Tveir pottþéttir pastaréttir - Pasta puttanesca og pasta með truffluolíu og eggi - leiftursnöggir

Þetta er búinn að vera hreint út sagt prýðisgóður dagur. Er við það að klára úrdrátt fyrir lyflæknaþingið sem ég þarf að klára í kvöld. Það gengur vonandi eftir. Er með tvær færslur í vinnslu - hef aðeins verið að drolla við að klára þær. Þær verða tilbúnar í vikunni. Á meðan ákvað að skella inn svona tveimur stuttum uppskriftum.

Þetta eru tveir mjög snöggir pastaréttir sem hægt er að gera á meðan pastað sýður og svo bera matinn fram nánast um leið og pastað er soðið. Það er til mikið af svona réttum. Ítalir hafa mörg trix upp í erminni.

pasta puttanescaPasta puttanesca

Þetta er réttur sem mér skilst að sé kominn frá Napólí. Þýðist á móðurmálið; pasta portkonunnar. Hann er afar einfaldur og sérstaklega bragðgóður. Sumum mun blöskra ansjósurnar sem eru notaðar í réttinn en ansjósur eru hreinasta sælgæti - eru í raun náttúrulega þriðja kryddið - treystið mér...það verður ekkert fiskibragð af matnum.

350 gr af góðu pasta er sett í ríkulegt magn af sjóðandi söltu vatni. Þá er 50 gr af ansjósum skornar smátt niður, og steiktar ásamt 4 smáttskornum hvítlauksrifjum í 5 msk af góðri jómfrúarolíu. Þegar ansjósurnar eru bráðnaðar og hvítlaukurinn farin að verða gylltur þá er 1 meðalstórum smátt skornum rauðlauk, 25 kalamata ólífum (sem ég steinhreinsaði), 30 meðalstórum kapers bætt á pönnuna og nýmöluðum pipar. Leyft að hitna í gegn og þá var einni dós af góðum niðursoðnum tómötum bætt á pönnuna, tómatarnir stappaðir niður. Leyft að sjóða á meðan pastað var að verða tilbúið. Þegar það var soðið setti ég 20-30 ml af pastavatninu útí sósuna og hellti svo af pastanu. 1/2 búnti af steinselju og 1/2 búnti af basil var þá hrært saman við. Pastað var svo sett aftur í pott, sósunni hellt yfir, hrært saman, lokið sett á og leyft að standa á meðan meðlætið var borið á borð.

Með matnum var baguetta, einfalt salat, parmesanostur og smá tár af Montalto Catarato Chardonnay úr kassa. Prýðisgott vín með talsvert ávaxtabragð en fremur stutt eftirbragð. Ljómandi af kassavíni að vera.

spaghetti og eggSpaghetti með hvítlauk, truffluolíu og steiktu eggi

Ég veit hljómar kjánalega en er alveg ljúffengt. Þetta slær nánast eggi og beikoni við á erfiðum sunnudagsmorgnum!

Handfylli af góðu spaghetti er soðið skv. leiðbeiningum í söltuðu vatni. 2-3 matskeiðar af jómfrúarolíu er hitað á pönnu, 3 hvítlauksrif eru smátt skorinn og sett útá pönnuna og nokkrir skvettur af góðri truffluolíu er einnig sett útá. Á annarri pönnu eru tvö egg steikt eins og lög gera ráð fyrir. Þegar spagettíið er tibúið er vatninu hellt frá og spaghettiið sett á pönnuna með olíunni, hvítlauknum og truffluolíuna. Hrært vel saman við, saltað og piprað. Fært á disk, eggin sett ofan á. Nokkrum dropum af truffluolíunni er sáldrað yfir eggin auk nýrifnum parmesanosti og smátt skorinni steinselju.

Bon appetit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dísa Gunnlaugsdóttir

að sitja hér við tölvuna eftir að hafa ekki haft tíma fyrir mat vegna vinnu er ekki gott að detta inn á þína síðu nammmmmiiiiiiiii en takk fyrir flottar uppskriftir

Dísa Gunnlaugsdóttir, 22.4.2008 kl. 20:14

2 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 24.4.2008 kl. 12:30

3 Smámynd: Kristberg Snjólfsson

Mér lýst vel á þetta reyndar pínu hræddur við ansjósurnar, en maður verður bara að prófa. Takk fyrir góðar hugmyndir í eldhúsinu

Kristberg Snjólfsson, 27.4.2008 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband