Færsluflokkur: Matur og drykkur

Fylltar crepes með sveppum og púrru - gratineraðar með västerbotten osti og ofnbakaðar papríkur með geitaosti

Lífið sem grænmetisæta er einfaldara en ég hélt að það yrði. Nú eru tvær vikur liðnar og ótrúlegt en satt, þá saknar þessi kjötæta kjöts bara ekki hætishót. Í vikunni gerðum við grænmetiskarrírétt með hrísgrjónum, kartöflurétt með strengjabaunum og linsoðnum eggjum, pasta með eggaldintómatsósu og svo þennan ljúffenga rétt - fylltar crepes. Þessum rétti svipar aðeins til annars sem ég gerði hér um árið, sjá hérna, þar sem ég gerði sjálfur ríkottaostinn. Sem er í raun ofureinfalt!

 

Þetta er dálítið "rich" réttur sem ég held að sé allt í lagi þar sem ekkert kjöt er á boðstólunum. Alla jafna er líka óþarfi að hafa tvo ofnbakaða rétti saman - hvað þá báða með osti - en stundum er maður bara fullur löngunar sem verður að sinna, og svo var geitaosturinn kominn á tíma! 

 

Fylltar crepes með sveppum og púrru - gratineraðar með västerbotten osti og ofnbakaðar papríkur með geitaosti

 

Hráefnalisti

 

Fyrir pönnukökurnar

 

1 bolli hveiti

1/2 tsk salt

1/2 lyftiduft

1 msk jómfrúarolía

1 egg

1 bolli mjólk

salt 

 

Fyrir fyllinguna

 

200 g sveppir

4 púrrulaukar

3 hvítlauksrif

2 msk smjör

250 g ríkottaostur

salt og pipar

 

Fyrir bechamélsósuna

 

500 ml mjólk

30 g smjör

30 g hveiti

salt og pipar

100 g västerbottenostur

 

Byrjið á því að hræra í pönnukökurnar. Betra er að vinna með þunnt deig. 

 

 

Steikið síðan kökurnar og leggið til hliðar. 

 

 

Skerið púrruna í sneiðar. 

 

 

Steikið með smátt skornum lauk, niðurskornum sveppum og hvítlauk þangað til þetta fer að mýkjast. 

 

 

 

Setjið grænmetið í skál ásamt ríkottaostinum og blandið vel saman. 

 

 

 

Smyrjið á pönnukökurnar og rúllið upp. 

 

 

Leggið í ofnskúffu.

 

 

Næst er að huga að bechamélsósunni. Hitið mjólkina í potti. Bræðið smjör í öðrum potti og hrærið hveitið saman við. Hellið mjólkinni varlega saman við smjörbolluna og hitið að suðu. Sósan þykknar fljótlega eftir að það fer að krauma varlega í henni.  Raspið niður ost og hrærið saman við bechamélsósuna. 

 

 

Hellið yfir pönnukökurnar. 

 

 

Það er aldrei rangt að raspa yfir meiri ost. 

 

 

Bakið í 25-30 mínútur við 180 gráður þangað til að osturinn verður fallega brúnn. 

 

 

Papríkurnar eru eins einfaldar og hugsast getur. Skerið í helminga, penslið með hvítlauksolíu og kryddið með salti og pipar. Myljið geitaostinn yfir. 

 

 

Bakið í 30 mínútur við 180 gráður.

 

 

Með matnum fékk ég mér tár af þessari ágætu búkollu. Vina Maipo Cabernet Sauvignion sem er vín frá Chile. Að mestu unnið úr Cabernet þrúgum með smá viðbót af Merlot (15%). Þetta er berjaríkt vín - létt og með milda sýru. Prýðissopi!

 

 

 

Veislan heldur áfram!


Tacóveisla - heimagert guacamole, steiktar nýrnabaunir og heitar kjúklingabaunir og fullt af grænmeti

Líf grænmetisætunnar heldur áfram. Nú erum við búin að borða grænmetismat í vikutíma og það er auðveldara en mörg kjötætan myndi halda. Ein vika er náttúrulega ekki langur tími! Ég þekki nógu margar uppskriftir til að hafa getið klárað fyrstu viku án þess að rembast mikið en mig grunar að það komi fljótlega að leiðarenda. Sjáum hvað setur.

 

Á föstudagskvöldum er gjarnan elduð flatbaka, hamborgarar grillaðir eða að við gerum tacó. Nú ákváðum við að gera það síðastnefnda - sem er í miklu uppáhaldi hjá börnunum. Þau eru svo sannarlega með okkur í liði í grænmetisveislunni. Villi ætlar meira að segja að óska eftir grænmetismat í hádeginu í skólanum sínum og ég held að Valdís ætli að gera það líka. Ragga Lára  fær auðvitað það sem hún vill!

 

Og þetta er fljótlegur matur - eitthvað sem er ljómandi á föstudagskvöldi þegar maður er þreyttur eftir vinnuvikuna.

 

Tacóveisla - heimagert guacamole, steiktar nýrnabaunir og heitar kjúklingabaunir og fullt af grænmeti

 

Byrjum á guacamóle-inu.

 

2 þroskuð avacadó

1/2 laukur

2 hvítlauksrif

1/2 rauður chili

safi úr hálfu lime

1 tómatur

handfylli af kóríander

salt og pipar

 

 

 

 

Byrjið á því að opna avakadóið og veiða steininn úr. Leggið avókadóið á brettið - skerið í það og snúið því svo í hring. Höggvið svo varlega í steininn með hnífnum og snúið - þannig losnar steinninn auðveldlega frá. 

 

 

Setjið tómatinn, hálfan kjarnhreinsaðan chili, hálfan lauk, hvítlauksrifin og svo tvö avókadó í matvinnsluvél. Bætið við safa úr hálfri límónu.

 

 

Setjið handfylli af kóríander saman við. 

 

 

Maukið rækilega með sprotanum. 

 

 

Smakkið til með salti og pipar! 

 

 

Namminamm!

 

Næst er að vinda sér í steiktu baunirnar (Refried beans).

 

50 g smjör

1 dós svartar nýrnabaunir

1/2 laukur

2 hvítlauksrif

1 tsk kóríander

1 tsk broddkúmen

 

 

Setjið eina teskeið af broddkúmeni og kóríander í mortél og lemjið rækilega, þannig að úr verði fínt duft. 

 

 

Bræðið smjör á pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn þangað til að hann er mjúkur og ilmar. Bætið þá við nýrnabaununum og steikið í stutta stund. Bætið kryddinu saman við.

 

 

Maukið baunirnar með spaða og steikið áfram í nokkrar mínútur. 

 

 

Delish! 

 

Lokahnykkurinn eftir. Spæsí kjúklingabaunir! 

 

1 dós kjúklingabaunir

1 tsk broddkúmen

1 tsk kóríander

hnífsoddur cheyenne

1 tsk paprikuduft

2 tsk tómatpúre

1 msk jómfrúarolía

basil og kóríander til skreytingar

 

 

Hitið jómfrúarolíuna á pönnu og skellið svo kjúklingabaununum út á. Bætið muldum kóríander, broddkúmeni og papríkudufti saman við. Steikið um stund. 

 

 

Setjið svo cheyenne pipar saman við ásamt tómatpúreinu. Steikið áfram þangað til að baunirnar eru eldaðar í gegn.

 

 

Berið fram með límónu og skreytið með blöndu af basil og kóríander. 

 

 

Svo vorum við líka með heilmikið af fersku grænmeti; papríkur, iceberg salat, rauðlauk, agúrku, tómata og svo maísbaunir. 

 

 

Með matnum drukkum við svo þetta vín sem var nýverið að fá "bestu kaupin" stimpil frá Vinótek. Þetta vín er líka á góðu verði í Svíþjóð.  Þetta er La Baume la Jeunesse Syrah frá því 2013 og er frá Languedoc í Frakklandi. Þetta er eins og kemur fram í titlinu Syrah vín. Þetta er þurrt rauðvín með ágætri fyllingu með góðri berjasætu. Ljómandi sopi.

 

Líf grænmetisætunnar heldur áfram! 


Ríkulega fylltir sveppir, kartöflugratín og salat - grænmetismánuður heldur áfram!

Fylltir sveppur er réttur sem er sóttur í hugmyndasmiðju föður míns. Ég man ekki alveg hvenær hann gerði fyllta sveppi í fyrsta sinn en ég man vel eftir því þegar hann eldaði þá á grillinu skömmu eftir

að foreldrar mínir eignuðust sumarbústað við Meðalfellsvatn í Kjósinni sumarið 2001. Við urðum svöng einhvern tíma um kvöldið og faðir minn gerði sveppina sem náttverð. Þá notuðum við Flúðasveppi sem eru auðvitað góðir til síns brúks. Það er líka gott að nota skógarsveppi sem hafa í sér aðeins meiri hnetukeim þegar þeir eru eldaðir. Þetta er réttur sem kemur fyllilega í stað kjötmáltíðar.

 

Kartöflugratín hefur lengi verið mikið eftirlæti okkar bræðranna. Áður fyrr var ég alltaf að flækja uppskriftina með því að bæta við lauk, kryddi, sjóða rjómann upp með krafti og raða osti á milli laga – allt með það að markmiði að gera gratínið betra. Og auðvitað varð þetta mjög ljúffengt. En það er samt svo að hið upprunalega gratín, bara með rjóma, bragðbætt með salti og pipar, kryddað með nýmöluðu múskati og rifnum osti ofan á, er það besta. Oft er einfaldleikinn bestur. 

 

Það er kannski kjánalegt að para saman tveimur ofnbökuðum réttum en þið verðið bara að fyrirgefa mér - ég að stíga mín fyrstu spor sem grænmetisæta! 

 

Ríkulega fylltir sveppir, kartöflugratín og salat - grænmetismánuður heldur áfram!

 

Þegar ég eldaði þennan rétt í fyrsta sinn notaði ég venjulega sveppi en núna nota ég nær einvörðungu portobello-sveppi sem eru mun stærri og matarmeiri.

 

4 stórir portobello-sveppir

4 msk hvítlauksolía 

1/4 rauð papríka

1/4 gul papríka

1/2 eggaldin

1/2 rauðlaukur 

2 msk brauðmylsna 

4 msk parmaostur (eða einhver annar ostur) steinselja og chili-pipar til skrauts

salt og pipar

 

 

1. Hreinsið stilka af sveppunum og skerið stilkana smátt.

2. Skerið grænmetið smátt.

3. Steikið grænmetið á pönnunni þangað til að það er mjúkt

4. Bætið brauðmylsnunni við og steikið þar til hún brúnast. 5. Saltið og piprið.

6. Fyllið sveppina og raspið parmaostinn yfir.

7. Bakið við 180 gráður í forhituðum ofni í þrjú kortér.

8. Skreytið með steinselju og smátt söxuðum chili-pipar.

 

 

Ótrúlega ljúffengt. Hver þarf kjöt? ;) 

 

Ég gerði einnig kartöflugratín með matnum. 

 

1,2 kg kartöflur 

2 msk hvítlauksolía 

500 ml rjómi 

salt og pipar 

nýmalað múskat –1/3 til 1/2 hneta 

250 g nýrifinn ostur sem bráðnar vel (gruyère eða góður cheddar)

 

 

1. Flysjið kartöflurnar og skerið þunnt niður með mandólíni (eða matvinnsluvél/hníf).

2. Raðið kartöflunum í eldfast mót smurt með hvítlauksolíu. Saltið og piprið á milli laga.

3. Hellið svo rjómanum yfir gratínið og raspið múskatið yfir.

4. Raspið svo ostinn yfir gratínið. Látið standa í 15-20 mínútur áður en gratínið fer í ofninn, þannig dregst sterkjan aðeins úr kartöflunum sem þykkir gratínið.

5. Bakið í fjögur eða fimm kortér við 180 gráður í forhituðum ofni þangað til kartöflurnar eru mjúkar og osturinn gullin- brúnn. 

 

 

Ég elska kartöflugratín!

 

 

 

Með matnum drukkum við Casillero Del Diablo Reserva Privado frá 2012. Þetta er vín frá Chile gert mestmegnis úr Cabernet þrúgum með smáræði af Shyraz blandað saman við. Fallega dökkrautt í glasi, mikið berjabragð, eikað og ljúft!

 

Grænmetismánuður hefst með látum! 

 

 

Flatbökuveisla annan janúar! Grænmetis og ostapizzur ráða ríkjum!

Við í Púkagranda eitt ætlum að gerast grænmetisætur nú í janúar. Þetta var áramótaheit fjölskyldunnar í ár (en þó bara í janúar) og það er kannski ekki svo vitlaus hugmynd eftir gengdarlaust kjötát síðustu misseri.

 

Og ég er auðvitað kjötæta par excellance og hef verið alla tíð - það ætti að vera öllum lesendum heimasíðunnar minnar morgunljóst. Hérna úir og grúir af kjötuppskriftum af öllu tagi - hægt er grúfla í þeim hérna. Í bókunum mínum - Tími til að njóta og Veislan endalausa var enginn sérstakur kafli fyrir grænmetisrétti en ég var þó með kafla um meðlæti í báðum bókum þar sem grænmeti var í fyrirrúmi. 

 

En núer kominn tími til að prófa að leyfa grænmetinu að vera í hásæti - í einn mánuð! Hugmyndin er ekki neinn kúr, heldur bara til að storka sjálfum sér. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega fyrir grænmetisrétti (mér finnst þeir ekkert vondir - kjöt hefur alltaf fengið að vera aðal!). Ég held þannig muni ég læra eitthvað nýtt í eldhúsinu - ný brögð og nýjar aðferðir! Hver veit?

 

Flatbökuveisla annan janúar! Grænmetis- og ostapizzur ráða ríkjum!

 

Einhver mun segja að þetta sé auðveld byrjun - en það tekur auðvitað smá tíma til að venda stóru skipi. Flatbökur eru því kjörnar. Við gerðum auðvitað nokkrar með skinku og svo aðrar með afgangi af nautalund frá því um áramótin - en eins og tengdamóðir mín sagði oftar enn einu sinni þá er nýttni dyggð.

 

 

Alltént lét ég kjötið vera. Bróðir minn sá um að setja í deigið fyrr um daginn þar sem ég hafði verið í vinnu á gigtardeildinni og þegar heim var komið blasti við fallegt flatbökudeig!

 

Hér er hráefnalisti fyrir dúndur flatbökudeig.

 

700 g hveiti til brauðbaksturs

300 ml ylvolgt vatn

25 g þurrger

25 g sykur (má sleppa)

2 msk jómfrúarolía

2 tsk salt

 

 

Brósi jók uppskriftina um 50% og ég flatti deigið mjög þunnt þannig að úr urðu átta mjög þunnar flatbökur sem voru bakaðar á steini í ofninum.

 

 

Ég gerði eina flatböku með marglitum þunnt skornum papríkum, jalapenó pipar, gulum baunum rjómaosti, osti og rauðum chili.

 

Aðra með kúrbít, papríkum, rauðlauk, rjómasosti, osti og svörtum ólívum. 

 

 

Villi Bjarki var mér innan handar við flatbökugerðina eins og svo oft áður og er að ná tökum á því að fletja út deigið og dreifa sósu eftir kúnstarinnar reglum. 

 

 

Þessi var svo með hvítlauksolíu, soðnum kartöflum og svartmygluosti. Hefði ég verið á Íslandi hefði ég notað ostinn Ljót sem er bragðmikill blámygluostur með kraftmikið bragð - eitthvað á pari við breska Stilton ostinn.

 

 

Alger dásemd - hún var mitt uppáhald!

 

 

Þessi var valin vinsælasta flatbakan. Með fimm ostum; venjulegum röspuðum osti, mozzarella, Boursin hvítlauksosti, þunnum sneiðum af gráðaosti og Manchego osti (sem er gerður úr kindamjólk og kemur frá Spáni). Algert sælgæti - best með smáræði af kirsuberjasultu!

 

 

Þvílíkt lostæti!

 

 

Með matnum nutum við svo þessarar búkollu, Lindemans Shiraz Cabernet sem er ástralskt rauðvín, blanda af Shiraz og Cabernet þrúgum. Þetta er ljómandi góð búkolla. Með ágætri fyllingu af ferskum berjum, smá tanníni og eftirbragði sem sómdi sér ágætlega með ostapizzunum!

 

Það er alltaf veisla!


Fjölbreytt heimagerð síld; hefðbundin, með tómat og basil, hvítlauk og svo dúndur sinnepssíld!

Síld er veislumatur í Svíþjóð. Svo mikill að hún á sinn hátíðarsess bæði á jólum, páskum og Jónsmessu! Í desember fyllast allar verslanir í síld og jólaskinku. Svíar halda jólin á annan hátt en við að því leyti að þeir taka stóran hluta af aðfangadegi í jólahaldið. Byrja gjarnan í hádeginu og bjóða þá upp á hlaðborð þar sem kennir ýmissa grasa, allt frá pylsum, kjötbollum, eggjum, jólaskinku, lifrarkæfu, freistingu Jansson (kartöfluréttur), gröfnum og reyktum lax og svo auðvitað síld af ýmsu tagi. Síðan horfa Svíar á Andrés Önd (sami þáttur hefur verið sýndur á hverju ári síðan 1960) og er heilagur hluti af sænsku jólahaldi - nærri helmingur þjóðarinnar er límdur fastur fyrir framan sjónvarpið klukkan þrjú á aðfangadag.

 

En við höldum íslensk jól, enda Íslendingar! Í gær buðu Jónas og Hrund, vinir okkar og nágrannar, til Þorláksmessu veislu. Þessa veislu hafa þau haldið síðustu fimm árin og marka þau upphafið á okkar jólahaldi. Þetta er alltaf ákaflega velheppnaður fagnaður - það hefur þó aðeins fækkað í hópnum undanfarin ár þar sem nokkrir af okkar samferðamönnum hafa flust heim! Ég gerði grein fyrir þessari veislu fyrir tveimur árum, sjá hérna!

 

Það er augljóst að smekkur manns breytist ár frá ári. Mér hefur alltaf þótt skata vera hinn versti matur, en í ár fékk ég mér vel af skötunni, nóg af hömsunum og kunni bara vel við! Þetta er einkennileg blanda af þéttu súru bragði, ásamt umamibragði hamsatólgarinnar. Og einhvern veginn hitti þetta í mark í ár. Auðvitað hjálpa bjór og snaps að koma þessu til skila.

 

Fjölbreytt heimagerð síld; hefðbundin, með tómat og basil, hvítlauk og svo dúndur sinnepssíld!

 

Við fegðarnir lögðum til síld að þessu sinni - rétt svona til að sýna smá lit - við búum jú í Svíþjóð og erum meira að segja með ríkisborgararétt hér (að sjálfsögðu einnig íslenskan).

 

Og þetta er ofureinfalt. Við keyptum síld - svokallaða fimm mínútna síld - sem er í pækli án þess þó að vera bragðbætt á nokkurn hátt. Það er samt lítið mál að gera hana frá grunni, með því að léttsalta síldarflök, láta þau standa yfir nótt, skola svo rækilega af þeim og leggja í 1-2-3 pækil (einn hlutur 12% ediksprit, tveir hlutar sykur og þrír hlutar vatn - soðið upp og látið kólna).

 

 

Fyrst er að skola síldarflökin og skera í tveggja sentimetra bita.

 

 

Fyrsta er klassísk sænsk með gulrótum, rauðlauk, dilli, lárviðarlaufum og blönduðum piparkornum. Þessu er raðað í hreina krukku á víxl þangað til að hún er full og svo er 1-2-3 legi (köldum) hellt yfir þannig að allt hráefnið liggi undir vökva. 

 

 

Næsta var svo tómatsíldin með kirsuberjatómötum, rauðlauk og basil ásamt u.þ.b. 420 g af síld. Svo var pæklinum hellt yfir. 

 

 

Hvítlaukssíldin var lögð með sex rifjum af smátt skornum hvítlauk, steinselju, sítrónusneiðum og hvítvínsediki. Látið liggja í nokkrar klukkustundir áður en þessu var blandað saman við 200 g af sýrðum rjóma og tveimur matskeiðum af mayonaisi.

 

 

Það kom upp ágreiningur með sinnepssíldina á milli okkar feðga þannig að úr varð að gera tvær gerðir til að prófa. Annars vegar með dijonsinnepi að hætti föður míns ...

 

 

... og svo með skánsku sinnepi eftir minni forskrift. 

 

 

Úr varð blanda af hvoru tveggja - sem kom alveg ljómandi vel út! Þarna blönduðum við tveimur matskeiðum af skánsku sinnepi við eina af djion og smökkuðum til með hlynsírópi ásamt þremur matskeiðum af sýrðum rjóma. Og fullt af fersku dilli! 

 

 

Pabbi hafði komið með brennivín - jólabrennsa sem mér skilst að hafa fengið að þroskast um tíma á sherrítunnu! Mun betra en venjulega brennivínið! 

 

 

Þetta mæltist vel fyrir - og ekki sakaði að hafa með þessu ljúffengt heimagert rúgbrauð sem Hrund hafði bakað!

 

Kæru lesendur - megið þið eiga dásamleg jól með vinum og vandamönnum!

 

Veislan verður góð!

 


Dúndur tómatsúpa með ofnristuðum tómötum, smá rjómafloti, basil og rauðvínstári í vetrarmyrkrinu

 

Jólin nálgast óðfluga, engin fer varhluta af því. Og þá er ágætt að geta sett saman ljúffenga kvöldmáltíð á stuttum tíma. Og þessi súpa er bæði fljótleg, holl en það mikilvægasta er að hún er alveg ótrúlega ljúffeng. Uppskriftin byggir á einum uppáhaldspastaréttinum mínum, sem er sérlega ljúffengur - kíkið endilega á uppskriftina hérna

 

Þessi súpa byggir á tveimur grundvallarhráefnum - tómötum og kjúklingasoði. Best er auðvitað að nota heimagert kjúklingasoð en í versta falli má auðvitað nota tenging! Svo er gott að bera svona súpu fram með góðu heimagerðu brauði, kannski foccacia eins og í þessari ljúffengu uppskrift!

 

Dúndur tómatsúpa með ofnristuðum tómötum, smá rjómafloti, basil og rauðvínstári í vetrarmyrkrinu

 

Fyrir fjóra til sex

 

2 kg tómatar

6 hvítlauksrif

50 ml ólífuolía

salt og pipar

1,5 l kjúklingasoð

1-2 msk soyasósa

1 msk Worchestershire sósa

 

 

Skerið tómatana í grófa bita og setjið í eldfast mót.

 

 

Skerið síðan hvítlauksrifin eins smátt og þið getið. Setjið með tómötunum. 

 

 

Hellið jómfrúarolíu yfir tómatana, saltið og piprið og hrærið vel saman. 

 

 

Ég átti kjúklingasoð inn í frysti sem ég sauð svo upp með dálitlu af vatni. 

 

 

Hitið síðan ofninn á fullt með grillið í gangi. Grillið tómatana í tvær til þrjár mínútur, hrærið í tómötunum og grillið áfram þangað til að það fer að sjóða í tómötunum. 

 

 

Setjið tómatana í pottinn með kjúklingasoðinu og blandið saman með töfrasprota.

 

 

Látið svo súpuna krauma í 15 mínútur, smakkið til með salti og pipar. Ef þarf bætið við soyasósu og jafnvel worchestershiresósu!

 

 

Með matnum prófuðum við hjónin þetta ljúffenga rauðvín frá Chile. Þetta er vín frá Concha y toro (sem framleiðir Sunrise vínin sem margir þekkja). Þetta vín er frá Rapel dalnum, þrúgurnar munu vera handtíndar og vínið fær að vera á tunnu í 17 mánuði. Þrúgan, Carmenere, er ein sú algengasta í Chile. Þetta er kraftmikið vín, mikið berjabragð og gott eikað eftirbragð!

 

 

Hellið súpunni í skál, setjið örlítið af góðri jómfrúarolíu í súpuna, sprautið dálitlu af rjóma út á súpuna (sjá mynd) og skreytið með smátt skornu basil. 

 

Ljúffeng! Sérlega ljúffeng! 

 

Veislan er rétt að hefjast. 

 

 

 


Valdís 14 ára: Þriggja rétta veisla eftir óskum heimasætunnar og fullt hús af glöðum vinkonum! Tricolore, steik og bernaise og súkkulaðimús!

 

Frumburðurinn minn, Valdís Eik, verður fjórtán ára núna á laugardaginn næstkomandi. Hún ákvað í tilefni þess að óska eftir því að fá að halda stórt matarboð eins og hún hafði fengið fyrir ári síðan. Eftir því sem mér skildist á henni þá hafði það spurst vel fyrir og mikil tilhlökkun fyrir því að endurtaka leikinn. Og ekki stóð það á okkur hjónum að verða við bón heimasætunnar. 

 

Hún bauð öllum vinkonum sínum úr bekknum og svo fékk einn vinur hennar líka að slæðast með. Og þetta var ljómandi vel heppnað. Það var mikil gleði í þessum fallegu krökkum sem kunnu svo sannarlega að taka til matar síns! 

 

Snædís og ég sáum um eldamennskuna og ásamt Villa sáum við líka um að þjóna til borðs. Við reyndum að láta þetta vera eins og að fara á veitingahús - lögðum upp á diska, helltum engiferöli í glös og gengum frá leirtaui. Ég sá ekki betur en að allir væru glaðir - og skarinn tók vel til matar síns! Ein vinkona sló í glas og hélt ræðu til heiðurs Valdísar - þetta voru, sko, krakkar sem kunnu sig. Hver sagði svo að heimur versnandi færi?

 

 

Það var þétt setið við borðið. En þröngt mega sáttir sitja! 

 

 

Valdís hafði gert sér ferð í bæinn daginn áður og sótt skraut og sérvéttur til að hafa smá hátíðarbrag yfir borðhaldinu. Ég held að hún hafi hitt í mark! 

 

Valdís 14 ára: þriggja rétta veisla eftir óskum heimasætunnar og fullt hús af glöðum vinkonum! Tricolore, steik og bernaise og súkkulaðimús! 

 

 

Ég stakk upp á þessu einfalda ljúffmeti í forrétt. Valdís tók undir. Einfaldari og stílhreinni forrétt er vart að finna. Þarna eru bragðtegundir sem hafa einstakan samhljóm; sætir tómatar, þéttur osturinn, rifin basílíska og svo góð jómfrúarolía og ennþá betri balsamedik. Sælgæti! 

 

Svo er einfalt mál að gera mozzarellaost sjálfur. Þetta gerðum við fyrir rúmum þremur árum síðan; sjá hérna.

 

 

Nautaentrecote var kryddað ríkulega með pipar og svo lokað í vakúmpökkunarvél.

 

 

Sett við rúmar 54 gráður í 2 1/2 tíma þannig að það verður lungamjúkt í gegn. Í lokin bara saltað og grillað í eitt ögnablik á heitu grilli! Hérna eru meiri upplýsingar um sous vide eldamennsku þar sem nautalund er í forgrunni - en sömu grunngildi eiga við! 

 

 

Sveitakartöflur eiga alltaf vel við þegar steik og bernaise er annars vegar! Bara skera kartöflunar í báta, velta upp úr hvítlauksolíu, rósmarín, salt og pipar og baka í 180 gráðu heitum ofni í eina klukkustund!

 

 

Gerðum hnausþykka bernaisesósu! Hérna er að finna leiðbeiningar. Og svo að sjálfsögðu í bókunum mínum! 

 

 

Valdís sá um súkkulaðimúsina. 600 gr af súkkulaði brotið niður og sett í skál og brætt yfir vatnsbaði. 

 

 

500 ml af mjólk hitaðir að suðu og 5 gelatínblöð leist upp í mjólkinni. Blandað saman þriðjungi í senn saman við brætt súkkulaðið. 

 

 

Líter af rjóma er þeyttur upp. 

 

 

Svo er öllu blandað saman.

 

 

 

Sett í bolla eða skálar. Bara það sem hendi er næst.

 

 

Það er ágætt hugmynd að láta smakka súkkulaðimúsina til. Hún rann ljúflega niður hjá Ragnhildi!

 

 

Svo fékk músin að hvíla í ísskáp í tvær klukkustundir, borin fram með þeyttum rjóma og svo súkkulaðispæni.

 

 

Og með sætan þjón, Vilhjálm Bjarka, voru allir vegir færir! 

 

Veislan varð alveg frábær! 

 

 

 

 


Marókósk kjúklingatagína með marineruðum sítrónum, svörtum ólífum og kúrbít

Þetta er einn af uppáhaldsréttunum úr bókinni minni. Fullt af brögðum sem maður er ekki vanur að nota, en þó með kryddum sem eru okkur 

Ég hef lengi verið áhugasamur um matargerð Norður Afríku og þá sérstaklega Marókkós um nokkuð langt skeið. Ekki minnkaði áhuginn við að eignast vinkonu sem á þangað rætur að rekja, 

Sumarið 2010 fórum við fjölskyldan í sumarfrí til Frakklands þar sem við ókum á húsbíl um héruðin Champagne, Búrgúndí, Júra og Alsace og þar datt ég einn á markmað þar sem seldar ovru marókkóskar tagínur. Tagínur eru sérstakir leirpottar og réttir sem eldaðir eru í þeim draga af þeim nafn sitt. Þær þarf að hita upp hægt og rólega og eru gjarnan með strýtulaga lofi þar sem gufan safnast saman og lekur svo aftur niður í réttinn sem verið er að elda. Matreiðsla í tagínum er líka dálítið sérstök; hráefnum er raðað upp í pottinn, lokinu tyllt á tagínan sett yfir hlóðirnar. Oftast eru þessir réttir eldaðir í eina til tvær klukkustundir, jafnvel lengur. 

Þessi kjúklingatagína varð til við samvinnu okkar bræðranna. Mig langaði til að nota marineraðar sítrónur ásamt tómötum og broddkúmeni en bróðir minn stakk upp á kjúklingasoði og ólífum en sleppa tómötunum. Ég lagði svo til kúrbítinn. Ég sá síðan hina umræddu maróakósku vinkonu mína hlaupa framhjá eldhúsglugganum mínum, elti hana uppi og bar undir hana innihaldslýsinguna. Henni leist vel á réttinnn nema hvaða að kjúklingatagínur innihéldu sjaldan broddkúmen og þá var því sleppt. Og rétturinn varð sérlega ljúffengur - með samvinnu margra. 

Sé ekki tagína við hendina, er um að gera að nota bara venjulega pönnu í staðinn. 
 

Marókósk kjúklingatagína með marineruðum sítrónum, svörtum ólífum og kúrbít
 
Fyrir fjóra til sex.

16 kjúklingaleggir
1 marineruð sítróna 
700 ml kjúklingasoð 
50 g smjör
1 gulur laukur
4 hvítlauksrif
1 tsk engiferduft
1 tsk paprikuduft
1 tsk túrmerik
1 tsk kóríanderduft
1 tsk sjávarsalt
1 tsk nýmalaður pipar
3 msk jómfrúarolía
1 kúrbítur
30 kalamata-ólífur
salt og pipar
handfylli fersk mynta 

1. Skerið brjóskið af leggjunum og  og hendið. 

 

Kosturinn við þetta er að við eldunina þá dregst húðin saman og auðvelt er að taka leggina upp og borða með fingrunum! 

 

2. Setjið leggina í skál ásamt jómfrúarolíu, túrmeriki, engifer-, papríku og kóríanderdufti. Blandið sjávarsalti og pipar saman við. Marinerið í ísskáp í eina til tvær klukkustundir helst yfir nótt. 

 

 

3. Saxið lauk og hvítlauk og steikið í smjörinu þangað til laukurinn er mjúkur og gljáandi. Saltið og piprið þegar laukurinn er kominn í pönnuna. 

 

4. Leggið kjúklinginn í pönnuna og hellið yfir kjúklingasoðinu.

 

 

5. Sneiðið marineruðu sítrónuna og raðið í kringum kjúklinginn. 

 

6. Skerið kúrbítinn í grófar sneiðar og bætið út í ásamt kalamata-ólífunum. Dreifið nokkrun myndtulaufum yfir og saltið og piprið. 

 

7. Setjið lokið á tagínuna, hleypið suðunni upp og látið krauma í eina til eina og hálfa klukkustund við lágan hita.

 

8. Dreifið yfir rifinni ferskri myntu þegar rétturinn er tilbúinn. 

 

 

Í bókinni minni er heilmikið af frábærum réttum og svo sé ég ekki betur en að bókin er á tilboði útum allt! 

 

 

Haustleg nauta "sússa" með rótargrænmeti, grænkáli og íslensku perlubyggi

 

Þó að haustið sé búið að vera milt þá eru dagarnir samt alltaf að styttast! Og þó svo að það sé yfir frostmarki þá blæs jú meira en góðu hófi gegnir og rignir meira en maður þolir og við svona aðstæður er gott að hverfa inn í eldhúsið og verma sálartetrið með góðum mat. Þessi réttur ætti að geta veitt sálarbjörg á erfiðum haustdegi.

 

Okei... orðið sússa þarf náttúrulega einhverra skýringa við. Og þetta er mín tilraun. Sússa - er þá samsett orð úr súpu og kássu, sússa. Og það lýsir þessari uppskrift ágætlega, hún er matarmikil eins og kássa en sósan er samt þunn eins og í súpu - þannig að niðurstaðan verður ... sússa, já eða kúpa, sássa, kússa, kápa ... er ekki sússa bara skássti kosturinn?

 

Þegar ég var á Íslandi í lok október í tengslum við útgáfu bókarinnar minnar fór ég nokkrum sinnum út að borða. Tvisvar sinnum fékk ég perlubygg sem meðlæti með réttunum sem ég pantaði, einu sinni soðið og einu sinnu stúvað (með rjóma) - bæði einkar ljúffengir og hugnuðust mér vel. Mér var færður poki af perlubyggi frá Móður Jörð í Vallanesi (http://www.vallanes.is/) og tók það með mér heim í eldhúsið mitt til að prófa. Þetta er fyrsta tilraunin.

 

Haustleg nauta "sússa" með rótargrænmeti, grænkáli og íslensku perlubyggi

 

 

 

Hugmyndin af þessari sússu varð til þegar ég var að rölta í gegnum kjörbúðina mína eftir vinnu í dag og rakst á þennan fallega nautabita (á sænsku högrev - frampartur) sem fullyrt var að hefði fengið að hanga aukalega til að meyrna. Hann var alltént fallega fitusprengdur!

 

Fyrir fjóra til sex

 

850 g nautaframpartur

3-4 gulrætur

3-4 nípur

1 púrrulaukur

1 gulur laukur

4 hvítlauksrif

3 sellerístangir

4 lárviðarlauf

4 grænkálsblöð

100 ml perlubygg

4 msk jómfrúarolía

2 l kjötsoð

salt og pipar

 

 

Skar selleríið, laukinn og hvítlaukinn í bita og steikið í olíunni þangað til að grænmetið er mjúkt og ilmar vel!

 

 

Kippið grænmetinu upp úr og setjið til hliðar. Skerið nautakjötið í bita, saltið og piprið og brúnið svo að utan. Bætið lauknum, selleríinu og hvítlauknum aftur saman við og blandið vel.

Bætið kjötsoðinu saman við og látið krauma á lágum hita í eina klukkustund.

 

 

Látið börnin flysja gulrætur og nípurnar og skerið þær svo í grófa bita. Skerið púrruna í grófa bita. Setjið út í pottinn og sjóðið í 20-30 mínútur. 

 

 

Þegar 15 mínútur eru eftir af eldunartímanum (sem er sveigjanlegur), smakkið þið réttinn til með salti og pipar (og kannski Worchestershire sósu) og setjið svo perlubyggið og gróflega niðurskorið grænkálið samanvið. Látið malla í 15 mínútur. Perlubyggið og grænkálið þarf um 15 mínútur til að verða mjúkt og ljúffengt!

 

 

 

Með matnum fékk ég mér glas af þessu ágæta ítalska víni sem er sönnun þess að búkollur eru barasta alveg ljómandi sopi! Masi Modello delle Venezie er létt og heldur þurrt rauðvín með ágætis berjabragði sem passar ágætlega á svona kvöldum með rjúkandi nautasússu!

 

 

Setjið í skál, örlítið af sýrðum rjóma ofan á og svo er ekkert annað að gera en að njóta. 

 

Þó að myrkrið sé svart þá er hlýtt heima og matur sem þessi vermir manni um hjartað!

 

Veislan getur verið endalaus! 

 

 


Læknisráð í Eldhúsinu: Einföld egg á þrjá vegu og heimsókn til Brúneggja

 

Eigendur Brúneggja, Kristinn Gylfi og Helga Guðrún, höfðu samband við mig fyrir nokkrum vikum og spurðu hvort ég hefði áhuga á því að vinna með þeim í tengslum við heimasíðu sem þau er að fylgja úr hlaði - brunegg.is. Mér fannst hugmyndin áhugaverð og óskaði eftir meiri upplýsingum um hvernig framleiðslu Brúneggja er háttað og eftir lestur ítarefnis fannst mér þetta spennandi. Við hittumst og ræddum málin og úr varð að mér og börnunum mínum var boðið í heimsókn á Teig í Mosfellsbæ þar sem hluti af eggjaframleiðslunni fer fram.

 

 

Hænurnar fá að spóka sig um að vild.

 

 

Við fengum að halda á hænunum. Þær voru ekki ósáttar við handbrögð sonarins sem virtist hafa gott lag á þeim!

 

 

Þessi, eins og allar hinar, fékk nafnið Bogga. Og dottaði í fanginu á Villa!

 

 

Þær hafa frjálsan aðgang að vatni og mat og geta verpt þar sem þær vilja!

 

 

Hænurnar voru hrifnar af Kristni, eiganda Brúneggja.

 

 

Ein fín fjölskyldumynd fær nú að fylgja með!

 

 

Þó að eggin í bökkunum séu svipuð að stærð þá er mikil breytileiki í því. Eldri hænur verpa gjarnan stærri eggjum. Og sum geta orðið ansi vegleg!

 

Og þetta var ánægjuleg heimsókn. Það er alltaf gaman að sjá metnaðarfullt fólk gera góða hluti. Við fengum meira að segja að fara og skoða hænurnar og sjá hvernig allt ferlið fer fram. Og ég gat ekki séð betur en að þessar púddur hafi það bara mjög gott. Þarna geta þær spókað sig, étið og drukkið að vild og verpt þar sem þær vilja. Þær voru salírólegar þegar við litum inn, meira að segja svo þægar að við fengum að taka þær upp. Og eins og fram kom hér á undan dottaði meira að segja ein í fanginu á Villa!

 

Sjálfur er ég kresin á egg og kaupi nær öll mín egg frá hjúkrunarfræðingi sem ég vinn með sem er með nokkrar hænur útí garði hjá sér. Og það er dálítið skemmtilegt að fá frá henni eggjabakkann. Ég kaupi venjulega 30 egg í einu, og þau eru mörg hver ansi ólík, sum stór, sum lítil og sum skemmtilega öðruvísi í laginu! Það er ekki lítið sem ég er öfundssjúkur þar sem mig langar svo að hafa nokkrar hænur sjálfur, en garðurinn minn er bara svo lítill! Og ef samstarfskona mín á ekki handa mér egg kaupi ég nær einvörðungu lífræn egg - það munar aðeins í verði en ég held að það hljóti að vera þess virði.

 

Læknisráð í Eldhúsinu: Ommiletta á þrjá vegu og heimsókn til Brúneggja

 

Og egg borða ég næstum því á hverjum morgni, úr tveimur til þremur eggjum eftir stærð eggjanna. Og það er í góðu lagi, það er ekkert óhollt. Þvert á móti eru egg holl, þrungin af vítamínum og halda manni mettum og glöðum langt frameftir degi.  Og sumir vísindamenn segja meira að segja að það geti stuðlað að þyngdartapi!

 

Hér eru sem sagt þrjár leiðir til þess að gera bæði einfaldra franska ommilettu og svo tvær leiðir að hrærðum eggjum.

 

 

Byrjið á því að brjóta þrjú egg í skál, saltið og piprið.

 

 

Bætið teskeið af vatni saman við og hrærið saman með gaffli. 

 

 

Bræðið klípu að smjöri á pönnu.

 

 

Þegar verið er að gera franska ommilettu þarf að hafa pönnuna á hreyfingu. Og á meðan eggin er ennþá blaut þá ýtir maður eggjunum inn að miðju og lætur svo eggin renna til að fylla pönnuna. Þetta gefur ommilettunni fyllingu.

 

 

Þegar eggin eru að taka sig þá er brotið upp á ommilettuna og hún sett á disk. Skv. reglum franska eldhúsins eiga eggin ekki að taka lit, en mér finnst það betra.

 

 

Ameríska leiðin að hrærðum eggjum er fólgin í því að reglulega hreyfa eggin á pönnunni þannig að þau eldist í þunnu lagi - svona eins og þunnum borðum.

 

 

Þessi aðferð gefur einstaklega safarík egg!

 

 

Svo þarf bara að gæða sér á eggjunum!

 

 

Þriðja leiðin er ensk og er gerð í potti.

 

 

Með ensku aðferðinni er eggjunum haldið stöðugt á hreyfingu þannig að þau hlaupa í lilta kekki.

 

 

Áferðin verður allt önnur - en engu að síður mjög ljúffeng! 

 

Minni svo að lokum á bókamessuna nú um helgina sem verður haldin í Ráðhúsinu (22. og 23. nóvember). Það væri gaman að sjá sem flesta. 

 

Og að sjálfsögðu verð ég með veitingar!

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband