Frönsk flatbaka, Pissaladière - auk annarra tegunda - Villi bakar pizzur!

Við gerum eins og margar fjölskyldur pizzur á föstudagskvöldum. Það hefur eiginlega orðið að hefð á okkar bæ. Og það er líka alveg ágætt að sameinast í lok vikunnar og að allir fjölskyldumeðlimir fái að föndra sína eigin pizzu. Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég blogga um þessa flatbökugerð fjölskyldunnar. Sumum hverjum myndi finnast þetta nóg komið - hversu mörg orð er eiginlega hægt að eyða í rétt sem er raunar lítið annað en brauð með áleggi? En það er nú svo, að þetta er einn vinsælasti réttur heims.

 

Auðvitað gerum við nokkrar tegundir af flatbökum - allir fá að gera sína uppáhaldstegund. Börnin velja gjarnan það sama en stundum hafa þau sleppt af sér beislinu og leyft ímyndunaraflinu að ráða för. Fyrir rúmu ári fóru þau mikinn í eldhúsinu og gerðu "tilraunapizzur" - hægt er að skoða það hérna. Snædís hefur alveg fests í Pizza Bianca - sem er án tómatsósu og er ansi ljúffeng - hef jafnframt greint frá því á síðunni minni - sjá hérna. Ég held að ég hafi prófað flest í þessum bransa - að grilla þær - sjá hérna, að loka þeim og innbaka, sjá hér. Ég hef prófað ýmiskonar álegg - sett á þær allt milli himins og jarðar, hérna veisluafgangakartöflur (sem var ljúffengt) og svo þessa með humri og þistilhjörtum - namminammi! Og aldrei verð ég þreyttur á þessu! ALDREI!

 

Ég hef upp á síðkastið verið að færa mig upp á skaftið hvað ansjósur varðar. Þær eru sannkallað leynivopn í matargerð - gefa ótrúlega ríkt bragð og lyfta öðru bragði með kröftugu "umami" bragði sem fyllir bragðlaukana.

 

Frönsk flatbaka, Pissaladière - auk annarra tegunda - Villi bakar pizzur! 

 

Ekta Pissaladière er frá Provence í Frakklandi en mér skilst að líkar flatbökur séu til í Liguria á Ítalíu. Liguria liggur, jú, að Frakklandi og einmitt að Provence-Alpes-Côte d'Azur. Það er kannski til lítils að þræta um uppruna þó að ég gæti best trúað að margir eldheitir Ítalir og Frakkar myndu án efa vilja rekja upprunann til sín.

 

Þessi flatbaka er oftast án tómatsósu - en ég ákvað að brjóta þá reglu þar sem ég hafði gert svo góða og einfalda sósu sem mér fannst synd að láta fara til spillis. Einnig datt mér í hug að tómatarnir myndu milda ansjósubragðið lítillega sem er ágætt þegar maður er að læra að elska ansjósur meira og meira. 

 

Innihaldslýsing

 

700 gr hveiti

300 ml volgt vatn

2 msk jómfrúarolía

25 gr ger

25 gr sykur

2 tsk salt

 

Tómatsósan

 

1 laukur

3 hvítlauksrif

2 msk jómfrúarolía

1 dós góðir niðursoðnir tómatar

1 msk tómatpúré

salt og pipar

2-3 msk hökkuð fersk steinselja/basil 

 

Álegg

 

15 ansjósuflök

30 kalamataólívur

2 hvítir laukar

2-3 hvítlauksrif

 

 

 

Það er um að gera að láta börnin sjá um þetta! Villi var að þessu sinni aðalmaðurinn í eldhúsinu!

 

 

Setjið hveitið í skál. 

 

 

Svo saltið. Og á eftir því olíuna.

 

 

Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar að það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við.

 

 

Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. 

 

 

Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.

 

 

Á meðan deigið er að hefast - útbúið þið tómatsósuna. Steikið fyrst laukinn og hvítlaukinn í olíunni, saltið og piprið. Setjið svo tómatana, púréið og hitið að suðu og látið malla við lágan hita í 15-20 mínútur. Setjið svo kryddjurtirnar, saltið og piprið og blandið saman með töfrasprota.

 

 

Deigið ætti að ná að tvö til þrefaldast. 

 

 

Svo er bara að fletja út deigið. 

 

 

Litla systir fylgist með full aðdáunnar! 

 

 

Næst er að skera laukinn niður í sneiðar og steikja hann við lágan hita í 30-40 mínútur til þess að karmellisera hann. Gleymið ekki að salta og pipra. 

 

 

Raðið síðan ansjósum á pizzuna, lauknum, ólívum og smátt skornum hvítlauk. 

 

 

Þessi mynd er hér til að minna mig á að nefna að við gerðum fleiri flatbökur er bara Pissaladière, Snædís fékk sína Bianca, Valdís fékk eina með túnfisk og kapers og svo Villi sem vildi bara einfaldleikann að þessu sinni, skinku! 

 

 

Með matnum drukkum við þetta ljúffenga vín - Vina Maipo Gran Devocion Syrah Petite Sirah frá því 2009. Þetta er vín frá Chile og er blanda af 80% Syrah, 20% Petite Sirah. Þetta er vín sem hefur fengið góðar viðtökur - Það hefur fengið að þroskast á eikartunnum í meira en eitt ár. Bragðið er kryddað og ávaxtakennt með eikuðu eftirbragði! Ljúffengt. 


 

Þetta var kraftmikil og bragðgóð pizza. Umamibragðið kom sterklega í gegn og sveik ekki! Hvet ykkur til að prófa þessas bragðmiklu flatböku! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband