1.12.2019 | 19:57
Höfðingleg skyrterta með hvítu súkkulaði, þeyttum rjóma, hindberjamarmelaði og ferskum hindberjum
Í október fór ég í boði íslenska fyrirtækisins Kerecis og eldaði fyrir gesti á ráðstefnu sem haldin var í Las Vegas. Sú borg er vægast sagt furðuleg - ætli absúrd sé ekki lýsingarorðið sem á best við, alltént að mínu mati. Ég sá ekki mikið af borginni - fór í stutta gönguferð um "The Strip" og heimsótti svo Ceasar's Palace nokkrum sinnum en þar var veislan sem ég eldaði fyrir haldin.
Ég varði bróðurpart tímans í Las Vegas bak við eldavélina ásamt bróður mínum - og við áttum saman góðar stundir. Hlustuðum á tónlist, smökkuðum á craftbjór og elduðum níu rétta veislu fyrir 100 manns.
Og þó að ég segi sjálfur frá þá heppnaðist hún ljómandi vel. Þennan eftirrétt bjó ég til - en hann byggir á annarri uppskrift sem ég gerði fyrir nokkrum árum. En niðurstaðan er frábrugðin - þessi er mun meira frískandi.
Ég ætlaði að byggja þetta upp eins og litlar tertur á disk en þegar á hólminn var komið áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt mótunum mínum - í Las Vegas.
Þessi færsla birtist nýverið á heimasíðunni Gott í matinn, sjá hér, sem er heimasíða á vegum Mjólkursamsölunnar en þar kennir ýmissa grasa, sjá hérna.
Höfðingleg skyrterta með hvítu súkkulaði, þeyttum rjóma, hindberjamarmelaði og ferskum hindberjum
Fyrir sex
Fyrir botninn
100 g pekanhnetur
130 g haframjöl
100 g smjör
4 msk hlynsíróp
350 g hreint Ísey skyr
300 hvítt súkkulaði
250 ml þeyttur rjómi
2 gelatínplötur
12 msk hindberjamarmelaði
2 öskjur af hindberjum
1. Byrjið á því að mala hneturnar í matvinnsluvél og blanda saman við haframjölið.
2. Bræðið smjör og blandið saman við mjölið ásamt hlynsírópinu.
3. Smyrjið deiginu á ofnskúffu og bakið í 15 mínútur við 180 gráður. Látið kólna.
4. Brjótið svo kexið niður og raðið í skálar.
5. Blandið saman skyrinu, þeyttum rjóma og bræddu hvítu súkkulaði og svo gelatínplötunum (hægt að leysa þær upp í heitu súkkulaðinu).
6. Setjið því næst skyrblönduna ofan á kexið og setjið í ísskáp til að kólna og stífna.
7. Dreifið hindberjamarmelaðinu ofan á og skreytið með hindberjum.
------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.