Færsluflokkur: Matur og drykkur
31.5.2008 | 19:07
Grilluð nautaspjót, grænmeti og hrísgrjónasalat með kínversku ívafi
Fjölskyldan var að flytja, rétt eins og kom fram í síðustu færslu. Við seldum íbúðina okkar í Skaftahlíðinni og fluttum yfir í Lönguhlíðina (næstu götu) til foreldra minna. Þau höfðu boðið okkur velkominn til sín og við þáðum þeirra góða boð. Það er pínu þröngt á þingi en það er ekki annað en hægt að hafa það gott undir þeirra þaki. Sonur minn virðist eiga í smávegis erfiðleikum með þetta og hefur verið skapmikill með eindæmum síðustu vikur, en virðist núna vera að róast.
Ég og bróðir minn deilum sama áhugamáli. Við erum báðir miklir matgæðingar og höfum einkar gaman af því að standa við eldhúsborðið, skipta með okkur verkum, spjalla um daginn og veginn, skála í bjórglasi og elda...og elda svo aðeins meira.
Maður tekur eftir því þegar maður er að flytja hve mikið af drasli maður á. Þó að maður fari með endalausar ferðir í Sorpu þá virðist maður vera eins og sjórinn að veðra klettana, tekur tíma og meiri tíma. Eitthvað vannst þetta þó! Við fengum hjálp frá okkar nánustu, bróðir minn var alveg ómetanlegur - hann bar endalaust af dóti. Það síðasta til að fara á milli húsa var grillið mitt. Það er hægt að segja ýmislegt um grillið. Einhver kenndi mér að segja það góða fyrst - það góða er að grillflöturinn er stór, hellan er fín og bæði virkar. Annað er drasl. Ég er búinn að eiga þetta grill - Charbroil Big Easy í tvö ár, og veturna á milli var það undir klæðum. Það breytti þó litlu því allir fletir sem ryðgað gátu eru búnir að ryðga. Eina ástæðan fyrir því að ég hennti því ekki í öllum látunum er sú að grillið virkar ennþá o
g líka það að það kostaði hartnær 45 þúsund krónur. Næst þegar ég fæ mér grill fæ ég mér Weber eða eitthvað almennilegt úr ryðfríu stáli ekki einhverja spilaborg.
Grilluð nautaspjót, grænmeti og hrísgrjónasalat með kínversku ívafi
1 kíló af nauta ytralæri var skorið í stæðilega munnbitastórabita - þetta er svona kjöt sem er líklegt til þess að vera seigt þannig að mér fannst það liggja í augum uppi að það þyrfti aðeins lengri marineringu. Þetta var í marineringu í nær 8 klst - ekki hefði sakað upp á bragðið að gera að hafa það lengra - jafnvel sólarhring. Allavega þá setti ég kjötið í skál; hellti 100 ml af terayki sósu, skar niður 4 hvítlauksrif afar smátt, setti, 2 msk af jómfrúarolíu, 1 msk af engifedufti, 1 msk af paprikudufti, skvetta af púrtvíni og svo auðvitað salt og pipar. Þessu var svo blandað vel saman og látið liggja eins og ég nefndi í 8 klst.
Hrísgrjónasalatið var eins einfalt of hugsast getur (ég er alltaf með svona frasa en þetta er satt). Ég með algera dellu fyrir hrísgrjónasalötum. Þau eru bragðgóð, létt, ljúffeng og mjög fyllandi meðlæti sem passaði vel núna þar sem ég var að metta marga munna en ekki með svo mikið af kjöti. Fyrst voru tveir bollar af jasmín hrísgrjónum soðin skv leiðbeiningum. Það fékk svo að kólna aðeins á meðan grænmetið var undirbúið. Þá var gulrót, sellerístöng, laukur og hvítlaukur skorinn smátt niður ásamt nokkrum sveppum sem ég átti afgangs og steikt á pönnu þar til mjúkt í smávegis af grænmetisolíu. Þetta tekur nokkrar mínútur. Þá er hrísgrjónunum bætt saman við og þeim velt saman við grænmetið. Steikt í smá stund þar til þetta hefur blandast vel og þá er tveimur eggjum bætt við salatið. Blandað vel saman - eggin kekkjast fljótlega. Þá er einhverjum góðum bragðefnum bætt við - t.d soya sósu, teriyaki, saltað og piprað og jafnvel bætt við smá sykri.
Grænmetið var auðvelt; paprikur, seppi, kúrbítur, laukur var skorinn niður í hentugar sneiðar og þræddar á spjót. Penslað með hvítlauksolíu og saltað og piprað. Bakað eins og lög gera ráð fyrir þar til það mýkist og fær á sig fallegar rendur.
Með matnum fengum við okkur Lindemans Bin 50 Shiraz frá 2006. Þetta er vín sem er svona "bang for the buck" kostar um 1390 kr í ÁTVR (hvar annars staðar!) Lindemans var í tísku hér um árið - svona kannski eins og Peter Lehman er núna. Þessi fyrirtæki eru í mikilli samkeppni. Lindemans vínin eru mörg hver ansi góð og þetta sérstaklega - og sérstaklega þegar maður hefur verðið í huga. Það er kröftugt, með miklu berjabragði og djúpu og fínu eftirbragði sem varir dálitla stund. The Wine spectator gefur víninu góða einkunn - alls 87 stig af 100 mögulegum. Þetta vín smellpassaði með matnum. Því miður hafði ég bara keypt eina flösku!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.5.2008 | 18:58
Innbökuð humarsúpa, parmaskinku vafinn skötuselur með chorízópylsu, lax með spínati og nóg af hvítvíni fyrir góða vini
Við fengum góða vini í heimsókn nýverið. Við kynntumst þessu frábæra fólki í gengum dóttur okkar en hún eignast þessa vinkonu í leikskóla. Þetta góða fólk eru miklir matgæðingar og því var lagður mikill metnaður í eldamennskuna. Það er virkilega gaman að fá þetta góða fólk í mat - ekki er verra að elda fyrir fólk sem kann að meta mat - og gott vín. Við sátum lengi fram eftir kvöldi...drukkum og spjölluðum. Við erum einmitt að fara að hitta þau aftur í næstu viku þegar við erum að fara til Svíþjóðar til að hitta fasteignasalann sem er að selja okkur húsið sem við erum að kaupa. Húsið er í bígerð og var í raun keypt á netinu.
Það verður að segjast að það er fátt fáránlegra en að kaupa hús á netinu - sérstaklega óbyggt hús. Það eina góða í stöðunni er að maður stendur jafnfætis þeim sem er í landinu - þeir hafa hvort eða er ekkert að skoða frekar en við. En Svíinn hann kann sko að skipuleggja - það vantar ekki - nu planerar vi!. Nú er komið að því að velja innréttingar og jafnvel málninguna á veggina og seinna má það varla vera (skv. Svíum) - húsið er ennþá bara hola í jörðinni! En þeir eru sko ekkert að grínast - meira að segja áður en búið var að taka fyrstu skóflustunguna þá var ég krafinn um hvurslags nettengingar ættu að vera í húsinu og hvort að ég vildi eina eða tvær fjarstýringar með bílsskúrshurðinni...þið haldið kannski að ég sé að grínast en Svíarnir grínast aldrei með áform sín.
Annars vorum við fjölskyldan að flytja aftur í foreldrahús þar sem við komum til með að búa þar til að við flytjum um miðjan september. Við seldum íbúðina okkar í seinasta mánuði og það var pínulítið sárt að kveðja íbúðina okkar í Skaftahlíðinni. En við eigum eftir að hafa það gott hjá mömmu og pabba. Eldhúsið þeirra er alveg frábært nema að þau eru ekki með gashelluborð. Ég hef komið af stað umræðum um að skipta keramikhelluborðinu þeirra út í staðinn fyrir gas - Ég get ekki skilið hvernig á að elda á þessu. Maður bíður að eilífu eftir þessu!!!
Gert var humarsoð. Fyrst voru ein og hálf gulrót, einn laukur, tvær sellerístangir söxuð smátt niður ásamt 3 hvítlauksrifjum. Þetta var steikt í smávegis af smjöri og olíu í 10 mínútur við lágan hita til þess að freista þess að fá allt bragð úr hráefninu. Þá bætti ég við humarskeljum af ca hálfu kílói af góðum humri, humarinn sjálfur lagður til hliðar. Skelin var kraminn vel og rækilega með skeið og steikt með grænmetinu í pottinum þar til hann var farinn að taka aðeins lit. Tveimur glösum af góðu hvítvíni er þá bætt í pottinn og hrært vel, suðan kemur hratt upp og þá setti ég 1 msk af tómatpuree saman við og hrærði vel. Því næst saltað og piprað og rúmlega líter af vatni hellt saman við og leyft að sjóða upp. Jafnframt átti ég afgang af humarsoði í frystinum frá því um jólin sem fékk að fljóta með ofan í soðið. Lokið er sett á og er soðið af krafti í 1-2 klst. Þá er soðið síað - mikilvægt að kreista grænmetið og skeljarnar vel til að fá allt bragð saman við. Smakkað til. Ég setti einnig 1 msk af humarkrafti saman við til að skerpa enn meira á bragðinu. Súpan var svo soðinn niður í ca. 800 ml og varð því kraftmikil og góð. Ég þykkti súpuna með smávegis smjörbollu og 150-200 ml af rjóma. Suðunni var hleypt upp aftur og saltað og piprað eftir smekk. Þá var súpunni hellt yfir í bolla, þrír humarhalar voru settur í hvern bolla, hann svo hulinn með smjördeigi sem var penslað með hrærðri eggjarauði og bakað í 200 gráðu heitum ofni í 15 mínútur þar til smjördeigið var orðið gullið. Þá var innbakaða súpan tekin út og brotið í gegnum deigið og skreytt með smátt skornum graslauk.
Parmaskinkuvafin skötuselur með kaldri sýrðrjóma/jógúrtsósu og steiktri chorízópylsu
100 gr skötuselsbiti, fremur þykkur og vel hreinsaður, var penslaður með hvítlauksolíu, saltaður og pipraður. Hann var svo snöggsteiktur að utan og þvínæst vafin með tveimur sneiðum af parmaskinku. Sneiðarnar voru skorðaðar með tannstönglum. Þessu var svo raðað í eldfast mót og bakað í ofni, 180 gráðu heitum í rétt rúmar 10 mínútur. Með matnum var svo þessi einfalda sósa sem ég hef gert nokkrum sinnum áður. 1 dós af 10% sýrðum rjóma, hálfdós af jógúrt, 2 mjög smátt skorinn hvítlauksrif, 1 smátt skorin skarlotulaukur, 1 kjarnhreinsaður rauður chilli, 1/4 búnt fersk steinselja, smátt skorinn graslaukur, salt og pipar. Síðan setti ég smá fljótandi hunang til að vega upp á móti sýrunni í sýrða rjómanum. Chorízopylsuna fékk ég sælkerabúðinni á Skólavörðustígnum. Frábær verslun! Keypti þrjár litlar pylsur sem ég skar í bita og steikti á heitri pönnu með smá olíu þar til pylsan varð stökk og falleg. Raðaði svo klettasalati á hvern disk, skötuselinn ofaná, pylsuna í kring og svo sósuna yfir - skreytt með smá graslauk.
Steiktur lax með þeyttu spínat og heitri balsamik vinagrettu
Þennan rétt hef ég nú sett á netið áður...einhvern tíma í janúar. Ég set hann inn aftur. Verr og miður þá tók ég ekki mynd af honum en hann var virkilega vel heppnaður. Ég keypti fiskinn í fiskbúðinni Hafrún í Vogunum og fékk virkilega góðan fisk. Virkilega ferskur og eins og oft áður eru ráðleggingar starfsmanna verslunarinnar mjög góðar.
Ég keypti 800 gr af laxi fyrir okkur fjögur sem ég skar niður í 200gr bita - þannig að hver biti var nóg fyrir einn. Stauk smávegis af olíu á hvern bita og saltaði svo með Maldon salti og pipraði með nýmöluðum pipar. Hita 20 gr af smjöri með smá olíu á pönnu og þegar hún var orðin heit, lagði ég laxinn á pönnuna með roðið niður. Mestur hluti af elduninni á laxinum verður áður en honum er snúið. Þannig verður roðið stökkt og bragðgott. Rétt áður laxinn er tilbúinn er bitanum snúið matreiðslan kláruð á innan við mínútum.
Vinagrettan; fyrst er einn skarlotulaukur skorinn smátt niður og steiktur í smá olíu með einu stóru hvítlauksrifi. Svo er 30 ml af góðu balsamik ediki, 4 msk jómfrúarolía, 30 ml af hvítvíni ásamt safa úr eini sítrónu bætt saman við. Nokkrum timianlaufum er bætt útí, saltað og piprað. Þá er einnig gott að setja dálítið af góður hlynsírópi saman við - auðvitað til að ná góðu jafnvægi. Vinagrettan er svo soðin niður um helming þar til hún er þykk og gljáandi. Það þarf aðeins að smakka hana til til að fá gott jafnvægi í hana - þannig að það verður koma svona við eldavélina.
Spínatið var eins einfalt og hugsast getur. Smávegis smjörklípa (10g) og olía var hituð á pönnu og svo var heilum pakka af spínati - um 300 gr - skellt á pönnuna og hrært stöðugt þar til að spínatið hefur koðnað niður. Saltað og piprað. Spínatið verður eiginlega rjómakennt.
Raðað saman fallega á diskinn. Spínatið, svo laxinn með karmelliseraða roðið og svo er heitu vinagrettunni dreift í kring.
Hver réttur fékk að njóta sín með góðu hvítvíni. Ég hafði keypt tvennskonar hvítvín til að njóta með matnum. Annars vegar var ég með Wolf Blass Presidents Selection Chardonnay 2006. Þetta vín er virkilega gott. Það er í dýrari kantinum en margir vilja eyða í hvítvín. Er núna á um 2000 kall en það er hverrar krónu virði, það er frískandi og með talsverðu ávaxtabragði og talsverðri eik. Þetta vín er að ég kemst næst sérvalið af forstjóra fyrirtækisins - sem ku vera mikill víngæðingur. Hvað sem honum líður þá passaði vínið vel með kröftugri súpu.
Með skötuselnum var ég með franskt hvítvín frá Labrouie-Roi Pouilly Fuisseé- sem er Búrgúndar vín (kem til með að keyra í gegnum þann dal í ágúst í sumarleyfi mínu) gert úr Chardonnay þrúgum. Þrátt fyrir að vera Chardonnay eins og hið fyrra þá er þetta vín mildra, fölt á litinn en með talsverðu en mjúku ávaxtabragði en jafnframt fremur þurrt. Ekki eins ríkjandi eikarkeimur og af því ástralska. Þetta vín hefur verið verðlaunað fyrir gæði sín og hefur komist á nokkra lista yfir bestu Chardonnay í heiminum.
19.5.2008 | 09:28
Stórgóð frönsk súkkulaðikaka - Chocolate Nemesis - fyrir 150 manns
Hin ágætu brúðhjón, Arnfríður Henrýsdóttir og Guðmundur Ómar, gengu í hjónaband í gær. Arnfríður, eða Addý eins og ég þekki hana er mikill kvenskörungur. Hún var með mér í bekk í læknadeild og alveg einstök manneskja. Hún náði sér sannarlega góðan mann, hann Gumma. Þetta samband hefur nú fengið ansi mikla prófkeyrslu en þau kornin hafa verið saman í að minnsta 7 ár og eiga saman tvær dætur.
Brúðkaupið var mjög skemmtilegt. Það var haldið í Skíðaskálanum í Hveradölum og það er sérstök stemming fólgin í því að fara út úr bænum til að fara að skemmta sér. Brúðhjónin nefndu það sérstaklega að þetta ætti ekki að vera brúðkaupsveisla - heldur brúðkaupspartí - og partý var það! Það var mikið skálað...og þar af leiðandi drukkið, svo eftir eittleytið var heljarinnar ball með eurovison ívafi. Og þá var dansað...dansað fram á rauða nótt.
Ég hafði boðið þeim hjónum að hjálpa til með brúðkaupið - nánar tiltekið eldamennskuna. Þau báðu mig að gera eftirréttinn. Mín var ánægjan. Addý virðist hafa mikla dásemd á eftirréttum og enn meiri ást hefur hún á súkkulaði og því var í lófa lagið að reyna að gera súkkulaðiköku sem ég hef gert nokkrum sinnum áður. Chocolate Nemesis. Þetta er kaka sem ég fékk fyrst á River Cafe í Englandi. Stórkostleg. Ég þurfti að helminga uppskriftina til að koma þessu í viðeigandi form og einnig til að þetta passaði vel til að bera fram í veislu á svona kökustatífi.
Stórgóð frönsk súkkulaðikaka - Chocolate Nemesis - fyrir 150 manns.
Ég gerði 17 stk. Það var náttúrulega of mikið - en það góða við það er að þá er líka til afgangur daginn eftir. Ég fékk aðstöðu lánaða í stóru eldhúsi og þannig tókst mér að gera þetta á rétt undir 4 klst. Það var nú samt hamast talsvert. Fjórar hrærivélar, 8 hrærivélaskálar, 8 pottar, rúmlega 7 kíló af súkkulaði, rúmlega 3 kíló af smjöri, rúmalega 4 kíló af sykri og 70 egg. Blanda saman og baka í ofni. Ég gerði hverja einustu köku frá grunni...ég held að þannig verði þær betri heldur en að gera allt í einu stóru kari, hlutföllin varðveitast betur þegar þetta er gert í smáum skömmtum - það er allavega mín trú.
Fyrst eru 5 egg sett í skál ásamt 100 gr af sykri, þeytt saman þar til eggin rúmlega fjórvaldast í rúmmáli - þetta mun taka rúmlega tíu mínútur. Á meðan er 200 gr af sykri leyst upp í 125 ml af vatni í potti og þetta svo hitað þannig að úr verði til síróp. Þegar sykurinn er uppleystur er 225 gr af ósöltuðu smjöri bætt í pottinn og leyst upp - því næst er 350 gr af dökku súkkulaði - ég notaði 70% dökkt súkkulaði. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað er blandan orðin að hnausþykkri dökkri blöndu. Þarna er rétt að smakka - hún á að vera alveg ljúffeng - þannig að maður tímir varla að nota þetta í kökuna og verður að pína sig til að halda áfram að baka. Súkkulaðiblöndunni er svo hellt saman við eggin og þeytt saman í tæplega 30 sekúndur. Þá er blandan tilbúinn. Mikilvægt er að setja kökuna í vel smurt mót - ég var bæði með axlabönd og belti - notaði bæði smjör og bökunarpappír. Kakan er svo bökuð í heituvatnsbaði í 160 gráður í rúmar 30 mínútur. Ofnar eru afar breytilegir og því oft nauðsynlegt að lengja bökunartímann. Þetta má finna með því að snerta létt á kökunni - þegar hún er hætt að dúa mikið í miðjunni þá er hún tilbúin.
Súkkulaðikremið var einfalt. Gert yfir vatnsbaði - 100 gr af súkkulaði á móti 80 ml af rjóma (ég gerði 1500 gr af súkkulaði - blöndu af 56% og 70% súkkulaði og 1200 ml af rjóma). Kreminu var svo hellt yfir kökuna og leyft að storkna.
Einnig var ég með hindberjasósu með kökunni - keypti frosin hindber. Fyrir hvert kíló af hindberjum, var 100 ml af vatni og svo 1/4-1/3 bolli sykur. Soðið upp og leyft að krauma í nokkrar mínútur. Smakkað til. Sykrað meira eftir smekk. Mín sósa var aðeins í súrari kantinum til að vega á móti kökunni og kreminu - sem var eins og gefur skilja vel sæt. Að sjálfsögðu var þeyttur rjómi með til þess að setja punktinn yfir i-ið.
Ekki fyrir svo löngu síðan fengum við kollega mína og maka þeirra í mat. Þetta er góðir vinir mínir og við erum búnir að þekkjast síðan við byrjuðum í læknadeildinni. Við erum líka nokkuð samstíga, allir að læra lyflækningar á Landspítalanum og erum allir á leiðinni út í haust. Það var gaman að setjast niður svona utan veggja spítalans - það er nú samt þannig að umræðuefnin leita alltaf tilbaka á kunnuglegar slóðir, ræðum um uppákomur í vinnunni, með öðrum orðum tölum bara um vinnuna. Þó var nú mikið skeggrætt um þær breytingar sem verða á okkar högum þegar við flytjum næsta haust.
Þessi uppskrift er sígild á mínum bæ. Ég er mikill aðdáandi ofnbakaðs kjúkling og þá sérstaklega þegar ég grilla hann á teini - ekkert betra. Núna vorum við bara svo mörg í mat að ekki var hægt að grilla á teini, heldur var kjúklingum nánast staflað upp á ofnskúffu. Þetta var glæsileg sjón, nokkrir kryddaðir kjúklingar í röðum. Ég hef eitthvað verið að forvitnast hvort að hægt sé að nálgast lífrænan kjúkling, eða free range hænur en hef ekki orðið neins vísari. Það væri gaman ef einhver gæti beint mér á rétta braut.
Ég segi oft að hlutirnir séu einfaldir, sem er í raun alveg rétt. Það er fátt sem ég geri í minni eldamennsku sem er flókið eða krefst mikillar tæknilegrar kunnáttu. Hins vegar má segja að ég fari oft lengri leiðina að hlutunum eins og til dæmis við sósugerð. Ég byrja eiginlega alltaf að á því að búa til hefðbundið grænmetissoð. Stundum hef ég gert kjúklinga, gæsa, nauta, andasoð frá grunni en alltof sjaldan. Þar svindla ég stundum og nota gott soð - mér finnst Oscars vera ágætt og gefa frá sér ágætt soð án málmbragðs sem oft fylgir tengingasoði. Eins hef ég verið að nota fljótandi soð sem hafa reynst mér hreint ágætlega.
Ljúffengur ofnbakaður kjúklingur með rótargrænmeti, einföldu salati og ostasoðsósu
Þessi uppskrift á rætur sínar að rekja í bækur/þætti Jamie Oliver - þetta var eiginlega uppskrift sem ég sá á vídeóspólu með matreiðsluþáttum hans sem mér var gefin og er eiginlega fyrsta uppskriftin sem ég man eftir að hafa veitt mér mikinn innblástur í eldhúsinu.Fyrst var að útbúa kryddsmjör sem var gert á eftirfarinn hátt; 100 gr af mjúku söltuðu smjöri, 5 msk af góðri jómfrúarolía var sett í skál. Þá heilmikið af fersku basil, steinselju, timian, safi úr 1 sítrónu sítrónu, salt og piprar er hnoðað saman og sett undir haminn. Hamnum er lyft varlega upp þannig að pláss myndast á milli hans og kjötsins. Þetta er einfalt, bara renna hendinni undir haminn og skilja hann frá kjötinu, bara að passa sig að rjúfa ekki gat á hann þannig að kryddsmjörið renni ekki út. Kjúklingurinn er settur í 180 gráðu heitan ofn og bakað þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Tekur um 90 mínútur. Látin hvílast í 10 mínútur áður en hann er skorinn.
Sósan var einföld soðsósa með smá varíans. Tvær gulrætur, tvær sellerísstangir, einn laukur, einn skarlotulaukur, 6 hvítlauksrif eru saxaðar niður og steiktar "saute'ed" í 10 mínútur í 2 msk af jómfrúarolíu. Þannig sleppir grænmetið sínum krafti og er þá tilbúið fyrir næsta stig sem er að hella rúmlega líter af vatni hellt saman við. Kjúklingakrafti er bætt við skv. leiðbeiningum og þá er soðið soðið í 1 klst með lokið á. Þá er soðinu hellt í gegnum sigti og sett síðan aftur í pottinn. Smakkið og saltið og piprið eftir smekk. Því næst er sósan þykkt með roux (smjörbolla; 30 gr smjör og smá hveiti blandað saman í potti og soðinu hellt varlega saman við). Því næst er 1/3 af camenbert bætt saman við og svo einni msk af rifsberjasultu. Saltað og piprað aftur eftir smekk. Til að gefa sósunni fallegri lit bætti ég 30-40 ml rjóma útí og leyfði henni að sjóða upp aftur og þykkna.
Rótargrænmeti er ljúffengt. Ég hef oft sett þetta á netið áður, einnig hef ég sett þessa uppskrift í Gestgjafann. Hún var í villibráðablaðinu og einnig í bestu uppskriftum ársins. Þið verðið ekki svikinn af þessu. Nokkrar stórar gulrætur, kartöflur og sætar kartöflur eru flysjaðar og skornar niður í góða bita. Þvínæst er nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu hellt yfir grænmetið og því velt um þannig að það hjúpi vel. Þá er maturinn saltaður með Maldon salti, grófum nýmöluðum pipar sáldrað yfir og svo er laufum af nokkrum greinum af rósmarín og 6 niðurskorinn hvítlauksrif blandað saman við. Bakað í ofni í rúman klukkutíma þar til að kartöflurnar eru mjúkar og gullnar.
Borið fram með einföldu salati; græn lauf, smávegis af tómötum, sólkjarnafræjum, mozzarellaosti, basil og steinselju, sáldrað yfir með jómfrúarolíu og salti og pipar.
Með matnum drukkum við Penfold bin 28 Kalimna Shiraz 2006. Þessi tegund vín hefur unnið amk. tvívegis til verðlauna á alþjóðlegum vínhátíðum.Virkilega gott rauðvín. Þetta er vín sem er blandað úr þrúgum frá nokkrum ekrum í Barossa dalnum í Ástralíu. Bragðmikið, ávaxtaríkt og kannski dáldið rjómakennt vín, það bar aðeins á áfengisbragði en það passaði bara vel með matnum sem var fullur af ögrandi kryddjurtum.
Ég hef uppásíðkastið horft á þætti á netinu sem heita John Bull Reggae kitchen. Ég rakst á þennan herramann á vafri um netheima þar sem ég var að flakka á milli matreiðslusíðna. Það er ótrúlega mikið af fólki útí heim sem þjáist af sömu matreiðslusýniþörfinni eins og ég. Gott að vita að maður sé ekki eyland. Alltént er þessi maður jamaískur kokkur sem hefur gert nokkra stutta matreiðsluþætti sem eru alveg ágætir og gefa smá sýn inní jamaíska matargerð. Læt fylgja með smá klippu sem er af youtube þar sem hann kennir manni að elda jamaískan "jerk" Chicken, man!
Það er talsvert síðan að ég og bróðir minn ákváðum að skella okkur í þessa matargerð - ástæða þess að þetta hljómar eins og skuldbinding er vegna þess að það þarf að elda geit í dálítinn tíma til þess að hún verði meir - allavega það kjöt sem mér var skaffað. Annars skilst mér á því sem ég hef lesið á netinu að ungar geitur séu afar meirar og góðar og því vaknar sá grunur að mín geit sé hokin af lífsreynslu. En hvað um það - marinering og suða mun leysa allan þann vanda.
Við fórum í bústaðinn til að elda þessa máltíð. Það er langt síðan að við vorum þar síðast fyrst og fremst vegna þess að foreldrar mínir hafa verið að stækka bústaðinn og því hefur verið erfitt að vera þar vegna framkvæmda. Núna var miðhúsið - byggingin sem tengir það gamla við það nýja að verða tilbúið og því kjörið að slá á létta strengi og halda upp á það með góðri matarveislu. Dugir eitthvað annað til?
Bróðir minn, Kjartan, sá að mestu um eldun á geitinni en ég kom inn á seinni stigum málssins og sá að mestu um meðlætið. Ég bað hann því að koma með smá innslag;
Curry goat er einn af þjóðarréttum eyjarskeggja á Jamíku og í ljósi þess skiptir umgjörð matseldarinnar jafn miklu máli og annar undirbúningur. Til dæmis hjálpar þungur bassi kjötinu að brotna niður og mælt er með því að taktþung reggae tónlist sé látin hljóma á meðan kjötið marinerast. Vert er að benda á það að ekki gengur að spila UB40 vegna þess að miður skemmtilegar tilraunir hafa leitt það í ljós að sú tónlist snúi ferlinu við og kjötið reynist jafnvel enn seigara en áður en marinering hófst. Til að verða rétt stemmdur fyrir undirbúninginn er tónlist og almennt karabískt stemming lykilatriði, byrjendur geta til dæmis klætt sig í litríka skyrtu og spilað calypso en lengra komnir fara einfaldlega úr að ofan og dilla sér við nyabinghi trumbuslátt.
Jamaísk karrígeit að hætti John Bull, með flatbrauði, salati og steiktum kartöflum
Eins og sagt var í innganginum þá þarf marinera. Tekið er geitarkjöt (eða annað gott kjöt má vera seigt!) og sett í skál og útí hana er sett; 2 msk carrý duft, rúmlega 1 tsk af timían, lófafylli af muldum kóríander og paprikudufti, 3 pressuð hvítlauksrif, salt og pipar og 2 dollur af hreinni jógúrt. Öllu blandað saman í stóra skál og marinerað í sólarhring í ísskápnum.Daginn eftir:Hellið msk af jurtaolíu í stóran pott. Fjórir til fimm bitar af geitakjötinu eru steiktir snögglega til þess að laða fram kraft og svo er afganginum af kjötinu hellt ofan í - sem kallar nánast samstundis fram vökva (munið að skafa vel innan úr ílátinu sem notað var við maríneringuna svo ekkert fari til spillis!). Bætið við rúmlega einum lítra af heitu vatni og einni kanilstöng. Pottinum lokað og kjötinu leyft að malla í
3-4 klukkutíma jafnvel lengur. Að því loknum er bætt við góðum slurk af rauðvíni (t.d. hálfri flösku) og vatni, einum lauk skornum í þunnar sneiðar, msk af hlynsírópi, skvettu af sítrónu safa, lambakrafti, salt og pipar, örlítið af sweet chilli sósu, 2 lárviðarlaufum, og handfylli af ferskum kóríander og steinselju.
Flatbrauð var einfalt, 500-600 gr af hveiti, 2 tsk af salti, 4 msk af ágætri olíu. Pakki af geri er vakin í volgri mjólk og er þessu síðan hrært saman. Hellti um 200 ml af AB mjólk saman við ásamt smá skvettu af vatni þar til að ég var kominn með mjúkt og meðfærilegt deig. Leyft að hefast í klukkustund. Biti og biti er klipinn af deiginu, flattur út, penslaður með heimagerðri hvítlauksolíu og grillað þar til gullið og girnilegt.
Hálft búnt af lambhagasalati var rifið niður á disk, tómatar, rauðlaukur var skorin í þunnar sneiðar og settur í skál og yfir það hellt safa úr einni sítrónu, 2 msk jómfrúarolía, skvetta af hlynsírópi, salt, pipar og eitt mjög smátt skorið hvítlauksrif. Þessu var blandað vel saman og látið standa í 30 mínútur. Blöndunni var svo dreift yfir salatið og skreytt með ferskri steinselju.
Kartöflurnar voru fyrst forsoðnar í 10 mínútur í söltuðu vatni. Svo voru þær skornar í átta fleyga og svo steiktir á pönnu. Fyrst var olía hituð, smávegis af kúmen og kóríander var vakið í olíunni, kartöflunum bætt á pönnuna og steikar þar til mjúkar. Saltaðar og pipraðar rétt í lokin.
Með matnum var að sjálfsögðu drukkið mjög gott rauðvín; Wolf Blass Grey Label Cabernet Sauvignion. Einhver hefði kannski valið annað vín með matnum - og sagt að þetta fín væri of flott til að hafa með svona mat, en þetta var gripið í leiðinni og það var engin í vonbrigðum með valið. Þykkt og mikið vín með löngu eftirbragði, mikill ávöxtur og kannski pínu súkkulaði. Þó er ég engin atvinnusmakkari. Allavega þá var vel smjattað á víninu
Að máltíð lokinni var bjór opnaður, farið í skýlu og svo horft til himins.
John Bull hefði sennilega sagt þetta á þessa leið; Maraniiieeeeriiing: Put deh goat tings in a large bowl ... spice em wit pepper, ground coriander, 3 crused garlic gloves, 2 tablespoons of curry powder, thyme, sea salt, paprika and 2 tins unflavoured yoghurt. Maraniieerr for a over night.
Deh next day: Fry deh goat tings in a large pat. Add one liter hot water and let it simmer for a few hours. Add a cinnamon stick. Then add red wine and more water. Season wit stock, maple syrop, sweet chilli, s&p, fresh koriander, a little lemon, fresh parsley...Eat and enjoy deh carribean flavours ... straight from king jah rastafari haile selessi i continually lion of judah ... BO!
Matur og drykkur | Breytt 9.5.2008 kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2008 | 01:15
Hvernig San Moriglio kryddolía varð að pizzu fritta, ljúffengu brauði og hamborgurum með sæt kartöflufrönskum
Var á vaktinni í gærkvöldi. Það var talsvert að gera þannig að ég svaf aðeins fram eftir degi. Fór í ræktina þegar ég vaknaði og þegar heim var kominn fórum við hjónin með Villa í hjólatúr. Skruppum í búðir og svoleiðis. Ég er aftur á vakt á morgun þannig að þetta mun verða rólindiskvöld.
Á miðvikudaginn fór í þrítugsafmælisveislu hjá Gísla Bergmann og vini hans Gunna. Veislan var haldin í Flugröst í Nauthólsvík. Þeir veittu ansi vel og maður var ansi lúinn daginn eftir. Ég vaknaði með nautasteik á heilanum og hjólaði alla leið í Melabúðina til að kaupa steikina. Hún var ekki gefins, 3490 kall kílóið af ribeye nautakjöti. Um leið og heim var komið heyrði ég auglýsingu frá Gallerí kjöt og Hagkaup með lægra verð - þúsund kalli ódýrara. Damn it!!!
Ég bjó til San Moriglio kryddolíu með matnum; Búnt af steinselju, basil, 1/3 búnt timian, hálft búnt salvía, salt, pipar, 50 ml jómfrúarolía og safi úr einni sítrónu. Hún var ansi höst - svona þegar þessu var snarað saman svona rétt fyrir matinn. Ég geymdi samt allan afgang ti að nota næstu daga...ekki sé ég eftir því. Daginn eftir hafði hún jafnað sig mikið og var orðin alveg ljúffeng.
Daginn eftir fékk ég mér steikarsamloku með kartöflum og smávegis San Moriglio og sætu sinnepi. Ljúffengt. Brá mér svo á vaktina sæll, glaður og mettur.
Átti ansi mikið af San Moriglio eftir þannig að ég ákvað að baka brauð og nota kryddolíuna einhvern veginn saman við. Brauðið var einfal og hef oft sett þessa uppskrift inn áður; 600-800 ml af hveiti, 20 gr af góðu salti, 2 msk af jómfrúarolíu er sett í skál. Í könnu er ger vakið; 250 ml af volgu vatni, 1 pk þurrgeri og 2 msk af sykri er hrært saman. Þegar gerið er farið að freyða er því hellt saman við hveitið og hnoðað vandlega saman. Leyft að hefast í rúma klukkustund.Pizza Fritta með steik og tómötum
Þegar deigið var búið að hefa sig vel tók ég handfylli af deiginu og flatti út í ca 15 cm í þvermál - svona flatbrauð. Hitaði eina matskeið af hvítlauksolíu á pönnu og setti svo deigið út á. Þegar það var að taka lit snéri ég kökunni; setti 2 msk af Hunt roasted garlic tomato sauce, nokkrar sneiðar af steikinni sem var afgangs frá því um daginn (nýting 100%), fimm sneiðar af góðum tómötum, smávegis af afgangs piparosti og svo pizzaosti og leyfði þessu svo að steikjast í nokkrar mínútur þar til deigið fór að brúnast að neðan. Þá skellti ég pönnunni undir heitt grill í ofninum í nokkrar mínútur þar til osturinn varð gullinbrúnn. Þvílíkur miðaftansverður!!!
San Moriglio kryddbrauð
Þegar ég bjó til pitsuna lamdi ég deigið niður og leyfði því svo að hefast aftur í rúman klukkutíma. Þá flatti ég það út í ferning og smurði afganginum af kryddolíunni á ferninginn og rúllaði honum svo upp eins og rúllutertu. Penslaði svo deigið með hrærðu eggi, saltaði og pipraði og bakaði í ofni í 40 mínútur við 180 gráðu hita. Brauðið var svo notað í hamborgarana.
Hamborgarar með sæt kartöflufrönskum
Venjulega bý ég til mína eigin hamborgara, en mér hafði láðst að taka nautahakk úr frystinum þannig að ég varð að kaupa tilbúna og krydda eftir smekk. Þeir voru grillaðir eins og lög gera ráð fyrir og bornir fram á San Moriglio kryddbrauðinu með Gullosti, basil, tómötum, salati og Alloli (hvítlauksmayonaise). meðlætið var sætkartöflufranskar.
Tvær meðalstórar sætar kartöflur voru flysjaðar og skornar niður í fremur stórar franskar. Settar í skál og 3-4 msk af jómfrúarolíu hellt yfir, laufum af tveimur rósmaríngreinum, 2 smátt skornir og kjarnhreinsaðir chillibelgir, 3 smáttskorinn hvítlauksrif og svo salt og pipar. Bakað við 180 gráður í sirka 30 mínútur.
Með matnum fengum við hjónin okkur rauðvín - sama og við fengum okkur um daginn. Rosemount Estate - Show reserve - Coonawarra frá 2002. Virkilega gott vín - sveik svo sannarlega ekki frekar en áður. Þetta var dökkt og þykkt vín - bragðmikið, með langt og þungt ávaxtabragð, talsverða eik.
Bon appetit.
21.4.2008 | 20:10
Tveir pottþéttir pastaréttir - Pasta puttanesca og pasta með truffluolíu og eggi - leiftursnöggir
Þetta er búinn að vera hreint út sagt prýðisgóður dagur. Er við það að klára úrdrátt fyrir lyflæknaþingið sem ég þarf að klára í kvöld. Það gengur vonandi eftir. Er með tvær færslur í vinnslu - hef aðeins verið að drolla við að klára þær. Þær verða tilbúnar í vikunni. Á meðan ákvað að skella inn svona tveimur stuttum uppskriftum.
Þetta eru tveir mjög snöggir pastaréttir sem hægt er að gera á meðan pastað sýður og svo bera matinn fram nánast um leið og pastað er soðið. Það er til mikið af svona réttum. Ítalir hafa mörg trix upp í erminni.
Þetta er réttur sem mér skilst að sé kominn frá Napólí. Þýðist á móðurmálið; pasta portkonunnar. Hann er afar einfaldur og sérstaklega bragðgóður. Sumum mun blöskra ansjósurnar sem eru notaðar í réttinn en ansjósur eru hreinasta sælgæti - eru í raun náttúrulega þriðja kryddið - treystið mér...það verður ekkert fiskibragð af matnum.
350 gr af góðu pasta er sett í ríkulegt magn af sjóðandi söltu vatni. Þá er 50 gr af ansjósum skornar smátt niður, og steiktar ásamt 4 smáttskornum hvítlauksrifjum í 5 msk af góðri jómfrúarolíu. Þegar ansjósurnar eru bráðnaðar og hvítlaukurinn farin að verða gylltur þá er 1 meðalstórum smátt skornum rauðlauk, 25 kalamata ólífum (sem ég steinhreinsaði), 30 meðalstórum kapers bætt á pönnuna og nýmöluðum pipar. Leyft að hitna í gegn og þá var einni dós af góðum niðursoðnum tómötum bætt á pönnuna, tómatarnir stappaðir niður. Leyft að sjóða á meðan pastað var að verða tilbúið. Þegar það var soðið setti ég 20-30 ml af pastavatninu útí sósuna og hellti svo af pastanu. 1/2 búnti af steinselju og 1/2 búnti af basil var þá hrært saman við. Pastað var svo sett aftur í pott, sósunni hellt yfir, hrært saman, lokið sett á og leyft að standa á meðan meðlætið var borið á borð.
Með matnum var baguetta, einfalt salat, parmesanostur og smá tár af Montalto Catarato Chardonnay úr kassa. Prýðisgott vín með talsvert ávaxtabragð en fremur stutt eftirbragð. Ljómandi af kassavíni að vera.
Spaghetti með hvítlauk, truffluolíu og steiktu eggi
Ég veit hljómar kjánalega en er alveg ljúffengt. Þetta slær nánast eggi og beikoni við á erfiðum sunnudagsmorgnum!
Handfylli af góðu spaghetti er soðið skv. leiðbeiningum í söltuðu vatni. 2-3 matskeiðar af jómfrúarolíu er hitað á pönnu, 3 hvítlauksrif eru smátt skorinn og sett útá pönnuna og nokkrir skvettur af góðri truffluolíu er einnig sett útá. Á annarri pönnu eru tvö egg steikt eins og lög gera ráð fyrir. Þegar spagettíið er tibúið er vatninu hellt frá og spaghettiið sett á pönnuna með olíunni, hvítlauknum og truffluolíuna. Hrært vel saman við, saltað og piprað. Fært á disk, eggin sett ofan á. Nokkrum dropum af truffluolíunni er sáldrað yfir eggin auk nýrifnum parmesanosti og smátt skorinni steinselju.
Bon appetit.
16.4.2008 | 22:41
Grillaður hreindýrahryggur, tvennskonar hasselback kartöflur með balsamikrauðvínssósu - á undan klassískir forréttir
Var á vaktinni um helgina. Fremur rólegt en aldrei þannig að það væri hægt að hvíla sig að ráði. Ekkert verra en að brjóta nóttina niður í nokkra hálftíma lúra. Ekki það að ég sé að krefjast þess að maður eigi að sofa á vaktinni - alls ekki - en þegar það er mögulegt er súrt að láta vekja sig með stuttu millibili. Maður verður bara hálfruglaður. Var því hálfmyglaður þegar ég kom heim af vaktinni. Svaf í nokkra klukkutíma. Þegar ég vaknaði fengum við fjölskyldan þá einstöku hugmynd að skella okkur í sund - augljóslega ekki frumleg hugmynd því allir Reykvíkingar ákváðu að bregða sér í laugarnar. Þetta var samt notalegt - að venju.
Unnur og Bjössi komu til okkar í mat í kvöld. Þau eru búinn að vera í nokkra mánuði í Englandi að sýna Hamskiptin sem við fórum að sjá í London í janúar. Virkilega gott stykki. Það er nú samt gott að þau séu kominn heim því það er alltaf gott að fá þau í mat.
Ég er að vinna í því að elda eins og ég get út úr frystinum. Þannig að hann tæmist nú sem fyrst. Vorum að selja íbúðina nýverið og komum til með að flytja aftur í foreldrahús í næsta mánuði. Það verður kannski meira af kjötuppskriftum á næstunni þar sem frystirinn minn er ennþá pakkaður af kjöti.
Grillaður hreindýrahryggur, tvennskonar hasselback kartöflur með balsamikrauðvínssósu - á undan klassískir forréttir
Forréttirnir voru sígildir. Þetta eru klassískir ítalskir forréttir sem alltaf standa fyrir sínu. Þarna gildir reglan að nota gott hráefni og hafa þetta einfalt. Góð honey dew melóna var skorin í fallegan sneiðar og var svo vafin hráskinku - reyndar Serrano skinku, lagt ofan nokkur blöð af klettasalati. Skreytt með tveimur blöðum af steiktri salvíu (heit olía og salvían látin ofan í augnablik - nánast djúpsteikt). Þá bjó ég einnig til bruschettur. Baguette skorið í sneiðar og ristaðar blússheitri grillpönnu. Þegar brauðið er grillað tómatblöndunni dreift yfir. Hún er afar einföld, þrír velþroskaðir tómatar eru skornir niður, einn smár rauðlaukur, 1 smár skarlotulaukur, hálft búnt af basil, 5 msk af góðri jómfrúarolíu, 1 niðurskorinn mozzarellaostur, 2 smátt skorin hvítlauksrif, Maldon salt og nýmalaður pipar. Þessu er öllu blandað saman og látið standa í 30 mínútur. Dreift ofan á brauðið í ríkulegu magni.
Byrjaði á sósunni. Byggði hana á uppskrift Úlfars Finnbjörnsonar matreiðlsumeistara - breytti þó aðeins útaf reglunni. Útbjó gott villbráða og lambasoð úr krafti. Skar heilan rauðlauk, 150 gr af sveppum sem var síðan steikt upp úr olíu þar til mjúkt. Setti síðan 2 tsk tómatpúré, 1,5 msk af hunangi, 2 msk af góðu balsamikediki, 2,5 dl af Rosemount Cabernet Shiraz rauðvíni út í. Leyfði þessu að sjóða niður um rúman helming. Þá var 5 dl af soðinu sett saman við og leyft að krauma í 40 mínútur. Hefðbundið "roux" var útbúið í potti og svo var soðinu hellt varlega saman við í gegnum sigti til að blanda saman. Þurfti aðeins að bragðbæta með rjómaosti með sólþurrkuðum tómötum og svo salti og pipar til að ná balans. Afar bragðmild og góð sósa sem hentaði matnum vel.
Þá er það aðalrétturinn...Að grilla hrygginn var nógu einfalt. Eina var að ofelda hann ekki og mér tókst að passa slíkt með hitamæli sem er eitt mikilvægasta tækið í eldhúsinu. Hita grillið vel og rækilega. Steikin er pensluð með góðri jómfrúarolíu, saltað og piprað. Það er mikilvægt að salta steikur að utan rétt áður en hún er elduð. Sumir segja að það þurrki kjötið, það er rétt ef það er ríkulega saltað og gert löngu áður, en mátulegt salt rétt fyrir eldun gerir það að verkum að smávegis að vökva er dreginn að yfirborð steikarinnar og hún karmelliserast að utan og myndar fallegan og bragðgóðan hjúp. Þegar kjarnhiti er kominn í tæpar 60 gráður er steikin tekin til hliðar og hvíld undir ábreiðu í 10-15 mínútur. Þá er hún skorin og lögð á diskana.
Ég gerði tvennskonar Hasselback kartöflur. Hasselback kartöflur eru skornar á ákveðin hátt. Þú skerð nærri því gegnum kartöfluna, þunnar sneiðar. Ég skar bæði venjulegar bökunarkartöflur og svo einnig sætar kartöflur. Sáldraði smávegis af hvítlauksolíu yfir kartöflurnar (þarna var smá klúður, þrátt fyrir að hvítlaukurinn væri smátt skorinn þá brann hann í ofninum þar sem kartöflurnar þurfa svo langan tíma í ofni). Kartöflurnar voru svo bakaðar í ofni í tæpan klukkutíma við 180 gráður.
Borið fram með einföldu salati; græn lauf, rauð papríka og jarðaber. Með matnum drukkum við alveg frábært rauðvín. Rosemount Estate - Show reserve - Cabernet Sauvignion, Coonawarra frá 2002. Ég spurði vin minn sem starfar sem vínráðgjafi í ríkinu hvað væri "best buy" um þessar mundir í ÁTVR. Hann nefndi þessa tegund - frá 2002. Mér var sagt að það hafi nýverið verið lækkað í verði úr rúmlega 2300 kalli í 1490 krónur. Þetta vín er þroskað í rúma 20 mánuði í eikartunnum og svo hálft ár á flöskum. Samkvæmt því sem kemur fram á heimasíðu Rosemount var þetta kalt sumar sem orsakaði litla en ákaflega bragðmikla uppskeru. Þetta var dökkt og þykkt vín - bragðmikið, með langt og þungt ávaxtabragð, talsverða eik.
Matur og drykkur | Breytt 28.4.2008 kl. 01:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.4.2008 | 16:47
Ljúffengur lax með steiktu kúrbítsspaghetti, heitri sesamkryddolíu og soðnum hrognum
Ég hef sett margar fiskuppskriftir undanfarið á bloggið mitt enda hef ég verið að leggja mig fram við það að elda meiri fisk. Ég hef bæði verið að skoða góðar uppskriftir á netinu og einnig verið að blaða í uppskriftarbók frá Rick Stein sem heitir Seafood, ég hef einhvern tíma áður minnst á hana á netinu. Hann rekur nokkra fiskveitingastaði í Englandi ásamt því að reka kokkaskóla og búa til vinsæla sjónvarpsþætti. Bæði bækurnar hans og þættirnir eru afar góðir. Ég hef verið að skoða það að fara á námskeið hjá honum - með pundið eins og það er - ætli maður bíði ekki aðeins. En ég væri sannarlega til!
Þessi uppskrift er innblásinn af sjónvarpsþætti sem ég sá um daginn þar sem breskur kvenkokkur fór til fólks í heimahúsi og fékk þau til að galdra fram ljúffenga rétti á einfaldan máta. Mín uppskrift er alls ekkert ólík ein af þeim réttum. Ég bætti einnig við hrognum sem ég bara sauð í potti og skreytti með kryddolíunni. Nýjasti Gestgjafinn datt inn um lúguna hjá mér í dag. Þeman er fiskuppskriftir og reyndar kjúklingur. Lýst afar vel á þetta eintak. Fiskur er frábært hráefni, og fátt meira verðlaunandi en að gera fiskrétt þar sem fólk smjattar af ánægju á eftir matinn.
Fékk ansi skemmtilega athugasemd á síðuna mína um daginn. Þar kvartaði einn lesenda bloggsins að ég notaði alltof hástemmd lýsingarorð á síðunni minni - allt væri stórkostlegt og ljúffengt og þar fram eftir götunum. Ég fór nokkrar færslur aftur í tímann og tók þá eftir því að þetta var alveg rétt! Önnur eða þriðja hver færsla var svona hástemmd. Ég fór því að velta þessu aðeins fyrir mér. Þeir sem mig þekkja persónulega vita að ég hef aldrei lært að temja mér hógværð að neinu ráði - því miður. Og stundum er það bara þannig að mér finnst maturinn minn svo góður! Ég get bara lítið að því gert. Það hefur síðan smitað sér inn í skrifin á netinu. Það hjálpar náttúrulega ekki að maður er kannski búinn með tvö rauðvínsglös, saddur og glaður og kannski orðin pínu meyr!
Ljúffengur lax með steiktu kúrbítsspaghetti, heitri sesamkryddolíu og soðnum hrognum
Kryddolían var gerð úr 120 ml af jómfrúarolíu, 2 msk af sesamolíu, 3 msk af soya sósu, 2 msk sykri, 1 msk muskovadósykur, 2 msk sesamfræ, hálfur smátt skorinn chilli, 4 cm af smátt skornum engifer, 1 smátt skorinn skarlottulaukur, 3 msk saxaður koríander, 3 smáttskorinn hvítlauksrif og safi úr einni sítrónu. Öllu var þessu skellt saman í pott og olían hituð upp hitaður upp. Látin krauma í 20 mínútur á meðan maturinn var eldaður.
1250 gr af laxi var skorinn í 6 jafnar sneiðar. Steikt upp úr 20 gr af smjöri, 1 msk af jómfrúarolíu, 1 tsk af smátt söxuðum chilli, 2 smátt skornum hvítlauksgeirum og 2 stjörnuanísum. Fyrst var olían og smjörinu leyft að bráðna - svo var chillinum bætt útí ásamt hvítlauknum og stjörnuanísnum. Þetta var steikt í smá stund þannig að fitan tæki í sig bragðið af grænmetinu og kryddinu. Þá var laxinn settur á pönnuna og steiktur, fyrst á roðhliðinni í um 6 mínútur þar til að hann fór að breyta um lit á hliðinum og svo um 4-6 mínútur á hinni hliðinni þar til laxinn var tilbúinn.
Kúrbíturinn var skorinn niður í þykk strimla með svona mandólín sem ég fékk lánað frá foreldrum mínum. Það er svona bretti með hárbeittum hnífum. Þannig var hægt að skera kúrbítinn niður í mjóar lengjur. Olía var hituð í potti, 3 smátt skornir hvítlauksgeirar og 2 cm af smátt skornu engifer var sett útí og steikt um stund. Þá var kúrbítnum bætt saman við og steikt þar til hann fór að mýkjast. Þá var einu glasi af Montalto hvítvíni frá Sikiley úr kassa bætt úti og soðið niður. Hrognin voru soðin í söltuðu vatni í um 20 mínútur. Tekin úr, þerruð og skorinn í helminga. Saltað og piprað og smávegis af olíunni sáldrað yfir. Skreytt með fersku kóríander.
Með matnum fengum við okkur Penfolds Rawson's Retreat Semillion Chardonnay frá því 2006. Virkilega bragðgott hvítvín. Talsverður ávöxtur við en einnig rjómakennt og gott vín. Passaði vel með laxinum.
7.4.2008 | 14:41
Stórkostlegar steiktar andabringur með villisvepparisotto og ljúffengri púrtvínssósu
Fengum góða gesti á laugardagskvöldið. Vinafólk okkar Vigga og Bassi eru að koma til okkar í mat. Voru seinast hjá okkur í febrúar. Ég hafði einnig eldað fyrir andabringur þá - þvílík frumlegheit. Við buðum þeim í mat með fremur stuttum fyrirvara og var búinn að taka bringurnar úr frystinum - hafði steingleymt því að við gerðum andabringur fyrir þau seinast. Ég varð því að leggja höfuðið í bleyti og reyna að finna upp á einhverju sniðugu. Úr varð þessi matarveisla.
Það kom kannski ekki að sök að elda andabringur aftur. Þeim fannst maturinn seinast afar góður og mér finnst sjálfum andabringur alveg frábær matur. Það sem var frábrugðið að þetta var keyptar andabringur. Ég sá eitthvað tilboð um daginn á andabringur - 350 gr franskar bringur á 900 kall - ég gat bara ekki staðist það þó að frystirinn stæði á blístri.
Annars var líka ástæða til þess að fagna. Við seldum íbúðina okkar í seinustu viku og munum flytja innan nokkurra vikna. Það er bæði fagnaðar og áhyggjuefni. Foreldrar mínir hafa boðið okkur að vera hjá sér - við þáðum það - þetta verður ein stór fjölskylda. Það verður örugglega mikið um góða eldamennsku því eins og ég hef sagt frá á netinu þá eru foreldrar mínir og bróðir miklir matgæðingar.
Stórkostlegar steiktar andabringur með villisvepparisotto og ljúffengri púrtvínssósu
Var með forrétt - steikt hörpuskel með rauðum chilli borið fram með steiktum jarðaberjum á rucólabeði með crema di balsamico. Hljómar fáranlega en var fáranlega gott. Og fallegt að horfa á. Hörpuskelin var steikt í rúma mínútu á hvorri hlið, jarðaberin sömuleiðis. Sett á disk og nokkrum kóríanderlaufum dreift yfir. Borið fram með góðu hvítvíni. Mjög gott.
Ég hef áður bloggað um risottogerð sem er í raun mjög einfaldur matur en krefst natni og stöðugrar viðveru kokksins. Fyrst eru tveir skarlottulaukar smátt niður skornir ásamt einni sellerístöng og tveir fjórum smátt skornum hvítlauksrifjum í smjöri og olíu og leyft að mýkjast vel. Svo er hrísgrjónunum bætt saman við - ég notaði 500 gr af Arborio hrísgrjónum - sem var svo leyft að veltast upp úr smjörolíunni þar til grjónin fara að verða hálfgegnsæ. Þá hafa grjónin byrjað að losa um sterkjuna sem er í þeim og maður sér hvernig olían verður rjómakennd. Núna er komið að því almikilvægasta. Venjulega er hvítvín eða vermouth notaður í risotto en þar sem ég var að elda andabringur með púrtvínssósu þá fannst mér ekki annað hægt en að nota gott rauðvín. Ég notaði Rosemount GSM. Einhver myndi segja að það væri sóun að nota góð vín í mat - en ég er því algerlega ósammála. Alveg eins og maður velur annað hráefni af kostgæfni þá ætti maður ekki að spara á þessu. Tala nú ekki um ef maður er að leggja sig allan fram.
Tveimur glösum af góðu rauðvíni (oft er notaður vermouth, en ég hef aldrei notað það) er hellt saman við og soðið niður - Mikilvægt er líka að nota regluna um þrenndina við gerð risotto sem hljómar eitthvað á þennan veg: One for the cooking, one for the chef and one for the meal! (eða bara many for chef and the meal). Því má kokkur a.m.k. fá sér tvö léttvínsglös með eldamennskunni og gestir tvö glös með matnum. Þetta er í raun aðalatriðið við gerð risotto - ekki er nóg að rétturinn verði vel úr garði gerður, kokkurinn verður líka að vera vel upplagður og að því er virðist vel marineraður.
Þegar vínið hefur gufað upp að mestu er komið að soðinu - sem var gert úr kjúklingakrafti og vildt bouillion frá Oscars - ca 1,5 L). Soðinu er bætt saman við, ausu fyrir ausu og hrært vel í á meðan. Svona hálfa leið inn í eldun risottosins bætti ég við 250 gr af gróft skornum portobellosveppum og svo einni dós af þurrkuðum skógarsveppum (sem ég hafði nokkru áður vatnað skv leiðbeiningum). Þegar grjónin eru orðin al dente (þetta tekur um 17-20 mínútur) er hægt að bæta við smávegis af soði og ríflegu magni af parmesanosti saman við og klípu af smjöri hrært vel saman og látið standa í nokkrar mínútur. Í lokin er saltað og piprað eftir smekk.
Púrtvínssósan var gerð eftir fyrirmynd Úlfars Finnbjörnssonar matreiðslumeistara. Ég breytti ekki miklu nema kannski bara aðeins lítillega magninu sem ég gerði og svo hvernig ég sætti og þykkti sósuna. Fyrst útbjó ég gott soð. Laukur, gulrót, sellerí og hvítlaukur saute'd í potti í nokkrar mínútur. Setti svo 1 L af vatni og svo nóg af andakrafti. Þessu var leyft að krauma saman í 30 mínútur. Soðið var því næst síað og soðið niður um tæpan helming. Þá steikti ég einn smátt skorinn rauðlauk í potti, bætti við 2 tsk tómatmauki, 2 msk balsamikediki, 250 ml af góðu púrtvíni. Suðan var látin koma upp og þetta var soðið niður um tvo þriðju. Þá var 5 dl af andasoði bætt samanvið og suðan látin koma upp aftur. Ég hellti sósunni í gegnum sigti til að ná lauknum frá og svo var sósan þykkt með roux (smjörbolla - 30 gr smjör og 30 hveiti hrært saman í potti) og hellti sósunni varlega saman við. Saltað og piprað. Einnig setti ég 1 teskeið af bláberjasultu til að fá betri jafnvægi í sósuna.
Andabringurnar voru saltaðar og pipraðar. Steiktar í smá smjöri og olíu á pönnu - nokkrar mínútur á hvorri hlið, þannig að hamurinn var stökkur og fallegur. Þá voru bringurnar settar í eldfast mót og bakaðar í ofni við 100 gráður hita þar til kjarnhiti var um 60 gráður. Því næst teknar úr ofninum og látnar standa í 5-10 mínútur til að jafna sig áður en þær eru skornar.
Borið fram með steiktu mangó - einnig uppskrift frá Úlfari. Tvö mangó skorin í sneiðar og steiktar með smá smjöri ásamt stjörnuanís og kardimommum þar til mjúkt. Átti ekki til hlynsíróp þannig að ég notaði bara smávegis sykur. Í lokin var smátt skornu rauðu chilli sáldrað yfir. Borið fram á hliðardisk. Veit ekki alveg hvort að þetta passaði með matnum - en þetta var skrambi gott.
Með matnum drukkum við Rosemount GSM frá því 2003 sem er blanda af Grenache, Syrah og Mourvedré þrúgum. Þetta er vín sem var val ritstjóra Wine Spectator í maí í fyrra og fékk yfir 91 stig af 100 mögulegum. Vínið er 15% prósent af styrkleika - frekar mikið en bragðið er það ljúffengt og kröftugt að maður finnur ekki fyrir áfengisbragðinu (áhrifin koma þó örugglega). Þykkt og mikið vín með löngu eftirbragði - mikið ávaxta og eikarbragð. Maður er alltaf að reyna að vera flottur á því í vínsmökkuninni.