Stórgott humarpasta gert frá grunni með íslenskum humri, borið fram með baguette og salati



hrekjavaka

Þennan rétt var ég með á sunnudagskvöldið fyrir rúmri viku síðan en þá var einmitt hrekkjavakan í fullum gangi. Svíar hafa tekið upp þessa skemmtilegu hefð en eitthvað hafa þeir ruglast með dagsetningarnar. Það bönkuðu börn upp á hjá okkur alla helgina í fylgd eldri systkina eða foreldra! Ég skar út þessi grasker -  þóttist mjög metnaðarfullur þar til ég bar þetta saman við nokkrar myndir sem ég fann á netinu. Þetta ætti að vera ágætt byrjendaverk!

Þessa helgi var húsið fullt af góðu gestum. Foreldrar mínir, Ingvar og Lilja, náðu að borða með okkur kvöldverð áður en þau skunduðu út á flugvöll. Þau höfðu verið hjá okkur stærsta hlutann af vikunni á undan. Tengdamóðir mín, Hrafnhildur, hafði síðan komið deginum áður. Þannig að húsið var fullt af góðum gestum. Það finnst mér alltaf jafngaman!

hrekjavaka1 

Þessi uppskrift varð til þegar gömul vinkona mín úr menntaskóla, Hildigunnur Ægisdóttir, varpaði fram fyrirspurn á Facebook um hvernig best væri að gera gott humarpasta með rjómasósu - svona eins og maður fengi á veitingahúsum. Ég var ekki lengi að bregðast við (og besserwissera!) og slengdi þessari uppskrift fram sem tillögu að góðum pastarétt.

Ég var ekki lengi að vélrita og ýta á vendihnappinn þegar ég fór svo að velta fyrir mér hvenær ég eldaði þetta síðast. Eftir smá leit kom á daginn að eina skiptið sem ég hef eldað humarpasta var þegar ég var að reyna að herma eftir rétti sem ég hafði fengið á veitingahúsi í Reykjavík, humar með foisgrasrjómasósu! Þann rétt bar ég líka fram með pasta. Sá var fantagóður en dálítið yfirdrifinn - bæði humar og fois gras í sama réttinum! Ég leit líka aftur á dagsetninguna á færslunni  og viti menn - hún var frá því 2007!

humarskeljar 

Humar er eiginlega kjörinn til að bera fram með pasta. Hvers vegna segi ég það? Humar er eins og áður fokdýr matur. Ég keypti minn á Íslandi og smyglaði hingað út. Það að gera pastasósu úr humrinum þá drýgir maður hráefnið umtalsvert og ég nýtti allan humarinn út í æsar - bæði kjöt og skel. Ég notaði ekki nema kannski 700 gr af humri í skel og dugði það vel fyrir alla þá sem voru í mat, sex fullorðna og 2 börn. Og allir voru saddir ... og glaðir. Skál fyrir því. 

Kvöldið áður höfðum við reyndar einnig verið með veislumat (villibráðarveislu) - vík nánar að því síðar. Kannski var fólkið ennþá satt eftir þá átveislu ... hver veit?

 Stórgott humarpasta gert frá grunni með íslenskum humri, baguette og salati

Fyrst var að gera humarsoðið. Eins og alltaf með soð - þá er það einfalt en tímafrekt. Samkvæmt franska kokknum Georges Auguste Escoffier er soðið lykillinn af góðum mat. Margt til í því. 

 klassik

Fyrst var að sneiða smátt einn gulan lauk, þrjár sellerístangir, tvær gulrætur og 3-4 hvítlauksrif  og steikja þar til mjúkt og glansandi. Muna að salta og pipra. Þá er humarskeljunum bætt saman við og þær steiktar - á sama tíma og maður hrærir reynir maður að brjóta humarskeljarnar eins mikið og maður getur (þannig fær maður meira bragð úr skeljunum). Síðan er smávegis af tómatpaste, 2 msk, bætt saman við og hrært vel. Eldhúsið ætti núna allt að ilma alveg dásamlega. Þá er að setja 1-2 glös af hvítvíni, sjóða áfengið niður og svo bæta vatni saman við þannig að það fljóti vel yfir skeljarnar. Lokið sett á og soðið. Soðið með lokið á í nokkrar klukkustundir. Þurfti meira að segja að bæta smá vatni saman við af og til. Eftir 3-4 klukkustundir - var lokið haft á skjön og soðið fékk að sjóða niður um rúman helming. Smakkað og saltað og piprað eftir smekk. Síðan var það síað og soðið áfram niður þangað til að vökvamagnið var ca. 600 ml af soði (mikið erfiði fyrir lítið magn - en það er kraftmikið).

IMG_3278 

Síðan er bara að þykkja soðið - hellti vel af rjóma og sjóða aðeins áfram. Síðan þykkti ég sósuna með kartöflumjöli (blönduðu í vatn) og sauð þangað til að hún varð þykk og góð. Kraftmikil humarsósa. Humarinn var síðan settur bara nokkrum mínútum áður en að við pastað var tilbúið. 

 matur

Svo var að sjóða pastað. Ég valdi að hafa stór pastarör - einu númeri fyrir neðan caneloni, þannig að þá hjúpar sósan pastað svo vel. Sumir myndu velja tagliatelle fyrir þennan rétt - nema það er eitthvað við þá pastategund sem mér ekki hugnast (veit ekki af hverju - svona getur maður verið vitlaus). Bara soðið eftir leiðbeiningum í vel söltuðu vatni þar til al dente.

06520 (1)

Með matnum bárum við fram baguette og svo einfalt salat. Græn lauf, niðurskornir tómatar, paprika, olívur með einfaldri vinagrettu úr olíu, salt, pipar og ferskum sítrónusafa.

Vorum með afbrags hvítvín frá einum af mínum uppáhalds framleiðendum. Montes frá Chile. Eins og ég hef nefnt áður þá hafa vín frá þessum ræktanda verið lengi í uppáhaldi hjá mér. Montes Alpha línan er að mínu mati hreinasta afbragð og eru virkilega góð kaup. Montes línan er einnig afbragð. Vinalegri við veskið en stóri bróðir - Alpha. Þetta kom hún tengdamóðir mín með færandi hendi úr íslenska tollinum. Ég þarf sjálfur að panta mér þetta í Systembolaget hérna í Svíþjóð þar sem þetta er því miður ekki fastavara í hillum Svensson. 

Vínið er fallegt í glasi, sítrónugult. Mikið ávaxtabragð - perur, þykkt og smjörkennt og eikaðir tónar. Munnfylli. Gott eftirbragð. 

Bon appetit.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband