Stórkostlegur kalkúnn með ljúffengri fyllingu, sætkartöfluböku, waldorfsalati á aðfangadagskvöldi

kalkunn_i_me_fer.jpgÞað er kominn aðfangadagur og farinn reyndar líka. Þetta var skemmtilegt. Mér hefur alltaf fundist þessi dagur vera ljúfur. Fyrst vegna pakkanna, þegar ég var lítill, en núna vegna eldamennskunnar að sjálfsögðu - já, og svo pakkanna! - mér finnst alltaf gaman þegar mínir nánustu opna pakkana. Það er einhverslags barnaleg skemmtun fólgin í því. En það besta er að elda. Það er svo gaman þegar maður leggur svona mikið í matinn og maður veit, eiginlega áður en maður byrjar,  hvað hann verður góður. Þetta verður með aðeins breyttu sniði hjá okkur í ár. Kannski ekki að undra því maður er búinn að snúa lífi sínu algjörlega við. Í því samhengi eru smá hrókeringar á matseðli yfir hátíðirnar smáatriði. Við erum vön að hafa kalkúnn á jóladag, en verður þess í stað á aðfangadagskvöld. Meiriháttar, því ég elska kalkún, þeas. að eld´ann og borð´ann!

valdis_me_sprautuna_756881.jpgOkkur var boðið í skötuveislu á Þorláksmessu. Ég nefndi þetta í síðustu færslu. Ég var búinn að kvíða þessu allan daginn. Við fórum yfir brúna yfir til Kaupinhafnar og fórum til vina okkar í Ordrup, þeirra Kristins og Helgu. Þarna var gott safn af Íslendingum sem nutu veitinganna. Á boðstólunum var vestfirsk skata með hnoðmör og svo einnig skata frá Vestmannaeyjum sem var aðeins minna kæst. Með þessu var að sjálfsögðu kartöflur, rúgbrauð og nóg af íslensku smjöri (sem er það besta - smá þjóðremba). Ég veit ekki alveg með skötuna. Mér flaug í hug setningu sem Bill the Butcher sagði í bíómyndinni Gangs of New York "it was the finest beating I ever took!". Með þessu var líka borið fram öl og snafsar af bestu gerð. Í morgun leið mér eins og ég væri með múrstein í maganum, það þurfti smakk_smakk_sosan.jpgað éta svo mikið smjör og hnoðmör til að þræla þessu ofan í sig. Hvílíkt og annað eins. 

Skötuveisla skýrir líka margt í okkur Íslendingunum. Við látum okkur hafa þetta og ekki nóg með það þá hlakka margir til að borða þetta. Grátt og illalyktandi. Bara Íslendingar láta bjóða sér svona með bros á vör Tölum um alvöru góðan mat aftur. 

Stórkostlegur kalkúnn með ljúffengri fyllingu, sætkartöfluböku, waldorfsalati á aðfangadagskvöldi

Fyllingin sem við höfum gert undanfarin ár hefur verið fengin úr frábærri matreiðslubók The Silver Palate eftr Julee Rosso og Sheilu Lukins. Bókin átti fyrir nokkru 25 ára afmæli og var gefin út á nýjan leik með fullt af myndum. Sennilega með betri matreiðslubókum sem ég á.

Fyllingin er algerlega frábær, hún er svo gómsæt að hún gæti eiginlega staðið sem sjálfstæður réttur. Ég breytti lítið út frá upphaflegu uppskriftinni - bætti einu smávegis og breytti hlutföllum aðeins - ekkert stórvægilegt. Fyrst er 1-2 gulir laukar skornir niður, 3-4 stór hvítlauksrif og steikt í 20 mínútur við lágan hita í 50 gr af smjöri eiginlega þangað til að hann karmellisekast. Laukurinn er færður af pönnunni og settur í stóra skál. Næst eru tvö græn og þroskuð epli flysjuð, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Þau eru því næst steikt á pönnunni þar til þau taka aðeins lit, þvínæst eru þau færð í skálina. 700 gr af svínahakki er svo steikt á pönnunni (Valdís tók þetta að kalkunn_tilbuinn2.jpgsér) upp úr smjöri/olíu og þegar tilbúið er það fært yfir í skálina með lauknum og eplunum. Þá er hökkuðum brauðsneiðum bætt útí (ég notaði hvítt brauð). Svo handfylli af pecanhnetum sem höfðu verið saxaðar gróft niður. Þá 2-3 teskeiðar af timian, 1 teskeið af salvíu, bæði þurrkað, svo handfylli af saxaðri ferskri flatlaufssteinselju, saltað og piprað og svo 1 matskeið af góðu hlynsírópi blandað samanvið. Þessu er svo blandað saman og leyft að kólna. 

Þá er það kalkúnninn. Að þessu sinni var ég með 5 kg kalkúnn frá Ingelstad uppi í Smálöndunum. Hann er þrifinn, þurrkaður, innmaturinn að sjálfsögðu fjarlægður (lagður til hliðar fyrir sósuna). Næst er væn klípa af smjöri og olía hituð á pönnunni sem saet_kartoflubaka.jpgvar notuð til að undirbúa fyllinguna. Bræðingurinn er síðan dregin upp í sprautu og fuglinn svo sprautaður í vöðvana, bæði bringur og leggi. Þannig verður kalkúnninn mjúkur þannig að hann bráðnar uppí manni. Þá er fuglinn fylltur, nuddaður með olíu, saltaður og pipraður og smjörbleyttur klútur lagður yfir hann. Bakaður í hálftíma, fyrir hvert kíló við 170 gráðu hita. Namminamm.

Sósan var einföld. Niðurskornar gulrætur, laukur, sellerí, hvítlaukur er smátt skorinn og steiktur á pönnu þar til mjúkt, þá er hálsinn af kalkúninum brúnaður að utan með grænmetinu. Pannan fyllt með vatni, krafti bætt saman við og soðið af miklum krafti á meðan kalkúnninn eldast með lokið á. Þannig tapar maður ekki vökvanum. Ég þurfti að bæta vatni í pottinn 2-3 sinnum, lokið var ekki nógu þétt. Soðið er svo sigtað, þannig fær maður hreint soð. Tók svo allan vökvann sem féll af kalkúninum og blandaði saman við. Á meðan kalkúnninn bíður og jafnar sig klárar maður sósuna. Ég slökkti aðeins undir sósunni, þannig lyngonsylt.jpgflýtur öll fitan ofan á og hún veidd af og lögð til hliðar. Hluti af henni er notaður til að búa til smjörbollu til að þykkja sósuna. Söltuð og pipruð eftir smekk. Sósan var svo kraftmikil að það þyrfti ekkert að gera fyrir hana til að djassa hana upp.

Gerði einnig ferska Lyngon sósu. Lyngonber eru í miklu uppáhaldi hjá Svíum og vilja þeir helst frá Lyngonsultu með flestu. Einhver sagði mér hérna á vefnum að þau kölluðust títuber á íslensku. Fersk lyngonsosa.jpgeru þau aðeins bitur og það þarf að höndla þau með ást til að ná því besta úr þeim. Keypti pakka af frosnum lífrænum berjum, kannski 300 gr, setti í heitan pott með 70 g af sykri, einni kanilstöng, sítrónusafa úr einni sítrónu og svo börkinn (the zest) og sauð við lágan hita í 20 mínútur. Sett í skál og borið fram með fuglinum. 

Var einnig með sætkartöfluböku með pecanhnetum. Sætar kartöflur voru soðnar þar til mjúkar, svo stappaðar með smjörklípu og vænni klessu af rjómaosti, saltað og piprað, sett í eldfast mót og pecan hnetum raðað ofan á. Bakað í ofni í 30 mínútur. Dásamlegt. 

Mamma gerði klassískt Waldorf salat, með eplum, valhnetum, vínberjum og sellerí, með þeyttum rjóma og mayonaise. Verð að fá uppskriftina hjá henni. 

Pabbi gerði kartöflurétt. Niðursneiddar kartöflur lagðar í eldfaskartoflur.jpgt mót með smávegis af góðum blámygluosti, vel kremuðum, rjómaslettu og hvítvíni, saltað og piprað og bakað í ofni í klukkustund. 

Með matnum drukkum við frábær vín. Við vorum með Wolf Blass Grey label frá Ástalíu og svo Masi Costasera Amarone, vín sem ég hef drukkið áður og bloggað aðeins um. Þetta eru vín sem sem mér hefur þótt sérstaklega góð og pössuðu vel með jólamáltíð sem þessari. Bæði vínin voru kröftug með mikið og gott bragð og eftirbragð sem lifði lengi. Það ástralska var skarpara og lifði lengur á tungunni fannst mér! Það voru þó skiptar skoðanir á því. Engu að síður rann vínið ljúft niður - hvort sem það var fyrri eða síðari tegundin.

Kalkúnnin var alveg frábær. Lungamjúkur og bráðnaði í munni. Og ekki var hann verri daginn eftir í samloku. Hvílíkur lúxus!

jolabor_i_og_sma_graflax.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna

Flottur pistill, girnilegur matur og  gleðilega hátíð !

Anna, 25.12.2008 kl. 23:19

2 identicon

Sæll Ragnar

 Þú ættir að prófa næst þegar þú ert með kalkún að hafa hann í saltpækli í sólarhring fyrir eldun og síðan elda hann við 240 gráður þar til innralærishitinn er orðinn 70 gráður. Færð hann mjög safaríkan án nokkurrar feiti og tilbúinn á styttri tíma (ég gerði 5kg kalkún á 1.5 tímum, fullsteiktann).

Þetta er ein af síðunum sem ég les reglulega ...

 Kær kveðja frá Iowa City, IA

Geir Tryggvason

Geir Tryggvason (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 00:21

3 Smámynd: Þorvarður Ragnar Hálfdanarson

Þakka góðan pistil og gott blogg.

Líst vel á þessa fyllingu, sérstaklega viðbót hvítlauks, epla og steinselju. Mun reyna næst er ég kokka kalkún með fyllingu Ég hef ekki enn lagt í saltpækilinn en kannski að Geir nágranni minn deili með mér uppskrift að pæklinum sem getur vart verið flókin. Gott væri þó að hafa hlutföll vatns og salts (og annara bætiefna) á hreinu.

Annars mæli ég með Pinot Noir frá Willamette Valley í Oregon. Drukkum í gær Pinot frá Sineann sem var kynngimagnað vín.

Önnur kveðja frá Iowa City.

Þorvarður

Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 26.12.2008 kl. 02:08

4 identicon

Heill og sæll

Finnst þetta ill meðferð á kalkún, þ.e.a.s. að sprauta hann med smjöri og oliu. Mæli frekar med að steikja hann við vægan hita, 110 gr i 6 - 7 tíma fyrir 5 kiló kalkun, timinn fer efter því hvort það er blástursofn eða ekki. Þannig tapast engin vökvi og þar af leidandi verður kalkúninn mjög safaríkur. Fyrstu tveir tímar med bringuna niður og 5 timar med bringuna upp.  Þar sem engin safi kemur af kalkúninum er gott að bræða 2 kubba grænmetis bullion i 1 litra vatni og setja i ofnpönnuna og hella yfir kalkúninn annað slagið 

Hef aldrei skilið hversvegna fólk notar hakk i fyllingu.  Mæli sterklega með efterfarandi fyllingu.  

250 gr. sveppir, sneiddir, 1 stór saxaður laukur, 1 stk. Squash afhýdd og í smábitum, 3 saxað hvítlauksrif,  2 afhýdd og söxud epli, 8 sneiðar vel ristað franskbrauð, skorpan skorin af og brauðið skorið í ferninga, 100 gr. saxaðar möndlur eða saxaðar valhnetur, 1 beikonbréf, beikonið steikt þangað til það er orðið stökt, ein söxuð paprika. Einnig er mjög gott ad setja 3-4 tsk. hunang útá medan verið er að steikja 

Allt steikt i smjöri og kryddað eftir smekk med timian, salvia, provance kryddi, salt og pipar.  

Bon Apetit

Kveðja frá Fyn

Palli

Páll Sigmundsson (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 13:01

5 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæll Páll

Ég heyri að þér lýst illa á þetta. Helstu vandræði sem upp koma við eldun á kalkúnn er að hann þornar upp. Það að sprauta hann kemur algerlega í veg fyrir það. Eins hefði verið hægt að leggja hann í pækil eins og Geir kollegi minn gerði. Hef einu sinni tekið þátt í því og það heppnaðist vel. Eins og ég bý núna eru engar aðstæður til að leggja í pækil - ísskápurinn afar lítil og því var þessi aðferð valin. 

Hakk er notuð af þeim sem finnst það gott, sérstaklega svínahakk finnst mér passa vel. Beikonið sem þú notar gegnir sama hlutverki. Þín uppskrift er afar girnileg. Finnst líklegt að ég prófi hana einhvern tíma í stóran holdakjúkling. Mér finnst þessi fylling úr Silver Palate svo góð að ég get ekki hugsað mér að prófa eitthvað annað á jólunum!

Kveðja, Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 26.12.2008 kl. 13:32

6 Smámynd: Ari Jósepsson

Ég er akkurat núna að fara að elda kalkunar brínkur

Er að gera það núna i fyrsta skiftið hihi :/

Ari Jósepsson, 26.12.2008 kl. 16:52

7 identicon

Það var eldaður hjá mér 5-6kg flykki, smurður vel fyrir eldun.

engin fylling, ekkert sprautukjaftæði , ekkert smjörteppi, bara álpappír og eldaður á svipuðum hita en meira bara eftir tilfinningu.

Og hann lítur allavega út fyrir að vera girnilegri.

sjá mynd: http://tinypic.com/view.php?pic=122jebq&s=5

Ekki samanskroppinn og viðbrenndur eins og þinn :)

Og var þokkalega góður.

Væri samt alveg til í að smakka þinn :D

Binni (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 18:16

8 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæll Binni

Þakka þér fyrir athugasemdina. Alltaf gaman að fá comment á það sem maður setur á bloggið. Sérstaklega þær sem manni finnst að maður er knúin til svara tilbaka. 

Falleg mynd af fuglinum þínum - hefði alveg verið til í að fá bita af honum.

Ég verð þó að segja mér til varnar að kalkúnninn sem ég eldaði var hvorki samanskroppinn eða viðbrenndur heldur voru bringurnar lungamjúkar þannig að þær bráðnuðu upp í manni, með bragðkeim af dásamlegri fyllingu og leggirnir eldaðir þannig að kjötið var laust frá beinunum (alveg eins og ég vil hafa það). 

Allir hafa sínar aðferðir - og sjaldan er fólk eins vanafast og á jólunum. Er það ekki bara þannig? 

Gleðilega rest!

Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 26.12.2008 kl. 19:04

9 Smámynd: Helena Leifsdóttir

Sæll Ragnar.

Virkilega gaman að lesa bloggið þitt, ég er að fara að elda kalkún í fyrsta skiptið núna á gamlárskvöld, mér líst vel á þína aðferð. Gómsætt og mjúkt undir tönn segir þú um kjötið sem vill oft verða þurt...einmitt þetta hef ég heyrt frá vinum mínum sem eru að elda kalkún, nauðsynlegt að passa sig á hita og að pennsla kjötið. Gaman að heyra að þið búið í Lundi í Svíþjóð en ég bjó einmitt á Skáni í 5 ár og ber Svíum góða sögu.

Takk fyrir uppskriftina og fínar myndir af veislunni ykkar.
Guð gefi ykkur farsæld og framgang á nýju ári.

Helena

Helena Leifsdóttir, 26.12.2008 kl. 21:00

10 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Sæll Ragnar Freyr, og takk fyrir enn eina spennandi uppskrift. Bloggsíðan þín hefur löngum verið eyrnamerkt hjá mér enda sérlega skemmtileg lesning. Sem ástríðufullur hobbýkokkur kíki ég reglulega við.

Ég staldraði brosandi við sætkartöflubökuna þína því ég hef margoft snarað álíka dýrindi fram. Mín útfærsla fer reyndar feti lengra í áttina að hinu syndsamlega sæta bragði - með sykruðu pekanhnetukurli ofan á -  og ég læt uppskriftina fylgja hér með. Það verður að hafa það þó kommentið verði í lengra lagi

Sætar kartöflur (og rúmlega það! )

Hráefni

  • 3 sætar kartöflur (í stærri kantinum)
  • 100 gr hrásykur
  • 2 egg
  • 75 gr mjúkt smjör
  • 1 dl mjólk
  • 1 teskeið af góðum vanilludropum

Og fyrir kurlið til að dreifa yfir:

  • 200 gr púðursykur
  • 100 gr af söxuðum pekan-hnetum (ég hef  það reyndar ríflegt því "more is better" þegar kemur að karamelíseraða kurlinu ;)
  • 40 gr af hveiti
  • 75 gr af bræddu smjöri
  1. Forhitið ofninn í 175 gráður og smyrjið eldfast mót. (það er nóg að smyrja lauslega, alveg óþarfi að haugsmyrja ;).  
  2. Sjóðið sætu kartöflurnar þangað til þær eru soðnar í gegn; oddhvass hnífur smýgur þá inn að miðju. Fjarlægið að því loknu hýðið (það dettur eiginlega af þegar kartöflurnar eru soðnar).
  3. Skerið þær svo í bita og setjið í skál ásamt sykri, eggjum, smjöri, mjólk og vanillu. Stappið vel saman, hvort heldur er með gaffli, kartöflustappjárni eða töfrasprota. Færið svo yfir í eldfasta mótið.
  4. Blandið þessu næst saman púðursykri, pekanhnetum og hveiti. Bræðið smjörið í annarri skál og hellið svo saman við hnetukurlblönduna. Skeiðið létt saman og dreifið svo yfir kartöflustöppuna í eldfasta mótinu.
  5. Bakið í 30 mínútur í forhitaða ofninum og borðið svo með bestu lyst.

Hafið það gott í Lundi, Ragnar, og fyrir alla muni láttu ekki deigan síga með þessa eldhúsdagbók!

Gleðilegt nýar!

Jón Agnar Ólason, 27.12.2008 kl. 01:43

11 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæll Jón Agnar

OMG - þín uppskrift verður næst á borðum hjá mér! Ég geri stundum sætkarftöfluböku utan jólahátíðarinnar. Hlakka til næsta tækisfæris.

Gleðilegt ár.

Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 27.12.2008 kl. 10:41

12 identicon

Sæll Ragnar! Rosalega girnileg máltíð hjá ykkur um jólin. Hef sjálf eldað kalkún á áramótunum sl. líklega 12 ár eða lengur en aldrei dottið í hug að sprauta hann með smjöri. Hef heldur aldrei sett smjörstykki ofan á hann. Oftast hefur kalkúnninn verið um 5-6 kíló hjá mér og ég hef komið honum í stærstu gerð af ofnpotti þar sem hann hefur verið hægeldaður klukkutímum saman og bara alltaf verið mjúkur og fínn. Núna er ég hins vegar með ein 8,5 kg og ljóst að hann kemst ekki í ofnpottinn og verður að vera í ofnskúffunni sem gerir hann kannski þurrari og ætla ég því að nota þína aðferð og sprauta hann. Takk líka fyrir uppskrift af sætukartöflubökunni, ekkert smá girnileg. Frábær síða hjá þér, ég hef oft "leitað til þín" eftir hugmyndum, nú eða bara tekið uppskriftirnar beint upp og eldað. Alveg frábært! Gleðilegt nýtt ár til ykkar í Lundi. Kv. Ólöf. 

Ólöf (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 02:41

13 identicon

Sæll Ragnar Mikið rosalega er þetta girnilegt hjá þér. Ætlaði að elda kalkún núna á gamlárskvöld. Ég bý í Danmörku og var aðeins of sein að fara að versla, fór í margar verslanir en fann engan kalkún, snöögt. Þeir eru alltaf svo snemma í öllu danirnir, ekki alveg eins og íslendingar sem gera allt á síðustu stundu. Ég geymi uppskriftina þína þar til ég fæ tækifæri á að elda kalkún, hlakka til. 

P.s.Finnst þetta frábær og skemmtileg síða hjá þér, rosalega girnileg og vel uppsett. En finnst ótrúlega furðulegt að fólk skuli vera með neikvæð komment hérna. 

Gleðilegt nýtt ár.

Guðlaug (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 10:06

14 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

ummmm, ég slefa alveg yfir þessu. Prufa þessa uppskrift næst þegar ég elda kalkún,- sem verður víst ekki nú á gamlárs því við ætlum að fara í hreindýr með humri. Erum enn að velta uppskrift fyrir okkur en endum líklega í einfaldri. Og auðvitað sætukartöflur með !!!

Bið kærlega að heilsa honum pápa þínum ;)

Gleðileg jól

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 29.12.2008 kl. 00:24

15 identicon

Heill og sæll aftur Ragnar

Ef þú bara lækkar hitann niður i 100-110 gr. þá kemstu hjá því að fuglinn þorni upp. Hef viðhaft þessa steikingaraðferð á kalkunum sl. 3 jól og hafa þeir alltaf verið vel safaríkir.

Hef hugsað mér að prufa uppskriftina þína að sætkartöfluböku nú um áramótin. Hún hljómar mjög girnileg.

Kveðja frá Fyn

Pall Sigmundsson

Pall Sigmundsson (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 10:21

16 identicon

Heill og sæll gamli granni.

Sé þig í anda borða skötu..............ha ha

er með eitt stykki 7 kílóa kalkún í ískapnum sem bíður eftir að verða steiktur fyrir gamlárskvöld, en ég geri eins og þú , sprautan með smjöri og geri svínakjötsfyllingu, en ég passa að setja ekki of mikla fyllingu í hann og baka restina sér í fati.  Í fyrra prófaði ég í fyrsta sinn að setja kalkúnin í steikarpoka, penslaði hann með hlynsýrópi , síðasta sprettinn klippti ég pokann og náði safanum í pott fyrir sósuna. (púrtvínssósu)

Þetta er einn besti kalkúnn sem ég hef eldað hingað til , og hef ég eldað marga.

hátíðarkveðjur héðan úr hlíðinni fögru

Anita og Co

Anita (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 15:20

17 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir


Christian Glitter by www.christianglitter.com

Mjög girnilegt

Guð blessi þig og fjölskylduna

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 31.12.2008 kl. 00:12

18 identicon

Sæll Ragnar,

Í Gestgjafanum í fyrra er uppskrift frá þér um innbakað krónhjartafillet sem við ætlum að prófa í kvöld. Eitt vantar þó til að geta tímasett alla réttina og það er áætlaður eldunartími í ofni. Ég veit að kjarnhiti á að vera 63-65 en ekki hugmynd hvort það taki 10 mínútur eða tvo klukkutíma að ná því. 

Með kveðju og takk fyrir dásamlega bloggsíðu.

Gestur Traustason (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 15:44

19 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæll Gestur

Fyrirgefðu að ég svaraði ekki fyrr. 

Best er að vera með hitamæli - þannig elda ég núorðið. Þannig á ég í erfiðleikum með að ráðleggja þér með tíma. Ýmsar leiðbeiningar er þó hægt að finna á netinu, hvað hitt og þetta kjöt tekur langan tíma - miðað við bein og svoleiðis. 

ég gæti ímyndað mér að 1 kg lund (7-10 cm í þvermál) sem hefur verið forsteikt í 1-4 mínútir tótalt á pönnu, þyrfti ekki nema 45-60 mínútur í 150 gráðu heitum ofni. Þetta er uneducated guess og ef þú finnur betri heimilidir, farðu eftir þeim!

 Þakkir fyrir athugasemdina - gleðilegt ár...og gangi þér vel!

Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 2.1.2009 kl. 21:09

20 identicon

Sæll Ragnar !

Ég eldaði áramóta kalkúninn alveg eftir þinni uppskrift; meðlæti og alles. Frábær uppskrift og voru allir sammála um að kalkúnninn hefði aldrei verið betri.

Takk fyrir frábæra bloggsíðu; er á við bestu matreiðslubók !!!

Sigríður Axelsdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 10:26

21 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Kalkúnn er eitthvað sem mér finnst afskaplega gott að borða en ég er svo óheppin að tveir af fjórum fjölskyldumeðlimum eru svo stórlega klikkaðir að vilja ekki slíkt sælgæti.  Því lagði ég í svipaða uppskrift um síðustu helgi en notaði stóran holdakjúkling í staðinn.  Það smakkaðist mjög vel að allra mati, en ég hefði nú frekar valið að elda alvöru kalkún.

En maður stendur ekki í því með tvo snarbilaða matvanda fjölskyldumeðlimi

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 9.1.2009 kl. 21:59

22 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

búin að prófa sætukartöflubökuna og hún er hreint frábær, takk takk

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 10.1.2009 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband