Er íslenskur humar besta hráefni sem fyrirfinnst á þessari jarðkringlu? Eða er það stórlúða?

adelda

Eins og mér hefur verið tíðrætt í síðustu færslum þá vorum við í heimsókn á Íslandi nýverið. Það var ákaflega ánægjuleg ferð í alla staði! Á leiðinni út á flugvöll komum við við í fiskbúðinni Hafberg, sem er í Vogunum. Þar hafði ég ekki verið síðan að við fluttum út til Svíþjóðar haustið 2008. Þar var augljóslega búið að endurinnrétta og fiskborðið leit vel út. Það var heldur snemma morguns þannig að starfsmennirnir voru ennþá að undirbúa fyrir daginn, gera að fisknum, fylla á borðið og útbúa "tilbúnu" réttina.

Ég pantaði þverskorna lúðu sem var nýkominn inn af fiskmarkaðnum og hafði að sögn sölumannanna verið veidd kvöldið áður. Hann var ekki einu sinni búinn að skera hana niður...hún var svona nýkominn inn í hús! Á meðan hann var að verka stórlúðuna fór Snædís eitthvað að rýna ofan í frystikistuna í búðinni og rak þá augun í þessa fínu humarhala – skelbrot 2 kg. Þetta reyndast vera alveg risahalar – heysú kristí! Það var ekki hægt að standast þetta. Hann var að sjálfsögðu gripinn með líka! Lúðunni var pakkað í loffttæmdar umbúðir. Við þurftum aðeins að rútta til í töskunni og var lúðan látin liggja ofan á frosnum humrinum, allt vafið inn í plastpoka. Síðan var haldið rakleiðis út á flugvöll. Vorum reyndar aðeins seinni kantinum en...hei...það var þess virði að bíða eftir lúðunni. Og viti menn, þegar heim var komið var humarinn ennþá gaddfreðinn og lúðan ennþá köld og fersk. Namminamm. Það var veisla framundan!

Um kvöldið grillaði ég þverskorna lúðu og bárum hana fram með steiktu fennel og blómkálsmauki eiginlega alveg eftir þessari færslu hérna – og maturinn var dásamlegur. Þetta var sko mánudagsfiskur að mínum smekk!!!

Hélt svo í hérað daginn eftir sæll og glaður. Föstudagskvöldið eftir, þegar heim var komið úr héraði, þá var ekkert annað að gera enn að elda humarinn. Ég var eiginlega búinn að vera spenntur alla vikuna að komast heim og elda þennan mat. Rétturinn sem slíkur er ekkert sérstaklega frumlegur – en það þarf ekkert að vera frumlegur þegar maður er með hráefni af þessum gæðaflokki. Eina sem þarf að gera er að leyfa hráefninu að njóta sín...og njóta síðan humarsins.

humar

Ég klippti upp humarhalana og hreinsaði görnina úr. Tók humarinn ekki alveg úr skelinni heldur leyfði honum að hanga föstum á sjálfum halaendanum. Síðan klemmdi ég skelina saman undir kjötinu og lagði síðan halan ofan á hálflokaða skelina. Þannig ber skelinn halann uppi. Þetta er gert við alla halana og þeim raðað fallega á álpappír eða álbakka. Útbjó hvítlauksolíu með góðri spænskri jómfrúarolíu og fráleitu magni af hvítlauksrifjum sem ég síðan dreifði rausnarlega yfir halana. Síðan skvetti ég smá hvítvíni yfir, salti, pipar og safa úr hálfri sítrónu og til að kóróna verkið skóf ég með „zester“ íslenskt smjör yfir – kannski 2 msk. Yfir helminginn af hölunum setti ég síðan smáttskorinn rauðan chilli pipar.

kominnabordid

Borið fram með einföldu salati: nokkur spínatlauf, fallegir tómatar, rauð papríka,  mozzarellaostur og ristuð sólkjarnafræ, nýtt baguette (reyndar úr búðinni) og svo náttúrulega hvítvíni sem við höfðum kippt með okkur á leiðina í gegnum fríhöfnina. Við vorum með vín sem ég hef ekki drukkið lengi. Montes Alpha Chardonnay frá því 2007. Vín frá Montes hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér - Montes Alpha Cabernet Sauvignion var fyrsta vínið sem var í algeru uppáhaldi! Þetta er náttúrulega hvítvín og er einstaklega ljúffengt. Fallega gullið vín, lyktar af ávöxtum, þykkt og frískandi á tungu. Gladdi manns heimska hjarta!

Þá verður maður að reyna að svara þessari spurningu – er humar besta hráefnið á jarðarkringlunni eða er það þverskorinn lúðusteik. Á að vera að svara þessari spurningu?– ég held að ég verði hreinlega að elda þennan mat aftur og síðan ákveða mig! Og jafnvel aftur og aftur  - en þarf eitthvað að ákveða hvað er best.

Hvað finnst ykkur?

Bon appetit

matur-1


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Humar er besti matur í öllum alheimi! Basta!

Grillaði reyndar lúðu í vikunni eftir uppskrift frá Sveini Kjartanssyni á Fylgifiskum. Það var guðdómlega gott. Sendi þér slóðina í gamni svona ef ske kynni að þú lumir enn á lúðu    http://www.fylgifiskar.is/uppskriftir/grillrettir/grillud-luda-med-sinnepssmjori/

Með bestu kveðju,

Guðrún

Guðrún Hafsteins. (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 00:22

2 Smámynd: Kolbrún Jónsdóttir

Nammi, held það sé bara ekki hægt að gera uppá milli þessara dýrindis gjafa hafsins.  Hlakka til að prufa þessar dýrindis uppskriftir. 

Kolbrún Jónsdóttir, 27.7.2010 kl. 00:19

3 identicon

Það er bara ekki hægt að gera upp á milli.  Algjör sérgæðaflokkur úr hafinu.  Hefur verið jólamatur á mínu borði (á jóladag).  Og hvítlaukinn má ekki vanta eins og þú ítrekar í uppskriftinni!  Ælta að prófa chilli næst á humarinn. Sumarkveðja.

Auður Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 27.7.2010 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband