29.10.2010 | 20:22
Kryddaðar kjúklingabringur "arrabbiata" með chorizo pylsum og saffran hrísgrjónum
Það er kannski dálítið kjánalegt að segja frá því en ég dreymdi að í svefnrofanum í gærmorgun að elda þennan rétt. Svona er maður orðin algerlega heilaþveginn af þessu áhugamáli. Maður veit ekki alveg hvort maður á að hlægja eða gráta. Ég fór bara að elda. Svona er það.
Arrabbiata er ævaforn sósa - sennilega frá tímum Rómverja. Hún er einföld; samanstendur af tómötum, hvítlauk og rauðum chilli. Og ef maður þýðir orðið arrabbiata (reiður) - þá skilur maður að það á að setja talsvert af chilli. Ef maður fer í gegnum matreiðslubækur og uppskriftir á netinu þá er til merkilega margar útgáfur af þessum rétt - undarlegt nokk - eins og hugmyndin er einföld. Mín útgáfa er ekki alveg bandbrjáluð - hún er sterk en ekki reið!
Það er annað sem er gott við þennan rétt - hreint praktískt - það er að það má elda matinn, og svo ganga frá öllu í eldhúsinu þannig að allt sé orðið hreint áður sest er niður að borðum. Það kom síðan á daginn að börnunum fannst maturinn heldur sterkur - en það var einfalt að bæta úr því. Smávegis af sýrðum rjóma kemur sterkur inn og bjargar málunum fyrir börnin.
Í kvöld vorum við annars með ansi skemmtilega gesti í húsinu okkar. Mamma og pabbi komu í heimsókn núna seinustu helgi. Ekki bara til að heimsækja okkur heldur voru í för með hópi af starfmönnum Framhaldsskólans á Laugum. Þau voru hérna í skólaheimsókn að kynna sér framhaldsskóla í Kaupinhöfn og einnig einn skóla hérna í Svíþjóð. Ekki var að sjá annað en að þau væru ánægð með heimsóknina. Pabbi og mamma höfðu beðið okkur um að fá lánað húsið til að bjóða þeim í drykk og pinnamat. Þetta gekk frábærlega verður að segjast. Pabbi snaraði fram sænskinnblásnum pinnamat og bauð upp á öl, snaps og vín. Þetta rann allt ljúflega niður. Fólk söng og virtist skemmta sér hið besta. Gaman að kynnast þessu fólki. Takk fyrir komuna!
Kryddaðar kjúklingabringur "arrabbiata" með chorizo pylsum og saffran hrísgrjónum
Jæja best að vinda sér í eldamennskuna ...
Ég byrjaði á að sækja nokkrar chorizopylsur hjá slátraranum í Holmgrens. Hann er mér farið að þykja vænt um. Hann gerir sýnar pylsur sjálfur og maður getur treyst því að gæðin séu mikil - ég hef keypt þessar pylsur áður - þéttar og kjötmiklar, sterkar og eldrauðar af papriku og pipar.
Jæja, það er samt best að byrja á byrjuninni; paprikunum. Eg tók þrjár rauðar paprikur og velti þeim upp úr smá olíu, saltaði og setti síðan inn í rjúkandi ofn með grillið á fullu og grillaði þar til að þær voru farnar að sviðna að utan. Þá voru þær teknar út, settar í skál, plastfilma yfir - þannig losnar ysta lagið auðveldlega af. Fræin eru síðan hreinsuð frá.
Skar niður ein meðalstóran lauk, 3 hvítlauksrif og steikti í smá olíu þangað til að það var mjúkt og gljáandi og þá er einni dós af góðum niðursoðnum tómötum bætt saman við og soðið upp. Saltað og piprað.
Pylsurnar eru skornar niður í hæfilega þykka bita og steiktar á pönnu þangað til að þær verða stökkar og knassandi. Þá eru pylsurnar teknar af pönnunni og lagðar til hliðar. Kjúklingabringurnar, forkryddaðar með salti/pipar/paprikudufti, eru síðan steiktar í fitunni sem kemur frá pylsunum í smá stund rétt til að loka þeim. Færðar yfir í eldfast mót og pylsunum síðan dreift yfir. Handfylli af smáttskorinni ferskri steinselju er síðan dreift yfir.
Jæja ... víkjum þá aftur að sósunni. Grilluðu papríkunum er síðan blandað saman við sósuna, síðan 1-2 tsk af paprikudufti, skvetta af cheyenne pipar, salt, 1 msk af sírópi og síðan sama magn af balsamikediki. Soðið í smá stund og síðan blandað saman með töfrasprota. Sósunni er síðan hellt yfir kjúklingabringurnar og pylsubitana.
Með matnum vorum við saffran hrísgrjón. Eini gallinn við saffran hrísgrjón er sá að saffran hefur hækkað mjög í verði síðan í fyrra vegna uppskerubrests. Kílóverðið fór langt yfir milljón krónur ... þannig að þetta er vissulega munaðarvara. Þetta kaupir maður í hálfsgramma pökkum út í búð, og það er sko ekkert sett í hillurnar - þetta þarf að sækja á kassa. Og maður fær ekki þræði (meiri gæði) heldur bara brotið saffran! Allavega - maður fer sparlega með þetta. Sem er sjálfusér alveg í lagi þar sem þetta er gríðar kraftmikið og gefur frá sér mikið bragð. Það að láta það liggja í heitu vatni á undan er ein leið til að teygja það aðeins lengra. Og það gerði ég. Setti 4 msk heitu vatni í litla skál og síðan hnífsodd af saffran og leyfði því að liggja þar um stund. Gerði síðan hrísgrjón eftir reglum nema hvað að við bættum þessu saman við. Þetta var alveg nóg til að gera heiðgul og saffrankennd hrísgrjón sem pössuðu afar vel með matnum.
Með matnum drukkum við Stellenzicht Golden Triangle Shiraz frá því 2006. Þetta er rauðvín frá Suður Afríku. Vín hefur verið framleitt undir þessu merki í meira en þrjú hundruð ár. Svæðið sem það er framleitt á mun vera afar hentugt til vínframleiðslu. Þetta er ansi kraftmikið vín. Lyktar af þungum ávexti, kannski súkkulaði. Svipaðir tónar á bragðið. Virkilega ljúffengt.
Bon appetit
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt 23.9.2011 kl. 11:14 | Facebook
Athugasemdir
Afskaaaapleg girnilegt að ekki sé fastar að orði kveðið, eins og bara allt sem sést á síðunni þinni.
Það er líka gott að mýkja saffranið í olíu ef maður vill nota það í annars konar rétti en t.d. bara hrísgrjón. Ég geri það ef ég set saffran út í risottó (sem er náttúrulega landablanda sem á kannski ekki endilega rétt á sér en gott er það!).
Sama á reyndar við um karríblöndur af flestu tagi. Kryddið opnast betur og þú færð meiri bragðgæði út úr því þannig; krydd-bouquetinn vaknar og skilar meiru út í réttinn.
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 30.10.2010 kl. 18:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.