Fjölbreytilegt eggja"soufflé" í morgunsárið

 

Ég er kominn í eins og hálfsárs starfsleyfi frá gigtardeildinni í Lundi. Við munum flytja okkur aðeins um set og hafa vetursetu (og aðeins meira til) í Brighton á Englandi. Þar stefnir Snædís á framhaldsnám í sálfræði og ætlar að auka á þekkingu sína í hugrænni atferlismeðferð. Brighton þekki ég ágætlega þar sem ég bjó þar í eitt ár sem barn á meðan faðir minn, Ingvar, var í meistaranámi við sama háskóla og Snædís mun stunda sitt nám. Ég hef heimsótt borgina síðan þá og höfum við heimsótt kollega minn, Roger Duckitt, nokkrum sinnum á síðustu árum.

 

Við munum semsagt flytja í lok ágúst og byrja nýtt líf þar. Börnin munu fara í skóla í Brighton, við höfum ráðið íslenska Aupair sem kemur afar vel fyrir. Ég mun starfa sjálfstætt sem ráðgjafi, kannski skrifa eitthvað, áreiðanlega elda eitthvað, vonandi huga eitthvað af rannsóknum og alveg öruggulega læra eitthvað nýtt. Ég er alveg ákveðinn í að fara á matreiðslunámskeið, kannski hjá Hugh Fearnley Whittingstall í The River Cottage eða hjá Rick Stein í Padstow. Kannski kem ég til Íslands í haust og held námskeið sjálfur í samstarfi við Salt eldhús. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér!

 

Fjölbreytilegt eggja"soufflé" í morgunsárið

 

 

Ég er afar hrifinn af eggjum. Egg eru næstum því hinn fullkomni matur - ótrúlega fjölbreytt og með eindæmum holl. Ég byrja næstum því hvern einasta morgun með því að snæða egg, stundum bara steikt upp úr smjöri - "sunny side up", stundum "over easy", en oftast sem eggjahræru og einstaka sinnum sem ommilettu. Veit varla betri leið til að byrja daginn!

 

Og fyrir þá sem hafa áhyggjur af kólesterólinu - gleymið því bara - egg eru holl, mettandi og full af vítamínum. Frábært veganesti úr í daginn.

 

Og - kaupið almennileg egg - ég fæ mín frá samstarfsmanni mínum á gigtardeildinni sem býr á bóndabæ og er með fjöldan allan af hænum og selur mér vikulega ljúffeng lífræn egg! Þau eru miklu betri á bragðið en egg frá búrhænum! Treystið mér!

 

Fyrir fjögur eggja"soufflé"

 

4 stór egg

70 ml rjómi

salt og pipar

 

Fyllingar

 

3 sneiðar af steiktu beikoni

pepproni/salamisneiðar

niðurskornir tómatar

paprikusneiðar

nóg af góðum osti

 

 

 

Ég keypti þessa dásamlegu tómata á grænmetismarkaðnum í gærmorgun. Ég elska að fara niður í bæ á laugardagsmorgun og versla nýtt ferskt grænmeti. Í gær keypti ég líka fersk jarðaber sem voru á tilboði eftir Jónsmessuna, rótargrænmeti, vaxbaunir og heilmikið meira!

 

 

Jæja, aftur að morgunverðinum. Brjótið fjögur egg í skál og hrærið rjómanum samanvið. Saltið og piprið og þeytið vandlega saman. Smyrjið síðan eldföstu mótin með smá smjöri og raðið fyllingunum ofan í.

 

Alvöru eggja"soufflé" innhalda meira en bara egg og rjóma (mjólk) - smá hveiti er alltaf sett saman við en ég sleppti því bara. Til að gera alvöru "soufflé" eru hvíturnar einnig aðskildar og þeyttar vel og svo blandað saman við eggin til að gera "soufflé"ið mjög loftkennt. En hér fór ég styttri leið.

 

 

Steikt beikon - klikkar ekki! 

 

 

Falleg rauð papríka í sneiðum.

 

 

Piparsalami - eða pepperoni.

 

 

Blanda af þessum fallegu smátómötum.

 

 

Hellið síðan eggjablöndunni yfir og fyllið að 2/3. 

 

 

Svo er bara að raspa nóg af osti yfir. Ég notaði Västerbottenost sem er sérlega ljúffengur.

 

 

Eggja"souffle" rísa mikið þegar þau bakast.

 

 

Breakfast of Champions!

 

 


Il Timpano - troðfyllt pastabaka - úr kvikmyndinni Big night

Hugmyndina að þessari uppskrift fékk ég úr bíómyndinni Big night sem er óður til ítalskrar matargerðar og fjallar um tvo bræður sem reka veitingastað sem er að syngja sitt síðasta. Í örvæntingarfullri tilraun til að bjarga staðnum efna þeir til veislu þar sem fjöldi dásemdarrétta er borinn á borð. Þar á meðal þessi réttur, Il Timpano, sem er innbakað pasta. Hann mun vera einn af uppáhaldsréttum eins aðalleikara myndarinnar, Stanleys Tucci, en móðir hans hefur gefið út matreiðslubókina Cucina & Famiglia þar sem þessa uppskrift er að finna.

 

 

 

 

Ef þið smellið á hlekkina þá færa þeir ykkur yfir á vefsvæði amazon.co.uk og hægt er að panta bókina með einum músarsmell!

 

Eldamennska eins og þessi er í raun talsvert viðamikið verkefni og það borgar sig að t aka sér hálfan dag í verkið. Fyrst þarf að laga pastað, svo sósuna, þá kjötbollurnar, raða öllum herlegheitunum upp og svo baka í ofni. Vonandi fær maður síðan hrós fyrir!

 

 

 

Ég eldaði þennan rétt fyrir ári síðan fyrir bókina mína - Veisluna Endalausu - en þá voru vinkonur Snædísar og kollegar, Sigrún Ása og Elva Brá, í heimsókn. Það var virkilega gaman að hafa þessar fallegu og skemmtilegu dömur í heimsókn. 

 

Il Timpano - troðfyllt pastabaka - úr kvikmyndinni Big night

 

Fyrir átta til tíu

 

 

Fyrir pastað

 

800 g durum-hveiti

 

8 egg

 

 

 

Fyrir kjötbollurnar

 

500 g svína/nautahakk

 

1 egg

 

1 tsk fennelfræ

 

1 msk söxuð steinselja

 

1 msk söxuð basillauf

 

3 hvítlauksrif

 

2 ristaðar brauðsneiðar

 

1 msk jómfrúarolía

 

salt og pipar

 

 

 

Fyrir fyllinguna

 

heimagerð tómatsósa (sjá hérna)

 

2 egg til að pensla með

 

1 kúrbítur

 

3 ferskir mozzarella-ostar

 

6 soðin egg

 

salt og pipar

 

 

Byrjið á því að laga pastadeigið. Blandið durum-hveitinu og eggjunum saman í hrærivél í nokkrar mínútur. Hnoðið saman í þéttan klump, setjið í plast og svo inn í ísskáp í 30-60 mínútur.

 

 

 

Útbúið kjötbollurnar með því að setja hakkið í skál ásamt egginu, steyttum fennelfræjum, saxaðri steinselju, basil og hvítlauk, jómfrúarolíu, salti og pipar. Blandið vel saman. Ristið brauðsneiðarnar, tætið niður í matvinnsluvél og blandið saman við hakkið. Hnoðið hakkblönduna vandlega og útbúið fallegar bollur á stærð við golfbolta. Hitið olíu á pönnu og brúnið bollurnar að utan og setjið svo til hliðar. Geymið pönnuna með olíunni til að steikja pastað. Lagið tómatsósu eftir leiðbeiningum héðan.

 

 

Ég á fylgihlut á KitchenAid vélina mína sem er ansi sniðug. Með henni fylgja nokkur mót þannig hægt sé að gera nokkrar ólíkar tegundir af pasta, hægt er að kynnast pastapressunni betur á heimasíðu Einar Farestveits. 

 

 

Ég gerði fuzilli.

 

 

Og svo penne. 

 

 

Og svo nóg af pastarenningum til að hjúpa pottinn fyrir trommuna - il timpano. 

 

 

Hlutið pastadeigið í þrennt. Útbúið til dæmis fusilli úr fyrsta þriðjungnum, penne úr þeim næsta og svo langa og breiða renninga úr þeim þriðja. Sjóðið fusilli og penne í ríkulega söltuðu vatni í þrjár til fjórar mínútur og takið svo upp úr vatninu. Steikið aðra pastategundina í fitunni af kjötbollunum og blandið hinni við tómatsósuna.

 

Smyrjið eldfastan pott ríkulega með smjöri eða olíu. Leggið pastarenningana í pottinn þannig að botn hans og hliðar séu hjúpaðir með pasta og þannig að nóg pasta sé umfram til að brjóta yfir í lokin. Hrærið eggin saman og penslið pastað ríkulega.

 

 

Setjið eina tegund af pasta í botninn, raðið heilum eggjunum með og lokið síðan með tveimur pastarenningum. Penslið með eggjablöndunni.

 

 

 

 

Setjið næst lag af niðursneiddum kúrbít, mozzarella-osti og kjötbollum og svo annað lag af pastarenningum. Penslið með eggjablöndunni.

 

 

 

 

Setjið að lokum síðasta lagið af pastanu og fellið svo yfir pastarenningana sem stóðu út af til að loka kökunni alveg. Penslið með eggjablöndunni.

 

 

Setjið lokið á og bakið í 180 gráðu heitum ofni í 45-55 mínútur. Takið svo lokið af og bakið áfram í 10 mínútur. Takið réttinn úr ofninum og látið standa í 15 mínútur til að kólna áður en reynt er að snúa pottinum og losa pastakökuna (il timpano) úr pottinum.

 

 

Njótið með góðu salati.


Satay-kjúklingaspjót með hnetusósu í fertugsveislunni hennar Addýjar

 

 

 

Vinkona mín, Arnfríður Henrýsdóttir, átti stórafmæli núna í vikunni og ætlar í kvöld að halda upp á tímamótin með veislu í kvöld. Mér skilst að öllu verði tjaldað til. Addý, eins og hún er ávallt kölluð, býr ásamt manninum sínum, Guðmundi, og öllum krakkaskaranum í næstu götu við okkur í Annehem í Lundi. Ég hjólaði við á leiðinni heim úr vinnunni í gærkvöldi og sá að undirbúningur var á fullu. Öll fjölskyldan hennar var mætt á svæðið til að hjálpa til með herlegheitin. 

 

Ég tók að mér eitt smáverkefni til að létta undir veisluhöldin. Að elda nokkur kjúklingaspjót - ekkert var sjálfsagðara. Ætla að gera tvennskonar spjót - þessi sem ég skelli með í færslunni og svo tandoor spjót (sem fá að bíða betri tíma). Þessi uppskrift var í bókinni minni sem út fyrir seinustu jól, Veislunni Endalausu. 

 

Satay-kjúklingaspjót með hnetusósu í fertugsveislunni hennar Addýjar

 Þennan rétt hef ég eldað margoft en af einhverri ástæðu aldrei sett hann inn á bloggið mitt. Þegar ég var yngri og var að byrja að búa keypti ég oft tilbúnar sataysósur og hitaði þær bara. En þegar smekkurinn þroskaðist fór ég að djassa þær aðeins upp - blanda þær með kókósmjólk og ferskum chilipipar. Og nú í seinni tíð hef ég gert þær nokkrum sinnum frá grunni. Og það er lyfilega einfalt.

Sumum gæti þótt hráefnalistinn ansi langur en þetta ætti allt að vera aðgengilegt fyrir áhugasama í næstu kjörbúð.  

Fyrir fjóra 

 

Fyrir kjúklinginn 

1 kg kjúklingabringur

1/2 dós kókósmjólk

3 msk hrein jógúrt

3 hvítlauksrif 

5 cm engifer 

1 msk sambal oelek (chili-mauk) 

3 msk sojasósa

1 msk fiskisósa 

1 tsk túrmerik 

1 tsk kóríanderduft

2 tsk dökkur muscovadósykur

salt og pipar 

handfylli kóríanderlauf til skreytingar

 

Fyrir hnetusósuna

 

1 bolli hnetusmjör 

2 msk sojasósa 

1 tsk sambal oelek 

1 bolli kókósmjólk

safi úr einni límónu

3 msk púðursykur

1 1/2 vatn

1 bolli salthnetur

salt og pipar

 

 

 

Hrærið kókósmjólk og jógúrt saman í skál. Maukið hvítlauk og engifer og blandið saman við jógúrtina. Bætið við sambal, soyasósu, fiskisósu, túrmerkiki, kóríanderdufi, límónusafa og sykri. Saltið og piprið. Skerið kjúklingin í strimla og marineríð í leginum í ísskáp í þrjár til fjórar klukkustundir. Leggið grillpinna í vatn í klukkustund áður en þið þræðið kjúklingin upp á þá.   

 

Grillið síðan kjúklingaspjótin í gegn á blússheitu grilli í nokkrar mínútur.  

 

Fyrir sósuna; Setjið hnetusmjör, soyasósu, sambal, kókósmjólk, vatn og safa úr einni límónu í pott og hitið yfir lágum hita í nokkrar mínútur. Saltið og piprið. Merjið salthneturnar gróft í mortéli og bætið úr í sósuna. Hitið varlega upp. Sósan á að verða þykk en gætið þess að hún brenni ekki botninn.

 

 

Berið fram með basmati-hrísgrjónum og handfylli af ferskum kóríanderlaufum.

 

Jæja, best að fara að byrja að elda! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband