Déskotigóð djöflaegg - með dijon sinnepi og graslauk á sumarsólstöðum

Þetta er réttur sem ég held að hafi fallið í gleymsku fyrir áratugum síðan. Samkvæmt heimildum mínum fóru menn að gera djöflaegg á tímum Rómverkja og er þessi réttur þekktur víða. Ég man eftir því sem krakki að hafa borðað þetta í einhverri veislunni en ekki séð þetta á hlaðborðum síðan ég sleit barnskónum. En sem forfallinn eggja "enþúsíast" er ekkert betra en að rifja upp svona sígilda slagara. Og þessi eggjaréttur er fantagóður. Uppskriftin fékk nafnið djöflaegg - deviled eggs - á átjándu öld þegar menn fóru að krydda eggin með papríku eða pipar - ætli þetta hafi ekki verið kallað eitthvað annað áður. 

Ég gerði djöflaeggin fyrir sameiginlega veislu okkar vinanna í Púkagrandanum í Lundi. Þar héldum við upp á sumarsólstöður - Midsommar - sem er mikil hátíð hér í Svíþjóð. Föstudagurinn eftir Jónsmessu er frídagur og þá gleðjast Svíar, dansa í kringum maísúluna eins og froskar skreyttir blómakrönsum, borða síld, syngja og skála! Við reyndum að gera okkar besta til að fylgja Svíunum eftir - með smávægilegum breytingum þó. Jónas og Hrund, nágrannar mínir og vinir, buðu okkur heim ásamt fjölda annarra til samskotaveislu! 

Svíar eru vanir því að borða marineraða síld, rauðlauk, sýrðan rjóma, rúgbrauð, radísur, nýjar kartöflur með dilli, lax og auðvitað egg! Eggin eru þó venjulega bara soðin og lagð á borð. Djöflaegg eru eiginlega páskamatur í Svíþjóð - eða var það allaveganna áður - en við innflytjendur hljótum að fá að teygja og toga sænska siði eins og okkur passa best? Eða hvað? 

Djöflaegg - með dijon sinnepi og graslauk á sumarsólstöðum 

Fyrst er auðvitað að sjóða egg. Harðsjóða eggin. Eins og lög gera ráð fyrir; sjóða upp vatnið, lækka hitann þannig að það bubblar aðeins. Sumir segja að maður eigi að salta vatnið - ég veit ekki, svo gerið eins og þið viljið. Sjóða í 10 mínútur og svo kæla. 

egg 

Láta eggin síðan kælast í nokkrar mínútur áður en maður vindur sér í að flysja af skurnina.

 gulan burt

Ég skar eggin niður í helminga og plokkaði rauðuna burt (mér finnst nú eiginlega að þetta eigi að heita eggjagula!) og setti í skál.

 gulan

Það er ágætt að styðjast við eftirfarandi hlutföll. Fyrir hverjar tólf "eggjagulur", setja tvær kúfaðar teskeiðar af góðu dijon sinnepi, 100 ml sýrðan rjóma (eða majónes), 1 teskeið af túrmeriki, salt og pipar. Síðan má bara setja það sem maður vill. Það er hægt að hræra saman við lauk, kryddjurtir, önnur krydd eða bara það sem ykkur dettur í hug - the imagination is the only limit! 

 fylla með sprautu

Ég hafði skotist til Kaupinhafnar fyrr um daginn og litið við í uppáhaldsbúðinni minni. www.hwl.dk - þar er hægt að fá leikföng fyrir alvöru- og áhugakokka. Ég keypti mér eitt og annað; kjötexi, slátrarahníf, sigti, skeiðar, sleif, svona sprautupoka eins og sjást á myndinni og nokkrar tegundir af stútum - en ekki kjötsög eins og mig langaði að skella mér á (þurfti svo að nota hana fyrir næstu uppskrift en vík að því síðar)

Setti eggjagulublönduna í pokann og sprautaði í eggin.  

graslaukur 

Skar síðan niður graslauk, sem ég sótti ferskan útí garði. 

 djöflaegg

Eggjunum var síðan raðað á disk og graslauknum stráð yfir.

 miðsumarmatur

Það var fleira á borðum en bara egg. Við vorum með margar tegundir af síld, lax, bæði reyktan, grafinn og heitreyktan, radísur, nýjar soðnar kartöflur með smjöri og dilli, fullt af jarðarberjum. Hrund gerði sitt dásamlega rúgbrauð (best ever) og svo gerði Addý jarðaberjatertu sem bræddi hörðustu karlmenn! 

Svo var sungið (td.: 600 bönder ... Eslöv! (án lags - hrópað) þýðist: 600 sýslumenn ... Selfoss!)

Bon appetit! 

P.s: Minni en og aftur á Fésbókar síðuna mína: The Doctor in the Kitchen! Endilega hjálpið mér að komast upp í þúsund likes! Ég skal éta grísahaus ef það tekst!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér var einhvern tíma kennt að saltið setti maður í pottinn með eggjunum til þess að skurnin færi betur af. Það er áreiðanlega bara einhver þjóðsaga. Ég gleymi að minnsta kosti yfirleitt að gera þetta.

Takk annars fyrir gott blogg. Ég myndi læka doktorinn ef ég væri á Facebook.

Eiríkur Örn Norðdahl (IP-tala skráð) 27.6.2012 kl. 19:46

2 identicon

Það eru til frábærar pólskar uppskriftir að svona eggjum þar sem sveppir eru notaðir í fyllinguna, síðast gerði hún mjög einfalda uppskrift:

Þú mýkir lauk í smjöri á pönnu, bætir svo við smátt skornum sveppum (brunoise), salt og pipar. Að síðustu hrærir þú eggjarauðunum saman við og sprautar aftur í eggin.

Áður en þú bætir sveppunum út í er einnig hægt að bæta við fleiri hlutum sem fara vel með sveppum, uppáhaldið mitt er hvítlaukur, chili (vel af því) og ferskt timian.



Takk enn og aftur fyrir frábært blogg og gaman að sjá að metnaðurinn er bara að vaxa og vaxa!

Gylfi Freyr (IP-tala skráð) 27.6.2012 kl. 21:51

3 identicon

Ég ætlaði að segja að síðast gerði konan mín, sem er pólsk, þessa uppskrift. Ég hreinlega elska þennan klassíska pólska sveitamat.

Gylfi Freyr (IP-tala skráð) 27.6.2012 kl. 21:53

4 identicon

Sæll Ragnar Freyr
Ég verð bara að skrifa smá athugasemd til að segja þér hvað mér finnst ótrúlega gaman að lesa bloggið þitt. Ég hef fengið fullt af góðum hugmyndum og hef einnig notað margar af uppskriftunum þínum sem allar hafa vakið stormandi lukku. Súkkulaði kakan þín er einn besti eftirréttur sem ég hef fengið og hef ég bent mörgum á þá uppskrift.  Ég skelli með ánægju "like" á þig á facebook og skal hvetja aðra til að gera það sama. Takk fyrir að þú nennir að halda úti þessu skemmtilega bloggi :-)

Esther (IP-tala skráð) 3.7.2012 kl. 13:13

5 identicon

Sæll, ég fylgist reglulega með blogginu þínu og er því búin að "like-a" þig á fésinu og auka líkurnar á að þú étir grísahaus von bráðar ;)  Svo ég leggi nú orð í belg varðandi það hvers vegna sumir salta vatnið í eggjasuðupottinn þá skilst mér á minni kæru móður sem er heimilisfræðikennari að mennt, að það sé svo hvítan fari ekki útum allt ef eggin springa.  Hef aldrei heyrt þetta með skurnina en má vel vera að það sé eitthvað til í því.  Annars á það líka að hækka suðumarkið og minnka þar með líkur á uppúrsuðu að salta í pottinn, en að því ég kemst næst eru það kannski frekar trúarbrögð en vísindi að þessi örfáu saltkorn sem maður setur í vatnið hafi téð áhrif...maður þyrfti víst að setja nokkrar teskeiðar til að hækka suðumarkið upp í 102 gráður C.  Sennilega hafa engir nema eldhúsnördar áhuga á svona "bulli" ...hehehe!

Hólmfríður (IP-tala skráð) 10.7.2012 kl. 19:45

6 identicon

Sæll, Ragnar

Takk, fyrir allar þínar góðu uppskriptir og skemmtilegt blogg.

Kveðja,

Kristín

kristin petersen (IP-tala skráð) 14.7.2012 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband