Færsluflokkur: Matur og drykkur
21.10.2010 | 19:52
Ítölsk kjötsósa heimsótt aftur: langelduð nautakjötstómatsósa með rigatoni, salati og brauðhleif og rauðvínsglasi
Ég vona að þessi færsla verði til þess að lesendur ákveði að bjóða mörgum vinum eða fjölskyldu í heimsókn og gleðjist saman yfir mat og drykk. Réttir eins og þessir eru sönnun þess að það er hægt að elda mikið af góðum mat - mjög góðum mat - fyrir marga án þess að það dældi hjá manni veskið of harkalega. Í þennan rétt eiga að fara bitar sem gjarnan eru ódýrir, en það þarf tíma til þess að gera þá ljúffenga og mjúka. Þannig er það eiginlega með flesta "óvinsælu" bitana af skepnunum: lambaframpartinn, svínahnakkann, eða skottbitann af nautinu. Allt eru þetta ljúffengir bitar af dýrinu - það þarf bara að "nudda" þá aðeins til að fá það besta úr þeim.
Þannig var nefnilega að við hjónin ákváðum að bjóða nokkrum nágrönnum í mat um helgina. Við buðum fjórum pörum ásamt börnunum þeirra. Ætli við höfum ekki verið eitthvað yfir tuttugu þegar allt var talið með. Og það var gaman. Börnin fengu að borða á undan svo var þeim komið fyrir uppi með leikföng eða fyrir framan sjónvarpið. Við skáluðum í G&T og síðan góðu rauðvíni. Og það var spjallað og hlegið og svo undir miðnættið var meira að segja sungið. Kæru gestir ... það var frábært að fá ykkur í heimsókn.
Svona eldamennska er mikið í uppáhaldi hjá mér um þessar mundir. Þetta er ekki tískueldamennska - ekkert fusion, ekkert verið að raða hlutum upp í turna eins og tíðkast á mörgum fínum veitingahúsum. Þetta er alvöru matur. Með einföldum en góðum hráefnum. Sem með smávegis nostri ná að ljóma og gleðja bragðlaukana. Ekkert við þessa matreiðslu er flókið - en hún er tímafrek. Og á þessum síðustu og verstu tímum - þá held ég að tímanum sé ágætlega varið í eldhúsinu! Eða hvað?
Annars er þetta í annað sinn sem ég blogga um þennan rétt. Og hann á það skilið - svo góður er hann. Þetta var eitt af þeim fyrstu réttum sem ég bloggaði um og hefur lengi verið uppáhald á mínu heimili. Það hefur engu máli skipt hversu mikið af þessari kjötsósu ég hef gert - hún hefur nær undantekningalaust klárast. Einn af mínum bestu vinum Börkur Sigþórsson gerir líka ljúffenga útgáfu af þessum rétti - kannski að hann deili því með okkur í athugasemdunum eða á Facebook.
Ítölsk kjötsósa heimsótt aftur: langelduð nautakjötstómatsósa með rigatoni, salati og brauðhleif og rauðvínsglasi
Eins og nefnt var áður þá er það eina sem þessi uppskrift krefur er tími! Það má eiginlega ekki elda þetta á skemmri tíma en svona 2-3 klukkutímum - en það þarf ótrúlega lítið af hafa fyrir þessu - Og þetta eldar sig eiginlega sjálft. Þess ber að geta að ég var að elda fyrir rúmlega tuttugu manns
Rúmlega 4 kíló af nautakjöti, mest bitum frá nautaöxl og skottbitar (ossobuco) er þvegið og þurrkað. Saltað vel og piprað og látið bíða á meðan grænmetið er undiðbúið og steikt. 2 heilir hvítlaukar er saxaður niður og sömu örlög hljóta 4-5 fremur stórir laukar - hvítir eða rauðir - það skiptir eiginlega ekki máli. 3-4 gulrætur eru flysjaðar og skornar í smáa bita og einnig þó nokkrar stangir af sellerí. Stór pottur er settur á hlóðirnar og grænmetið er steikt í vænum slurk af olíu - það er sennilega óþarfi að nota extra virgin olíu til að steikja upp úr - margir kokkar segja að svoleiðis olía missi sitt sérstaka bragð við steikingu og því sé óþarfi að spandera góðri olíu í slíkt - ég nota bara það sem hendi er næst! Mikilvægt er að brúna ekki grænmetið.
Þegar laukurinn er orðin glær er kjötið sett útí og brúnað á öllum hliðum í hóflegum skömmtum - passa sig að setja ekki of mikið af kjöti í einu í pottinn - annars sýður það bara. Við viljum að það brúnist. Saltað og piprað á milli. Kjötið er sett á disk á meðan allt er brúnað - mikilvægt að passa allan safa af kjötinu - ekkert má fara til spillis! Þegar búið er að brúna kjötið hellti ég einni flösku af rauðvíni saman við grænmetið - sauð áfengið og bætti síðan kjötinu saman útí aftur.
Þá setti ég 5 dósir af góðum niðursoðnum tómötum útí og jafnmikið af vatni. 2 litlar dósir af tómatapaste er einnig sett út. Mikilvægt er að grænmetið og kjötið sem gjarnan festist við botninn á pottinum losni frá þegar vökvinn er settur úti. Saltað og piprað á nýjan leik.
Ef fólk vill krydda á þessum tímapúnkti er mikilvægt að nota bara kryddjurtir sem þola langa eldun eins og lárviðarlauf eða rósmarín. Ég bjó til vönd af kryddjurtum; rósmarín, lárviðarlauf, timian, majoram.
Suðan er látin koma upp og leyft að sjóða í 1-2 klukkustundir með lokið á. Þá er lokið tekið af pottinum og svo fær rétturinn að malla og sjóða rólega niður. Þetta þarf að sjóða niður minnst um helming. Það er auðvelt að sjá hvenær kjötið er tilbúið - þá fer það eiginlega sjálft að detta í sundur og renna af beinunum. Smakka - ef réttinn vantar meiri kraft - t.d. ef lítið af beinum var með kjötinu þarf stundum að setja kraft - en yfirleitt ekki!
Þegar rétturinn fer að verða tilbúinn þá er rétti tíminn til að setja fleiri kryddjurtir sem þola minni eldun eins og basil og steinselju. Skera kryddið niður og hræra saman við sósuna. Mikilvægt er að smakka sósuna til á þessum tímapúnkti. Stundum eru tómatarnir súrir og þá þarf að sæta sósuna annað hvort með sykri eða jafnvel syndga með tómatsósu. Mikilvægt er að salta og pipra vel - alltaf Maldon og nýmalaðan pipar.
Gott pasta er soðið í miklu söltuðu vatni með smá olíu. Þegar pastað er að verða tilbúið er vatninu hellt af því - best að láta pasta í gróft sigti og hrista vatnið vel af - hafa hraðar hendur hér því að pastað þarf að komast aftur í pottinn. 2-3 ausur af sósu er sett yfir pastað og hrært vel þannig að það tekur allt rauðan lit. Látið standa í tvær til þrjár mínútur. Pastað sogar inn í sósuna og verður alveg frábært á bragðið.
Borið fram með fersku salati og svo baguette til að þrífa sósuna af diskinum í lok máltíðar. Ef einhver afgangur er af matnum - þá verður hann bara betri á degi tvö og jafnvel á degi þrjú.
Við vorum með ágæt vín með matnum. Ég keypti Coto Vintage Rioja frá því 2004 sem er á spánskt Rioja rauðvín gert úr 100 prósent tempranillo þrúgum. Þetta er ljúffengt vín. Dökkt og þykkt vín, kryddað í nefi með dökkum berjum og jafnvel súkkulaði á bragðið. Fjári gott vín og var líka vinalegt við pyngjuna.
Bon appetit!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.10.2010 | 20:04
Ljómandi kjúklinga tagine með kanil, þurrkuðum apríkósum og couscous með hvítvínssopa
Eitt af hliðarverkefnum Frakklandsferðarinnar var að finna verslun sem seldi Le Creuset Tagine. Í Bruges í Belgíu sá ég eina í lítilli verslun í einni af hliðargötum borgarinnar. Reyndist heldur dýr, 129 evrur, þannig ég var viss um að ég myndi fá hana á betra verði í einhvers staðar í Frakklandi. En allt kom fyrir ekki. Ég sá ekki einn einasta Le Creuset pott í þeim fjölmörgu verslunum sem ég stakk nefinu inn í, ekki nokkur staðar í þeim borgum sem við stoppuðum í - ekki einn einasta!
Ég hafði því gefið upp alla von að finna mér svona pott en var svo heppinn að detta inn á götumarkað í Strassborg þar sem ég fann þessa fínu, marokósku tagínu. Og hún var ódýr. 37 evrur! Sparaði fullt af pening. Sölumaðurinn gaf mér ýtarlegar leiðbeiningar hvernig átti að meðhöndla pottinn. Fyrst í bað í sólarhring, síðan fylla hana af mjólk og láta liggja í nokkra klukkustundir, skola vel og smyrja síðan með olíu. Fara varlega þegar hún er hituð upp. Fullt af reglum. Alltént hún lítur vel út.
Annars hef ég lengi haft hug á því að kaupa mér tagine. Og hvað er tagine nú eiginlega? Tagine er ákveðin tegund af potti/pönnu venjulega gerð úr þungum leir, terracotta, sem er með einkennandi loki sem oftast hefur keilulaga útlit. Svona eldunarílát eru ákaflega algeng í Norður Afríku; Marokkó, Líbíu, Túnis en ekki eins algeng í Evrópu. Það er þó eitthvað að fara að breytast. Evrópsk pottafyrirtæki hafa nýverið byrjað að framleiða svona potta, bæði Le Creuset, Emily Henri og Staub. Í síðasta hefti matartímarritsins Bon appetit var grein um ágæti þessarar tegundar eldunaríláta.
Og hvað er svona sérstakt við þessa potta? Það er kannski erfitt að lýsa því. Sumir færa rök fyrir því að lögunin geri það að verkum að vökvi safnist á annan hátt í lokið sem síðan þéttist aftur og fellur niður í kássuna sem verið er að elda - og þannig verður maturinn ekki eins þurr. Tagine þykir afar hentugt til langeldunar. Það er einnig hugsað að vera hentugt ílát til að bera matinn á borð í. Svo er hún auðvitað sniðin að matarhefðum þessa svæðis, þannig að auðvelt er að taka matinn upp úr tagínunni með höndunum eða brauðhleif eins og við á.
Ljómandi kjúklinga tagine með kanil, þurrkuðum apríkósum og couscous með hvítvínssopa
Ætli ég hafi ekki notað samtals 1,5 kíló af kjúklingaleggjum og upplærum. Fyrst skar ég af alla fitu og jafnvel alla húð. Síðan hitaði ég varlega olíu/smjör í tagínunni og þegar það var bráðið bætti ég við kryddunum; 2 tsk af kanil, 2 tsk af þurrkuðum engifer, 1 tsk af svörtum nýmuldum pipar, hálf teskeið af ceyenne pipar. Steikti kryddið um stund - lyktin í eldhúsinu verður auðvitað alveg dásamleg. Þá setti ég tvo lauka, niðursneidda, út í olíuna og steikti í nokkrar mínútur. Þá var kjúklingum bætt saman við og hann brúnaður í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Þá er 400 ml af góðu kjúklingassoði bætt saman við og svo 250 gr af gróft niðurskornum þurrkuðum apríkósum bætt saman við. Og síðan 3 msk af góðu hunangi hrært saman við og að lokum eru nokkrar vænar kóríandergreinar (auðvitað með laufunum á) lagðar ofaná. Þá er saltað vel og piprað og lokið sett á og þessu leyft að sjóða við lágan hita í tæpa klukkustund.
Rétt áður en maturinn er tilbúinn útbjó ég couscous eins og fram kemur á pakkanum og bar fram með matnum. Ég blandaði saman við couscous-ið nokkrum smátt skornum tómötum, agúrku, rauðlauk og nokkrum smátt skornum klettasalatsblöðum. Rétt áður en maturinn var borin fram, tók ég koríander greinarnar úr og henti og setti í stað þess nokkur fersk smátt skorinn lauf. Síðan sáldraði ég nokkrum ristuðum möndlum yfir og bar fram!
Með matnum vorum við með ljómandi gott hvítvín. Vín sem ég fékk mér seinast í fyrra. Eitt af mínum uppáhalds Chardonnay-um. Gullið og fallegt í glasi. Talsverður sætur ávöxtur kemur í ilminum. Ávaxtaríkt á tungu, þykkt og smjörkennt. Ljómandi gott.
Þetta var einn af fyrstu réttunum sem ég eldaði eftir að við komum heim úr Frakklandsferðinni. Og var alveg frábær. Engin vafi að ég eldi þennan aftur.
Bon appetit!
Matur og drykkur | Breytt 23.9.2011 kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.10.2010 | 19:38
Gómsæt fyllt lambasíða á Norðurafríska vísu með jógúrtsósu, kúmenbættum gulrótum og öllu tilheyrandi
Þennan rétt gerði ég í sumar þegar við vorum með góða gesti í heimsókn; Unni, Bjössa og son þeirra, Dag - virkilega gott að fá þau loksins í heimsókn! Það var mikill gestagangur hjá okkur hjónunum í Púkanum í sumar - Það má segja að það hafi ekki dottið dagur úr frá því að við komum frá Íslandi í byrjun júlí þar til við fórum til Frakklands um miðjan ágúst. Og það var eldað, það var grillað, það var hlegið, spiluð tónlist og það var skálað. Og það var gaman. Mér finnst virkilega gaman þegar húsið iðar af lífi. Takk, kæru gestir fyrir komuna! Komið sem oftast og stoppið sem lengst! Hvað væri lífið án matarboða með góðum vinum og ættingjum?
Nú er komið haust. Ekki það að það sé eitthvað minna að gera. Einhvern veginn finnur maður sér alltaf verkefni eins og sjá má á blogginu mínu upp á síðkastið. Eldaði fyrir heilan her af fótboltagörpum um daginn á Klakamótinu. Þeim á Fréttablaðinu fannst þetta meira að segja fréttnæmt og birtu viðtal við mig í blaðinu í dag! Það má sjá hérna. Síðan gerði ég íslenska kjötsúpu fyrir nágranna mína í Púkagrandanum að hætti Helgu Sigurðardóttur. Var meira að segja með harðfisk með smjöri og heimagerðar flatkökur með hangikjöti í forrétt sem virtust renna ljúflega niður. Mér sýndist þeim líka vel við þetta - þau voru alltént kurteis og kláruðu af skálunum sínum. Var með þunnar íslenskar pönnukökur í eftirrétt með rjóma og heimagerðri brómberjasultu. Það fannst mér gott! Á reyndar eftir að blogga eitthvað um kjötsúpuna.
Jæja, víkjum nú að rétti dagsins! Eins og ég hef nefnt áður hef ég verið að lesa mér til um Norður-afríska matargerð. Mér finnst hún afar heillandi. Og það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt. Norður-Afríkubúar deila ást sinni á lambinu með okkur Íslendingunum og það er hægt að sækja margar ljúffengar uppskriftir úr smiðju þeirra. Til dæmis þessa.
Gómsæt fyllt lambasíða á Norður-Afríska vísu með jógúrtsósu, kúmenbættum gulrótum og öllu tilheyrandi
Þetta er ágætis kreppuuppskrift. Lambaslög eru með því ódýrasta sem hægt er að kaupa af lambinu og þessi réttur sönnun þess að góður matur þarf ekki að vera dýr. Ef maður vill spara má alltaf kaupa ódýrari bita og ná upp gæðunum með langri og rólegri eldun. Þannig verður næstum hvaða kjötbiti að veislumáltíð - vittu til!
Fékk lambasíðu hjá slátraranum í Holmgrens í Lundi. Eftir þetta ævintýri með fótboltamótið erum við orðnir mestu mátar. Hann virðist hafa gaman af mér og vitleysunni sem ég tek mér fyrir hendur! Ætli næst verði ekki að gera grísasultu fyrir tengdapabba (en það er efni í aðra færslu - Eddi ... þetta er ekki loforð!).
Útbjó couscous eins og leiðbeiningar á pakkanum sögðu til um. Blandaði saman við handfylli af niðurskornum þurrkuðum apríkósum, einum smáttskornum rauðlauk, nokkrum smátt skornum hvítlauksrifjum, 2 tsk af súmac (sem er fremur súr kryddjurt - má nota sítrónusafa í staðinn), 1 tsk af muldu kúmeni og síðan handfylli af ristuðum furuhnetum. Og svo, smá olíu, salt og pipar!
Síðunni var síðan rúllað upp og teinar reknir í gegn til að hindra að hún "afrúllist" við eldun. Penslað með olíu, saltað og piprað og bakað við 150 gráður í 1 og hálfa klukkustund. Í lokin var hitinn aukinn aðeins til að fá puruna aðeins til að poppast!
Útbjó flatbrauð. Hef bloggað ansi oft um þessi flatbrauð. Einföld eins og ég veit ekki hvað og síðan ristuð á þurri pönnu.
Uppskriftin er einföld. Fyrst að vekja 2 tsk af geri í 1 dl sykurbættri volgri mjólk. Síðan að blanda saman 500 gr af hveiti, 2 tsk af salti og 2 msk olíu. Þegar gerið hefur lifnað við er því blandað saman við hveitið ásamt 200 ml af filmjölk (Ab mjólk) og smá vegis af volgu vatni og hnoðað þar til það er orðið að mjúku og fallegu deigi. Biti og biti er klipinn af deiginu, það síðan flatt út, penslað með jómfrúarolíu og steikt á pönnu þar til gullið og girnilegt.
Vorum með salat með matnum, tvennskonar salöt. Hefðbundið salat með grænum laufum, rauðum paprikum, agúrku og rauðlauk. Svo vorum með heitt salat með forsoðnum og síðan léttsteiktum gulrótum. Fyrst voru gulræturnar flysjaðar og síðan forsoðnar í nokkrar mínútur. Síðan teknar upp úr vatninu og síðan steiktar í olíu með smá kúmeni. Sett í skál og blandað með ferskri steinselju og sítrónusafa, salti og pipar.
Með matnum drukkum við ljómandi rauðvín sem ég hef nokkrum sinnum bloggað um áður. Sennilega þykir mér það bara ansi gott? Það er Coto de Imaz Rioja Reserva frá Spáni frá 2004. Merkilega góð kaup finnst mér - kraftmikið Roija vín; þykkt í glasi. Ilmur af vanillu og eik. Vínið ku hafa fengið að liggja á eikartunnum um skeið. Bragðið er gott, þétt og í því mikill ávöxtur.
Jæja, hérna er svo búið að raða á disk. Hvíta jógúrtsósan var ljúffeng - og einföld. Bara jógúrt, raspaður hvítlaukur, salt, pipar, smá sykur og sítrónusafi. Tónað af eftir smekk. Kraftmikið, einfalt og gott.
Varð að hafa eina svona nærmynd af matnum. Apríkósurnar voru orðnar næstum að sultu eftir eldunina og á móti hvítlauknum, rauðlauknum og ristuðum furuhnetunum voru alveg gómsætar. Þar sem allt kjötið er umlukið smávegis fiturák verður það ekki vitundarvott þurrt. Bráðnaði í munni og var með knassandi puru. Namminamm.
Hlakka til að prófa þetta með íslenskri lambasíðu.
Bon appetit!
Matur og drykkur | Breytt 23.9.2011 kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2010 | 20:09
Klakamót í Lundi: 33 langelduð lambalæri, 40 lítrar af rjómasveppasósu, 40 kartöflugratín og 40 kíló af salati fyrir svanga fótboltagarpa
Jæja ... það verður að segjast að það er erfitt að vélrita þessa færslu þar sem ég er með harðsperrur í öllum skrokknum, meira að segja í fingrunum. Um helgina var haldið klakamótið í knattspyrnu og var að þessu sinni haldið í Lundi. Þetta mót er fyrir Íslendinga sem eru búsettir í Skandinavíu og hafa áhuga á því að leika sér í fótbolta. Þetta mót hefur verið haldið nokkuð oft, en menn greinir þó eitthvað á um það hvenær fyrsta mótið var haldið - mögulega var fyrsta mótið 1981, '84 eða '86. En óháð því mun þetta hafa verið stærsta mótið sem haldið hefur verið hingað til. Í þetta sinn tóku 272 glaðir Íslendingar þátt í mótinu - 26 lið skráð til þátttöku.
Og stemmingin var frábær. Menn mættu hvaðanæva að, allt frá Uppsölum í Svíþjóð og sunnan frá Sönneborg í Danmörku og allsstaðar á milli. Áhugi á fótbolta, bjórþorsti og íslenski uppruninn sameinaði alla! Fótboltaliðið Þungur hnífur frá Lundi skipulagði mótið og samkvæmt heimildum munu þeir hafa hafist handa fyrir sex mánuðum. Eiginkonur þeirra, húsmæðramafían svokölluð, sá um veitingasölu og fótboltaliðið Þyngri hnífur hljóp einnig undir bagga.
Það má segja að ég hafi verið plataður í að sjá um eldhúsið - það er alveg satt! Fyrir mánuði síðan fékk ég skilaboð á Facebook um hvort að ég væri til í að vera til ráðleggingar um matseld fyrir mótið. Það er nú einfalt að gefa ráð! Síðar fékk ég símtal frá öðrum sem nefndi að margir væru til skrafs og ráðagerða. Tveimur vikum fyrir mótið var svo haldinn fundur þar sem í ljós kom að enginn væri kokkurinn, nema ég ... og ég er ekki einu sinni kokkur! Enn ég var viljugt fórnarlamb - þannig að ég vældi ekki svo mikið að hafa verið blekktur af Hnífunum og lét því til leiðast, með bros á vör ... var það ekki annars?
Við hittumst á fundi og lögðum á ráðin. Við settum saman matseðil, eitthvað sem þreyttum og svöngum fótboltagörpum ætti að þykja gott eftir að hafa sparkað í bolta allan daginn og skolað niður nokkrum öldósum.
Og það var ekkert lítið af mat sem var pantaður fyrir kvöldverðinn. Gert var ráð fyrir því að 272 fótboltagarpar væru svangir ... mjög svangir. Því pantaði ég 100 kíló af lambalærum, tæp 80 kíló af kartöflum, 40 lítra af rjóma, 3 kíló af smjöri, 10 kíló af osti, 12 kíló af sveppum, 15 kíló af káli, 140 tómata, 40 paprikur, 3 kg af fetaosti, fullt af kryddi, salti og pipar og margt margt fleira. Mótið var haldið rétt fyrir utan Lund í Södra Sandby í nýjum skóla. Þar fékk ég elda í tveimur heimilisfræðistofum. Allt splunkunýtt. 16 eldavélar og 16 ofnar. Ansi mikið til að henda reiður á!
Ég náði meira að segja að vera með í þremur leikjum yfir daginn. Skoraði meira að segja tvö mörk með liðinu Tæklandi Læknar. Liðsmenn tæklandi lækna voru undrandi yfir því að ekki sigra mótið ... mjög undrandi! Okkur gengur vonandi betur á næsta ári!
Klakamót í Lundi: 33 langelduð lambalæri, 40 lítrar af rjómasveppasósu, 40 kartöflugratín og 40 kíló af salati fyrir svanga fótboltagarpa
Jæja - þá er að hefjast handa. Fyrst var að forkrydda lambalærin. Byrjaði á því að nudda þau upp úr jómfrúarolíu, síðan nóg af pipar, salt og síðan með blöndu af timian, bergmyntu, rósmarín og lavender. Látið standa yfir daginn og marinerast á meðan aðrir liðir á matseðlinum voru undirbúnir.
Lambalærunum var síðan komið fyrir í 16 ofnum og bakað við lágan hita í 2-3 klukkutíma þar til að kjarnhitinn náði 60-65 gráðum. Þá voru þau tekin út og látin standa við herbergishita í 30 mínútur undir álpappír. Á meðan var grillið sett í gang. Lærin voru síðan kláruð á grilli og steikt þar til þau voru brún og stökk að utan. Þá var kjötið skorið af beininu. Áður en það var sneitt niður smurðum við ríflega af ferskri kryddjurtablöndu yfir kjötbitann.
Kryddblandan sem ég útbjó samanstóð af fullt af ferskri steinselju, majoram, timian, bergmyntu og rósmarín, jómfrúarolíu, sítrónubörk, balsamikediki og auðvitað salti og pipar. Myndin sýnir kryddblönduna á forstigi - átti þarna eftir að bæta jómfrúarolíunni og edikinu samanvið.
Gerðum kartöflugratín - fjörutíu stykki!. Fyllti fjörutíu 3L eldföst mót hvert og eitt með niðursneiddum kartöflum, handfylli af smáttskornum lauk, 1 msk af hvítlauk, nóg af salti og pipar, þurrkað rósmarín, 1 L af rjóma, nokkrar klípur af smjöri, 400 gr af osti sett ofan á. Bakað í ofni í 6 korter við 180 gráður.
Gerðum einnig salat- kannski ekki við - dömurnar á myndinni sáu um alla vinnuna. Þær skáru niður icebergsalat, tómata, papríkur og muldu svo fetaost yfir. 0g síðan var öllu auðvitað blandað saman. Ég gerði þó vinagrettuna úr jómfrúarolíu, smáttskornum hvítlauk, balsamediki, salt, pipar og sítrónusafa sem var síðan blandað saman við salatið.

Sósan var gerð að fyrirmynd Ragnars Blöndals kokks (hann hafði einnig áhrif víðar!) sem eldaði fyrir sextugsafmæli foreldra minna í sumar. Ég breytti lítilsháttar útaf. Takk nafni! Fyrst bræddi ég smjör í potti. 2 kíló smjör á móti ellefu kílóum af sveppum. Steikti ansi lengi, sveppirnir gáfu frá sér vökva sem fékk síðan að sjóða niður, saltað og piprað. Síðan var sveppunum leyft að ristast í pottinum og þegar þeir voru fallega gullinbrúnir setti síðan rúman tvo lítra af rauðvíni - Drostdy Hof úr búkollu. Sauð niður vínið. Síðan setti ég 20 lítra af rjóma og svo 15 lítra af kjötsoði. Saltað og piprað. Sósan fékk síðan að sjóða nokkra klukkutíma. Passaði bara að bæta aðeins á soði í pottinn yfir daginn og líka að hún brynni ekki við botninn. Hún þykknaði hægt og rólega og það þurfti einungis að nota smáræði af maizenamjöli til að þykkja hana í lokin.
Vil taka sérstaklega fram að svona verkefni var ekkert sólóprojekt, því fer fjarri. Fyrr um daginn naut ég góðrar aðstoðar Tungs hníf sem komu og hjálpuðu til við að skera niður ýmislegt. Seinna um daginn var nokkrum duglegum eiginkonum skipt inná: Þórey, Jara, Björk og Lóa. Hvílíkir dugnaðarforkar. Vinaliðið Tyngri hnífur kynnti undir kolunum og bar niður úr eldhúsinu. Þegar við vorum að grilla vatt sér að herramaður að nafni Níels og stóð í ströngu við grillið og svo kom kokkur frá Danmörku, Siggi, og hjálpaði okkur að úrbeina herlegheitin. Takk öllsömul fyrir hjálpina.
Matur og drykkur | Breytt 23.9.2011 kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.9.2010 | 20:05
Alltaf eitthvað nýtt: Ofnbakaður hvítskeggur með hunangs og balsamik gljáa og villtum sveppum

Ég var í seinustu viku í Danmörku. Þar var ég á á Lollandi þar sem ég heimsótti foreldra kollega míns sem ég starfa með hérna í Lundi. Hjónin, sem eru bæði læknar, reka heilsugæslustöð og hafa búið þarna lengi og þekkja hvern krók og kima. Þau tóku ákaflega vel á móti mér. Mikið náttúrufólk og að vinnu lokinni fóru þau með mér útum allar koppagrundir til að sýna mér hvað Lolland hafði upp á að bjóða. Á miðvikudaginn fórum við til Kraganes þar sem þau eiga lítið sumarhús. Ég fékk lánaðar vöðlur og við lögðum net langt út í sjó. Þegar við höfðum lagt netin, buðu þau mér með sér í gönguferð inn í skóginum. Markmiðið var að finna sveppi - og það var alveg krökkt af þeim.
Við týndum svartar kantarellur og síðan einn uppáhalds svepp þeirra Svía, Karljohan svepp, sem fékk það nafn eftir að Karl Jóhann XIV Svíakonungur lýsti yfir miklu dálæti á þessum svepp og mun hafa gert tilraunir til að rækta hann. Hann finnst oft í nágrenni við eitraðan svepp, Amantatia Muscaria, og maður á víst að passa sig á honum hafi maður ekki áhuga á því að svífa í hæstu hæðir með ofskynjunum og ranghugmyndum. Sumir segja að jólasveinninn sjálfur eigi að hluta til rætur sínar að rekja til þessa svepps- en það er allt önnur saga?
Í skóginum var líka allt krökkt af brómberjum sem við týndum líka - ætli við höfum við ekki fengið rúm tvö kíló. Alveg feikinóg. Gerði þessa prýðisgóðu brómberjasultu. Það var einfalt. Blandaði jafnmiklu af sultusykri (pektínbættum sykri) og sauð kröftuglega í 5-7 mínútur. Leyfði að kólna aðeins í pottinum og færði svo yfir í sótthreinsaðar krukkur. Namminamm.
Daginn eftir, fyrir sólarupprás, gengum við aftur út að ströndinni að vitja netanna. Aftur í vöðlurnar og óðum út í haf. Veðrið var gott, smávegis vindur sem hressti mann við í morgunsárið. Þegar við vorum hálfnaðir að draga netin inn í bátinn reis sólin yfir Fejö. Beautiful! Við fengum líka ágætlega í netin. Tvo hvítskeggja, fimmtán flatfiska (Skrubber) og svo einn aborra. Hvítskeggjar eru nýir fiskar á þessum slóðum. Þessi fiskur kemur frá Miðjarðarhafinu og með hlýnandi sjávarhita hefur hann fært sig á norður á bóginn. Þeir nærast á þangi, eru grænmetisætur ef svo má segja og verða ansi stórir - kannski 2-3 kíló. Þykkur og kjötmikill fiskur sem minnir einna helst á lúðu að mínum dómi.
Þessa uppskrift gerðu þau hjónin handa mér og rétturinn var svo góður að ég endurtók hann strax eftir að heim var komið. Ég gæti best trúað því að það væri auðvelt að endurgera þennan rétt með þverskorinni lúðu eða öðrum þéttum hvítum fiski.
Alltaf eitthvað nýtt: Ofnbakaður hvítskeggur með hunangs og balsamik gljáa og villtum sveppum
Fyrst er að hreinsa fiskinn og flaka. Það er lítið mál að hreinsa beinin - þau fara í einu handtaki þegar flakið er skorið frá. Gerði soð úr beinagrindinni. Skar síðan bita, penslaði með olíu og saltaði og pipraði. Saxaði síðan lauk niður smátt, nokkur hvítlauksrif og steikti í smjöri. Passa sig að brúna ekki laukinn, hann á bara að mýkja og karmellisera. Þegar hann var tilbúinn var laukurinn setur í skál og smátt skornum börk af einni sítrónu (passa sig að taka einungis gula af berkinum - það hvíta er rammt og gefur biturt bragð) blandað saman við. Þessu er svo dreift yfir fiskinn. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 12-15 mínútur. Síðustu mínúturnar er kveikt á grillinu þannig að lauk/sítrónublandan grillast tekur gylltan lit.
Fiskurinn er síðan borin fram á beði af sveppum. Notaði nokkrar handfyllir af svörtum kantarellum og svo kannski 2-3 handfylli af niðursneiddum karljóhan sveppum. Sveppirnir voru fyrst steiktir upp úr smjöri/olíu. Saltað og piprað. Síðan 1 glas af hvítvíni - soðið niður. Síðan 1-2 glös af fiskisoði og það síðan soðið niður um helming. Síðan var 250 ml af rjóma bætt saman við og soðið niður þar til þykkt og fallegt. Setti einnig smávegis af steinselju með sveppunum.
Gerði einnig balsamik/hunangs glája. Setti hálfan bolla af balsamikediki í pott og hitaði upp. Síðan 3 msk af hunangi og svo safi af einnig sítrónu. Blandað vel saman og soðið vel niður þar til blandan þykknar. Það verður að passa sig að hún verði ekki of þykk - þá verður hún af karmellu á disknum. Það má alltaf þynna blönduna meira með smá vökva - og hita varlega aftur.
Borið fram með góðu hvítvíni. Ég var með Montes Alpha Chardonnay 2007 sem er afbragðs Chardonnay frá Chile. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég hef þetta vín á boðstólunum. Ég hef bloggað um það nokkrum sinnum áður. Þetta er kröftugt hvítvín - með miklum ávexti - eikarkeim og smjörkenndum tónum alveg eins og Chardonnay nýja heimsins eiga að vera. Mjög ljúffengt vín.
Bon appetit.
P.S. Er annars að undirbúa matinn fyrir íslenska fótboltagarpa búsetta á Norðurlöndunum. Lambalæri fyrir 250 manns með öllu tilheyrandi. Sjáum hvernig það gengur!?!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2010 | 16:03
Viva Frakkland: Grilluð Nautasteik með dijon sinnepi, grilluðum brie og steiktum kartöflum
Daginn eftir héldum við leið okkar áfram suður í áttina að Dijon, þar gistum við á tjaldstæði í borginni. Fórum í hjólatúr um borgina þegar við komum. Um nóttina gerði algert úrhelli og regnið dundi á bílnum. Að vissu leyti er það notalegt að liggja og lúra undir buldrandi regninu. Sem betur fer stytti upp síðla morguns og við fórum á kreik. Eftir síðbúinn morgun/hádegisverð fórum við aftur á hjólunum inn í Djion, skoðuðum Notre Dame enn ein óhemjufögur og voldug kirkjubygging. Sátum þar um stund. Sonur minn, Vilhjálmur, hefur alltaf miklar áhyggjur af Jesú og hvers vegna hann hangir alltaf á krossinum. Þó virðist hann hafa gaman af því að skoða kirkjur vill kíkja í hvern krók og hvern kima. Valdís hefur meiri áhuga á bænarstöðunum í kirkjunni, þar sem maður getur kveikt kertaljós og sent einhverjum ná/fjarkomnum góðar kveðjur í huganum. Síðan fundum við Tourist info og fengum fleiri kort og fórum í skipulega gönguferð um borgina. Virkilega fögur borg með fallegum og tignarlegum byggingum og fallegum strætum.
Seint um eftirmiðdaginn fórum við af stað aftur og keyrðum suður frá Dijon í átt að Beaune og þar er maður kominn á helstu slóðir Búrgundarvína. Flest búrgúndarvín eru Pinot Noir og eru ótrúlega breytileg víngarða á milli. Við keyrðum suður til lítils smábæjar, Change, og fengum að gista á liltum víngarði sem lá í útjarði bæjarins, Domaine Antonine des Echards. Öðru megin við grindverkið bitu nokkrar kusur safaríkt grasið og hinum megin við okkur voru vínviðirnir, Pinot noir.
Eigandi víngarðsins kom út og heilsaði upp á okkur og bauð okkur í heimsókn að bragða vínin hans. Hann hafði sennilega verið búinn að smakka aðeins áður hress og skemmtilegur. Hrákadallurinn var hvergi nálægur og við fórum rausnarlega í gegnumnokkrar tegundir vína sem hann framleiddi. Byrjuðum á tveimur hvítvínum, síðan rósavíni og í lokin þrjár tegundir rauðvíni. Mér leist áfaflega vel á þetta, smökkunin hafði losað um budduna og því fór svo að við keyptum tvo kassa af víni. Við kvöddum síðan bóndann með virktum sem leysti okkur út með afganginn af rósavíninu.
Viva Frakkland: Grilluð Nautasteik með dijon sinnepi, grilluðum brie og steiktum kartöflum
Ég hafði að sjálfsögðu keypt stórar krukkur af djion sinnepi, Edmond Falliot, bæði af hreinu og síðan grófu. Um kvöldið grilluðum við nautasteik með dijon sinnepi. Grilluð nautasteik með dijon sinnepi, salati, kúrbítsneiðum og auðvitað búrgúndarvíni. Svona matargerð er eins einföld og hugsast verður. Þannig getur það verið þegar maður er með gott hráefni í höndunum.

Nautakjötið var saltað og piprað og síðan smurt rausnarlega með djion sinnepi og leyft að standa í 30-40 mínútur. Á meðan er grillið sett saman og kynnt undir kolunum.
Sósan var í raun bara hitaður Brie ostur. Fjarlægði hann úr umbúðunum og stakk síðan nokkur göt á ostinn með gafli. Síðan skar ég hvítlauk í helming og nuddaði ostinn með honum, vafði honum síðan inn í álpappír. Áður en honum var lokað hellti ég smá hvítvíni yfir og pakkaði honum svo alveg inn. Sett á grillið og leyft að sitja þar þangað til að maturinn var tilbúinn.
Steiktum einnig nokkra kartöflubáta á pönnu til að hafa með matnum. Grillaði einnig nokkrar kúrbítssneiðar með, bara penslaðar uppúr smá olíu, salt og pipar og svo grillað. Einfalt og gott. Hef sjálfur verið að dunda við að rækta kúrbít. Árangurinn hefur verið góður. Læt fylgja með mynd að því sem beið í garðinum þegar heim var komið.
Bon appetit
Matur og drykkur | Breytt 23.9.2011 kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2010 | 18:55
Frakklandsferð: Steiktur kjúklingur með kantarellum og Chablis hvítvín í dásemdar Chablis
Eftir tvo ljúfa daga í smábænum Epernay í hjarta Champagne héraðsins lá leiðin suður eftir sveitavegum í áttina til Búrgúndarhéraðs. Búrgúnd var fyrr á tímum sjálfstætt ríki í Evrópu áður en að það varð hluti af Frakklandi. Héraðið er auðugt; öflugur landbúnaður, nautagriparækt og svo auðvitað búrgúndarvín. Og ekki vín í lakari kantinum. Þekktast á alþjóðavísu er kannski Chablis í norðvesturhluta héraðsins og síðan hefðbundin búrgúndarrauðvín suður af Dijon í áttina að bænum Beaune.
Fyrsta stoppið á leiðinni var Chablis, sem er smábær - þar búa einungis 2700 íbúar sem á einhvern hátt tengjast víniðnaðinum sem umlykur bæinn. Þurrt hvítvín hefur verið aðalmálið í Chablis um aldaraðir. Undir lok nítjándu aldar var vínviður á yfir hundrað þúsund ekrum og var Chablis hvítvín flutt út um gjörvalla Evrópu og miklu víðar. Sveppasýking í vínvið sem tröllreið Evrópu 1893 lagði Chablis nánast í rúst og féll framleiðsla niður í u.þ.b. 500 ekrur á nokkrum áratugum. Vínræktin í héraðinu tók ekki við sér fyrr en um miðja tuttugustu öldina. Uppbygging hefur síðan verið upp á við en er enn langt frá því að vera í nánd við það sem var fyrir 120 árum síðan. Þessi litli bær er sérstaklega fallegur. Maður hefur á tilfinningunni að farið sé aftur í tímann. Við lögðum bílnum í bæjarkantinum, gengum um bæinn og keyptum í matinn. Kjúklingabringur og kjúklingaleggi hjá slátrarnum, kantarellur og creme frais frá fallegri grænmetis- og ostabúð, Chablisvín frá einum vínræktenda og svo héldum við út í sveitina.
Fengum að leggja bílnum á vínekru Jean Marc Brocard sem var 5 km fyrir utan bæinn. Þar gátum við lagt við hliðina á gömlum kirkjugarði sem lá að yfirgefinni kirkju. Útsýnið var stórkostlegt! Horfðum framhjá kirkjunni yfir vínekrurnar - hvílík stemming. Tókum fram grillið og gashelluna. Lékum okkur með útidótið með krökkunum og þegar það fór að halla að kvöldi hófst ég handa við kvöldverðinn. Yann Tiersen lék undir - hljómskífan úr kvikmyndinni Amelie hefur sjaldan verið eins viðeigandi.
Steiktur kjúkling með kantarellum og grilluðu camenbertgratíni
Fyrst var að skera niður sveppina - 300 gr af nýjum ilmandi kantarellusveppum - ásamt einum gulum lauk og nokkrum rifjum af rósahvítlauk. Steikt í smá smjöri/olíu þangað til mjúkt og karmelliserað. Saltað og piprað. Sett í skál. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður og steiktur á sömu pönnu og sveppirnir þangað til hann hefur brúnast létt að utan. Glasi af Chablis hvítvíni var þá bætt á pönnuna - áfengið soðið út og leyft að sjóða niður um þriðjung. Þá er sveppum/lauknum bætt aftur á pönnuna ásamt 300 ml af creme frais, tveimur matskeiðum af Dijon sinnepi ásamt meira salti og pipar.
Með matnum gerði ég einnig kartöflugratín. Niðursneiddar og flysjaðar kartöflur voru lagðar í álpappír sem hafði verið smurður með smá jómfrúarolíu. Setti á milli nokkrar sneiðar af camenbert osti, kannski 50-60 ml af rjóma, hvítvínsskvettu, smá mjólk, salt og pipar. Álpappírnum vafið utan um - með smá gati á toppnum til að hleypa lofti út (þannig sýður vökvinn niður og þykknar). Ætli gratínið hafi ekki fengið 5-6 kortér á grillinu. Það var mikið spjallað undir Chablis himninum og því tók eldamennskan aðeins lengri tíma. Að vera lengi að elda hefur líka aldrei drepið neinn!
Að sjálfsögðu fengum við síðan kalt og þurrt ávaxtaríkt Chablis frá nærliggjandi vínekru - Jean Marc Brochard Petit Chablis frá 2009. Þvílíkt og annað eins. Stemmingin var meiriháttar.
Bon appetit!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2010 | 18:56
Frakklandsferðasaga: Bratwurst í Þýskalandi, kræklingar í Brugge, kampavín og fois gras í Champagne
Þetta er verst undirbúna ferð sem við höfum nokkru sinni farið í. Eina sem var tilbúið áður en að við lögðum af stað var að við höfðum pantað Ford Rimor Katamarano Sound húsbíl frá einhverju fyrirtæki sem auglýsti á Barnalandi þeirra Svía, www.blocket.se. Þar höfðum við fundið auglýsingu frá henni Ingalill sem leigði okkur bílinn. Það eina annað sem við höfðum gert var að lesa uppskriftir úr ýmsum frönskum matreiðslubókum, svo sem; Larousse Gastronomique, Escoffier, My French Kitchen, Sælkeraferð um Frakkland, The Art of Mastering French Cooking og Provence: The beautiful cookbook. Annars höfðum við ekki skipulagt nokkurn hlut. Jú ... við vissum nokkurn veginn hvaða hluta Frakklands við ætluðum að skoða en annað ekki!
Það var ekki leti um að kenna ... nei, sannarlega ekki. Blessunarlega hefur verið nóg að gera síðan við komum heim frá Íslandi. Fór beint í hérað í Danmörku með Snædísi og Villa og þegar við komum heim kom mamma frá Íslandi með Valdísi. Þegar hún fór komu Kolbrún mágkona mín, eiginkona hennar, Inga Dóra, ásamt sonum þeirra; Marteini og Patreki. Eftir að þau fóru leið einn dagur án gesta frá Íslandi, en þá notuðum við tækifærið og buðum skvassfélaga mínum og fjölskyldu hans í mat. Daginn eftir fengum við góða vini, Unni og Björn Thors og son þeirra Dag. Tveimur dögum eftir að þau hurfu á braut, fengum við vini mína og kollega the Fab 8 í heimsókn yfir helgina. Og einhvers staðar þarna á milli héldum við upp á 5 ára afmæli Villans. Stanslaust fjör stanslaust gaman ... ekkert skipulag. Lesi einhverjir af gestum okkar þetta og hugsi með sér að þeir hafi gert fríið okkar verra, fái þeir að hugsi sig um tvisvar. Bæði koma þeirra og þetta frí hefur verið stórkostlegt! Takk elskur fyrir að gera sumarið okkar skemmtilegra!
Einn af kollegunum bentu okkur á France Passion. Samtök sem maður getur keypt aðgang að og þannig komist inn í net bænda og vínræktenda sem leyfa ókeypis gistingu á lóðum sínum. Við lögðum því götu undir dekk á mánudagskvöldið án þess að hafa hugmynd um hvar eða hvernig við ættum að redda gistingu.
Fyrst sóttum við Valdísi í Kaupmannahöfn en hún hafði verið hjá bestu vinkonu sinni, Önnu Katrínu, um helgina. Þaðan keyrðum við suður í átt að Lollandi þar sem við fundum tjaldstæði seint um kvöld, í Bandholm á Lollandi. Þegar við vöknuðum blasti við okkur glæsilegt útsýni út á hafið sem var 30 metrum fyrir framan okkur (þessu höfðum við ekki tekið eftir þegar við komum). Snæddum einfaldan morgunverð og lögðum af stað.
Eyddum góðum hluta af deginum á hraðbrautinni, þangað til að börnin gáfust upp. Þá stoppuðum við mitt á milli Bremen og hollensku landamæranna í fallegum skógi rétt fyrir utan Tecklenburg. Þar fengum við gott stæði fyrir lítinn pening með öllu inniföldu: rafmagni, rusli, WC og funheitri sturtu. Elduðum veislumáltíð um kvöldið, að sjálfsögðu í þýskum stíl. Grillaða ferska bratwurst með sætri kartöflumús, sauerkraut með beikoni og ísköldum þýskum pilsner, Meister Pils. Namminamm.
Matseldin var einföld. Setja saman ferðagrillið (takk Þórir og Signý Vala fyrir lánið). Kynda upp grillið. Grilla bratwurst við fremur lágan hita ætli það hafi ekki tekið 30-40 mínútur. Þetta er, jú, svínakjöt þannig að það á víst að gegnelda. Við keyptum sauerkraut, sem er gerjað hvítkál, sem við suðum í 10 mínútur. Vatnið látið renna af. Panna sett á hlóðirnar og niðurskorið beikon steikt þar til stökkt og þá er kálinu bætt saman við og steikt í smá stund saman. Flysjuðum 600 gr af kartöflum ásamt einni sætri kartöflu sem var síðan soðið þangað til mjúkt. Vatninu hellt af og stappað saman með smá smjöri og rjóma, salti og pipar. Borið fram með ísköldu öli.
Daginn eftir ókum við til Brugge í Belgíu. Ægifagur bær sem áður var hafnarbær. Fyrr á öldum var þetta mikil verslunarmiðstöð sem gerði borgarbúa auðuga. Og þeir eyddu í hús, sali og kirkjur. Frá því um árið 1000 hafa menn búið á þessu svæði en mesta uppbyggingin átti sér stað upp úr 1400 til 1600 og síðan aftur seinustu 150 árin. Að taka gönguferð um Brugge er eins og að fara í tímavél til miðalda, nema hvað hundrað þúsund aðrir túristar komu með í ferðina.
Við snæddum kvöldverð á túristabúllu ég fékk mér Moules Marinéeres og bjór frá Brugge. Við prófuðum tvo bjóra; annars vegar Brugge Zot og hins vegar Bruges blond. Keimlíkir bjórar dæmigerðir hveitibjórar; goskenndir og fremur sætir. Mér fannst þeir ekkert sérstakir sorry brugians! Maður veit á leiðinni inn hvernig þeir eiga eftir að fara með ristilinn og þegar maður ferðast í húsbíl er það aldrei vinsælt.
Ótrúlegt en satt þá fengum við stæði á eina tjaldstæðinu í Brugge. Þó á bílastæðinu en það var í lagi þar sem við komum seint í hús og fórum heldur snemma. Stefnan var tekin rakleiðis á Champagne héraðið. Ástæðað er augljós KAMPAVÍN. Stoppuðum á tourist info í Reims og fengum okkur gönguferð. Stoppuðum og fengum okkur Crepes í síðbúin hádegisverð enda allir svangir. Crepes camparde: með sýrðum rjóma, lauk og lardons (beikon) .Namminamm. Á leiðinni frá Brugge til Frakklands keyrðum við framhjá þessum. Have a nice...
Keyrðum síðan í gengum Champagne, milli fallegra Chardonnay og Pinot grigio akra til höfuðstaðarins, Epernay. Stoppuðum í bakaríi á leiðinni sem og hjá slátrara, í kaupfélaginu og þegar komið var á tjaldstæðið vorum við búin að safna í glæsilega máltíð. Baguette, brie, rjómaost, Pate en croute, jambon depersille, góða pylsu, pate de fois, quiche lorraine, sultu, rilette, rauðvín og að sjálfsögðu kampavín. Sofnuðum sæl og glöð! Hvernig er annað hægt?
Í dag fórum við í sund, hjóluðum í gegnum bæinn á ótrúlega lélegum vegum og gangstéttum. Sundlaugin var á hinum enda bæjarins. Epernayians hafa augljóslega sparað í gatnagerð og sett öll eggin í sundlaugina. Mjög glæsilega, þyrping lauga af ólíku tagi! Frakkarnir virðast þó hafa aðra hugmyndum hreinlæti og við sturtuðum okkur öll saman ásamt öllum hinum...í sundskýlunum.
Þegar heim var komið bjó ég til forrétt uppáhald dótturinnar. Fois gras! Steikt við háan hita og borið fram á brauði og með góðri sultu.
Bon appetit!
Matur og drykkur | Breytt 23.9.2011 kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Við höfum alla tíð verið ákaflega hrifin af því að steikja nautasteik og gera bernaise sósu ... fjandinn, hver kann ekki að meta svoleiðis gæði. En svona gæði koma með verðmiða þungum verðmiða nefnilega smjöri. Og stundum ... bara stundum, vill maður aðeins minnka það magn af smjöri sem maður lætur í sinn kropp. Hver og einn getur hæglega fundið sínar ástæður og alger óþarfi að tíunda það nánar hér.
Jón Þorkell vinur minn, kollegi og nágranni, hefur fengið margar góðar hugmyndir úr bók einni sem hann hefur undir höndum og heitir Sunday Lunch eftir Gordon Ramsey. Bókin er alveg ljómandi góð og eins og titillinn gefur til kynna er í henni að finna heilmargar uppskriftir sem passa vel til að hafa á sunnudagskvöldum (eða bara á laugardagskvöldum!). Og þarna kennir ýmissa grasa og meðal annars innblásturinn af þessari estragon tómatsósu, sem á að leysa hina hefðbundnu bernaissósu af hólmi alltént tímabundið.
Mamma mín var í heimsókn þegar ég gerði þennan rétt. Veðrið var frábært, glampandi sól og rúmlega þrjátíu stiga hiti. Tók þessa mynd af þeim langmæðgum sem mér þykir ansi góð. Það er ekki að sjá á henni móður minni að hún hafi orðið sextug á árinu. Mér finnst sterkur svipur með þeim!
Heilgrilluð nautalund með ferskri estragontómatsósu, grilluðum kúrbít og salati
Nautalundin er snyrt til, sinar og óæskileg fita er skorin frá. Hún er pensluð með olíu og síðan söltuð og pipruð. Lögð til hliðar á meðan grillið hitnar. Grilluð eftir kúnstarinnar reglum. Elduð þar til þykkasti hluti steikarinnar er orðin medium rare - þá er grennri hluti hennar orðin vel eldaður (sumir kjósa jú svoleiðis). Eftir grillun er mikilvægt að láta kjötið hvíla í 10 mínútur til að vökvinn dreifist aftur eðlilega um kjötið þannig að það leki ekki útum allt þegar það er skorið.
Tómatsósan er fremur einföld. Fyrst er að skera 6-8 rauða tómata í helminga og hreinsa innvolsið úr og henda. Þá er restin af tómötunum skorin niður heldur smátt. Sett í skál. Þá er rauðlaukur, 2 smáir skarlottulaukar, 2-3 hvítlauksrif skorin smátt og sett í skálina með tómötunum. 4 msk af góðri tómatsósu er bætt saman við, safi úr heilli sítrónu, 2-3 tsk af Worchestershire sósu (prófaðu að segja það hratt), 2-3 tsk af grófu sinnepi (djion/skánskt), nokkrar hristur af Tabascó sósu, saltað og piprað eftir smekk, handfylli af niðurskorinni ferskri steinselju og góð handfylli af fersku estragoni. Blandað vel saman og látið standa í ísskáp í rúma klukkustund.
Með matnum vorum við með kartöflugratín. Kartöflurnar voru skornar í sneiðar, settar í eldfast mót, peli af matreiðslurjóma, velt til, smávegis af rjómaosti, saltað og piprað. Fersku rósmaríni bætt saman við og síðan hellt yfir í ofnskúffu, rifnum osti sáldrað yfir og bakað þangað til gullinbrúnt og fallegt. Grilluðum einnig nokkrar sneiðar af kúrbít og skárum niður nokkrar nýjar radísur til að skreyta bakkann.
Með matnum drukkum við ansi gott rauðvín, Senorio de los Llanos frá Valdepenas á Spáni. Þetta er Grand reserva vín frá því 2003. Þetta er nokkuð vinsælt vín hérna í Svíþjóð - alltént er það alltaf á hillunum í Systembolaget (ríki þeirra Svía). Úrvalið hérna er talsvert síðra en maður á að venjast hjá ÁTVR en á móti er verðið skaplegra. Þetta vín er eins og sagði prýðisgott - fremur dökkt á lit. Heldur þurrt vín, smá eikarkeimur og dökk létt vínber. Lítið vandamál að renna þessu víni niður. Nautakjötið hefði að sjálfsögðu þolað þyngra vín en á svona blíðviðrisdegi passaði þetta vín fullkomlega.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)