og pipraði. Brúnuðu kjötinu var svo bætt saman við ásamt lárviðarlaufunum og blandað vel saman.

 

 

Bætti svo við púrtvíninu og sauð áfengið upp. Næst var bætt við vatni - það hitað að suðu og látið krauma í tvær klukkustundir. 

 

 

Soðið var svo síað og soðið áfram niður þar til um 700 ml voru eftir. Sósan var þykkt með smjörbollu, bragðbætt með sinnepi, salti og pipar. Fullkomin!

 

Auðvitað þurfti að huga að meðlætinu.

 

Kartöflurnar voru flysjaðar og forsoðnar í 6 mínútur í söltuðu vatni. Þá var vatninu hellt frá og þeim velt upp úr hveitinu. Næst voru þær steiktar í andafitu þangað til að þær tóku á sig lit og svo voru þær færðar í eldfast mót þar sem þær voru steiktar í ofni í klukkustund þangað til að þær voru fallega brúnaðar. Fullkomnar ofnsteiktar kartöflur.

 

Strengjabaunirnar voru snyrtar og svo steiktar upp úr smjöri og hvítlauk. Þá var hvítvíni bætt á pönnuna, saltað og piprað. Áfengið var soðið nær alveg upp.

 

Seljurótin var flysjuð og skorin í bita og soðin í söltuðu vatni þangað til að bitanir voru mjúkir í gegn. Þá var vatninu hellt frá og smjöri og rjóma bætt saman við og maukað með töfrasprota þangað til að hún er fallega kremuð. Bragðbætt með salti og pipar.

 

 

Þegar kjötið er tilbúið er smjör brætt á pönnu. Þegar smjörið hefur tekið fallegan lit er kjötið brúnað að utan.

 

 

Svo er bara að raða á diskana. Fyrst seljurótarmúsin, kjötbitum tyllt ofan á, skreytt með strengjabaunum og kartöflum raðað á diskinn. Nóg af sósu. 

 

 

Með matnum nutum við Baron De Ley Gran Reserva frá því 2012. Þetta er þrælgott vín sem ég hef bragðað áður - annan árgang þó. Þetta vín fær 4,1 í einkunn á Vivino. Dökkt í glasi og ilmar af dökkum ávexti - plómur og krydd á tungu með góðri fyllingu og fínu jafnvægi. Eftirbragð lifir á tungu.

 

 

Svo var bara að skreyta steikina með smáræði af fersku timjan og setjast niður og skála með gestunum.

 

Og svo að njóta. Gleðilega hátíð!

 

------
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Safaríkar fylltar kalkúnabringurúllur með hvítlauksbættu graskersmauki og karmellisseruðum nípum

 

Þessi uppskrift er smá snúningur á kalkúnauppskrift sem ég geri gjarnan á jóladag. Ég hef sagt frá þessari uppskrift nokkrum sinnum áður á blogginu mína, t.d. hérna. Þetta er hefð sem er komin úr móðurfjölskyldunni. Eiginlega frá því að ég man eftir mér var eldaður kalkúnn á jóladag. Mín vegna mætti hafa kalkún oftar - mér þykir hann einstaklega ljúffengur. Og þessi uppskift heppnaðist einkar vel. Og hún var eiginlega heldur fljótleg - svona miðað við margan veislumat.

 

Safaríkar fylltar kalkúnabringurúllur með graskersmauk og karmellisseruðum nýpum

 

Fyrir fjóra til fimm 

 

1 kalkúnabringa (þessi var rúmlega 1,1 kg) 

300 g svínahakk

1 laukur

2 hvítlauksrif

10 þurrkaðar apríkósur

10 pekanhnetur

handfylli steinselja og timjan

2 msk hlynsíróp

50 g smjör

 

1/2 butternut grasker

4 msk hvítlauksolía

50 g smjör 

50 ml rjómi

salt og pipar

 

4 stórar nípur

2 msk jómfrúarolía

2 msk hlynsíróp 

salt og pipar

 

Sósan

 

2 msk smjör

2 gulrætur

2 sellerístangir

1 laukur

3 hvítlauksrif

salt og pipar

lárviðarlauf

600 ml kalkúnasoð

2 msk worchestershire sósa

vökvi af kalkúninum

25 g smjörbolla (25 g smjör/25 g hveiti)

rjómi

sulta

 

Jæja, vindum okkur í þetta.

 

 

 

Fyrst er auðvitað að hreinsa og þerra bringuna.

 

 

Næsta skref er svo að skera í bringuna og fletja hana út. Það er gert með því að skera í gegnum neðri hlutann af bringunni, bara ekki skera alveg í gegn og fletta henni upp. Svo sker maður í gegnum miðju hlutann og flettir þeim hluta upp eins og bók. Þannig er komin bringa sem er orðin rúmlega tvisvar sinnum stærri en byrjað var með.

 

 

Svo er að huga að fyllingunni. Byrjaði á því að steikja laukinn og hvítlaukinn upp úr smjöri og bætti honuð svo saman við grísahakkið, hakkaðar pekanhnetur, apríkósur og niðurrifnar kryddjurtir. Bleytti upp í kjötinu með hlynsírópi, saltaði og pipraði. 

 

 

Svo dreifði ég fyllingunni í þunnu lagi yfir tvo þriðju hluta kalkúnabringunnar og rúllaði henni upp.

 

 

Batt svo rúlluna vandlega upp með þræði, nuddaði að utan með jómfrúarolíu og kryddaði aðeins með blöndu af þurrkuðu oregano, sítrónupipar, majoram, timjan og salti og lagði ofan á beð af lauk, sellerí, gulrótum. Smá hvítvín og svo inn í 180 gráðu heitan ofan og bakað þangað til að kjarnhiti var kominn í 70 gráður.

 

 

Skar graskerið niður í sneiðar, penslaði með hvítlauksolíu og ristaði í ofni í nokkrar mínútur þangað til að það var mjúkt í gegn. Setti það svo í skál með rjóma og smjöri og maukaði vel og vandlega. 

 

 

Nípurnar voru eins einfaldar og hugsast getur. Flysjaðar og sneiddar niður í fjórðunga og svo velt upp úr olíu og sírópi og svo bakaðar inn í 180 gráðu heitum ofni í rúmlega 30 mínútur. 

 

Svo er það sósan. 

 

Flysjið og skerið grænmetið smátt og steikið í smjörinu þangað til að það er mjúkt og ilmandi. Bætið lárviðarlaufinu saman við. Þegar grænmetið er mjúkt hellið þið kalkúnasoði ásamt worchestershiresósu saman við og látið krauma við lágan hita í 30-45 mínútur. Síið síðan soðið og setjið í skál. Útbúið smjörbollu og hellið síðan soðinu saman við og blandið vel saman. Smakkið nú til með rjóma, sultu, salti og pipar. Bragðbætið með vökvanum sem fellur til við eldun kalkúnabringunar. Smakkið áfram til þangað til að sósan er orðin ljúffeng. Sósu þarf alltaf að deddúa aðeins við!

 

 

Bætið vökvanum sem fellur til af kalkúnabringunni saman við sósuna.

 

 

Ég veit ekki um ykkur - en mér fannst þetta kalkúna "rúlla" heppnast ansi vel.

 

 

Með matnum drukkum við þetta ljúffenga spænska rauðvín - Alexander vs. the ham factory. Þetta vín er framleitt í Ribera del Duero dalnum. Vínið er framleitt úr Tinto Fino þrúgum og er einstaklega ljúffengt. Ilmar af ljúffengum dökkum berjum - bragðið með miklum ávexti, eik og súkkulaði. Mjög gott vín.

 

 

Þessi máltíð heppnaðist einkar vel og rann ljúflega niður.

 

Bon appetit!

 

------

 

 

 

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Höfðingleg skyrterta með hvítu súkkulaði, þeyttum rjóma, hindberjamarmelaði og ferskum hindberjum

Í október fór ég í boði íslenska fyrirtækisins Kerecis og eldaði fyrir gesti á ráðstefnu sem haldin var í Las Vegas. Sú borg er vægast sagt furðuleg - ætli absúrd sé ekki lýsingarorðið sem á best við, alltént að mínu mati. Ég sá ekki mikið af borginni - fór í stutta gönguferð um "The Strip" og heimsótti svo Ceasar's Palace nokkrum sinnum en þar var veislan sem ég eldaði fyrir haldin.

 

Ég varði bróðurpart tímans í Las Vegas bak við eldavélina ásamt bróður mínum - og við áttum saman góðar stundir. Hlustuðum á tónlist, smökkuðum á craftbjór og elduðum níu rétta veislu fyrir 100 manns.

 

Og þó að ég segi sjálfur frá þá heppnaðist hún ljómandi vel. Þennan eftirrétt bjó ég til - en hann byggir á annarri uppskrift sem ég gerði fyrir nokkrum árum. En niðurstaðan er frábrugðin - þessi er mun meira frískandi.

 

Ég ætlaði að byggja þetta upp eins og litlar tertur á disk en þegar á hólminn var komið áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt mótunum mínum - í Las Vegas.

 

Þessi færsla birtist nýverið á heimasíðunni Gott í matinn, sjá hér, sem er heimasíða á vegum Mjólkursamsölunnar en þar kennir ýmissa grasa, sjá hérna.

 

Höfðingleg skyrterta með hvítu súkkulaði, þeyttum rjóma, hindberjamarmelaði og ferskum hindberjum

 

Fyrir sex

 

Fyrir botninn

 

100 g pekanhnetur

130 g haframjöl

100 g smjör

4 msk hlynsíróp

 

350 g hreint Ísey skyr

300 hvítt súkkulaði

250 ml þeyttur rjómi

2 gelatínplötur

 

12 msk hindberjamarmelaði

2 öskjur af hindberjum

 

1. Byrjið á því að mala hneturnar í matvinnsluvél og blanda saman við haframjölið.

2. Bræðið smjör og blandið saman við mjölið ásamt hlynsírópinu.

3. Smyrjið deiginu á ofnskúffu og bakið í 15 mínútur við 180 gráður. Látið kólna.

4. Brjótið svo kexið niður og raðið í skálar.

5. Blandið saman skyrinu, þeyttum rjóma og bræddu hvítu súkkulaði og svo gelatínplötunum (hægt að leysa þær upp í heitu súkkulaðinu).

6. Setjið því næst skyrblönduna ofan á kexið og setjið í ísskáp til að kólna og stífna.

7. Dreifið hindberjamarmelaðinu ofan á og skreytið með hindberjum.

 

 

------

 

 

 

 

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

 

 


Dásamlega Frakkland - Tartiflette - löðrandi ostagratín með lauk og beikoni með baguettu, salati og ljúffengu Pinot Noir rauðvíni

 

Liðna viku dvöldum við í Frakklandi við tökur á sjónvarpsþættinum Læknirinn í Eldhúsinu, ferðalag bragðlaukanna. Mig hefur lengi langað til að fara til Frakklands með sjónvarpsþáttinn enda er ég mikill Frakkaunnandi. Ég hreinlega elska franskan mat og franska matargerð. Ekki spillir svo fyrir að þeir gera dásamleg vín - hreinlega unaðsleg og svo er landið líka svo fallegt. 

 

Við heimsóttum Búrgúndarhérað - bæinn Beaune - sem er hjarta víngerðar í héraðinu og ókum svo til Champagne þar sem við heimsóttum bæði Reims og svo miðborg Kampavínsframleiðslu - Eperney. Hlakka mikið til að sýna ykkur þáttinn - ætli hann fari ekki í sýningar fljótlega upp úr áramótum. 

 

Dásamlega Frakkland - Tartiflette - löðrandi ostagratín með lauk og beikoni með baguettu, salati og ljúffengu Pinot Noir rauðvíni

Þessi réttur er þó ekki frá Búrgúndarhérðainu né er hann frá Champagne. Hann er úr Savoy héraði í frönsku Ölpunum. Hann á sér ekki sérlega langa sögu - tæplega fjörutíu ár. Hann varð til þegar gerð var tilraun til að markaðssetja ostinn sem leikur langstærsta hlutverkið í uppskriftinni - Reblochon - sem er rjómakenndur hvítmygluostur - mildur og ljúffengur. Sölutölurnar voru á hallandi fæti og menn þurftu að girða sig í brók.

 

Orðið Tartiflette á sér lengri sögu, skv. wikipediu - þar sem það kom fram í matreiðslubók eftir Francois Massialot og aðstoðarkokk hans Mathieu og er vísun í kartöflurnar sem notaðar voru og átti réttur þeirra lítið skylt við þennan. 

 

Það breytir þó litlu um að niðurstaða þessarar markaðsherferðar frá áttunda áratugnum sló í gegn - enda syndsamlega ljúffengur "decadent" réttur - löðrandi í osti, rjóma og beikoni. Ekki ætti að neita hans oft á ári - kannski bara á nokkra ára fresti. 

 

Hráefnalisti - dugar vandræðalaust fyrir 8 sem aðalréttur (já, ég veit að það skrítið að hafa gratín sem aðalrétt, en þessi er bara þannig)

 

1,5 kg kartöflur

700 ml rjómi

250 g þykkt beikon

500 g Reblochon ostur (eða annar hvítmygluostur)

4-5 greinar ferskt timjan 

salt og pipar

 

Meðlæti 

 

Einfalt salat 

frönsk salatdressing (3 hlutar olía, 1 balsamedik, smá djion, smá hvítlaukur, salt og pipar)

 

Baguette 

 

 

Ég keypti þennan ost í Gallerie Lafayette í Operu hverfinu - en við hjónin gistum þar í tvær nætur áður en við flugum heim til Íslands. Margir þekkja þessar búðir sem eru í nokkrum stórum byggingum - einni sem er tileinkuð konum, önnur körlum og svo mín uppáhalds - tileinkuð mat, eldhúsi og heimili. Í þeirri síðastnefndu fann ég mig. Í kjallaranum var dásamlegt úrval af góðgæti frá Frakklandi - dásemdarúrval af ostum. Og þegar ég sá þennan í ostaborðinu, rifjaðist þessi uppskrift upp fyrir mér.

 

 

Fyrsta skrefið var að sneiða niður beikonið og steikja það á pönnu. Það er steikt þar til það er eldað í gegn.

 

 

Næsta skref er svo að flysja kartöflurnar og skera þær í þunnar sneiðar - þetta á að vera gróflega skorið þannig að sneiðarnar mega vera ójafnar. Svo sneiða laukinn.

 

Svo þarf bara að raða. Ég smurði eldfast mót (nýja Han Solo mótið frá Le Creuset) með olíu og raðaði svo kartöflum, lauk, beikoni, timjan, salti og pipar á víxl. Laumaði með nokkrum smjörklípum,

 

 

Það þarf nóg af rjóma. 

 

 

Svo er það þessi ljúfi ostur. Hann hafði flatst aðeins út í ferðatöskunni en það kom ekki að sök.

 

 

Skar ostinn í þunnar sneiðar, saltaði og pipraði og bragðbætti með meira timjan. Lokið á og inn í 180 gráðu heitan ofn í 60 mínútur - svo lokið af og eldað áfram í 15-30 mínútur þar til osturinn fer að brúnast.

 

 

Með matnum nutum við þessarar flösku - Moillard Pommard Premier Cru - Les Grands Epenots sem er frá Búrgúnd. Þetta vín er eingöngu úr Pinot Noir eins og nær öll rauðvín í Búrgúndarhéraði. Þetta vín fékk ég að gjöf eftir heimsókn í víngerð Moilliard skammt fyrir utan Beaune. Þetta er einstaklega ljúft vín - rúbínrautt, ilmar af rauðum ávexti, smá cassis og aðeins jörð og eikartónar. Kannski hefði ég átt að spara flöskuna að næstu lambasteik - en mér fannst það standa sig vel við hliðina á feitu gratíninu.

 

 

Einfalt salat, frönsk salatdressing. Hitaði baguettuna upp í ofni í nokkar mínútur.

 

 

Gratínið ilmaði dásamlega.

 

 

Mikið er alltaf gott að koma heim til sín.

 

Bon appetit!

 

------
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Gamlir vinir í heimsókn: Marókósk veisla - ofnbakaður kjúklingur með harissa og ólívumauki, spæsí eggaldinturn með granatepli, kúskús með feta og petispois, marglitar gulrætur með hunangi og fennel og flatbrauð steikt á flatoppnum

 

Mér finnst endalaust gaman að elda. Og best er að elda fyrir vini og vandamenn. Að þessu sinni voru gamlir vinir okkar hjóna í heimsókn. Við bjuggum í sömu götu í Lundi í Svíþjóð - Álfhildur býr þar enn ásamt eiginmanni sínum og þremur sonum.

 

 

Hún er á landinu í nokkra daga ásamt yngsta syninum, Grími. Við buðum einnig Addý og Gumma og þau komu með þrjár yngstu dætur sínar með sér, Önnu, Ellu Mæju og Helenu. Úr varð ekta sænsk veisla - fullt af ærslafullum krökkum og góðum vinum. Við erum endalaust að vona að Álfa, Jón Þorkell og drengirnir fari nú að flytja heim. Við söknum þeirra!

 

Þannig að til að reyna að lokka þau heim - var lagt í heljarinnar veislu! Og hún heppnaðist stórvel!

 

Gamlir vinir í heimsókn: Marókósk veisla - ofnbakaður kjúklingur með harissa og ólívumauki, spæsí eggaldinturn með granatepli, kúskús með feta og petispois, regnbogagulrætur með hunangi og fennel og flatbrauð steikt á flatoppnum

 

Fyrir kjúklinginn

 

1,8 kg af kjúklingaleggjum og lærum.

1 bolli heimagert ólívumauk (krukka af svörtum ólífum, hvítlaukur, salt og pipar og jómfrúarolía)

4 msk heimagerð harissa (siracha, jómfrúarolía, harissablanda frá Kryddhúsinu)

handfylli af steinselju

2 msk sítrónupipar

1 msk salt

2 msk broddkúmen

1 msk túrmerik

250 g kalamataólívur

1/2 bolli jómfrúarolía

4 msk hunang

 

Fyrir eggaldinturninn

 

4 eggaldin

250 ml bragðbætt grísk jógúrt (bragðbætt með 3 hvítlauksrifjum, safa úr heilli sítrónu, hunang)

spæsí tómatsósa (laukur, hvítlaukur, karríduft, 2 dósir tómatar og 1 krukka af tómatachutney frá Friðheimum, salt og pipar)

1/2 granatepli

mynta til skreytingar

 

Fyrir kúskúsið

 

1 pakki kúskús

1 fetakubbur

1 rauð papríka

1 græn papríka

1 bolli petit pois

góð jómfrúarolía

salt og pipar

mynta til skreytingar

 

Fyrir gulræturnar

 

400 g íslenskar regnbogagulrætur

3 msk jómfrúarolía

2 msk hunang

1 msk fennelfræ

salt og pipar

 

Fyrir flatbrauðið, sjá hérna - nema að ég sleppti kjúklingabaununum.

 

 

Fyrsta skrefið var að marinera kjúklinginn. Ég hafði gleymt að kaupa ólífumauk - svo ég bjó til mitt eigið. Tók krukku af svörtum ólífum, skolaði og setti í litla matvinnsluvél ásamt heilum sólóhvítlauk, salti, pipar og jómfrúarolíu og maukaði.

 

 

Svo var að útbúa chilimaukið - harissa, sem ég átti ekki heldur. Þá var ekkert að gera annað en að henda saman sirachasósu, jómfrúarolíu og 1 msk af marókkóskri chiliblöndu.

 

 

Næsta skref var að mala broddkúmenið í mortéli. 

 

 

Að lokum var að sameina hráefnin - ólívumaukið, steinseljuna, chilimaukið, túrmerikið, sítrónupipar, salt og hunang.

 

 

Notaði góða jómfrúarolíu.

 

 

Sett í stóra skál og látið marinerast í fjórar klukkustundir.

 

 

Næsta skref var að gera tómastósuna. Steikti laukinn, hvítlaukinn og karríið saman upp úr jómfrúarolíu og bætti svo tómötunum saman við. Næst var að bæta tómatmaukinu saman við og láta krauma í um klukkustund við lágan hita. 

 

 

Tók þessu næst eggaldin og skar niður í ámóta stóra bita, penslaði með jómfrúarolíu og bakaði í 200 gráðu heitum ofni í um 30 mínútur. Sneri einu sinni.

 

Á meðan eggaldinið var í ofninum bjó ég til jógúrtsósuna. Blandaði saman grískri jógúrt, sítrónusafa, smátt söxuðum hvítlauk, hunangi, salti og pipar og lagði til hliðar.

 

 

Svo var bara að raða þessu upp. Fyrst eitt lag af eggaldini, svo tómatsósa, svo jógúrt og endurtaka þar til hráefnið var uppurið.

 

Sáldraði fullt af myntu yfir. Áður en ég bar réttinn á borð skóf ég innan úr hálfu granatepli og setti yfir. Klikkaði á því að taka ljósmynd, afsakið það.

 

 

Gulræturnar voru ofureinfaldar. Flysjaði tvo poka af regnbogagulrótum og skar í fernt eftir lengdinni og lagði í eldfast mót. Velti upp úr jómfrúarolíu og hunangi, salti og pipar. Sáldraði svo fennelfræjum yfir og bakaði í 180 gráðu heitum ofni í þrjú kortér. Velti þeim nokkrum sinnum á eldunartímanum til að hindra að þær myndu brenna. 

 

 

Þær urðu líka alveg fullkomar. Skreytti með myntulaufum.

 

 

Hrærði í brauðinn fyrr um daginn svo að þau fengu tíma til að hefast, þar verður bragðið af þeim til. Hægt er að sjá uppskriftina hérna. Eins og fram hefur komið sleppti ég kjúklingabaununum og steikti brauðin frekar en að grilla þau. Þau heppnuðust ljómandi vel!

 

 

Kúskús er líklega einfaldasta meðlæti sem um getur. Setti kúskúsið í skál og hellti sjóðandi kjúklingasoði yfir og setti plastfilmu yfir skálina og beið í fimm mínútur. Voila - tilbúið. Svo setti ég það á skálar og skreytti með fetaosti, petis pois, rauðlauk, papríku, ferskri myntu og svo góðri jómfrúarolíu. Og salt og pipar að sjálfsögðu.

 

 

Kjúklingurinn ilmaði dásamlega þegar ég sótti hann í ísskápinn. Lagði hann í eldfast mót, hellti 250 g af kalamataólífum yfir og bakaði í 180 gráðu heitum ofni í fimm kortér. 

 

 

Kjúklingurinn ilmaði ennþá betur þegar hann kom út úr ofninum. Skreytti með ferskri steinselju. Ferskt kóríander hefði einnig verið ljúffengt en sumir í minni fjölskyldu þola ekki kóríander - svo að úr varð steinselja, sem er líka dásamlega ljúffeng.

 

 

Maturinn var lagður á borð - og úr varð sannkallað hlaðborð. 

 

 

Með matnum nutum við svo rauðvíns sem ég hef drukkuð áður og meira að segja heimsótt víngarðinn. Við tókum upp sjónvarpsþætti á vínekrunni fyrir rúmum tveimur árum. Valiano 6.38 Gran Selezione Chianti Classico frá 2010. Þetta vín er að mestu unnið úr Sangiovese þrúgum (90%) eins og flest vín frá Toskana. En til að gefa því en meira fútt er það blandað með Merlot þrúgu. Og þá kallast vínin oft Super Toskana vín. Þetta er kraftmikið vín, sultað - með kirsuberjum og ögn kryddað með mjúku og bragðmiklu eftirbragði. Passaði vel með matnum. Seinast þegar ég smakkaði þetta vín paraði ég það líka með maróskóskum mat, sjá hérna!

 

 

Þetta var ótrúlega ljúffeng máltíð.

 

Kannski að okkur takist að lokka Álfu, Jón Þorkel og drengina til Íslands. Hver veit?

 

------

 

 

 

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Sænskur heimilismatur par excellans: Kjötbollur með flauelsmjúkri kartöflumús, einfaldri brúnni sósu og súrum gúrkum

 

Það er orðið ansi langt síðan að ég gerði sænskar kjötbollur. Og þær hef ég gert margoft. Var að gá að því á blogginu mínu - hvort að ég hefði gert grein fyrir þeim áður og mér til mikillar undrunar hafði ég aldrei deilt uppskrift á ekta sænskum kjötbollum. Og það er ekki vegna þess að áhugann skorti - ég hef deilt með lesendum þessarar síðu fjöldanum öllum af uppskriftum, hægt er að sjá nokkrar þeirra hérna

 

Og þetta er eins hefðbundin uppskrift og hugsast getur. Hún er einföld - en aðalatriðið að hún er ljúffeng. 

 

Sænskur heimilismatur par excellans: Kjötbollur með flauelsmjúkri kartöflumús, einfaldri brúnni sósu og súrum gúrkum

 

Fyrir kjötbollurnar - fyrir fimm svanga

 

700 g svínahakk

300 g nautahakk 

1 hvítur laukur

1/2 allrahanda

2 egg

6 msk brauðmylsna

120 ml rjómi

salt og pipar

 

Fyrir kartöflumúsina

 

1 kg kartöflur

100 g smjör 

100 ml rjómi

100 ml mjóllk

 salt og pipar

 

Fyrir sósuna

 

400 ml nauta eða kálfasoð

150 ml rjómi

2 msk dökkt maizenamjöl

50 g smjör

3 msk soya sósa

salt og pipar

 

 

 

Ég keypti stórar kartöflur, lagði þær á beð af salti og bakaði við 200 gráðu hita í sex korter.

 

 

Við þá meðferð urðu þær vel brúnar að utan og lungamjúkar að innan. Skóf þær út með skeið og setti í skál og blandaði saman við rjóma, mjólk, smjör og svo salti og pipar. Úr varð flauelsmjúk kartöflumús. Nauðaeinföld.

 

 

Svo var að huga að kjötinu - en ég gerði það auðvitað á meðan kartöflurnar voru í ofninum. Lagði grísahakk og nautahakk í skál og setti mjög smátt skorinn hvítann lauk saman við.

 

 

Næst egg - sem ég þeytti aðeins upp áður en þeim var bætt saman við.

 

 

Þá brauðmylsnan. Sumir segja að maður eigi að láta hana liggja í rjómanum áður en mylsnunni er bætt saman við - en ég gleymdi því skrefi. En það virtist ekki koma að sök. 

 

 

Svo rjómi - allt verður betra með rjóma.

 

 

Svo er bara að hræra deigið saman og láta það standa í 15 mínútur áður en maður hnoðar í bollur.

 

 

Ég tók matskeið af kjötdeiginu og rúllaði í höndunum. Ég gætti þess að smyrja hendurnar vel með olíu áður þannig að deigið myndi síður klístrast við mig.

 

 

Svo var bara að kynda undir steikarpönnunni á nýju eldavélinni og byrja að steikja.

 

 

Ég er ennþá að læra á hitann á pönnunni þannig að það verður að játast að ég brenndi nokkrar bollurnar - en það kom ekki að sök, þær voru ljúffengar engu að síður.

 

 

Þegar ég var búinn að steikja bollurnar að utan skellti ég þeim inn í heitan ofn í 10 mínútur eða svo til að elda þær alveg í gegn.

 

 

Með matnum vorum við með Ramon Bilbao Crianza frá 2016 sem er spænkst Rioja vín. Ég hef heimsótt þennan framleiðenda. Vorum í heimsókn hjá honum fyrir rúmu ári og gerðum grein fyrir þeirri heimsókn í sjónvarpsþættinum - Læknirinn í Eldhúsinu, Ferðalag bragðlaukanna. Þetta er milt og bragðgott vín - í góðu jafnvægi. Þetta vín passar með mörgum mat og ekki síst bollum eins og þessum.

 

 

Sósan var ofureinföld. Hitaði soðið og sauð það niður um þriðjung til að þétta bragðið. Bætti svo við rjóma og sauð upp - sauð svo niður um þriðjung áður en ég bætti dökku maizena mjöli saman við og soya sósu, salti og pipar. Setti smá smjör í lokin til að fá fallegan gljáa á sósuna.  

 

 

 

Þetta var alger veislumáltíð á þriðjudegi. Það þarf ekki að vera flókið að lyfta sér upp á virkum degi!

 

Bon appetit!

 

------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband