Fylltur lambahryggur með kartöflugratíni og blómkálsmauki

hryggur6Ég á afmæli um helgina - ég er að verða 32 ára gamall. Það verður að segjast að ég er einn af þeim sem fær áfall yfir vaxandi aldri. Pabbi sagði einhvern tíma að hann hefði verið í sjokki út af þrítugsafmælinu sínu alveg þangað til að hann varð 33 ára - þá hætti hann því en fór frekar að hafa áhyggjur af því hvað fertugsafmælið færðist nær og nær. Við feðgar erum svona katastrófistar þegar kemur að aldrinum.

Ég ákvað hins vegar fyrir helgina að halda ekki formlega upp á afmælið. Ákvað að sleppa kaffiboðinu og fá frekar góða vini í mat. Í gærkvöld kom æskuvinur minn, Sverrir Jan, og konan hans Bryndís í mat. Alltof langt síðan þau komu til okkar síðast. Við Sverrir höfum verið bestu vinir síðan að við vorum 5 ára. Við kynntumst í 5 ára bekk í Æfingaskólanum - sem núna heitir Háteigsskóli. Við gátum sko kjaftað saman - og gerum enn!

Sverrir og Bryndís eru miklir matgæðingar - Bryndís sér aðallega um eldamennskuna á heimili þeirra hjóna og gerir með bravör. Til dæmis hef ég snætt bestu salöt sem ég hef komið í kynni við við matborð á þeirra heimili - og ekki voru réttirnir verri sem salatið fylgdi. Ég ákvað að leggja mig allan fram við eldamennskuna. Þetta er í annað sinn sem ég geri þennan rétt. Af einhverri ástæðu ljáðist mér að setja þetta á netið í fyrra skiptið - en bæti úr því núna. Ég hef aldrei séð þetta gert á íslandi - eða í íslenskum matreiðslu bókum - ég rakst á þetta í breskum sjónvarpsþætti og fannst þetta eins falleg leið til að elda lambahrygg sem hugsast getur. Vona að þig séuð sammála.

hryggurFylltur lambahryggur með kartöflugratíni og blómkálsmauki

 Fyrst er að úrbeina lambahrygginn. Það er í raun hið einfaldasta mál. Bara að muna að passa að skera ekki neitt af hamnum/fitunni - þannig verður auðveldara að loka hringnum. Myndirnar tala sína máli.

Fyllti hrygginn með döðlum, gráðaosti, steinselju, bláberjum, hvítlauk, salti og pipar. Svo var kjötinu rúllað upp. Notaði parmaskinku til að loka endunum til að fyllingin læki ekki út. Steikt á heitri pönnu í nokkrar mínútur og svo bakað í 180 gráðu heitum ofni þar til að kjarnhitinn náði 65 gráðum.

hryggur2Sósan var í raun einföld. Tvær gulrætur, 1 stór hvítur laukur, 5 hvítlauksrif og svo tvær sellerísstangir voru skornar niður og steiktar í 10 mínútur í smávegis af olíu. Svo setti í beinin af hryggnum (sem höfðu verið grillaðar í ofni í nokkrar mínútur undir funheitu grilli) ofan í pottinn og bætti svo 3 lítrum af vatni saman við. Lokið var sett á og soðið í 2 klst - þannig er allt bragð kreist úr beinunum eins hægt er. Soðið er svo síað í annan pott og soðið niður um ca. helming í tæpan líter. Þá er roux útbúið (smjörbolla með 30 gr af smjöri og álíka mikið hveiti) blandað saman í potti, síðan er soðinu hellt varlega saman við. Sósan þykknar við þetta. Til að klára sósuna fóru ca. 50 ml af matreiðslurjóma, 30 gr af gráðaosti og tvær teskeiðar bláberjasultu og svo salt og pipar auðvitað.

hryggur3Kartöflugratínið var hefðbundið. Rúmlega kíló af kartöflum voru flysjaðar og settar í eldfast mót sem hafði verið penslað með hvítlauksolíu. 100 ml matreiðslurjóma, 100 ml af mjólk og svo einn fjórði af Hrók osti sem ég fann inn í ísskáp var sett saman við. Smávegis af múskati var raspað saman við og svo var osti sáldrað yfir. Bakað í ofni í 45 mínútur.

Blómkálsmaukið var líka afar einfalt. 1 haus af blómkáli var soðin í söltuðu vatni. Þegar það var orðið mjúkt var vatninu hellt frá og það maukað með töfrasporta. Smávegis af mjólk/matreiðslurjóma var hellt úti til að gera það þynnra. Saltað og piprað eftir smekk.

Með matnum var drukkið ljúffent vín frá Peter Lehmann GSM sem passaði ljómandi vel með matnum.

 

hryggur5


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var alveg frábær matur og í raun ótrúlegt að maður hafi aldrei smakkað eða heyrt um þetta "trick" áður, þ.e úrbeina hrygginn og svo rúlla honum upp.

 Svo gelymdirðu að nefna að það var mjög góður eftirréttur sem fylgdi í kjölfarið. "mjög góður" - lesist sem: mikið af súkkulaði

Sverrir Jan (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 10:10

2 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég sé að þú ert mikill matgæðingur, þannig að mér dettur í hug að segja frá því að í gærkvöld sunnudagskvöld fór ég ásamt fleira fólki í Perluna að borða. Síðasta kvöld Food and fun. Að mestu leiti var þetta fínn matur en mikið andskoti var vondur fyrsti rétturinn sem kallaður var lystauki. Það var eitthvert túnfiskhlaup, alveg gjörsamlega vonlaust að éta það.

Gísli Sigurðsson, 25.2.2008 kl. 15:18

3 identicon

hola guapo!

feliz cumpleaños

 Allt gott að frétta héðan út sólinni. mikið er ég feginn að sleppa þessum vonda vetri þarna heima. Sakna þó matarboðanna þinna. hvenær ætlið þið að heimsækja spán? er ekki tilvalið að fara í ferð til heitu landanna áður en þið setjist að í rigningunni í Sverge.

Kysstu Snædísi frá mér

Mil besos

Jakob  

Jakob Jóhannesson (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 15:31

4 Smámynd: Daði Þorkelsson

Til hamingju með daginn, ég kanski leyfi þér að vinna mig í pílu næst á stöðinni í afmælisgjöf.

Daði Þorkelsson, 25.2.2008 kl. 17:12

5 Smámynd: Hugarfluga

Nammi namm. Þvílík máltíð!! Takk fyrir að deila með okkur hinum.

Hugarfluga, 26.2.2008 kl. 18:44

6 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Ég hef nokkrum sinnum eldað fylltan lambahrygg, en þá með þessarri hefðbundnu fyllingu sem allir eru komnir með leið á; basiliku, fetaosti, sólþurrkuðum tómötum osfrv. Þetta er frábær uppskrift hjá þér og ég ætla að leyfa mér að stela henni næst þegar ég býð fólki í mat!! Bláber gefa flestu kjöti ekstra gott bragð, svo ég ímynda mér að þetta sé lostæti.

Blómkálsmaukið ætla ég hins vegar að prófa strax á morgun - með lúðu.... gæti trúað að það færi vel með henni.

Læt þig vita um árangurinn ef ég sé þig á spítalagöngunum einhvern daginn.

Kv. Lilja

Lilja G. Bolladóttir, 27.2.2008 kl. 00:44

7 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Til hamingju með afmælið.  ég segi namm þetta er flottur matur takk fyrir.

Kristín Katla Árnadóttir, 28.2.2008 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband