Súkkulaðiskúffukakan hennar mömmu - mamma, best í heimi!!!

Þegar ég var lítill og það átti að halda upp á afmælið mitt þá gerði mamma alltaf þessa skúffuköku og bjó til úr henni súkkulaðikökudreng - ég algerlega elskaði þessa köku og geri reyndar ennþá. Þegar ég fór að verða eldri vildi ég fá þessa köku oftar og mamma lét það stundum eftir mér. Ég vissi eiginlega ekkert betra en að sitja við eldhúsborðið heima með heita súkkulaðiköku, með heitu kremi og kókós og skolað niður með ískaldri mjólk. Unaðslegt.

Þegar ég komst á "tween" aldurinn (11-13 ára - USandAarar tala um þennan aldur áður en maður verður teen/táningur) vildi ég áfram fá þessa köku á minn disk og mömmu fóru að leiðast þessar bónir og sagði að fyrst ég hefði svona mikinn áhuga á þessari köku þá gæti ég eins gert hana sjálfur - and did I ever!!! Ég fór sko að baka. Ég bauð vinum mínum reglulega í heimsókn til að fá þessa köku. Ég var orðin svo fljótur að hræra í hana að deigið var orðið tilbúið áður en ofnin náði 180 gráðum. Mettíminn var 12 mínútur. Einu sinni var ég að keppast við tímann að ég ruglaðist á salti og sykri kakan varð hreinasti viðbjóður (eins og sagt er í innlit útlit).

Þetta er alls ekki flókinn kaka og þegar maður les aðrar uppskriftir ekki svo merkileg þegar útí það er farið. Engar fínessur - bara meiriháttar góð skúffukaka.

Uppskriftin er svohljóðandi.

Fyrst er þurrefnum blandað saman; 375 gr hveiti, 450 gr sykur, 6 msk kakóduft, 1 1/2 tsk lyftiduft, 1 1/2 tsk salt, 3/4 tsk matarsódi. Svo er komið að blautefnunum. Fyrst er sett 190 gr af smjörlíki - ég mýki það yfirleitt í örbylgjunni - svo 2 2/3 dl af mjólk og þetta hrært í kökuna. Kakan verður ansi grófútlítandi þegar búið er að hræra þetta saman við. Því næst er sett 3 meðalstór egg og bætt við 1 1/3 dl af mjólk. Þetta er hrært saman við deigið þar til það verður mjúkt og fallegt. Sett í smurða skúffu og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 25 mínútur eða þar til það skilur sig frá hliðunum. Ég sting yfirlett stálprjón í miðja kökuna - ef eitthvað deig festist á hnífinn þá þarf hún nokkrar mínútur í viðbót. Látin kólna aðeins á meðan kremið er útbúíð.

Næst á dagskrá er kremið. 50 gr. af smjöri/smjörlíki er brætt í 100 ml af heitu vatni í potti. 150-200 gr flórsykur er sigtaður í skál og 2 msk kakóduft bætt við. Vökvanum er síðan hrært saman við hægt og bítandi þar til það dökkt, þykkt og gljáandi. Smurt á kökuna. Kókosmylsnu er síðan sáldrað yfir kökuna.

Borðað helst með höndunum - ekki nota skeið eða gaffal eða svoleiðis fínerí - og ísskalda mjólk með. Þessi kaka klikkar ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband