Færsluflokkur: Matur og drykkur

Þunnt skorinn, vel marineraður og snögg-grillaður lambahryggur með kryddjurtasósu og grísku salati

 

Það var svo ljúft veður liðna helgi að ég fékk þá flugu í höfuðið að grilla. Sumir vetrardagar bara kalla á að maður kyndi upp í grillinu - og eldi kvöldverð undir berum himni. En þegar á hólminn var svo komið sendi ég karl föður minn út með kjötið. En hann þurfti ekki að standa lengi við grillið þar sem ég hafði látið skera lambahrygginn í mjög þunnar sneiðar - svo þær væru eldsnöggt á grillinu.  

Ég hef ætlað að gera þetta um nokkuð skeið - en ekki látið verða af því fyrr en nú. Íslenskar kótilettur, lambakonfekt, er gjarnan skorið aðeins þykkara. Ég fékk svona þunnt skornar lambakótilettur þegar ég var í heimsókn hjá Ramon Bilbao í Rioja haustið 2018. Hugmyndin á bak við þessar þunnt skornu kótilettur er að maður nái lambafitunni stökkri og ljúffengri án þess að ofelda sjálft kjötið.  

Þunnt skorinn, vel marineraður og snögg-grillaður lambahryggur með kryddjurtasósu og grísku salati

 
Þetta er ekki flókin matseld en það er skynsamlegt að leyfa kjötinu að meyrna í ísskáp í nokkra daga og svo marinerast í nokkrar klukkustundir. Ég fékk Geira í Kjötbúðinni á Grensásveginum til að saga hrygginn niður með þessum hætti. 
 
1 lambahryggur - skorinn þunnt
3-4 msk góð jómfrúarolía (ég notaði bragðbætta olíu frá Olio principe)
2 msk Yfir holt og heiðar 
handfylli ferskt timjan, steinselja og mynta 
salt og pipar
 
Fyrir kryddsósuna
 
1 dós sýrður rjómi
2-3 msk majónes
1/2 dós af bragðbættum rjómaosti
2 hvítlauksgeirar
handfylli ferskt timjan, steinselja og mynta 
salt og pipar
 
Grískt salat 
 
græn lauf
kjarnhreinsuð agúrka
rauðlaukur
kalamata ólífur 
fetaostur
fersk mynta 
 
Kartöflusalat
 
700 g soðnar og flysjaðar kartöflur (láta kólna) 
4-5 msk pæklaður rauðlaukur
2-3 msk sýrður rjómi
2-3 msk majónes
1 msk hlynsíróp
salt og pipar
 

 

Ég byrjaði eldamennskuna um hádegisbil. Kjötið hafði þá fengið að meyrna í ísskáp í þrjá til fjóra daga og svo á frammi á borði yfir nótt. Skolaði af því og þerraði og setti í ílát. Bætti olíunni, öllu kryddinu - bæði því þurrkaða og því ferska og salti og pipar saman við og lét marinerast í nokkrar klukkustundir. 
 
 
Ilmurinn af þessu kjöti var himneskur. 
 
 
Sósan var ofureinföld. Blandaði saman sýrðum rjóma, majónesi og rjómaosti. Hakkaði svo heilmikið af kryddjurtum (þeim sömu og ég hafði notað í marinerínguna) og hrærði saman við. Smá hlynsíróp og smakkaði svo til með salti og pipar. 
 
 
Salatið var líka einfalt. Bara að skola grænu laufin og leggja á disk, sneiða gúrkuna og kjarnhreinsa, sneiða rauðlaukinn, sáldra yfir svörtum kalamata ólívum, ásamt fetaosti. Skreytt með myntu. Saltað og piprað. 
 
 
Pabbi sá um að grilla. Hann er með ferlega heitann brennara á grillinu sínu. Kjötið þurfti ekki nema 90 sekúndur á hvorri hlið. 
 
 
Kartöflusalatið var líka fljótlegt að matreiða. Kartöflurnar voru flysjaðar, soðnar í söltu vatni og settar í skál til að kólna. Sýrðum rjóma og mæjónesi blandað saman, ásamt hökkuðum pækluðum rauðlauk (heimagerðum að sjálfsögðu - sjá hérna). 
 

 

Þetta var ljómandi gott rauðvín. Trapiche Medalla Cabernet Sauvignion frá 2017. Þetta er kraftmikið vín, gott að leyfa því að anda svolítið, þurrt á tungu, ríkur ávöxtur og ágætlega eikað með ljúfu eftirbragði. 

 

 

Sannkölluð veislumáltíð. 
 
Verði ykkur að góðu! 

 

 
-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Blóðmör (blóðbúðingur) með sænsku, jafnvel ensku, sniði með tvennskonar mús

 

Blóðmör eða blóðbúðingur verður seint kallaður fallegasti matur sem um getur. Og fólk skiptist gjarnan í tvo hópa - þeir sem borða blóðmör, og svo hinir sem gera það alls ekki. Það tók mig nokkuð langan tíma að læra að kunna meta blóðmör. Mér þótti til dæmis ekki blóðmör góður fyrr en ég fór að steikja hann og bera hann fram með rifsberjasultu eða sætu sinnepi. Svo kynntist ég bæði sænskri og enskri útgáfu og þær geta verið mjög ljúffengar. Sérstaklega bresku blóðpylsurnar sem fylgja með "Full english breakfast

Blóðmör (blóðbúðingur) með sænsku, jafnvel ensku, sniði með tvennskonar mús

Hráefnalisti

1 líter lambablóð 
1 laukur
1 epli
250 ml pilsner
175 g rúgmjöl
175 g perlubygg
250 g lambafita
50 ml birkisíróp
2 tsk salt
1 tsk allrahanda
1/4 múskathneta
10 piparkorn
8 negulnaglar
2 einiber
1 msk þurrkað majoram
50 g smjör
 
1 rófa
1 sæt kartafla
100 g smjör
100 ml mjólk 
1 tsk sykur
salt og pipar
 
500 g kartöflur
50 g smjör
50 ml mjólk
1 tsk sykur
salt og pipar
 
 
Skerið laukinn smátt niður og steikið í smjörinu. Saltið og piprið. Hakkið lambafitina gróflega. Setjið í skál ásamt rúgmjöli og byggi. Bætið lambafitunni saman við. 
 

 

Bætið svo við blóðinu ásamt sírópinu. Steytið negulnaglana, einiberin og piparinn í mortéli og bætið saman við. Hrærið vandlega.

 

 

Raspið hnetuna og bætið allrahanda og majoram saman við. 

 

Hrærið vandlega með sleif eða sleikju. 

Setjið í vel smurt bökunarform, hyljið með álpappír og bakið í 180 g heitum forhituðum ofni í 60-90 mínútur. 

 

 
Búðingurinn er tilbúinn þegar unnt er að stinga hnífi í hann án þess að hann litist af blóði þegar hann er dreginn út. 
 
Látið kólna í ísskáp í nokkrar klukkustundir. 

 
Ég gerði tvennskonar kartöflumús með blóðmörnum. Notaði nýja íslenska rófu og sæta kartöflu sem ég flysjaði og skar í bita. Sauð í söltuðu vatni. Þegar þær voru mjúkar hellti ég vatninu frá og stappaði saman með smjöri, mjólk, sykri, salti og pipar. 
 
Kartöflurnar fengu sömu meðferð. 


Skar svo búðinginn í sneiðar og steikti upp úr smjöri við lágan hita, eina mínútu á hvorri hlið. Bar fram með kartöflumúsinni, heimagerðri bláberjasultu og sætu sinnepi. 
 
Bar fram með ísskaldi nýmjólk. 

Þessi búðingur var frábær tilraun. Ég hef aldrei reynt að gera minn eigin blóðmör. Eftir á að hyggja hefði ég átt að nota aðeins meiri fitu og aðeins færri negulnagla. Líklega hefði ég átt að sjóða byggið áður. En maður lifir og lærir. 
 
 
-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
 

 

 

Ljúfir hausttónar - dásamlegt íslenskt grænmeti lagt í pækil - litadýrð í krukku

 
 
Ég elska haustin. Sumir segja, vonandi í gríni, að þeir sem elska haustin ættu að leita sér einhverskonar meðferðar. 
 
Ætli þessa færsla skýri ekki að einhverju leyti hvers vegna mér þykir svo vænt um þennan árstíma. Öll uppskeran. Sjáið alla þessa dásamlegu liti. Auðvitað er best að njóta allra þessara ávaxta sumarsins meðan það er sem ferskast - en það má líka leggja það í pækil og þannig varðveita bragð þess og áferðar yfir myrkustu mánuðina. 
 
Ljúfir hausttónar - dásamlegt íslenskt grænmeti lagt í pækil - litadýrð í krukku
 
Það eru til óteljandi blöndur af vökva sem ætti að nota í pækil. 3-2-1 blandan frá Svíþjóð og svo óteljandi aðrar blöndur. 
 
Ég útbjó þessa eftir að hafa skimað fjölda ólíkra uppskrifta. 
 
Grænmeti af ýmsu tagi;
 
Smágúrkur
papríkur
gulrætur
rauðkál
hvítkál
blómkál 
laukur
 
Pækill
 
1 hlutur edik
1 hlutur vatn
1/2 hlutur sykur
1/8 hlutur salt 
 
Krydd
 
Sinnepsfræ
svört piparkorn
græn piparkorn
rauð piparkorn
eldpipar
lárviðarlauf
 
 
Hægt er að hafa gúrkurnar - heilar, í sneiðum eða í ílöngum fjórðungum eins og þessum.
 
 
Sama má segja um gulræturnar. 
 
 
Svo er að fylla krukkurnar með grænmetinu. 
 
Í sumar krukkurnar fóru nokkrar tegundir af grænmeti - svona tilraun til að skapa einhver mynstur. 
 

Krukkurnar fengu að fara ferð á háum hita inn í uppþvottavélina, fengu að þorna og svo eina ferð inn í 110 gráðu heitan ofn í 10-15 mínútur. Við það ættu þær að vera sótthreinsaðar.

 
Svo er bara að loka krukkunum og koma þeim fyrir inn í ísskáp. 
 
Þetta er frábært meðlæti með ýmiskonar réttum og lyftir og lífgar við nánast hvaða disk sem lagður er á borðið. 

 

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Einn dásamlegasti kjúklingaréttur allra tíma - Kjúklingur sextíuogfimm (Chicken Sixty-five)


Ég hafði ekki heyrt um þennan rétt fyrr en að Snædís, eiginkona mín, kom heim með hann frá veitingahúsinu Bombay Bazar í Ármúlanum. Ég varð hreinlega orðlaus - þetta var sennilega besti kjúklingaréttur sem ég hafði bragðað. Og ég hef pantað hann nokkrum sinnum síðan - ótrúlega seðjandi og bragðmikill réttur. 

Og ég var eiginlega undrandi á að hafa ekki kynnst honum áður. Svo góður er hann! Þessi réttur á sér ekki langa sögu. Hann varð til á Buhari Hótelinu í Chennai á Indlandi. Kokkurinn - herra Buhari, bjó til þennan rétt fyrir gesti hótelsins. Nafnið á réttinum hefur vakið nokkra athygli - og verið innblástur í ýmsar sögusagnir um tilurð réttsins - að hann innihaldi 65 mismunandi krydd, að hann hafi verið búinn til fyrir indverska herdeild. En svo er ekki raunin. Herra Buhari bar þennan rétt fyrst fram árið 1965. Og þannig fékk hann nafn sitt - eftir fæðingarárinu! 

Einn dásamlegasti kjúklingaréttur allra tíma - Kjúklingur sextíuogfimm (Chicken Sixty-five)

Þetta er ekki flókin eldamennska - en hún er nokkuð tímafrek og er í allavega þremur stigum. Fyrst marinering, svo djúpsteiking og svo er kjúklingurinn steiktur aftur í sósunni. 

Hráefnalisti fyrir 6 

1,4 kg úrbeinuð kjúklingalæri 
1/2 dós grísk jógúrt
safi úr tveimur sítrónum
2 egg
3 msk túrmerik
3 msk garam masala
3 msk papríkuduft
2 msk chiliduft
1 msk chiliflögur
2 msk svartur pipar
1 bolli maísmjöl
6 msk hvítlauks- og engifermauk
50  ml rauðsófusafi (ég fékk hann með því að stappa vökvann úr nokkrum forsoðnum rauðrófum)
salt 
2 l sólblómaolía til að djúpsteikja
 
Fyrir sósuna 
 
1/2 dós grísk jógúrt
50 ml rauðrófusafi
5 msk tómatsósa
2 msk sæt chilisósa
2 msk siracha sósa
salt og pipar
1 græn chili
10-15 karrílauf
1 msk hvítlauks- og engifermauk
 
Meðlæti
 
Basmati hrísgrjón 
Einfalt mangósalat (gleymdi að taka mynd af því) 
 
 

 

Byrjaði á því að skera kjúklingalærin í sex nokkuð álíka stóra bita. Setti í skál og bætti svo jógúrt, eggjum, maísmjöli, engifer- og hvítlauksmauki, rauðrófusafa og öllu kryddinu saman í skálina. Saltaði.
.
 
Þá er að blanda öllum þessum hráefnum vandlega saman og leyfa að marinerast í að minnsta kosti 30 mínútur - meiri tími er auðvitað betri - sumar uppskriftir sem ég rakst vildu stungu upp á að hafa þetta yfir nótt, þannig að ég ákvað að fara milliveginn, tæplega þrjár klukkustundir. 
 
 
Þá var ekkert annað að gera en að hita olíu upp í 160 gráður og djúpsteikja nokkra bita í senn og leggja þá svo til hliðar þegar þeir voru orðnir fallegir á litinn og eldaðir í gegn. Það tók ekki nema nokkrar mínútur að steikja kjúklingin í gegn. 

 

 

Er það bara ég sem, eða eruð þið fleiri, sem elskið djúpsteiktan kjúkling? 

 

 
Það er mikilvægt að gera nóg af kjúklingi - þar sem fólk á eftir að borða yfir sig af þessu ljúfmeti. 

 

 
Þegar kjúklingurinn var tilbúinn fór ég að huga að sósunni. Blandaði saman jógúrtinni, tómatsósunni, siracha og sætri chilisósu saman í skál. 
 
Saxaði svo niður einn grænan chili. Hitaði olíu á pönnu og steikti eldpiparinn með hvítlauks- og engifermauki og karrílaufunum.

 

 
Hitaði sósuna upp á pönnunni og blandaði vel saman við hráefnin. 

 

 
Lokaskrefið var að færa kjúklinginn í sósuna og blanda varlega þannig að hann varð alveg hjúpaður. Steikja svo saman í nokkrar mínútur. Skreytti með kóríander. 
 

 

Margir kannast við 1000 Stories Zinfandel - þetta er eiginlega stóra systir hans. Þetta er bandarískt Capernet Sauvignion frá Kalíforníu sem fær að þroskast á vískitunnum. Vivino gefur þessu víni  4.0 í einkunn og vínótek fjórar stjörnur. Það er skiljanlegt þar sem um ljúffengan rauðvínssopa er að ræða. Hefur kraftmikinn tón, er þurrt og rúllar vel á tungu. Allir voru sammála um að það gaf matnum ekkert eftir. 

 

 

Borið fram með hrísgrjónum og einföldu mangósalati. 
 
Hvet ykkur til að prófa Kjúkling sextíu- og fimm! 
 
Þetta er sælgæti! 
 
-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Ljúffeng Västerbottenbaka með reyktum laxi og karmelliseruðum rauðlauk ásamt hlaðborði af góðgæti

 

Þessi færsla er í samstarfi við sænska félagið. Þau báðu mig um að búa til uppskrift af Västerbottenböku sem er ómissandi réttur á veisluborði þegar Kräftskiva er haldin. 
 

----


Sænska fé­lagið á Íslandi efn­ir til sinn­ar ár­legu humar­veislu í dag en fé­lagið fagn­ar 65 ára af­mæli í ár. Humar­inn sem notaður er, geng­ur oft­ast und­ir nafn­inu vatnakrabbi (á sænsku: kräfta) og er lít­ill og rauður að lit og minn­ir um margt á humar­inn frá Kan­ada, en þó um­tals­vert minni. 

Þessi krabbi lif­ir í stöðuvötn­um og ám víða um heim og er unnt er að veiða hann í stöðuvötn­um í Svíþjóð. Hann er gjarn­an soðinn í söltu vatni með dilli og þykir einkar bragðgóður. Kräftski­va, sem er sænska nafnið á þess­ari humar­veislu, er hefð sem má finna heim­ild­ir um allt frá sextándu öld. Þar má nefna sænska kon­ung­inn Karl Erik XIV (1560-1568), sem ræktaði vatnakrabba í varn­ars­íkj­um sín­um. Slík síki voru al­geng um­hverf­is sænsk­ar kon­ungs­hall­ir. Vatnakrabb­inn varð mjög vin­sæll í Svíþjóð, svo mjög að hann var ná­lægt út­rým­ingu, en til að stöðva út­rým­ingu hans þurfti að setja regl­ur sem bönnuðu veiði nema í ág­úst. Úr varð að ár­legar krabba­veisl­ur voru ávallt haldn­ar á haust­in og eru það enn þann dag í dag.

Sag­an seg­ir, að í stærri borg­um, hafi borð í þess­um veisl­um verið skreytt með lit­rík­um ljós­um og pappa­disk­um. Með vatnakrabb­an­um var drukkið óhemju mikið af „nubbe“ (brenni­vínssnafs). Við þjóðar­at­kvæðagreiðsluna árið 1922 þar sem kosið var um áfengsi­bann varð vatnakrabb­inn tákn um all­ar nei­kvæðu hliðar­inn­ar á mik­illi áfeng­isneyslu. Rit­höf­und­ur­inn og mynd­list­armaður­inn Al­bert Engström hannaði mynd á serví­ettu með text­an­um: „Vatnakrabb­inn krefst þess­ara drykkja!“

Frá og með 1994 mátti borða vatnakrabb­ann allt árið um kring og hef­ur sænska fé­lagið á Íslandi haldið ár­lega veislu, kräftski­va, á liðnum árum. Þrátt fyr­ir að Covid-19 hafi sett strik í reikn­ing­inn var ákveðið að halda í hefðirn­ar og hugsa í lausn­um. Ákveðið var að búa til „veislupakka“ sem sam­an­stend­ur af 1 kg af vatnakrabba, sænsku hrökk­brauði (knäckebröd), Vä­ster­bottenosti, ljúf­fengri upp­skrift og söngva­hefti. 

Vä­ster­bottenost­urinn er jafn mik­il­væg­ur og sjálf­ur vatnakrabb­inn. Kannski var það áfeng­is­magnið og að vatnakrabb­inn sjálf­ur er ekki sér­stak­lega mat­ar­mik­ill að hús­mæðurn­ar tóku upp á því að bjóða upp á osta­böku áður en veisl­an hófst, en þessi osta­baka er ávallt for­rétt­ur í krabba­veisl­unum.

Lækn­ir­inn í Eld­hús­inu hef­ur gert sér­staka upp­skrift af osta­bök­unni handa sænska fé­lag­inu að þessu sinni. Ragn­ar Freyr Ingvars­son er mik­ill Svía­vin­ur, er sænsk­ur rík­is­borg­ari, og bjó hann sjálf­ur úti í Svíþjóð í fjölda­mörg ár þegar hann var í sér­námi í Lundi. Fé­lagið hef­ur kynnst hon­um gegn­um fyrr­ver­andi sendi­herra Svía á Íslandi, Håk­an Ju­holt. Sænska fé­lagið hafði sam­band við Ragn­ar og bað hann um að gera upp­skrift fyr­ir fé­lagið og brást hann vel við og út­bjó góm­sæta upp­skrift af böku með Vä­ster­bottenosti, reykt­um lax og kara­melliseruðum rauðlauk. 

Upp­skrift­in verður að sjálf­sögðu gef­in út og send viðtak­enda með veislupakk­an­um. 

Vä­ster­bottenost­ur, sem er einkar bragðmik­ill, er nýj­ung á Íslandi en má meðal ann­ars finna í Mela­búðinni, Bón­us og Hag­kaup.
 
Ljúffeng Västerbottenbaka með reyktum laxi og karmelliseruðum rauðlauk
 
Hráefnalisti
 

Deig:
350 ml hveiti
150 g smjör við stofu­hita
1 egg salt

Fyll­ing:
3 egg
350 ml rjómi
1 1/​2 rauðlauk­ur
150 g reykt­ur lax
50 g smjör
350 g Vä­ster­bottenostur

Byrjaðu fyrst á því að búa til deigið með því að blanda saman hveiti, salti og smjöri. Auðveld­ast er að nota mat­vinnslu­vél en auðvitað má líka hnoða með sleif eða hönd­un­um. Endaðu með því að bæta egg­inu við og hrærðu hratt sam­an í slétt og gljá­andi deig.

Svo er að fletja deigið í böku­form (paj­form) og láta það bíða í um það bil 30 mín­út­ur í ís­skáp.

Þá er deigið bakað fyr­ir fram í 10-15 mín­út­ur í 200 gráðu heit­um ofni.

 
Næst er að hakka ostinn í grófa bita. 

 
Næstu skref: Þeyttu egg og rjóma sam­an svo til verði slétt blanda og bættu síðan við gróf­um rifn­um ost­in­um. Skerðu lauk­inn í sneiðar og steiktu hann við væg­an hita þar til hann hef­ur kara­mell­ast, í um það bil 15-20 mín­út­ur.

Skerðu reykta lax­inn í bita og kryddaðu með pip­ar og salti eft­ir smekk.

Leggðu helm­ing­inn af lax­in­um og laukn­um í böku­skel­ina og helltu síðan helm­ingn­um af osta- og rjóma­blönd­unni yfir.

 
Bættu þar næst rest­inni af lax­in­um og laukn­um saman við og endaðu á því að hella af­gang­in­um af osta- og rjóma­blönd­unni í skel­ina.

 
Bakaðu í miðjum ofni, um það bil 25-30 mín­út­ur.

Bak­an er til­bú­in þegar hún hef­ur fengið fal­leg­an lit og eld­húsið ilm­ar af dá­sam­lega bráðnum Vä­ster­botten osti.

 
Leyfðu henni svo að taka sig inn í ísskáp í sólarhring áður en hún er borin fram. 

 
Næst er að skera niður í fallega sneiðar. 
 
 
Þetta bar ég fram með hlaðborði af öðru góðgæti, ostum og skinkum og svo heimagerðri rifs- og bláberjasultu. 


Bar einnig fram þessar ljúffengu innbökuðu kæfur frá Kjötbúðinni - bæði hreindýralifrarkæfu og gæsakæfu. 
 
Þetta var algert sælgæti. 
 
Mikið er gott að fá sér gott í gogginn. 
 
-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættur með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum

 

 

Þessi réttur var reyndist einfaldur og afskaplega góður. Hér er notaður rjómaostur sem er bragðbættur með grillaðri papríku og chili. Hann eins og kallaði á meira af litríkum papríkum og chili og svo fannst mér passa mjög vel að hafa saffranhrísgrjón með - en það þarf ekki nema smáræði til fá bæði bragð og lit.

Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættum með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum
 
Hráefnalisti handa 4-5
 
1 kg úrbeinuð kjúklingalæri
1,5 dós af rjómaosti bragðbættum með grilluðum papríkum og chili
2 msk jómfrúarolía
1 msk ras el hanout frá Kryddhúsinu
1 msk sæt papríka
1 tsk marókósk harissa
salt og pipar
 
1 rauð papríka
1 gul papríka
1 appelsínugul papríka
2 hvítlauksrif
1 rauður chili
2 msk hvítlauksolía
150 ml hvítvín
salt og pipar
1 msk steinselja og basil
 
1 bolli hrísgrjón
2 msk jómfrúarolía
0,25 g saffran
salt og pipar
 
græn lauf
pikkólótómatar
Dala fetaostur
 
 
Byrjaði á því að setja kjúklinginn í skál og bætti jómfrúarolíunni og kryddinu saman við, saltaði og pipraði og leyfði að marinerast í um klukkustund. 
 
Þvoði allar papríkurnar og skar þær í strimla og steikti í hvítlauksolíu. Saltaði og pipraði og bætti svo smátt skornum hvítlauk og chili saman við. Þegar grænmetið var orðið mjúkt hellti ég hvítvíninu saman við og sauð nær alveg niður. 
 
Lagði svo papríkurnar í botninn á eldföstu móti og svo rjómaost, u.þ.b. hálfa dós. Lagði svo kjúklinginn ofan á papríkurnar og svo afganginn af rjómaostinum ofan á. 
 
 
Bakaði í ofni í 45 mínútur þangað til að rjómaosturinn var bráðinn. Skreytti svo kjúklinginn með smátt skornum kryddjurtum, basil og steinselju. 
 
 
Á meðan kjúklingurinn var í ofninum suðum við hrísgrjón. Þegar þau voru næstum því tilbúin bætti ég jómfrúarolíu og saffrani saman við og lét svitna saman í nokkrar mínútur. 
 
 
Með matnum nutum við Ramon Bilbao Reserva 2015 frá Spáni. Þetta vín hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Alveg frá því að ég heimsótti þennan framleiðenda haustið 2018 þegar við tókum upp þáttinn Læknirinn á Spáni sem ennþá er hægt að sjá á Sjónvarpi Símans Premium. Þetta vín er unnið úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum. Kryddaðir bragðtónar með ljúffengu eikuðu eftirbragði.
 

 

Svo var bara að raða á disk. Og njóta. 
 
Þetta var alveg stórkostleg máltíð. 
 
Verði ykkur að góðu.
 

 

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Ljúfir síðsumartónar II - Sælgæti frá Friðheimum - ristað súrdegisbrauð með ættartómötum og burrata osti

 
Í liðinni viku heimsóttum við Knút og Helenu í Friðheimum. Þau tengjast okkur núna fjölskylduböndum - ætli ég geti ekki kallað Knút, stjúpmág minn - þar sem tengdafaðir minn og móðir hans eru par. Knútur og Helena eiga stóra fjölskyldu og reka Friðheima - framleiða bragðgóða tómata og framreiða ljúffengar veitingar í gróðurhúsinu sínu í Reykholti.  
 
Við fengum góðar gjafir frá húsráðendum - heirloom tómata - sem ég ætla að þýða yfir á okkar ylhýra mál sem ættartómata - og einnig burrata - sem er eins ungur mozzarella ostur og hægt er að hugsa sér með kjarna sem minnir einna helst á rjómaost sem lekur út þegar osturinn er opnaður. Þessi ostur er ekki kominn í almenna sölu, heldur er hann einvörðungi framleiddur fyrir veitingahús um þessar mundir. En kannski er hægt að telja framleiðendum hughvarf. En þangað til að svo verður njótum við þess bara að heimsækja Friðheima - það er svo sannarlega vel þess virði. 
 
Dagarnir í Reykholti voru einkar ljúfir. Veðrið lék við okkur og undum okkur vel - ég leitaði að sveppum (eins og kom fram í síðustu færslu) og fór með börnin mín í berjamó (næsta færsla).
 
Ljúfir síðsumartónar II - Sælgæti frá Friðheimum - ristað súrdegisbrauð með ættartómötum og burrata osti
 
 
Ég gerði smá snúning á framsetningunni en reyndi að halda þessu þannig að tómaturinn og osturinn fái að njóta sín eins og framast væri kostur. 
 
Byrjaði á því að skola tómatana og skar þá síðan í þykkar sneiðar og svo til helminga. Lagði á disk. 

 

 
Svo var það burrata osturinn. Ég vildi óska að hann væri fáanlegur í verslunum. Hann er ljúffengur á bragðið. Gerði ekkert nema að hella mysunni frá og láta hann á miðju disksins svo að hann fengi að njóta sín. 
 
Raðaði svo blöðum af ferskri basilíku á milli tómatanna. 

 

 
Fékk þessa jómfrúarolíu að gjöf frá innflytjenda. Marques de Grinon - frá Spáni. Hann fullyrðir að þetta sé besta jómfrúarolía sem völ er á. Og hún er sannarlega ljúffeng. Sérstaklega bragðrík og með góðu jafnvægi. Tómatar verða bragðbetri og bragðmeiri þegar þeir komast í snertingu við jómfrúarolíu. Sáldraði henni ríkulega yfir tómatana. Salt og pipar - ég notaði rauðan Kampot pipar.  

 

 
Skar súrdeigsbrauð í sneiðar og penslaði með hvítlauksolíu og ristaði á blússheitu grilli. 

 

 

Ég veit ekki um ykkur, en mér finnst þetta einstaklega girnilegt. Litirnir og ilmurinn af nýskornum tómötum, rifnu basil, frísklegri olíu. 

 


Svo var bara að raða þessu ofan á brauðið. 


Og njóta. Það er, jú, aðalatriðið. 
 
Verði ykkur að góðu!
 
-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Ljúfir síðsumarstónar I - Dásamleg villisveppasúpa með rósmarínolíu og brauðbita - eftir sveppamó í Reykholti

Það líður á sumarfríið og fljótlega sný ég

Það líður á sumarfríið og fljótlega sný ég aftur til vinnu. Við vörðum nokkrum dögum í Reykholtinu hjá mágkonu minni og fjölskyldunni hennar í sumarbústað og veðrið lék við okkur. Við brugðum okkur í göngu síðla kvöld og þar gekk ég fram á hina ýmsustu sveppi - lerkisvepp, kúalubba, furusvepp og einstaka kóngssvepp. Mér leið eins og ég hefði verið að detta í lukkupottinn. 

Það er eitthvað töfrandi við að ganga um skóginn í leit að sveppum. Það er eitthvað svo magnað við það að ganga um og finna eitthvað sem gæti mögulega væri ætt. Og svo eru verðlaunin svo ríkuleg. Það er fátt sem er jafn ljúffengt og villisveppir. 

 

Eftir stutta göngu! 

 

 

Ljúfir síðsumarstónar I - Dásamleg villisveppasúpa með rósmarínolíu og brauðbita - eftir sveppamó í Reykholti

Hráefnalisti fyrir fjóra
 
1 kg blandaðir villisveppir
1/2 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
50 g smjör
150 ml hvítvín
500 ml kjúklingasoð
400 ml rjómi
salt og pipar
 
Þetta er í raun ótrúlega einföld uppskrift þar sem sveppirnir fá sérstaklega að njóta sín. Og tekur ekki langan tíma. Nema að sveppaleitin sé talin með - það tók um klukktíma í frjórri jörð í Reykholtinu. Meira segi ég ekki. 
 
 
Fyrst er að sneiða laukinn smátt og brúna í smjörinu. Bætið svo sveppunum saman við sem þeir hafa verið hreinsaðir vandlega. Saltið og piprið. 
 
 
Ég notaði smáræði af víninu sem var hugsað með súpunni í sjálfa súpuna. Það er mikilvægt að nota gott vín í matinn. Það þarf ekki að vera dýrt en það þarf að vera vel drykkjarhæft. Ég notaði Domaine de La Baume les Maues Sauvignion Blanc frá 2019 sem er frá Frakklandi. Ljúffengur hvítvínssopi. 

 
Sveppirnir fengu svo að krauma í víninu í 10 mínútur við hóflegan hita. 

 
Þá bætti ég soðinu saman við og notaði töfrasprota til að mauka súpuna vel og rækilega. Þá bætti ég við nóg af rjóma og sauð upp og lét krauma við lágan hita í um 30 mínútur. 

 
Súpan varð afar ljúffeng. 
 
 
Til að mæta skóginum þar sem sveppirnir voru tíndir notaði ég nokkra dropa af jómfrúarolíu bragðbættri með rósmarín frá Olio Principe. 


Þetta var afar ljúffengur og seðjandi kvöldverður. 
 
Hvet ykkur til að prófa að rölta um íslenska skóga og týna matsveppi. Sjálfur tíni ég bara rörsveppi þar sem ég þekki aðra sveppi ekki nógu vel. 
 
Verði ykkur að góðu!

 

 

 

aftur til vinnu. Við vörðum nokkrum dögum í Reykholtinu hjá mágkonu minni og fjölskyldunni hennar í sumarbústað og veðrið lék við okkur. Við brugðum okkur í göngu síðla kvöld og þar gekk ég fram á hina ýmsustu sveppi - lerkisvepp, kúalubba, furusvepp og einstaka kóngssvepp. Mér leið eins og ég hefði verið að detta í lukkupottinn. 

Það er eitthvað töfrandi við að ganga um skóginn í leit að sveppum. Það er eitthvað svo magnað við það að ganga um og finna eitthvað sem gæti mögulega væri ætt. Og svo eru verðlaunin svo ríkuleg. Það er fátt sem er jafn ljúffengt og villisveppir. 

Ljúfir síðsumarstónar I - Dásamleg villisveppasúpa með rósmarínolíu og brauðbita - eftir sveppamó í Reykholti

Hráefnalisti fyrir fjóra
 
1 kg blandaðir villisveppir
1/2 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
50 g smjör
150 ml hvítvín
500 ml kjúklingasoð
400 ml rjómi
salt og pipar
 
Þetta er í raun ótrúlega einföld uppskrift þar sem sveppirnir fá sérstaklega að njóta sín. Og tekur ekki langan tíma. Nema að sveppaleitin sé talin með - það tók um klukktíma í frjórri jörð í Reykholtinu. Meira segi ég ekki. 
 
 
Fyrst er að sneiða laukinn smátt og brúna í smjörinu. Bætið svo sveppunum saman við sem þeir hafa verið hreinsaðir vandlega. Saltið og piprið. 
 
 
Ég notaði smáræði af víninu sem var hugsað með súpunni í sjálfa súpuna. Það er mikilvægt að nota gott vín í matinn. Það þarf ekki að vera dýrt en það þarf að vera vel drykkjarhæft. Ég notaði Domaine de La Baume les Maues Sauvignion Blanc frá 2019 sem er frá Frakklandi. Ljúffengur hvítvínssopi. 

 
Sveppirnir fengu svo að krauma í víninu í 10 mínútur við hóflegan hita. 

 
Þá bætti ég soðinu saman við og notaði töfrasprota til að mauka súpuna vel og rækilega. Þá bætti ég við nóg af rjóma og sauð upp og lét krauma við lágan hita í um 30 mínútur. 

 
Súpan varð afar ljúffeng. 
 
 
Til að mæta skóginum þar sem sveppirnir voru tíndir notaði ég nokkra dropa af jómfrúarolíu bragðbættri með rósmarín frá Olio Principe. 


Þetta var afar ljúffengur og seðjandi kvöldverður. 
 
Hvet ykkur til að prófa að rölta um íslenska skóga og týna matsveppi. Sjálfur tíni ég bara rörsveppi þar sem ég þekki aðra sveppi ekki nógu vel. 
 
Verði ykkur að góðu!

 

 

 


Kominn í fríið - eldsnögg nautasteik með gullostasósu, bökuðum kartöflum og salati ala Villi Bjarki

 

 

"Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið" - Loksins er komið að því! Langþráð sumarleyfi hefst eftir nokkuð annasaman vetur. Ég held að ég hafi aldrei þurft á fríi að halda eins og nákvæmlega núna. Og mikið hlakka ég til. Ætla að nota leyfið til að leika við fjölskylduna mína, ditta að garðinum og eins og margir aðrir - ferðast um fallega landið okkar.  

 

Þessa uppskrift gerði ég í gærkvöldi, tja, ef uppskrift má kalla. Það verður ekki öllu einfaldari eldamennska en þetta. Grilla kjöt, baka kartöflur, bræða ost! Þetta er eiginlega öll uppskriftin, svona næstum. 

 

En aðalástæðan fyrir þessu bloggi er eiginlega þessi sósa - hún er ljúffengur einfaldleikinn uppmálaður. 

 

Kominn í fríið - eldsnögg nautasteik með gullostasósu, bökuðum kartöflum og salati ala Villi Bjarki

 

Þegar eldamennskan er svona einföld, skipta hráefnin ennþá meira máli. 

 

Fyrir 8

 

1,2 kg nautasteikur - ég var með þunnt skorna sirloin

1,5 gullostur

8 bökunarkartöflur

góð jómfrúarolía

salt og pipar

graslaukur til skreytingar

 

Sósa fyrir bökuðu kartöflurnar

 

2 msk grísk jógúrt

2 msk sýrður rjómi

2 tsk hlynsíróp

1 hvítlaukrif

handfylli graslaukur

salt og pipar

 

Salat ala Villi

 

Fullt af grænum laufum

haloumi ostur

íslenskir tómatar

rauð papríka

góð jómfrúarolía

salt og pipar

 

 

 

Ætli það að hræra saman í þessa sósu myndi ekki geta kallast eldamennska?

 

 

Setja jógúrt og 18% sýrðan rjóma í skál og hræra saman með hökkuðu hvítlauksrifi, graslauk, sírópi og salti og pipar. Láta standa í 30 mínútur eða svo. 

 

 

Ég hvet ykkur til að prófa þetta. Það má líka alveg bæta við smá rjóma til að auka við magnið án þess að það komi niður á bragðinu að neinu ráði. 

 

 

Takið ostinn úr pakkningunum. Setjið í pott eða á litla pönnu.

 

 

Bakið við 180 gráðu hita. 

 

 

Hrærið. 

 

 

Ég notaði góða jómfrúarolíu á kjötið. Örlitla áður en var grillað og aðeins á eftir líka. 

 

 

 

Salt og pipar. Grillað á blússheitu grilli þangað til að viðeigandi kjarnhita var náð. 

 

 

Skreytt með smá graslauk.

 

 

Kartöflurnar voru bakaðar í 180 gráðum heitum ofni á beði af salti í rúmlega klukkustund. Bornar fram með sýrðrjómasósunni. 

 

 

Vilhjálmur sá um salatið. Græn lauf, steiktur haloumi, næfurþunnir tómatar og papríkusneiðar. Góð jómfrúarolía og skvetta af rauðvínsediki. Salt og pipar.

 

 

Með matnum drukkum við þetta ljúffenga vín - Masi Corbec er framleitt í Argentínu. Þetta vín er gert úr blöndu af corvína þrúgum sem eru upprunalega frá Norður Ítalíu - en eru núnar ræktaðar í Argentínu og Malbec sem er ráðandi í þarlenskri framleiðsli. Mér finnst þetta vín einstaklega ljúffengt. Ég tel mig líka aðeins ábyrgan fyrir því að þetta vín er flutt inn til Íslands en ég smakkaði það fyrst þegar ég var í heimsókn hjá framleiðandanum í Veróna og óskaði sérstaklega eftir því að það væri í boði á Íslandi. Þetta vín er dökkrúbinrautt í glasi. Ljúfir tónar af ávexti, smá súkkulaði, vanillu og svo eru eikartónar og á tungu. Vínið hefur góða fyllingu og er þægilega mjúkt og með löngu eftirbragði. 

 

 

Einstaklega ljúffeng og auðveld máltíð.

 

Bon appetit!

 

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Leiftursnöggt lambalæri með kaldri jógúrtsósu, kartöflusalati með pækluðum lauk og grilluðu rauðkáli.

 

Fátt er betra á grillið en lambakjöt. Mér finnst mjög gaman að grilla lambalæri - en það er stundum erfitt að grilla, tekur drykklanga stund (sem þarf auðvitað ekki að vera slæmt) - en stundum hefur maður ekki marga klukkustundir - og þá er þessi aðferð alveg pottþétt. Bara að úrbeina lærið. 

 

Auðveldast er að fá kjötkaupmann til að úrbeina það fyrir sig - bara að hringja á undan sér og óska eftir því, svo einfalt er það. Það er heldur ekki svo flókið að gera það sjálfur. Krefst bara smá æfingar - góð núvitundaræfing að reyna að ná beininu frá. Í raun eru bara tvær reglur sem þarf að fylgja - vera með beittan hníf (helst úrbeiningarhníf) og svo fylgja beininu. 

 

 

Leiftursnöggt lambalæri með kaldri jógúrtsósu, kartöflusalati með pækluðum lauk og grilluðu rauðkáli. 

 

1 lambalæri

4 msk jómfrúarolía

2 msk kryddblanda að eigin vali (ég valdi mína eigin - Yfir holt og heiðar)

1 grein rósmarín

1 msk þurrkað blóðberg

salt og pipar

 

Fyrir sósuna

 

5 msk grísk jógúrt

2 msk majónes

2 msk hvítlauksolía (heimagerð, auðvitað)

2 msk ferskt tímjan

2 msk ferskur graslaukur

2 msk ferskt basil

1 msk kryddblanda

safi úr einni sítrónu

1 msk hlynsíróp

salt og pipar

 

Fyrir kartöflusalatið

 

1 kg soðnar kartöflur

4 msk grísk jógúrt

1 msk timjan

1 msk steinselja

1 msk basil

1 msk graslaukur

1/2 hraðpæklaður laukur (pæklað í 3-2-1 blöndu í eina klukkustund, sjá hérna

salt og pipar

 

Fyrir rauðkálið

 

rauðkálshaus (helst lítill)

jómfrúarolía

salt og pipar

skvetta af rauðvínsediki

 

 

 

Eftir að lambið var úrbeinað, var það nuddað vandlega með jómfrúarolíu, þurrkaða kryddinu, því ferska og svo salti og pipar. Látið standa út á borði á meðan grillið hitnaði.

 

 

Ég notaði þessa kryddblöndu - sem var að komast í nýjar og mun fallegri umbúðir og er geggjað á lambakjöt, þó að ég segi sjálfur frá! :)

 

 

Lambið var svo brúnað yfir háum hita á báðum hliðum í nokkrar mínútur og svo sett til hliðar, frá hitanum. Þetta kallast óbein eldunaraðferð. Stakk hitamæli í þykkasta bita kjötsins til að geta fylgst með.

 

 

Á meðan kjötið grillaðist gerði ég sósuna. Ofureinföld. Setti jógúrt, majónes, hlynsíróp og hvítlauksolíu í skál og hrærði vandlega saman. Hakkaði svo allar kryddjurtirnar og hrærði saman við ásamt salti og pipar. Látið standa á borði svo að öll brögðin nái að kynnast. Ef þið gerið sósuna nokkrum stundum áður - geymið hana í kæli en takið út 30 mínútum áður.

 

 

Sósan reyndist ótrúlega ljúffeng (kom mér reyndar ekkert á óvart þar sem ég hef gert hana nokkrum sinnum áður, stundum með ólíkum jurtum - en hún heppnast alltaf rosalega vel og passar eiginlega með öllum grilluðum mat).

 

 

Skar rauðkálið í rúmlega sentimeters þykkar sneiðar og hellti jómfrúarolíu yfir og saltaði og pipraði.

 

 

Ég ætlaði að reyna að grilla rauðkálið í sneiðum en það datt í sundur hjá mér. Setti á disk og saltaði aðeins meira og skvetti smá ediki yfir.

 

 

Kartöflusalatið var líka mjög einfalt. Sauð kartöflurnar þangað til að þær voru mjúkar í gegn. Síðan fengu þær að kólna, þá skornar í tvennt og settar í skál. Blandaði saman jógúrtinni, kryddjurtunum, salt og pipar. Skar því næst pæklaða laukinn niður og blandaði vandlega.

 

 

 

Með matnum opnaði ég flösku af Machoman Monastrell - sem er frá Spáni - ekki svo langt frá Alicante. Ég hef meira að segja týnt þessar þrúgur af ekrum framleiðandans - Casa Rojo. Þetta vín er ljúffengt, kröftugt með gott jafnvægi sem passar vel með bragðmiklum mat eins og grilluðu kjöti!

 

Svo er bara veisla.

 

Grillveisla!

 

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband