16.1.2011 | 19:45
Ótrúlega ljúffeng Steik og Guinnessbaka með grænum baunum: heimsótt aftur fyrir mömmu!
Við vöknuðum eldsnemma í gærmorgun og rifum okkur á fætur. Þó að það væri laugardagur. Við drifum okkur á skíði. Þegar maður býr á flatlendinu á Skáni er fátt um fína drætti þannig að við keyrðum 100 km norður og við landamæri Skánar og Halland er að finna lítið skíðasvæði, Vallåsen. Þarna eru tvær stólalyftur og nokkrar minni diskalyftur og svæðið bara furðugott svona miðað við að engin eru fjöllin. Lengsta brautin var tæpir 1300 metrar. Það var þó dagljóst að þetta svæði dró ekki til sín færustu skíðamennina. Svæðið var pakkað af Dönum og virtist annar hver maður standa á brauðfótum. Þrátt fyrir að hafa verið samtals 5 vikur á skíðum síðastliðin 4 ár hef ég aldrei séð svona mörg óhöpp á skömmum tíma. 10-15 glæsilegar byltur, tveir kröftugir árekstrar, einn sem dróst með T lyftunni fastur á fæti - en sigurvegarinn var eflaust náunginn sem keyrði inn í tré án þess svo mikið að bera fyrir sig hendurnar. Engin virtist slasa sig alvarlega þannig að það er í lagi að viðurkenna þá Þórðargleði sem maður upplifði í gær. Hægri hluti framheilans ljómaði!
Núna hef ég gert þennan rétt nokkrum sinnum. Ég klúðraði honum algerlega þegar hann var eldaður í fyrsta skipti. Ég brenndi hann við - royalt! Og það er engin leið til að redda því - brunabragðið er ekki einu sinni hægt að bjarga með rjóma - sem reddar nú flestu! Þetta er réttur sem þarf tæplega þriggja klukkustunda matreiðslu. Þannig að maður verður að hafa nógan tíma. Eins væri hægt að elda kássuna daginn áður og klára svo bökuna daginn eftir (sennilega væri það bragðbest - mér finnst næstum allar kássur batna við að það að fá að slaka á yfir nótt - brögðin einhvern veginn aðlagast betur hvoru öðru. Það verður þó að segjast að þetta er eins og næstum allur matur sem ég elda - ákaflega einfalt. Hvað varðar klúðrið í fyrsta skiptið - þá skildi ég það eftir við lágan hita til að malla á meðan ég skrapp í skvass. Það var því pöntuð flatbaka það kvöldið.
Eftir að ég gerði síðan Beuf Beaurgnion ala Juliu Childs fékk ég síðan áhuga á því að gera þessa kássu aftur. Hennar leið var fólgin í því að setja kássuna við lágan hita inn í ofn - það fannst mér algert þjóðráð. Ég eldaði því kássuna aftur eins og lög gera ráð fyrir nema skellti henni í ofn við 120 gráðu hita - freistaði svo gæfunnar og skellti mér í skvass aftur. Það var nú ekki skvassið sem eyðilagði hana í fyrra skiptið. Núna hef ég eldað hana nokkrum sinnum með þessari aðferð - og hún virkar alltaf. Nokkrir nágrannar mínir hafa líka prófað að gera hana og lukkast vel! Hvet alla til að prófa enda fantagóður réttur.
Ástæða þess að ég er að minnast á þennan rétt aftur er tvíþætt. Í fyrsta lagi er rétturinn svo góður að það er alveg þess virði að skrifa um hann tvisvar. Og í öðru lagi vegna þess að móðir mín lagði hönd á plóginn og betrumbætta réttinn. Móðir mín, hún Lilja, er ákaflega dugleg að öllu föndri og slíkt handverk leikur í höndunum á henni. Hún sá um að skreyta smjördeigið og ég er ekki frá því að bakan hafi verið ennþá betri fyrir vikið. Fallegur matur smakkast eitthvað örlítið betur en matur sem er ljótur fyrir augað. Mamma - takk fyrir hjálpina.
Ótrúlega ljúffeng Steik og Guinnessbaka með grænum baunum: heimsótt aftur fyrir mömmu!
Fyrst er að byrja því að vinna kjötið aðeins. Um það bil kíló af nautakjöti - alls ekki dýrum bita, en vel fitusprengdum (rétturinn verður eldaður það lengi að allt kjöt verður meyrt eftir þann tíma) - er skorið í 2,5 cm sinnum 2,5 cm stóra bita. Bitarnir eru þurrkaðir vel með eldhúspappír og síðan saltaðir og pipraðir. Þá eru þeir steiktir í vel heitri olíu þannig að þeir brúnast fallega. Gætið að fylla ekki pottinn af kjöti - þá lætur kjötið frá sér vökva og sýður frekar en að karmelliserast á pönnunni. Þegar kjötið brúnað þá er það tekið úr pottinum og lagt til hliðar á meðan farið er í næsta skref. Þá er að skera niður tvo hvíta lauka, 5-6 hvítlauksrif, tvær stórar gulrætur og 2-3 sellerístangir - sem er svo steikt í olíu, saltað og piprað í kannski tíu mínútur við miðlungshita. Gæta þess að brenna ekki grænmetið. Þegar grænmetið er gljáandi og fallegt þá er kominn tími á að bæta kjötinu saman við. Ég velti kjötbitunum fyrst upp úr hveiti áður en þeir fóru aftur í pottinn - þannig býr maður til smá "roux" og auðveldar að kássan þykkni. Þá er bætt tvær dósir af guinnes bjór, nóg af fljótandi nautakrafti, bolli af vatni, salt, pipar, 250 gr af sveppum, 20 steikarlaukar (smálaukar) 2 msk af ferskri rósmarín, 1 tsk af þurrkuðu timian og tvö lárviðarlauf. Hrært vel saman og hitað. Þegar suðan er kominn upp þá er lok sett á pottinn og hann settur inn í ofn 2-2 1/2 klukkustundir við 120 gráðu hita (þá er þjóðráð að gera eitthvað annað).
Smjördeig geri ég aldrei sjálfur - það er hægt að fá það frosið allstaðar, og það er yfirleitt ljúffengt. Tek nóg út úr frystinum til að búa til botn og síðan auðvitað lok. Smjördeigið er lagt í mótið, passa að láta það liggja þétt að. Kássan er tekin úr ofninum, hún mun lykta stórkostlega - ég lofa! Bætti handfylli af rifnum Cheddarosti í kássuna og hræði saman, þá varð hún en þykkari. Kássan er hellt yfir í mótið, cheddarostur er rifin yfir, og lokið sett á. Bakan skreytt - og sá móðir mín affarið um það! Það er mikilvægt að setja nokkur göt á lokið til að hleypa gufunni út. Lokið er penslað með smá eggjaþvotti (egg og skvetta af vatni) - og bakað í 30-45 mínútur þar til smjördeigið er fallega gullið.
Borið fram með grænum baunum og heimagerðum frönskum - niðursneiddar kartöflur, velt upp úr smá olíu, saltaðar vel og bakaðar í ofni þar til fallega gullin brúnar, kannski 45 mínútur.
Með matnum drukkum við Montes Alpha Cabernet Sauvignion frá 2006. Ég hef nokkrum sinnum bloggað um þetta vín áður - enda ekki skrítið þá er þetta eitt af mínum uppáhaldsvínum. Þegar ég keypti það inn í fyrsta sinn veitti ég því athygli að það var flutt inn í viðarkössum. Þetta er stórt Cabernet Sauvignion í þeim skilningi að þetta vín fyllir munninn - kraftmikið, þungt á tungu, eikað, djúpur og dökkur ávöxtur og með löngu eftirbragði - namminamm. Passaði stórvel með matnum og sveik ekki sem endranær.
Bon appetit.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.