17.9.2008 | 18:38
Dásamlegur franskur eftirréttur: Tarte Tatin með rjóma og/eða vanilluís
Ég sit í Svíaríki og fylgist með ástandinu á Fróni. Það er erfitt að lesa fréttir frá Íslandi um þessar mundir. Það stefnir í harðan vetur og þá er ég ekki að tala um veðrið. Ekki að ég sé stykkfrír - því fer fjarri - maður sér það litla sem maður á hverfa í gengismun. Dapurlegt. Maður hlýtur að spyrja sig hverjum þetta er að kenna og fyrir flestum er það nokkuð ljóst. Þetta er pínulítið eins og að horfa á ungling lemja móður sína. Og þegar verið er að glíma við næstum óviðráðanlegan hlut þá er erfitt að geta ekki gert neitt. Nema kannski láta sér líða aðeins betur og ekki veitir af því að lyfta sér upp á þessum síðustu og verstu tímum. Ég held að þessi eigi eftir að setja bros á einhver andlit. Það gerði það allavega á mínu heimili.
Þennan eftirrétt fékk ég fyrst hjá Vigdísi Hrefnu vinkonu okkar hjóna og manninum hennar, honum Bassa. Þau hjónakorn eru miklir unnendur franskar menningar og matargerðarlistar. Þau hafa oft boðið okkur í mat og elda' fyrir okkur ýmsustu veislurétti. Seinast fórum við í matarboð til þeirra áður en við lögðum af stað í ferð til Frakklands og þá var meðal annars þessi frábæri eftirréttur á borðum.
Tarte Tatin á rætur sínar að rekja til tveggja systra, Carólínu og Stefaníu, sem ráku hótel um 1900 hundruð í Lamotte-Beuveron í Frakklandi. Sagan segir að sú síðarnefnda hafi oftast séð um eldhúsið og hafi verið að gera eplaköku en gleymdi eplunum á pönnunni og reyndi að bjarga sér og setja deigið yfir og svo allt inn í ofn og þannig hafi þessi - upside down - kaka orðið til.
Almennt séð þá er ég ekki mikið að elda eftirrétti. Ef bloggið er skoðað þá er einungis handfylli af eftirréttum á síðunni og alla hef ég gert nokkrum sinnum. Þetta er kannski svona Roberto Rodriguez (bandarískur leikstjóri sem er oft með matreiðslusegment á DVD útgáfu bíómynda sinna) fílósófía að kunna nokkra deserta og gera þá alla nokkuð sæmilega. Eplakökur eru undantekning, en ég elska eplakökur. Samt held ég að ég hafi aldrei sett eplaköku á bloggið. Reyndar hef ég einhvern tíma sett jarðaberjakrumbl á netið en þá köku geri ég oft sem eplaköku og ber fram með vanilluís.
Dásamlegur franskur eftirréttur: Tarte Tatin með rjóma og/eða vanilluís
Fyrst er 350 gr af hveiti sett í skál og svo 150 af ósöltuðu mjúku smjöri, smá salt (eða bara 150 gr af söltuðu smjöri). Bætið saman við 100 gr af sykri (flórsykur er oft notaður í svona uppskriftir - en ég held að það skipti engu máli) og svo 2 meðalstórum eggjum. Skv uppskriftum er þetta oft gert á þá vegu að hveitið og saltið er sigtað á borð. Gerð hola og svo er smjörið, sykurinn og eggið sett í holu í miðjum hveitihaugnum. Þessu er svo blandað hægt saman. Einnig má bara skella þessu öllu í matvinnsluvél - blitz blitz - wúlla - og maður er kominn með mjúkan fallegan deig klump sem maður vefur inn í plast og setur inn í ísskáp til þess að jafna sig.
Þá eru eplin flysjuð - ca. 2 kg af grænum eplum - kjarnhreinsuð og skorin í fjórðunga. 100 gr af smjöri er brætt í pönnu (sem þolir að fara inn í ofn) með 250 gr af sykri og er það hitað þar til að sykurinn hefur bráðnað og falleg karamella fer að myndast. Þá er eplunum raðað þétt á pönnuna og leyft að sjóða á fremur lágum hita í góðan hálftíma. Þá hefur karamellan tekið á sig dökkan lit og eplin orðin gullinn og falleg. Mikilvægt er að láta eplin hjúpast vel karamellunni og það best gert með því að ausa henni yfir eplin.
Þá er deiginu kippt út úr ísskápnum, flatt út þannig að það verði stærra en pannan sjálf. Deigið er svo lagt ofan á eplin á pönnunni og gott er að þjappa því niður með jöðrunum þannig að það verði falleg brún á kökunni. Þá er pönnunni sett inn í ofn sem hefur verið forhitaður 180-200 gráður og bakað í 25-30 mínútur eða þar til að deigið hefur orðið fallega gullið.
Þá er kakan tekin úr ofninum og leyft að kólna í nokkrar mínútur áður en gerð er tilraun til að snúa henni á ofan á disk. Diskurinn er þá settur ofan í pönnuna of pönnunni snúið meðan maður heldur í diskinn. Ef eitthvað af eplunum dettur af/festist á pönnunni best að kraka þau laus og setja á sinn stað í kökunni.
Borið fram með góðum vanillu ís eða bara þeyttum rjóma. Í sumum flottum bókum er einnig notað creme frais eða jafnvel bragðbættur mascarponeostur.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
þetta blogg er það mest fitandi á netinu.
Hólmdís Hjartardóttir, 17.9.2008 kl. 19:11
Jummmí...... Smakkaði fyrsta skiptið Tarte Tatin í Suður Frakklandi nánar tiltekið í Bandole. Algjört æði þessi kaka/pæ!!
Hér er linkið á hótelið og veitingastaðinn þeirra Caroline og Stephanie Tatin sem er enn í rekstri!
Þar er meiri að segja mynd af pönnunni frægu!
http://www.hotel-tatin.fr/tarte_historique.php
Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 14:05
Brilliant. Takk fyrir þennan link.
Ragnar
Ragnar Freyr Ingvarsson, 18.9.2008 kl. 17:52
Hvernig er það, ætti ekki að vera hægt að svindla og setja hreinlega karmellueplin ofan í mót og deigið ofan á? (Veit það stangast á við hugmyndina á bakvið Tarte Tatin, en ég er ekki alveg viss um að pannan mín sé ofn-væn.) Já og hefurðu eplin bara í fjórðungum, þú skerð þau ekkert meira niður?
Annars alveg snilldaruppskriftir hjá þér, held að það sé almenn stórhætta á lekaslysum á lyklaborðum við lestur þessa bloggs! Þessi verður prófuð a.m.k. í e-i útgáfu við fyrsta tækifæri.
Hólmfríður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 00:09
Þetta lítur afar vel út - maður verður að prófa þetta.
Lauja, 19.9.2008 kl. 08:31
Sæl Hólmfríður
Það er öruggulega hægt að svindla. Um að gera að prófa - annars verður aldrei neitt nýtt til.
Tvennt sem ég myndi þá huga að; Ef þú vilt gera böku með stífum botni þá þarf að forbaka botninn í 15 mínútur eða svo. En ef þú vilt hafa hann blautan þá seturu eplin beint ofan á óbakað deigið. Svo má líka raða eplunum í eldfast mót, sleikja upp allt af pönnunni með sleikju, og setja svo deigið yfir og snúa því svo við?
Með kveðju,
Ragnar Freyr
Ragnar Freyr Ingvarsson, 19.9.2008 kl. 09:44
Þetta er svoooooooooo gott. Á svipaða uppskrift, en ætla að prófa þessa. Gangi ykkur vel í Svíaríki.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 20.9.2008 kl. 18:13
Nei, hættu nú alveg! Þetta lítur ekkert smá vel út! *slurp* Ég væri orðin spikfeit ef ég eldaði og borðaði allan þennan mat sem þú ert að gefa okkur uppskriftir að.
Hugarfluga, 20.9.2008 kl. 18:32
Ég var að dunda mér við að baka þessa köku. Smá vonbrigði því það er brunabragð af karamellunni, svipað einsog þegar það mistekst að brúna kartöflur.
Hefuru einhver ráð upp í erminni hvað þetta varðar? Hvernig get ég látið epli malla í karmellu í hálftíma án þess það komi brunabragð? Karmellan festist ekkert við eða svoleiðis, og kakan lítur mjög vel út nema eplin eru töluvert dekkri en á myndinni þinni... það er bara þetta sykurbrunabragð sem veldur vonbrigðum. Svona eftir á að hyggja þá hef ég sennilega gert þetta á of háum hita, enda notaði ég cast iron pönnu og því frekar erfitt að stjórna hitanum...
Fínt blogg, ég kíki oft við hérna til að stela hugmyndum!
Eva Dögg (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 18:40
Hæ Eva
Kannski ertu með of mikinn hita undir - eins og þú hefur sjálf bent. Það þarf bara rétt að láta karmellunna bubbla, Um að gera að reyna aftur.
með kveðju,
Ragnar
Ragnar Freyr Ingvarsson, 14.10.2008 kl. 17:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.