Ferðasaga og Kanadísk Fiskiveisla: Hörpuskel, Túnfiskur, Lúðusteik og villtur lax eldaður á Sedruviðarplötu (frá Kanada) á grillinu

l olivierAfsakið letina á blogginu. Ekki það að ég sé búinn vera almennt latur - þvert á móti - er allt búið að vera á fullu í undirbúningi flutnings til Svíþjóðar. Ég á inni nokkrar uppskriftir frá því í sumar sem ég á eftir að láta frá mér. Ætli ég drífi ekki í því. Það er algerlega lygilegt hvað maður þarf að hafa með sér mikið af pappírum og svoleiðis í farteskinu. Svo eru síðustu an$%(s kassarnir ansi drjúgir. Þetta er svona eins og að klára alltaf helming. Gengur rosalega vel fyrst en svo er erfitt að sækja síðustu helmingana! En hvernig sem fer þá flyt ég af landi brott á mánudag. 

Ég ætla að reyna að blanda saman ferðasögum frá Frakklandi og þessu matarbloggi mínu. Þetta verður sennilega hálfglatað í upphafi - þessar uppskriftir eiga lítið sameiginlegt nema það að viður kemur við sögu í báðum uppskriftum. Báðar máltíðir voru algerlega dásamlegar. Kollegi móður minnar, Gary Babiuk, er í heimsókn á Íslandi og kom með sér tvær plötur af Sedruvið sem er vinsæl aðferð við að grilla í Kanada.

l olivier 2Við fórum skemmtilega leið í gegnum Frakkland. Lentum snemma morguns eftir næturflug til Parísar og fórum beint upp í bílaleigubíl og brunuðum suðvestur á bóginn framhjá Orleans til lítils bæjar, Bonneuil-Matours. Þar gistum við á yndislegu B&B (http://www.vienne-hotes-lolivier.com/). Ég skrifaði smá ferðasögu á meðan ferðinni stóð.

Fyrsti dagurinn var ansi erfiður. Við flugum um nóttina með næturflugi til Parísarborgar. Það tók sinn tíma að komast að töskunum og svo var biðin eftir þeim talsverð – sífelldar bilanir töfðu allverulega. Sóttum bílinn – sem var.... – og fórum út í umferðina – líkt og allir Frakkar! Morgunumferðin var hafin og gatan Peripherique sud var þétt pökkuð – ekki eitthvað sem maður þurfti þreyttur eftir flugið!

Þegar komið var til Bonnueil Matours tóku Peter og Bridget á móti okkur í húsi þeirra sem liggur í jaðri þessa fallega litla svefnbæjar. Peter er arkitekt og var í sumarfríi og var í essinu sínu þegar hann tók á móti okkur. Konan hans Bridget rekur þetta litla gistiheimili sem er alveg gullfallegt.

Ég fékk að tylla mér niður við borð útí í garði þar sem Peter sat ásamt vini sínum, rafvirkjanum Claude, sem voru að skála í Suze snaps fyrir vel unnin störf dagsins, Claude var að leggja rafmagn í hús sem átti að verða sundlaugarhús – við sundlaug sem átti eftir að rísa! Ég hafði keypt smá snarl útí litlu kaupfélagi í nágrenninu og Peter fannst það ansi dapurlegt og sagði mér að ætli maður að kynnast Frakklandi þá verður maður að spjalla við Frakka fyrst. Þeir munu sýna manni hvernig landið á að liggja. Hann bauð mér fyrst upp á snaps – Suze – sem er sætur bitter drykkur sem minnir aðeins á Campari en bara gulur á lit og sætari. Þannig í raun ekkert líkur Campari. En hvað um það. Peter uppveðraðist allur við þetta og  rauk af stað inn í eldhús og kom út með ostabakka  - með alvöru ostum – Flauelsmjúkum Camenbert,stinnum rjómakenndum Comte Gryere osti, mildum hvítmygluosti líkum höfðingja og spikfeitum mjúkum osti, Boursault, frá Normandí. Einnig var hann með í farteskinu körfu með brauði sem Bridget hafði bakað daginn áður. Þvílíkt og annað eins. Bragðið af ostunum var stórkostlegt – og eftir dag eins og þennan var þetta unaðslegur endir á deginum. En þetta var ekki búið enn. Peter sagði að það væri ómögulegt að fá sér franska osta án þess að fá sér almennilegt franskt rauðvín og hann skaust niður í kjallara og sótti gamla rauðvínsflösku sem hann kaupir af bónda rétt hjá – Charente. Prýðisgott vín – þurrt en bragðmikið. Með matnum sagði Peter okkur ýmislegt um nágrennið og augljóst að hann er stoltur af landi sínu og fannst rétt að við vissum meira um alvöru franska menningu.

Notre Dame í PoitersSvo fór hann með okkur rúnt um garðinn sinn og sýndi okkur stoltið sitt – matjurtagarðinn sinn, þar sem hann ræktar nokkrar tegundir af tómötum, kúrbít, ferskar kryddjurtir, jarðarber, radísur og fleira. Hann tók upp nokkrar radísur, plokkaði frá nokkra tómata og reytti upp nokkur basillauf og svo var skundað inn í eldhús. Ég fékk aðeins að hjálpa til með að snyrta radísurnar.

Hann útbjó tómat og lauksalat með basil, niðurskornar radísur og disk með kúrbítssalati. Hann rauk aftur niður í vínkjallarann sinn og kom upp aftur með nokkra ára gamla Sauvignion Blanc flösku sem var hreint út sagt dásamleg. Við sátum fram eftir kvöldi á veröndinni hjá þeim og spjölluðum um daginn og vegin. Rétt fyrir miðnætti skriðum við upp í rúm og sofnuðum. Ég held að ég hafi aldrei sofið betur. Daginn eftir fórum við í bílferð um svæðið og skoðuðum Poiters og fórum fallegan sundstað.

(Hérna kemur svo loksins tengingin við kanadísku fiskiveisluna - mikið var)

Þegar við gengum heim urðum við vör við að mikill reykur steig upp frá húsinu sem við gistum í og þegar gengið var inn í garðinn stóð Peter yfir báli sem hann hafði útbúið og var að rista/brenna krækling. Hann hafði raðað 200 kræklingum upp á endan á tréplötu og svo dreift furugreinum yfir sem hann síðan kveikti í. Lyktin var mögnuð – brunnar furunálar og eldaður kræklingur – sjávarkeimur og íslensk jól í loftinu. Furðulegt en stórkostlegt. Hann vildi ólmur að við settumst með sér – hjónin voru með gesti í mat – og vildu að íslendingar fengu meiri skilning á franskri menningu. Hann sótti stóla, vínglös og diska og við settumst niður með þeim. Hvítvín og ristaður kræklingur undir berum himni. Kertaljós og rómantík. Er hægt að gera betur?untitled

 

Kanadísk Fiskiveisla; Hörpuskel, Túnfiskur, Lúðusteik og villtur lax eldaður á Sedruviðarplötu

sedarviðurEins og þið sjáið er tengingin ansi langsótt - en svona verður það bara að vera - ég reyni bara að teygja ekki lopann mikið næst. Það að elda á svona viðarplötu er eitthvað sem ég hef ekki gert áður. Þetta er aðferð sem vinur okkar frá Kanada kenndi okkur. Spennandi. Hann er búinn að lofa að senda mér svona plötur til Svíþjóðar. Mun þar boða út fagnaðarerindið.

Viðurinn er meðhöndlaður þannig að hann er látin liggja í vatni í að minnsta kosti sólarhring. Þá er grillið blússhitað og þegar það er tilbúið er plankinn settur á grillið og leyft að hitna í nokkrar mínútur. Viðurinn brennur að neðan og gefur frá sér mikinn reyk og því verður ákaflega gott og ríkt viðarbragð af matnum. Við ákváðum að reyna nokkrar tegundir af fisktegundum.

Fyrst ákváðum við að gera tvo forrétti. Fyrst hörpuskel sem ég marineraði í góðri jómfrúarolíu, heilum smátt skornum kjarnhreinsuðum chillipipar, Ail de Rose hvítlaukrifjum - tvö smátt skorinn - og svo salti og pipar. Látið liggja í þessari blöndu í um klukkustund. Eldað á plötunni þar til það var tilbúið. Eina til tvær mínútur á hvorri hlið.

hörpuskel undirbúinStrákarnir í Fiskisögu á Höfða áttu til fallegt túnfiskstykki og ég ákvað að prófa. Hann var penslaður með góðri japanskri ósaltaðri soya sósu og svo eldaður á plötunni - maður verður að passa sig á því að ofelda ekki túnfiskinn. Ég ofeldaði hann aðeins - Það þarf rétt aðeins að láta hann hvítna á hvorri hlið. Eins og sést á myndinni, þá er hann brúnn í miðjunni - ofeldaður, en samt alveg ljúffengur.

Lúðusteikin var pensluð með heimagerðri sítrónuolíu - 3 hlutar olía og svo einn hluti fersk sítrónusafi, saltað með fingurfylli af Maldon salti og svo hrist vel saman. Borin fram með nokkrum sneiðum af sítrónu.

Snædís veiddi gullfallegan hæng í Elliðaánum á föstudaginn. Hún fór með hann í Fiskisögu á Grensásvegnum til að láta flaka hann þar sem við erum ekki slyngustu í því að flaka. Þar hitti hún mjög indælan mann sem var tilbúinn til að hjálpa henni. Þá kom aðvífandi afgreiðslukona sem augljóslega réð yfir búðinni og rukkaði 1000 kr fyrir að flaka einn fisk. Þvílíkt andskotans okur. Meira að segja strákurinn sem var afgreiða okkur var hneykslaður og snéri sér að konunni og spurði "er það verðið fyrir að flaka fisk?"...smá hik - "JÁ" svaraði konan. Þar sem Snædís var á hraðferð lét hún þetta okur yfir sig ganga.

lúðusteikAlmennt þekki ég þetta fyrirtæki ekkert nema af góðu. Ég hef nokkrum sinnum nefnt það á blogginu mínu hversu ánægður ég hef verið með afgreiðsluna þarna - sérstaklega strákarnir sem vinna á Höfðanum, virkilega þægilegir. Ég vona að svona þurfi ekki að endurtaka sig.

Bjó til létta jógúrtsósu með laxinum. 1 dós af jógúrt, smávegis jómfrúarolía, smátt skorinn hvítlaukur, sítrónusafi og blanda af ferskum kryddjurtum. Örlítið af hunangi til að vega upp á móti súru bragði jógúrtarinnar. Einnig vorum við með einfalt salat með matnum; græn lauf, tómatar, mozzarella, einfaldri vinagrettu sáldrað yfir.

Með matnum drukkum við dýrindis góð hvítvín. Ég var með nokkrar flöskur af Wolf Blass Presidents Selection Chardonnay - vín sem ég hef sett á bloggið örugglega þrisvar sinnum áður. Það er af góðri ástæðu. Það er bara svo ansi bragðgott. Smjörkennt og ávaxtaríkt. Á örugglega eftir að drekka það aftur.

lax tilbúinn

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

spennandi

Hólmdís Hjartardóttir, 3.9.2008 kl. 03:04

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú heldur væntanlega áfram að matarblogga eftir þú kemur til gamla Sverige?

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.9.2008 kl. 10:12

3 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Lítur vel út. Líka vel valið vín. Wolf Blass vínin er nær undantekningalaust mjög góð.

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 3.9.2008 kl. 14:32

4 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður.

Þetta er virkilega girnilegt. Aldrei heyrt um viðarfjölina.

Við heyrum frá þér þegar þú verður búinn að koma þér fyrir í Sverige.

Góða ferð og Guð veri með í för.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 3.9.2008 kl. 20:51

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Hef notað "plankann" mikið í sumar.  Get mælt heilshugar með þeirri matreiðsluaðferð.

G. Tómas Gunnarsson, 3.9.2008 kl. 20:52

6 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Gaman að lesa ferðasöguna vonandi heldur þú áfram með matarbloggið. Góða ferð og takk fyrir mig.

Kristín Katla Árnadóttir, 5.9.2008 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband