Ljúffengt fyllt veislubrauð og skíðafrí!

 

Það hefur verið lítið um að vera á blogginu mínu síðan í byrjun febrúar. Og á því eru góðar skýringar. Við fórum um miðjan mánuðinn í árlegu skíðaferðina okkar. Við ókum af stað þann 12. febrúar og vorum komin suður til Austurríkis daginn eftir. Við lögðum af stað eftir vinnu og gistum á litlu hóteli skammt frá hraðbrautinni. Síðdegis á fimmtudeginum vorum við komin í Alpana og keyrðum í gegnum fjallaskörðin í átt að St. Michael í Lungau frá Salzburg.

 

 

 

Við gistum eins og svo oft áður hjá vinum okkar - Dodda og Þurý - en þau reka Skihotel Speiereck í St. Michael. Þetta er í sjöunda skipti sem við gistum hjá þeim og ég er næstum því farinn að líta á þetta hótel sem mitt annað heimili! Og að þessu sinni kyngdi niður snjó. Þessi mynd hér að ofan var tekin á þriðja degi í fríinu. En vikurnar á undan hafði líka kyngt niður snjó. Færið hafði aldrei verið betra. 

 

Maturinn var einkar góður núna (hann hefur að vísu alltaf verið góður). Matreiðslumennirnir Barði og Örn stóðu vaktina í eldhúsinu og gerðu það með stakri prýði! Báru fram ljúffenga rétti kvöld eftir kvöld! Þetta var mjög vel heppnað hjá þeim!

 

 

Eins og mörgum er ljóst þá er ég mikill aðdáandi Alpanna. Stundum er það eins og ég miði líf mitt á veturna við það hvort atburðir gerist fyrir eða eftir skíðafrí. Ég hreinlega veit ekkert betra en að vakna snemma á morgnanna, opna gluggann og draga inn fjallaloftið, klæða mig síðan í skíðagallann og skella mér á skíði. Það er bara eitthvað við þetta skíðalíf sem hugnast mér svona vel. Og það er ekki bara bjórinn - þó að mér þyki hann nú góður! 

 

 

Allir í fjölskyldunni virðast njóta sín vel í Ölpunum og það er sérstaklega gaman að skíða með þeim. Vilhjálmur og Valdís eru miklir skíðagarpar og sonurinn tók sérlega miklum framförum í ár. Fór frá því að skíða með veglegt bil á milli lappanna í að verða alveg "paralell" skíðamaður. Ekki slæmt fyrir átta ára gutta. 

 

 

Sú yngsta kom líka með upp í fjall þó hún hafi ekki fengið að standa á skíði þá fékk hún að koma út og leika sér í snjónum og fannst það svo sannarlega skemmtilegt.

 

Á næstunni mun ég setja inn valdar uppskriftir úr bókinni - margar hverjar hafa ekki birst áður á blogginu mínu en þó hef ég einhvern tíma bloggað um eitthvað þessu líkt. Ástæða þessa er sú að ég vinn hörðum höndum öll kvöld og allar helgar að því að skrifa aðra bók sem á að koma út fyrir næstu jól!

 

Ljúffengt fyllt veislubrauð


Þetta er brauð sem ég bjó einhvern tíma til í frumbernsku bloggsins míns. Ég bakaði það fyrir einhverja fjölskylduveisluna. Því miður féll þetta brauð síðan í gleymsku í nokkur ár og það var ekki fyrr en ég fór að undirbúa bókina mína að það rifjaðist upp fyrir mér hversu ljúfur og gómsætur hleifur þetta var. Og þetta er svona á mörkum þess að vera heitur réttur eða rúllað veislubrauð – nema hvað það er bara aðeins betra.

 

Fyllingin sem ég gef upp í uppskriftinni er auðvitað bara viðmið. Auðvitað mætti fylla brauðið með hverju sem er; spínati og rjómaosti eða mozzarella, kirsuberjatómötum og basil eða jafnvel ofnbökuðu rótargrænmeti og blámygluosti. Það er víst svo með matargerð að það er um að gera að leyfa hugmyndafluginu að njóta sín.

 

Hráefnalisti

 

800 g hveiti

500 ml vatn

25 g ferskt ger

2 msk sykur

1 msk salt

4 msk jómfrúarolía

 

Fyrir fyllinguna

 

1 krukka gott pestó

10 skinkusneiðar

3 tómatar

200 g hvítmygluostur

200 g rjómaostur

200 g cheddar-ostur

4 msk hvítlauksolía

salt og pipar

 

Byrjið á að vekja gerið í ylvolgu vatninu og bætið við sykrinum. Látið standa í 15 mínútur. Blandið hveitinu, saltinu og jómfrúarolíunni saman. Því næst bætið þið gervatninu við og látið hnoðast í 15 mínútur. Þá er deigið látið hefast í tvær klukkustundir.

 

 

Færið deigið á hveitistráða borðplötu þegar það hefur þrefaldast að stærð.

 

 

 

Smyrjið pestóinu á botninn.

 

 

Raðið afganginum af hráefninu ofan á en geymið svolítið af cheddar-ostinum.

 

 

Reynið að hafa ostinn innst í brauðinu þar sem hann á eftir að bráðna og getur bleytt deigið.

 

 

Aldrei vitlaust að setja hvítlauksolíu!

 

 

Vefjið deiginu saman og látið þyngdina á fyllingunni hvíla á saumunum.

 

 

Gætið þess að brauðið sé vel innsiglað!

 

 

 

Penslið með eggjablöndu.

 

 

Raspið cheddar-ost yfir.

 

 

Bakið við 180 gráður í forhituðum ofni í þrjú kortér.

 

 

Takið brauðið úr ofninum og látið hvíla í 20 mínútur áður en það er skorið, þá nær innihaldið að setjast.

 

 

Núna er kominn tími til að njóta!

 

Kíkið endilega við á Facebook síðuna mína - The Doctor in the Kitchen

 


Dásamleg Porchetta Italiana með smjörsteiktu fennel og svínasoðsósu

Þetta er uppskrift úr bókinni minni sem kom út fyrir jólin. Það eru margar ljúffengar uppskriftir í bókinni en þessi er í sérstöku uppáhaldi! Ég er búinn að elda hana nokkrum sinnum síðan bæði með og án svínalundarinnar - og ég lofa að hún gerir gæfumuninn!

 

Ég fékk hugmyndina að því að elda þennan ótrúlega ljúffenga rétt þegar ég heimsótti slátrarann í Saluhallen í Lundi. Þar sá ég upprúllaða svínasíðu og í gegnum bitann var stungið skilti sem á stóð PORCHETTA. Og þetta hafði ég ekki séð áður! Ég var reyndar á höttunum eftir einhverju öðru en nokkrum dögum síðar lagðist ég í heimildavinnu um þennan stórgóða rétt og varð spenntur – enda eiginlega ekki annað hægt. Uppskriftina setti ég saman eftir að hafa viðað að mér upplýsingum héðan og þaðan af netinu og úr skruddunum mínum. Og ég varð ekki svikinn. Ég fór næstum því að gráta þegar ég smakkaði þennan rétt í fyrsta sinn. Nú gæti ég hreinlega hætt að elda – hátindinum væri náð.

 

Dásamleg Porchetta Italiana með smjörsteiktu fennel og svínasoðsósu


3 kg svínasíða

1/2 kg svínalund

börkur af einni sítrónu

3 msk jómfrúarolía

3 msk marsala-vín

1 msk fennelfræ

2 msk hökkuð salvía

2 msk hakkað rósmarín

salt og pipar

2 greinar rósmarín

Mirepoix (laukur, sellerí og gulrætur)

 

3 fennelhausar

 

 

Skolið af svínasíðunni og þerrið. Skerið í puruna eða fáið kjötkaupmanninn til að afgreiða það fyrir ykkur.

 

 

 

Flysjið utan af einni sítrónu – takið bara börkinn en ekki hvíta lagið þar sem það er biturt á bragðið. 

 

 

Nuddið marsala-vínínu inn í kjötið, því næst olíunni og svo öllu kryddinu og sítrónuberkinum. 

 

 

Leggið síðan svínalundina á miðja síðuna og rúllið henni saman. 

 

 

Bindið saman með þræði og leggið rósmarín undir bandið. 

 

 

Bakið við 170 gráður í 3-4 klukkustundir á beði af mirepoix (laukur, sellerí og gulrætur).

 

 

 

Berið fram með t.d. smjörsteiktu fennel og einfaldri soðsósu gerða úr svínasoði sjá bls. 315.

 

 

Skerið fennel niður í sneiðar og steikið í 100 g af smjöri við lágan hita þangað til að hann hefur tekið fallegan gullinn lit og smakkast og ilmar dásamlega! 

 

 

 

Seinast þegar ég var með þetta á borðum drakk ég þetta ljúffenga vín með Monte Garbi Ripasso frá því 2010. Monte Garbi Ripasso frá því 2009. Þetta vín er gert úr blöndu að þremur mismunandi þrúgum með Corvína þrúguna í aðalhlutverki. Vínið er framleitt á ekrum í  kringum Feneyjar. Og þetta er sannarlega gott vín, dökkt í glasi, ilmur af dökkum ávexti og er kraftmikið og bragðgott. Þetta vín sveik ekki áður og gerði það heldur ekki í þetta sinnið. Get hæglega og vandræðalaust mælt með þessu víni. 

 

 

Núna er sko kominn tími til að njóta!

 

Verið ávallt velkomin á síðuna mína á Facebook! The Doctor in the Kitchen


Lambalæri með kryddmauki, hvítlaukskryddað kartöflugratín og rjómalöguð sveppasósa í fertugs afmæli Kolbrúnar mágkonu minnar

Þetta var einstaklega skemmtileg og vel heppnuð helgi! Á miðvikudaginn flaug Snædís með börnin til Íslands í tilefni þess að systir hennar, Kolbrún Eva, var að verða fertug. Ég kom svo eftir vinnu á fimmtudeginum. Á föstudeginum náði ég að eiga góðan fund með framleiðenda sjónvarpsþáttanna og náðum við að leggja niður drög að væntanlegum þáttum sem taka á upp í mars. Eftir fundinn fórum við langfeðgar, Villi sonur minn og faðir minn Ingvar, saman í Laugardagslaugina þar sem við lékum okkur og syntum meira að segja smá spotta. 

 

Um kvöldið eldaði ég svo blálöngu sem ég hafði sótt til Steingríms fisksala í fiskbúðinni á Sundlaugaveginum - hægt er að sjá myndir hérna og svo er uppskriftina að finna á þessum hlekk. Afar ljúffengt. 

 

Veislan til heiðurs Kolbrúnu var haldin í sal Tannlæknafélagsins í Síðumúla - skemmtiatriði tókust með eindæmum vel og það var mikið hlegið! Síðan var dansað langt fram á nótt - svo mikið að mér tókst að snúa upp á hægra hnéð á mér svo ég bryð nú bólgueyðandi út í eitt í von að skíðafríið mitt fari ekki út um þúfur! Börnin mín náðu hinsvegar öll að veikjast á ferðalaginu þannig að ég sit heima núna með þrjá krakkagríslinga, yngsta með kvef, sonurinn með gubbupest og sú elsta með ofþreytu eftir helgina! 

 

Lambalæri með kryddmauki, hvítlaukskryddað kartöflugratín og rjómalöguð sveppasósa í fertugs afmæli Kolbrúnar mágkonu minnar


 

Föstudagskvöldinu varði ég svo í eldhúsinu með flugbeittan hníf í annarri hendi og fjöldann allan af lambalærum í hinni. 

 

 

Úrbeinaði ein fjórtán lambalæri og lagði í marineringu sem saman stóð af jómfrúarolíu, salti, pipar, sítrónusafa og Lamb Islandia kryddblöndu frá Pottagöldrum. 

 

 

Þetta fékk síðan að liggja yfir nótt þannig að kryddið næði að marinera kjötið vel.  

 

 

Ég gerði síðan soð úr beinunum. Byrjaði á því að skera niður lauk, hvítlauk, sellerí og gulrætur og steikja í jómfrúarolíu þangað til að grænmetið var orðið mjúkt og fallegt. Nokkrum lárviðarlaufum var bætt við.

 

Nuddaði lambaleggina upp úr olíu, saltaði og pipraði og brúnaði í ofni. Þegar þeir voru fallega ristaðir var þeim bætt í pottana og þeir fylltir af vatni. Hitað að suðu og látið sjóða í nokkrar klukkustundir. Það er ágætt að taka 1-2 lambaleggi til hliðar til að naga - "o mæ lord" - hvað það var gott!

 

Við gerðum síðan ekta kartöflugratín - þó með smá útúrdúr. Við bræddum smjörið og settum heil ógrynni af hvítlauk saman við.

 

 

Við gerðum ein tíu gratín. Kartöflurnar voru skornar í matvinnsluvél og svo skellt í álbakka sem við höfðum smurt með hvítlaukssmjörinu. Saltað vel og piprað. Svo var rjóma hellt yfir, svo aðeins meira af hvítlaukssmjörinu og að lokum rifnum osti. 

 

 

Bakað í 180 gráðu heitum ofni í fimm korter, fyrstu þrjú með álpappír yfir og svo síðasta hálftímann án álpappírsins svo að osturinn brúnaðist. 

 

 

Það þurfti tvo til að koma lærunum í girnið. Faðir minn, Ingvar, var mér svo sannarlega innan handar og ekki veitti af að fá hjálp hans - duglegri mann er vart hægt að finna! 

 

 

Þetta voru mikil glímutök! 

 

 

Þetta hafðist allt á endanum. 

 

 

Við fengum inni í skólaeldhúsi þar sem við gátum klárað að elda matinn. 

 

 

Við steiktum sveppi og lauk í potti og þegar þeir voru fallega brúnaðir bættum við soðinu saman við. Soðinu var dreift á milli þriggja potta, hitað upp aftur, rjóma bætt saman við, saltað og piprað og látið krauma og sjóða niður. Sósan var síðan þykkt með smjörbollu og skerpt á henni með ögn af soyasósu! Ljúffeng!

 

 

Lærin voru að lokum smurð með kryddmauki (biðst velvirðingar á myndinni sem tekin var með símann mínum og náði ekki betri mynd en þetta). En í raun leit þetta mjög vel út og bragðaðist þeim mun betur. Kryddmaukið var afar einfalt. Jafnir hlutar af basil, steinselju, klettasalati. Nóg af olíu þangað til þetta verður að þykku mauki. Bragðbætt með salti og pipar og skvettu af sítrónusafa.

 

 

 

 

Boðið var upp á tvenns konar vín með matnum! Fyrir þá sem vildu fá rauðvín var Trivento Tribu Cabernet Sauvignion frá Argentínu sem er ágætis rauðvín á góðu verði í Ríkinu. Þetta er fallega dökkrautt vín í glasi, ferskt og berjaríkt og kryddað. Fyrir þá sem vildu gæða sér á hvítvíni var hægt að fylla glas sitt af Vina Maipo Chardonnay sem er upprunið frá Chile. Þetta er líka prýðis sopi - heldur létt hvítvín með góðum ávaxta- og jafnvel sítrónukem. Gat ekki betur séð en að þetta hafi allt runnið ljúfflega niður! 

 

 

 

Það var, sko, notið - og svo var dansað! 

 

 

Skál fyrir því - og Kolbrúnu mágkonu minni!  

 

 

 

 


Ljúffengur heilgrillaður estragonkryddaður kjúklingur

Þetta er í raun bara önnur útgáfa af kjúklingarétti móður minnar. Ég las það einhvern tíma í hinni frábæru matreiðslubók Roast Chicken and Other Stories sem Simon Hopkinson skrifaði og kom út árið 1994, að estragon passaði svona líka stórvel með kjúklingi – en af einhverri ástæðu hafði það aldrei hvarflað að mér áður. Og því var ekkert annað að gera en að slá til og prófa eitthvað nýtt. Og viti menn, Simon hafði rétt fyrir sér – estragon og kjúklingur falla saman eins og flís við rass.

 

Það er svo smekksatriði hvort maður vilji gera sósu með kjúklingnum. Ég er eins og flestir Íslendingar lystugur á sósur og vil gjarnan hafa þær með matnum. Snædís eiginkona mín er sama sinnis – hún var kölluð Sæsa sósa sem barn þar sem hún veit fátt betra – og auðvitað þarf ég að sjá til þess að hún sé sátt við matseldina.

 

Annað gengi aldrei til lengdar!

 

Þetta er uppskrift sem ég birti í bókinni minni núna fyrir jólin og hef eldað margoft síðan að ég gerði hann í fyrsta sinn!

 

Ljúffengur heilgrillaður estragonkryddaður kjúklingur


 

Hráefnalisti

 

Fyrir kjúklinginn; 

 

Heill kjúklingur um 1.600-1.800 g

50-75 g smjör

1 sítróna

salt og pipar

2-3 estragongreinar

vöndull af tímíani

 

Grænmeti í botn ofnskúffunnar;

 

2-3 gulrætur

2-3 sellerístangir

laukur

hvítlaukur

1 msk jómfrúarolía

1 glas hvítvín (og kannski eitt fyrir kokkinn)

 

 

 

 

 

Flysjið laukinn og gulræturnar. Saxið niður og setjið í ofnskúffu ásamt niðurskornu selleríi og hvítlauk. Veltið upp úr 1 msk af jómfrúarolíu. Saltið og piprið. Hreinsið kjúklinginn og þerrið. Leggið ofan á grænmetið.

Penslið kjúklinginn með bræddu smjöri og kryddið með salti og pipar. Hlutið sítrónuna í tvennt og nuddið kjúklinginn með henni. Nuddið síðan estragoninu utan á kjúklinginn og troðið afganginum inn í kviðarholið ásamt sítrónuhelmingunum.

 

Bakið í ofni þangað til kjarnhiti kjúklingsins hefur náð 82 gráðum. Hálftíma áður en kjúklingurinn er tilbúinn er gott að setja hvítvínið og vatnið í eldfasta mótið fyrir sósuna. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er um að gera að láta fuglinn hvíla til að leyfa kjötinu að jafna sig – þannig dreifist vökvinn aftur um kjötið sem leiðir til þess að niðurstaðan verður safaríkari en ella!

 


Fyrir sósuna; 

 

500 ml kjúklingasoð

2-3 estragongreinar

 

Allur vökvinn frá kjúklingnum

30 g smjör

30 g hveiti

50 ml rjómi (val)

Salt og pipar eftir smekk

Hitið kjúklingasoðið í potti.

 

 

 

Merjið tvær greinar af estragoni í mortéli meðan soðið er að hitna eða saxið niður og bætið út í kjúklingasoðið. Sjóðið niður um þriðjung.

 

Útbúið næst smjörbolluna með því að bræða smjör í öðrum potti og hræra hveitinu saman við það. Smjörbollan hefur mestan þykkingarkraft í upphafi – því meira sem hún eldast því minni verður geta hennar til að þykkja soðið.

 

Hellið síðan kjúklingasoðinu varlega yfir smjörbolluna og gætið þess að hræra vandlega á meðan. Bætið einnig vökvanum frá kjúklingnum út í til að fá meiri kraft. Saltið og piprið.

 

Hérna má svo bæta rjómaskvettum út í sósuna að vild – en auðvitað bara að vild. Best er að leyfa sósunni að krauma á lágum hita í 8-10 mínútur til að elda hveitibragðið burtu.

 

 

 

 

 

Með matnum drukkum við svo smá rauðvínstár - Masi Modello delle Venezie rauðvín. Ég hafði sótt nokkrar svona búkollur þegar við fórum yfir brúna um daginn og vörðum deginum í Kaupmannahöfn.

Vínið er fallega rúbin rautt í glasi, sultað og létt kryddað. Góður sopi - sem sómaði sér vel með kjúklingum!

 

 

 

Tími til að njóta!

 

Verið svo alltaf velkomin á Facebook síðuna mína - The Doctor in the Kitchen 

 


Opin samloka "Rossini" með nautakjöti, karmellisseruðum rauðlauk og foie gras

Áður en að maður fer að blogga um nýjar og nýtar uppskriftir þá verður að huga þeim dyggðum sem eru hvað mikilvægastar í eldhúsinu. Og það er nýtni! Það er stór synd, að mínu mati, að henda mat - sérstaklega veislumat eins og hefur verið á borðum síðustu daga. Reyndar er það merkilegt hvað mikið af mat fer til spillis - á Íslandi er talið að um þriðjungur matvæla sem keyptur er inn á heimili landsmanna endi í sorptunnunni og þá er ekki með talið það sem spillist við matvælaframleiðslu. Ég hef einnig heyrt verri tölur frá Englandi þar sem helmingi keyptra matvæla er hent.

 

Þetta er auðvitað fáránleg sóun, í heimi þar sem 1 milljarður manna sveltur - og mikið landrými fer undir framleiðslu sem síðan endar á haugunum. Ég ætla að vanda mig betur á næstu misserum við að nýta betur það sem ég kaupi svo að minna af góðum hráefnum endi á haugunum. Og það eru margar leiðir til þess. Bæði með því að skipuleggja matseðil vikunnar, hugsa gagnrýnið þegar maður er að kaupa inn, passa upp á það magn sem eldað er (hér sé ég sjálfur helstu sóknarfæri) og svo að lokum nýta afgangana sem verða eftir. 

 

Og maður þarf ekki bara að hita matinn að nýju. Það er um að gera að reyna breyta matnum að einhverju leyti. Í þessari uppskrift - ef uppskrift er hægt að kalla - varð ljúffenga nautalundinn okkar að þunnum "roast beef" sneiðum, hvíta brauðið notað upp til agna og svo til að setja punktinn yfir i-ið - áttum við litla dollu af foie gras sem við gátum steikt til að gera þessa máltíð að sannkallaðri veislumáltíð á nýársdegi. 

 

Opin samloka "Rossini" með nautakjöti, karmellisseruðum rauðlauk og steiktu foie gras

 

Þessi opna samloka er innblásin af hinum heimsfræga rétti Tournados Rossini sem franski kokkurinn Marie-Antoine Carême útbjó til heiðurs ítalska tónskáldinu Gioachino Rossini (höfundi m.a. Rakarans frá Seville og William Tell). Ég eldaði þann rétt fyrir bókina mína - og mikið rosalega er það góð uppskrift - fullkomlega safarík, djúp og dekadent! Þar er smjörsteikt nautalund látin hvíla ofan á hvítlauksbrauði og ofan á hana tyllt foie gras, næfurskornum svörtum trufflum og svo allt kórónað með Madeira sósu!

 

 

Ég byrjaði á að skera niður afgangana af nautalundinni - kannski 350 gr. Byrjaði með hníf en gafst svo upp og sótti "skerann" minn þannig ég fengi næfurþunnar sneiðar. 

 

 

Franskbrauðuð var penslað ríkulega upp úr hvítlauksolíu.

 

 

Og síðan sett á heitt vöfflujárn og steikt þangað til fallega stökkt og gullinbrúnt!

 

 

Mamma og pabbi höfðu komið með foie gras frá Þýskalandi. Það var búið að koma fyrir svartri trufflu inn í miðjunni - ekki slæmt það! 

 

 

Svo var bara að raða samlokunni upp. Fyrst brauðsneið, svo mayonaise, svo tómatar, svo nautakjötssneiðarnar, svo salat, svo karmelliseraður laukur, þá steikt foie gras og svo skreytt með steinseljulaufi!

 

 

Með þessu drukkum við svo smátár af Wolf Blass Yellow Label Cabernet Sauvignion frá Ástralíu. Þetta er ljúffengur sopi. Dökkt og þykkt í glasi, eins og Cabernet vín eiga að er vera. Bragðið er með miklum ávexti, vott af sætum ávexti og vel eikað í lokin. Þetta er ljómandi gott Cabernet Sauvignion - kraftmikill munnfyllir.

 

Núna er sannarlega kominn tími til að njóta!

 

Verið velkomin á Facebook síðuna mína - The Doctor in the Kitchen!  



Nýtt á gömlum meiði - gratineruð humarsúpa og klassískur ofngrillaður humar

Þetta voru sérlega skemmtileg áramót. Við buðum útgefendum bókarinnar minnar til áramótaveislu! Við fengum líka að kynnast frábærum ættingjum þeirra hjóna. Þetta var stórskemmtilegt kvöld! Fljótlega eftir miðnætti leystist þetta upp í allsherjar partí þar sem dansað var langt fram á nótt!

 

Það er alltaf gaman að kynnast nýju fólki - við fengum í heimsókn foreldra Önnu Margrétar - Marínó og Önnu. Og svo var systir Önnu, Hrönn, og fjölskylda hennar með í för - Þröstur og dætur þeirra Hlökk, Mist og Anna. Ég sá ekki betur en að þau hafi öll skemmt sér afar vel frameftir nóttu. 

 

Við gerðum okkar besta að skjóta upp flugeldum en það kemst bara í hálfkvisti (réttara sagt brotabrot) af því sem viðgengst í Reykjavík. Við vorum með nokkrar tertur og rakettur - þannig að við gerðum okkar besta. Nágrannar okkar voru líka með smávegis til að leggja í púkkið þannig að fyrir ofan húsið okkar var nokkra mínútna fjör! 

 

Annars biðst ég afsökunar á þessari færslu - ætti auðvitað að vera með einhverja "heilsurétti" núna þegar nýtt ár er gengið í garð og kannski það verði úr þegar líður aðeins á mánuðinn. 

 

Nýtt á gömlum meiði - gratineruð humarsúpa og klassískur ofngrillaður humar

 

Við elduðum eins og oft áður humar! Það er fátt betra en íslenskur humar. Marínó hafið bjargað þessu áður en að þau komu til Svíþjóðar þannig að við vorum með nóg fyrir alla. Nokkrir humarhalar voru meira eins og humarbrot þannig að við ákváðum að reyna að gera úr honum einhverja nýjung og bregða út af vananum, þar sem við erum oftast með ofngrillaðan humar á svona hátíðarstundum. 

 

Innihaldslýsing - fyrir 18 gesti

 

Fyrir ofnristaða humarhala

 

36 stórir humarhalar

heimagerð hvítlauksolía

50 gr smjör

1 sítróna

salt og pipar 

 

Fyrir gratínerða humarsúpu

 

40 smáir humarhalar

2 gulrætur

2 skarlottulaukar

2 sellerísstangir

2 hvítlauksgeirar

50 ml madeira

250 ml hvítvín

400 ml vatn

salt og pipar

300 ml rjómi

300 gr af blönduðum osti

 

 

 

Fyrst gerðum við humarsoðið. Steiktum grænmetið, laukinn, hvítlaukinn, selleríið og gulræturnar í smjöri. Söltuðum vel og pipruðum. Þegar grænmetið var orðið mjúkt setti ég skeljarnar á pönnuna og steikti með grænmetinu. Síðan setti ég skvettu af Madeira víni - kannski 50 ml og sauð upp áfengið. Svo hvítvínið og sauð áfengið upp áður en ég bætti við vatni. Hitað að suðu, saltað og piprað og látið krauma. Soðið var svo síað og rjóma blandað saman við. Hitað að suðu. Smakkað til með salti og pipar. 

 

 

Humarnum var síðan raðað í lítil eldföst mót.

 

 

Súpunni hellt yfir.

 

 

Og svo tvær matskeiðar af rifnum osti ofan á. Bakað í forhituðum 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur þangað til að osturinn varð gullinnbrúnn og súpan farin að bubbla!

 

 

Gerðum líka humarhala með hefðbundnu sniði - ég hef oft bloggað um slíkt áður - sjá hérna! Gat þó ekki setið á mér að láta eina ljósmynd fylgja með. Ásamt því að smyrja humarinn ríkulega með hvítlauksolíu setti ég líka smjör sem ég hafði rifið niður og lagt yfir.

 

 

Ofan á humarinn settum við síðan hvítlaukssósu og bárum fram með því brauð sem við höfðum penslað með hvítlauksolíu og bakað í vöfflujárni. Ögn af hvítlaukssalti stráð yfir.

 

 

Með matnum nutum við ólíkra vína en meðal annars þessa - Baron de Lay Tres Vinas Blanco Reserva frá því 2008. Þetta er ljómandi gott hvítvín - heldur þurrt með ágæta sýru. Ávaxtaríkt á tungu!

 

 

Ég sá ekki betur en að gestirnir voru ánægðir með humarinn! 

 

Skáluðum fyrir nýju ári með Veuve Clicquot Ponsardin Brut - sem alla jafna gengur undir nafninu Gula ekkjan og er eitt af mínum uppáhalds kampavínum! Og þetta er í annað sinn í vetur sem ég toga tappa úr svona flösku!  Þetta kampavín á sér langa sögu. Fyrirtækið var stofnsett 1772 af Philippe Clicquot en þegar hann lést 1805 tók eiginkona hans, Barbe-Nicol Ponsardin, yfir reksturinn og einbeitti sér helst að kampavínsframleiðslunni.

 

Þá vil ég að lokum þakka sérstaklega fyrir mig - fyrir þann áhuga sem lesendur sýna uppátækjum mínum í eldhúsinu bæði á blogginu mínu, á Facebook og síðast en ekki síst þær frábæru móttökur sem bókin mín fékk núna fyrir jólin! 

 

Það er bjart framundan - er byrjaður að vinna að bók númer tvö og svo eru sjónvarpsþættir í farvatninu og verða sýndir þegar nær dregur vori á Skjá einum! 

 

 

 

Tími til að njóta!

 

 


Besta samloka allra tíma og svo nokkrar svipmyndir frá jólunum 2013

Jólin eru ljúfur tími í faðmi fjölskyldu og vina. Og það er gott að hafa það náðugt yfir hátíðarnar. Ég var reyndar á bakvakt bæði á aðfangadag og jóladag. Og það var rólegt á deildinni og notalegt að ganga stofugang um hátíðirnar. Það er svo stóískt yfirbragð yfir öllum - meira segja þeim sem liggja inni yfir hátíðarnar. Þannig að ég get eiginlega ekki kvartað vaktabyrðinni! 

 

Ég fór óvænta ferð til Íslands í síðustu viku þegar mér bauðst að koma fram í sjónvarpsþætti Loga Bergmann - Logi í beinni sem var sendur út núna á föstudaginn 20. desember. Ég bauð Valdísi, dóttur minni, með mér og því gat hún haldið upp á afmælið sitt með því að hitta frænku sína og bestu vinkonu og fá að koma með mér í sjónvarpssal - hún var himinlifandi með þessa jólagjöf. Ég gat því nálgast það sem mig vantaði fyrir hátíðirnar eins og svínahamborgarahrygg, smjör og fleira! 

 

Það var nú samt eiginlega mest að gera í eldhúsinu hjá mér. En allt var þó með hefðbundnu sniði. Þá hefur íhaldssemin tögl og hagldir í öllum siðum og venjum. Ég gerði svínhamborgarhrygginn á aðfangadag og svo kalkún í gærkvöldi og í dag bauð bróðir minn upp á bestu samloku allra tíma! 

 

Besta samloka allra tíma og svo nokkrar svipmyndir frá jólunum 2013

 

 

Hamborgarahryggurinn var gerður með hefðbundu sniði - hægt er að sjá meira um hann hérna. Ég bætti nokkrum einiberjum við rauðvínssoðið sem ég sauð hrygginn í. Ætli ég hafi ekki líka verið ögn örlátari á rauðvínið að þessu sinni!

 

 

Fékk vel fitusprendan hrygg að þessu sinni og hann var mjög ljúffengur! Ótrúlega safaríkur og góður!

 

 

Og auðvitað var graflax í forrétt - makalaust hvað það er einfalt að gera graflax. Fyrir uppskrift er hægt að kíkja í bókina mína - eða hérna!

 

 

Við hjálpuðumst að í eldhúsinu eins og vant er. Móðir mín er þarna að verma rauðkálið sem hún hafði gert kvöldið áður. Það er ekki að sjá á þessari dömu að hún verði 64 ára eftir nokkrar vikur! Hún afkastaði því á árinu sem er að líða að verja doktorsritgerðina sína! 

 

 

Undirritaður var ákaflega ánægður með jólagjöfina í ár frá eiginkonu sinni - en ég datt í lukkupottinn og fékk leðursvuntu. Fregnir af þessari svuntu hafa þegar borist til nágrannanna og hefur Jónas kollegi minn þegar óskað eftir mjög sérstakri mynd af mér í þessari svuntu. Það gæti þurft nokkra snafsa til að verða við þeirri bón! 

 

 

Uppáhalds jólamaturinn minn er eiginlega kalkúninn! Hérna er ýtarleg uppskrift um hann - en svo er hana líka að finna í bókinni minni! 

 

 

Smjörið leikur lykilhlutverk í minni uppskrift og er fuglinn bæði sprautaður og ...

 

 

 

... og svo er hann hjúpaður með smjöri og meira að segja læt ég viskastykki liggja á honum sem hefur verið drekkt í smjöri og olíu!

 

 

Með matnum drukkum við eitt af mínum uppáhaldsvínum, Spánverja að nafni RODA frá 2008. Vínið er unnið úr 100 prósent Tempranillo þrúgum sem kemur af rúmlega 30 ára gömlum vínvið. Þetta er kraftmikið vín og gott vín - ljúffengt á bragðið - með ilm og bragð af dökkum berjum og næstum brenndri eik. Good stuff!

 

Og daginn eftir var svo besta samloka allra tíma - hún er svo góð að við hlökkum til að borða hana allt árið! Það er Kjartan, bróðir minn, sem hefur verið að þróa þessa samloku, nánast árum saman. Hún verður stöðugt betri!

 

 

Fyrst er að skera kalkúnin niður. 

 

 

Raða brauði á ofnskúffu og smyrja með blöndu af sultu og mayonaisi. Síðan er ostur settur yfir. 

 

 

Næsta skref er að setja sósu á hina sneiðina. Svo ljúffengu fyllinguna og svo er brauðsneiðunum hent undir grillið í eitt augnablik. 

 

 

Næsta skref er að setja rauðlauk í þunnum sneiðum.

 

 

Svo tómata og salat.

 

 

Og að loka - og mikilvægast af öllu - eins mikinn kalkúnn og brauðsneiðin ber!

 

 

Svo er bara að tylla sér niður með smávegis af jólaöli eða malti og appelsíni! 

 

Núna er sko tími til að njóta!

 
Verið velkominn á fésbókina til mína -The Doctor in the Kitchen 

Kraftmikil fyllt eggaldin með nautahakki, chili, tómötum og fetaosti með ríkulegu salati

Ég hóf þessa viku á rannsóknarvinnu - en ég er að reyna eins og rjúpan við staurinn að sinna doktorsverkefninu mínu! Það gekk ágætlega framan af dagi, sótti gögn og las í gegnum þau og reyndi að skrá niður það sem máli skipti. Planið var að halda þessari vinnu áfram út vikuna en útgefandinn minn hringdi í mig eftir hádegið og spurði hvort ég væri til í að skreppa til Íslands til að taka þátt í sjónvarpsþætti Loga Bergmann - Logi í beinni. Það hélt ég nú. Þannig að restin af deginum fór svona fyrir ofan garð og neðan. Bóka flug, redda gistingu, losa mig við eina bakvakt, skipuleggja smá matseðil! Þetta verður gaman! 

 

Verð því að halda vel á spöðunum næstu tvo daga svo mér verði fyrirgefin þessi ferð. Sem betur fer er ég í rannsóknaleyfi og hef engar klíniskar skyldur þannig að þetta ætti allt að ganga. Dóttir mín, Valdís Eik, verður þrettán ára á föstudaginn og fær að koma með mér heim til Íslands og vera mér andlegur stuðningur í sjónvarpssal. Hún var ekkert lítið ánægð að fá að fara þessa óvæntu ferð. Svona tveimur mínútum eftir að henni voru sagðar fréttirnar var hún búin að þaulskipuleggja daganna tvo með frænku sinni og vinkonu! 

 

Ætli ég nái ekki að redda jólamatnum með þessari óvæntu heimsókn! Í síðustu tveimur ferðum hef ég haft svo mikið fyrir stafni að ég hef klikkað illilega á því að kaupa inn fyrir jólin. Ég hafði treyst á að foreldrar mínir myndu ná að bjarga þessu fyrir horn eins og svo oft áður en að þessu sinni lögðu þau lykkju á leið sína og fóru viku fyrr af stað og eru núna að heimsækja gamla vini sína í Saarbrucken í Þýskalandi. Þau munu koma til okkar um næstu helgi og halda með okkur jól eins og þau hafa gert síðastliðin fimm ár! Við hlökkum mikið til að fá þau til okkar.

 

Kraftmikil fyllt eggaldin með nautahakki, chili, tómötum og fetaosti með ríkulegu salati


 

Þessi réttur varð til þegar ég var að hreinsa út úr ísskápnum núna í síðustu viku. Þar kenndi þó ýmissa grasa, fann tvö eggaldin, átti nautahakk inní frysti sem ég hafði keypt lífrænt frá bónda í Ängelholm núna fyrir nokkrum vikum, hálfaskja af tómötum úti í glugga og svo á ég oftast til nokkrar lauktegundir í skál á eyjunni minni! 

 

Innihaldslýsing

 

2 eggaldin

400 gr nautahakk

150 gr tómatar

2 smáir rauðlaukar

1 rauð papríka

4 hvítlauksgeirar

3 rauðir, smáir, chilipiprar

1 msk tómatpuré

250 ml af kjötsoði

1 msk smátt saxað ferskt basil

2 tsk þurrkað oregano

1/2 krukka af fetaosti í kryddolíu

 

Þetta er það sem fannst inn í ísskáp! Ekki svo slæmt, stundum eru svona "naglasúpur" bara nokkuð góðar!

 

 

Skerið laukinn, hvítlaukinn og sveppina niður smátt. 

 

 

Þegar laukurinn, hvítlaukurinn, papríkan og sveppirnir hafa fengið að steikjast í nokkrar mínútur á pönnunni bætið þið hakkinu saman við. 

 

 

Bætti síðan chilipiparnum saman við - hann var heldur lítill þannig að ég lét kjarnann fylgja með.

 

 

Þegar nautahakkið var brúnað þá setti ég tómatana saman við - sem ég hafði skorið í helminga - ásamt tómatpúréinu. Setti svo oreganoið.

 

 

Næst kjötsoðið, sem ég hitaði að suðu, og leyfði síðan að krauma þannig að það sauð niður í minnst um helming - þannig að sósan væri þykk og falleg.

 

 

Næst skar ég eggaldinið niður í helminga og hreinsaði innihaldið út en skildi nóg eftir þannig að það væri líklegra til að halda formi sínu þrátt fyrir að vera bakað í ofni. 

 

 

Steikti síðan innvolsið af eggaldininu í jómfrúarolíu. Saltaði vel og pipraði. Að lokum hellti ég eggaldininu saman við kjötsósuna. Bætti síðan basilinu saman við. 

 

 

Síðan fyllti ég eggaldinið með kjötsósunni. 

 

 

Stappaði svo niður fetaostinn. 

 

 

Og dreifði ríkulegu magni af honum yfir.

 

 

Bakaði svo inni í ofni í 35 mínútur. 

 

 

 

 

Með matnum drukkum við síðan örlítið tár af ljúffengu frönsku víni frá E.Guigal. Þetta er Cotes du Rhone vín frá því 2010. Þetta vín er blanda úr þremur þrúgum, Syrah 60%, grenache 30 % og svo 10% mourvedre þrúgur. Liggur í eikarfati í eitt ár áður en það er sett á flöskur og selt í verslanir. Þetta er ljómandi góður sopi, fallega rautt, lyktar af villtum berjum, kryddað. Langt eftirbragð, eikað og með góðu jafnvægi. Þetta vín hefur oft fengið háa einkunn í víndómum!

 

 

Þetta varð mjög gómsætt. Eggaldin umbreytist við eldun frá því að vera biturt á bragðið yfir í að vera djúpt og arómatískt. Hitinn af chiliinum kom líka vel í gegn - fyrir krakkana hefði ég kannski átt að kjarnhreinsa, en mér fannst þetta frábært. Bárum bara smá hreina jógúrt fram með matnum. Meira að segja Ragnhildur Lára var kampakát með matinn! 

 

Núna er kominn tími til að njóta!


Ofnristaður þorskur með ansjósu, ólívu, kapers og chillismjöri

Hérna er komið þriðja myndbandið sem við gerðum til að kynna bókina mína! 

 

 

 

Ég man ekki hvaðan þessi uppskrift er komin. Síðastliðið sumar var ég mikið að prófa mig áfram með að nota ansjósur í mat og læra hvernig þær geta lyft bragðinu af eiginlega hvaða mat sem er upp á æðra stig. Betur, kröftugar og á heilsusamlegri hátt en til dæmis arómat eða mónósódíum glútamat gerir!

 

Best er að bræða ansjósur í smjöri eða olíu við lágan hita þangað til þær hverfa inn í fituna. Síðan er bara að velja hvað þú vilt nota grunninn í. Á sumrin sækja áhrif Miðjarðarhafsins á mig; kapers, ólífur, sítrónusafi og steinselja. Þetta eru dásamleg hráefni til að para við eitt af því besta úr íslensku sjávarfangi – þykk þorskhnakkaflök!

 

Ofnristaður þorskur með ansjósu, ólívu, kapers og chillismjöri

 

Innihaldslýsing

100 g smjör

50 ml jómfrúarolía

6 ansjósuflök

2 msk kapers

15 kalamata-ólífur

1/2 chili-pipar

1 kg þorskhnakki

salt og pipar

 

Setjið olíuna og smjörið í pott og bræðið smjörið.

 

Lækkið hitann eilítið og setjið svo smátt söxuð ansjósuflökin út í. Látið malla við vægan hita í fimm til sjö mínútur þangað til ansjósurnar hafa bráðnað saman við smjörið.

 

Bætið svo við kapers, smátt söxuðum chili-pipar og ólífum og eldið áfram í 10 mínútur.

 

Skerið þorskhnakkann niður í skammtastærðir og penslið með smávegis af smjörinu. Saltið og piprið.

 

Grillið þorskhnakkann undir ofngrillinu – setjið fiskinn rétt ofan við miðjan ofninn. Hann ætti að verða tilbúinn á sjö til tíu mínútum.

 

Raðið svo þorskhnakkanum á disk og hellið smjöri yfir fiskinn.

 

Spíntakartöflumús

 

Að blanda spínati í kartöflumús lífgar verulega upp á hana og gerir hana léttari og jafnvel mildari. Spínatið þarf ekki að elda ef það er sett út í rjúkandi heitar kartöflurnar, það dugir einfaldlega að hræra því saman við og blöðin munu skreppa saman og eldast í gegn.

 

Verið ófeimin við að auka spínatmagnið í uppskriftinni, músin verður ekkert síðri. Kreistur hvítlaukur hefur heldur aldrei eyðilagt neitt í þessu samhengi.

 

1 kg kartöflur (helst mjölmiklar)

salt og pipar

1 dl nýmjólk

100 gr smjör

200 g spínat

 

Flysjið og sjóðið kartöflur í ríkulega söltuðu vatni.

 

Þegar hægt er að stinga í gegnum þær með hníf án mótstöðu eru þær tilbúnar.

 

Hellið kartöflunum í sigti og látið renna vel af þeim.

 

Setjið aftur í pottinn og maukið með stappara.

 

Bætið salti, pipar, mjólk og smjöri við og hrærið vel saman.

 

Skolið spínatið og þurrkið, gjarnan í salatvindu, áður en því er blandað saman við kartöflumúsina.


Frönsk flatbaka, Pissaladière - auk annarra tegunda - Villi bakar pizzur!

Við gerum eins og margar fjölskyldur pizzur á föstudagskvöldum. Það hefur eiginlega orðið að hefð á okkar bæ. Og það er líka alveg ágætt að sameinast í lok vikunnar og að allir fjölskyldumeðlimir fái að föndra sína eigin pizzu. Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég blogga um þessa flatbökugerð fjölskyldunnar. Sumum hverjum myndi finnast þetta nóg komið - hversu mörg orð er eiginlega hægt að eyða í rétt sem er raunar lítið annað en brauð með áleggi? En það er nú svo, að þetta er einn vinsælasti réttur heims.

 

Auðvitað gerum við nokkrar tegundir af flatbökum - allir fá að gera sína uppáhaldstegund. Börnin velja gjarnan það sama en stundum hafa þau sleppt af sér beislinu og leyft ímyndunaraflinu að ráða för. Fyrir rúmu ári fóru þau mikinn í eldhúsinu og gerðu "tilraunapizzur" - hægt er að skoða það hérna. Snædís hefur alveg fests í Pizza Bianca - sem er án tómatsósu og er ansi ljúffeng - hef jafnframt greint frá því á síðunni minni - sjá hérna. Ég held að ég hafi prófað flest í þessum bransa - að grilla þær - sjá hérna, að loka þeim og innbaka, sjá hér. Ég hef prófað ýmiskonar álegg - sett á þær allt milli himins og jarðar, hérna veisluafgangakartöflur (sem var ljúffengt) og svo þessa með humri og þistilhjörtum - namminammi! Og aldrei verð ég þreyttur á þessu! ALDREI!

 

Ég hef upp á síðkastið verið að færa mig upp á skaftið hvað ansjósur varðar. Þær eru sannkallað leynivopn í matargerð - gefa ótrúlega ríkt bragð og lyfta öðru bragði með kröftugu "umami" bragði sem fyllir bragðlaukana.

 

Frönsk flatbaka, Pissaladière - auk annarra tegunda - Villi bakar pizzur! 

 

Ekta Pissaladière er frá Provence í Frakklandi en mér skilst að líkar flatbökur séu til í Liguria á Ítalíu. Liguria liggur, jú, að Frakklandi og einmitt að Provence-Alpes-Côte d'Azur. Það er kannski til lítils að þræta um uppruna þó að ég gæti best trúað að margir eldheitir Ítalir og Frakkar myndu án efa vilja rekja upprunann til sín.

 

Þessi flatbaka er oftast án tómatsósu - en ég ákvað að brjóta þá reglu þar sem ég hafði gert svo góða og einfalda sósu sem mér fannst synd að láta fara til spillis. Einnig datt mér í hug að tómatarnir myndu milda ansjósubragðið lítillega sem er ágætt þegar maður er að læra að elska ansjósur meira og meira. 

 

Innihaldslýsing

 

700 gr hveiti

300 ml volgt vatn

2 msk jómfrúarolía

25 gr ger

25 gr sykur

2 tsk salt

 

Tómatsósan

 

1 laukur

3 hvítlauksrif

2 msk jómfrúarolía

1 dós góðir niðursoðnir tómatar

1 msk tómatpúré

salt og pipar

2-3 msk hökkuð fersk steinselja/basil 

 

Álegg

 

15 ansjósuflök

30 kalamataólívur

2 hvítir laukar

2-3 hvítlauksrif

 

 

 

Það er um að gera að láta börnin sjá um þetta! Villi var að þessu sinni aðalmaðurinn í eldhúsinu!

 

 

Setjið hveitið í skál. 

 

 

Svo saltið. Og á eftir því olíuna.

 

 

Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar að það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við.

 

 

Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. 

 

 

Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.

 

 

Á meðan deigið er að hefast - útbúið þið tómatsósuna. Steikið fyrst laukinn og hvítlaukinn í olíunni, saltið og piprið. Setjið svo tómatana, púréið og hitið að suðu og látið malla við lágan hita í 15-20 mínútur. Setjið svo kryddjurtirnar, saltið og piprið og blandið saman með töfrasprota.

 

 

Deigið ætti að ná að tvö til þrefaldast. 

 

 

Svo er bara að fletja út deigið. 

 

 

Litla systir fylgist með full aðdáunnar! 

 

 

Næst er að skera laukinn niður í sneiðar og steikja hann við lágan hita í 30-40 mínútur til þess að karmellisera hann. Gleymið ekki að salta og pipra. 

 

 

Raðið síðan ansjósum á pizzuna, lauknum, ólívum og smátt skornum hvítlauk. 

 

 

Þessi mynd er hér til að minna mig á að nefna að við gerðum fleiri flatbökur er bara Pissaladière, Snædís fékk sína Bianca, Valdís fékk eina með túnfisk og kapers og svo Villi sem vildi bara einfaldleikann að þessu sinni, skinku! 

 

 

Með matnum drukkum við þetta ljúffenga vín - Vina Maipo Gran Devocion Syrah Petite Sirah frá því 2009. Þetta er vín frá Chile og er blanda af 80% Syrah, 20% Petite Sirah. Þetta er vín sem hefur fengið góðar viðtökur - Það hefur fengið að þroskast á eikartunnum í meira en eitt ár. Bragðið er kryddað og ávaxtakennt með eikuðu eftirbragði! Ljúffengt. 


 

Þetta var kraftmikil og bragðgóð pizza. Umamibragðið kom sterklega í gegn og sveik ekki! Hvet ykkur til að prófa þessas bragðmiklu flatböku! 

 


Læknirinn í Eldhúsinu SJÖ ára - sjö uppáhaldsfærslurnar síðustu ára!

 

 

Ó, hvað tíminn líður hratt. Ég man þegar ég sat við borðstofuborðið í Skaftahlíðinni fyrir framan tölvuna og ákvað að prófa að byrja að blogga! Ástæða þess að ég byrjaði að blogga var til þess að hvetja sjálfan mig áfram í eldhúsinu. Mér hefur alltaf þótt gaman að elda - alveg frá því að ég var krakki að ég fór að baka skúffuköku í eldhúsinu heima.

 

En þetta haust - haustið 2006 fannst mér eitthvað vanta á innblásturinn í eldhúsið og upplifði að ég væri að endurtaka mig í sífellu. Var alltaf að elda Spaghetti Carbonara - ekki bara vegna þess hversu ótrúlega gott það er - heldur líka vegna þess að mér datt sá réttur bara oftast í hug! Þannig að - um þetta leyti var bloggið að ryðja sér til rúms á Íslandi og mér fannst bara þjóðráð að prófa mig áfram að þeim vettvangi. 

 

Og síðan 9. desember 2006 hef ég bloggað að minnsta kosti 498 færslur um uppáhalds áhugamál mitt sem síðan þá hefur orðið ennþá ríkari þáttur af mínu lífi og fjölskyldu minnar. Og áhugamálið hefur vaxið. Ég hef haldið úti bloggi á Moggablogginu frá upphafi, var um tíma á Miðjunni sem síðar lagði upp laupana, seinna á Eyjunni og síðustu tvö árin hef ég lagt allt púður í "nýju" heimasíðuna - Lækninn í Eldhúsinu. Svo hef ég verið nokkuð virkur á Fésbókinni og meira segja gælt við enska útgáfu bloggins sem ennþá er í vinnslu - svona beta útgáfa. 

 

Nú hef ég eins og lesendur vita margir - gefið út veglega matreiðslubók. Hver veit hvert vegurinn liggur? Það verður allavega spennandi að hefja nýtt ár og takast á við þau verkefni sem þar þarf að vinna.

 

Læknirinn í Eldhúsinu SJÖ ára - sjö uppáhaldsfærslurnar síðustu ára! 

 

Ég ákvað að velja nokkrar færslur til að hafa á svona lista - eitthvað sem ég gæti kallað uppáhaldið mitt - en þær eru margar fleiri. Þessir réttir hafa verið með mér síðustu ár - nokkrir frá því ég var barn - sumir nýrri en allir eru þeir ljúffengir.

 

1. Spaghetti Bolognese innblásin úr mörgum áttum! 

 


Þessi uppskrift hefur verið með mér frá blautu barnsbeini. Mamma gerði alltaf ljúffenga kjötsósu sem var í miklu uppáhaldi. Seinna fór ég að elda þetta sjálfur og var lengi mjög stoltur af niðurstöðunni. En uppskriftin tók breytingum. Snædís sagði að ég notaði of mikið oregano í uppskriftina og ég sem hélt að ég hefði unnið hjarta hennar með einmitt þessari uppskrift. Niðurbrotinn maðurinn hóf þá leit að betri uppskrift og með hjálp bróður míns rötuðum við á aðferð Marcelu Hazan - sem er afar ljúffeng. Eftir að ég fór að gera hana með mínu eigin beikoni varð hún "instant" klassík. Bróðir minn heldur því þó fram að hægt sé að elda hana á skemmri tíma en ég gef upp í uppskriftinni. Hver og einn þarf auðvitað að eiga það við sig!

 

2. Grillaðir hvítlaukspenslaðir humarhalar

 

 

Það þarf eiginlega ekkert að segja um þennan rétt. Ég hef eldað oftar en ég get talið - ég hef bloggað um hann nokkrum sinnum og eldaði hann meira að segja tvisvar fyrir bókina. Fannst myndirnar eitthvað "slappar" og notaði það sem afsökun að gera réttinn aftur. 

 

Þetta er oft í forrétt hjá mér - en þegar veskið leyfir þá er þessi réttur einnig fullkominn aðalréttur. Ég er meira að segja sannfærður að ef vel liggur á manni þá væri vandræðalaust að borða þennan þennan gómsæta humar sem eftirrétt!

 

3. Pavlova - eftirréttur guðanna, fyrir 130 manns

 

 

Eins og þeir sem lesa bloggið mitt verða eflaust varir við - þá fer ekki mikið fyrir kökum og eftirréttum á síðunni minni. Og útskýriningin á því er einföld - Ég er einfaldlega hrifnari af for-, aðal og brauðréttum en eftirréttum og sætmeti. 

 

En þetta á auðvitað sínar undantekningar. Pavlova er terta sem einhvern veginn nær að fanga alla breiddina - allt frá sætunni í tyggjókenndum botninum út í þéttleika rjómans og svo ferskleikann sem kemur frá ávöxtunum. 

 

Ég bakaði þessa köku fyrir brúðkaup kollega míns - Daggar Hauksdóttur þegar hún gekk að eiga manninn sinn, Grím. Ég gerði einar tuttugu kökur. Náunginn sem var mér innan handar í eldhúsinu til að klára að setja þetta upp á disk - át rúmlega hálfa tertu. Ætli hann hafi ekki verið að borða hana í fyrsta sinn - og því verða þetta að teljast nokkuð eðlileg viðbrögð!

 

4. Seiðandi andabringur "sous-vide"með steiktum kirsuberjum og pommes fondant fyrir ástina mína!

 

 

Þennan rétt gerði ég fyrir Snædísi, ástina mína, kvöldið þegar hún kom heim með þriðja barnið okkar, Ragnhildi Láru. Fæðingin gekk vel og við höfðum farið á sérstakt námskeið um hvernig má styðja maka sinn í gegnum fæðingarferlið. Það var einstaklega lærdómsríkt námskeið og mér hefur aldrei fundist ég vera eins mikill þátttakandi eins og einmitt í þessari fæðingu - oftast hefur mér fundist ég vera óskaplega bjargarlaus í þessu ferli sem konan mín hefur gengið í gegnum - en í þetta skiptið gat ég verið henni meira innan handar! Það var sérstök reynsla.

 

Ég kom heim og eldaði uppáhaldsmat Snædísar, andabringu - nema að þessu sinni gerði ég hana með þeim hætti sem ég hef nokkrum sinnum bloggað um síðar. Sous-vide - eldað undir þrýstingi við lágan hita. Þannig verður kjötið einkar meyrt og bráðnar í munni. Kjötið er svo steikt í lokin til að fá þessa karmelliseringu sem er svo góð!

 

5. Ofnbakaður kjúklingur að hætti mömmu með rjómalagaðri sveppasósu og afrísku grænmeti

 

 

Ég gæti sett svo margar kjúklinga uppskriftir inn á þennan lista - því ég er svo heppinn að luma á mörgum góðum leiðum til að elda kjúkling. En mér þykir sérstaklega vænt um þessa uppskrift og þegar ég sest niður við matarborðið með fjölskyldunni minni er næstum eins og ég flytjist til í tíma og sitji með foreldrum mínum og litla bróður við matarborðið. Og þetta voru hátíðlegar stundir sem ég á seint eftir að gleyma!

 

6. Confit du Canard með Puy linsum

 

 

Þetta er alveg mögnuð uppskrift. Linsurnar eru jarðbundnar og seiðandi og vega svo vel á móti næstum því sætu og feitu bragðinu af öndinni. 

 

Í þessari uppskrift notast ég við andaleggi sem hafa verið undirbúnir og lítið þarf að gera annað en að hita þá í ofni. En það er ekkert mál að gera þetta frá grunni. Eina sem þarf er smá tími og tvö kíló af andafitu! Uppskriftina er að finna í bókinni minni!

 

 

 

Þegar síðan mín varð fimm ára - nefndi ég þessa færslu sem mína uppáhalds. Og það verður að segjast að hún er það auðvitað ennþá. Þó þróast bragðlaukarnir og ætli ég myndi í dag ekki nefna porchetta italiana sem er í algeru uppáhaldi í dag - en uppskriftina af henni er að finna í bókinni minni. 

 

Þessi stendur þó alltaf fyrir sínu og þegar það fer að hausta býð í svona kjötsósuveislu. Þessi réttur kenndi mér að það þarf ekki flókin hráefni til að elda dásamlega ljúffengan mat - í þessari uppskrift er auðvitað íslenskt lambakjöt en aðalhráefnið er tími. Að gefa sósunni tíma til að malla á lágum hita, sjóða niður svo bragðið nái að þróast - að draga það besta úr þeim fáu hráefnum sem sett voru í sósuna. Og ætli það skemmtilegasta sé ekki að njóta hennar með góðum vinum og vandamönnum. Sjá hvað allir verða glaðir og mettir - hlægja og lyfta glösum!

 

 

*

 

Ég von að þið haldið áfram að líta við á síðunni minni - ég mun án efa halda ótrauður áfram að skrifa um mitt helsta hugðarefni; eldamennsku, mat og drykk. Fátt gleður mann nefnilega meira en að heyra að fólk kunni að meta það sem maður er að gera - það er hreint út sagt ótrúlega verðlaunandi. 

 

Hlakka til að halda þessu áfram. 

 

Núna er kominn tími til að njóta!

 

 

 

Kíkið svo endilega við á Facebook - þar verður fjör á næstunni!  


Dásamlegt súkkulaði fondant með þeyttum rjóma í afmælisveislu Valdísar


 

Frábæra dóttir mín, Valdís Eik, verður 13 ára 20. desember næstkomandi. Hún óskaði sérstaklega eftir því að afmælið sitt yrði haldið aðeins fyrr þar sem henni finnst sá tuttugasti vera óþægilega nálægt jólunum! Hún hefur ýmislegt fyrir sér í þeim efnum. Og það var auðvitað ekkert mál að gera svo. Hún bauð öllum bekkjarsystrum sínum í kvöldverð og vildi hafa veitingahúsastemmingu. Hún hafði óskað eftir sínum uppáhaldsmat. 

 

Við hjónin klæddum okkur upp og þjónuðum til borðs. Ég stóð vaktina í eldhúsinu ásamt Vilhjálmi syni mínum sem aðstoðarkokki. 

 

Á matseðlinum var í forrétt hvítlauksristuð brúsketta með tómötum og basil. Í aðalrétt vildi dóttir mín bjóða upp á upphaldsmatinn sinn - steik og bernaisesósu sem ég eldaði nýlega með þessum hætti, sjá hérna! Í eftirrétt óskaði hún síðan eftir því að fá þennan ljúffenga eftirrétt!

 

Dásamlegt súkkulaði fondant með þeyttum rjóma í afmælisveislu Valdísar

 

Innihaldslýsing

 

200 g smjör

200 g dökkt súkkulaði

200 g sykur

200 g hveiti

4 egg

4 eggjarauður

50 g smjör til að smyrja mótin

 

8 tsk kakóduft

 

 

 

Bræðið smjörið í potti og penslið síðan kökumótin. Setjið í frysti í 30 mínútur. Takið út og penslið aftur. Setjið skeið af kakódufti í mótið og veltið mótinu þannig að það hjúpist að innan. Hellið því sem er umfram. Setjið aftur í  frystinn og undirbúið fyllinguna. 

 

 

Tyllið stálskál yfir vatnsbað og bræðið smjörið og súkkulaðið saman. Hrærið vel og setjið til hliðar í nokkrar mínútur. Í annarri skál hrærið þið saman eggin, eggjarauðurnar og sykurinn þangað til blandan er þykk og pískurinn skilur eftir far í henni.

 

Sigtið hveitið yfir eggjablönduna og hrærið saman. Blandið súkkulaðinu við, þriðjungi í senn, og hrærið saman í þykkt deig.

 

Takið mótin úr frystinum og hellið deiginu í þau. Gætið þess að fylla ekki mótin meira en að 3/4 þar sem kakan á eftir að lyfta sér. 

 

 

 

Bakið í 180 gráðu heitum blástursofni í 10-12 mínútur þangað til kakan fer að losna aðeins frá kantinum og yfirborðið hefur harðnað. Bíðið í nokkrar mínútur áður en þið reynið að ná kökunni úr formunum. Berið fram með ís eða rjóma.

 

 

Tími til að njóta!

 

Þessa uppskrift er finna í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu, Tími til að njóta.

Bókin, sem er uppseld hjá forlaginu, hefur greint mér frá því að ný sending af bókinni sé væntanlega í búðir strax í næstu viku!

 


Það er svo heilmikið um að vera á Facebook síðunni minni - The Doctor in the Kitchen!  



Pönnusteiktar kjúklingabringur í hvítvínssoðsósu með ferskum tómötum og svörtum kalamata ólívum!


Hægt er að lesa allt um þennan gómsæta rétt á: Læknirinn í Eldhúsinu.

 Fylgist einnig með á Facebook: The Doctor in the Kitchen

 

Núna, loksins núna, er kominn tími til að njóta! 

 

 

Í bókinni minni er fullt af svona einföldum og ljúffengum uppskriftum. Önnur prentun er væntanleg í verslanir í næstu viku! 

 


Langelduð lambasíða með smjörsteiktum sykurbaunum, gulrótum og einföldu salati að hætti Villa

Hægt er að lesa allt um þessa færslu á - Læknirinn í Eldhúsinu! 

Núna loksins er kominn tími til að njóta!


Ljúffengur lax soðinn í kókósmjólk, thai chilli sósu með papriku, rækjum og kóríanderRR

Hægt er að sjá allt um þessa uppskrift á síðunni minni; Læknirinn í Eldhúsinu!

Núna er tími til að njóta! 

Hægt er að fylgjast með mér á FB: The Doctor in the Kitchen!

 


Lúxus kjötbollur með beikoni, marsala bættri lauksmjörsósu og steiktum eggjum

Meira um þessa ljúffengu uppskrift: Læknirinn í Eldhúsinu!

 Endilega kíkið við á Facebook: The Doctor in the Kitchen! Það verður nóg um að vera á næstu vikum! 

Algerlega ljúffengt!

Núna er tími til að njóta!

Hlakka til að sjá sem flesta á bókamessunni núna um helgina!

Mun að sjálfsögðu árita bókina fyrir þá sem vilja - skárra væri það nú!


Roast beef sous vide með steiktum lauk, hvítlaukssteiktum gulrótum og kaldri brnaise sósu


 

Hægt er að lesa allt um þennan rétt á blogginu mínu: Læknirinn í Eldhúsinu!  

 

Núna er loksins kominn tími til að njóta!

 

 

 

Talandi um að njóta þá fæst þessi bók núna í öllum betri bókabúðum og stórmörkuðum! 

 

 


Indversk grænmetiskorma með blómkáli, spergilkáli, papríkum og kúrbít ásamt þurrristuðu naanbrauði

 

Hægt er að lesa allt um þennan ljúffenga rétt á:Læknirinn í Eldhúsinu

 

Svo er mikið um að vera á Facebook þessa dagana: The Doctor in the Kitchen! 

 

Tími til að njóta!

 

 


Grillaður kjúklingur með 40 hvítlauksrifjum og saus velute - heimsótt aftur

Hægt er að lesa um þennan ljúffenga rétt hérna - Læknirinn í Eldhúsinu

 Svo er alltaf fjör á Facebook - The Doctor in the Kitchen!  

Tími til að njóta!


Gómsætar steiktar grísalundir með sveppum og seiðandi madeirasósu


Meira um þessa uppskrift á Læknirinn í Eldhúsinu!

Svo verður heilmikið um að vera á Facebook síðunni minni - Doctor in the Kitchen!  

Tími til að njóta!

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband