Gómsæt smjördeigsbaka með karmelliseruðum rauðlauk, brie og rjómaosti

baka1Þetta er ekki svona beint uppskrift sem ég ætlaði að byrja nýja árið með. Þetta varð bara til af tilviljun þar sem ég var með svona loka hreingerningu úr ísskápnum. Ég ætlaði að henda þessu í ruslið en í staðinn varð þessi réttur til. Ég man eftir vinsælum brauðrétt sem var vinsæll hérna um árið; pítubrauð smurt með sýrðum rjóma, karmelliseruðum lauk, reyktum laxi og kóríander. Þessi sem ég er að greina frá núna er frábrugðin, en svona stemmingin er svipuð.

Ég átti til smávegis af smjördegi afgangs frá því um hátíðarnar sem voru að nálgast síðasta snúning. Einnig var ég að hreinsa aðeins til í ostunum og átti bæði til brie sem var að þroskast talsvert og svo nýjan rjómaost. Þessi uppskrift hlýtur að vera eitthvað sem ég hef lesið annarsstaðar og man ekki eftir því - þetta var eiginlega of gott til þess að ég einn geti hafa látið mér detta þetta í hug - ef fólk er að lesa - endilega bendið á upprunann.

Gómsætt smjördeigsbaka með karmelliseruðum lauk, brie og rjómaosti

baka2Smávegis af smjördeigi er rúllað út, hægt er að kaupa annað hvort plötur í frosti sem eru frekar þykkar en einnig upprúllaðar sem eru þynnri. Ég var með þessar upprúlluðu og þær þurfti ekkert að fletja út. Skorin rönd af hliðununum og lagðar ofan á endanna. Þannig fær maður smá lyftingu til að loka bökunni og halda hráefninu innan í bökunni. Með gaffli er stungið í gegnum botninn til þess að hún lyftist síður - hliðarnar eiga þó að lyftast vel.

Heill stór rauðlaukur er skorinn í sneiðar og steiktur í 15 gr af smjöri með smá olíu við fremur lágan hita, ég vil alls ekki að laukur brúnist heldur verði bara mjúkur og karmelliserist í smjörinu. Bætti svo eins og 1 msk af góður hlynsírópi ofan á laukinn og hræri vel saman. Látið eldast í nokkrar mínútur og svo er lauknum dreift á smjördeigið.

Til að klára er brie osturinn skorinn niður fremur smátt og dreift ofan á. Rjómaostinum er svo dreift á milli. Ein eggjarauða er svo hrærð vandlega og hliðarnar penslaðar með egginu til þess að bakan verði gullinn og falleg. Bakað í 180 gráðu heitum ofni þar til osturinn er bráðnaður og hliðarnar orðnar gullnar og búnar að lyfta sér. Ætli það taki ekki svona 15 mínútur. Skorið í sneiðar og borið fram með klettasalati og góðu hvítvíni, góðu Chardonnay.

Bon appetit.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hljómar rosaleg vel, er orðin svöng af að lesa þetta. Prófa þetta pottþétt þegar ég er búin að gleyma því að ég er í aðhaldi eftir jólaátið.

Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 21:14

2 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Þetta lítur vel út! namm

Edda Agnarsdóttir, 13.1.2008 kl. 00:48

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

mmmm hljómar mjög vel, hef þetta íkvöldmatinn á morgun

Hólmdís Hjartardóttir, 13.1.2008 kl. 01:29

4 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Mjög girnilegt namm.

Kristín Katla Árnadóttir, 15.1.2008 kl. 19:14

5 identicon

Glæsilegt. Þetta er girnileg baka. Hef fylgst með blogginu þínu lengi og margir frábærir réttir litið dagsins ljós :-)

Gott ef þú hefur ekki bara haft nokkur áhrif á að ég byrjaði með mitt eigið matarblogg - http://web.mac.com/odinn - endilega kíktu á það. Aldrei að vita nema þú getir nýtt þér eitthvað þar ;-)

Óðinn Valdimarsson (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 18:57

6 Smámynd: Hugarfluga

Þú ert nú meiri snillingurinn! Vá ... perfect.

Hugarfluga, 24.1.2008 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband