22.9.2008 | 14:35
Stórkostleg haustveisla: Lambaskankar marineraðir í heimagerðri sultu og rauðvíni með seljurótarmús
Áður en við fluttum út til Svíþjóðar vorum við með nokkrar kveðjuveislur. Fyrst partí með vinunum. Svo matarboð með stórfjölskyldunni og svo á sunnudeginum áður en við fórum út vorum við með bekkjarpartí fyrir bekkjafélaga dóttur minnar. Þetta var virkilega skemmtileg helgi - nokkuð strembin - en samt virkilega skemmtileg. Í þessa veislu komu tengdaforeldrar mínir, Hrafnhildur og Eddi, mágkona mín og svila, Kolbrún og Inga Dóra og yndislegu synir þeirra, Marteinn og Patrekur og svo var mitt slegt auðvitað, foreldrar mínir, Lilja og Ingvar og síðast en ekki síst bróðir minn, Kjartan. Þetta var eftirminnilegt kvöld.
Ég hef oft nefnt það á blogginu mína að uppáhaldsmaturinn minn sé lambalæri. Það er engin lygi, það er í algeru uppáhaldi og eitt besta hráefni sem ég kemst í í eldhúsinu. Lambaskankar finnst mér líka vera algerlega meiriháttar. Það er vegna þess að uppáhaldsparturinn af lambinu eru "eistun" sem liggja neðst á lærinu, sá hluti sem eldast mest og maukast næstum við eldunina. Þetta er þó vandmeðfarið hráefni að því leiti að það krefst langrar eldunar og helst langrar marineringar á undan. Best er að huga að máltíðinni með nokkra daga fyrirvara (en maður gerir þetta sjaldnast). Kaupa kjötið helst fyrripart vikunnar og leyfa því að liggja í ísskápnum heima og meyrna. Þá er sennilega best að huga að marineringu að minnsta kosti degi áður. Síðan er afar mikilvægt að elda skankann við lágan hita...elda lengi...þrjár fjórar klukkustundir, þangað til að þú sérð að kjötið er farið að losna frá beininu. Þá veistu að það er veisla á næsta leiti.
Bróðir minn, hann Kjartan, eldaði bestu lambaskankamáltíð sem ég hef á ævinni smakkað. Það var á indverska vísu og var einn stórkostlegasta máltíð sem ég hef notið í sumar. Ég á eftir að gera grein fyrir henni hérna á blogginu. Kjartan var svo almennilegur að skrifa þetta upp með mér. Þetta er bara leti í mér að hafa ekki skellt þessu á bloggið. Á meira að segja aðra lambaskanka uppskrift inni sem ég á eftir að birta. Ætli ég fari ekki bara að raða þessu inn. Haustið er einmitt rétti tíminn til að standa í svona eldamennsku. Dagarnir farnir að styttast, farið að kólna, vindurinn blæs kröftugara en mann þolir...þá er rétti tíminn til að elda eitthvað sem vermir mann að innan og blæs í mann smá lífi.
Stórkostleg haustveisla: Lambaskankar marineraðir í heimagerðri sultu og rauðvíni með seljurótarmús
Þetta var máltíð sem tók smá tíma í undirbúning, en það var einfalt - eins og ég segi svo oft. Fyrst er olívuolía hituð í potti og ein skarlotulaukur steiktur varlega í smátíma þar til að hann er mjúkur. Þá er rúmlega hálfri flösku af góðu rauðvíní sett ofan í pottinn (ekki láta blekkja ykkur með því að nota eitthvað drasl - góður matur krefst góðra hráefna). Ég notaði Lindemans bin 50 - sem er vín sem ég drukkið nokkrum sinnum áður. Góða við að nota rúmalega hálfa flösku er að tæplega hálfverður eftir til að gleðja kokkinn. Þegar rauðvínið er farið að hitna þá er ein krukka af heimagerðri bláberja og krækiberjasultu er sett útí og blandað vel saman. Næst er að setja samtíning af góðu kryddi sem manni finnst passa vel við; smávegis bergmynta, steinselja, timian, rósmarin og salvíu. Þessu er leyft að krauma aðeins og sjóða niður þangað til að þetta er orðið af þykkri blöndu.
Þá er lambaskönkunum raðað í skál eða bara eitthvað hentugt og marineringunni dreift vel yfir hvern og einn. Gott að er bæta aðeins í kryddið á þessum tímapúnti. Núna ræður hver og einn hvað hann marinerar lengi. Sólarhringur er örugglega betri en hálfur dagur - en tíminn ræður. Þá er að hita ofninn í 90-100 gráður og baka í lokuðu íláti í 3-4 fjórar klukkustundir. Það væri örugglega betra að gera þetta við 80 gráður í fimm tíma eða svoleiðis. Bara að kjötið meyrni vel og sé þannig að það detti næstum af beinunum. Dásamlegt. Þegar kjötið er tilbúið er það tekið út og leyft að jafna sig á meðan ofninn er blússhitaður með kveikt á grillinu. Skankarnir eru saltaðir vel og ristaðir undir grillinu til að klára verkið.
Sósan var einföld. Soð af lambakjöti. Allt sem rann af lambaskönkunum blandað saman í pottinn með lambasoðinu. Smávegis af sultu. Þykkt með smjörbollu - 30 gr smjör og 30 gr hveiti þeytt saman í heitum potti og soðinu bætt varlega saman við. Smá rjóma bætt við til að jafna bragð. Saltað og piprað.
Ég var með ansi góða seljurótar- og kartöflumús með matnum. Auðvitað mætti bara hafa kartöflumús en seljurótin leggur til skemmtilegt bragð, pipraðra og dýpra. Seljurót og kartöflur eru flysjaðar í jöfnum hlutföllum og soðnar eins og lög gera ráð fyrir í miklu söltuðu vatni. Þegar þær eru mjúkar er vatninu hellt af og þær stappaðar með smjörklípu, smá rjómaosti, salti, pipar og mjólkurskvettu. Borið fram eins og sést á myndinni.
Salatið var einfalt. Græn lauf, ólívur, jarðaber, kirsuberjatómatar, kúrbítur (sem er að verða algert uppáhald) og nokkrum þunnum sneiðum af bláum kastala. Einfölt dressing með jómfrúarolíu, dijon, smá balsamediki, salti og pipar.
Með matnum drukkum við nokkur ansi góð vín. Penfolds bin 128 sem ég hafði sótt með mér í fríhöfninni og svo Lindemans bin 50 Shiraz frá því 2006 sem ég hef drukkið nokkrum sinnum áður. Penfold Shiraz bin 128 hafði fengið prýðis meðmæli frá kunningja mínum. Þetta er ánægjulegt vín með ríku tannín bragði og dökkum ávexti. Samkvæmt Wine spectator er best að geyma það í fram á næsta ár! Ég nennti alltént ekki að bíða eftir því. Einhver sagði mér að vín með ríku tannínbragði hefðu góða burði til þess að geymast. Lindemans vínið var ágætt en ekki eins kröftugt og það fyrra. Kom samt á óvart miðað við hvað það er á góður verði - mjúkt og ávaxtaríkt.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
mmmmmmmmmmmmm..........
Hólmdís Hjartardóttir, 22.9.2008 kl. 14:49
Hvað samferðafólk þitt er heppið að þekkja þig
M, 22.9.2008 kl. 17:43
Ég er laus næst þegar þú heldur matarboð .. alveg pottþétt. Og ef ekki, þá dömpa ég því sem ég ætlaði að fara að gera. Nema ef ske kynni að þú myndir bjóða mér akkúrat þegar ég á að fara að eiga ... tíhí ... þú ert schnillingur!
Hugarfluga, 22.9.2008 kl. 22:36
Mig langar að spyrja að einu.... Er seljurót sellerý eða sellerýrót?
Í Nóatúni fékk ég eitt sinn þær upplýsingar hjá starfsmanni að seljurót væri sellerýrót.... satt að segja tók ég það ekki trúanlegt.
Helga (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 16:24
Hæ Helga
Seljurót skilst mér að heiti celeriac á ensku. Eftir því sem ég kemst næst er það stundum kallað sellerí rót. Allavega leggst það þannig á enskunni.
Hvað sem það kallast þá er þetta stór og mikill bolti, stærri en rófa, gulgræn á lit.
mvh, Ragnar
Ragnar Freyr Ingvarsson, 28.9.2008 kl. 20:14
Välkommen till Sverige! Vonandi eigið þið eftir að eiga ánægjulega dvöl í þessu frábæra landi! Láttu mig endilega vita ef þú finnur gott lambakjöt á Skáni - mér skilst að þar sé besta lambakjötið í Svíþjóð. Ég hef smakkað nýsjálenska lambakjötið og það er einhver keimur af því sem mér líkar ekki. Ég verð bara að láta það eftir mér að kaupa lambakjöt hjá www.islandsfisk.se - eini gallinn er að verðið á því er líka alíslenskt!
Med vänliga hälsningar från Växjö!
Aðalheiður Haraldsdóttir, 2.10.2008 kl. 19:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.