Frábær fiskiveisla í Lönguhlíðinni; besta bláskelin, grillaður humar og lúðucheviche

island1 

Við fjölskyldan erum í heimsókn á Íslandi um þessar mundir. Frumburðurinn minn hún Valdís hefur verið hérna í tæpar þrjár vikur og verið eins og blóm í eggi í stanslausu dekri hjá öfum og ömmum. Snædís og örverpið, hann Vilhjálmur, komu núna á miðvikudaginn og svo kom ég síðastur á föstudagskvöldið. Pabbi og Valdís tóku á móti mér á flugvellinum - Ísland var í essinu sínu - ekta sumarveður; skýjað, rok og grámi, en samt eitthvað svo heillandi. Mér finnst það alltaf sérstök tilfinning að koma heim og keyra til Reykjavíkur í gegnum hraunið - þessa mosagrónu eyðimörk. 

Það var tekið frábærlega á móti mér þegar heim var komið. Fjölskyldan sameinuð á nýjan leik. Skelfing hvað maður getur saknað allra - oft fattar maður það ekki fyrr en maður hittist á nýjan leik. Pabbi hafði staðið vaktina í eldhúsinu. Og sá hafði verið duglegur. Hann hafði byrjað að undirbúa þessa matarveislu kvöldið áður með því að verka smálúðuna. Þó að ceviche sé einfaldur réttur þá verður maður að huga að því helst daginn áður. 

 Frábær Fiskiveisla í Lönguhlíðinni; besta bláskelin, grillaður humar og lúðucheviche

Ekkert af þessum mat var eldaður af undirrituðum, ég sat bara við borðbrúnina umvafinn fjölskyldunni minni og lét dekra við mig. Og það kann hann faðir minn betur enn flestir og hann á því allan heiðurinn af matargerðinni. Takk pabbi!  Ég fékk að smakka nýjan íslenskan bjór - Gæðing. Hann er bruggaður í Skagafirði af brugghúsi sem ber sama nafn (http://gaedingur-ol.is/). Þetta er ljómandi frískandi bjór af lager gerð. 

ceviche 

Hann byrjaði á því að huga að smálúðunni kvöldið áður. Smálúða var maríneruð í blöndu af ferskum límónu, sítrónu- og appelsínusafa. Þegar ávextirnir eru kreistir er aldinkjötið líka skafið innan úr þeim með skeið til að það fylgi með. Handfylli af niðursöxuðu kóríander er bætt við, auk hvítlauks og svarts pipar. í þessum legi lá lúðan í sólarhring í kæliskáp og stöku sinnum rótað í blöndunni. Tveimur tímum áður en lúðan var borin fram var smátt saxaðri papríku, bæði rauðri og gulri, bætt útí ásamt smáttskorinni steinselju. Salat sett á disk og blandan lögð ofan á og loks skreytt með sítrónusneiðum.

Þessi réttur er sérlega gómsætur, en mörgum finnst það koma spánskt fyrir sjónir að borða hráan fisk, þar sem lúðan er ekki formlega elduð. En fiskurinn "eldast" í áxaxtasafanum. Sýran í honum hleypir fisknum og hann fær á sig aðra og þéttari áferð eins og gerist þegar hann eldast með því að hita fiskinn. Og niðurstaðan er sérlega bragðgóð og frískandi. 

meiraceviche 

Pabbi gerði einnig frábæran rétt - nokkurskonar bláskelssúpu og notaði bláskel sem keypt var hjá bændamarkaði Frú Laugu á Laugalæknum. Þessi skel kom úr Breiðafirðinum - fyrirtækið heitir Íslensk bláskei (http://blaskel.is/index.html) og það verður að segjast að þetta er ein sú glæsilegasta sem ég hef séð. Þéttur og bragðgóður kræklingur - sá besti sem ég hef nokkru sinni smakkað.

júsíbláskel 

Uppskriftin sem pabbi studdist við, er að mestu komin frá Jamie Oliver. Best er að elda kræklinginn á wok-pönnu. Fyrst var að setja wokinn á fullan hita og reyna að fá hans eins heitan og mögulegt er. Þá er er að setja 1-2 matskeiðar af olíu á pönnuna og svo 2 kg af bláskel - hrært í rækilega í smá stund og þá er ætt við; tveimur smátt skornum hvítlauksrifjum, þremur smátt skornum sítrónugrösum, tveimur rauðum chilli-um - auðvitað söxuðum, þremur sentimetrum af smátt skornum engifer, 1 msk af sesamolíu, 4-5 niðursneiddum vorlaukum, salti og pipar og síðan 1-2 handfyllum af ferskum kóríander. Hrært í þessu annað kastið þangað til að kræklingurinn hefur opnað sig (muna að henda þeim sem opna sig ekki = ónýtir) og bæta þá við safa úr 2-3 límónum, einni dós af góðri kókósmjólk og slettu af hvítvíni. Láta suðuna koma upp og bera fram. 

humar 

Pabbi gerði einnig humar á það sem ég get núna sagt, á hefðbundinn hátt, þar sem ég hef bloggað um það nokkrum sinnum áður. Humrinum er lyft upp úr skelinni og grillaður með hvítlauksolíu.

Með matnum drukkum við vín sem Snædís keypti í tollinum núna á leiðinni til landsins. Þetta var Montes Chardonnay 2009 sem er vín í ódýrari kantinum frá þessum framleiðanda. Ég hef oft bloggað um stóru systur þessa víns, Montes Alpha Chardonnay - sem er líka sérlega ljúffengt vín. Þetta er vín sem ég hef smakkað áður - fyrir nokkrum árum síðan. Ljóst á lit. Þykkt í glasi - ávaxtaríkt, smá sýra og smjörkennt eins og Chardonnay vill vera (sem gerir þau svo góð!).

matur 

 Bon appetit!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert J. Eiríksson

Sæll Ragnar

Ég hef skoðað bloggið þitt oft og mikið og alltaf er þetta jafn girnilegt hjá þér

Mig langaði að spyrja þig út frá þessari færslu þótt þú sért í raun ekki kokkurinn núna, en hver eru ca. hlutföllin á sítrus ávöxtunum í ceviche réttinum? Er það bara eftir smekk hvers og eins eða hvað?

Ég bý líka hérna rétt hjá Frú Laugu og bara verð að skella mér á þessa bláskel hjá þeim einn daginn

p.s. eitt enn þessari færslu óviðkomandi (afsakið en..), Ég var að leita um daginn að færslunni um "pain perdue" (it´s just a tribute) .. en hún virðist hafa glatast, amk virkar linkurinn ekki í umfjöllun um hana (á ensku) hérna á þessu bloggi.

M.b.kv
EJE

Eggert J. Eiríksson, 6.7.2011 kl. 11:14

2 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæll Eggert

Takk fyrir að kíkja við á síðuna mína.

Pabbi notaði 3 sítrónur, 2 límónur og eina appelsínu - meginatriðið er að vökvinn fljóti yfir fiskinn. Þannig að það má alltaf bæta við vökva ef þú ert með meiri fisk. Svo má auðvitað hrófla við þessum ávöxtum eins og þú vilt.

Þessi bláskel er auðvitað mögnuð. Fékk aftur þessa bláskel hjá Bjössa vini mínum eldaðan á hefðbundinn hátt - svona Moules Marniere með hvítlauk, lauk og hvítvíni - sælgæti?

Það er hægt að finna eldri færslur með því að nota google. Þá skrifar maður Pain Perdue site:ragnarfreyr.blog.is

Sá þá að hlekkurinn er óvirkur en hann vísar á síðuna sem ég var með á miðjunni en henni hefur núna verið lokað. Það er þá hægt að gera það sama - bara á eyjunni þar sem ég er einnig með blogg: Pain Perdue site:blog.eyjan.is/ragnarfreyr

Svo er hlekkurinn hérna:

http://blog.eyjan.is/ragnarfreyr/2010/04/09/first-blog-in-english-tribute-to-the-grilled-cheese-sandwich-pen-perdue/

Ragnar Freyr Ingvarsson, 6.7.2011 kl. 12:54

3 Smámynd: Eggert J. Eiríksson

Takk kærlega fyrir Ragnar.

Þetta er mikið ljósara fyrir mér núna

Þakka líka fyrir linkinn, ég hef prufað að gera svona "Pain Perdue" eftir minni en ég klúðraði því næstum alveg, og langaði þess vegna að lesa aðferðina betur yfir. 

Fyrir mig með Frú Laugu og annann nýjan nágranna hérna á Teigunum, Pylsumeistarinn (Hrísateig 47) sem er snilldar pylsu og áleggs verslun þar sem allt kapp er lagt á að vera með vandaðar og án aukaefna pylsur frá ýmsum heimshornum, þá er ég allur að fyllast af áhuga með að elda ferskt árstíðabundnara og helst sem hreinast. Þú ert mér mikill innblástur í þessari "nýju" stefnu minni.

Takk aftur fyrir.

Eggert J. Eiríksson, 7.7.2011 kl. 07:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband