Færsluflokkur: Matur og drykkur
16.6.2020 | 15:14
Marókóskt Mese hlaðborð með ljúfum veigum - Svipmyndir frá stúdentsveislu Valdísar!
Valdís Eik Ragnarsdóttir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð með glæsibrag. Það er alveg stórkostlega skemmtilegt að sjá barnið sitt klára menntaskóla. Athöfnin var auðvitað með öðru sniði - aðeins annað foreldrið mátti koma í hátíðarsalinn. Ég horfði á útsendinguna í gegnum netið - sem var furðuvel heppnuð. Ég var að rifna úr stolti yfir frábæra frumburðinum okkar.
Um kvöldið var svo veisla stúdínunni til heiðurs. Þar var fjölmennt, en þó innan Covid ráðlegginga.
Marókóskt Mese hlaðborð með ljúfum veigum - Svipmyndir frá stúdentsveislu Valdísar!
Fyrir lambið
4 lambaframpartar
Marókósk kryddblanda - heimagerð (blanda af ristuðu broddkúmeni, kóríander auk túrmeriks, hvítlauksdufti, papríkudufti og salti og pipar.
Beð af mirepoix (gulrætur, laukur, sellerí)
Jómfrúarolía.
Útbjó kryddblönduna. Smurði lambið ríkulega með jómfrúarolíu og lagði á beð af mirepoix sem ég hafði skorið niður. Lambið var svo nuddað ríkulega með kryddblöndunni og bakað undir álpappír í 4 klukkustundir.
Kjötið varð lungamjúkt og leikur einn að toga beinin úr og aðskilja kjötið frá. Setti það til hliðar og geymdi í kæli til morguns.
Gerði líka fullt af brauðdeigi. Fyrst var að undirbúa flatbrauðið. Ég hef oft gert einhvers konar grillbrauð og það er einstaklega auðvelt. Gerði líklega 6 uppskriftir
Einföld uppskrift er eitthvað á þessa leið;
Fyrir flatbrauðið
600 gr hveiti eru sett í skál
1 tsk salt
2 msk jómfrúarolíu.
1 pakkir af þurrgeri
30 g hunang
600-700 ml vatn
Þetta er síðan hrært saman í góðri hrærivél. Látið hefast yfir nótt.
Skipti deiginu síðan í 12 kúlur sem fengu að hefast aftur í um klukkutíma.
Bakaði svo brauðið á pizzusteini úti á grilli. Penslaði hverja sneið með hvítlauksolíu og saltaði vandlega.
Brauðið heppnaðist mjög vel.
Um það leyti sem gestirnir voru að mæta setti ég risastóra paellupönnu á gasið og steikti rifið kjötið aftur í jómfrúarolíu og kryddaði aftur með restinni af kryddblöndunni sem ég hafði gert kvöldið áður.
Rauðbeðu- og chilihummus
2 dós kjúklingabaunir
3 msk tahini
100 g innlagðar rauðbeður
2 msk chilimauk (að eigin vali)
salt og pipar
75 ml jómfrúarolía
1 hvítlauksrif
salt og pipar
Skar einn rauðkálshaus niður með mandólíni og lagði í pækil gerðan úr þremur hlutum vatns, tveimur hlutum af góðu ediki og einum hluta af sykri. Sauð þetta upp, lét kólna og standa á rauðkálinu í tvo til þrjá tíma. Við það verður það létt pæklað - ennþá stinnt og aðeins undir tönn.
Og auðvitað var skálað fyrir stúdínunni.
Prosecco frá Piccini hefur verið í uppáhaldi hjá okkur síðan við heimsóttum framleiðandann Piccini til Toscana sumarið 2017. Þar tókum við Kristján Kristjánsson upp fyrstu sjónvarpsþættina okkar fyrir sjónvarp Símans. Algerlega ógleymanleg ferð!
Svo var ekkert annað að gera en að raða á disk, fyrst brauð og svo hlaða öllu gúmmelaðinu á brauðið.
Þetta heppnaðist vel og maturinn var nær allur snæddur upp til agna.
Til hamingju - elsku Valdís Eik.
Matur og drykkur | Breytt 17.6.2020 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2020 | 10:14
Tvenns konar grillaðar risarækjur; með hvítlaukssmjöri og brenndum sítrónum á súrdeigsbrauði og eldheitar með chillikokteilsósu og snöggpækluðum gulrótum
Þetta er leiftursnögg grilluppskrift sem hentar vel á virkum degi - en myndi líka sóma sér vel á hvaða veisluborði sem er!
Galdurinn við eldamennsku eins og þessa er að grilla rækjurnar ekki of lengi - þær þurfa bara skamman tíma á blússheitu grillinu. Hiti og snör handtök skipta hér öllu máli. Svo snögg að það tekur varla því að opna bjór fyrir sjálfa eldamennskuna. Hann má teyga á meðan rækjurnar marinerast eða þegar hann er borinn fram með matnum. Svo má líka alveg sleppa bjórnum. Hann er góður en ekki nauðsynlegur.
Tvenns konar grillaðar risarækjur; með hvítlaukssmjöri og brenndum sítrónum á súrdeigsbrauði og eldheitar með chillikokteilsósu og snöggpækluðum gulrótum
Ég var með gesti í mat - Maggi og Hafdís mættu með yndislegu börnin sín. Ég byrjaði á að bera fram hvítlauksrækjurnar.
Hvítlauksrækjur með hvítlaukssmjöri og brenndum sítrónum á súrdeigsbrauði
Fyrir sex svanga
Fyrir hvítlauksrækjurnar
600 g risarækjur
6 msk hvítlauksolía
safi úr einni sítrónu
4 msk graslaukur
salt og pipar
250 smjör
6 hvítlauksrif
3 msk graslaukur
salt og pipar
6 brauðsneiðar
hvítlauksolía
Þessi eldamennska var eins einföld og hugsast getur. Skar niður graslauk eins fínt og ég mögulega gat.
Setti risarækjurnar í skál og bætti hvítlauksolíu, sítrónusafa, graslauk, salti og pipar saman við.
Leyfði svo rækjunum að marinerast í hálftíma áður en þær voru þræddar upp á spjót.
Hvítlaukssmjör er ofureinfalt að undirbúa. Skera hvítlaukinn eins smátt og unnt er eða setja hann í gegnum hvítlaukspressu. Hræra vel saman við smjörið ásamt tveimur til þremur msk af fínt hökkuðum graslauk, pipra aðeins.
Næst er að blússhita grillið og grilla þær eldsnöggt. Þær skipta næstum strax um lit og þurfa ekki nema tvær mínútur eða svo á grillinu.
Rækjurnar eru svo lagðar á grillað súrdeigsbrauð og bornar fram með glóðuðum sítrónusneiðum.
Eldheitar risarækjur með chillikokteilsósu og snöggpækluðum gulrótum
Fyrir sex (aðeins minna svanga)
600 g risarækjur
2 msk olio principe peperoncino
hnífsoddur af möluðum chili pipar (frá Kryddhúsinu)
1 msk rauður pæklaður chili pipar
2 msk hvítlauksolía
2 msk hökkuð steinselja
salt og pipar
Fyrir gulræturnar
3 marglitar gulrætur
6 msk edik
3 msk vatn
2 msk sykur
2 msk salt
Kínakálsblöð (þvegin og þerruð)
Fyrir sósuna
3 msk majónes
2 msk grísk jógúrt
1 msk sirachasósa
1 tsk hvítlauksolía
salt og pipar
Skellti rækjunum í skál og bragðbætti með þessari kraftmiklu olíu.
Svo með þessum ljúffenga chili pipar.
Og svo smáræði af þessum pæklaða rauða jalapeno sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér ásamt því að bæta við hvítlauksolíu, hakkaðri steinselju (hefði notað ferskan kóríander ef minn betri helmingur hefði ekki algert óþol fyrir þessu) og svo að lokum salti og pipar.
Og auðvitað ferskum chili. Leyfði þessu að marinerast í 30 mínútur.
Ég notaði íslenskar marglitar gulrætur. Útbjó pækilinn í potti sem ég hitaði að suðu, kældi svo niður og hellti yfir næfurþunna gulrótarstrimla.
Eftir að hafa grillað rækjurnar á funheitu grillinu lagði ég þær á kínakálsblöð sem ég hafði þvegið vandlega, lagði svo gulrótarstrimlana yfir ásamt því að sáldra chilikokteilsósu (blanda af siracha, jógúrt, majónesi og salti og pipar) yfir.
Svo var bara að skella þessu á disk og hesthúsa þessu í sig. Sælgæti!
Með matnum drukkum við svo hressandi rósavín, Chill out Shiraz Rosé frá Kaliforníu, sem passaði vel við matinn og ljúfa vorsólina.
Það er óhætt að segja að þessar rækjur hafi heppnast vel!
Verði ykkur að góðu.
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2020 | 18:39
Fullkomin ofngrilluð smálúða með rjómaosti (með karmilliseruðum lauk), smjörsteiktum lauk, fersku timjan og steiktum saffran hrísgrjónum
Fullkomin ofngrilluð smálúða með rjómaosti (með karmilliseruðum lauk), smjörsteiktum lauk, fersku timjan og steiktum saffran hrísgrjónum
Þetta er einkar fljótlegur réttur sem vandræðalaust er hægt að snara fram í miðri viku - já, eða um helgi ef því er að skipta.
Þessi uppskrift er birt í samvinnu við Gott í matinn. Sjá hérna.
Fyrir fimm
Fyrir fiskinn
1 kg spriklandi fersk smálúða (ég fer alltaf í fiskbúðina á Sundlaugaveginum)
1 hvítur laukur
1 rauðlaukur
2 msk hvítlauksolía
50 g af smjöri
1/2 box af rjómaosti með karmelliserðum lauk
1 msk ferskt timjan
salt og pipar
Fyrir hrísgrjónin
1,5 bolli basmati hrísgrjón (soðin skv. leiðbeiningum í söltuðu vatni)
50 g smjör
0,5 g saffran
salt og pipar
Salatlauf
Skolið af fisknum og leggið í ofnskúffu.
Ég notaði rjómaost með karamellíseruðum lauk - þetta er bragðgóður ostur og þarna er sannarlega að finna sæta lauktóna.
Ég lagði fiskinn á bökunarpappír til þess að minnka uppþvott að matseld lokinni.
Byrjaði á því að pensla fiskinn með hvítlauksolíu og svo ríkulega af rjómaostinum, notaði hálfan pakkann. Ofan á það lagði ég svo bæði rauðlauk og gulan lauk sem ég hafði skorið í sneiðar og mýkt í nokkrar mínútur í smjöri. Gætti þess vandlega að brúna ekki laukinn. Sáldraði svo fersku timjan yfir og bakaði svo í 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur.
Næsta skref var að vekja saffranið í heitu vatni í um 30 mínútur.
Bræddi svo 50 g af smjöri á pönnu og steikti soðin basmati hrísgrjón í nokkrar mínútur áður en ég hellti saffraninu ásamt vatninu saman við. Steikti áfram í nokkrar mínútur. Grjónin verða fallega heiðgul.
Þetta var sérstaklega vel heppnuð máltíð - lúðan var kom einstaklega mjúk og safarík undan hjúp af rjómaosti og smjörsteiktum lauk.
Sannkölluð veislumáltíð.
Verði ykkur að góðu.
Það spannst talsverð umræða í dag um hvaða kjúklingarétt ætti að elda í kvöld. Ég stakk upp á Kjúkling Parmigiano - en Snædís var ekki spennt. Vilhjálmur stakk upp á þessum rétti og ég varð að játa að ég hafði aldrei heyrt hann nefndan. Og er ég þó nokkuð lesinn í ítölskum réttum. En það er gaman að láta koma sér á óvart - og eftir smá lestur varð þessi réttur til. Ég beygði aðeins frá uppskriftinni sem oftast var að finna á netinu og bætti smá lauk, hvítlauk og rjóma saman við það sem ég hafði kynnt mér um daginn.
Og úr varð þessi uppskrift.
Dásamlegur Piccata kjúklingur með ljúffengu pasta og lúxus tricolore salati
4 kjúklingabringur
4 msk hveiti
2 tsk Ítalinn, pizzakrydd frá Kryddhúsinu og grgs
salt og pipar
50 g smjör til steikingar
góð jómfrúarolía til steikingar
Fyrir sósuna
1/2 gulur laukur
2 hvítlauksrif
50 g smjör
jómfrúarolía
3 msk kapers
safi úr einni sítrónu
handfylli steinselja
100 ml gott hvítvín
200 ml rjómi
salt og pipar
Rustichella D'Abruzzo spaghetti
30 g smjör
sítrónuólía frá Olio Principe
Salatið
1 buffalo mozzarella
6 piccolotómatar frá Friðheimum
1 msk ferskt basil (sem við fengum að gjöf frá Helenu í Friðheimum)
salatlauf
olía
góð balsamic olía
salt og pipar
Byrjið á því að bragðbæta hveitið með kryddinu (þ.m.t. salti og pipar).
Blandið vel saman og hjúpið kjúklinginn rækilega.
Bræðið smjör á pönnu og bætið olíunni saman við og steikið kjúklinginn að utan. Setjið svo í eldfast mót og haldið heitu í ofni.
Sneiðið laukinn, hvítlaukinn og steikið úr smjöri og olíu þangað til mjúkur. Bætið svo hvítvíni á pönnuna og sjóðið niður.
Bætið næst kapers, sítrónusafa og sjóðið í tvær mínútur.
Svo rjóma - og sjóðið í fimm mínútur.
Bætið svo handfylli af steinselju saman við. Kúfaðri handfylli!
Notið gott pasta. Það breytir öllu!
Á meðan sósugerðin stendur yfir - sjóðið pastað í ríkulega söltuðu vatni, nógu af vatni. Ég er með 8 l pott sem ég fylli. Salta með fullt af salti - tvö grömm fyrir lítra af vatni.
Þegar kjúklingur er eldaður í gegn er honum bætt saman við sósuna. Skreytt með steinselju og sítrónusneiðum raðað með.
Með matnum bárum við fram klassískt salat - tricolore. Fann buffalo mozzarella í búðinni og lagði á beð af fersku salati ásamt piccolo tómötum og fersku basil. Nóg af jómfrúarolíu, ljúffengri balsamic olíu, salti og pipar.
Svo er bara að raða á disk.
Með matnum nutum við Piccini Memoro - sem er blanda af fjórum þrúgum frá Ítalíu. Þetta vín er ljúffengt, bragðríkt og með mjúkt eftirbragð. Og er líka ljúft fyrir budduna.
Bon appetito!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
Matur og drykkur | Breytt 18.5.2020 kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það mun vera tákn um ranghugmyndir að maður haldi að fólkið í sjónvarpinu sé að tala við mann. En þannig leið mér síðastliðinn föstudag þegar ég, ásamt restinni af fjölskyldunni sátum og nutum þáttarins Heima hjá Helga.
Ég beið spenntur eftir aspasbrauðinu - en Helgi nefndi að þessu sinni aspassoufflé. Og það hafði ég bara aldrei gert. Þannig að ég leit svo á að um áskorun væri að ræða. Liðna viku hef ég verið að skoða uppskriftir og fann eina sem ég aðlagaði til að geta kallað hana mína.
Hægt er að sjá atganginn á Instragram reikningi mínum, sjá instagram story.
Ástaróður til Helga Björns 2: Aspassouffle með ferskum aspas og Västerbottenosti
Fyrir sex
1/2 búnt af ferskum aspas
4 egg
35 g smjör
35 hveiti
300 ml mjólk
4 msk rifinn Västerbotten ostur
1/2 hvítlauksgeiri
smjör
brauðmylsna
Aðferð
Skerið aspasinn í bita og sjóðið í söltuðu vatni í tvær mínútur. Kælið í ísvatni og leggið svo aspasinn til hliðar.
Útbúið bechamél sósu með því að bræða 35 g af smjöri í potti og hræra vel saman og mynda smjörbollu. Bæta kaldri mjólk saman við og hita varlega. Sósan þykknar þegar hún hitnar. Bætið svo ostinum saman við og bræðið hann í heitum jafningum.
Aðskiljið eggjahvíturnar frá eggjarauðunum.
Setjið bechamélsósuna í blandara og bætið við aspasnum, hálfum hvítlauksgeira, eggjarauðum, salti og pipar. Blandið vel saman. Færið blönduna yfir í skál.
Þeytið eggjahvíturnar þangað til að þær eru dúnmjúkar - eins og fallegt ský á himni. Ekki stífþeyta. Bætið þeim saman við aspasbætta bechamélblönduna, varlega þannig að þið sláið ekki loftið úr eggjahvítunum.
Smyrjið lítil eldföst mót með mjúku smjöri og setjið brauðmylsnu innan á mótin. Hellið því næst souffleblöndunni yfir í mótin.
Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 20-25 mínútur. Souffle-ið rís upp úr mótunum. Látið standa í nokkrar mínútur. Við það falla þau aftur.
Berið fram með góðu kampavíni og njótið.
Áfram Helgi Björns og Reiðmenn vindanna.
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
11.4.2020 | 12:29
Ástaróður til Helga Björns: Þrennskonar aspasbrauð. Klassískur Helgi, Lúxus Helgi og svo Helgi kóngur með camembert og kampavíni
Heitir réttir - eins og Aspasbrauð - hafa verið vinsælir á mínu heimili frá því að ég man eftir mér. Ég held að í öllum fjölskylduveislum sem foreldrar mínir stóðu fyrir hafi aspasbrauð verið á boðstólunum. Og þennan rétt tók ég svo sannarlega upp á mína arma. Heitir rétt eins og aspasbrauð eru dásamlega ljúffengir.
Og nú ætti auðvitað að vera alger uppskeruhátíð fyrir aspasbrauðs elskendur - þar sem fermingaveislur er líklega stærsti vettvangur þar sem aspasbrauð ætti upp á pallborðið. En nú eru engar fermingaveislur. Þeim hefur verið frestað í bili þangað til um hægist í samfélaginu.
En svo birtist Helgi Björns - sem virðist kunna að taka púlsinn á þjóðinni. Ekki bara með söng - heldur líka með því að lyfta upp þessum gómsæta rétti.
Aspasbrauð!
Ástaróður til Helga Björns: Þrennskonar aspasbrauð; Klassískur Helgi, Lúxus Helgi og svo Helgi konungur með camembert og kampavíni
Og aspasbrauð eru makalaust fljótleg að undirbúa - það tók miklu lengri tíma að setja þetta inn á instastory heldur en að matbúa :) - hægt er að sjá færsluna hérna.
Klassískur Helgi Björns - aspasbrauð
Fyrir sex
Fyrir botninn
5 brauðsneiðar
3 msk jómfrúarolía
salt, pipar og krydd af eigin vali (t.d hvítlaukssalt eða sítrónupipar)
4 egg
1 peli af rjóma
100 ml vökvi af niðursoðnum aspas
1 dós af aspas
6 skinskusneiðar
salt og pipar
handfylli af osti - td. rifnum gratínosti
Aðferðin er ofureinföld. Smyrjið eldfast mót með olíu og saltið og piprið. Kryddið að vild. Ég notaði sítrónupipar. Skerið skorpuna af brauðinu og raðið í mótið.
Hrærið saman egg, rjóma og aspasvökvann. Skerið skinkuna í bita og raðið ofan á brauðið ásamt aspasnum.
Hellið eggjablöndunni yfir og drekkið svo í osti. Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30-45 mínútur þangað til að osturinn er gullinbrúnn.
Dásamlegt!
Smá jómfrúarolía - sælgæti!
Lúxus Helgi Björns - aspasbrauð
Fyrir sex
Fyrir botninn
5 brauðsneiðar
3 msk jómfrúarolía
salt, pipar og krydd af eigin vali (t.d hvítlaukssalt eða sítrónupipar)
4 egg
1 peli af rjóma
100 ml vökvi af niðursoðnum aspas
1 dós af aspas
3 skinkusneiðar
15 sneiðar af salami
1/2 rauð papríka
1/2 rauður chili
salt og pipar
handfylli af ljúffegum Västerbottenosti
Aðferðin er ofureinföld. Smyrjið eldfast mót með olíu og saltið og piprið. Kryddið að vild. Ég notaði sítrónupipar. Skerið skorpuna af brauðinu og raðið í mótið.
Hrærið saman egg, rjóma og aspasvökvann. Skerið skinkuna og salami í bita og raðið ofan á brauðið ásamt aspasnum, niðurskorinni papríku og chili.
Hellið eggjablöndunni yfir og drekkið í osti. Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30-45 mínútur þangað til að osturinn er gullinbrúnn.
Ljúffengt!
Bestu bitarnir eru þar sem osturinn hefur karmelliserast aðeins.
Konunglegur Helgi Björns - aspasbrauð
Fyrir sex
Fyrir botninn
5 brauðsneiðar
3 msk jómfrúarolía
salt, pipar og krydd af eiginvali (t.d hvítlaukssalt eða sítrónupipar)
4 egg
1 peli af rjóma
100 ml kampavín
5 aspasspjót
1 camembert
2-3 msk rifinn ostur
1 tsk ferskt timian
salt og pipar
Aðferðin er ofureinföld. Smyrjið eldfast mót með olíu og saltið og piprið. Kryddið að vild. Ég notaði sítrónupipar. Skerið skorpuna af brauðinu og raðið í mótið.
Brjótið eggin í skál og setjið rauðurnar til hliðar. Þeytið upp hvíturnar. Hrærið svo saman eggjarauðum, rjóma og kampavíni. Bætið hvítunum saman við og blandið varlega saman. Skerið aspasinn í þunnar sneiðar og setjið ofan á brauðið.
Hellið eggja og kampavínsblöndunni yfir og raðið svo niðursnseiddum camembert yfir. Bætið upp með rifnum osti. Skreytið með timjan.
Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30-45 mínútur þangað til að osturinn er gullinbrúnn.
Ef þetta er ekki falleg sjón þá veit ég ekki hvað.
Og með réttunum gæddi ég mér á Moillard Cote Nuits-Villages frá Beune í Búrgúndarhéraði. Dásamlegt Pinot Noir - berjakeimur og flauelismjúkt!
Konunugur aspasbrauðanna hefur verið krýndur!
Takk Helgi - skál fyrir....
Ég er varla sá eini sem dettur í hug að eldaflatbökur í lok vikunnar. Það er bæði fljótlegt og svo ef maður vandar valið á áleggjunum þá er getur það verið alveg einstaklega ljúffengt.
Ofureinfaldar flatbökur - með kartöflum, spergilkáli og gráðaosti, svo önnur með rauðlauk, spínati, döðlum og cashewhnetum og í eftirrétt - fjögurra osta með bláberjum
Fyrir flatbökubotnana
Ef maður er alveg að brenna út á tíma - er auðvitað hægt að kaupa tilbúið deig út í búð - en það er líka auðvelt að gera sitt eigið deig.
Innihaldslýsing
700 gr hveiti
300 ml volgt vatn
2 msk jómfrúarolía
25 gr ger
25 gr sykur
2 tsk salt
Fyrst er það deigið. Setjið hveitið í skál. Svo saltið. Og á eftir því olíuna.Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar að það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við. Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.
Nýtni er dyggð - flatbaka með kartöflum, spergilkáli og rifnum gráðaosti
Hér nýtast afgangar vikunnar vel.
3-4 msk hvítlauksolía
2-3 soðnar kartöflur
1/2 haus spergilkál
handfylli af rifnum pizzaosti
4-5 msk af rifnum gráðaosti
salt og pipar
Penslið botninn með hvítlauksolíu, sáldrið rifnum pizzaosti yfir. Raðið svo soðnum kartöflum í sneiðum og á milli spergilkáli í litlum bitnum. Sáldrið svo nóg af gráðaosti á milli. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.
Þrungin af bragði. Þessi er fyrir fullorðna fólkið - og er í uppáhaldi hjá mér.
Asískt ævintýri - flatbaka með rauðlauk, spínati, basil, döðlum og cashewhnetum.
Þessi er dálítið ævintýraleg. Og hún er líka algert sælgæti.
3-4 msk hvítlauksolía
handfylli af rifnum pizzaosti
6-7 döðlur skornar í bita
1/4 rauðlaukur í þunnum sneiðam
handfylli spínant
3-4 basillauf
handfylli cashewhnetur
Penslið deigið með jómfrúarolíu og sáldrið ostinum jafnt yfir bökuna. Dreifið rauðlauk, spínati, rifnum basillaufum og döðlum ofan á. Skreytið með nokkrum cashewhnetum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.
Eftirréttabaka - með rifnum pizzaosti, gullosti, höfðinga, piparosti - skreytta ferskum bláberjum
Þessi er ótrúlega ljúffeng. Og sigrar eiginlega alltaf.
3-4 msk hvítlauksolía
handfylli af rifnum pizzaosti
Nokkrar þunnar sneiðar af gullosti
Nokkrar þunnar sneiðar af höfðinga
handfylli rifinn piparostur
Penslið bökuna með hvítlauksolíu, svo er flatbökunni drekkt í ljúffengum ostum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur. Þegar bakan kemur úr ofninum er hún skreytt með bláberjum eftir smekk. Það er líka gott að prófa að nota sultu - rifsberjasultu eða jafnvel chilisultu.
Þvílík föstudagsveisla.
Auðvitað fengum við okkur rauðvínstár með bökunum. 19 Crimes the Uprising frá því 2018 frá Ástralíu. Þetta vín er blanda úr Shiraz/Syrah, Cabernet Sauvignon, Grenache. Þetta er ansi kraftmikið vín - enda fær það að þroskast að hluta í rommtunnum. Mikill ávöxtur og ljómandi gott jafnvægi á tungu.
Verði ykkur að góðu.
Matur og drykkur | Breytt 28.3.2020 kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2020 | 12:04
Lífið í sóttkví: Dásamleg nautarifjakássa með rauðvíni, tómat og cassislíkjör og penne pasta
Þetta er ótrúlegir tímar sem við lifum á í dag. Það er óhætt að segja að heimurinn sé að breytast dag frá degi. Sjálfur hef ég verið í sóttkví ásamt fjölskyldu minni, fyrst heima hjá mér og svo nú í sumarhúsi foreldra minna í Kjósinni. Það var gott að skipta um umhverfi. Það er erfitt að vera í sóttkví. Og ég veit líka hvað það er erfitt að vera í veikur í einangrun. Það veit ég frá fyrstu hendi þar sem ég hef tekið þátt í því verkefni að vitja Covid-19 veikra sjúklinga í heimahúsi auk þess að sinna gigtarsjúklingum mínum með fjarlækningum. Þetta er krefjandi en á sama tíma mjög gefandi verkefni. Ég er einkar þakklátur að fá að taka þátt í þessu og fá að sinna öllu þessu fólki. Þetta er tími til að standa saman og styðja hvert annað.
Ég hef líka notað tímann til að dunda mér í eldhúsinu. Það er gott að vinna heima vitandi að það bíður ljúffeng máltíð í lok dags. Þessi nautarif fann ég frystinum. Þau eru beint frá bónda.
Þessa máltíð eldaði ég á miðvikudagskvöldið - sem var þá þriðji dagur í sóttkví.
Lífið í sóttkví: Dásamleg nautarifjakássa með rauðvíni, tómat og cassislíkjör og penne pasta
Hráefnalisti (fyrir sex - en þetta dugar vafalaust fyrir fleiri)
2 kg nautarif
3 sellerísstangir
5 gulrætur
2 gulir laukar
5 hvítlauksrif
2 msk Edmond Fallot rauðvínsedik
4 msk hveiti (bragðbætt með salti, pipar og hvítlauksdufti)
4 msk jómfrúarolía
1/2 flaska gott rauðvín
3 dósir niðursoðnir tómatar
4 msk ítölsk kryddblanda (hefði notað kryddvöndul en var í sóttkví)
600 ml nautasoð
salt og pipar
500 g Rustichella d'Abruzzo Penne
Það er ekki leiðinlegt að elda úr svona hráefni. Þetta nautakjöt var beint frá býli.
Fyrst er að velta kjötinu upp úr bragðbættu hveiti.
Svo er kjötið brúnað að utan í nokkrar mínútur þangað til að það hefur tekið á sig fallegan lit.
Næst er að skera grænmetið; gulræturnar gróflega, laukinn, selleríið, hvítlaukinn heldur fínt og mýkja í pottinum. Þá er að bæta kjötinu aftur í pottinn og hella edikinu saman við og láta það sjóða niður og nudda botninn á pottinum til að ná upp kraftinum sem er fastur á botninum.
Næst er að bæta rauðvíninu saman við - ég setti hálfa flösku eða svo. Sauð upp áfengið og bætti svo niðursoðnum tómötum saman við ásamt nautasoðinu.
Villi Bjarki hefur verið afar áhugasamur um að hjálpa mér við mér við matargerðina. Hann sá um að krydda matinn.
Bætti smá skvettu af Cassis Noir De Bourgogne - þetta er ljúffengur sólberjalíkjör frá Búrgúndarhéraði í Frakklandi. Hann er einkar ljúfur á bragðið með djúpt sólberjabragð.
Svo er bara að láta suðuna koma upp og setja svo pottinn inn í 150 gráðu heitan ofn og leyfa honum og dvelja þar í fjórar til fimm klukkustundir.
Það er mikilvægt að sjóða pastað í ríkulega söltuðu vatni.
Kássan er tilbúin þegar beinin renna auðveldlega frá kjötinu. Svo er bara að bera veisluna á borð.
Eins og ég nefndi hér að ofan þá var þessi réttur eldaður fyrir fjölskylduna en hún dugar fyrir fjöldann allan af fólki - ég hefði boðið vinum og vandamönnum en þar sem við erum í sóttkví þá urðum við lögum samkvæmt að draga línurnar.
Með matnum nutum við Masi Nectar Campofiorin sem er frá sveitunum skammt fyrir utan Verónaborg á norðanverðri Ítalíu. Þetta er sérstaklega ljúffent vín. Hugur minn leitar oft til Ítalíu - ekki bara vegna þess að ég hef heimsótt þennan framleiðenda, og ekki bara vegna hve vænt mér þykir um Ítalíu - og hef farið þangað í ferðalög reglulega liðna áratugi, og ekki bara vegna þess hversu dásamlegur maturinn þeirra er, vínið og menningin - en þá sérstaklega núna - í ljósi þeirrar eldraunar sem þeir eru að ganga í gegnum.
Þetta var dásamleg máltíð.
Og gerði sóttkvínna léttari!
Verði ykkur að góðu.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.2.2020 | 08:00
Svínasíða sousvíduð í andafitu, borin fram með madeirasósu, karmelliseruðu fennel og ofnbökuðum rósmarínkartöflum
Það er heldur langt síðan að ég notaði sousvide tækið mitt - en ég byrjaði kannski fyrr en flestir. Ég held að ég hafi eldað með þessari aðferð einhvern tímann árið 2012 - en þá fetaði ég í fótspor Úlfars Finnbjörnssonar meistarakokks með þessari uppskrift, sjá hérna. Í bókinni minni Veislan endalausa sem kom út fyrir jólin 2014 voru líka þó nokkrar uppskriftir þar þessari aðferð var beitt.
Það var svo fyrir jólin 2017 að ég tók þátt í að skrifa handbók, Dr. Sousvide - sem fylgdi með sousvide tæki sem Margt Smátt lét framleiða - en um það leyti tröllreið sousvide eldamennska yfir íslenskt samfélag. Allir voru að sousvida þessi jól. Eitthvað hefur nú dregið úr þessu æði - kannski eins og eðlilegt er. Sousvide tækin eru þó varla eins og fótanuddtækin forðum. En hvað veit ég.
Svínasíða sousvíduð í andafitu borin fram með madeirasósu frá grunni, karmelliseruðu fennel og ofnbökuðum rósmarínkartöflum
Eins og ég nefndi hafði ég ekki sousvidað um nokkurt skeið. Ég fékk þessa hugmynd þegar ég var einmitt að glugga í gegnum Veisluna endalausu - og rakst á uppskrift að konfíteraðri svínasíðu - þar sem ég notaði umtalsvert magn af andafitu - um tvö kíló. Þetta var ein ljúffengasta uppskriftin í bókinni og mig langaði svo til að gera þetta aftur - nema að ég átti ekki þetta magn af andafitu. Ég átti kannski 500 g í krukku sem hafði komið af confit du canard sem ég hafði keypt í Frakklandi í nóvember í fyrra. Og núna voru góð ráð dýr. En lausnin varð mjög ljúffeng. Sousvide!
Fyrir svínasíðuna
1,5 kg svínasíða
250 g andafita
2 greinar af fersku rósmaríni
nýmalaður pipar
Fyrir fennelinn
2 hausar af fennel
3 msk jómfrúarolía
salt og pipar
smjör til steikingar
Fyrir kartöflurnar
700 g kartöflur
100 g andafita
salt og pipar
2 greinar af rósamaríni
Fyrir madeira-sósuna
150 ml madeira-vín
500 ml kjötsoð
salt og pipar
20 g smjörbolla beurre manié
sojasósa (eftir smekk)
sulta (eftir smekk)
Fyrst er að byrja á því að verka svínasíðuna. Ég náði mér í beittan hníf og skar rifin frá. Þau lagði ég til hliðar til að nota í sósuna.
Puran var líka fjarlægð. Þurrkuð í ísskáp í eina klukkustund, skorin, söltuð og svo bökuð í ofni við 200 gráður þangað til að hún fór að poppast upp. Lögð til hliðar.
Eini síðunni rúllaði ég upp í pylsu eins og þessa á myndinni og batt með streng. Lagði rósmaríngreinar undir strenginn. Pipraði ríkulega.
Hina síðuna hafði ég flata. Kryddaði eins og þá sem ég rúllaði upp.
Því næst setti ég 250 g af andafitu í pott og bræddi og lét kólna um stund.
Setti svo síðurnar í hvorn sinn pokann ásamt andafitunni, um 125 g í hvorn poka. Innsiglaði með vakúmvél.
Setti í 70 gráðu heitt vatnsbað í þrjár og hálfa klukkustundir.
Næst var að huga að fennelinu. Fennel passar fullkomlega með svínakjöti. Hugmyndina að þessu einfalda meðlæti kom úr þáttum Thomas Keller sem er með kennslueldhús hjá Masterclass. Skar hann í báta og velti upp úr jómfrúarolíu og salti og pipar.
Fennelið eldaði ég við 85 gráður í 40 mínútur.
Það hjálpaði að eiga tvö sousvide tæki við þessar aðstæður.
Rifin voru vel nýtt. Þeim var velt upp úr jómfrúarolíu, salti og pipar og brúnuð inn í ofni.
Kjötsoðið var svo útbúið frá grunni. Fyrst var niðurskorið sellerí, laukur og gulrót steikt í olíu þangað til mjúkt. Svo var beinunum bætt saman við. Þá skvetta af madeira sem var flamberað. Þá bætti ég við einum lítra af vatni. Soðið niður um helming.
Útbjó svo sósuna á eftirfarandi hátt. Sauð niður 150 ml af madeira víni um nær helming. Bætti svo soðinu saman við. Sauð upp og svo niður aftur um 1/3. Þykkti með smjörbollu og bragðbætti þangað til að sósan varð alveg einstaklega ljúffeng.
Kartöflunum var velt upp úr andafitu, salti, pipar og rósmaríni sáldrað með. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í rúm þrjú kortér eða þangað til að þær verða svona fallega gullinbrúnaðar.
Fennelið var tekið úr pokunum, þurrkað með viskustykki og svo steikt á pönnu þangað til það varð fallega karmelliserað.
Kjötið var lungamjúkt. Og safaríkara verður það varla.
Þessi mynd er eiginlega bara til að monta sig.
Kjötið var svo steikt upp úr smjöri til að brúna það vel að utan.
Með matnum drukkum við þetta ljúffenga rauðvín frá Suður Ameríku. Marques de Casa Concha Etiqueta Negra frá því 2017. Þetta vín er blanda úr Cabernet Sauvignon, Cabernet Franc, Petit Verdot - og er sérlega ljúffengt. Þétt vín með miklum ávexti, mikilli fyllingu - eikað með löngu eftirbragði.
Loka "touchið" var svo að skreyta með purunni.
Hvílík veisla. Sousvide snýr aftur.
Verði ykkur að góðu!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2020 | 12:47
Ostaþrungið fiskigratín með blönduðu sjávarfangi, smjöraðri kartöflumús og petis pois
Ég elda fiskigratín alltof sjaldan - eins og mér finnst þau ljúffeng. Og mér finnst sérstaklega gott að hafa smávegis af reyktri ýsu með, sem er í raun eina leiðin til að borða ýsu. Ég þoli nefnilega eiginlega ekki ýsu. Ætli ég hafi ekki fengið ofskammt í æsku af ýsu - mamma var alltaf að reyna að fá okkur til að borða ýsu þannig að ég elda hana aldrei, aldrei nokkurn tíma. Ég held hreinlega að ég hafi aldrei soðið ýsu frá því að ég fór að búa. Og ég byrjaði halda heimili fyrir næstum 24 árum.
Ég veit að það er fullt af fólki sem finnst ýsa - vera algerlega málið, "the bee's knee's" - en ég get eiginlega varla komið henni niður. Nema reyktri og kannski í plokkara. En samt helst ekki.
Nóg um ýsuna. Þessi uppskrift er í flottari kantinum og hentar bæði sem helgarmáltíð - en getur líka lyft manni upp á virkum degi. Ég tala nú ekki um ef maður hefur smá hvítvínstár með.
Ostaþrungið fiskigratín með blönduðu sjávarfangi, smjöraðri kartöflumús og petis pois
Hráefnalisti fyrir 5
350 g þorskhnakki
350 g lax
350 g reykt ýsa
30 g smjör
30 g hveiti
500 ml mjólk
200 g cheddar ostur
handfylli af brauðmylsnu
3-4 msk hvítlauksolía
salt og pipar
frosnar grænar baunir
skvetta af jómfrúarolíu
salt og pipar
Fyrir kartöflumúsina
1 kg kartöflur
100 g smjör
100 ml rjómi
100 ml mjóllk
salt og pipar
Byrjið á því að roðafletta fiskinn. Ég fór í fiskbúðina á Sundlaugaveginum og þeir gerðu það fyrir mig. Skar svo í grófa bita, svona rúmlega munnbitastærð.
Ég notaði Óðals chedder ost sem mér finnst ansi vel heppnaður íslenskur ostur.
Það er einfalt að gera bechamél sósu. Bræðið smjörið í potti og þegar það hefur bráðnað hrærið þið hveitinu saman við. Bætið svo mjólinni saman við og hitið að suðu. Sósan hitnar hratt við það. Raspið svo ostinn og bætið helmingnum saman við sósuna. Hrærið vandlega og eldið þangað til osturinn er bráðinn.
Penslið eldfast mót með hvítlauksolíunni og raðið fiskbitunum í fatið.
Hellið svo smjörbollunni yfir fiskinn.
Sáldrið restinni af ostinum ofan á.
Takið þvínæst handfylli af heimagerðu raspi og dreifið jafnt yfir.
Svo er lítið annað að gera en að skella réttinum í 180 gráðu heitan, forhitaðann ofn og elda í 35 mínútur.
Á meðan gerið þið kartöflumús. Flysjið og sjóðið kartöflurnar í söltuðu vatni. Þegar þær eru tilbúnar er vatninu hellt frá og blandað saman við rjóma, mjólk, smjör og svo salti og pipar. Úr verður flauelsmjúk kartöflumús. Mjög einfalt.
Girnilegt, ekki satt!
Með matnum smökkuðum við á Brancott Estate Letter Series Sauvignion Blanc. Þetta er vín sem á uppruna sinn í Marlboroughsýslu á Nýja Sjálandi. Þetta er ljómandi gott hvítvín sem er fallega gult á litinn, með kröftugan ávöxt, góða fyllingu og skarpt bragð á tungu.
Ég veit ekki um ykkur en mér fannst þetta vera algert dúndur. Og reykta ýsan er einkar ljúf sem bakgrunnstónn í þessu ostaþrungna gratíni.
Verði ykkur að góðu.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)