8.1.2007 | 22:13
Saltfiskur með spænskum áhrifum
Vorum í Glasgow hjá vinafólki í vikutíma. Fórum einn dag til Edinborgar en annars var þetta var afslöppun í góðum félagsskap. Vinafólk okkar eru miklir "organic-istar" og okkur var kynnt fyrir nýjungum eins og það að vera áskrifandi af organic grænmeti frá local bóndabæ - svo rifjaðist upp fyrir mér að þetta var gert einhvern tíma hérna - grænmeti var sent á Essostöðvarnar til áskrifenda eða eitthvað svoleiðis. Þetta mætti koma aftur - ég væri alveg til í að kaupa beint af bóndunum og þannig rynni ávinningurinn af framleiðslunni til þeirra sem framleiða hráefnið, ekki til einhverra milliliða og stórverslana.
Jæja, hvað um það. Við fjölskyldan kom heim núna á sunnudaginn og foreldrar mínir buðu okkur í mat. Pabbi var með sjávarréttagratín, humar, skötusel, lúðu, rækjur með hrísgrjónum og hvítlauksbrauði. Dásamlegt hjá þeim gamla. Ef hann tímir uppskriftinni þá birti ég hana.
Núna um þessar mundir er hugurinn allur í því að borga tilbaka jóla"kaloríu"syndirnar. Við hjónun höfum ákveðið að reyna að hafa þetta á léttari nótunum. Mamma og litli bróðir minn komu og borðuðu með okkur.
Saltfiskréttur með spænskum áhrifum.
1200 gr af útvötnuðum saltfiskflökum voru skolun og þurrkuð. Lagt í eldfastmót sem hafði verið pennslað með smávegis af hvítlauksolíu og nýmöluðum pipar. 1 dós af svörtum ólífum dreift yfir. 1 lítill hvítlaukur var skorinn í sneiðar og dreift yfir ásamt sneiðum af rauðlauk. 2 dósum af niðursoðnum heilum tómötum var hellt yfir - tómatarnir sprengdir og 30 gr af ferskum basillaufum og 2 tsk af fersku timian blandað saman við. Piprað vel. Borið fram með hrísgrjónum og einföldu salati.
Bragðaðist alveg ágætlega - Saltfiskurinn var fullsaltaður fyrir minn smekk - en var alveg þokkalegur.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt 9.1.2007 kl. 23:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.