Stórgóð frönsk súkkulaðikaka - Chocolate Nemesis - fyrir 150 manns

IMG_0273Hin ágætu brúðhjón, Arnfríður Henrýsdóttir og Guðmundur Ómar, gengu í hjónaband í gær. Arnfríður, eða Addý eins og ég þekki hana er mikill kvenskörungur. Hún var með mér í bekk í læknadeild og alveg einstök manneskja. Hún náði sér sannarlega góðan mann, hann Gumma. Þetta samband hefur nú fengið ansi mikla prófkeyrslu en þau kornin hafa verið saman í að minnsta 7 ár og eiga saman tvær dætur.

Brúðkaupið var mjög skemmtilegt. Það var haldið í Skíðaskálanum í Hveradölum og það er sérstök stemming fólgin í því að fara út úr bænum til að fara að skemmta sér. Brúðhjónin nefndu það sérstaklega að þetta ætti ekki að vera brúðkaupsveisla - heldur brúðkaupspartí - og partý var það! Það var mikið skálað...og þar af leiðandi drukkið, svo eftir eittleytið var heljarinnar ball með eurovison ívafi. Og þá var dansað...dansað fram á rauða nótt.

Ég hafði boðið þeim hjónum að hjálpa til með brúðkaupið - nánar tiltekið eldamennskuna. Þau báðu mig að gera eftirréttinn. Mín var ánægjan. Addý virðist hafa mikla dásemd á eftirréttum og enn meiri ást hefur hún á súkkulaði og því var í lófa lagið að reyna að gera súkkulaðiköku sem ég hef gert nokkrum sinnum áður. Chocolate Nemesis. Þetta er kaka sem ég fékk fyrst á River Cafe í Englandi. Stórkostleg. Ég þurfti að helminga uppskriftina til að koma þessu í viðeigandi form og einnig til að þetta passaði vel til að bera fram í veislu á svona kökustatífi.

kökurStórgóð frönsk súkkulaðikaka - Chocolate Nemesis - fyrir 150 manns.

Ég gerði 17 stk. Það var náttúrulega of mikið - en það góða við það er að þá er líka til afgangur daginn eftir. Ég fékk aðstöðu lánaða í stóru eldhúsi og þannig tókst mér að gera þetta á rétt undir 4 klst. Það var nú samt hamast talsvert. Fjórar hrærivélar, 8 hrærivélaskálar, 8 pottar, rúmlega 7 kíló af súkkulaði, rúmlega 3 kíló af smjöri, rúmalega 4 kíló af sykri og 70 egg. Blanda saman og baka í ofni. Ég gerði hverja einustu köku frá grunni...ég held að þannig verði þær betri heldur en að gera allt í einu stóru kari, hlutföllin varðveitast betur þegar þetta er gert í smáum skömmtum - það er allavega mín trú.

Fyrst eru 5 egg sett í skál ásamt 100 gr af sykri, þeytt saman þar til eggin rúmlega fjórvaldast í rúmmáli - þetta mun taka rúmlega tíu mínútur. Á meðan er 200 gr af sykri leyst upp í 125 ml af vatni í potti og þetta svo hitað þannig að úr verði til síróp. Þegar sykurinn er uppleystur er 225 gr af ósöltuðu smjöri bætt í pottinn og leyst upp - því næst er 350 gr af dökku súkkulaði - ég notaði 70% dökkt súkkulaði. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað er blandan orðin að hnausþykkri dökkri blöndu. Þarna er rétt að smakka - hún á að vera alveg ljúffeng - þannig að maður tímir varla að nota þetta í kökuna og verður að pína sig til að halda IMG_0281áfram að baka. Súkkulaðiblöndunni er svo hellt saman við eggin og þeytt saman í tæplega 30 sekúndur. Þá er blandan tilbúinn. Mikilvægt er að setja kökuna í vel smurt mót - ég var bæði með axlabönd og belti - notaði bæði smjör og bökunarpappír. Kakan er svo bökuð í heituvatnsbaði í 160 gráður í rúmar 30 mínútur. Ofnar eru afar breytilegir og því oft nauðsynlegt að lengja bökunartímann. Þetta má finna með því að snerta létt á kökunni - þegar hún er hætt að dúa mikið í miðjunni þá er hún tilbúin.

Súkkulaðikremið var einfalt. Gert yfir vatnsbaði - 100 gr af súkkulaði á móti 80 ml af rjóma (ég gerði 1500 gr af súkkulaði - blöndu af 56% og 70% súkkulaði og 1200 ml af rjóma). Kreminu var svo hellt yfir kökuna og leyft að storkna.

Einnig var ég með hindberjasósu með kökunni - keypti frosin hindber. Fyrir hvert kíló af hindberjum, var 100 ml af vatni og svo 1/4-1/3 bolli sykur. Soðið upp og leyft að krauma í nokkrar mínútur. Smakkað til. Sykrað meira eftir smekk. Mín sósa var aðeins í súrari kantinum til að vega á móti kökunni og kreminu - sem var eins og gefur skilja vel sæt. Að sjálfsögðu var þeyttur rjómi með til þess að setja punktinn yfir i-ið.

 

 

IMG_0319


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

vildi bara enn og aftur þakka fyrir kökuna...   hún var geggjuð,  skil sko alveg að Gummi og Addý hafi beðið um eitthvað svona.   Já og það var rétt hjá þér að hafa sósuna eins og hún var, enda passaði hún 100% við kökuna

Drífa (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 16:30

2 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Nammmmmmmmmmmmm þetta verð ég að prófa, takk fyrir uppskriftina

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 19.5.2008 kl. 16:47

3 identicon

Þetta var svakalegt, hrikalega góð kaka. Bestu þakkir fyrir mig.

Haukur Agnars (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 22:25

4 Smámynd: Le Betiz

Takk fyrir uppskriftina. Æðislegt. Sósan var ekki alveg klár hjá mér og ég fékk pínu illt í magann. Á dálítið erfitt með að fylgja fyrirmælum ef þau eru svona löng. Hvar fékkstu þennan hatt? Allavega. Það mætti bæta við þetta að kökurnar þurfa ekki að vera svona margar. Það bara má...er það ekki rétt skilið?

Le Betiz, 19.5.2008 kl. 23:51

5 identicon

Sæll elsku Ragnar!

Við, nýbökuð hjónin, þökkum kærlega fyrir okkur. Bakarinn var magnaður, kakan hreinasta sælgæti og hindberjasósan og rjóminn fullkomið tilbehör.  Okkur leiðist ekki að þú skyldir ofáætla magnið, enda eigum við hér fleiri himneskar Chocolate Nemesis upplifanir til góða í frystinum...

kær kveðja "Frú Addý"

Addý (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 00:39

6 identicon

Sæll Ragnar! Hef aldrei kvittað fyrir komu minni á síðuna þó að ég hangi yfir henni langtímum saman, oft að leita að uppskriftum sem ég hef einhvern tímann séð áður hjá þér og langar að prófa. Ég hreinlega elska þessa síðu og ef ég bloggaði sjálf væri mín síða líklega svona. Eina er að þurfa að fletta á milli vikna og mánaða í leit að uppskriftum en ég veit að kerfið býður ekki upp á annað. Hvernig væri að setja þetta saman í bók? Mbk, Ólöf.

Ólöf (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 08:53

7 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæl Ólöf

Mér var kennt um daginn að leita á síðunni. Það er hægt að nota google.com og skrifa td. pasta site:ragnarfreyr.blog.is og þá ættirðu að fá lista yfir þetta.

Ég hef hugleitt að setja þetta saman í bók en ekkert hefur orðið úr því ennþá - einhvern tíma!

Ragnar Freyr Ingvarsson, 21.5.2008 kl. 09:34

8 identicon

Takk fyrir kærlega, prófa þetta næst!

Ólöf (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 13:25

9 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Flottur áðí! Ég nota oft svipaða köku þegar ég á að koma með súkkulaðibombu, en þá er ég með 900g sykur og 12 egg sem er þeytt saman og svo 900g dökkt súkkulaði og 900g smjör brætt saman. Kakan er svo sett saman eins og þú lýsir nema að í hana er sett expresso kaffi og kalúha. Ég tek (kokka)hattinn ofan fyrir þér, það hefðu ekki allir vaðið í þetta eins og þú og svo brillerað.

Gunni Palli kokkur. 

Gunnar Páll Gunnarsson, 21.5.2008 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband