Sólargrill í Reykjavík - Marineraðar lambalundir með sæt kartöfluskífum, kúrbítsneiðum og kryddjurtasósu

 

Nú í sumar hef ég varið bróðurpartinum af frítíma mínum í tökur á þáttaröðinni, Lambið og miðin, sem sýnd verður næsta vetur á Sjónvarpi Símans. Ég hef notið þeirra einstöku forréttinda að fá að vinna afar náið með bróður mínum, tökumönnunum Árna, Elvari og nú síðast Sindra og svo að sjálfsögðu Kristjáni Kristjánssyni - sem hefur framleitt þættina með mér og leikstýrt. Það veitir manni óneitanlega mikinn innblástur að vinna með öðlingum eins og þessum sem deila ástríðu manns á góðum mat og ljúfum stundum. 

 

Mér á án efa eftir að verða tíðrætt um þetta sumar, þar sem það hefur verið algerlega ógleymanlegt. Við hófum ferðalagið á Norðurlandi við Mývatn, Reykjahlíð, Tungulendingu og Naustavík á Skjálfanda. Næst fórum við allt Snæfellsnesið og heimsóttum Hellnar, Búðir, Kirkjufell, Stykkishólm og svo Flatey. Við lukum ferðalaginu að þessu sinni undir Eyjafjöllum, í Merkigili, Bakkafjöru og svo í Vestmannaeyjum. Við kynntumst mörgu ógleymanlegu fólki og ég á mér heita ósk um að við náum að miðla þessum upplifunum til ykkar á sjónvarpsskjánum. 

 

Við höfum reynt að nútímavæða rótgrónar, íslenskar uppskriftir og reynt að glæða þær nýju lífi. Þið dæmið um auðvitað hvernig til hefur tekist. Ég hlakka alltént til að deila þessu með ykkur! 

 

Sólargrill í Reykjavík - Marineraðar lambalundir með sætkartöfluskífum, kúrbítsneiðum og kryddjurtasósu

 

Nú um helgina voru fyrstu sólardagarnir í Reykjavík. Það var því auðveldara en oft áður að setja á sig grillsvuntuna og koma sér í gírinn. 

 

Hráefnalisti fyrir fjóra

 

800 g lambalundir

4 msk jómfrúarolía

1 msk kryddblanda að eigin vali (ég útbjó mína eigin) 

 

2 sætar kartöflur

2 kúrbítar

4 tómatar

jómfrúarolía

hvítlaukssalt og pipar

 

2 msk majónes 

2 msk grísk jógúrt

stórt handfylli af blönduðum íslenskum kryddjurtum 

1 tsk síróp

safi úr hálfri sítrónu

salt og pipar

 

 

Ég útbjó mér kryddblöndu - eina af þeim sem ég þróaði með Krydd og Tehúsinu í fyrra - Vilt og ótamið og bætti svo meiri pipar saman við - bæði rósapipar og grænum piparkornum. Og svo salt og pipar að sjálfsögðu.

 

 

 

Velti lambalundunum upp úr jómfrúarólíu og nuddaði kryddblöndunni vandlega í kjötið. Lagði á borð í tvær klukkustundir ásamt nokkrum sítrónusneiðum og lét standa í tvær klukkustundir til að marinerast. 

 

 

Skar grænmetið í sneiðar, velti upp úr jómfrúarolíu og saltaði og pipraði. 

 

 

Svo var bara að útbúa sósuna. Blandaði majónesi og jógúrt saman í skál og hrærði saman við sírópið, sítrónusafa og salti og pipar. Svo skar ég niður fullt af kryddjurtum - steinselju og sítrónumelissu og lét standa í 30 mínútur - til að bragðið fengi að taka sig betur.

 

 

Svo var ekkert annað að gera en að fara að grilla. Ég byrjaði á sætu kartöflunum þar sem þær taka lengstan tíma. Næst tómata og kúrbít.

 

 

Þegar grænmetið var grillað í gegn var það lagt til hliðar og lundirnar grillaðar ásamt sítrónunum.

 

 

Svo var herlegheitunum raðað á disk og gestir boðnir til borðsins.

 

 

Með matnum nutum við þessa ljúffenga rauðvíns. Þetta er Marques de Casa Concha Pinot Noir frá 2016 sem er framleitt í Chile í Suður-Ameríku. Þetta vín er ljúffengt. Rauðgegnsætt í glasi, með ilm af þurrkuðum ávöxtum og dökku súkkulaði með svipuðum tónum á tungu og eftirbragði sem sómdi sér vel með matnum. 

 

Verði ykkur að góðu! 

 


Dásamlega ljúffengur villtur íslenskur lax - oriental style - með þrennskonar sósum, grilluðu pok choy og fullt af fersku grænmeti

 

Það er ekki leiðinlegt þegar maður fær upphringingu á föstudegi þar sem stangveiðimaður þarf að koma nýveiddum laxi í hús. Sík skilaboð fékk ég á föstudaginn síðastliðinn frá Hjördísi Pétursdóttur en hún kom færandi hendi með þennan fallega spriklandi ferska lax.

 

Og auðvitað varð að elda hann hratt og örugglega. Og mér datt ekkert annað í hug en að gera það á eins ferskan hátt og mögulega.

 

 

Og við vorum með góða gesti í mat - Sverri og Bryndísi! Sverrir er sá maður sem hefur þolað mig hvað lengst, en við höfum verið bestu vinir frá því við vorum fimm ára gamlir, maður þorir varla að segja það, en það eru kominn 37 ár - úff! Sverrir var lánsamur að kynnast Bryndísi þegar við vorum í MH. Það er alltaf gaman að setjast niður yfir mat og drykk með þessu góða fólki.

 

Dásamlega ljúffengur villtur íslenskur lax - oriental style - með þrennskonar sósum, grilluðu pok choy og fullt af fersku grænmeti


Laxinn

 

1 ferskur villtur íslenskur lax (auðvitað má nota eldislax)

1 sítróna

1 rauður chilli

2 vorlaukar

2-3 hvítlauksrif

7 cm engifer

handfylli af ferskum íslenskum kryddjurtum

16 blöð af hrísgrjónapappír

 

Grænmetið

 

kínakál

papríkur í mrgum litum

baunaspírur

vorlaukur

radísur

gulrætur

kastaníuhnetur

blandað laufsalat

ferskt kóríander

ferskt basil

 

Meðlæti

 

3 pak choy

1 msk soyasósa

1 msk jómfrúarolía

1/2 rauður chilipipar

salt og pipar

 

Fyrir sósurnar

 

Númer eitt;

 

4 hlutar majónes

1 hluti rauð sirachasósa

 

Númer tvö;

 

3 hlutar jómfrúarolía

1 hluti soyasósa

1 tsk smátt saxaður hvítlaukur

1 tsk smátt saxaður engifer

1/2 rauður chili pipar - smátt saxaður

1/2 tsk ristuð sesamfræ

1 tsk hunang

safi úr hálfi sítrónu

salt og pipar

 

Númer þrjú;

 

4 hlutar majónes

1 hluti græn sirachasósa

1 msk ferskur graslaukur, smátt skorinn

 

 

 

Byrjið á því að skera sítrónurnar, chilipiparinn, vorlaukinn, engiferinn, kryddjurtirnar og hvítlaukinn gróflega niður og komið fyrir inn í kviðarholi fisksins.

 

 

Pakkið svo laxinum vandlega inn í álpappír, líklega er best að hafa hann í tvöföldu lagi af pappír, þannig sleppur engin vökvi frá fisknum og hann sýður í eigin safa. 

 

 

Útbúið sósurnar. Það er nauðaeinfalt. Bara að blanda hráefnunum saman í skálar og tylla á stórt fat.

 

 

Sneiðið svo grænmetið smátt og raðið því í kringum sósuskálarnar. 

 

 

Setjið laxinn á blússheitt grillið í 35 mínútur eða svo. Það er góð hugmynd að snúa honum einu sinni á meðan eldun stendur þannig að hann eldist jafnt í gegn.

 

 

Pak choy-ið er í raun bara kínakálsafbrigði. Það er skorið niður í helminga og öllu nema chili sáldrað yfir. Það er svo grillað á háum hita þangað til að blöðin visna og grænmetið tekur á sig lit. Þegar það er tilbúið er smátt skornum chili dreift jafnt yfir. 

 

 

Með matnum drukkum við Piccini Bianco frá Toscana. Þetta vín er gert úr blöndu af Chardonnay þrúgum, Trebbiano og svo Vermentino. Þetta er vín sem er einkar auðdrekkanlegt sérstaklega með mat sem þarf að fá að njóta sín. Sósurnar eru nokkuð krefjandi á bragðlaukana og þess vegna mikilvægt að drekka vín með sem ekki gnæfir yfir þá tóna - og hvað þá bragðið af fiskinum. Vínið er fölgult á lit í glasi, þokkalegur ávöxur á nefi, fínir og mjúkir ávaxtatónar á tungu með smá þykkt sem líklega kemur frá Chardonnay þrúgunni. 

 

 

Ég hafði keypt hrísgrjónapappír í Víetnam market á Suðurlandsveginum. Það þarf ekkert annað en að væta hann í heitu vatni og láta svo kólna á diski. 

 

 

Svo var bara að raða hráefninu á hrísgrjónapappírinn og vefja upp og taka svo stórann bita. Og njóta. Það er nú aðalatriðið. 

 

Gleðilegt sumar og verði ykkur að góðu! 

 


Elsnögg hvítsúkkulaðiostakaka með bláberjasultu og bláberjum

Eins og margir sem lesa bloggið mitt taka eftir þá ber ekki mikið á eftirréttum. Það verður eiginlega að viðurkennast að ég er allt annað en duglegur að búa til eftirrétti. Og það er ekki vegna þess að mér finnist þeir ekki ljúffengir, ég kann bara betur að meta forrétti og aðalrétti og hef því sjaldnast pláss fyrir eftirrétt. En ég hef safnað í sarpinn í gegnum árin og það er hægt að finna margar sígildar uppskriftir í safninu mínu, sjá hérna undir Eftirréttir og kökur! Og hér er ein sem ég hef í uppáhaldi.

 

Eldsnögg hvítsúkkulaðiostakaka með bláberjasultu og bláberjum

 

Það er skemmtileg saga um það hvernig mér áskotnaðist bláberjasultan. Það var þannig að við vorum við tökur á þættinum okkar, Lambið og miðin, á Snæfellsnesi í byrjun júlí. Gréta Sigurðardóttir tók vel á móti okkur og sagði okkur auðfús frá staðháttum og þeirri matarkistu sem er að finna við rætur Snæfellsjökuls og svæðunum þar um kring. 

 

Hún bauð okkur í morgunverð á Hótel Egilsen þar sem við fengum meðal annars að smakka ljúffenga bláberjasultu sem hún gerir sjálf úr bláberjum frá Vestfjörðum, en þar finnast bestu bláber á Íslandi. Hún leysti mig út með einni krukku sem við höfum nostrað við á síðustu vikum. Og hún sómdi sér sannarlega vel í þessum eftirrétti.  

 

Þessi færsla birtist líka á Gott í matinn núna í morgunsárið. 

 

Hráefnalisti fyrir sex

 

400 g rjómaostur

1 peli rjómi

200 g hvítt súkkulaði

175 g digestive kex

3 blöð gelatín

75 g haframjöl

100 g smjör

2 msk hunang

6 msk bláberjasulta frá Grétu í Stykkishólmi

6 msk fersk bláber

 

 

 

Bræðið fyrst súkkulaðið yfir vatnsbaði.

 

 

Bætið pela af rjóma saman við bráðið súkkulaðið. 

 

 

Svo setti ég 3 gelatín blöð saman við heitan rjóman og bráðið súkkulaðið.

 

 

Setti rjómaostinn í skál og þeytti þar til hann varð mjúkur. 

 

 

Þá fer súkkulaðirjóminn saman við rjómaostinn og blandað vel saman. Lét svo skálina inn í ísskáp til að kólna. 

 

 

Þá var kexið sett í matvinnsluvél og hrært saman við haframjölið.

 

 

Þvínæst bætti ég bráðnu smjöri saman við kexmulninginn og svo hunangi. Lét svo standa í nokkrar mínútur.

 

 

Setti svo kexblönduna í skálar.

 

 

Þá tyllti ég matskeið af sultunni hennar Grétu ofan á kexblönduna. 

 

 

Og þakti svo kexið og sultuna með súkkulaðiblöndunni. Setti svo skálarnar í ísskápinn.

 

 

Það var síðla kvölds sem ég bar fram eftirréttinn og lýsingin eftir því. Hann varð engu að síður einstaklega ljúffengur. 

 

-------

 

 

Hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

 

Tournedos Rossini heimsótt aftur með pommes fondantes og marsalasósu

 

Þetta er stórkostlegur réttur. Hann er svo góður að elsta dóttir mín biður reglulega um að ég eldi hann - en það hefur samt ekki gerst oft. Ég gerði hann seinast fyrir rúmum fimm árum fyrir fyrstu bókina mína, Tíma til að njóta. Þegar ég setti uppskriftina á netið, fékk ég talsverða gagnrýni þar sem hann inniheldur fois gras, andalifur, sem er framleidd með, að sumum finnst, vafasömum aðferðum. Og undir þau rök má vissulega taka. En hún er einstaklega ljúffeng - en ætli þetta sé ekki ástæðan fyrir því að ég eldi þennan rétt ekki oftar. Maður verður að losna við samviskubitið. Og það tekur að því er virðist um fimm ár. 

 

Þessi réttur er, eins og ég hef þegar nefnt, alveg einstaklega ljúffengur - en hann er í raun einfaldur. Þarna skiptir máli að raða saman bragðgóðu hráefni á disk. Einfaldara verður það ekki. Þessi réttur á sér skemmtilega sögu, en hann varð til á átjándu öld og var útbúinn af frægum frönskum kokki - Marie-Antone Carême - sem lagði mikið til franskrar matargerðar og varð kannski fyrstur til að skrá uppskriftir af móðursósunum. Þá eldaði hann þennan rétt sérstaklega fyrir tónskáldið Giachino Rossini sem var mikill matarunnandi, kannski eins og vaxtarlag hans gaf til kynna. Eins og ég nefndi í fyrri færslu þá er til þekkt tilvitnun í Rossini þar sem hann segir „Að borða, elska, syngja og melta; í sannleika sagt eru þessir fjórir hlutar „opera buffé” það sem við köllum lífið, og er hverfult eins og kolsýra í kampavíni.“

 

Ég get vel tekið undir hvert orð! 

 

Gestirnir voru ekki af verri endanum - allt fólkið sem fór með til Ítalíu fyrir ári og hjálpaði við gerð þáttarins, Læknirinn á Ítalíu, var í heimsókn og því lagði ég áherslu á að gera sérstaklega vel!

 

Tournedos Rossini heimsótt aftur með pommes fondantes og marsalasósu

 

 

Hráefnalisti fyrir átta

 

Fyrir kjötið

 

1600 g nautalund

190 g gæsalifur (foie gras)

8 sneiðar hvítt brauð

200 g smjör

1 svört truffla

salt og pipar

 

Fyrir sósuna

 

Mirepoix - sellerí, gulrætur, laukur

lárviðarlauf

4-5 greinar af fersku íslensku timjan

1 msk smjör

250 ml Marsala

500 ml kröftugt kjötsoð

1 msk smjör

brún smjörbolla – 60 g smjör/60 g hveiti

100 ml rjómi

 

Fyrir kartöflurnar

 

1 kg 

100 g smjör

350 ml kjúklingasoð

nokkrar greinar af íslensku timjan

 

 

Byrjið á því að undirbúa mirepoix - sem er blanda af 2 sellerístöngum, 2 gulrótum og 3-4 skalottulaukum. Steikið í bráðnu smjör og saltið og piprið. 

 

 

Þegar grænmetið er orðið mjúkt og rétt áður en það fer að taka á sig lit bætið þið víninu á pönnuna. Sjóðið vínið og síðan niður um helming. 

 

 

Setjið kjötsoð, lárviðarlauf og ferskt timjan saman við og látið krauma og sjóða niður um helming. Bætið svo rjómanum á pönnuna. Þykkið sósuna með smjörbollu eða sósuþykkjara.

 

 

Ég fór í Kjöthöllina og keypti íslenska nautalund. Ég gat fengið þau til að selja mér bara miðjuhlutann, chateaubriand, sem almennt er talinn vera besti bitinn af lundinni. Samkvæmt uppskriftinni á maður að binda þráð um miðja lundina til að hún eldist jafnt. Ég hlýddi og batt upp kjötið.

 

 

Svo var ekkert annað að gera en að brúna kjötið að utan og setja það svo í ofn þangað til að það náði 52 gráðu kjarnhita. Láta svo standa í um 15 mínútur áður en það er sett á disk og borið fram, sjá neðar. 

 

 

Pommes fondantes er skemmtilegur kartöfluréttur. Ég flysjaði kartöflurnar vandlega og skar svo af þeim þannig að ég fékk fallegan flöt á þær. Hugmyndin er að þær brúnist betur þannig, eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

 

 

Þegar þær voru fallegar að utan var kjúklingasoði bætt á pönnuna - það soðið upp og kartöflunar svo settar í ofn í um þrjú kortér. Kjúklingasoðið sýður næstum alveg niður og sogast inn í kartöflurnar sem verða einstaklega mjúkar og ljúffengar. 

 

 

Kartöflunum var svo raðað upp á disk og skreyttar með fersku timjan. 

 

 

Við buðum upp á vínin sem höfðu leikið stórt hlutverk í þáttunum fyrir ári síðan. Masi Campofiorin 2014 - hefur verið framleitt í 50 ár og verið sölunæsta vín þeirra liðna áratugi. Þetta er einstaklega ljúffengt vín - kraftmikið og framleitt með apassimento aðferðinni. Þá buðum við einnig upp á Vino Musica sem Mario Piccini færði okkur að skilnaði. Þetta vín er einstaklega ljúffengt og er afurð föður hans, Perangelio, sem var mjög innblásin af listaverkum Guiseppe Chiari og fékk hann með sér í að þróa þetta vín. Hann á heiðurinn af þeim myndum sem skreyta miðann á flöskunni. Við fengum vín frá 2012 og svo eina flösku frá 1995. Það var sérstaklega gaman að bera þessi vín saman og einkar áhugavert að sjá hvað gerist þegar vín fær að þroskast í flösku í svo langan tíma.   PieraPngioloPer

 

 

Læknirinn, einbeittur að klára Tornados Rossini. 

 

 

Ég var með heila krukku af andalifur sem ég skar í þunnar sneiðar.

 

 

Ég hafði einnig keypt svarta truflu sem ég reyndi að skera eins þunnt og ég gat. Við höfðum einmitt fengið svarta truflu gefins frá Mario Piccini og eiginkonu hans þegar við yfirgáfum Valiano vínekruna sem einnig er í þeirra eigu. 

 

 

Fois gras, andalifrin var steikt örsnöggt á heitri pönnu. Maður þarf að hafa hraðar hendur annars er hætt við því að hún bráðni alveg.

 

 

Svo er bara að raða réttinum upp. Fyrst hvítlaukssmjörsteikt hvítt brauð, svo er lundinni tyllt ofan á, þá andalifur og nokkrar sneiðar af svartri truflu. Diskurinn er svo þakinn með Marsala sósu. 

 

Þó að hefðin segi að maður eigi að bera þennan rétt fram með Madeira sósu þá var Marsala vínið ekkert síðra. 

 

Þetta var einkar vel heppnuð veisla. Sama fólk er á leið til Spánar í haust og ég er þegar farinn að hlakka til uppskeruhátíðarinnar en lofa að láta fólk ekki bíða í meira en ár eftir veislunni. 

 

Bon appetit! 


Ljúffengt lambaprime á beði af flauelsmjúku byggotto og parmaosti

 

Við áttum eiginlega draumkennda daga liðna helgi þegar við vorum við tökur á þriðja og fjórða þætti af Læknirinn í Eldhúsinu - Lambið og miðin. Við vorum að þessu sinni staddir á Snæfellsnesi og tókum upp við Stykkishólm, Hellnar, á Búðum, undir rótum Kirkjufells og í hinni dásamlegu Flatey.

 

 

Við dvöldum þrjár nætur í Stykkishólmi í boði Grétu Sigurðardóttur sem á nokkra gististaði, m.a. Hótel Egilsen og Bænir og Brauð. Þessi frábæra kona kann að meta Hólminn og allt svæðið um kring og deildi með okkur ástríðu sinni fyrir matarmenningu svæðisins. Það var virkilega ánægjulegt að dvelja hjá henni og spjalla við hana um daginn og veginn. Það er eiginlega ekki hægt að hugsa sér betri gestgjafa en þessa ljúfu heiðurskonu. Á myndinni er líka dásamlegur maður - Kristján Kristjánsson - leikstjóri og meðframleiðandi minn að þáttaröðinni okkar Lambið og miðin.

 

Þrátt fyrir að mikið hafi verið unnið um helgina þá komum við allir heim fullir af innblæstri sem sást vel á sameiginlegum þræði okkar félaga; Kidda, Elvars, Árna, Kjartans og mín - þar sem við höfum verið að deila uppskriftum vikunnar.

 

Hér kemur mitt innlegg í þá umræðu!

 

Ljúffengt lambaprime á beði af flauelsmjúku byggotto og parmaosti

 

Og þetta er meira að segja fljótleg uppskrift - ætti ekki að taka mikið meira en hálfa klukkustund frá upphafi til enda.

 

400 g lambaprime

blóðbergssalt

pipar

2 msk jómfrúarolía

1 msk fersk kryddblanda frá Grétu (fjalldrapi, blóðberg, bláberjalyng)

 

250 g bygg

2 öskjur (300 g) af íslenskum kastaníusveppum

100 g smjör

1/2 rauðlaukur

3 hvítlauksrif

1 lambateningur

salt og pipar

250 rjómi

100 ml vatn

1 rjómaostur með kryddblöndu

ferskar íslenskar kryddjurtir - steinselja og timían - og smá viðbót til skrauts

parmaostur

góð jómfrúarolía

 

 

Ég átti nokkra sveppi afgangs frá því að við vorum í tökum um helgina. Og það er engin ástæða til að láta þá fara til spillis. Skar niður sveppina heldur gróflega ásamt rauðlauknum.

 

 

Steikti svo sveppina og laukinn upp úr helmingum af smjörinu. Saltaði og pipraði.

 

 

Skar svo hvítlaukinn niður og steikti svo með sveppunum og lauknum. Það er ágætt að bíða aðeins með hvítlaukinn - þar sem hann má ekki brenna. Þá verður hann bitur og leiðinlegur.

 

 

Steikið sveppina þangað til að þeir hafa tekið á sig fallegan karmelliseraðan lit.

 

 

Svo er bara að hita vatn í potti, salta það ríkulega og sjóða byggið í 15 mínútur. 

 

 

Þegar byggið var farið að sjóða setti ég einn tening af lambakrafti saman við. Bara til að fá aukið bragð af korninu. 

 

 

Þegar byggið var soðið - en aðeins undir tönn, "al dente", þá bætti ég því á pönnuna með sveppunum og blandaði vel saman. Skar niður steinselju og timían og hrærði saman við.

 

 

Hellti svo rjómanum saman við og sauð upp. Bætti einnig vatni á pönnuna. 

 

 

Þegar rjóminn var farinn að krauma setti ég rjómaostinn saman við. 

 

 

Tók svo kryddjurtirnar frá Grétu og hakkaði niður vandlega.

 

 

Nuddaði lambið upp úr olíu, saltaði og pipraði og sáldraði svo kryddinu frá Grétu yfir.

 

 

Brúnaði lambið að utan á blússheitu grilli.

 

 

Skellti því svo inn í heitan ofn með hitamæli og tók út þegar það náði 52 gráðum í kjarnhita. Hvíldi í nokkrar mínútur áður en ég skar það í sneiðar.

 

 

Lagði byggotto á disk, raspaði parmaost yfir, smá jómfrúarolíu og skreytti með fersku timían.

 

 

Þetta vín hefur komið fyrir nokkrum sinnum á síðunni minni á síðustu mánuðum, sem er ekki skrítið þar sem það er í sérstöku uppáhaldi hjá mér.  Þetta vín smakkaði ég í fyrsta sinn á Ítalíu þegar ég var í heimsókn hjá Masi fyrir tæpu ári síðan. Ég var svo hrifinn af því að ég óskaði eftir því að það yrði flutt inn til landsins og selt í ríkinu. Þetta vín fær sannarlega mín meðmæli enda er það einstaklega kraftmikið og bragðgott vín sem á rætur að rekja til Argentínu. Það er framleitt með því að blanda saman víni gerðu úr ítölsku þrúgunni Corvina sem er ræktuð í Argentínu og svo Malbec sem er uppistöðuþrúga í Argentínskum vínum. Þetta er vín sem ég er sannfærður að þið mynduð njóta.

 

 

Þetta var einstaklega vel heppnuð og ljúffeng máltíð. Ég hvet ykkur eindregið til að prófa enda íslensk hráefni í aðalhlutverki. 

 

-------

 

 

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

 

Rigningardagar í Reykjavík: Lambapasta með rjómaosti, spergilkáli og ristuðum valhnetum

 

Það er varla hægt að segja að við njótum veðurblíðunnar á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir. Það hreinlega hellist úr himnunum yfir okkur. Og það er merkilegt hvernig líðan manns breytist með veðurfarinu. Þá er ekki vitlaust að gleðja sálartetrið - svona á meðan að maður bíður eftir heitum geislum sólar.

 

Við brugðum okkur í sveitina í gær og það sást aðeins í bláan himinn í Kjósinni í gærkvöldi og í morgun fengum við að sjá til sólar - þó ekki nema í augnablik. Mikið gladdi það manns heimska hjarta. Við ókum í höfuðborgina og tókum til hendinni í garðinum. Nóg vinna er fyrir hendi - garðurinn þarf meiri athygli en við höfum veitt honum og svo þurfum við að klæða pottinn sem hefur verið í smíðum síðan í fyrrasumar. Ef maður væri bara álíka handlaginn í garðverkunum og ég held að ég sé í eldhúsinu væri þetta nú löngu búið.

 

Þessa uppskrift hef ég eldað nokkrum sinnum áður. Afbrigði af henni hef ég meira að segja birt í fyrstu bókinni minni, Tíma til að njóta - en þá notaði ég fetaost - sem ég sleppi núna.

 

Rigningardagar í Reykjavík: Lambapasta með rjómaosti, spergilkáli og ristuðum valhnetum

 

Hráefnalisti, fyrir fimm

 

400 g lambalærissneiðar

250 g íslenskir Flúðasveppir

250 g spergilkál

einn rauðlaukur

4 hvítlauksrif

nokkrar greinar timjan

1 msk fersk bergmynta (oreganó)

1 lambateningur

250 ml vatn

1 glas gott rauðvín

250 ml rjómi

4 msk rjómaostur

handfylli valhnetur

parmaostur að vild - helst mikið af honum

50 g smjör

2-3 msk jómfrúarolía

Salt og pipar

 

400 g ferskt pasta

3 msk jómfrúarolía

salt

 

 

Byrjið á því að skera sveppina, laukinn og hvítlaukinn og mýkið á heitri pönnu í bráðnu smjöri. Saltið og piprið og blandið timjan og bergmyntu saman við. Steikið þangað til að eldhúsið ilmar dásamlega. 

 

 

Skerið lærissneiðarnar í litla bita og brúnið á pönnunni. Setjið sveppina og laukinn til hliðar - ekki er óvitlaust að láta þá steikjast áfram á pönnunni á meðan þið brúnið kjötið. Gætið þess að setja ekki of mikið af kjöti í einu - annars er hætta á því að þið sjóðið kjötið frekar en að steikja það.

 

 

Setjið svo sem nemur einu vínglasi af ljúffengu víni á pönnuna. Sjóðið það upp og látið það svo sjóða niður um helming áður en vatninu og lambateningnum er bætt saman við. Sjóðið upp og sjóðið niður um helming. 

 

 

Þá er komið að því að þykkja sósuna. Það er auðvelt með nokkrum matskeiðum af rjómaosti. 

 

 

Og svo rjóma auðvitað. Sjóðið hann einnig upp og síðan niður þangað til að sósan verði þykk og girnileg. 

 

Ekki gleyma að salta og pipra - og smakka sósuna til. 

 

 

Ristið hneturnar á þurri pönnu og saxið svo gróflega niður.

 

 

Sjóðið pasta í miklu af vel söltu vatni. Ég notaði ferskt pasta.

 

 

Ég sauð pastað þangað til að það var "al dente" eða aðeins undir tönn og bætti því svo á pönnuna og hrærði það varlega saman við svo að það væri allt vel hjúpað sósunni. Skreytti með steinselju. Ferskt basil hefði líka verið dásamlegt.

 

 

Raspaði svo ríkulegt magn af parmaosti yfir áður en rétturinn var borinn fram þannig að osturinn náði að bráðna ofan í pastað.

 

 

Með matnum drukkum við sama vín og notað var í réttinn. Það var nú skynsamlegt að mínu mati þar sem búið var að opna flöskuna og svo er ekki verra að vínið sé ljúffengt. Það er góð regla að nota góð vín í matinn. Það er alger mýta að nota megi skemmd vín í mat. Þetta vín er einvörðungu gert úr nebbliolo þrúgum.Vínið er rústrautt í glasi. Ilmar af volgum kirsuberjum, ljúffengri karamellu og er með seiðandi bragð á tungu. Það er ekki verra að leyfa þessu víni að anda á meðan maður eldar máltíðina. Þetta vín er með ljómandi ljúft eftirbragð og féll afar vel að matnum.

 

 

Hvað sem öllu líður var þetta réttur sem allir í fjölskyldunni gátu snætt með bestu lyst. Ekki skrítið þar sem hráefnin voru öll eins og best verður á kosið. 

 

Verði ykkur að góðu! 

 

Marineraðar lambakótilettur með mangó, chili og tómatsalsa, ostafylltum papríkum, gúrkum í majó og vel laukuðu kartöflusalati

Þennan rétt gerði ég í byrjun síðustu viku fyrir grillblað Morgunblaðsins sem kom út nú um helgina. Ég var fullur af innblæstri eftir ferðalag helgarinnar en við höfðum verið við tökur á þættinum mínum, Lambið og miðin, á Mývatni og í Húsavík. Ferðalaginu er þó langt frá því lokið. Við eigum ennþá eftir að taka upp á Snæfellsnesinu, Vík, Höfn og í Vestmannaeyjum. Mikið hlakka ég til - það er svo gaman að elda góðan mat, umlukin góðu fólki og ótrúlegri náttúru.

 

Alltént er innleggið hér sem ég sendi í Grillblaðið. Það er vel þess virði að næla sér í eintak - auk mín voru margir með skemmtilegar og spennandi uppskriftir.

 

----

 

Loksins erum við Reykvíkingar farnir að sjá einhver teikn um að sumarið sé á næsta leiti. Sólin hefur aðeins gægst út í gegnum skýjahnoðrana og regninu hefur eitthvað slotað. Það er fátt sem gleður meira en von um góðviðri þannig að hægt sé að kynda undir grillinu með sólarglætu í hjarta.

 

Þessi uppskrift tyllir því besta úr íslenskri náttúru upp á ljúfan stall þar sem lambið og grænmetið fá sérstaklega að njóta sín.

 

Bon appetit!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Marineraðar lambakótilettur með mangó, chili og tómatsalsa, ostafylltum papríkum, gúrkum í majó og vellaukuðu kartöflusalati 

 

Hráefnalisti

 

Marineraðar lambakótilettur

 

2 hryggir skornir í 1,5 cm þunnar sneiðar

4 msk jómfrúarolía

safi úr einu lime

börkur af einu lime

3 hvítlauksrif

½ rauður chilipipar

1 tsk hlynsíróp

salt og pipar

 

Vel laukað kartöflusalat

 

1 kg smælki með hýðinu

1 rauðlaukur

búnt af vorlauk

4 skalottulaukar

4 msk smátt skorinn graslaukur

4 msk smátt skorin steinselja

3 hvítlauksrif

3 msk majónes

2 msk grísk jógúrt

2 tsk hlynsíróp

2 tsk hvítvínsedik

salt og pipar

 

Mangósalsa

 

1 mangó

4 kjarnhreinsaðir tómatar

1 rauður chilipipar

2 msk hökkuð fersk mynta

4 msk jómfrúarolía

2 tsk hlynsíróp

salt og pipar

 

Fylltar papríkur

 

5 rauðar íslenskar papríkur

400 g rjómaostur til matargerðar

einn castello-ostur með chilibragði

4 hvítlauksrif

1 msk hökkuð fersk steinselja

1 msk hökkuð fersk basil

salt og pipar

 

Agúrkusalat frá Hveravöllum

 

1 kjarnhreinsuð agúrka

1 tsk sykur

2 msk majónes

1 tsk hökkuð ferks steinselja

safi úr hálfu lime

salt og pipar

 

 

 

Ég átti talsvert af grænmeti eftir að loknum tökum sem ekki var hægt að láta það fara til spillis.

 

 

Ég lét eina öskju af rjómaosti ná herbergishita, færði hann yfir í skál og hrærði upp til að mýkja hann enn frekar.

 

 

Kastaði mæðinni með því að deila fordrykk með gestunum okkar. Ég skenkti í glös Masi - Rosa dei Masi. Eftir að hafa heimsótt þennan vínframleiðanda hefur hrifning mín á þessu víni aukist umtalsvert. Þetta er ljúft ávaxtaríkt vín sem gott er að drekka þegar sést til sólar. 

 

 

Skar papríkurnar í helminga og kjarnhreinsaði. Saxaði kryddjurtirnar og hvítlaukinn smátt og blandaði saman við rjómaostinn ásamt salti og pipar.

 

 

Ostablöndunni tróð ég svo í papríkurnar og lagði væna sneið af castello chiliosti ofan á.

 

 

Blússhitaði grillið og bakaði papríkurnar í um 20-25 mínútur. 

 

 

Mangósalsað var nauðaeinfalt. Skar einfaldlega mangó, tómata, chili og myntu niður og blandaði saman og lagði í skál. Bragðbætti síðan með jómfrúarolíu, hlynsírópi og salti og pipar.

 

 

Gúrkusalatið var einnig fljótlegt og einfalt. Ég fékk hugmynd að þessari uppskrift frá Páli og Heiðbjörtu á Hveravöllum. Kjarnhreinsaði eina agúrku og skar í litla bita. Bætti majónesi saman við ásamt sykri, smátt skorinni steinselju, limesafa og saltaði og pipraði.

 

 

Bróðir minn tók að sér að gera salatið. Smælkið var soðið í söltuðu vatni, vatninu hellt frá og þær látnar kólna í 30 mínútur. Á meðan skar hann niður alla laukana og blandaði þeim svo saman við kartöflurnar ásamt kryddjurtunum. Að lokum hrærði hann í sósuna og blandaði henni svo saman við kartöflurnar og laukinn. Smakkað til með salti og pipar.

 

 

Auðvitað marineraði ég lambakótiletturnar. Þær hafði Bjössi í Kjöthöllinni snyrt fyrir mig með stuttum fyrirvara. Ég notaði góða jómfrúarolíu, safa úr einni límónu og svo börkinn af henni, hökkuð hvítlauksrif, chili, hlynsíróp og svo salt og pipar. Þetta fékk að standa í tvær til þrjár klukkustundir áður en þær fóru á grillið.

 

 

Ég er að prófa nýtt grill - Weberinn minn lifði ekki veturinn af - það kútveltist í einhverjum storminum og vildi ekki fara í gang. Ég fékk að prófa Napóleon grill frá Byko (var einnig að grilla þar um helgina) og það kom mér á óvart hversu hratt það náði háum hita. Hlakka til að leika mér með það í sumar. 

 

 

Lambið þurfti ekki nema nokkrar mínútur á hvorri hlið.

 

 

Papríkurnar ilmuðu dásamlega þegar þær voru bornar fram.

 

 

Með matnum drukkum við Masi Tupungato Corbec frá 2015. Þetta er blanda af Corvina og svo Malbec. Corvina þrúgan rekur uppruna sinn til Valpolicella en er ræktað í Argentínu sem er síðan blandað við Malbec (sem er undirstaðan í Argentískri víngerð). Ég tel mig bera ábyrgð á því að þetta vín er nú fáanlegt á Íslandi þar sem ég hvatti Ölgerðina eindregið til að flytja það inn þegar við vorum á ferðalagi á Ítalíu síðastliðið vor. Þetta er dúndur vín!

 

 

Þetta var dásamleg máltíð. Hvet ykkur til að prófa - hvað er betra en íslenskt lambakjöt og íslenskt grænmeti.

 

Verði ykkur að góðu!

 

 

 


Fjölbreyttar og ljúffengar nautasteikur með sveppuðustu sveppasósu allra tíma með vel-ostuðu sætkartöflugratíni

 

Við erum farnir að vinna í nýrri sjónvarpsseríu sem sýnd verður eftir áramót á Sjónvarpi Símans. Fyrsta tökuhelgin var nú um liðna helgi þar sem við brugðum okkur til Mývatns og Húsavíkur. Veðurguðirnir léku við okkur með sól og blíðu, og stillu þegar ekki skein sól.

 

Og þetta var ekkert lítið skemmtilegt. Þetta var eiginlega ólýsanlegt - allt sem við sáum, gerðum og elduðum. Það er svo gaman að kynnast fólki við þessar aðstæður. Allir eru að sýna sínar bestu hliðar. Svo var heldur ekki leiðinlegt að vinna með svo frábærri áhöfn- Kiddi að leikstýra og framleiða, Árni og Elvar á tökuvélum og með brósi mér við hlið. Þetta var ógleymanleg helgi og ég hlakka mikið til að sýna ykkur afraksturinn. En ferðalagið er rétt nýhafið - við eigum eftir að ferðast víðar um landið.

 

Það er líka gott að þegar mikið er að gera að eiga gott athvarf - þar sem er hægt að slaka vel og rækilega á. Þá er best að heimsækja foreldra mína í Lækjarkoti í Kjósinni.

 

Fjölbreyttar og ljúffengar nautasteikur með sveppuðustu sveppasósu allra tíma með vel-ostuðu sætkartöflugratíni

 

Það er ánægjulegt að kynnast framleiðsluaðilum hér í landi. Metnaðurinn er mikill og afraksturinn er orðinn svo góður. Við Íslendingar megum vera stolt af þeirri matvöru sem framleidd er hérlendis.

 

 

Við ákváðum að vera aukanótt í bústaðnum og vorum ekki með nægan mat - en það vandamál var auðleyst. Við brunuðum að Sogni í Kjós og sóttum þessar nautasteikur. Ég keypti bæði rifjasteik, framhryggjarbita og svo entrecote.

 

Hráefnalisti

 

1,5 kg af blönduðum steikum

jómfrúarolía

salt og pipar

 

Fyrir sveppasósuna

 

250 g sveppir

handfylli þurrkaðir sveppir (týndir í haust í Kjósinni)

villisveppaostur

1 laukur

4 hvítlauksrif

500 ml nautasoð

250 ml rjómi

smjör til steikingar

salt og pipar

 

Fyrir sætkartöflurösti

 

stór sætkartafla

200 g cheddarostur

1/2 laukur

salt og pipar

 

 

Eldamennskan var ekki flókin. Byrjaði bara á því að skella sous vide tækinu í gang. Lét það rúlla við um 56 gráður. 

 

 

 

Skellti steikunum beint í vatnsbaðið. Hefði alla jafn kryddað með pipar og svo einhverju kryddi við höndina en ég var ekki með poka til að endurinnsigla kjötið. Með þessari aðferð fær kjötið að njóta sín. 

 

Þetta eru þunnar steikur - þurftu ekki nema um klukkustund - framhryggjarbitinn fékk þó að vera lengst - um 90 mínútur. Það er aðeins seigari biti en hinir og þarf aðeins lengri tíma til að brotna niður og meyrna og þarf því lengri eldunartíma. 

 

 

Á meðan var hægt að huga að meðlætinu. Skar niður laukinn, hvítlaukinn og sveppina og karmelliseraði við meðalhita þangað til að þeir tóku fallegan lit.

 

 

Vakti þurrkuðu sveppina í heitu vatni. Við það þenjast þeir út aftur. Skellti þeim svo saman við sósuna ásamt vökvanum af sveppunum.

 

Bætti svo nautasoði saman við og sauð niður um tæpan helming.

 

 

Skar svo niður einn sveppaost og bætti við sósuna. Og svo rjómann. Smakkaði til með salti og pipar. 

 

 

Þetta endaði sem ein bragðmesta sveppasósa sem ég hef gert - sveppabragðið var kyngimagnað. 

 

 

Svo að röstikartöflunum. Ég skar utan af kartöflunni og brytjaði niður í matvinnsluvél.

 

 

Saltaði svo og lagði í viskastykki sem ég hengdi í kranann á vaskinum. Kreisti svo vökvann úr kartöflunum. 

 

 

Raspaði svo niður helling af cheddarosti og skar niður laukinn.

 

 

Blandaði svo öllu saman og setti í eldfast mót sem ég lokaði með álpappír og bakaði í 180 gráðu heitum forhituðum ofni í um klukkustund. Tók álpappírinn af síðastu fimmtán mínúturnar svo að röstikartöflurnar fengu almennilegan lit. 

 

 

Svo var bara að klára steikurnar á grillinu. Penslaði þær með jómfrúarolíu, saltaði og pipraði og svo örskamma stund á hvorri hlið til að fá fallegar rendur í kjötið - og aukið bragð auðvitað.

 

 

Girnilegt, ekki satt?

 

 

Kjötið var fullkomlega eldað. Lungnamjúkt í miðjunni með brúnuðum hjúp. 

 

 

Við nutum Brunello Di Montalcino frá Villa Cortile Riserva frá því 2012. Brunello er einn af risum ítalskrar víngerðar og ég fengið að vera þeirrar ánægju aðnjótandi að heimsækja þennan vínframleiðenda (hægt er að sjá þættina Læknirinn á Ítalíu þar sem greint er frá þeirri heimsókn). Ég hef smakkað þetta vín nánast frá þrúgu þangað til að það kemur á flösku. Og það er magnað hvað það tekur miklum breytingum á þroskatíma sínum á tunnum og síðan flöskum. Samkvæmt Vivino er þetta vín meðal 5% af bestu vínum sem framleidd eru í heiminum í dag og fær fjóra af fimm í einkunn. Þetta vín nýtur þess að vera umhellt í karöflu í að minnsta kosti klukkustund áður en þess er neytt en það dregur fram margslungið bragðið ennþá betur - mikinn ávöxt, jarðartóna - með ljúfu og löngu eftirbragði. 

 

 

Þetta var alveg dásamleg máltíð!

 

Verði ykkur að góðu!


Steiktur saltfiskur frá miðjarðarhafinu með ljúffengum steinseljukartöflum

 

Saltfiskur  er sérlega góður matur og hefur fylgt okkur Íslendingum um langt skeið. Þetta var okkar helsta útflutningsvara um langt árabil og hann er vel þekktur í viðskiptalöndum okkar syðst í Evrópu. Ég hef smakkað íslenskan saltfisk bæði á Spáni og á Portúgal eldaðan bæði í tómatsósu og svo hálfdjúpsteiktan í jómfrúarolíu.

 

Ég var svo heppinn að fá að skreppa til Spánar í stuttan heimsókn í byrjun vikunnar þar sem mér bauðst að heimsækja víngerðina Ramón Bilbao, sem er í Rioja héraði, í um klukkustundar fjarlægð frá Bilbao - höfuðborg Baskalands.

 

Við fengum höfðinglegar móttökur, hef greint aðeins frá því á Facebooksíðu minni - hérna. Mun segja betur frá þessari heimsókn fljótlega á blogginu.

 

Eins og nefnt var hérna að ofan þá hefur saltfiskur verið mikilvæg útflutningsvara og lengi vel áttum Íslendingar í vöruskiptasamningum við Spán og Portugúl og við fengum vín af þeim gegn því að þeir keyptu fiskinn okkar. Það er því ekki skrítið að vín frá t.d. Rioja hafa fylgt okkur lengi við góðan orðstír.

 

Steiktur saltfiskur frá miðjarðarhafinu með ljúffengum steinseljukartöflum


Þetta var einkar ljúffengur réttur - og einstaklega fljótlegur. Ég sótti fiskinn til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum.

 

Fyrir fjóra

 

1 kg saltfiskur

2-3 msk hveiti

1 msk paprikuduft

1 tsk hvítlauksduft

pipar

150 ml góð jómfrúarolía

1 dós íslenskir sólskinstómatar

1 msk kapers

15 kalamataólívur

8-10 hvítlauksrif

pipar

 

kartöflur

75 g smjör

fersk steinselja

salt og pipar

 

fallegt salat

 

 

Blandaði hveitinu saman við papríkuduftið, hvítlauksduftið og veltið svo saltfiskbitunum vandlega upp úr hveitinu.

 

 

Hitaði olíuna á pönnu og steikti fiskinn fyrst með roðið niður.

 

 

Skar niður eina dós af íslenskum sólskinstómötum sem eru einstaklega ljúffengir. Það mætti að sjálfsögðu líka nota piccolotómata frá Friðheimum en þeir voru ekki til útí Krónunni. Þessir tómatar eru einstaklega bragðgóðir og aðeins sætir.

 

 

Tók pappírinn utan af hvítlauknum. Skolaði saltpækilinn af ólívunum og kapersnum.

 

 

Setti svo tómatana, ólívurnar, hvítlaukinn og kapersins með fisknium.

 

 

Sneri svo fiskinum og steikti aðeins áfram í tvær til þrjár mínútur.

 

 

Lagði svo allt hráefnið í eldfast mót og setti í 120 gráðu heitan ofn í nokkrar mínútur á meðan ég kláraði kartöflurnar.

 

 

Sauð kartöflurnar eins og lög gera ráð fyrir. Velti þeim upp úr bráðnu smjöri, steinselju og saltaði svo með sjávarsalti.

 

 

Mér fannst fiskurinn líta afar girnilega út.

 

 

 

Þetta vín hefði passað fullkomlega með - en ég prófaði það nokkrum sinnum nú í vikunni sem er að líða úti á Spáni. Það er framleitt í Gaulverjalandi við strendur Atlantshafins og er gert úr Albariño þrúgunni. Þetta er einstaklega frísklegt hvítvín með ljúfum epla- og perutónum og mjúku eftirbragði.

 

 

Þetta reyndist einstaklega ljúffengur kvöldverður. 

 

Hvet ykkur til að prófa. 


Lækjarkot - Snöggeldaðar núðlur með grilluðum lambaprimerib og soðnum eggjum

 

Vinnuhelgi að baki. Þó að oftast sé kraðak á spítalanum er samt alltaf gaman að mæta í vinnuna. Það er gott að vinna með góðu fólki, hvort sem um ræðir sjúkraþjálfara, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga eða lækna. Eins og oft áður er mikið að gera - en loksins er flensutímabilinu að ljúka - þetta er líklega eitt af lengstu flensutímabilum sem við höfum glímt við og það virtist enga enda taka. Svona tímabil reyna auðvitað mikið á starfsfólkið. 

 

Eftir langa vinnuhelgi er líka gott að eiga athvarf úti á landi. Við hjónin búum svo vel að foreldrar mínir hafa búið sér til dásamlegt athvarf í Kjósinni, spölkorn frá Reykjavík, þannig að ekki tekur nema tæp þrjú kortér að aka þangað. Að eiga slíkt athvarf er munaður. Og það er dásamlegt að vera alltaf velkomin í kotið. 

 

Þar sem við komum seint á vettvang var sniðugt að elda eitthvað fljótlegt. Og þessi réttur var kjörinn. Ég stoppaði í stórmarkaði á leiðinni úr bænum og sótti það sem vantaði. 

 

Lækjarkot - Snöggeldaðar núðlur með grilluðum lambaprimerib og soðnum eggjum

 

Fyrir sex

 

600 g lambaprime

4 msk jómfrúarolía

4 msk soyasósa

5 cm engifer

4 hvítlauksrif

1 rauður chili

1 sítrónugras

2 msk thaí-chilisósa

4 vorlaukstoppar

2 msk hökkuð steinselja

salt og pipar

 

200 g kastaníusveppir

1 gul papríka

2 rauðar snakk papríkur

4 vorlaukar

1 box mungbaunir

1 púrrlaukur

1 rauðlaukur

1 pakki heilhveiti núðlur (soðnar í kjúklingasoði)

4 egg

4 msk soyasósa

3 hvítlauksrif

2 cm engifer

1 rauður chili

2 msk thaí-chillisósa

smávegis af lambamarineringunni

salt og pipar

 

 

Lambaprimerifjasteik er að ég held vanmetin kjötbiti. Hún hentar bæði í snögga eldun eins og lundir og lambarifjur sem og langa eldun þar sem fitan nær að bráðna. 

 

Það þarf þó að eiga aðeins við bitann til þess að hann henti vel fyrir snögga eldun eins og þessa. 

 

 

Ég byrjaði á því að "butterfly-a" kjötið". Það gerir maður með því að skera í jaðarinn og fletja það svo út og halda áfram þannig að maður er kominn með jafnþykkan bita. 

 

 

Ég endurtók leikinn með alla þrjá bitana þangað til að ég var kominn með jafnþunnar sneiðar. 

 

 

Svo útbjó ég marineringuna; blandaði jómfrúarolíunni, soyasósunni, hvítlauk, chili og engifer saman. Salt og pipar.

 

 

Lagði svo kjötið saman við og sá til þess að bitanir væru vel hjúpaðir. Skreytti með smátt skornum vorlauksprotum og lét standa til að marinerast í rúma klukkustund á meðan ég skellti mér í pottinn.

 

 

Svo skar ég niður rauðlauk og púrru og steikti í jómfrúarolíu þangað til að það var mjúkt á heitri wok pönnu.

 

 

Skar svo niður afganginn af grænmetinu og kryddinu og blandaði saman við og steikti í um kortér þangað til það var mjúkt, ilmandi og eldað í gegn.

 

 

Sauð svo núðlurnar eins og lög gera ráð fyrir í fjórar mínútur í kjúklingasoði þangað til að þær voru eldaðar í gegn. 

 

 

Þegar núðlurnar voru tilbúnar blandaði ég þeim saman við grænmetið og lét standa á meðan ég grillaði kjötið. 

 

Sauð fjögur egg í söltuðu vatni á meðan ég stóð við grillið.

 

 

 

Það þarf ekki að hafa mörg orð um hvernig á að grilla lambaprimerifjasteik. 

 

 

Ég penslaði kjötið reglulega og snéri því einnig á fimmtán sekúnda fresti þannig að það brinni ekki. Það var talsvert af olíu í marineringunni þannig að logarnir gusu reglulega upp á grillinu. En það skiptir ekki máli hafi maður snöggar hendur í snúningum. 

 

 

Kjötið varð alltént gullfallegt. Gljáð að utan og lungamjúkt að innan.

 

 

Með matnum nutum við Barone Montalto Nero D'Avola Passivento frá 2015. Þetta er vín sem skorar hátt á Vivino þó það sé á talsvert hagstæðu verði. Það kostar undir 2500 kall í ÁTVR. Þetta er bragðmikið vín - sætur og kraftmikill ávöxtur, vanillu keimur og langt og mikið eftirbragð. Stóð sig vel með bragðmiklum matnum. 

 

 

Svo var bara að raða réttninum saman. Setti núðlurnar og grænmetið á stórt fat og lagði skornar lambaprimesteikurnar ofan á. Skreytti með eggjum (sem áttu auðvitað að vera soðinn aðeins minna en myndirnar gefa til kynna) og svo vorlaukssprotum og ferskum kóríander. 

 

Þetta var sannkölluð veisla!

 


Grilluð T-bein nautasteik með smjörsteiktum sveppum, ostafylltum snakkpapríkum, Västerbotten kartöflum og ljúffengu salati

 

Ég er nýkominn heim eftir frábæra ferð til Lundar. Eins og kom fram í síðustu færslu var ég á námskeiði í tengslum við doktorsnám mitt í gigtarlækningum. Loksins er ég kominn á skrið aftur - þetta er ferðalag sem ég hóf fyrir tæpum átta árum síðan og loksins er maður farinn að sjá í fjarska markmiðið - doktorsgráðuna. Sjáum hvað setur. Ferðalagið er alltént afar áhugavert. 

 

Það hefur þó margt hindrað leið mína að því að klára gráðuna. Ég tók fyrst hlé frá þessu námi þegar ég fór í langt stjórnunarnám - sem var áhugavert. Þá hafa bókaskrif og þáttagerð - sem Læknirinn í Eldhúsinu einnig tekið umtalsverðan tíma og sett strik í reikninginn - en ég sé ekki eftir neinu. Þetta hefur allt verið mjög gefandi og maður er alltaf að læra. 

 

Ég fékk að gista hjá Jóni Þorkatli og Álhildi og strákunum þeirra. Jón kláraði doktorsprófið sitt nú í janúar og það var óneitanlega mikill innblástur að sjá hann klára með glæsibrag. Frábært verkefni og frábær vörn. Við sem hlýddum á vorum sannarlega stolt af frammistöðu hans. Ég er fjölskyldunni einstaklega þakklátur fyrir að hafa tekið svona vel á móti mér. 

 

Þó að það sé gaman að fara á gagnleg námskeið - þá finnst mér erfitt að vera í heila viku að heiman. Og það var vissulega gott að koma heim. Og hvað er betra en að elda góðan mat fyrir fjölskylduna. 

 

Grilluð T-bein nautasteik með smjörsteiktum sveppum, ostafylltum snakkpapríkum, Västerbotten kartöflum og ljúffengu salati

 

Á leiðinni heim frá flugvellinum stoppuðum við og keyptum í matinn. Við komum við í Kjötkompaníinu og þar sá ég þessar gullfallegu T-bein nautasteikur. Þær eru sérstakar að því leyti að maður fær bæði hryggvöðva og nautalund - allt í sama bitanum. 

 

Fyrir fjóra til sex

 

Tvær stórar T bein nautasteikur

góð jómfrúarolía

salt og pipar 

 

fjórar snakkpapríkur

4 msk hvítlauksolía

1/2 brie ostur

handfylli af geitaosti

salt og pipar 

 

15 kartöflur

2 msk hvítlauksolía

50 g smjör

50 g Västerbottenostur (eða annar harður ostur, t.d. óðalsostur)

 

blönduð lauf

agúrka

piccolotómatar

bláber

gulrót

fetaostur

papríka

Frönsk dressing (olía, hvítlauksgeiri, dijon, sítrónusafi, balsamico, salt og pipar) 

 

 

Ég fann þessar fallegu snakkpapríkur. Skar þær í helminga og lagði í álbakka. 

 

 

Penslaði með hvítlauksolíu (heimagerðri að sjálfsögðu) og lagði svo ostinn í þær. Bakaði á grillinu við óbeinan hita í 30 mínútur. 

 

 

Skar niður eina öskju af sveppum (250 g) í um 50 g af smjöri með hálfum smátt skornum gulum lauk í um 30 mínútur þangað til að þeir voru fallega karmellisseraðir. 

 

 

Skar kartöflurnar niður í báta. Smurði eldfast mót með hvítlauksolíu og lagði kartölfurnar í fatið. Lagði svo smátt skorinn ost og smjörklípur ofan á. Bakaði í ofni við 180 gráður í um klukkustund (aðeins of mikið - þrjúkortér hefðu verið nóg). 

 

 

Útbjó salat eftir kúnstarinnar reglum. Dreifði salatdressingunni jafnt yfir.

 

 

Auðvitað verður maður að njóta góðs víns með matnum og undirbúningum. Ég hafði tekið með þessa flösku á leið minni í gegnum tollinn. Trivento Golden Reserve Malbec frá því 2015. Þetta er einstaklega gott vín - enda verðlaunað eins og sjá má á gullmerkjunum. Þetta er fallega purpurarautt vín í glasi. Á nefi og og tungu eru sultaðir dökkir ávextir með löngu og krydduðu eftirbragði. Ég er afar hrifinn af vínum frá Suður Ameríku. 

 

 

Svo var það kjötið. Þetta er lúxusbiti og þarf ást og kærleika kokksins. Ég skar í fituna til að auðvelda henni að eldast. 

 

 

Penslaði kjötið með góðri jómfrúarolíu - Olio Principe frá Sikiley sem ég hafði fengið gefins frá innflytjendanum nýlega. Mjög ljúf og ávaxtarík olía. Saltaði ríkulega og pipraði. 

 

 

Blússhitaði kolagrillið og lagði meira að segja einn viðarbita í annan endann til að tryggja háan hita. Grillaði kjötið í nokkrar mínútur á hvorri hlið. 

 

 

Reyndi að láta bitana standa upp á enda til að reyna að grilla merginn - kenningin er sú að hann þrýstist út í kjötið og gefi aukið umami bragð. Þetta er eitthvað sem ég lærði af ítölskum kokki, Antonio, þegar ég var á ferðalagi um Toskana síðastliðið vor. Hægt er að sjá meira um það ferðalag í Sjónvarpi Símans - á voddinu - Læknirinn á Ítalíu, seinni þáttur. 

 

 

Þegar kjarnhiti kjötsins var komið í rúmar 50 gráður kippti ég af grillinu og hvíldi í rúmar fimmtán mínútur. 

 

 

Kartöflurnar voru aðeins ofeldaðar - stökkar að utan eins og myndin gefur til kynna - en ennþá mjúkar að innan. 

 

 

Papríkurnar voru fullkomlega eldaðar þó að ég segi sjálfur frá. 

 

 

Ég vil hafa kjötið örlítið rautt að innan. Sumir vilja það meira eldað. Það er bara skera steikina í þunnar sneiðar og bjóða fólki það sem það vill. 

 

 

Svo er bara að hlaða á diskinn. 

 

Mikið er gott að vera kominn heim! 

 

Verði ykkur að góðu. 

 


Mögnuð svínasíðuflétta með puru með sírópsgljáðum eplum og karmelliseruðum fennel

Ég sit á Keflavíkurflugvelli og bíð eftir flugi til Kaupmannahafnar. Leið mín liggur eins og oft áður til Lundar þar sem ég er að fara að sitja námskeið sem er hluti af doktorsnámi mínu - Vísindaleg samskipti - heitir námskeiðið ef ég reyni að þýða heiti þess á íslensku. Þar á að kenna nemendum að leita að heimildum, skrifa vísindagreinar, taka við gagnrýni og svo framvegis. Þetta á án efa eftir að verða lærdómsríkt.

 

Ég á nokkra kúrsa eftir þannig að ég verð á faraldsfæti komandi misseri. Vonandi hefst þetta á endanum.

 

Ég fæ að gista hjá vinum okkar í Lundi. Að þessu sinni verð ég hjá Jóni og Álfu sem búa fyrir aftan húsið þar sem við áttum heima meðan við bjuggum í Annehem í Lundi. Það kom svo á daginn að ég hafði einnig tryggt mér gistingu hjá Jónasi og Hrund sem búa við hliðina - en ég hafði eitthvað ruglast í ríminu. Svona getur þetta farið þegar maður hefur margt á sinni könnu. En það hlýna nú hjartaræturnar að vera velkominn á nokkrum stöðum.

 

Mögnuð svínasíðuflétta með sírópsgljáðum eplum og karmelliseruðum fennel

 

Fyrir 8

 

Svínasíða (um 3,5-4 kg)

 

2 msk Edmont Fallot Djion sinnep

2 tsk hunang

1 tsk jómfrúarolía

salt og pipar

 

3 msk jómfrúarolía

1 msk salvía

nokkir fenneltoppar

safi úr hálfri sítrónu

3 msk hvítlauksolía

salt og pipar

 

2 fennel

6 epli

100 g smjör

2 msk síróp

salt og pipar

 

salat eftir smekk

 

 

Mér tókst að kaupa svínasíðu á laugardegi. Fór í Krónuna á Höfðanum - og þar var til óvenjulega mikið af svínasíðum sem ég lét skera niður eftir mínu höfði. 

 

 

Þegar heim var komið var síðan svo skoluð og þerruð og svo skar ég húðina af með beittum hníf og setti inn í ísskáp á disk til að þorna - þannig verður puran stökkari við eldun. 

 

Ég hef áður eldað puruna sér - en fyrir jólin prófaði ég að gera purusteik með sous vide aðferð - sjá hérna - en betri puru er varla hægt að ímynda sér. 

 

 

Svo var það verkefni að útbúa þessa fléttu. Ég fann mér góðar leiðbeiningar.

 

 

Endaði með því að skera niður í fjóra bita, og svo hvern bita niður í 3 strimla - hver um sig fastur á öðrum endanum. 

 

 

Svo var kjötinu bara fléttað saman. Lítur ansi sjarmerandi út. Og heldur sér mjög vel við eldun.

 

Þó að ég hafi eldað kjötið í ofni - þá hentar þetta líka einkar vel á grillið. Bitinn heldur sér alveg.

 

 

Til að tryggja að kjötið haldi sér - stakk ég grillspjóti í gegnum endann - sem ég annars hefði bara bundið með snæri, en það var búið. Spjótið dugði mjög vel.

 

 

Þetta sinnep er því miður illfáanlegt í verslunum í Reykjavík - en þetta er sinnep að mínu skapi. Rétt er að benda á það að sinnepið er fáanlegt í Ísbúðinni á Laugalæknum - sem er líka jafnframt besta pylsusala Reykjavíkur!

 

 

Ég blandaði sinnepinu, hunanginu og olíunni saman við og smurði ríkulega yfir tvær svínasíðufléttur. Saltaði og pipraði.

 

 

Hinar tvær flétturnar penslaði ég með hvítlauksolíu og saxaði síðan salvíu smátt og dreifði yfir. Salvía og svínakjöt finnst mér alltaf passa einstaklega vel saman.

 

 

Eins er það með fennel. Ég tók ofan af fennelnum og notaði toppana sem krydd ofan á svínaflétturnar.

 

Svínaflétturnar voru svo bakaðar í 180 gráðu heitum ofni í 30 mínútur og síðan við 150 gráður í tvær klukkustundir.

 

 

Fennelinn sjálfan skar ég svo í þunnar sneiðar. 

 

 


Og steikti upp úr 50 g af smjöri. Saltaði og pipraði. 

 

Það tekur tíma að karmellisera fennelinn - það er best gert á heldur lágum hita. Þannig lokkar maður best fram sætuna í honum. 

 

 

Flysjaði fimm epli og setti í skál með sítrónubættu vatni. Það kemur í veg fyrir að þau oxist og taki á sig brúnan lit.

 

 

Eplin voru svo skorin í báta og steikt upp úr restinni af smjörinu. Saltaði og pipraði. 

 

 

Þegar eplin voru farin að mýkjast hellti ég skvettu af hlynsírópi á pönnuna og sauð upp sírópið þannig að eplin hjúpuðust vandlega. 

 

 

 

Puran verður fullkomin með þessari aðferð. Fyrst eru hún geymd í ísskáp í nokkrar klukkustundir til að þorna vel. Svo eru hún skorin með oddhvössum hníf - ekki alveg í gegn og salti nuddað í sárin. 

 

 

 

Því næst eru puran sett inn í 200 gráðu heitan ofn í þrjú til fjögur kortér þangað til að hún poppast fallega og verður eins og kex.

 

 

Kjötið kemur ótrúlega fallegt út úr ofninum. Fléttan sem var pensluð með olíunni varð fallegri á að líta. Sinnepsgljáða varð dekkri, ekki brennd en sinnepið varð svarbrúnt á lit - nánast eins og það væri innbakað. 

 

 

Kjötið varð fullkomlega lungamjúkt og safaríkt. 

 

 

Með matnum drukkum við síðustu flöskuna sem ég átti af Masi Corbec. Þetta vín smakkaði ég í fyrsta sinn á Ítalíu þegar ég var í heimsókn hjá Masi fyrir tæpu ári síðan. Ég varð mjög hrifinn af þessu víni og stakk upp á því að það yrði flutt inn til landsins og selt í ÁTVR. Það var selt til veitingastaða fyrir jólin og fór mjög vel í landann og til stendur að það komi í vínbúðir nú um næstu mánaðarmót. Það fær svo sannarlega mín meðmæli enda kraftmikið vín sem á rætur að rekja til Argentínu. Það er gert úr blöndu af ítölsku þrúgunni Corvina sem er ræktuð á Ítalíu og svo Malbec sem er ein aðalþrúgan í rauðvínum frá Argentínu. Þið ættuð bara að prófa. 

 

 

Þessi matur rann ákaflega ljúfflega niður - eina sem vantaði var sósan.  Alltént sagði konan mín það! Ég mun ekki klikka á því næst1

 

Verði ykkur að góðu.

 

 


Ljúffengur steiktur lax á beði af byggotto frá Vallanesi með snöggpæklaðri agúrku

 

Ætli ég sé ekki best þekktur fyrir veislumáltíðir. Alltént er mest að gera á blogginu mínu fyrir helgar og stórhátíðir. Þá sækir fjöldi einstaklinga í sarpinn og leitar að uppskriftum. Af nógu er að taka - hægt er að finna uppskriftirnar mínar hérna. Ég er þó alltaf að reyna að gera meira af hvunndagsmat. Þessi réttur tók ekki meira en 45 mínútur frá byrjun til enda - og hann var það ljúffengur að hann myndi sæma sér vel í hvaða matarboði sem er. 

 

Það hjálpar auðvitað að nota gott hráefni og á Íslandi er nóg af slíku að taka. Ég fékk laxinn auðvitað í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. Sem betur fer fæst bygg frá Vallanesi í flestum verslunum sem hafa eitthvert sjálfsálit - enda er það frábær framleiðsla. Það er eiginlega hneyksli að ég hafi ekki bloggað um þetta hráefni fyrr - fyrir það biðst ég afsökunar núna. Ég hef þó í hyggju að bæta úr - enda er það alveg ljúffengt. 

 

Ljúffengur steiktur lax á beði af byggotto með snöggpæklaðri agúrku

 

Hráefnalisti

 

Fyrir fjóra til sex

 

1 kg lax

salt og pipar

50 g smjör

 

300 g perlubygg frá Vallanesi

1 rauður laukur

1 sellerístöng

100 g sveppir

2 hvítlauksrif

1 hvítvínsglas

150 ml rjómi

25 g smjör

 

1/2 agúrka

2 msk hvítvínsedik

1 tsk salt

1 tsk sykur

safi úr hálfri sítrónu

 

 

 

Það er líklega heppilegast að byrja á því að undirbúa agúrkuna þar sem hún þarf um hálftíma til að verða tilbúinn. Ég keypti svona "spiralizer" þegar ég var á ráðstefnu í Bandaríkjunum haustið 2016 og hefur tekist að klúðra þessu endurtekið á þessum 18 mánuðum. En þetta er að fara að takast. Alltént tók ég hálfa agúrku og skar niður í fallega borða. 

 

 

Þeim var svo velt upp úr hvítvínsediki, salti, sykri og svo auðvitað ferskum sítrónusafa. Látið standa við herbergishita á meðan maturinn er eldaður. 

 

 

Skerið rauðlaukinn, selleríið, sveppina og hvítlaukinn og steikið í um 25 g af smjöri þangað til að það er dásamlega mjúkt og ilmandi. Saltið og piprið.

 

 

Sjóðið byggið samkvæmt leiðbeiningum í söltuðu vatni. 

 

 

Bætið svo bygginu saman við grænmetið og blandið vandlega saman. 

 

 

Hellið svo glasi af víni saman við - og látið það sjóða niður. 

 

 

Hellið svo rjómanum saman við - hrærið vandlega saman og látið rjómann sjóða niður. 

 

 

Gordon Ramsey segir að maður eigi að skera í laxinn til að hindra að hann dragist saman og verpist á pönnunni. Og svei mér þá - hann hefur ekki rétt fyrir sér - þessar þrjár Michelin stjörnur voru ekki að ástæðulausu. 

 

 

Saltið og piprið laxinn og steikið svo í brúnuðu smjöri. Steikið fyrst með roðið niður þangað til að það er stökkt og snúið svo. Þegar fiskurinn er eldaður í gegn þarf ekkert annað að gera en að bera hann fram!

 

 

Svo þarf bara að raða þessu upp. Fyrst byggottó - svo laxinn - síðan agúrkan og berið fram með sneið af sítrónu. Fullkomið. 

 

 

Með matnum drukkum við sama vín og var notað við matargerðina. Það er líka reglan að maður á að nota vín sem sómir sér vel með matnum. Þetta vín er ljómandi - ferskt, sítrus ávöxtur og smjörkennt eins og Chardonnay á að vera. 

 

Verði ykkur að góðu! 

 

 

 


Fjórréttuð og fljótleg fiskiveisla fyrir vini frá Englandi - bláskel, silungur, humar og skötuselur og ljúffengir vínsopar

Vinir okkar, Sara og Davíð, voru á landinu nú í vikunni en þau hafa verið búsett í Englandi í næstum tíu ár - tilgangur þessarar Íslandsferðar var fyrst og fremst að ferma elsta barn þeirra - Alvar - í Seltjarnarneskirkju í dag.  Söru kynntist ég í Menntaskólanum við Hamrahlíð þannig að við höfum þekkst í meira en 20 ár. Sara er í námi í jákvæðri sálfræði sem ég held að sé nám sem passi hennar persónuleika ákaflega vel. Maðurinn hennar, Davíð, rekur fyrirtækið Handpoint en er líka nýbyrjaður í námi - í taugavísindum. Eitthvað sem ég held að falli afar vel að hans persónu. 

 

Við ræðum allt milli himins og jarðar þegar en við hittumst - en eigum sameiginlegt áhugamál, sem er að njóta lífsins yfir mat og drykk. Þar sem veislan var á föstudegi - var ekki mikill tími til undirbúnings - og matarboðinu einnig búin heldur þröngur stakkur þar sem Sara var líka á leið í þrítugsafmæli systur sinnar. Svona er þetta oft í Íslandsheimsóknum - maður er upptekinn frá morgni til kvölds - við að hitta allt fólkið í sem er manni kært. 

 

Og þar sem þau búa í Englandi - þar sem erfiðara er að fá ferskt sjávarfang - lá beinast við að útbúa nokkra rétti sem lyfta íslensku fiskmeti aðeins hærra. Við Íslendingar eru ákaflega heppnir hversu auðvelt það er - og tökum því sem sjálfsögðum hlut að kaupa spriklandi ferskan fisk. Ég heimsótti að sjálfsögðu vini mína í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum þar sem Arnar og Sigfús sáu mér fyrir ljúffengu hráefni í veislu kvöldsins. 

 

Og allir réttirnir voru einstaklega fljótlegir. 

 

Fjórréttuð og fljótleg fiskiveisla fyrir vini frá Englandi - bláskel, silungur, humar og skötuselur og ljúffengir vínsopar

 

Við gerðum eftirfarandi; 

 

Bláskel í kókóssósu

Reyktan og sítrónumarineraðan silung með chili og bláberjum

Grillaðan humar með chili- og mangóraitu

Parmavafinn skötusel með sætkartöflumús og grænbaunapúré

 

Við byrjuðum á bláskelinni sem var splunkuný - hafði verið pakkað deginum áður. 

 

 

Steikti einn rauðlauk, 2 hvítlauka og 5 cm af engifer í jómfrúarolíu. Skellti svo einum poka af skolaðri bláskel saman við, smá skvettu af víni, svo eina dós af kókósmjólk. Sauð upp. Bragðbætti svo með steinselju, chili og salti og pipar. 

 

 

Skreytti með fersku kóríander og bar fram með baguettu til að ná upp sósunni. 

 

 

Við nutum Piccini Prosecco með skelinni. Ég hef verið svo heppinn að fá að heimsækja Piccini á vínekru þeirra í Toskana. Hægt er að sjá allt um þá heimsókn í Sjónvarpi Símans Premium. 

 

 

Réttur númer tvö er einstaklega fljótlegur. Ég skar um 150 g af ferskum silungi niður í þunnar sneiðar og kreisti safa úr hálfri sítrónu yfir. Skar svo niður birkireyktan silung sem Gunni frændi gaf mér. Raðaði þessu ofan á beð af klettasalati vætt upp úr góðri jómfrúarolíu. Skreytti með rauðum chili, bláberjum og smátt skorinni steinselju. 

 

 

Með þessum rétti drukkum við Matua Savignion Blanc 2014 frá Nýja Sjálandi. Þetta er brakandi ferskt hvítvín sem passaði sérlega vel með silungnum. Þetta vín er fullt af þéttum ávexti, örlitlu af kryddi og léttri sýru, þurrt og ljómandi á tungu.

 

 

Auðitað var svo smá tími til að pósa fyrir myndir.

 

 

Réttur númer þrjú í röðinni var líka einkar fljótlegur. Snædís þræddi skelflettan humar upp á spjót sem hafði fengið að liggja í nokkrar mínútur í olíu, salti og pipar áður en hann var lagður á blússandi heitt grillið. Fékk rétt að kyssa logana.

 

 

Þá var humarinn lagður á beð af frissé salati, íslensku piccolotómötum, mislitum smápapríkum, smátt skornu mangó bragðbættu með jómfrúarolíu, sítrónusafa og salti og pipar. Ofan á var svo tyllt matskeið af chili-mangó sósu.

 

Hún var gerð þannig að 1/2 dl af majónesi, 1/2 dl af sýrðum rjóma var hrært saman og við það blandað 1/2 smátt skornu mangó, heilu kjarnhreinsuðu chili, salti og pipar og teskeið af hlynsírópi.

 

 

Ég skellti sætum kartöflum inn í ofn við 180 gráður í tvær klukkustundir. Skar svo ofan af þeim og setti í pott. Þeytti síðan 50 gr af smjöri og 50 gr af rjómaosti saman við. Saltaði og pipraði.

 

Svo sauð ég 200 g af frosnum grænum baunum í söltuðu vatni. Þær voru svo maukaðar með töfrasprota ásamt 30 gr af smjöri og rjómaosti, handfylli af ferskri steinselju. Saltað og piprað.

 

 

Ég vafði þvínæst 600 g af skötusel (hafði hreinsað himnuna af) með tveimur bréfum af parmaskinku. 

 

 

Skötuselurinn var svo brúnaður upp úr smjöri og svo bakaður í ofni þar til hann náði 48 gráðu kjarnhita.

 

 

Ég ætla að fullyrða að hann hafi heppnast fullkomlega. 

 

 

Skötuselnum var svo tyllt ofan á beð af sætkartöflumauki. Mér var aðeins strítt af því að bera fram tvennskonar maukað meðlæti. Svona er það þegar maður er að flýta sér - maður hugsar ekki málið í gegn. En bragðgott var það. 

 

 

Með skötuselnum brugðum við á það ráð að bera fram Beringer Founder's Estate Cabernet Sauvignion. Einstaklega vel til fundið. Oftast hefði ég nú borið fram hvítvín með fiski - en stundum sannar undantekningin regluna. Þetta passaði eins og flís við rass. Kraftmikið og berjaríkt vín til að hafa með kraftmiklum skötusel umvöfðum parmaskinku. 

 

Hvet ykkur til að prófa þessar uppskriftir. Einfaldar, fljótlegar - en fyrst og fremst stórkostlega ljúffengar. 

 

Verði ykkur að góðu! 

 


Páskalambið 2018 - fyllt með karmelliseruðum rauðlauk og hvítmygluosti með rauðvínssoðsósu og sætkartöfluhraukum

 

Það eru komnir páskar. Flestir sem ég þekki gera vel við sig í mat og drykk. Alltént er það ljóst að umferðin á heimasíðunni minni fjór - til sexfaldast í aðdraganda hátíðardaga eins og þessara. Það gleður mig auðvitað heilmikið - að svo margir skuli leita í sarp minn til að gera vel við sína nánustu. Það færir örlitlar sönnur á að markmið mitt, að njóta lífsins í faðmi vina og vandamanna, færist aðeins nær. Að við borðum saman.

 

Á páskum er hefð fyrir því að borða lamb. Í flestum löndum er borðað vorlamb - af nauðsyn - þar sem það var einnig hugsað til grisja hjörðina fyrir vorlendurnar. En í dag eigum við við nóg af lambakjöti og þurfum við lítað að huga af sumarbeitinni - nóg eigum við Íslendingar af henni. En lambakjöt er ekki það eina sem fólk leggur sér til munns yfir hátíðirnar. Lesendur heimasíðunnar senda mér fyrirspurnir um hamborgahrygg og nautalundir - þannig að nóg er um fjölbreytnina. 

 

Ég er hinsvegar íhaldssamur - og kýs að borða lambakjöt - enda er það í sérstöku uppáhaldi. Það ætti ekki að fara framhjá neinum sem les heimasíðuna mína - að lambakjöt er í miklu uppáhaldi. 

Páskalambið 2018 - Fyllt með karmelliseruðum rauðlauk og hvítmygluosti með rauðvínssoðsósu og sætkartöflurösti

Lambið

 

1 lambalæri

6 rauðlaukar

150 g smjör

25 ml balsamikedik

2 msk hlynsíróp

hálfur ljúflingur (hvítmygluostur)

salt og pipar

2 msk jómfrúarolía

 

Sósan

 

Bein af heilu lambalæri

2 gulrætur

1 rauðlaukur

2 sellerísstangir

700 ml vatn

100 ml rauðvín

75 ml rjómi

sósuþykkni

salt og pipar

 

Meðlætið

 

1 sæt kartalfa

200 g cheddarostur

3 hvítlauksrif

nokkrar matskeiðar jómfrúarolía

salt og pipar

 

 

 

Skerið laukinn í þunnar sneiðar. Steikið hann upp úr smjöri í 30-45 mínútur þangað til að hann er lungamjúkur. Það tekur langan tíma að fá sætuna út úr lauknum.

 

 

Þegar laukurinn er mjúkur hellið þið balsamediki saman við og látið sjóða upp. Setjið svo hlynsíróp saman við og blandið vandlega saman. Soðið þangað til að allur vökvi er horfinn.

 

 

Ég notaði síðan hvítmygluost til að bragðbæta lambið.

 

 

Það er ágætt að leggja kryddblöndu eins og Yfir holt og heiðar í grunninn - en hvaða kryddblanda myndi lyfta lambinu upp. 

 

 

Nuddið lambið upp úr jómrfrúarolíu, leggið svo laukinn ofan á. svo ostinn, nóg af salti og pipar.

 

 

Vefjið svo lambinu upp og bindið með streng. Bakið í ofni við 130 gráður ofan á beði af gulrótum, sellerí og lauk í um 3 tíma undir álpappír. 

 

 

Á meðan fáið þið liðlegan heimilsmann til að raspa eina stóra sæta kartöflu í skál. 

 

 

Blandið sætu kartöfluna saman við þrjú hvítlauksrif og 200 g af niðurrifnum cheddar osti. 

 

 

Blandið ostinum, hvítlauknum og rifnum kartöflunum vel saman og mótið í fallega hrauka á bökunarpappír og bakið við 180 gráður í 30-40 mínútur. 

 

 

Bæði fallegt og ljúffengt.

 

 

Með matnum drukkum við þetta stórgóða Rioja vín - Ramon Bilbao Gran Reserva frá 2012. Þetta er ljúffengt vín - dökkrautt í glasi, ilmar af dökkum, sultuðum ávexti með smá súkkulaði og jafnvel sætum lakkrís. 

 

 

Eftir að lambið kom úr ofninum var það saltað rækilega og svo var það klárað á grillinu í tvær mínútur á hvorri hlið. 

 

Sósan var einföld. Kraftur gerður úr beinum og mirepoix; gulrótum, sellerí lauk og hvítlauk og vatn. Soðið upp í tvær klukkustundir og svo síað. Bragðbætt með rauðvíni, krafti og rjóma. Þykkt með sósuþykkjara. Salt og pipar. 

 

 

Virkilega ljúffeng máltíð - lambið var lungamjúkt, kartöflurnar stökkar að utan en mjúkar að innan. Dásamlegt gott. 


Penne með Ragú alla Bolognese - Friðheimaútgáfan fyrir tuttuguogfimm - með alvöru tómtöum

 

Okkur fjölskyldunni var boðið með í Páskahúsið í ár. Einhver kann að spyrja sig hvað eða hvar það er, en að fara í páskahúsið er hefð í fjölskyldu kærustu tengdaföður míns. Húsið sjálft er staðsett í Leirársveitinni.. Þar hafa systurnar Dórótea, Helga og Margrét hist árlega síðustu tvo áratugi með mökum, börnum og barnabörnum. Þetta er helgi mikilla vellystinga og vel gert við sig í mat og drykk.

 

Ragú alla bolognese er matur sem getur bæði verið hvunndags og einnig veislumatur. Þegar verið er að elda fyrir marga þá er kjörið að gera kássu - en hún verður auðvitað að standa undir nafni.

Þannig að auðvitað komu eingöngu frábær hráefni til greina.

 

Verkefnum er deilt á milli fjölskyldumeðlima. Við hjónin tókum að okkur að gera Ragú alla bologense og ekki bara hvaða kássu sem er. Í þetta sinn duttum við í lukkupottinn og fengum helling af tómötum frá Friðheimum. Og þeir eru ljúffengir.

 

 

 

Knútur sonur Dóróteu er, ásamt Helenu eiginkonu sinni, eigandi Friðheima sem flestir landsmenn þekkja vel. Þau hafa framleitt tómata síðustu 23 árin við ákaflega góðan orðstýr og hafa vaxið eftir því. Fyrir um 10 árum opnuðu þau dyr sínar fyrir ferðamönnum; fyrsta árið komu 900 ferðamenn í heimsókn að kynna sér tómataræktunina. Það er óhætt að segja að þau hjónin og börnin þeirra fimm hafa slegið rækilega í gegn - en í fyrra sóttu tæplega 160 þúsund gestir þau heim. Þar er þeim sýnd ræktunin og svo fá þeir að gæða sér á framleiðslunni á veitingastaðnum sem er innan um tómataplönturnar.

 

Ég hef komið í Friðheima nokkrum sinnum og notið veitinganna sem þar eru reiddar fram. Svo tókum við þar upp einn þátt síðastliðið sumar sem sýndir voru á ÍNNtv. Knútur er mjög ánægður með þessa mynd sem fylgir youtube myndbandinu.

 

 

Penne með Ragú alla Bolognese - Friðheimaútgáfan fyrir tuttuguogfimm - með alvöru tómötum

 

2,5 kg nautahakk

3 kg tómatar

1 rauður laukur

5 gulrætur

4 sellerístangir

5 msk jómfrúarolía

6 msk tómatpúre

2 flöskur rauðvín

1 l vatn

30 ml nautakraftur

5 lárviðarlauf

5 greinar rósmarín

5 greinar oregano

4 greinar timjan

1 pakki fersk steinselja

4 msk kakóduft

1 planta af fersku basil

salt og pipar

 

2,5 kg af pasta

Nóg af parmaosti

Góð jómfrúarolía

 

 

Ég byrjaði á því að steikja niðurskornar gulrætur, lauk, sellerí og hvítlauk í jómfrúarolíu í nokkrar mínútur. Saltaði svo og pipraði. Ágætt er að setja lárviðarlaufin strax saman við. 

 

Settti svo grænmetið til hliðar og brúnaði kjötið. Gæta þarf þess að setja ekki of mikið í einu - við viljum steikja nautahakkið - ekki sjóða það!

 

 

Helena kom með nóg af tómötum í réttinn. Þeir eru sætir og safaríkir.

 

 

Ég skar þá bara gróflega niður og setti þá pottinn. Þeir munu leysast upp að mestu við eldunina.

 

 

Ég setti tvær rauðvín, frá Bardolínó sem er við Gardavatnið - ágætis borðvín. Sauð upp vínið í nokkrar mínútur áður en ég setti vatn og nautakraft útí. Saltaði og pipraði.

 

 

Setti síðan ferskar kryddjurtir útí pottinn. Almennt hefði ég bundið þetta upp í vöndul en ég átti ekki neitt band. Þannig að það varð bara veiða upp greinarnar áður en maturinn var borinn fram. 

 

 

Auk tómatanna og rauðvínsins þá var þetta eitt af leynivopnunum. Að setja smá súkkulaði saman við - með því bætir maður bæði dýpt og fyllingu - án þess þó að maturinn fái keim af súkkulaði. 

 

Svo er bara að láta kássuna krauma við lágan hita í tvær klukkustundir eða svo og leyfa brögðunum að kynnast og taka sig.

 

Loks er bara að sjóða vatn í stórum potti - sjóða pastað eftir leiðbeiningum þangað til að það er al dente - aðeins undir tönn.

 

 

Með matnum naut ég þessa víns - Masi Brolo Campofiorin Oro frá því 2013. Þeir sem sáu fyrri Ítalíu-þáttinn á Sjónvarpi Símans Premium, vita að ég heimsótti Masi í Veróna og fékk að kynnast forstjóranum Sandro og syni hans Raffele. Mér fannst vínin þeirra góð fyrir en eftir að hafa heimsótt fjölskylduna og notið einstakrar gestrisni þeirra, þykir mér líka vænt um þessi vín. Þetta vín er frábrugðið venjulega Campofiorin að því leyti að þetta vín hefur Oseleta þrúguna - sem er staðbundin þrúga sem hefur verið ræktuð frá því á tímum Rómverja. Hún féll í gleymsku þangað til að Sandro fann hana þegar hann var í heimsókn hjá vínbónda nokkrum. Síðan þá hefur hann unnið að því að rækta hana upp aftur og kynna hana aftur fyrir heiminum.

 

 

Þetta var einstaklega vel heppnuð máltíð.

 

Verði ykkur að góðu!


Heilsusprengja: Kjúklingasúpa frá Austurlöndum fjær - með marglitum gulrótum, nýrnabaunum, linsoðnum eggjum og kúrbítsnúðlum

 

Ef þetta er ekki frábær og fljótleg máltíð í miðri viku þá veit ég ekki hvað er það. Svo er hún líka sérlega holl - kjörin þegar maður er nýkominn heim úr ræktinni - eða bara ef maður vill hafa ljúffengan rétt í miðri viku. En endilega farið líka í ræktina - það er ókeypis læknisráð frá mér! 

 

Það eina sem tekur tíma í þessari uppskrift er að skera niður hráefnið og svo bíða eftir að það súpan sjóði og kjúklingurinn eldist í gegn. Það er kjörið að kaupa heilan kjúkling fyrir súpuna - þá mætir maður auðveldar þörfum allra í fjölskyldunni - sumir vilja bringu, og aðrir vilja legg. En auðvitað hægt að kaupa leggi, læri eða bringur. Það er auðvitað frjálst val! 

 

Heilsusprengja: Kjúklingasúpa frá Austurlöndum fjær - með marglitum gulrótum, nýrnabaunum, linsoðnum eggjum og kúrbítsnúðlum. 

 

Fyrir sex

 

1 kjúklingur

1/2 rauðlaukur 

2 sítrónugras stangir

5 cm engifer

3 hvítlauksrif

4 vorlaukur

1 rauður chilipipar

6 kaffir límónublöð

3 gulrætur (ein gul, ein appelsínugul og ein fjólublá) 

1 kúrbítur

2 lítrar vatn 

1 teningur kjúklingakraftur

50 ml soya sósa

1 msk hunang

1 dós nýrnabaunir

6 egg

salt og pipar

 

Meðlæti 

 

Saricha aioli

gulrótarræmur

kórínder 

rauður chili

 

 

Byrjið á því að hluta kjúklinginn niður í 12-16 bita, saltið og piprið og brúnið í heitri olíu þangað kjúklingurinn hefur tekið lit. 

 

 

Sneiðið vorlauk, sítrónugras, engifer, chili, hvítlauk og takið til kaffir límónulaufin. 

 

 

Hitið viðbótarolíu í pönnunni og mýkið grænmetið í nokkrar mínútur. 

 

 

Bætið gulrótunum saman við og steikið í tvær til þrjár mínútur til viðbótar. Hellið þá vatninu saman við, ásamt soya sósunni og hunangi. Bætið við teningi af kjúklingakrafti. Sjóðið upp súpuna og látið krauma við lágan hita í þrjú kortér.

 

 

 

Skerið svo kúrbítinn með þessu apparati. Kennið apparatinu um þegar það heppnast ekki nógu vel! 

 

 

Bætið kúrbítnum saman við súpuna. Skolið baunirnar og bætið í súpuna. Sjóðið áfram í 10 mínútur. Linsjóðið egg í öðrum potti. 

 

 

Undirbúið meðlætið - blandið matskeið af majónesi saman við 1 teskeið af siracha sósu. Hrærið vandlega. 

 

 

Skerið gulrót í strimla með flysjara, chili í þunnar sneiðar og vorlaukstoppana í litla strimla. 

 

 

Það var ágætt að eiga þessa flösku til að smakka með. Þetta er Torre mora hvítvín sem er ræktað við fót Etnu á Sikiley. Þetta er sprengja af sítrónu og ávexti á tungu, rætur og sæta sem minnir á perubrjóstsykur. Góð fylling og ágætis eftirbragð. 

 

 

Svo er bara að raða súpunni saman; kjúkling í miðjuna, baunir og kúrbít í kring, egg í helmingum, siracha aoili á toppinn með gulrótarræmum, vorlauk, chili og fullt af fersknum kóríander. 

 

Þetta var, sko, fyrir líkama og sál. 

 

Verði ykkur að góðu.


Miðvikudagsveisla: Seiðandi tælenskt fiskikarrí með brúnum basmati hrísgrjónum

 

Flestir hafa lítinn tíma til að elda á virkum dögum. Þetta á eins við mig og alla aðra. Þá er gott að hafa fljótlegar uppskriftir í handraðanum. Þessi er einkar fljótleg - hún verður til á þeim tíma sem tekur að sjóða hrísgrjónin - ég notaði reyndar brún basmati hrísgrjón sem þurfa um 25 mínútna suðu og keypti mér þannig örlítið meiri tíma.

 

Fiskurinn var að sjálfsögðu keyptur hjá vinum mínum í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. Ég hef skipt við þá lengi. Yfirleitt spyr ég bara hvað er ferskast í borðinu og elda úr því - í þetta skiptið var það nýveidd langa og svo nýslátraður íslenskur eldislax. Íslenskt sjávarfang er að mínu mati það besta í heimi. Við njótum þess að geta fengið spriklandi ferskt hráefni eiginlega á hverjum degi vikunnar.

 

Við ættum þess vegna að elda fisk oftar í viku en við gerum. Kannanir sýna að við neytum minni fisks en við gerðum áður. Einu sinni borðuðu Íslendingar fisk fjórum til fimm sinnum í viku - nú er það ekki nema um tvisvar. Auðvitað ættum við að borða fisk mun oftar - enda er þetta einn hollasti og ferskasti matur sem við höfum á völ á.

 

Miðvikudagsveisla: Seiðandi tælenskt fiskikarrí með brúnum basmati hrísgrjónum

 

Ég vona auðvitað að sem flestir prófi þessa uppskrift. Hún var óeinföld og fljótleg og auðvelt að nálgast öll hráefnin í hvaða verslun sem er.

 

Fyrir fjóra

 

1 kg af blönduðum fisk - lax, langa og rækjur

250 g blómkál

1 dós af kókósmjólk

100 ml vatn

2 msk jómfrúarolía

1 tsk fiskikraftur

2 msk rautt taílenskt karrí

1/2 rauður chili pipar

5 cm engifer

2 hvítlauksgeirar

1/2 rauðlaukur

salt og pipar

 

200 g brún hrísgrjón

1 tengingur kjúklingakraftur

 

Setjið hrísgrjónin í pott með nógu vatni. Hrærið kjúklingakraftinum saman við. Þegar þau eru tilbúinn - hellið vatninu frá. 

 

 

Skerið laukinn, chili, engifer og hvítlauk smátt og steikið í jómfrúarolíunni þangað til að allt er fallega mjúkt og ilmandi. 

 

 

Sneiðið fiskinn niður í munnbitastóra bita og hafið á hliðarlínunni þangað til að sósan er tilbúin.

 

 

Blandið kókósmjólkinni og vatninu saman við og hitið að suðu.

 

 

Setjið svo karríið saman við. Blandið vandlega saman við ásamt fiskikraftinum. 

 

 

Næst er að setja blómkálið saman við sósuna og látið krauma í sjö til tímu mínútur. 

 

 

Bætið svo fisknum saman við - hann þarf ekki langan tíma - sjö mínútur eða svo ættu að duga. 

 

 

Rétt áður en hrísgrjónin eru tilbúin, bætið þið rækjunum saman við sósuna - þær þurfa ekki nema tvær mínútur eða svo. 

 

 

Ef þessi sósa er ekki girnileg - þá veit ég ekki hvað?

 

 

Setjið hrísgrjónin á disk og setjið svo rausnarlegan skammt af fisknum yfir grjónin. Skreytið með kóríander - þ.e.a.s fyrir þá sem eru ekki með ofnæmi fyrir kóríander.

 

 

Það er gott að njóta góðs víns með mat eins og þessum. 

 

 

Burlesque white zinfandel er amerískt rósavín sem passar vel með bragðmiklum mat eins og þessum. Þetta er ansi bragðmikið vín - sætt á tungu með ljúfu eftirbragði af mjúkum vínberjum. 

 

Ég hvet ykkur eindregið til að prófa þessa uppskrift. Hún er einkar ljúffeng. 

 

 

 


Læknirinn á Ítalíu: Heimagert tortellini fyllt með langelduðu villisvíni, fonduta sósu og ferskum trufflum og Bistecca alla Fiorentina með töskönskum baunum

 

 

Eins og kom fram í færslu nýlega þá bauðst mér að fara í vínsmökkunarferð til Ítalíu síðastliðið vor. Með mér í för var mín íðilfagra eiginkona, Snædís Eva og svo Kristján Kristjánsson, leikstjóri extraordiner, og eiginkona hans Anna Guðný. Við gerðum tvo sjónvarpsþætti úr þessu ferðalagi okkar og  hægt er að sjá þá í Sjónvarpi Símans - Premium. Ég gerði grein fyrir uppskriftum úr fyrri þættinum í nýlegri færlsu sem hægt er að lesa hérna, þar vorum við í heimsókn í Veróna hjá Masi og tókum þátt í að fagna afmælisárgangi vinsælasta víns þeirra - Masi Campofiorin - 50 ára. 

 

Eftir tvo dásamlega daga hjá Masi ókum við svo suður til Toskana og heimsóttum Piccini, Valiano og einnig Villa al Cortile sem liggur rétt fyrir utan bæinn Montalcino. Þar tóku á móti okkur Piccini fjölskyldan og þar er auðvelt að segja að vel hafi verið tekið á móti okkur. Hvílík gestrisni. Við fengum heilt hótel fyrir okkur með sundlaug fyrir utan dyrnar. Fátt vekur hjá manni meiri innblástur en að vakna snemma að morgni eftir dásamlegar rauðvínsmarineraðar kvöldstundir en að hoppa út í kalda laugina umlukinn dásamlegri fegurð sveitanna í Toskana.  

 

Ég hvet ykkur til að kíkja á þættina - þeir gefa smjörþefinn af því hvernig er að vera í vínsmökkunarferð á þessum svæðum. 

 

 

Læknirinn á Ítalíu: Heimagert tortellini fyllt með langelduðu villisvíni fonduta sósu og ferskum trufflum og Bistecca alla Fiorentina með töskönskum baunum

 

 

Í heimsókn okkar til Toskana var okkur boðið til hádegisverðar á vínekru Valiano. Við vorum á ferðinni snemma sumars - þarna voru þrúgurnar rétt að brjótast út - sem seinna áttu eftir að þroskast og verða að ljúffengu Chianti víni - Poggio Teo. Víni sem við fengum að njóta með hádegisverðinum.

 

 

 

Þarna kenndi ýmissa grasa. Ætli hápunkturinn hafi ekki verið Poppa di pomodore - sem er frægur réttur frá Toskana. Þetta er í raun skilgreint sem súpa - sem hann er eiginlega ekki. Þetta er meira eins og kássa, gerð úr gömlu brauði sem er bragðbætt með jómfrúarolíu, hvítlauk og svo auðvitað heilmiklu af ferskum tómötum sem er maukað saman með brauðinu. Ljúffengt! 

 

Með þessu fengum við að njóta ýmis konar meðlætis; pylsur, skinka, mozzarella, tómatar, frittatta og pecorina ostur. 

 

 

Seinna um daginn fengum við kynningarferð um vínkjallara Valíanó með Mario Piccini eiganda vínekrunnar ásamt syni hans. Við fengum að smakka ólíka árganga Poggio Teo og sjá hvernig vínið umbreytist við að fá að liggja í viðartunnum. 

 

 

Við áttum skap saman - Mario og ég. Hann var eins og gefur að skilja virkilega fróður um vínið og deildi ólmur með okkur öllu um vínin sín og hvernig þeirra verði sem best notið. 

 

 

Eftir heimsóknina til Valiano snerum aftur á hótelið okkar sem var rétt sunnan við þorpið San Gimignano sem er undurfagurt og margir hafa án efa heimsótt.

 

Hráefnalisti (grófur)

 

500 g hveiti

3 egg

vatn til að binda

nokkrar matskeiðar jómfrúarolía

salt

 

fylling úr villisvíni

 

langeldaður villisvínaframpartur

jómfrúarolía

pecorínóostur

salt og pipar

 

Fonduta sósa

 

700 ml mjólk

300 g pecorínóostur

salt og pipar

 

 

Yfirkokkur hótelsins, Alfonso, var okkur innan handar við matargerðina. Við byrjuðum á því að gera pastað. 

 

 

Pastað fékk að hvíla í 30 mínútur í kæli. Svo flatt úr vandlega.

 

 

 Næst var það fyllt og mótað í tortellini. Þurfti nokkrar atrennur en hafðist á endanum. 

 

 

Fonduta sósan var nógu einföld. Mjólkin var hituð upp varlega í vatnsbaði.

 

 

Pecoríno ostinum var svo bætt varlega saman við heita mjólkina og séð til að hann leystist alveg upp. Þetta er harður ostur þannig að þetta tók nokkra stund. 

 

 

Pastað var svo soðið í ríkulega söltuðu vatni í nokkrar mínútur og svo steikt í smjöri á pönnu. 

 

 

Pastað var svo lagt á disk, fonduta sósunni sáldrað yfir, fullt af ferkum trufflum raspað yfir. 

 

 

Skreytt með stökku beikoni og svo ferskum fenneltoppum. Dásamlegt.

 

 

Næst var það svo Bistecca ala Fiorentina. Þetta er kjötbiti úr Chianina kúnni sem er vöðvamikið kyn og gefur af sér einstaklega bragðmikið kjöt.

 

Það var grillað á funheitu grilli. Alfonso var alveg á því að ekki ætti að salta og pipra fyrr en eftir á. Gott var það hvort sem heldur var!

 

 

Með matnum bárum við fram Canneloni baunir sem höfðu verið soðnar í kjúklingasoði, svo steiktar upp úr rósmarín bragðbættri jómfrúarolíu.

 

 

Kjötið fékk að hvíla í nokkrar mínútur áður en það var skorið niður. Það var svo ljúffent að það hefði verið hægt að snæða það hrátt.

 

 

Þessi ferð var með ólíkindum, Og ekkert meira verðlaunandi en að ljúka því með því að skála við mömmu Piccini í víni með hennar nafni - Mama Piccini.

 

Endilega kíkið á þættina.

 

Vonandi njótið þið þeirra vel!


Steik og Garúnarbaka heimsótt á nýjan leik - nú með breyttu sniði

 

Steik og Guinness baka er líklega ein besta baka sem gerð hefur verið. En samt er það svo að eiginlega flestir nautnaseggir hafa einhvern tíma pantað sér þessa böku á ferðalögum sínum til Englands og verið ýmist ánægðir eða sviknir með gæðin á þessari böku á þeim knæpum sem þeir hafa setið á. Enda er hún algerlega háð þeim hráefnum sem notuð eru og hvernig hún er elduð. 

 

Á deig að vera í botninum, á ekki að nota alvöru guinness, má nota eitthvað annað, hvað má nota? Þetta eru spurningarnar sem brenna á nautnaseggjum  alltént mér sjálfum. Í fyrra gerði ég atlögu að þessari böku í þáttum sem ég var með á ÍNN á meðan sú stöð var og hét. Þá kallaði ég hana Surtböku og notaði íslenskt lambakjöt, bjór og rótargrænmeti. Og sú var vel lukkuð. Hægt er að sjá allt um hana hérna

 

Í þessari uppskrift er notuð Garún - sem ljúffengur íslenskur stout sem er þó aðeins léttari en íslenskri Surturinn sem er ansi kynngimagnaður. Í þessari atrennu er svo rétturinn aðskilinn að vissu leiti þannig að kássan og smjördeigið er eldað sér og svo sameinað á diskinum í lokin. Hvort er síðan rétta leiðin verður hver og einn að gera upp við sig! 

 

Þennan rétt ákvað ég að hafa á afmæli mínu núna um helgina og var svo sannarlega ekki svikinn! Og ég valdi auðvitað að halda upp á daginn í sumarbústað fjölskyldunnar!

 

Steik og Garúnarbaka heimsótt á nýjan leik - nú með breyttu sniði

 

Fyrir 68

 

Hráefnalisti

 

1,5 kg nautaframpartur

2 gulrætur

1 stór rauðlaukur

2 sellerístangir

3 -5 hvítlaukrif

3 lárviðarlauf

4-5 msk hveiti

1 tsk hvítlaukssalt

3 msk jómfrúarolía

50 g smjör

500 g kastaníusveppir

1 bouquet garni  2 rósmarín greinar, 2-3 timjan greinar, steinseljustangir

3 flöskur Garún icelandic stout

500 ml nautasoð

3-4 msk worscherstershire sósa

salt og pipar

600 g smjördeig

 

500 g baunir 

1 l af kjúklingasoði

100 g smjör

salt og pipar

 

 

 

Skerið grænmetið niður gróflega og steikið í olíu ásamt lárviðarlaufum. Gleymið ekki að salta og pipra. Þegar grænmetið er mjúkt og ilmandi setjið það til hliðar.

 

 

Skolið og þerrið kjötið vandlega. 

 

 

Fáið verðandi ninju til að skera niður kjötið í 2x2 cm stóra bita. 

 

 

Veltið kjötinu upp úr hveiti og hvítlaukssalti.

 

 

Brúnið kjötið svo að utan í smjöri. 

 

 

Brúnið þangað til að kjötið er orðið fallega brúnt að utan og þið sjáið að það muni verða stórkostlega ljúffengt.

 

 

Hellið svo öllu kjötinu saman við ásamt öllu grænmetinu. Hellið svo bjórnum samanvið.

 

 

Svo nautasoðinu og sjóðið upp bjórinn.

 

 

Bætið svo sveppunum saman við kássuna.

 

 

Bætið svo bouqeut garni saman við kássuna. 

 

 

Setjið svo kássuna inn í ofn við 170 gráður í tvær og hálfa til þrjár klukkustundir. 

 

 

Þegar kássan er tilbúin - takið þið kryddjurtirnar frá. 

 

 

Kjötið er dásamlega ljúft og meyrt og dettur í sundur.

 

 

Það er um að gera að njóta ljúffengs rauðvínssopa með kássunni hafi maður klárað bjórinn með eldamennskunni eins og hætta er á. Þetta vín er frá Bandaríkjunum og er hátt skrifað á meðal rauðvínsunnenda á rauðvín á Íslandi hóp á Facebook. Þetta er dumbrautt vín í glasi  þetta er vín sem er ríkt af dökkum ávexti, kryddað og ljúffent með löngu og miklu eftirbragði. 

 

 

Með matnum bárum við fram djúpsteiktar sveitafranskar, sem við köllum svo  þá eru kartöflurnar skornar þunnt og steiktar lengi svo þær verða alveg stökkar. 

 

 

Þá suðum við petit pois grænar baunir í kjúklingasoði. Það tekur bara örskamma stund  vatninu er svo hellt frá og smjörið látið bráðna saman við. Stappað með gaffli. 

 

 

Í staðinn fyrir að loka kássuna inn í smjördeigi í eldföstu móti bökuðum við smjördeigið eitt og sér í ofni. Við prófuðum að gera fléttur  bæði grófar og fínar  eins og sjá má á myndinni. Penslað með eggjablöndu, saltað og piprað og svo bakað í 220 gráðu heitum ofni í kortér. 

 

 

Svo er bara að leggja fallega á borð - móðir mín - Lilja María sá um það eins og endranær þegar við erum saman í sumarbústaðnum.

 

 

Svo er bara að raða herlegaheitunum upp á disk  ég var svo sannarlega ekki svikinn á afmælinu. 

 

Það er gaman að eiga afmæli.

 

Endilega prófið - Verði ykkur að góðu! 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband