Heimagert birkireykt íslenskt hangikjöt - Er jólaundirbúningurinn hafin?!?

lambakjot.jpgJá - jólaundir- búningurinn er hafinn á þessu heimili. Og hann hefur aldrei byrjað svona snemma. Aldrei nokkurn tíma. Þetta er náttúrulega alveg fáránlegt - það er eiginlega ekki hægt að segja annað - maður er bara eins og Kringlan - skrautið komið upp löngu áður en nokkur hræða fer að leiða hugann að því að þessi árstími sé um þann mund að  ganga í garð. Svo er það nú líka þannig að ég er ekki jólabarn fyrir fimmaur. Auðvitað finnst mér maturinn og allt meðlætið alveg frábær - en er sjálfur ekkert fyrir jólahátíðina. Allt þetta skraut, lætin, jólatónlistin og svo allt þetta pakkafargan...fyrir fólk sem á allt. Úff!

En þetta verkefni er þó skemmtilegt - og í raun rökrétt framhald af beikoninu, pancettunni, parmaskinkunni og svo er þetta þjóðlegt. Mann vantar bara fánann! Hugmyndin af þessu vaknaði þegar ég var að horfa á netsjónvarp mbl.is/matur - Eldum Íslenskt og þar var viðtal við íslenskan bónda sem reykir sitt eigið hangikjöt. Ég fór á stúfanna og það kom á daginn að þetta er bara ansi einfalt. Svona matur er aldrei flókin - en þetta krefur tíma af manni og sem betur fer er þetta stórskemmtilegt. Ég sótti upplýsingar í eina af mínum uppáhalds matreiðslubókum sem sjá má á myndinni hér til hægri - kíkja bara í matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur - Matur og drykkur - í þessari bók er hægt að finna nokkrar uppskriftir að því hvernig á að leggja lambakjöt í pækil fyrir reykingu. Ég notaði blautan pækil og lét kjötið liggja í honum í næstum því í viku. Þessi matreiðslubók ætti að vera til að öllum heimilum - þetta er frábær heimild um íslenska eldamennsku. Hérna eru sko engar flatbökur eða spaghetti Carbonara - hérna eru leiðbeiningar að því að taka slátur, búa til kæfu, sultur og hvað eina sem tengist íslensku eldhúsi -alveg ekta góður heimilismatur.

Heimagert íslenskt birkireykt hangikjöt - jólaundirbúningurinn er hafin?!?

 islensk_birkilauf_923846.jpg

 Mamma mín, hún Lilja, hafði safnað saman þessum birkilaufum við sumarbústað þeirra hjóna við Lækjarkot við Meðalfellsvatn. Þau höfðu verið geymd í frysti til þess að varðveita bragð þeirra. Með sendingunni fékk ég líka nokkra búta af þurrkuðu birki til þess að nota við reykinguna. 

 paekill_undirbuinn.jpg

Í vel þvegið plastílát lagði ég helminginn af laufunum, 1,5 kíló af grófu hafsalti, 250 gr af sykri, 2 msk af saltpétri.

kominn_i_kassan.jpg

Kom lærunum fyrir í kassanum - gerði eitt aukalega fyrir nágranna mína - Elvu og Gumma. 

vatn_og_meiri_lauf.jpg

Hellti síðan 12 lítrum af köldu vatni saman við og bætti við öðru eins af birkilaufum. Lokaði kassanum, setti í kæli og leyfði þessu að liggja í 6 daga í pæklinum. Að sex dögum liðnum tók ég lærin úr vökvanum, þurrkaði og lét standa í kæli yfir nótt - til að mynda "pellicule" himnu sem hjálpar reyknum að bindast við kjötið. 

reykofninn.jpg

Undirbjó reykofninn. Í vatnspönnuna sem sést til hægri á myndinni setti ég öll laufin sem voru í pæklinum. Þau liggja rétt ofan við kolinn - vatnið sýður og gefur frá sér gufu sem gerir matinn ennþá safaríkari - gegnir einnig því hlutverki að tempra hitann.

 img_9665.jpg

Ég sagaði birkibitana niður - lét þá liggja í vatni og lagði í sérstakt stálílát sem maður leggur beint á kolinn - þaðan kemur reykurinn sem gefur allt þetta frábæra gómsæta "reykta" (enn ekki hvað) á matinn. Kom lærunum fyrir í ofninum og setti hitamæli í kjötið. Lærin voru reykt í nærri því sólarhring. Þurfti að bæta nokkrum sinnum á kolinn, skipta nokkrum sinnum um reykgjafa. 

hangikjot_923856.jpg

Eftir 17 klukkustundir voru lærin búinn að skipta um lit. Orðin dumbrauð - brúnleit á litinn. Núna fá lærinn að hanga fram að jólum. Geri grein fyrir bragðinu þegar það verður prófað - en lyktin var alveg ótrúlega góð.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ohhh þetta lítur rosalega girnilega út! Mitt upphálds hangilæri er og hefur verið í mörg ár, heimareykt sauðalæri frá Hraunbæ í Álftaveri! verði ykkur að góðu og já gleðileg jól  

Linda Björk (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 19:54

2 identicon

Jóla hvað,MMMMMMMM Snilld.Þú leyfir okkur nú að fylgjast með þegar að smökkun hefst.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 20:11

3 identicon

hvar fær maður svona reikofn

Jón (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 15:36

4 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæll Jón

Þennan reykofn keypti ég á heimasíðu sem heitir hotsmoked.co.uk. Hann kostar 270 pund. Weber er einnig með svipaðan; WSM. Svo eru til fullt af frábærum varíöntum. 

Happy smokin' Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 19.10.2009 kl. 16:22

5 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Ég fékk nú bara vatn í munninn við lesturinn.  Býð spennt eftir að lesa hvernig smakkast.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 20.10.2009 kl. 14:04

6 identicon

Sæll Ragnar,

Það er alveg frábært að lesa þessar eldhúsæfingar þínar.  Takk fyrir það.

Langar til að athuga hvort þú vitir um góða aðferð við Sænsku jólaskinkuna þ.e.a.s. frá grunni.  

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 21.10.2009 kl. 13:19

7 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður

Frábært og það verður gaman að fylgjast með þegar þú svo matreiðir gómsætið.

Guð veri með þér

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 22.10.2009 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband