Mílanóskur kjúklingur með tómatspaghetti, salati og rauðvíni

IMG_2051Erfið vika að baki. Verð að segja að í fyrsta sinn í langan tíma þá hlakkaði ég til að komast í helgarfrí. Var að vinna seinustu helgi í Keflavík og það er langt síðan að ég hef séð eins marga sjúklinga á stuttum tíma. Auðvitað var vaktin skemmtileg...en hún tók á. Kannski er það vegna þess að maður er að eldast og þolir ekki svona eins og áður, en kannski er maður bara að röfla. Svo er ég búinn að vera taka þátt í deilum á Landspítalanum vegna Neyðarbílsins. Við vonum að það mál leysist farsællega.

Ég horfði á Jóa Fel um daginn. Ég kunni sérstaklega vel við fyrri seríur Jóa Fel...ég er viss um að hann sé alger eðal kokkur og mikill sælkeri. Mér finnst samt síðasta sería vera heldur of mikið auglýsingasjónvarp. Það er alltaf verið að hampa vörum sem Hagkaup eru með í sínum hillum. Ekki að það sé eitthvað slæmt að auglýsa vörur...mér finnst bara eitthvað bogið við að dulbúa það sem einhvern frumlegan matreiðsluþátt. Ég horfi samt á þáttinn. Fyrir viku síðan fór Jói inn á La Prima Vera - sem er frábær veitingastaður (mæli eindregið með bók þeirra La Primavera - maður verður alveg innblásinn að lesa hana). Þar elduðu þeir kálfakjöt Milanese með spaghetti. Virkilega girnilegt. Þetta er mín útgáfa.

 IMG_2055Mílanóskur kjúklingur með tómatspaghetti, salati og rauðvíni

Þetta er einfaldur réttur en gerður í nokkrum þrepum. Fyrst er að útbúa góða brauðmylsnu. Þurrt brauð er mulið niður í matvinnsluvél. Útí brauðmylsnuna er bætt 4-5 msk af nýrifnum parmaosti, salti og pipar og 1/5 búnti af mjög smátt skorinni steinselju. Þessu er blandað vel saman. Sett til hliðar á meðan kjúklingabringurnar eru útbúnar. Það er gert með því að "butterfly" - þá eru bringurnar skornar nærri því í gegn - þvert og opnaðar eins og bók. Svo eru þær lagðar á á eldhúsfilmu og flattar vel út - með höndunum eða kökukefli. Því næst eru þær teknar úr plastinu og velt upp úr hveiti, svo hrærðu eggi og því næst brauðmylsnunni góðu. Bringurnar eru svo steiktar upp úr smjör/olíublöndu í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Sósan með pastanu er einföld. Hálfur smátt skorinn laukur, 4 smátt skorin hvítlauksrif eru steikt upp úr jómfrúarolíu. Þá er 2 dósum af niðursoðnum tómötum hellt saman við, 1 lítil dós af tómatpúre, 1 grænmetisteningur, bolli af vatni. Þetta er soðið upp og svo maukað með töfrasprota. Þá er 150 ml af rjóma bætt útí, saltað og piprað, 1/3 búnt af niðurskorinni ferskri steinselju og rifnu fersku basil bætt saman við og soðið um stund. Smakkað til og jafnvægi náð með því að salta og pipra eftir smekk.

Gott pasta er soðið í miklu söltuðu vatni eins og lög gera ráð fyrir. Þegar það er orðið al dente er vatninu hellt frá og sósunni hrært saman við pottinn.

Borið fram með einföldu salati og auðvitað góðu rauðvíni. Bon appetit.

.IMG_2065


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bloggfærslurnar sem eru með myndum hafa sterkari áhrif á mann heldur en myndalausu færslurnar. Ég skil samt fullvel að maður nennir ekki að elda OG vera með myndavélina á sér í hvert einasta skipti! Þessi síða er held ég barasta eina bloggsíðan sem ég skoða reglulega.

 Virkilega gott framlag, lætur mann kitla í fingur eldamennskunnar sem og bragðlaukana!

En ein spurning. Hvað notaru mikið af brauði? Helduru að það væri ekki bara ágætt að fá mylsnur hjá bakaranum kannski?

Danni (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 16:47

2 identicon

Sæll Ragnar,

alltaf langað til að kvitta fyrir mig og hrósa góðri síðu. Það verður að teljast sem hrós að ég, grænmetisætan, þyki meira eða minna allir réttirnir rosalega girnilegir. Ég er nú meira í einfaldri eldamennsku en hef voða gaman að öllu sem henni viðkemur.

Kveðja

Eva

Eva Lif (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 00:24

3 identicon

Sæll Ragnar

Það er alltaf mikil gleði á mínu heimili þegar að svangir fjölskyldumeðlimir vita að uppskrift dagsins er frá þér.  Það segir meira en nokkur orð þar sem að hjá mér eru tveir unglingar sem helst af öllu vildu borða pizzu í öll mál.

Hildur (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 11:23

4 identicon

mmm.. sá þennan rétt í sjónvarpinu og sá að ég þyrfti að prófa þetta, sá svo þína uppskrift og hún var elduð í kvöld.. og hér sitjum við fjölskyldan og strjúkum kviðinn eftir einstaklega góðan kvöldmat.. slurp...
takk fyrir góða síðu
kv kolla

kolla tjorva (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband