Steiktur saltfiskur frá miðjarðarhafinu með ljúffengum steinseljukartöflum

 

Saltfiskur  er sérlega góður matur og hefur fylgt okkur Íslendingum um langt skeið. Þetta var okkar helsta útflutningsvara um langt árabil og hann er vel þekktur í viðskiptalöndum okkar syðst í Evrópu. Ég hef smakkað íslenskan saltfisk bæði á Spáni og á Portúgal eldaðan bæði í tómatsósu og svo hálfdjúpsteiktan í jómfrúarolíu.

 

Ég var svo heppinn að fá að skreppa til Spánar í stuttan heimsókn í byrjun vikunnar þar sem mér bauðst að heimsækja víngerðina Ramón Bilbao, sem er í Rioja héraði, í um klukkustundar fjarlægð frá Bilbao - höfuðborg Baskalands.

 

Við fengum höfðinglegar móttökur, hef greint aðeins frá því á Facebooksíðu minni - hérna. Mun segja betur frá þessari heimsókn fljótlega á blogginu.

 

Eins og nefnt var hérna að ofan þá hefur saltfiskur verið mikilvæg útflutningsvara og lengi vel áttum Íslendingar í vöruskiptasamningum við Spán og Portugúl og við fengum vín af þeim gegn því að þeir keyptu fiskinn okkar. Það er því ekki skrítið að vín frá t.d. Rioja hafa fylgt okkur lengi við góðan orðstír.

 

Steiktur saltfiskur frá miðjarðarhafinu með ljúffengum steinseljukartöflum


Þetta var einkar ljúffengur réttur - og einstaklega fljótlegur. Ég sótti fiskinn til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum.

 

Fyrir fjóra

 

1 kg saltfiskur

2-3 msk hveiti

1 msk paprikuduft

1 tsk hvítlauksduft

pipar

150 ml góð jómfrúarolía

1 dós íslenskir sólskinstómatar

1 msk kapers

15 kalamataólívur

8-10 hvítlauksrif

pipar

 

kartöflur

75 g smjör

fersk steinselja

salt og pipar

 

fallegt salat

 

 

Blandaði hveitinu saman við papríkuduftið, hvítlauksduftið og veltið svo saltfiskbitunum vandlega upp úr hveitinu.

 

 

Hitaði olíuna á pönnu og steikti fiskinn fyrst með roðið niður.

 

 

Skar niður eina dós af íslenskum sólskinstómötum sem eru einstaklega ljúffengir. Það mætti að sjálfsögðu líka nota piccolotómata frá Friðheimum en þeir voru ekki til útí Krónunni. Þessir tómatar eru einstaklega bragðgóðir og aðeins sætir.

 

 

Tók pappírinn utan af hvítlauknum. Skolaði saltpækilinn af ólívunum og kapersnum.

 

 

Setti svo tómatana, ólívurnar, hvítlaukinn og kapersins með fisknium.

 

 

Sneri svo fiskinum og steikti aðeins áfram í tvær til þrjár mínútur.

 

 

Lagði svo allt hráefnið í eldfast mót og setti í 120 gráðu heitan ofn í nokkrar mínútur á meðan ég kláraði kartöflurnar.

 

 

Sauð kartöflurnar eins og lög gera ráð fyrir. Velti þeim upp úr bráðnu smjöri, steinselju og saltaði svo með sjávarsalti.

 

 

Mér fannst fiskurinn líta afar girnilega út.

 

 

 

Þetta vín hefði passað fullkomlega með - en ég prófaði það nokkrum sinnum nú í vikunni sem er að líða úti á Spáni. Það er framleitt í Gaulverjalandi við strendur Atlantshafins og er gert úr Albariño þrúgunni. Þetta er einstaklega frísklegt hvítvín með ljúfum epla- og perutónum og mjúku eftirbragði.

 

 

Þetta reyndist einstaklega ljúffengur kvöldverður. 

 

Hvet ykkur til að prófa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Ekkert frat. Þetta elda ég næst þegar ég finn saltfisk í Kaupmannahöfn. En ekki er það nú rétt að fiskurinn hafi einvörðungu verið borgaður með víni. Á 17. og 18. öld sáu Hollendingar um að koma fiskinum á markað á Spáni og Portúgal (með samningum við Dönsku krúnuna - það var nú öll einokunin). Þeir tóku töluvert að víni fyrir, en einnig salt, keramík (þó Hollendingar hefðu nóg af henni), og olíur. En minnst af þessu víni komst í hendur Íslendinga, sem fengu salt til að salta á næstu vertíð og aðrar nauðsynjar frá Hollandi. Síðar var eitthvað um að flutt væru heitvín til Íslands fyrir fiskinn og einnig ávextir á 20. öld.

FORNLEIFUR, 19.5.2018 kl. 08:12

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Get þó mælt með því að hafa nýmalaða múskatblóm(u) (sem hvorki er blóm né blóma, heldur þurrkað fræhýði af múskathnetunni (fræinu) innan í múskatávextinum, sem er ættaður frá einni eyju Banda í Indónesíu; mace á ensku og macis á suðrænum málum; kallað foelie á hollensku) með í hveitinu, líkt og oft er gert í Portúgal.

FORNLEIFUR, 19.5.2018 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband