Gott laxasalat, akút naan brauð og mexískósk redding

Það er komið haust. Það var svalt í morgun þegar ég hjólaði í vinnuna og maður sér greinilega að trén eru á síðasta snúningi - allt þetta græna á eftir að hverfa í næsta almennilega roki - og á Íslandi virðist aldrei vera skortur á því.

Það hefur lítið merkilegt verið um að vera í mínu eldhúsi þessa vikuna. Bara samansafn af reddingum svona eins og gengur og gerist. Ekki mikið svona orginalt - en þó smávegis. Einn kollegi minn spurði hvort að ég eldaði aldrei bara pylsur eða keypti bara tilbúinn kjúlla í Nóatúni ... auðvitað, en hver nennir að lesa um það. Vikan var kannski ekki alveg þannig en hún var í milliveginum.

Það voru samt nokkrir sniðugir réttir - enginn svona meiriháttar - en nokkuð góðir. Kannski að ég reyni að redda þessu um helgina. Það er hópefling meðal ungra lækna á lyflækningadeildinni í dag - óvissuferð. Ég reyni að leggja eitthvað til í eldhúsinu. Jón Þorkell, kollegi minn og vinur, er byrjaður að marinera lambalærisneiðar. Þetta stefnir í fjör.

Alltént, víkjum okkur að smáræðum vikunnar.

Laxasalat

Átti afgang af laxinum því kvöldið áður ... kannski um 400gr. Tók hann af roðinu og setti í skál. Blandaði saman 2 msk af létt majónesi, 2 msk af 5% sýrðum rjóma, 1/3 af smátt skorinni rauðri papríku og 1/3 búnti af steinselju. Saltað og piprað. Setti smá ferskan sítrónusafa - 2 tsk úti. Blandaði þessu vel saman. Salatið borið fram - og áður en það er lagt á borðið var smá smátt skorinni papríku og steinselju sáldrað yfir.

Borið fram með nýbökuðu brauði - mamma gerði hvítt brauð - það væri í raun hægt að nota hvaða hvíta brauðuppskrift sem er (ég hef oft bloggað um svoleiðis) sem hún bragðbætti með parmesanosti og raspaði hvítlauk saman við deigið. Penslaði með hrærðu eggi og svo var sesam fræjum dreift yfir og bakað þar til fallega gullið og búið að lyfta sér. Einnig var hún með alveg ljúffenga naglasúpu með brauðinu sem var samsuða úr því sem var til - svona kókosmjólkur/soðblanda með grænmeti - einnig mjög góð.

Akút naan brauð

Snædís, konan mín, tók að sér að elda í vikunni. Hún gerði korma-kjötsósu - sem var að hluta tilbúin frá Madhur Jaffrey en var djössuð upp með kókósmjólk, garam masala og svo fersku kóríander í lokin. Með þessu voru að sjálfsögðu hrísgrjón og ferskt salat en einnig naanbrauð sem var gert og eldað á undir 10 mínútum.

400 gr af hveiti hellt í skál, 1 tsk af salti, 1 tsk lyftiduft, 1/3 tsk matarsódi, 1 jógúrtdós og svo smávegis vatn til að binda þetta í silkimjúkan klump. Svo var klipið af deiginu og það flatt út í litla klatta, penslað með hvítlauksolíu og saltað með Maldon salti og svo þurrgrillað á heitu "griddle" (stór grillpanna) þar til tilbúið.

Mexíkósk redding

Ef ég veit ekki hvað ég á að hafa í matinn, dettur mér allaf í hug spaghetti carbonara, en einnig þessi réttur sem er ekki síður góður. Það er varla hægt að tala um eldamennsku þegar verið er að að útbúa burritos.

Ferskt grænmeti er skorið niður, salat, sveppir, tómatar, rauðlaukur, papríka, kóríander. Ostur er rifin niður. Ein dós af 5% sýrðum rjóma er hrærð upp. Lokið er tekið af tacosósunni (stundum nenni ég að gera þetta frá grunni - en ekki seinast). Burritokökur eru hitaðar í ofni (pabbi hefur oft gert þær frá grunni - afar góðar). Nautahakk er steikt á pönnu, kryddað að vild og svo set ég smá vatn á pönnuna og smá tómatsafa, salta og pipra og læt sjóða niður.

Stundum er ég með annað hráefni, kjúkling, svínakjöt. Stundum guacamole, stundum refried baunir eða gular baunir - bara eftir því sem ég á til.

Matnum er svo öllum raðað á disk, grænmetið á einn, osturinn í skál, nautahakkið oftast bara á pönnunni, og burritoskökunum kippt út úr ofninum. Hollur - og mjög bragðgóður matur. En ekkert til að monta sig af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Takk fyrir frábæra síðu Ragnar. Þú ert greinilega jafn góður kokkur og þú ert sem læknir. Hef sjaldan hitt jafn skemmtilegan lækni og þig og það sem meira er, það skín af þér góðmennskan, sem ég tel að geri góðan lækni enn betri. Gangi þér ávallt vel í eldhúsinu og megir þú eiga langan og farsælan læknisferil.

Takk fyrir mig.

Gíslína Erlendsdóttir

Gíslína Erlendsdóttir, 22.9.2007 kl. 13:02

2 identicon

Namminamm girnilega síða, hún er komin í favorities hjá mér  Líst vel á laxinn og Nan brauðið.

B.kv. J.

JOZ (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 20:36

3 Smámynd: Margrét M

þetta er aldeilis frábær síða verð ég að segja, 

ég elda mest frá grunni sjálf það er svo miklu hollara

Margrét M, 25.9.2007 kl. 16:19

4 identicon

Sæll Ragnar, takk fyrir að vilja gerast bloggvinur. Þú stundar það sem mér er ástríða, ert bara duglegri að koma því niður á blað. Hef fylgst dáldið með þér hér og hrósa ég þér fyrir framtakið.

Las að þú sért á leið til Lundar í Svíþjóð, þér á eftir að líða vel þar, var mikið þarna á árum áður, þó ekki í námi heldur vinnu við matreiðslu. Svensk husmanskostur er ekki svo spennandi en þó eru gullmolar inn á milli. Þeir borða meira að segja sultu með sumum fisktegundum sem mér óaði við á þeim tíma, en það er bara þeirra smekkur líka. Gangi þér vel.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband