Ofngrillaður lax með mísóhjúp, ofnbökuðu blönduðu grænmeti, hrísgrjónum með wasabesósu

Eins og ég hef oft nefnt hérna áður þá er ekki eins auðvelt að verða sér útum góðan fisk hér eins og heima á Fróni - það er nú eitt af því sem við Íslendingar getum montað okkur af ... gæðin á þeim fisk sem við fáum að kaupa í búðunum. Og hvað sem allir segja þá er hann að minnsta kosti helmingi ódýrari en sá fiskur sem ég er að kaupa hérna, frosinn, sem ku vera af Íslandsmiðum. Annars skilst mér að það sé byrjað að selja íslenskan fisk í Malmö í verslun sem heitir Gallerí Fisk. Ég á ennþá eftir að heimsækja þau!  

Ég fékk bók Heston Blumenthal í afmælisgjöf frá brósa og Snædísi - The Big Fat Duck Cookbook - sem er mögnuð matreiðslubók. Þessi bók er samt miklu meira en það; þetta er sjálfsævisaga, pökkuð fallegum ljósmyndum, fallegum teiknuðum myndum og endalaus uppspretta innblásturs. Maðurinn er auðvitað galinn - en á mjög jákvæðan hátt. Hann hefur tekið matseld alveg á nýtt plan - vísindi og vísindalegar aðferðir eru notaðar óspart. Hann ræðir um upplifun á mat, ekki bara eitthvað fyrir bragðlaukana og lyktarskynið - heldur einnig fyrir augað, eyrun og jafnvel snertingu. Í bók sinni eru honum tíðrætt um bragðlaukana - salt, súrt, beiskt, sætt og svo umami (bragðlaukar eru sennilega flóknari en þetta - við virðumst skynja margar ólíkar tegundir af beiskju, kalk, fitu og jafnvel með sérstaka bragðlauka fyrir það sem bragðast svalandi). 

lax 

Umami er eitthvað sem þýðist yfir á ensku savory (bragðmikið) og birtist æ oftar á síðum matreiðslubóka, tímarita og í blaðagreinum um mat. Umami er auðvitað ekkert nýtt á nálinni - því var lýst fyrst fyrir rúmri öld í Japan og hefur verið á tungum Vesturlandabúa núna seinustu árin. Umami er einkennandi bragð af mörgum mat; kjöti, ostum, soya sósu svo eitthvað sé nefnt. Marineraðar ansjósur eru oft notaðar sem bragðaukandi efni til að lyfta öðrum bragðeiginleikum upp á þennan hátt. Umami er oft tengt við MSG - sem er bragðaukandi efni - og mörgum líkar illa við af ólíkum ástæðum sem ég ætla ekki að tíunda hérna. Fyrir þá sem fá sér japanska mísósúpu áður en þeir fá sér súshí þá er hún einnig dæmigerð fyrir umami. Og því ekki að nota hana sem bragðaukandi efni. 

 Ofngrillaður lax með mísóhjúp, ofnbökuðu blönduðu grænmeti, hrísgrjónum með wasabesósu

Þetta er einfaldur réttur (my signature sentance). Ég hafði keypt mísósúpuduftsskammta - einn lítill poki fyrir einn bolla af súpu. Setti einn slíkan í pott, 150 ml af vatni, 3-4 msk af soya sósu og síðan eina matskeið af hunangi. Þetta sauð ég síðan rólega niður þangað til að einungis 30-40 ml af vökva var eftir. Leyfði því að kólna aðeins svo að það þykknaði og hægt var að pensla það á laxinn.

grænmeti 

Skárum niður gula, rauða og græna papríku, kúrbít og svo rauðlauk. Setti í eldfast mót, velti upp úr smá jómfrúarolíu, salt og pipar og bakaði í 200 gráðu heitum ofni í 30 mínútur. Suðum einnig hrísgrjón með matnum.  

 misó

Setti ofnskúffu yfir gasloga og hitaði vel upp. Smá olíu í skúffuna og setti síðan 1300 gramma laxabita í ofnskúffuna, með roðið niður penslaði og síðan mísó "glazinum" sem ég hafði búið til. Steikti laxaflakið í nokkrar mínútur og setti síðan skúffuna inn í ofninn með grillið á fullu. Steikti í 15 mínútur eða þartil laxinn var eldaður. 

humar 

Fann einnig 4 humarhala sem ég hafði átt afgangs í frystinum sem ég ákvað að elda með á sama hátt og með laxinn. 

 misólax

montes

Gerði síðan einnig hvítasósu, 200 ml af creme fraiche, 2 hvítlauksrif, salt og pipar og svo 2-3 teskeiðar af wasabepaste. Hrærði saman og smakkaði til. 

 Drukkum ágætt hvítvín með matnum.  Þetta er vín frá Chile - Sauvignion Blanc frá því 2010. Ég hef lengi kunnað að meta vín frá þessum framleiðanda. Ég hef oft nefnt það á þessari bloggsíðu að fyrsta vínið sem ég kunni að meta var frá þessum sama framleiðanda - Montes Alpha Cabernet Sauvignion - það er nú orðið ansi langt síðan. Alltént er þetta létt og frískandi hvítvín sem er stórgott með mat sem þessum. Þetta er ávaxaríkt vín - í þurrari kantinum með smá sýru á tungunni. Ljómandi gott og einnig vinalegt á veskið!

 

 

matur 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband