Færsluflokkur: Matur og drykkur
27.8.2021 | 20:02
Dúndur forréttur - Serranóvafin hörpuskel með brenndu salvíusmjöri
Hörpuskel er kjörið að bera fram sem forrétt til að tendra bragðlaukana. Hana má ekki elda lengi, annars er hætta á að hún verði gúmmíkennd og jafnvel seig undir tönn.
Serranóskinka kemur frá Spáni og er einstaklega bragðgóð. Auðvitað væri hægt að nota parmaskinku eða jafnvel beikon. Ef beikon verður fyrir valinu er nauðsynlegt að steikja það í gegn. Beikonið ver hörpuskelina fyrir hitanum og leggur til ljúffengt bragð.
Steikt salvía er sælgæti og passar hreint út sagt ljómandi vel með þessum rétti. En það verður auðvitað að nota ferska salvíu. Þurrkuð salvía mun ekki gera neitt fyrir réttinn nema gera hann verri! Og það er engin ástæða til að skemma dásamlega góðan mat!
Fyrir fjóra sem forréttur
12 hörpudiskar
6-12 sneiðar serranóskinka (háð stærð)
safi úr ½ sítrónu
salt og pipar
75 g smjör
12-15 salvíulauf
Vefjið hverja hörpuskel með hálfri til einni sneið af serranóskinku, penslið með olíu, vætið með ferskum sítrónusafa, saltið og piprið.
Rennið tveimur spjótum í gegnum hörpuskelina (þá er maður snarari við að snúa þeim og það heldur skinkunni á sínum stað jafnframt er mikilvægt að láta spjótin liggja í vatni í um klukkustund til að síður kvikni í þeim).
Kyndið grillið og þegar það er blússheitt er hörpuskelin elduð í eina til eina og hálfa mínútu á hvorri hlið. Setjið til hliðar.
Skellið pönnu á grillið og bræðið smjörið. Þegar það hefur hljóðnað er salvían sett á pönnuna og steikt þar til hún verður stökk hafið auga með pönnunni þar sem þetta tekur einvörðungu nokkrar sekúndur.
Leggið svo hörpuskeljarspjótin á disk, raðið salvíu ofan á og hellið brúnuðu salvíusmjöri yfir.
25.7.2021 | 14:58
Humar og chorizospjót með mangó-sýrðrjómasósu
Humar og chorizospjót með mangó-sýrðrjómasósu
Aðeins ein tegund af humri lifir við Íslandsstrendur leturhumar. Þetta kann að hljóma eins og hreinasta þjóðremba en mér finnst hinn íslenski vera umtalsvert betri en sá sem ég hef til dæmis prófað á veitingastöðum í Bandaríkjunum. Sá humar er talsvert stærri, ekki eins fínn undir tönn, ekki með þann sætukeim sem einkennir íslenskan humar og loks er kjötið grófara.
Bestur er humarinn þegar hann er grillaður hvort sem það er í ofni undir blússheitu grillinu eða á funheitu kolagrilli. Nægur hiti í stuttan tíma er allt sem þarf.
Og humar sómir sér best með einhverju feitu, hvort heldur það er hvítlaukssmjör eða olía eða þá feitar chorizo pylsur eða þá bara hvort tveggja, eins og í þessari uppskrift. Chorizopylsur fást í sérverslunum eins og Pylsumeistaranum í Laugalæk og jafnvel í Melabúðinni.
1 kg humar
5 chorizopylsur
3 msk hvítlauksolía
salt og pipar
1 dós sýrður rjómi
1 mangó
2,5 cm engifer
½ kjarnhreinsað chili
1 tsk mangóchutney
salt og pipar
- Skolið humarinn og takið hann úr skelinni. Fjarlægið görnina.
- Setjið humarinn í skál og veltið upp úr hvítlauksolíunni.
- Sneiðið chorizopylsurnar niður í grófar sneiðar.
- Þræðið humarinn upp á spjót ásamt pylsunum. Saltið og piprið.
- Setjið sýrða rjómann í skál og blandið mangóchutneyinu saman við.
- Skerið mangóið í smáa bita og hrærið saman við sósuna ásamt smátt skornu kjarnhreinsuðu chili og rifnum engifer. Smakkið til með salti og pipar. Blandið vel saman.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2021 | 10:07
Bragðlaukaveisla - kjúklingur með parma, pistacíuhnetum, Västerbottenosti og piccolo tómötum á aspasbeði
Þessa uppskrift fékk ég hjá einum af sjúklingunum mínum. Stundum þegar formlegaheitum er lokið er spjallað um lífið og tilveruna og margt ber á góma. Ég fæ og gef ráð um mat og matseld og oft fæ ég sendar til mín hugmyndir um skemmtilegar og spennandi uppskriftir.
Ég myndi geta heimilda, en þá væri ég að rjúfa trúnað við sjúklinginn minn. Það besta sem ég get gert er að þakka einstaklingi sem býr á eyju skammt frá meginlandinu - bestu þakkir fyrir þessa frábæru uppskrift. Þú veist hver þú ert!
Handa fimm
handfylli basil
Þetta var sannkölluð bragðlaukaveisla!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2021 | 18:14
Stolið sælgæti - Lamba chermoula með poppuðum kjúklingabaunum, grilluðum kúrbít, furuhnetum, granatepli og hvítlaukskremi
Stolið sælgæti - Lamba chermoula með poppuðum kjúklingabaunum, grilluðum kúrbít, furuhnetum, granatepli og hvítlaukskremi
Fyrir sex
2.2.2021 | 21:49
Sælgæti á sunnudegi - Geggjuð rifjasteik með fullkomnum ofnbökuðum kartöflum, soðsósu, karmelliseruðum nýpum og Yorkshire búðing!
Sælgæti á sunnudegi - Geggjuð rifjasteik með fullkomnum ofnbökuðum kartöflum, soðsósu, karmelliseruðum nýpum og Yorkshire búðing!
Fyrsta skrefið er að flysja grænmetið og skera það í grófa bita og setja í botninn á stórri ofnskúffu. Bætið við lárviðarlaufunum.
Nuddið steikina með jómfrúarolíu og saltið og piprið mjög ríkulega. Komið hitamæli fyrir í kjötinu og setjið í 120 gráðu heitan ofn og bakið þar til æskilegum kjarnhita er náð. Ég fór í 52 gráður og það tók tæpar tvær klukkustundir.
Sem gaf mér nægan tíma að huga að meðlætinu ...
... sem var fullkomnar ofnsteiktar kartöflur. Þetta er án efa eitt ljúffengasta meðlæti sem um getur.
Fyrir kartöflurnar
Svo átti ég nokkrar regnbogagulrætur og nípur í ísskápnum sem þurfti að fara að nota. Þær voru flysjaðar, skornar í fjórðunga eftir lengdinni og lagðar í eldfast mót. Velt upp úr olíu, hunangi, salti og pipar og bakaðar í 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur.
Þegar kjötið er komið í 52 gráður fékk það að hvíla undir álpappír - en þá var að huga að sósunni.
Blússhitaði ofninn. Á meðan hitinn reis bjó ég til sinnepsgljáa með því að blanda saman 3 matskeiðum af dijon sinnepi saman við 3 maukuð hvítlauksrif, 1 matskeið af hlynsírópi, salti og pipar. Smurði svo yfir kjötið og setti það svo aftur inn í ofninn í nokkrar mínútur.
Skar svo kjötið af rifjunum.
Matur og drykkur | Breytt 3.2.2021 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.1.2021 | 12:12
Ævintýralega góðar flatbökur - Öfug Margaríta, chorizo og döðlur, salami og rauðlauk, parma e ruccola og ostaveisla með rifsberjum
Sumarið 2019 verður lengi í minnum haft. Við fórum í þriggja vikna ferð til Ítalíu. Ég fór nokkrum dögum á undan fjölskyldunni þar sem mér hafði verið boðið í Primograno uppskeruhátíð Rustichella D'Abruzzo í Pescara. Þetta voru stórskemmtilegir dagar í Pescara - sem liggur við Adríahaf.
Þar kynntist ég fjölda matreiðslumanna sem margir hverjir voru stjörnur í heimalandi sínu. Þau fengu að kynnast mér - gigtarlækni frá Íslandi. Ég nefndi við félaga mína á hátíðinni eitt kvöldið að fjölskyldan væri væntanleg nokkrum dögum síðar og við ætluðum til Napolí til að finna bestu pizzur í heimi. Einn þáttakenda, Barbara Pollastrini, vippaði upp símanum og hringdi í vin sinn, Franco Pepe og reddaði mér borði á besta flatbökustað í heimi - Pepe in Grani í smábænum Caiazzo sem er fyrir utan Napolí.
Og þangað fórum við. Franco Pepe tók á móti okkur og sýndi okkur allan veitingastaðinn og bauð okkur borð á veröndinni með stórkostlegu útsýni.
Og þar snæddum við bestu flatbökur veraldar.
Ævintýralega góðar flatbökur - Öfug Margaríta, chorizo og döðlur, salami og rauðlauk, parma e ruccola og ostaveisla með rifsberjum
Þessar uppskriftir eru því tilraun til að ferðast á bragðlaukunum til Ítalíu.
Þessa uppskrift hef ég stuðst við síðustu árin og hún heppnast alltaf vel.
Fyrir 3-4 meðalstórar flatbökur
700 g hveiti til brauðbaksturs
300 ml ylvolgt vatn
25 g þurrger
25 g sykur (má sleppa)
2 msk jómfrúarolía
2 tsk salt
Byrjið á því að vekja gerið í ylvolgu vatninu ásamt sykrinum. Látið standa í 10 mínútur þangað til fer að freyða. Setjið hveitið í skál ásamt salti og olíu. Hellið gervatninu út í hveitið og hnoðið vandlega saman í 10 mínútur, þá ætti deigið að vera mjúkt og teygjanlegt. Látið hefast í 2-3 klukkustundir.
Sláið loftið úr deiginu og fletjið út eins þunnt og mögulegt er. Lagið svo flatbökur eins og hugmyndaflugið leyfir.
3 hvítlauksrif
1 gulur laukur
1 dós niðursoðnir San Marzanó tómatar
1 msk tómatþykkni
2 msk balsamedik
handfylli steinselja
handfylli basil
salt og pipar
2 msk jómfrúarolía
Saxið lauk og hvítlauk smátt og steikið í olíunni þar til laukurinn er mjúkur og glansandi. Bætið tómötunum við og látið sjóða. Saltið og piprið.
Hrærið tómatþykkninu og balsamedikinu út í og sjóðið niður um þriðjung. Rífið kryddjurtirnar saman við sósuna rétt áður en hún er tilbúin. Smyrjið á pítsudeig, bætið við uppáhaldsálegginu ykkar, bakið og njótið vel!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2020 | 19:27
Fjölbreytt íhaldssemi fram í fingurgóma - Rjúpur og svínahamborgarahryggur á tvo vegu með hefðbundnu meðlæti og dásamlegu léttvíni
Ég er mikill íhaldsmaður þegar það kemur að jólamatarhefðum og breyti frekar lítið út af vananum - allir heimilismenn vilja halda í sínar hefðir og mér þykur sérstaklega gaman að reyna að gera öllum til geðs. Snædís er til að mynda alin upp við að fá rjúpur soðnar upp á gamla mátann. Mér finnst betra að steikja bringuna í skamma stund. Siggi afi og amma Dedda voru alltaf með svínahamborgarahrygg sem mér hefur alltaf þótt alveg einstaklega ljúffengur. Afi sá alltaf um að elda hrygginn - og ég hef í gegnum árin haldið mig við hans aðferð. Valdís kann best að meta hrygginn eldaðann með sous vide aðferð.
Og þannig er aðfangadagurinn - ég í eldhúsinu að elda rjúpur með tvennu hætti og svínahamborgarahrygginn á tvo vegu svo að allir verði glaðir. Og að þessu sinni fékk ég heilmikla aðstoð við eldamennskuna. Þetta var sannkallað samvinnueldhús. Villi var mér innan handar sem aðstoðarkokkur - honum hefur farið mikið fram á árinu. Tengdamamma mín, hún Hrafnhildur, tók að sér að elda rjúpurnar með hefðbundinni aðferð. Mamma mín sauð rauðkál og gerði Waldorf salat. Pappi skar niður laxinn í forréttinn og sá um sósuna með honum og Snædís skreytti matarborðið.
Þetta var sannarlega ljúfur dagur í eldhúsinu. Og alveg sannarlega dásamlegt aðfangadagskvöld.
Fjölbreytt íhaldssemi fram í fingurgóma - Rjúpur og svínahamborgarahryggur á tvo vegu með hefðbundnu meðlæti og dásamlegu léttvíni
Ætli mikilvægasta verkefni dagsins sé ekki að undirbúa sósunar. Og þær eru að sjálfsögðu gerðar frá grunni.
Flestar sósur á mínu heimili hefjast með mirepoix.
Villi Bjarki tók að sér að verka rjúpurnar. Honum hefur, eins og ég nefndi hér að ofan, farið mjög fram á árinu í eldhúsinu - er farinn að elda fjölda rétta, baka brauð og er orðinn sérstaklega lunkinn með hnífinn (enda duglegur að æfa sig).
Þetta er líklega besta leiðin til að gera sósu - hún er vissulega tímafrek - en er vel þess virði.
Þá var hægt að fara að huga að forréttinum. Að gera graflax er ofur einfalt.
Fyrir þá sem kusu að fá sér rjúpu bauð ég upp á annað vín frá Moillard - Vosne-Romanée sem er Pinot noir, ræktað skammt fyrir utan Beaune í Búrgundarhéraði í Frakklandi. Þetta er einstaklega ljúft Pinot noir - í góðu jafnvægi, með dökkum ávexti, jarðaberjum, þurrt og aðeins sýrt sem passaði ljómandi með smjörsteiktri villibráðinni.
Með svínahamborgarhryggnum bauð ég upp á Cabo de Hornis Cabernet Sauvignion 2017 sem er vín frá rótum Andesfjallanna. Það er ræktað í Cachapoal dalnum. Þetta vín er alger negla. Kraftmikið, þurrt í ljómandi jafnvægi. Þessi árgangur skorar 4,6 á Vivino og ég tek undir það. Ótrúlega bragðgott.
Svo var sest inn í stofu og pakkarnir opnaðir. Það er fátt sem gleður meira en að sjá börnin sín gleðjast yfir jólagjöfunum og sjá hvort gjöfin til eiginkonunar slær í gegn þetta árið.
Þetta var svo sannarlega vel heppnað aðfangadagskvöld.
Gleðileg jól!
Matur og drykkur | Breytt 28.12.2020 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.12.2020 | 18:04
Ostakvöldverður á aðventunni - Innbakaður gullostur, bráðinn Dímon, smælki, pæklað grænmeti, jólapaté og tilheyrandi
Byrjið á því að taka utan af einu hvítlauksrifi og sneiðið það gróflega niður. Skerið smáar raufar í ostinn og troðið hvítlauksbitunum í raufarnar.
Vefjið smjördeiginu utan um ostinn. Setjið í kæli á meðan þið takið saman restina. Munið að pensla smjördeigið með þeyttu eggi áður en þið skellið ostinum í 200 gráðu heitan, forhitaðan ofninn.
Hvað er fallegra en að sjá kartöflu umvafða bráðnum Dímon?
Held að það sé bara kartafla umvafin bráðnum gullosti. Ég hreinlega elska gullost!
Verði ykkur að góðu!
Jólin eru að koma, jólin eru að koma!
Ég var beðinn um að leggja til uppskrift í Hátíðarblað Morgunblaðsins, sem var auðvitað sjálfsagt. Ég leitaði í sarpinn minn á síðunni og við þá yfirferð myndgerðist hið augljósa. Ég er alger íhaldsmaður - jólaíhaldsmaður. Uppskriftirnar mínar eru gjarnan blæ- og svipbrigði af sömu sígildu réttunum. Og ekki að ég telji að maður þurfi nokkuð að skammast sín fyrir það. Þess þá heldur. Jólin eru hátið nostalgíunnar - að leita í barnæskunna og reyna að skapa minningar fyrir næstu kynslóð.
Ég varð því að finna upp á einhverju nýju. Og ég held að ég hafi aldrei eldað neitt þessu líkt - öll hráefnin eru framandi fyrir jólaborðið á mínu heimili.
Grafin grágæsarbringa með cassis- og bláberjasultu, rjómaostfroðu og ferskum bláberjum
Fyrir fjóra
handfylli ferskt rósmarín
handfylli ferskt timjan
Grágæsarbringunni er komið fyrir í miðjunni og svo er plastinu vafið þétt utan um hana þannig að hráefnin dreifist jafnt yfir. Sett í ísskáp í 2-3 daga undir fargi (ég notaði mjólkurfernu). Snúið á degi hverjum.
23.11.2020 | 21:13
Jólaundirbúningurinn hefst snemma í ár: Þrjár tegundir af síld með öllu tilheyrandi
Það var dálítið sænsk slagsíða á þessu hjá okkur. Bárum fram soðnar kartöflur sem við veltum upp úr góðri jómfrúarolíu, soðin egg, hrökkbrauð og meiri Västerbottenost. Og smá jólabjór.