7.8.2019 | 08:47
Alger klassík - Langeldaður lambaframpartur með mirepoix og hvítlauk með kröstí kartöfluturnum og dásamlegri rjómalagaðri soðsósu
Hver vegur að heiman er vegurinn heim! Við erum búinn að vera á faraldsfæti í rúmar tvær vikur. Ég hef reynt að setja innlegg reglulega á Intstagram en það hefur lítið verið um að vera á blogginu. Það er þó ekki þannig að ég hafi ekki eldað í fríinu, því er fjarri sanni. Við leigðum, ásamt Sverri og Bryndísi, vinum okkar og strákunum þeirra hús í Toskana - rétt fyrir utan Cortona - og þar náði ég að elda talsvert.
En ég stóð ekki einn vaktina í eldhúsinu, við Bryndís vorum jafnhendis við eldamennskuna og Sverrir og Snædís - og svo börnin auðvitað - sinntu frágangi af stakri prýði.
En nú erum við komin heim aftur - og mikið er gott að koma heim. Þó að ég kunni vel við hita og sól - þá verður að segja að maður getur auðveldlega mettast í miklum hita. En það gerist varla á Íslandi - þó að veðrið hafi verið með eindæmum gott í sumar.
Auðvitað er fylgst með fréttum þegar maður er staddur erlendis. Ein frétt sem vakti sérstakan áhuga minn en hún var um að að lambahryggir væru uppseldir á landinu. Kom spánskt fyrir sjónir. Bara fyrir rúmu ári var offramleiðsla á lambakjöti og bændur kvörtuðu sáran undan því verði sem greitt væri fyrir lambakjötið - að þeir ættu í erfiðleikum með að framfleyta sér og sínum. Nú ættu þeir að geta fengið betra verð fyrir framleiðsluna sína, allavega vona ég að það verði niðurstaðan. Við verðum að styðja við íslenska framleiðslu.
Alger klassík - Langeldaður lambaframpartur með mirepoix og hvítlauk með kröstí kartöfluturnum og dásamlegri soðsósu
Þessi færsla er því óður til lambaframpartsins - sem er í uppáhaldi hjá mér. Ég hreinlega elska að langelda lambaframpart.
Og þessi uppskrift er alger klassík!
Lambið:
1 lambaframpartur
1 msk kryddblanda (Yfir holt og heiðar)
Mirepoix (2 laukar, 4 sellerísstangir, 4 gulrætur, 4 hvítlauksrif)
2 msk jómfrúarolía
2 hvítlaukar í helmingum
salt og pipar
Sósan:
soðið af kjötinu
500 ml lambasoð
smjörbolla til þykkingar
salt og pipar
dijon eftir smekk
sulta eftir smekk
Kartöflurnar:
1 kg íslenskar nýuppteknar kartöflur
4 msk jómfrúarolía
75 gr parmaostur
salt og pipar
Ég notaði að sjálfsögðu kryddblönduna sem ég þróaði fyrir tveimur árum síðan í samstarfi við Kryddhúsið og er nú komin aftur á markað. Að mínu mati passar hún einstaklega vel með öllu lambakjöti (en ég er auðvitað ekki hlutlaus :) ).
Skar niður allt grænmetið og lagði í botninn á ofnskúffu ásamt jómfrúarolíunni. Lagði svo frampartinn ofan á grænmetið og nuddaði kjötið með jómfrúarolíu og kryddblöndunni. Saltaði vel og pipraði. Hellti skvettu af víni og vatni í botninn á ofnskúffunni.
Lagði svo álpappír ofan á og og bakaði í ofni við 170 gráður í 3,5-4 klukkustundir.
Pabbi sá um kartöflurnar. Skar þær í sneiðar.
Velti upp úr hvítlauksolíu, salti og pipar og nóg af parmaosti.
Svo raðaði hann kartöflunum upp í turna og bakaði í ofni við 180 gráður í um klukkustund.
Sósan var einföld. Sauð upp lambasoðið og bætti því sem féll til af lambinu. Þykkti með smjörbollu og bætti með rjóma, sultu og sinnepi, salti og pipar.
Lambið ilmaði dásamlega. Tókum álpappírinn ofan af og söltuðum ríkulega og settum undir grillið í ofninum.
Ég veit ekki um ykkur, en mér finnst þetta gullfalleg steik.
Með matnum nutum við Marques Casa Concha Pinot Noir frá 2016. Mér finnst þetta vín passa vel með matnum. Þetta er ljúffent Pinot - bragðmilt með ljúfri berjasætu sem minnir á hindber - gott jafnvægi á tungu með eftirbragði sem dvelur á tungu.
Ég hvet ykkur öll til að prófa lambaframpart - sérstaklega núna þegar hryggurinn er af skornum skammti.
Ef þið eldið hann efir þessari forskrift verður engin svikinn. Ég lofa!
Verði ykkur að góðu!
------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 13:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.