Smjörsteikt spriklandi rauðspretta ala meunière

Þetta er þekkt frönsk uppskrift. Oftast er hún gerð með sólkola og til eru uppskriftir þar sem við það er miðað að fiskurinn hafi verið dauður í nokkra daga og jafnvel mælt með því að svo ætti að vera! Hvílíkt rugl! Þetta segir bara að þetta heldur fólk sem býr í miðri Evrópu og hefur ekki aðgang að því ferska hráefni sem okkur Íslendingum býðst.

 

Sólkoli er ekki vara sem fæst reglulega í fiskbúðum en þegar hann finnst mæli ég eindregið með þvi að nota hann þar sem hann hefur ótrúlega mjúkt, flauelskennt fiskbragð. Þegar hann fæst ekki er góður kostur að velja spriklandi ferska rauðsprettu! Og hún er jafnvel enn betri.

 

”A la Meuniere” þýðir að hætti konu malarans, sem byggir á því að velta hráefnum upp úr hveiti. Þetta er lygilega einfaldur réttur – og þegar maður er að vinna með ferskt hráefni þarf ekki að flækja hlutina. Þetta er einföld leið til að fá það besta út úr góðu hráefni – fiski, smjör, kapers, sítrónusafa og steinselju. Einfaldara getur það ekki verið

 

Ég er búinn að birta þessa uppskrift undir flipanum Læknirinn á SkjáEinum en ég átti svo mikið af myndum af honum þegar ég er að elda hann fyrir nýju bókina mína að ég ákvað að skella þessu aftur inn á því formi sem ég kann best við - bloggi!

 

Smjörsteikt spriklandi rauðspretta ala meunière

 

Fyrir 6

 

6 stór rauðsprettuflök

100 g smjör

1 bolli hveiti

Salt og pipar

 

300 gr smjör

6 msk kapers

Safi úr 3 sítrónum

1 sítróna

3 msk fersk steinselja

 

 

Hellið hveitinu á disk, saltið og piprið ríkulega. Skolið og þurrkið fiskinn og veltið upp úr hveitinu.

 

 

Bræðið smjör á pönnu og þegar það hefur þagnað og brúnast steikið þið fiskinn í tvær mínútur á hvorri hlið, roðið fyrst og snúið svo fiskinum varlega yfir þannig að roðið snúi upp.

 

 

Ausið smjörinu yfir fiskinn þannig að hann verði stökkur og girnilegur. Setjið fiskinn á disk eða inn í 50 gráðu heitan forhitaðan ofn. Hreinsið pönnuna og bræðið afganginn af smjörinu á pönnunni.

 

 

Þegar smjörið er bráðið og brúnað, bætið þið kapersi á pönnuna og steikið í eina mínútu.

 

 

Bætið sítrónusafa úr þremur sítrónum saman við, ásamt steinseljunni og hitið í gegn í 30 sekúndur.

 

 

Ausið smjörinu yfir fiskinn. Skreytið með steinselju og ferskum sítrónusneiðum.

 

Núna er kominn tími til að njóta!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæri Ragnar.

Okkur Sigrúnu þótt gaman að hitta þig í Hörpu um daginn.

Mikið fiinnst okkur til bókarinnar þinnar koma sem Börkur gaf okkur, og glaður er ég íhalds kurfurinn að þú skulir kominn á Mogga bloggið aftur.

Og svo gleðst ég yfir málfarinu þínu. Nema, eins og nú virðist tíðkast, þá virðist það orðin lenska hjá okkur að gera ekki greinarmun á orðunum miklu og mörgu.

Og þar sem ég telst til fyrirbærisins "fúll á móti" , grumpy old man, þá pirrar mig of notkunin á "mikið af" þegar orðið margur, sem er svo fallegt orð getur komið í staðinn. Við heyrum orðið vísasta fólk segja "mikið af fólki, mikið af bílum og, guð hjálpi mér, mikið fólk " og eins og lesa mátti í rauðsprettu uppskriftinni þinni, " mikið af myndum" þegar við gætum sagt, margt fólk, margir bílar og margar myndir. Við segjum t.d. : mannmargt, ekki mannmikið.

Kæri Ragnar, nú læt ég af nöldrinu. Þetta gengur í arf að finna að okkar fögru tungu. Ég, einn af hópi systkyna sátum til borðs með foreldrunum yfir þverskorinni ýsunni og kartöflunum varð á að nota orðin ekki rétt, var gjarnan sagt "segir þú svona Sigþór?"

Á morgun ætla ég út í fiskbúð og kaupa mér rauðsprettuflök.

Og láttu nú þetta nöldur um orðnotkun vera tveggja manna tal og taktu því sem vinarbragði.

Með bestu kveðju.

Sigþór

Sigþór (IP-tala skráð) 1.5.2014 kl. 09:19

2 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Kæri Sigþór

Sömuleiðis var gaman að hitta ykkur. Alltof langt síðan síðast.

Ég tek athugasemdum fagnandi og ég þarf svo sannarlega aðstoð með málfar - faðir minn er mér gjarnan innan handar í þeim efnum.

Annars brosti ég þegar ég las þetta - það er alveg ljóst að hvaða Börkur hefur sína eignleika þegar að málfari kemur. Hann gefur mér stundum athugasemdir á það sem mætti betur fara!

Með bestu kveðjum,

Ragnar

ps. Vona að rauðsprettan hafi heppnast vel!

Ragnar Freyr Ingvarsson, 4.5.2014 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband