Innbökuð humarsúpa, parmaskinku vafinn skötuselur með chorízópylsu, lax með spínati og nóg af hvítvíni fyrir góða vini

bestu vinkonurnarVið fengum góða vini í heimsókn nýverið. Við kynntumst þessu frábæra fólki í gengum dóttur okkar en hún eignast þessa vinkonu í leikskóla. Þetta góða fólk eru miklir matgæðingar og því var lagður mikill metnaður í eldamennskuna. Það er virkilega gaman að fá þetta góða fólk í mat - ekki er verra að elda fyrir fólk sem kann að meta mat - og gott vín. Við sátum lengi fram eftir kvöldi...drukkum og spjölluðum. Við erum einmitt að fara að hitta þau aftur í næstu viku þegar við erum að fara til Svíþjóðar til að hitta fasteignasalann sem er að selja okkur húsið sem við erum að kaupa. Húsið er í bígerð og var í raun keypt á netinu.

Það verður að segjast að það er fátt fáránlegra en að kaupa hús á netinu - sérstaklega óbyggt hús. Það eina góða í stöðunni er að maður stendur jafnfætis þeim sem er í landinu - þeir hafa hvort eða er ekkert að skoða frekar en við. En Svíinn hann kann sko að skipuleggja - það vantar ekki - nu planerar vi!. Nú er komið að því að velja innréttingar og jafnvel málninguna á veggina og seinna má það varla vera (skv. Svíum) - húsið er ennþá bara hola í jörðinni! En þeir eru sko ekkert að grínast - meira að segja áður en búið var að taka fyrstu skóflustunguna þá var ég krafinn um hvurslags nettengingar ættu að vera í húsinu og hvort að ég vildi eina eða tvær fjarstýringar með bílsskúrshurðinni...þið haldið kannski að ég sé að grínast en Svíarnir grínast aldrei með áform sín.

Annars vorum við fjölskyldan að flytja aftur í foreldrahús þar sem við komum til með að búa þar til að við flytjum um miðjan september. Við seldum íbúðina okkar í seinasta mánuði og það var pínulítið sárt að kveðja íbúðina okkar í Skaftahlíðinni. En við eigum eftir að hafa það gott hjá mömmu og pabba. Eldhúsið þeirra er alveg frábært nema að þau eru ekki með gashelluborð. Ég hef komið af stað umræðum um að skipta keramikhelluborðinu þeirra út í staðinn fyrir gas - Ég get ekki skilið hvernig á að elda á þessu. Maður bíður að eilífu eftir þessu!!!

humarsúpa2Innbökuð humarsúpa

Gert var humarsoð. Fyrst voru ein og hálf gulrót, einn laukur, tvær sellerístangir söxuð smátt niður ásamt 3 hvítlauksrifjum. Þetta var steikt í smávegis af smjöri og olíu í 10 mínútur við lágan hita til þess að freista þess að fá allt bragð úr hráefninu. Þá bætti ég við humarskeljum af ca hálfu kílói af góðum humri, humarinn sjálfur lagður til hliðar. Skelin var kraminn vel og rækilega með skeið og steikt með grænmetinu í pottinum þar til hann var farinn að taka aðeins lit. Tveimur glösum af góðu hvítvíni er þá bætt í pottinn og hrært vel, suðan kemur hratt upp og þá setti ég 1 msk af tómatpuree saman við og hrærði vel. Því næst saltað og piprað og rúmlega líter af vatni hellt saman við og leyft að sjóða upp. Jafnframt átti ég afgang af humarsoði í frystinum frá því um jólin sem fékk að fljóta með ofan í soðið. Lokið er sett á og er soðið af krafti í 1-2 klst. Þá er soðið síað - mikilvægt að kreista grænmetið og skeljarnar vel til að fá allt bragð saman við. Smakkað til. Ég setti einnig 1 msk af humarkrafti saman við til að skerpa enn meira á bragðinu. Súpan var svo soðinn niður í ca. 800 ml og varð því kraftmikil og góð. Ég þykkti súpuna með smávegis smjörbollu og 150-200 ml af rjóma. Suðunni var hleypt upp aftur og saltað og piprað eftir smekk. Þá var súpunni hellt yfir í bolla, þrír humarhalar voru settur í hvern bolla, hann svo hulinn með smjördeigi sem var penslað með hrærðri eggjarauði og bakað í 200 gráðu heitum ofni í 15 mínútur þar til smjördeigið var orðið gullið. Þá var innbakaða súpan tekin út og brotið í gegnum deigið og skreytt með smátt skornum graslauk.

humarsúpa

Parmaskinkuvafin skötuselur með kaldri sýrðrjóma/jógúrtsósu og steiktri chorízópylsu

skötuselur1100 gr skötuselsbiti, fremur þykkur og vel hreinsaður, var penslaður með hvítlauksolíu, saltaður og pipraður. Hann var svo snöggsteiktur að utan og þvínæst vafin með tveimur sneiðum af parmaskinku. Sneiðarnar voru skorðaðar með tannstönglum. Þessu var svo raðað í eldfast mót og bakað í ofni, 180 gráðu heitum í rétt rúmar 10 mínútur. Með matnum var svo þessi einfalda sósa sem ég hef gert nokkrum sinnum áður. 1 dós af 10% sýrðum rjóma, hálfdós af jógúrt, 2 mjög smátt skorinn hvítlauksrif, 1 smátt skorin skarlotulaukur, 1 kjarnhreinsaður rauður chilli, 1/4 búnt fersk steinselja, smátt skorinn graslaukur, salt og pipar. Síðan setti ég smá fljótandi hunang til að vega upp á móti sýrunni í sýrða rjómanum. Chorízopylsuna fékk ég sælkerabúðinni á Skólavörðustígnum. Frábær verslun! Keypti þrjár litlar pylsur sem ég skar í bita og steikti á heitri pönnu með smá olíu þar til pylsan varð stökk og falleg. Raðaði svo klettasalati á hvern disk, skötuselinn ofaná, pylsuna í kring og svo sósuna yfir - skreytt með smá graslauk.

skötuselur

Steiktur lax með þeyttu spínat og heitri balsamik vinagrettu

Þennan rétt hef ég nú sett á netið áður...einhvern tíma í janúar. Ég set hann inn aftur. Verr og miður þá tók ég ekki mynd af honum en hann var virkilega vel heppnaður. Ég keypti fiskinn í fiskbúðinni Hafrún í Vogunum og fékk virkilega góðan fisk. Virkilega ferskur og eins og oft áður eru ráðleggingar starfsmanna verslunarinnar mjög góðar.

Ég keypti 800 gr af laxi fyrir okkur fjögur sem ég skar niður í 200gr bita - þannig að hver biti var nóg fyrir einn. Stauk smávegis af olíu á hvern bita og saltaði svo með Maldon salti og pipraði með nýmöluðum pipar. Hita 20 gr af smjöri með smá olíu á pönnu og þegar hún var orðin heit, lagði ég laxinn á pönnuna með roðið niður. Mestur hluti af elduninni á laxinum verður áður en honum er snúið. Þannig verður roðið stökkt og bragðgott. Rétt áður laxinn er tilbúinn er bitanum snúið matreiðslan kláruð á innan við mínútum.

Vinagrettan; fyrst er einn skarlotulaukur skorinn smátt niður og steiktur í smá olíu með einu stóru hvítlauksrifi. Svo er 30 ml af góðu balsamik ediki, 4 msk jómfrúarolía, 30 ml af hvítvíni ásamt safa úr eini sítrónu bætt saman við. Nokkrum timianlaufum er bætt útí, saltað og piprað. Þá er einnig gott að setja dálítið af góður hlynsírópi saman við - auðvitað til að ná góðu jafnvægi. Vinagrettan er svo soðin niður um helming þar til hún er þykk og gljáandi. Það þarf aðeins að smakka hana til til að fá gott jafnvægi í hana - þannig að það verður koma svona við eldavélina.

Spínatið var eins einfalt og hugsast getur. Smávegis smjörklípa (10g) og olía var hituð á pönnu og svo var heilum pakka af spínati - um 300 gr - skellt á pönnuna og hrært stöðugt þar til að spínatið hefur koðnað niður. Saltað og piprað. Spínatið verður eiginlega rjómakennt.

Raðað saman fallega á diskinn. Spínatið, svo laxinn með karmelliseraða roðið og svo er heitu vinagrettunni dreift í kring.

Hver réttur fékk að njóta sín með góðu hvítvíni. Ég hafði keypt tvennskonar hvítvín til að njóta með matnum. Annars vegar var ég með Wolf Blass Presidents Selection Chardonnay 2006. Þetta vín er virkilega gott. Það er í dýrari kantinum en margir vilja eyða í hvítvín. Er núna á um 2000 kall en það er hverrar krónu virði, það er frískandi og með talsverðu ávaxtabragði og talsverðri eik. Þetta vín er að ég kemst næst sérvalið af forstjóra fyrirtækisins - sem ku vera mikill víngæðingur. Hvað sem honum líður þá passaði vínið vel með kröftugri súpu.

Með skötuselnum var ég með franskt hvítvín frá Labrouie-Roi Pouilly Fuisseé- sem er Búrgúndar vín (kem til með að keyra í gegnum þann dal í ágúst í sumarleyfi mínu) gert úr Chardonnay þrúgum. Þrátt fyrir að vera Chardonnay eins og hið fyrra þá er þetta vín mildra, fölt á litinn en með talsverðu en mjúku ávaxtabragði en jafnframt fremur þurrt. Ekki eins ríkjandi eikarkeimur og af því ástralska. Þetta vín hefur verið verðlaunað fyrir gæði sín og hefur komist á nokkra lista yfir bestu Chardonnay í heiminum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Þér tekst að sannfæra mig um að matargerð er list. Ég er einfaldlega heilluð. Takk fyrir að deila þessu með okkur

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 22.5.2008 kl. 21:36

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

auðvitað er matargerð list.....rosalega flott hjá þér.

Hólmdís Hjartardóttir, 23.5.2008 kl. 01:50

3 Smámynd: Gunnlaug Ólafsdóttir

Ragnar Freyr;   Takk fyrir að gerast bloggvinur minn. Ég var orðin svolítið einmana með bara tvo bloggvini svo ég sendi bloggvinaósk á nokkra sem ég les oftast síður hjá og þín er auðvitað algjört gull, og er í "favorit" hjá mér.

Uppskriftirnat eru svo flottar að maður slefar og einhverntíma ætla ég að prófa eitthv. af þeim.

                 Bestu kveðjur.    Gunnlaug.

Gunnlaug Ólafsdóttir, 23.5.2008 kl. 16:55

4 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ég held áfram að kópíera uppskriftirnar frá þér, sem hafa reynst mér afar vel. Ég merki þær allar Ragnars-uppskriftir, og þær eru semsé komnar í flokk uppáhalds-slíkra! Kærar þakkir og ég tek undir með Guðlaugu, vona að þú haldir þessu áfram, þó Svíþjóð verði heimaland þitt um sinn. Bestu kveðjur!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 24.5.2008 kl. 12:27

5 identicon

Já, það er sárt að kveðja hús í hlíðunum. Er ekki enn kominn yfir þetta sjálfur.

 Góður matur hjá þér.

Danni (IP-tala skráð) 26.5.2008 kl. 11:18

6 identicon

ji...dóttir tín er klón af mømmu sinni!!!

svala (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 13:12

7 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Skemmtilegt að lesa um hversu gaman þér finnst að gera mat og stússast í uppskriftum.  skemmtilega klassískar og flottar.

Ertu svo að flytjast til Svíþjóðar? Það verður gaman að fá þig "í nágernnið".

Gunni Palli kokkur 

Gunnar Páll Gunnarsson, 27.5.2008 kl. 18:12

8 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Takk fyrir að deila þessu með okkur.

Kristín Katla Árnadóttir, 27.5.2008 kl. 20:03

9 identicon

skemmtileg síða :) og ég ætla svo sannarlega að fá

að notfæra mér uppskriftir úr henni og hugmyndir.

takk kærlega. Valla

Valgerður Björg Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 12:35

10 identicon

Sæll Ragnar! þetta er er í fyrsta sinn sem ég skoða síðuna þína og ég er alveg heillaður!Þú ert kannski á rangri hillu í lífinu,ættir að vera með veitingastað ,en það er miklu meira að hafa upp úr læknadjobbinu(fyrirgefðu slettuuna)Ég er sjálfur menntaður matreiðslumeistari og hef margar fjörunar sopið en þú ert alveg með dúndur uppskriftir!Bíð spenntur eftir næstu uppskriftum!

eggert rúnar birgisson (IP-tala skráð) 8.6.2008 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband