Marókóskt Mese hlaðborð með ljúfum veigum - Svipmyndir frá stúdentsveislu Valdísar!

 

 

Valdís Eik Ragnarsdóttir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð með glæsibrag. Það er alveg stórkostlega skemmtilegt að sjá barnið sitt klára menntaskóla. Athöfnin var auðvitað með öðru sniði - aðeins annað foreldrið mátti koma í hátíðarsalinn. Ég horfði á útsendinguna í gegnum netið - sem var furðuvel heppnuð. Ég var að rifna úr stolti yfir frábæra frumburðinum okkar. 

 

Um kvöldið var svo veisla stúdínunni til heiðurs. Þar var fjölmennt, en þó innan Covid ráðlegginga. 

 

 

Marókóskt Mese hlaðborð með ljúfum veigum - Svipmyndir frá stúdentsveislu Valdísar! 

 

 

 

 

 

Fyrir lambið

 

4 lambaframpartar

Marókósk kryddblanda - heimagerð (blanda af ristuðu broddkúmeni, kóríander auk túrmeriks, hvítlauksdufti, papríkudufti og salti og pipar. 

Beð af mirepoix (gulrætur, laukur, sellerí)

Jómfrúarolía. 

 

 

Útbjó kryddblönduna. Smurði lambið ríkulega með jómfrúarolíu og lagði á beð af mirepoix sem ég hafði skorið niður. Lambið var svo nuddað ríkulega með kryddblöndunni og bakað undir álpappír í 4 klukkustundir.

 

 

Kjötið varð lungamjúkt og leikur einn að toga beinin úr og aðskilja kjötið frá. Setti það til hliðar og geymdi í kæli til morguns.

 

 

Gerði líka fullt af brauðdeigi. Fyrst var að undirbúa flatbrauðið. Ég hef oft gert einhvers konar grillbrauð og það er einstaklega auðvelt. Gerði líklega 6 uppskriftir

 

Einföld uppskrift er eitthvað á þessa leið; 

 

Fyrir flatbrauðið

 

600 gr hveiti eru sett í skál

1 tsk salt

2 msk jómfrúarolíu. 

1 pakkir af þurrgeri 

30 g hunang

600-700 ml vatn

 

 

 

Þetta er síðan hrært saman í góðri hrærivél.  Látið hefast yfir nótt.

 

 

Skipti deiginu síðan í 12 kúlur sem fengu að hefast aftur í um klukkutíma.

 

 

Bakaði svo brauðið á pizzusteini úti á grilli. Penslaði hverja sneið með hvítlauksolíu og saltaði vandlega.

 

 

Brauðið heppnaðist mjög vel.

 

 

Um það leyti sem gestirnir voru að mæta setti ég risastóra paellupönnu á gasið og steikti rifið kjötið aftur í jómfrúarolíu og kryddaði aftur með restinni af kryddblöndunni sem ég hafði gert kvöldið áður.

 

 

Rauðbeðu- og chilihummus

 

2 dós kjúklingabaunir

3 msk tahini

100 g innlagðar rauðbeður

2 msk chilimauk (að eigin vali)

salt og pipar

75 ml jómfrúarolía

1 hvítlauksrif

salt og pipar

 

 

Skar einn rauðkálshaus niður með mandólíni og lagði í pækil gerðan úr þremur hlutum vatns, tveimur hlutum af góðu ediki og einum hluta af sykri. Sauð þetta upp, lét kólna og standa á rauðkálinu í tvo til þrjá tíma. Við það verður það létt pæklað - ennþá stinnt og aðeins undir tönn.

 

 

Og auðvitað var skálað fyrir stúdínunni.

 

Prosecco frá Piccini hefur verið í uppáhaldi hjá okkur síðan við heimsóttum framleiðandann Piccini til Toscana sumarið 2017. Þar tókum við Kristján Kristjánsson upp fyrstu sjónvarpsþættina okkar fyrir sjónvarp Símans. Algerlega ógleymanleg ferð!

 

 

Svo var ekkert annað að gera en að raða á disk, fyrst brauð og svo hlaða öllu gúmmelaðinu á brauðið.

 

Þetta heppnaðist vel og maturinn var nær allur snæddur upp til agna.

 

Til hamingju - elsku Valdís Eik. 

 

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Til hamingju með dótturina!

Þorsteinn Briem, 17.6.2020 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband