1.5.2010 | 19:15
Djúpt inn í ameríska suðrið; PFC (Pukgrånden steiktur kjúklingur) með gulum maís og hrásalati
Í Svíþjóð er fátt um veitingastaði sem selja djúpsteiktan kjúkling. Þeir finnast í Danmörku en ekki hér. Af hverju veit ég ekki! Kannski hefur það að gera með að Svíum þykir of vænt um heilsu sína til að leggja sér slíkt til munns. En það er stundum þannig á sunnudögum og bara stundum, að mann langar óheyrilega mikið í feitan safaríkan djúpsteiktan kjúkling. Ég er hræddur um að margir viti hvað ég er að tala um. Og það er fátt betra sem læknar syndina ljúfu á jafnsnarpan hátt og nokkrir bitar af þessum umrædda djúpsteikta kjúklingi. Það hlaut því að koma að því að ég myndi reyna að gera þetta sjálfur.
Þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda. Ég er lengi búinn að ætla að gera þetta. En það er bara eitthvað við það að djúpsteikja mat. Ekki það að mér finnist hann vera vondur... ALLS EKKI! Maður veit bara hversu óhollur hann er - fjandinn - þetta liggur í fitubaði í tuttugu mínútur. Óhollustan er öllum augljós ... augljós! Þannig það að taka meðvitaða ákvörðun um að elda djúpsteiktan mat er ávísun á óh0llustu. Óhollustu, ekki einu sinni flinkur pólitíkus gæti talað sig í kringum það. En þetta er bara gott - svona er þetta með freistingarnar. Þetta byrjaði með djúpsteiktum skötusel (á reyndar eftir því að blogga það). Hann braut eiginlega ísinn, og djö... var hann góður. Borinn fram með heimagerðu aoli og brakandi salati. Þar tók steininn úr. Næst var kjúklingurinn.
Og það er ekki beint hægt að segja að þennan rétt eldi maður óvart - alls ekki. Ef gera á þetta rétt, tekur meðferðin á kjúklingum um sólarhring. Þannig að undirbúningur óhollustunnar er vandlega meðvitaður. Sem er að vissu leyti ágætt, þá kemst maður aukaferð í ræktina, maður hjólar út í búð að versla, fer aukaferð upp tröppurnar, andar oftar á mínútu - allt hjálpar! Allavega með samviskubitið. Hvernig líður manni svo eftir að hafa borðað svona mat, troðið sig út af djúpsteiktum kjúkling? Blanda af sælu og samviskubiti - ein besta tilfinning sem finnst!
Matur og drykkur | Breytt 2.5.2010 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það var ljúft að sitja í garðinum í dag eftir vinnu, eftir erfiðan skvassleik (sem ég tapaði), með matreiðslubók í hönd og renna í gengum þær uppskriftir sem mig langar til að gera á næstunni. Það var hlýtt í dag, eiginlega fyrsti sumardagurinn, eitthvað yfir tuttugu stig og léttskýjað. Ég sat með bók Rick Stein í hönd - Mediterranian Escapes - sem reyndar er nokkra ára gömul, frábær alveg. Hvað er sumarlegra en uppskriftir sem eru innblásnar frá Miðjarðarhafinu. Ætli ég gera ekki eina þeirra um helgina! Nánar um það síðar.
Síðasta vika hefur verið einkar ljúf í Púkagrandanum. Foreldrar mínir, Lilja og Ingvar, komu í heimsókn núna á fimmtudaginn í seinustu viku. Þau sluppu rétt inn á Kastrúp áður en honum var lokað vegna eldgosins í Eyjafjallajökli. Maður sér þetta fyrir sér sérstaklega dramatískan hátt - öskuþokan nagandi í stélið á flugvélinni sem rétt sleppur til lendingar áður en myrkt öskuregnið umlykur flugvélina...en mér skilst að það hafi verið heiðskýrt. Hvað um það!
Það var frábært að hafa þau hjá okkur - við vorum búin að sakna þeirra. Við lögðum okkur fram við að elda góðan mat handa þeim; fyrsta kvöldið var sætkartöflusúpa með heimagerðum súrdeigsbaguettum, á föstudagskvöldið heimagerðar flatbökur, á laugardagskvöldið vorum við með appelsínugljáðar andabringur, á sunnudag Pukgranden Fried kjúkling (bloggið er á leiðinni), á mánudag ofnbökuð þorskhnakkastykki, á þriðjudag ofnbakaðar kjúklingabringur með gorganzolasósu og í gær Spaghetti Carbonara. Við spjölluðum, hlógum, fórum í gönguferðir og lékum okkur. Þetta var frábær helgi! Mamma og Pabbi - takk fyrir okkur!
19.4.2010 | 20:54
Einfaldasti forréttur allra tíma? Dísæt safarík hunangsmelóna vafin heimagerðri Prosciutto di Pukgränden
Ég er búinn að vera á leiðinni að skella þessari færslu á netið í nokkrar vikur. Það er ekki svo langt síðan að ég bloggaði um heimagerðu loftþurrkuðu skinkuna mín sem ég og nágrannar mínir, Signý Vala og Jónas, erum búin að vera að dútla við síðan snemma í haust. Ég er búinn að nota hana á brauð, á samlokur; Pain Perdue, í omelettur, á flatbökur en þessi réttur sem ég er að greina frá núna er sennilega þar sem hún hefur best fengið að njóta sín.
Við hjónin vorum með góða gesti í mat þetta kvöld, tengdaforeldrar mínir voru í heimsókn og svo komu vinir okkar frá Danmörku að sækja dóttur sína sem hafði verið í heimsókn hjá okkur í nokkra daga. Hún og Valdís dóttir mín eru miklar vinkonur, og hafa verið það síðan þær hittust fyrst á leikskóla fjögurra ára gamlar. Algerar samlokur þegar þær hittast, hverfa eitthvert í leik og dúkka upp í hádegis og kvöldmat. Frábærar alveg hreint!
Ég nefndi það í færslunni að skinkan er í saltaðri kantinum á saltrófinu, en ég er aðeins búinn að vera að smakka aðrar loftþurrkaðar skinkur og þær eru margar hverjar ansi saltar. Kannski er það þess vegna sem þessi samsetning af söltu og dásamlega sætu passar svona vel saman. Sjá meira hérna...
9.4.2010 | 16:11
The Grilled Cheese Sandwich: PAIN PERDUE, the lost sandwich - this is just a tribute!
This happens to be the first time I blog in any other language than my own - the velvety Icelandic language! And there is a good reason for that which I think is highly ambitious!
There is a little story behind this and it goes something like this; not so long ago I stumbled on the great website, www.cheeseandburger.com, and I learned there a great deal about hamburgers and Wisconsin cheese. I showed the site to a couple of friends and a few weeks later we embarked upon mission to create four great hamburgers and at the same time drink alot of beer. Waddaya know, it was fantastic. I blogged about the venture on my blogsite and posted a comment on the cheese and burger facebook site. It appears they liked it, they awarded me as a member of high standing and sent me a couple of really nice T-shirts. They have now started a site devoted to the grilled cheese sandwich (which I love deeply).
They have promised a T-shirt for those who contribute a recipe and this will be my effort. Actually this is a recipe I stole from my father in law and he stole it from someone else. That is what is so cool about cooking. Nobody owns a recipe - you just get to cook it, and those who love to cook usually share their recipes for others to enjoy. Sjá meira hérna...
Jæja. Það hlaut að koma að því að ég myndi taka skinkuna inn úr skúrnum. Ég er búinn að fá margar fyrirspurnir hvernig þetta hefur gengið, hvort að þetta hafi heppnast, hvernig hafi smakkast. Ég get svarað því í dag!. Færslan verður mest í myndum, þar sem litlu er frá að greina með texta, þetta er nú ekki mikil uppskrift! Aðallega bara tími sem fékk að líða. Þessi færsla er framhald af bloggi sem ég var með í nóvember og geta áhugasamir kíkt hingað til að glöggva sig nánar á fyrri hlutanum af kjötvinnsluævintýri mínu. Sjá hérna.
Það verður að segjast að þetta var ákaflega skemmtilegt verkefni. Það er virkilega spennandi að prófa sig áfram með Charcuterie. Þegar maður er að þessu í fyrsta skipti þá gætir ákveðinar hræðslu við máttarvöldin - munu bakteríurnar og sveppirnir taka völdin? Við erum eitthvað svo sótthreinsuð í nútíma vestrænu samfélagi og við læknarnir erum með þráhyggju þegar kemur að svona löguðu. Þannig að maður fer að ímynda sér ýmislegt. Annars held að maður eigi að treysta nefinu í matargerð sem þessari, bókstaflega. Þefa af matnum, maður veit þegar eitthvað lyktar skemmt! Og svo er auðvitað að prófa, smakka smá bita og sjá hvað gerist. Fer þetta illa í mann eða ekki? Þannig lærir maður!
Annars er þetta ekki eina Charcuterie verkefnið sem ég hef dútlað með síðan í sumar; hérna var ég að gera beikon í fyrsta sinn og svo seinna gerði ég ítalskt pancetta, og svo var einnig fjallað um beikongerð mína í öðru tölublaði Matargatið á blaðsíðu 20.
Þá vil ég sérstaklega fá að þakka Inga Steinari Ingasyni fyrir ráðgjöf í tölvupósti og í síma. Ég gerðist svo djarfur í vikunni að hringja í hann og hann reyndist sérstaklega almennilegur og gat auðveldlega svarað spurningum mínum. Eftir samtalið hvarflaði að mér að hann ætti að skrifa bók um Charcuterie fyrir Íslendinga. Ég myndi kaupa þá bók. Og ég hugsa að fleiri myndu gera það líka. Það eru svo margir matgæðingar þarna úti sem langar til að prófa eitthvað meira!!! Sjá framhaldið hérna!
26.3.2010 | 20:59
Grillaður humar, skötuselur vafinn og stunginn (með beikoni og síðan rósmarínspjóti) með blómkálsmauki og bökuðum kirsuberjatómötum með ljúfu hvítvínstári
Ég var að rúlla í gegnum myndasafnið mitt og rakst þar á þennan fallega rétt sem ég hafði ætlað að skella inn á netið fyrir nokkrum vikum síðan en svo virðist að ég hafi eitthvað gleymt mér. Svona getur það verið - í raun fann ég fjöldann allan af réttum sem ég hafði "slarvað" (eins og maður segir á sænsku) við að blogga. Reyni að bæta úr því á næstu dögum og vikum. Ekki að þessi matur hafi verið eitthvað gleymanlegur - þvert á móti - svona er bara þegar maður forgangsraðar einhverju öðru en að blogga, þá bara fer þetta til fjandans.
Annars finnst mér skötuselur einstaklega góður fiskur - einn af þeim sem eru í uppáhaldi hjá mér ef frá er talin stórlúðu steikur. Skötuselur er líka oft kallaður humar fátæka mannsins nema hvað hann er orðinn alveg fokdýr. Einhver sagði mér það að áður fyrr var þessum ljóta fisk alltaf hent - hver vill svosum borða ljótan mat - enda er hann aldrei sýndur heill í fiskbúðum. Alltaf fallega verkaður, hvítur og þykkur. Nú skilst mér að allt sé að fara á annan endan á skerinu út af þessum blessaða fisk. Nú loks sekkur skútan! Útvegsmennirnir vilja að sjálfsögðu fá hann gefins eins og áður. Hver vill fara að borga fyrir það sem áður var frítt? Ég bara spyr? Sjá meira hérna....
Matur og drykkur | Breytt 29.3.2010 kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2010 | 22:46
Næstum alveg Franskt þema: Appelsínugljáð andarbringa með Hasselbach kartöflum og Pinot Noir
Í morgun var það öllum ljóst að vorið er á leiðinni! Og það er dásamlegt, maður einhvern veginn finnur það á lyktinni sem liggur í loftinu - þessi lykt sem er erfitt að lýsa með orðum - hún er ný, fersk en samt svo kunnugleg. Maður veit hvað er í vændum. Við fórum í langan hjólatúr í dag með krökkunum niður í bæ og svo tilbaka. Meðfram hjólastígunum mátti sjá lítil gul blóm sem minntu á Sóleyjar (bara á styttri stilk) farnar stinga sér upp á milli visinna grasanna. Þetta var indæll dagur. Við hjónin byrjðum að undirbúa vorverkin. Það er af nógu að taka; smíða grindverk, setja niður runna, smíða gróðurker fyrir grænmeti og planta fyrir sumarið. Það er nóg fyrir stafni og margt til að hlakka til!
Annars varég á námskeiði í Stokkhólmi alla síðustu viku um krónískar liðbólgur - ekki að það sé frásögu færandi svosum. Það sem tróndi upp úr ferðinni var heimsókn mín á veitingastaðinn Back a Yard á þriðjudagskvöldið síðastliðið. Papa John Bull rekur þann stað og er þar með Jamískt eldhús - The Reggae Kitchen - með öllum litunum, með tónlistinni og með matnum. Og maturinn er góður ekkert síður en tónlistinn! Þetta er kokkur sem ég fann á heimsíðunni dayrobber.com, sem nú er búið að leggja niður. Þar var hann með þætti um jamíska matargerð - þá er líka hægt að sjá á youtube. Ég gat ekki hamið mig að banka á í eldhúsinu og spjalla við hann - virkilega almennilegur maður! Ég útskýrði fyrir honum að ég hefði eldað alla réttina hans og verið yfir mig hrifinn. Hann tók líka sérstaklega vel á móti okkur. Gaf okkur að smakka Saltfish&Ackee í forrétt og síðan fengum við okkur Jamican Jerk Chicken í aðalrétt sem við skoluðum niður með Red Stripe öli. Hvílíkt og annað eins - ég hef reynt að gera þessa uppskrift en sé núna að ég á langt í land miðað við Papa John. Ég skelli inn mynd af mér með jamíska snillingnum.
Annars var ég farin að gæla við að elda jamískt í lestinni á leiðinni heim frá Stokkhólmi en þegar að heim var komið var bróðir minn og eiginkona voru í stuði fyrir önd - og ég er alltaf í stuði fyrir önd. Fyrir utan lambalæri verður eiginlega að segjast að önd er eiginlega minn uppáhalds matur. Eiginlega óháð því hvernig hún er elduð - Peking, heilsteikt, confit du canard, fois gras, reykt, steikt eða grafinn. Við vorum aðeins búinn að dreyma um að gera Duck a la orange - sem ég hef aldrei gert áður - og þegar við lásum nokkrar uppskriftir voru við komin alvöru andarstuð og því var allt sett í gírinn. Það rifjaðist upp að við áttum nokkrar stórar andabringur inn í frysti síðan einhvern tíma og því þurfti að aðlaga uppskriftina að því - sem venjulega kveður á um heilsteikta önd. En það er ekkert mál að breyta því. Þetta er bara matur og hann má gera á hvaða veg sem er. Sjá meira hérna
14.3.2010 | 17:50
Alpablogg: Nýr kokkur á Skihotel Speiereck - Heilsteikt nautalund með skógarsveppasósu, kartöflugratíni og fylltum sveppum - fyrir 50 manns
Við erum nýkominn heim eftir nærri því tveggja vikna frí í Austurríki. Raunveruleikinn slær mann eins og blaut tuska í andlitið og þess vegna hefur verið lítið líf á blogginu mínu. Biðst velvirðingar. Eins og kom fram í seinustu færslu þá dvöldum við á Skihotel Speiereck sem Doddi og Þurý hafa rekið síðan 2005. Þetta er í þriðja sinn sem við komum og gistum á þessu góða hóteli. Við komum í fyrsta sinn á því eftirminnilega ári - 2007 snemma í mars. Og það var alger tilviljun...alger! Það er skondin saga á bak við hvers vegna við hjónin urðum skíðafólk. Við höfðum árinu áður (2006) verið á ferðalagi í gegnum Akureyri, á leiðinni á Austfirði að leysa af í héraði. Við stoppuðum nokkra daga í þeim ágæta kaupstað að horfa á vinkonu okkar, Vigdísi Hrefnu, leika í Litlu hryllingsbúðinni. Unnusti hennar hafði bitið í sig að prófa að fara á bretti og því fór sem fór - allir fóru á skíði. Veðrið var frábært (eins og alltaf á Akureyri) - glampandi sól og við skutumst niður í bæ á næstu skíðaleigu og allir fengu græjur leigðar nema hvað það voru ekki til skíðaskór á mig! - "stupid large feet". Allir voru í skíðastuði þannig að ég lét slag standa og keypti mér skíðaskó (ekki hafandi skíðað í 15 ár, var þetta ekki reiknað sem besta fjárfesting síðari tíma). Ég hét því á sjálfan mig að skíða aftur síðar!
Nokkrum nánuðum síðar barst okkur auglýsing í tölvupósti um skíðaferð til Austurríkis - Skórnir kölluðu og við keyptum miða! Þar flugum við út til Salzburg, bara við hjónin - börnin í öruggri gæslu afa og amma á Fróni. Og þar gistum á Skihotel Speiereck með góðum hópi fólks sem skemmti sér konungalega saman. Sennilega besta frí sem ég hef farið í!Ári síðar hittist hluti þessa góða hóps - "sama tíma að ári" aftur á sama stað með góðri viðbót - en þá voru líka í för foreldrar mínir, bróðir og dóttir mín. Einnig alveg frábær ferð. Svo komum við aftur núna í ár, tveimur árum síðar. Og það er á hreinu að við komum aftur að ári. Engin spurning! Ég er þegar búinn að leggja inn bókun - sama tíma að ári.
Þegar við vorum þarna 2008 voru þau hjónin með alveg fyrirtaks kokk, Hadda, sem var alveg frábær! Það var veislumáltíð á borðum hvert kvöld. Ég fékk aðeins að horfa yfir öxlina á honum og lærði mörg handhæg brögð í eldhúsinu, hann kenndi mér meðal annars að gera frábæra bernaise sósu, sem ég hef margoft leikið eftir! Það er alveg lystagaman að horfa á alvöru fagmann í eldhúsinu. Það var eitthvað grínast með það hvort að ég legði ekki í að elda eitt kvöld - en það varð aldrei úr því. Fyrr en núna.
Hvað maður lætur maður ekki plata sig útí? Doddi gaukaði því að mér undir lok ferðarinnar hvort að ég hefði ekki áhuga á því að prófa að elda ofan í mannskapinn. Mér fannst þau ansi hugrökk að bjóða mér þetta - enda með fullt hús af gestum "Ragnar...þú mátt elda hvað sem er" sagði hann! Mér fannst ég líka sjálfur vera ansi hugrakkur enda ekki alveg bláedrú þegar ég svaraði - "ekkert mál". Daginn eftir þegar ég vaknaði var ég með hnút í maganum. Hvað í andskotanum er ég búinn að láta plata mig útí. Ekkert mál - hvílíkur sauður getur maður verið? Ég hafði gert kökur fyrir brúðkaup tvisvar áður fyrir góða vini mína úr læknadeildinni - en þær getur maður gert vel áður en allt fjörið byrjaði - Þetta er f$%in live, marr! Sjá meira hérna....
Matur og drykkur | Breytt 15.3.2010 kl. 04:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.2.2010 | 17:35
Afmælisblogg úr Ölpunum; Heileldaður grís með freyðandi bjór og söngskemmtun með skíðakóngum
það var frábært að renna í hlaðið, keyra niður St. Martinerstrasse og leggja bílnum fyrir framan heimili okkar næstu ellefu næturnar. Þar gistum við á litlu skíðahóteli við fjallsrætur Speiereck fjallsins í bænum St. Micheal/St. Martin á hóteli sem ber nafn fjallsins. Þetta er í þriðja sinn sem við gistum á þessu skíðahóteli sem er í eigu Þorgríms og Þurýjar. Og þau kunna að reka skíðahótel... það er ekki hægt að segja annað. Þetta er ekki skráð fimmstjörnuhótel - ég held að það sé þriggja stjörnu - en andskotinn, þetta eru almennilegar stjörnur. Hótelið er í fallegum Alpastíl, með lútandi þök og blaktandi fána. Innréttingarnar eru gamaldags - antík nánast í hverju horni. Herbergin notaleg, rúmin mjúk og alpaloftið brakandi ferskt. Maturinn hefur alltaf verið frábær - hjónin hafa flutt inn kokka frá Íslandi sem sannarlega kunna að elda. Í þetta skiptið höfum við fengið ýmislegt góðgæti; kalkúnabringu á asískan máta, vínarsnitsel með öllu tilheyrandi og í gær var nautalund með bernaise, namminamm. Hægt er að kíkja á heimasíðu hótelsins hérna.
Við erum hérna í afbragðs félagsskap húsráðanda. Auk okkar eru nágrannar okkar og vinir Signý Vala, Þórir og börnin þeirra Hrafnhildur og Sigrún Edda. Þau keyra heim á sunnudaginn en þá koma líka aðrir góðir vinir og nágrannar, Jónas, Hrund og strákarnir þeirra, Kristinn og Hrafnkell. Valdís og Villi (börnin mín) eru í skíðaskólanum og taka stórum framförum. Villi (4 ára) lærði að skíða í fyrradag og í gær lærði hann að fara í svig og fara í stólalyftu - í dag vann hann svigkeppnina í skíðaskólanum í sínum hópi - við vorum ofsastolt . Valdís (9 ára) er að bæta sig í hverri ferðinni - varkár eins og amma sín - hún tók einnig þátt í svigkeppninni og hafnaði í fjórða sæti - vel og örugglega. Sjá meira á miðjunni.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2010 | 22:08
Bestu hamborgarar allra tíma? Ótrúleg borgaraveisla í Danmörku – öllu tjaldað til!
Hamborgarar eru góður matur. Það er merkilegt hversu góð samloka, hamborgari í raun er. Þessi samblanda nautahakks, brauðs, grænmetis og hina ýmsu sósa hvað þetta er vel heppnað. Fáar samlokur standast hamborgaranum snúning. Það bara verður að segjast. En hamborgarinn á líka sínar myrku hliðar. Þessum ágæta rétti hefur verið skipulega nauðgað af skyndibitastöðum um langt árabil. Áhangendur MacDonalds og Burger King geta hætt að lesa hér sá sem hér bloggar hefur algera ímugust á þeim stöðum og ruslinu sem þeir pranga upp á fólk undir nafninu matur. Þessa skoðun mína mun ég ekki rökstyðja frekar hún er öllum augljós og fjöldi annarra deilir skoðun minni. En nóg um það snúum okkur að alvöru hamborgurum.
Fyrir rúmri viku síðan var mér boðið til vinar míns í Danmörku í algerlega meiriháttar matarboð. Það var dáldið skemmtilegt hvernig það kom til að Kristinn bauð okkur í þessa matarveislu. Á fyrstu vikum Miðjunnar, undir liðnum matur, var greint frá ákaflega skemmtilegri heimasíðu sem ostaframleiðendur í Wisconsin halda úti þar sem ástarsambandi hamborgara og osts er gert hátt undir höfði. Og þá meina ég hátt undir höfði! Á þessari síðu eru kynntar þrjátíu girnilegar uppskriftir af hamborgurum lygilega girnilegum hamborgurum. Fyrir áhugasama má glöggva sig nánar á heimasíðu þeirra www.cheeseandburger.com. Alltént nefndi sýndi ég Kristni og Teit þessa heimasíðu þegar þeir voru hérna í heimsókn fyrir nokkru. Kristinn virðist hafa bitið þetta í sig og eftir ýtarlega heimildavinnu bauð hann nokkrum vinum til sín í þessa frábæru hamborgaraveislu þar sem öllu var tjaldað til. Ég var heppinn að fá boð!
Eftir netkosningu höfðu fjórir hamborgarar af þeim þrjátíu af heimasíðunni orðið fyrir valinu;
The Farmer John, nr 7 - ..not for the guy who makes spreadsheets for a living.
The Lumberjack, nr 10 ..it´s breakfast, lunch, dinner and a few snacks all rolled into one.
The Sheboygan, nr 26 ..If you´re vegan or vegetarian, please cover your ears.
The Camelot, nr 16 ..treat her right and she´ll return the favor tenfold..
Fyrir fleiri myndir og hamborgarleg tengd málefni sjá hérna...
8.2.2010 | 20:56
Helgarveisla; Gómsæt ofnbökuð kalkúnabringa með sveppasósu, Kartöflum duphnoisase og hvítlaukssteiktu rósakáli
Ég hef verið latur við að blogga síðustu vikur. Óvenjulega latur. Það er ekki vegna þess að við höfum verið eitthvað löt í eldhúsinu - langt í frá. Þannig er mál með vexti að ég og bróðir minn höfum verið átaki - hann hætti að reykja og við byrjuðum að lyfta - og þá er maður alltaf harðsperrur- svo slæmar að ég hef varla getað vélritað. Núna eru krónísku vöðvaverkirnir að hjaðna og maður getur tekið upp tölvuna að nýju og reynt að koma nokkrum uppskriftunum frá sér.
Það er gott að búa Skáni - allaveganna fyrir mig. Skánn ernefnilega mikið matarframleiðsluhérað. Hér er mikill landbúnaður, mikil grænmetisframleiðsla, kornrækt, sykurbeðaræst ásamt fjölbreytilegri dýrarækt. Hérna er einnig vinsæll kalkúnabúgarður - Ingelsta kalkon - hann er í suð-austurhluta Skánar - Österlen. Sem Svíar kalla hið sænska "Provence" - þarna er meira að segja vínrækt, framleiðsla á rapsolíu (ólívuolía norðursins) og ýmislegt fleira. Ég hef skrifað nokkrum sinnum áður um þennan hluta Skánar, var að vinna á þessum slóðum í íhlaupavinnu síðastliðið sumar, á austurströndinni í bænum Simrishamn, sem er ákaflega fallegt! Sérstaklega á morgnanna - þegar maður var að keyra eldsnemma um morguninn yfir einn af Ásunum á Skáni og sá hvernig þokuslæðan lagðist eins og ábreiða yfir græna akrana. Þessa viku sem ég vann í Simrishamn keyrði ég alltaf fram hjá þessum kalkúnabúgarði og langaði alltaf til að kíkja við en lét aldrei verða af. Sjá meira hérna...
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.1.2010 | 21:20
Ekta "comfort" matur: Steik og Guinnesbaka með grænum baunum og heimagerðum frönskum
Það er búið að vera alveg nístandi kuldi síðustu tvær vikur hérna hjá okkur í Svíþjóð. Í dag var mínus tólf gráður þegar ég hjólaði af stað, eldsnemma, út á lestarstöð, nokkur ský á himni og stilla. Fallegur dagur. Síðustu dagar hafa verið með þessu móti. Sólsetrin hafa verið einkar falleg, meira segja séð niður götuna á nýbyggða hverfinu okkar í norður Lundi. Þó dagarnir séu fallegir þá er þörf á að hlýja sér, svona veðurfar kallar á mat sem yljar manni um hjartarætur og þá er ekkert betra en svona baka. Steik og guinnes baka...namminamm.
Ég hef gert eina tilraun áður til að gera þennan rétt. Þá fór allt til fjandans...og það var ekki mér að kenna...ég sver það! Þetta er réttur sem þarf tæplega þriggja klukkustunda matreiðslu. Þannig að maður verður að hafa nógan tíma. Eins væri hægt að elda kássuna daginn áður og klára svo bökuna daginn eftir (sennilega væri það bragðbest - mér finnst næstum allar kássur batna við að það að fá að slaka á yfir nótt - brögðin einhvern veginn aðlagast betur hvoru öðru. Það verður þó að segjast að þetta er eins og næstum allur matur sem ég elda - ákaflega einfalt. Hvað varðar klúðrið í fyrra skiptið - þá skildi ég það eftir við lágan hita til að malla á meðan ég skrapp í skvass. Fól bróður mínum og eiginkonu að halda vökulu auga yfir kássunni sem því miður brann umfram það sem hægt var að bjarga. Það var því pöntuð flatbaka það kvöldið - það gæti verið að ég hafi líka átt sök á máli - kannski var ekki alveg rétt að segja að ég hafi skilið við kássuna á lágum hita...en hvað um það - það er einfaldara að kenna öðrum um! Sjá meira hér...
16.1.2010 | 16:09
Áfram fiskur: Pönnusteikt smálúða hjúpuð polenta með sætkartöflumús, baunapuré og caperssósu
Gerði þessa uppskrift í raun vegna mistaka vegna þess að ég hafði ráðgert að gera allt annað. Ætlaði að gera fiskibollur úr þorski sem ég hafði keypt nýverið hjá einum af fiskmöngurum sem koma hingað í gengum hverfið á bílum sínum. Hringdi í bróður minn úr vinnunni og bað hann um að taka út þorsk úr frystinum - sem hann gerði samviskusamlega. Þegar heim var komið kom á daginn að ég hafði merkt pokana vitlaust og fyrir framan mig lágu þessi fallegu lúðuflök, glampandi hvít og fersk. Það varð því alveg ljóst að ekkert yrði af fiskibollunum - það væri alveg fráleitt að gera fiskibollur úr lúðu. Ekki að það yrði vont - alls ekki - það væri bara verið að fara illa með gott og dýrt hráefni. Það varð því að gera eitthvað annað.
Ég var ekki í neinu sérstöku stuði - hversu spenntur er hægt að verða yfir fiskibollum? Náði að æsa mig upp aðeins til að gera gott úr þessu. Fékk góða aðstoð í eldhúsinu - Kjartan og Snædís voru ekki langt undan með bæði verklegan og andlegan stuðning. Ég var alveg tómur til að byrja með. Hafði ekkert pælt í því sem ég hefði viljað gera með þennan góða fisk og eiginlega engin tími til að fara út í búð til að kaupa í matinn það sem vantaði. Það var því farið í skápana, skúffurnar og frystinn. Málin leyst; við áttum ekki til neina brauðmylsnu og ekki tími til að þurrka brauð í ofninum fyrir matinn. Snædís beitti neitunarvaldi á hveiti og ég fann síðan Bramata Polenta hveiti sem ég hafði keypt löngu áður í búrskúffunni minni (mental note to self: hættu að kaupa inn og notaðu það sem er til- þú virðist eiga allan dé%&/n til alls!). Það var lítið mál að finna meðlæti. Ég virðist vera safnari þegar kemur að mat - það er allt til - samt er ég alltaf að kaupa eitthvað inn! Sjá meira hér...
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2010 | 19:56
Gómsætur indversk innblásinn laxaréttur með bulgur, snöggu naanbrauði og frískandi raitu
Nefndi það í seinustu færslu að ég ætlaði að skella þessari uppskrift á netið. Við eru að vanda okkur að borða aðeins hollari mat, og þar leikur fiskur og grænmeti náttúrulega lykilhlutverk. Lax er einn af mínum uppáhaldsfiskum. Bestur er hann auðvitað villtur úr íslenskri náttúru og þá lang bestur sé hann veiddur af eiginkonu minni. Þá er maður glaður. Hann er líka ágætur af stönginni hjá honum tengdapabba en hann er duglegur að gauka að okkur reyktum laxi - sem hann lætur reykja fyrir sig á Laugarvatni.
Fyrir nokkrum árum síðan sá ég norska sjónvarpskokkinn Andreas Viestad elda lax á fjóra vegu í þættinum New Scandinavian Cooking. Þetta voru ansi skemmtilegir þættir. Fyrsta serían og önnur serían var í umsjón hans, árið eftir sá hin sænska Tina Nordström (sem Svíar algerlega elska) og nú seinast sá hin danski Claus Meyer. Ég saknaði þess alltaf að Ísland ætti engan fulltrúa meðal þessa góða fólks og sá fyrir mér hinn akureyrska Friðrik V taka það með glans. Það er maður sem bæði kann að elda og tala - ekki öllum íslenskum sjónvarpskokkum töm sú listin að ræða við myndavélarnar á sama tíma og þeir iðka iðn sína. En hann kann að lýsa matnum sem hann eldar - heimsókn á veitingahús hans er líka sögustund um uppruna hráefnisins sem hann eldar...sjá hérna.
6.1.2010 | 18:27
Nú hefst nýtt ár; Sea bream (kólguflekkur) með hollandaise sósu, grænbaunamauki, hvítvínssteiktu fennel og auðvitað hvítvínsglasi
...Þessi aðferð til eldunar er náttúrulega enginn nýlunda. Að pakka fisk inn í álpappír og baka í ofni er eitthvað sem ég hef gert oft áður. Hugmyndir þessar eru fengnar úr ýmsum áttum; foreldrar mínir hafa gert svona rétti, ég hef jafnframt séð marga sjónvarpskokka elda á þennan hátt; Jamie Oliver, Rick Stein og síðast Gordon Ramsey. Ég var í sumar með færslu um heileldaðan lax innblásinn af Gordon Ramsey sem var alveg ljúffengur, uppskriftina má sjá hér. Ég hef endurtekið hana nokkrum sinnum síðan þá. Þennan rétt var gráupplagt að gera núna eftur jólin. Þetta er léttur og frískandi réttur - eina sem minnti á jólin var hollandaise sósu og þá bara vegna smjörsins. En maður þarf ekki að gera mikið af henni. Ég hefði alveg eins getað gert einfalda hvítasósu - úr jógúrt eða sýrðum rjóma - það hefði verið alveg eins gott...sjá meira hérna
31.12.2009 | 16:13
Þakkarblogg: Gleðilegt ár og farsælt komandi ár!
Ég vil nota tækifærið og þakka lesendum bloggsíðunnar minnar samferðina núna á árinu sem er að líða. Þetta hefur verið sérstaklega ánægjulegt matarár þó að það hafi verið erfitt á öðrum sviðum heima á Fróni
Það hefur verið einstaklega ánægjulegt hversu margar heimsóknir síðan mín hefur fengið núna yfir hátíðirnar bæði hérna á miðjunni og moggablogginu. Ég vona að síðan sé öðrum innblástur - hún er mér það svo sannarlega! Fátt myndi þó gleðja mig meira en ef fleiri kæmu með athugasemdir, hugmyndir, gagnrýni, uppskriftir eða bara hvatningarorð.
Vona að næsta ár verði ánægjulegt í eldhúsinu! Brettum upp ermarnar þar - sem og öðrum sviðum!
Áfram Ísland! Gleðilegt ár og farsælt komandi ár! Skál!
30.12.2009 | 19:43
Laufabrauðsgerð í Púkanum. Laufabrauð eftir hefð og einnig ljúffeng mistök
Fyrst voru það mistökin; ekki að uppskriftin sé einhver mistök - deigið varð bara einhvern veginn undarlegt á litin og við ákváðum að gera flatkökur úr því fremur en að henda því. Uppskriftin er fengin frá Helgu Sigurðardóttur - Matur og drykkur (sem mun hafa verið metsölubók þessi jól). Fyrst var að setja 1 tsk salt, síðan 750 gröm af hveiti, svo 250 gr rúgmjöl, síðan 1/2 texkeið matarsódi (í stað hjartasaltsins - sem við áttum ekki til). Þá er 6 dl flóaðri mjólk hrært saman við. Mjólkin var hituð að suðu. Þurrefnin sett í skál og mjólkinni hrært út í - og deigið hnoðað í hrærivél. Sjá meira hérna...
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2009 | 20:06
Og svona fór fyrir rjúpunum; confit du lagopéde, snöggsteiktar og einnig á hefðbundinn hátt með dásemdar meðlæti og enn betra rauðvíni
Eldamennskan er komin á fullt. Hún hófst reyndar fyrir ansi löngu síðan þegar ég að ég lagði í hangilærið fyrir að verða tíu vikum síðan. Það kemur reyndar í ljós á morgun hvort að sá gerningur muni skila tilætluðum árangri. Þá er á dagskrá að taka lærin inn - skola þau undir rennandi vatni og þvo rækilega (eins og segir í leiðbeiningum Helgu Sigurðardóttur) - það tók mig tíma að skilja hvers vegna hún ráðleggur þetta - en þegar ég horfi inn í skúrinn minn og stari á sveppahulinn lambalærin þá skil ég þetta fullkomlega - þau þurfa þvott, þau þurfa skrúbb og svo þurfa þau að vera soðin vel og rækilega. Ég vona að við munum lifa jólahátiðina af!
Annars var aðfangadagskvöld alveg dásamlegt. Valdís las á pakkana og var spennt eins og níu ára börn eiga að vera - annars var hún þolinmóðari en maður myndi ætla. Villi dansaði í kringum hana og var glaður með allt sem hann fékk. Meira að segja vöktu umbúðirnar lukku. Þetta eru önnur jólin okkar hérna í Svíþjóð og það er hálf einkennilegt, en hjá okkur eru jólin ennþá á íslenskum tíma. Mömmu fannst jólin ekki vera komin fyrr en að hún heyrðu í jólaklukkunum í Ríkisútvarpinu og svo söng Dómkórsins á eftir. Lái henni hver sem vill - við vorum eiginlega alveg sammála. Á jólunum kemur þjóðernisástin upp í manni eins og maður vill að hún sé - landið - fólkið - og svo jólamaturinn. Ég veit ekki hvenær það venst af manni - ef það gerir það nokkurn tíma. Þarf þess nokkuð?
Læt fylgja hérna smá myndskeið af Agli Ólafssyni syngja - Ó helga nótt! Rétt svona fyrir jólastemminguna - annars líður nú að því að maður geti slökkt á jólatónlistinni þetta árið. Hversu marga leirburði er búið að semja um jólasveininn - en þessi söngur fjallar nú ekki um hann!
Og svona var nú farið með rjúpurnar: Confit de lagopède, einnig snöggsteiktar og svo auðvitað á hefðbundin hátt!
Matseðillinn verður nokkrun veginn eftir því sem var ráðgert. Og hann er búinn að vera lengi í bígerð. Ég var búinn að leggja graflax í saltpækil gerðan úr blöndu af grófu salti, sykri, pipar og svo heilmiklu af fersku dilli. Þetta er lax sem Snædís veiddi í Álftá á Mýrum í september síðastliðnum þegar hún var í heimsókn á Íslandi. Hún veiddi þrjá góða laxa - tvo sem voru sex pund og sá þriðji fimm pund. Mamma fékk að eiga einn en hina tvo kom Snædís með hingað til Svíþjóðar. Við erum búin að elda annan - það er fátt betra en villtur lax - og auðvitað var sá seinni gerður að graflaxi. Það hvarflaði nú að mér að reykja hann, verandi stoltur reykofnseigandi - en tengdafaðir minn hefur verið svo duglegur að koma með reyktan lax að það var eiginlega ekki réttlætanlegt. Til að gera graflaxinn blandaði ég saman 200 gr af grófu salti, 5 msk af hvítum sykri, 2 msk af möluðum svörtum pipar og mjög vænu búnti af fersku smáttsöxuðu dilli. Blöndunni var svo dreift á rúmlega 3 kíló af villtum íslenskum laxi. Flökin lögð saman eins og samloka og síðan vafin inn í plastfilmu, sett í fat og farg (kannski 1,5-2 kíló) lögð ofan á. Geymd í ísskáp og snúið reglulega. Eftir tvo sólarhringa var laxinn tilbúinn. Pækillinn þurrkaður af, nýtt ferskt dill lagt ofan á. Skorið og borið fram með ristuðu brauði og auðvitað graflaxsósu - sem við gerðum úr blöndu af majónesi, sýrðum rjóma, sinnepi, sírópi, salti og pipar og fersku dilli. Gerðum tvær útgáfur - breyttum sinnepinu úr sætu og grófu sinnepi í Dijon. Báðar voru frábærar. Hvað varðar hlutföll var þetta sirka 2 hlutir af majónesi, 2 hlutir sýrður rjómi á móti 1-2 hlutum sinnepi. Hinu er bætt í eftir smekk.
Þetta var erfiður aðfangadagur. Ég hafði lofað elskunni minni að gera handa henni hefðbundnar rjúpur alveg eins og mamma hennar og pabbi hafa alltaf gert. Eitthvað brást mér bogalistin. Ég gerði þetta nefnilega ekki alveg eins - mér urðu á þau alvarlegu mistök að hafa hlustað á Ríkisútvarpið um morgunn og síðan lesið Matarást Nönnu Rögnvalds þar sem rætt var um að taka bringurnar af fuglinum áður en soðið var gert. Síðar kom á daginn að Hrafnhildur móðir Snædísar hefur steikt rjúpurnar heilar og svo gert rjúpnasoðið. Ég stóð vart af mér þá orrahríð sem fylgdi því að hafa eyðilegt jólin (aðeins ýkt). Mér fannst bara eitthvað bogið við að sjóða þessar litlu rjúpnabringur svona lengi. Svo var það þannig að mínar rjúpur voru ekki mikið hangnar þannig að það þurfti að láta soðið sjóða þeim mun lengur til að mjólka allan kraft úr beinagrindinni.
Ég byrjaði á því á Þorláksmessukvöld að gera Confit de lagopede (rjúpnaconfit). Ég hafði áður verið búinn að kaupa andafitu hjá slátraranum mínum sem ég hitaði í grunnri pönnu með vænni klípu af íslensku smjöri og betri hlutanum af Tuborg jólabjór. Bætti síðan lárviðarlaufi, fersku að sjálfsögðu, fersku timian og bergmyntu, rósapipar og fingurbjörg af grófu salti. Rjúpnaleggirnir voru lagðir í þennan lög og soðnir varlega við lágan hita í nokkrar klukkustundir þannig að þeir urðu lungamjúkir. Þeir voru látnir liggja í leginum þangað til að þeir voru hitaðir stutta stund í ofni og síðan bornir fram á beði af klettasalati með vínberjasneiðum og skreyttir með smá rósapipar.
Mín tilraun með hefðbundnar rjúpur var eitthvað á þennan hátt. Fyrst skar ég niður grænmeti, hvítan lauk, gulrætur, sellerí og hvítlauk fremur smátt og steikti það upp úr blöndu af smjöri og olíu með nógu af salti og pipar - kannski í 20 mínútur þar til að allt grænmetið var mjúkt og gljáandi. Þá tók ég grænmetið úr. Bætti smá olíu í pottinn og steikti beinagrindurnar af rjúpunum í olíunni. Þegar þær höfðu fengið móbrúnan lit var grænmetinu bætt saman við og svo 4 l af vatni hellt í pottinn, saltað og piprað. Kryddvendi bætt útí, lárviðarlaufi, timian og rósmaríni, ásamt nokkrum piparkornum. Soðið góðan part dagsins með lokið á. Síðustu klukkustundirnar var lokinu tyllt á pottinn þannig að það sauð niður um nærri helming. Smakkað til og bragðbætt eftir smekk.
Þá voru rjúpubringurnar, fóarnið og hjörtun velt upp úr hveiti, dustað af, steikt á pönnu, að sjálfsögðu upp úr smjöri. Þegar þær voru orðnar móbrúnar og fallegar voru þær lagðar til hliðar. Smjör brætt í potti - kannski 60 gr og svo 60 af hveiti hrært saman við og smjörbolla búin til - og þegar hún var tilbúin var síað soðið hellt saman við (sirka 2 l af sterku rjúpusoði). Hrært vel saman. Þá er rjúpnabringunum, fóarninu, hjörtunum og öllu af pönnunni hellt saman við sósuna og þessu leyft að sjóða í 45 mínútur við lágan hita. Saltað og piprað. Skv. leiðbeiningum á að hella rjóma samanvið eða bæta sultu samanvið til að bragðbæta en það þurfti ekki að þessu sinni. Sósan var bara það góð bara við þetta eitt.
Ég gerði líka snöggsteiktar rjúpnabringur. Fyrst velti ég þeim upp úr hveiti (til að fá fallega stökkan hjúp utan um þær. Síðan voru þær steiktar á pönnu með knippi af timian. Kannski steiktar tvær mínútur á hvorri hlið. Þær reyndust frábærar!
Með matnum vorum við með sykurbrúnaðar kartöflur sem mamma gerði af sinni alkunnu snilld. Pabbi gerði waldorfsalat eftir kúnstarinnar reglum, með eplum, sellerí og valhnetum. Vorum einnig með brómberjasultu með matnum og svo auðvitað vínið.
Með matnum drukkum við mitt uppáhaldsvín, RODA, kraftmikið Rioja. Vín sem ég var einnig með síðustu jól. Þetta er vín sem að ég kynnist fyrst fyrir ári síðan þegar vinur minn, Harold Köndgen kom til landsins í janúar fyrir ári. Hann er vínáhugamaður fram í fingurgóma og var mjög ánægður þegar hann sá þetta vín í hillum ÁTVR. Hann keypti nokkrar sem við drukkum saman. Þetta er kraftmikið vín. Mikið af dökkum berjum, kannski kirsuberjum, jafnvel dökku súkkulaði og svo munnfylli af eik. Dvelur lengi á tungu með ljúfu eftirbragði. Vínið er unnið úr 100 prósent Tempranillo þrúgum af framleiðendum sem eiga sér ekki langa sögu, hófu víngerð í upphafi níunda áratugarins. Þetta er margverðlaunað vín og sveik ekki í þetta sinn fremur en áður. Hvet alla til að prófa þessa flösku við hátíðlegt tækifæri!
Matur og drykkur | Breytt 17.12.2010 kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.12.2009 | 19:07
Einstakir íslenskir forréttir að hætti föður míns innblásnir af þekktum uppskriftum - lausnir í kreppunni?
Það er kalt í Lundi og það hefur kyngt niður snjó. Sá mesti sem hefur sést hér í áraraðir. Við þessu virðast Svíar á flatlendinu á Skáni ekki kunna að bregðast og annars glæsilegt kerfi og þjóðarsál brotnar niður hraðar en maður getur sagt; Gústaf kóngur lengi lifi! (eða stutt eftir því hvort maður er konungsinni eður ei). Svíar sem venjulega eru þolinmóðir og umburðalyndir í umferðinni - hleypa gangandi vegfarendum yfir götur, hleypa bílum framfyrir sig og taka tilllit til hjólreiðamanna hafa nú farið í gegnum hamskipti. Enginn stoppar við gangbrautir (af hreinum ótta við hálkuna og stjórnleysið sem fylgir því að renna örfá sentimetra - en ekki lengra þar sem þeir keyra á sjö kílómetra hraða). Ökumenn gefa ógnandi tákn þegar reynt er að smeygja sér inní umferðina og hjólreiðamenn, sem lögum samkvæmt þurfa að hjóla á götunni, eru hreint og klárt í bráðri lífshættu. Ekki að ég sé nokkuð að ýkja, alls ekki.
Þessir forréttir eru smá snúningur föður míns á tvo hefðbundna rétti - annars vegar fois gras du entier með rauðlaukssultu borið fram á hvítlauksbrauði og hinsvegar parmaskinka með melónusneið. Faðir minn var með færeyskt blaklið nýverið í heimsókn og bauð þeim m.a. upp á uppá lifrarpylsu steikta í hvítlauksolíu, borin fram eins og fois gras. Mér fannst þetta hreint ekki besta hugmyndin en hann fékk tækifæri til að elda þetta fyrir okkur. Hann gerði einnig salat með melónum og tvíreyktu kinda-innralæri. Namminamm. Til að sjá meira...
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2009 | 20:35
Hej allihopa! Sænskur heimilismatur; léttsöltuð og soðin uxasíða með rótargrænmeti og þremur tegundum af sinnepi
Ég keypti uxasíðu sem hafði legið í pækli í sólarhring hjá slátraranum. Að leggja eitthvað í pækil er barnaleikur einn og er eitthvað sem maður ætti að gera miklu meira af. Hver hefur ekki fengið þurrt svínakjöt, þurran kalkúnn eða kjúkling sem er skráfaþurr. Pækill er einföld fyrirbyggjandi aðgerð. Til dæmis hefði verið hægt að kaupa nautasíðu sem er hræódýr kjötbiti. Einfaldur pækill er svo hljóðandi; 3,5 lítrar af köldu vatni, hálfur bolli af sykri og hálfur bolli af salti. Ekkert mál er að krydda pækilinn með pipar, einiberjum, fersku eða þurrkuðu kryddi. Galdurinn er osmósa; skapa umhverfi þannig að vökvu flæði aftur inn í kjötið þannig að það heldur frekar raka sínum í gegnum eldamennskuna. Til eru ótal uppskriftir á netinu af hinum ýmsustu pæklum - bara að googla og lesa. Núna er árstíminn til að leggja mat í saltpækil! Meira hér