Frakklandsferðasaga: Bratwurst í Þýskalandi, kræklingar í Brugge, kampavín og fois gras í Champagne

 villibandholm.jpg

Þetta er verst undirbúna ferð sem við höfum nokkru sinni farið í. Eina sem var tilbúið áður en að við lögðum af stað var að við höfðum pantað Ford Rimor Katamarano Sound húsbíl frá einhverju fyrirtæki sem auglýsti á Barnalandi þeirra Svía, www.blocket.se. Þar höfðum við fundið auglýsingu frá henni Ingalill sem leigði okkur bílinn. Það eina annað sem við höfðum gert var að lesa uppskriftir úr ýmsum frönskum matreiðslubókum, svo sem; Larousse Gastronomique, Escoffier, My French Kitchen, Sælkeraferð um Frakkland, The Art of Mastering French Cooking og Provence: The beautiful cookbook. Annars höfðum við ekki skipulagt nokkurn hlut. Jú ... við vissum nokkurn veginn hvaða hluta Frakklands við ætluðum að skoða en annað ekki!

Það var ekki leti um að kenna ... nei, sannarlega ekki. Blessunarlega hefur verið nóg að gera síðan við komum heim frá Íslandi. Fór beint í hérað í Danmörku með Snædísi og Villa og þegar við komum heim kom mamma frá Íslandi með Valdísi. Þegar hún fór komu Kolbrún mágkona mín, eiginkona hennar, Inga Dóra, ásamt sonum þeirra; Marteini og Patreki. Eftir að þau fóru leið einn dagur án gesta frá Íslandi, en þá notuðum við tækifærið og buðum skvassfélaga mínum og fjölskyldu hans í mat. Daginn eftir fengum við góða vini, Unni og Björn Thors og son þeirra Dag. Tveimur dögum eftir að þau hurfu á braut, fengum við vini mína og kollega – the Fab 8 – í heimsókn yfir helgina. Og einhvers staðar þarna á milli héldum við upp á 5 ára afmæli Villans. Stanslaust fjör – stanslaust gaman ... ekkert skipulag. Lesi einhverjir af gestum okkar þetta og hugsi með sér að þeir hafi gert fríið okkar verra, fái þeir að hugsi sig um tvisvar. Bæði koma þeirra og þetta frí hefur verið stórkostlegt! Takk elskur fyrir að gera sumarið okkar skemmtilegra!

Einn af kollegunum bentu okkur á France Passion. Samtök sem maður getur keypt aðgang að og þannig komist inn í net bænda og vínræktenda sem leyfa ókeypis gistingu á lóðum sínum. Við lögðum því götu undir dekk á mánudagskvöldið án þess að hafa hugmynd um hvar eða hvernig við ættum að redda gistingu.

Fyrst sóttum við Valdísi í Kaupmannahöfn en hún hafði verið hjá bestu vinkonu sinni, Önnu Katrínu, um helgina. Þaðan keyrðum við suður í átt að Lollandi þar sem við fundum tjaldstæði seint um kvöld, í Bandholm á Lollandi. Þegar við vöknuðum blasti við okkur glæsilegt útsýni út á hafið sem var 30 metrum fyrir framan okkur (þessu höfðum við ekki tekið eftir þegar við komum).  Snæddum einfaldan morgunverð og lögðum af stað.

fordrimor.jpg 

Eyddum góðum hluta af deginum á hraðbrautinni, þangað til að börnin gáfust upp. Þá stoppuðum við mitt á milli Bremen og hollensku landamæranna í fallegum skógi rétt fyrir utan Tecklenburg. Þar fengum við gott stæði fyrir lítinn pening með öllu inniföldu: rafmagni, rusli, WC og funheitri sturtu. Elduðum veislumáltíð um kvöldið, að sjálfsögðu í þýskum stíl. Grillaða ferska bratwurst með sætri kartöflumús, sauerkraut með beikoni og ísköldum þýskum pilsner, Meister Pils. Namminamm.

bratwurst.jpg 

Matseldin var einföld. Setja saman ferðagrillið (takk Þórir og Signý Vala fyrir lánið). Kynda upp grillið. Grilla bratwurst við fremur lágan hita – ætli það hafi ekki tekið 30-40 mínútur. Þetta er, jú, svínakjöt þannig að það á víst að gegnelda. Við keyptum sauerkraut, sem er gerjað hvítkál, sem við suðum í 10 mínútur. Vatnið látið renna af. Panna sett á hlóðirnar og niðurskorið beikon steikt þar til stökkt og þá er kálinu bætt saman við og steikt í smá stund saman. Flysjuðum 600 gr af kartöflum ásamt einni sætri kartöflu sem var síðan soðið þangað til mjúkt. Vatninu hellt af og stappað saman með smá smjöri og rjóma, salti og pipar. Borið fram með ísköldu öli.

pylsa_1017620.jpg 

Daginn eftir ókum við til Brugge í Belgíu. Ægifagur bær sem áður var hafnarbær. Fyrr á öldum var þetta mikil verslunarmiðstöð sem gerði borgarbúa auðuga. Og þeir eyddu í hús, sali og kirkjur. Frá því um árið 1000 hafa menn búið á þessu svæði en mesta uppbyggingin átti sér stað upp úr 1400 til 1600 og síðan aftur seinustu 150 árin. Að taka gönguferð um Brugge er eins og að fara í tímavél til miðalda, nema hvað hundrað þúsund aðrir túristar komu með í ferðina.

Við snæddum kvöldverð á túristabúllu – ég fékk mér Moules Marinéeres og bjór frá Brugge. Við prófuðum tvo bjóra; annars vegar Brugge Zot og hins vegar Bruges blond. Keimlíkir bjórar – dæmigerðir hveitibjórar; goskenndir og fremur sætir. Mér fannst þeir ekkert sérstakir – sorry brugians! Maður veit á leiðinni inn hvernig þeir eiga eftir að fara með ristilinn og þegar maður ferðast í húsbíl er það aldrei vinsælt.

Ótrúlegt en satt þá fengum við stæði á eina tjaldstæðinu í Brugge. Þó á bílastæðinu – en það var í lagi þar sem við komum seint í hús og fórum heldur snemma. Stefnan var tekin rakleiðis á Champagne héraðið. Ástæðað er augljós – KAMPAVÍN. Stoppuðum á tourist info í Reims og fengum okkur gönguferð. Stoppuðum og fengum okkur Crepes í síðbúin hádegisverð enda allir svangir. Crepes camparde: með sýrðum rjóma, lauk og lardons (beikon) .Namminamm. Á leiðinni frá Brugge til Frakklands keyrðum við framhjá þessum. Have a nice...

haveanice.jpg 

Keyrðum síðan í gengum Champagne, milli fallegra Chardonnay og Pinot grigio akra til höfuðstaðarins, Epernay. Stoppuðum í bakaríi á leiðinni sem og hjá slátrara, í kaupfélaginu og þegar komið var á tjaldstæðið vorum við búin að safna í glæsilega máltíð. Baguette, brie, rjómaost, Pate en croute, jambon depersille, góða pylsu,  pate de fois, quiche lorraine, sultu, rilette, rauðvín og að sjálfsögðu kampavín. Sofnuðum sæl og glöð! Hvernig er annað hægt?

hladborg.jpg 

Í dag fórum við í sund, hjóluðum í gegnum bæinn á ótrúlega lélegum vegum og gangstéttum. Sundlaugin var á hinum enda bæjarins. Epernayians hafa augljóslega sparað í gatnagerð og sett öll eggin í sundlaugina. Mjög glæsilega, þyrping lauga af ólíku tagi! Frakkarnir virðast þó hafa aðra hugmyndum hreinlæti og við sturtuðum okkur öll saman ásamt öllum hinum...í sundskýlunum.

 fois_1017628.jpg

Þegar heim var komið bjó ég til forrétt – uppáhald dótturinnar. Fois gras! Steikt við háan hita og borið fram á brauði og með góðri sultu.

 foisgras.jpg

Bon appetit!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ragnar Freyr,

Ég sé að þið eruð í Sælkeraferð um Frakkland. Ætlið þið ekki að koma í Sælkeragöngur um París? Ég var einu sinni búin að bjóða þér í rjómalausan Sælkeramat í París. Það má leggja húsbíl fyrir framan húsið hjá okkur.

Sigga

Sigríður Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 11:15

2 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæl og blessuð Sigríður

Var að sjá skilaboðin - vorum í Norðaustur Frakklandi og vorum að renna í hlað í Svíþjóð rétt í þessu.

Boð þitt hljómar hreint út sagt frábærlega. Okkur hjónakornunum dreymir um að vera næsta vor langa helgi í París.

Má maður fá regntjékka (raincheck) á þetta góða boð?

mbk. Ragnar

ps. Frakkland er himnaríki á jörð - OMG!

Ragnar Freyr Ingvarsson, 21.8.2010 kl. 17:36

3 identicon

Við hlökkum til að fá ykkur í heimsókn næsta vor.

Sigga

Sigríður Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 07:20

4 identicon

Uppáhaldsmatarbloggarinn minn og Sigga matgæðingur systir mín!  Þarna vildi ég vera með!

Ragnar, þú verður ekki svikinn af heimsókn í eldhúsið hennar systur minnar, því get ég lofað.

Kveðja frá Egilsstöðum, Þorbjörg.

Þorbjörg Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 9.9.2010 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband