Jamaísk karrígeit að hætti John Bull, með flatbrauði, salati og steiktum kartöflum

landslagÉg hef uppásíðkastið horft á þætti á netinu sem heita John Bull Reggae kitchen. Ég rakst á þennan herramann á vafri um netheima þar sem ég var að flakka á milli matreiðslusíðna. Það er ótrúlega mikið af fólki útí heim sem þjáist af sömu matreiðslusýniþörfinni eins og ég. Gott að vita að maður sé ekki eyland. Alltént er þessi maður jamaískur kokkur sem hefur gert nokkra stutta matreiðsluþætti sem eru alveg ágætir og gefa smá sýn inní jamaíska matargerð. Læt fylgja með smá klippu sem er af youtube þar sem hann kennir manni að elda jamaískan "jerk" Chicken, man!

Það er talsvert síðan að ég og bróðir minn ákváðum að skella okkur í þessa matargerð - ástæða þess að þetta hljómar eins og skuldbinding er vegna þess að það þarf að elda geit í dálítinn tíma til þess að hún verði meir - allavega það kjöt sem mér var skaffað. Annars skilst mér á því sem ég hef lesið á netinu að ungar geitur séu afar meirar og góðar og því vaknar sá grunur að mín geit sé hokin af lífsreynslu. En hvað um það - marinering og suða mun leysa allan þann vanda.

Við fórum í bústaðinn til að elda þessa máltíð. Það er langt síðan að við vorum þar síðast fyrst og fremst vegna þess að foreldrar mínir hafa verið að stækka bústaðinn og því hefur verið erfitt að vera þar vegna framkvæmda. Núna var miðhúsið - byggingin sem tengir það gamla við það nýja að verða tilbúið og því kjörið að slá á létta strengi og halda upp á það með góðri matarveislu. Dugir eitthvað annað til?

Bróðir minn, Kjartan, sá að mestu um eldun á geitinni en ég kom inn á seinni stigum málssins og sá að mestu um meðlætið. Ég bað hann því að koma með smá innslag;

Curry goat er einn af þjóðarréttum eyjarskeggja á Jamíku og í ljósi þess skiptir umgjörð matseldarinnar jafn miklu máli og annar undirbúningur. Til dæmis hjálpar þungur bassi kjötinu að brotna niður og mælt er með því að taktþung reggae tónlist sé látin hljóma á meðan kjötið marinerast. Vert er að benda á það að ekki gengur að spila UB40 vegna þess að miður skemmtilegar tilraunir hafa leitt það í ljós að sú tónlist snúi ferlinu við og kjötið reynist jafnvel enn seigara en áður en marinering hófst. Til að verða rétt stemmdur fyrir undirbúninginn er tónlist og almennt karabískt stemming lykilatriði, byrjendur geta til dæmis klætt sig í litríka skyrtu og spilað calypso en lengra komnir fara einfaldlega úr að ofan og dilla sér við nyabinghi trumbuslátt. 

Jamaísk karrígeit að hætti John Bull, með flatbrauði, salati og steiktum kartöflum

karrígeitEins og sagt var í innganginum þá þarf marinera. Tekið er geitarkjöt (eða annað gott kjöt – má vera seigt!) og sett í skál og útí hana er sett; 2 msk carrý duft, rúmlega 1 tsk af timían, lófafylli af muldum kóríander og paprikudufti, 3 pressuð hvítlauksrif, salt og pipar og 2 dollur af hreinni jógúrt. Öllu blandað saman í stóra skál og marinerað í sólarhring í ísskápnum.Daginn eftir:Hellið msk af jurtaolíu í stóran pott. Fjórir til fimm bitar af geitakjötinu eru steiktir snögglega til þess að laða fram kraft og svo er afganginum af kjötinu hellt ofan í - sem kallar nánast samstundis fram vökva (munið að skafa vel innan úr ílátinu sem notað var við maríneringuna –  svo ekkert fari til spillis!). Bætið við rúmlega einum lítra af heitu vatni og einni kanilstöng. Pottinum lokað og kjötinu leyft að malla í við að elda3-4 klukkutíma – jafnvel lengur. Að því loknum er bætt við góðum slurk af rauðvíni (t.d. hálfri flösku) og vatni, einum lauk skornum í þunnar sneiðar, msk af hlynsírópi, skvettu af sítrónu safa, lambakrafti, salt og pipar, örlítið af sweet chilli sósu, 2 lárviðarlaufum, og handfylli af ferskum kóríander og steinselju.

Flatbrauð var einfalt, 500-600 gr af hveiti, 2 tsk af salti, 4 msk af ágætri olíu. Pakki af geri er vakin í volgri mjólk og er þessu síðan hrært saman. Hellti um 200 ml af AB mjólk saman við ásamt smá skvettu af vatni þar til að ég var kominn með mjúkt og meðfærilegt deig. Leyft að hefast í klukkustund. Biti og biti er klipinn af deiginu, flattur út, penslaður með heimagerðri hvítlauksolíu og grillað þar til gullið og girnilegt.

salatHálft búnt af lambhagasalati var rifið niður á disk, tómatar, rauðlaukur var skorin í þunnar sneiðar og settur í skál og yfir það hellt safa úr einni sítrónu, 2 msk jómfrúarolía, skvetta af hlynsírópi, salt, pipar og eitt mjög smátt skorið hvítlauksrif. Þessu var blandað vel saman og látið standa í 30 mínútur. Blöndunni var svo dreift yfir salatið og skreytt með ferskri steinselju.

Kartöflurnar voru fyrst forsoðnar í 10 mínútur í söltuðu vatni. Svo voru þær skornar í átta fleyga og svo steiktir á pönnu. Fyrst var olía hituð, smávegis af kúmen og kóríander var vakið í olíunni, kartöflunum bætt á pönnuna og steikar þar til mjúkar. Saltaðar og pipraðar rétt í lokin.

Með matnum var að sjálfsögðu drukkið mjög gott rauðvín; Wolf Blass Grey Label Cabernet Sauvignion. Einhver hefði kannski valið annað vín með matnum - og sagt að þetta fín væri of flott til að hafa með svona mat, en þetta var gripið í leiðinni og það var engin í vonbrigðum með valið. Þykkt og mikið vín með löngu eftirbragði, mikill ávöxtur og kannski pínu súkkulaði. Þó er ég engin atvinnusmakkari. Allavega þá var vel smjattað á víninu

Að máltíð lokinni var bjór opnaður, farið í skýlu og svo horft til himins.

John Bull hefði sennilega sagt þetta á þessa leið; Maraniiieeeeriiing: Put deh goat tings in a large bowl ... spice em wit pepper, ground coriander, 3 crused garlic gloves, 2 tablespoons of curry powder, thyme, sea salt, paprika and 2 tins unflavoured yoghurt. Maraniieerr for a over night. 
Deh next day: Fry deh goat tings in a large pat. Add one liter hot water and let it simmer for a few hours. Add a cinnamon stick. Then add red wine and more water. Season wit stock, maple syrop, sweet chilli, s&p, fresh koriander, a little lemon, fresh parsley...Eat and enjoy deh carribean flavours ... straight from king jah rastafari haile selessi i continually lion of judah ... BO! 

karrígeit2


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Hljómar vel! Hún Pioneer Woman er skemmtileg líka, en maður þarf að kíkja á þennan Bull!

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 3.5.2008 kl. 00:51

2 identicon

Je mon, ég mæli með Heart of the Congos með matseldinni. Lee "Scratch" Perry mixaði.

bugur (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband