25.7.2021 | 14:58
Humar og chorizospjót með mangó-sýrðrjómasósu
Humar og chorizospjót með mangó-sýrðrjómasósu
Aðeins ein tegund af humri lifir við Íslandsstrendur leturhumar. Þetta kann að hljóma eins og hreinasta þjóðremba en mér finnst hinn íslenski vera umtalsvert betri en sá sem ég hef til dæmis prófað á veitingastöðum í Bandaríkjunum. Sá humar er talsvert stærri, ekki eins fínn undir tönn, ekki með þann sætukeim sem einkennir íslenskan humar og loks er kjötið grófara.
Bestur er humarinn þegar hann er grillaður hvort sem það er í ofni undir blússheitu grillinu eða á funheitu kolagrilli. Nægur hiti í stuttan tíma er allt sem þarf.
Og humar sómir sér best með einhverju feitu, hvort heldur það er hvítlaukssmjör eða olía eða þá feitar chorizo pylsur eða þá bara hvort tveggja, eins og í þessari uppskrift. Chorizopylsur fást í sérverslunum eins og Pylsumeistaranum í Laugalæk og jafnvel í Melabúðinni.
1 kg humar
5 chorizopylsur
3 msk hvítlauksolía
salt og pipar
1 dós sýrður rjómi
1 mangó
2,5 cm engifer
½ kjarnhreinsað chili
1 tsk mangóchutney
salt og pipar
- Skolið humarinn og takið hann úr skelinni. Fjarlægið görnina.
- Setjið humarinn í skál og veltið upp úr hvítlauksolíunni.
- Sneiðið chorizopylsurnar niður í grófar sneiðar.
- Þræðið humarinn upp á spjót ásamt pylsunum. Saltið og piprið.
- Setjið sýrða rjómann í skál og blandið mangóchutneyinu saman við.
- Skerið mangóið í smáa bita og hrærið saman við sósuna ásamt smátt skornu kjarnhreinsuðu chili og rifnum engifer. Smakkið til með salti og pipar. Blandið vel saman.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.