24.7.2016 | 08:45
Ekta barnsley kótiletta með magnaðri myntusósu
Í gegnum tíðina hefur bresk matargerð ekki haft neitt sérstaklega gott orð á sér. En að mínu mati á það á ekki við rök að styðjast. Það má kannski vera að slíkt hafi verið reyndin á árum áður en í dag er það fjarri sanni. Gríðarleg vakning hefur verið síðastliðna tvo áratugi gagnvart mat og matarmenningu, hvernig dýrahaldi skuli háttað og hvernig best sé farið með skeppnurnar. Og auðvitað er það sjálfsagt.
Ég hef lagt mig eftir því, hvar sem ég hef búið á undanförnum árum, að reyna að kynnast kjötkaupmanninum í grenndinni. Í Svíþjóð skipti ég gjarnan við Holmgrens í Saluhallen í Lundi, í Englandi hef ég einvörðungu keypt kjöt hjá Bramptons í St. Georgsstræti í Kemptown í Brighton og á Íslandi hef ég sótt mínar kjötvörur til vina minna í Kjöthöllinni sem hafa alltaf lagt sig í framkróka við að hjálpa mér að nálgast það sem mig hefur vantað hverju sinni! Og af hverju skiptir það máli. Svarið er einfalt - kjötkaupmaðurinn getur hjálpað manni að nálgast hvað sem er sem mann kann að vanhaga um þegar kjöt er annars vegar. Það sem sést í borðinu er bara brot af því sem hægt er að nálgast.
Myndin hérna að ofan sýnir kótilettu. En ekki það sem kalla má venjulega kótilettu, heldur er þetta þekkt í Englandi sem The Barnsley Chop eftir bænum Barnsley í Yorkshire í Norður Englandi. Eins og með flesta hluti þá greinir fólki á um hver uppruninn í rauninni er - en almennt er talið að þessi biti hafi fyrst litið dagsins ljós í Brooklands hótelinu í sama bæ. Og hvað er svona sérstakt við þessa kótilettu - jú, lundin er með og svo er hún skorin aðeins þykkari en gengur og gerist með kótilettur. Og það gerir hana sérstaklega girnilega.
*af einhverri ástæðu sjást ekki ljósmyndir með færslunni á moggablogginu - hægt er að skoða færsluna í heild sinni hérna.
Ekta barnsley kótiletta með magnaðri myntusósu
Og þessi uppskrift er einföld. Myntusósa er ljúffeng sósa sem bróðir minn kenndi mér að búa til. Hún er einstaklega fersk og lífleg á bragðið og passar vel með öllum mat sérstaklega lambakjöti. Hún kitlar bragðlaukana en léttir þó um leið á hitanum. Finnist manni grænum chili í þessari sósu ofaukið er um að gera að sleppa honum, sósan berekki skaða af.
Fyrir sex
6 þykkar Barnsley kótilettur
3-4 msk góð jómfrúarolía
Salt og pipar
Fyrir myntusósuna.
2 plöntur fersk mynta
1 planta ferskt kóríander
handfylli steinselja
2 stk grænn chilipipar
1 grænt epli
2 hvítlauksrif
2 tsk hlynsíróp
1 msk jógúrt
2 msk jómfrúarolía
¼ tsk worcestershiresósa (Lea & Perrins)
½ msk indverskt nudd (nota má garam masalaí staðinn)
salt og pipar
Penslið kótiletturnar með jómrúarolíu og saltið og piprið eftir smekk.
Það lekur auðvitað fita af lambinu. Gætið þess að kveikja ekki í þeim. Ein til tvær mínútur á hvorri hlið dugar þegar hitinn er mikill.
Setjið myntu, kóríander og steinselju í matvinnsluvél, ásamt grænum chili (kjarnhreinsuðum), hvítlauk og gróft hökkuðu epli (einnig kjarnhreinsuðu). Brytjið vandlega í vélinni. Blandið hlynsírópi, jógúrti og olíu saman við. Smakkið sósuna til með worcestershiresósu, indversku nuddi og salti og pipar.
Svo er bara að skreyta með smátt skorinni myntu og steinselju.
Þetta er Spánverji sem er mörgum kunnugur. Þetta er Coto de Imaz Rijoa Gran Reserva frá 2008. Þetta vín er unnið úr Tempranillo þrúgum eins öll Rioja vín. Og þessi flaska hefur verið í uppáhaldi hjá mér lengi, enda ekki skrítið þar sem það er ljúffengt. Fallega djúprautt á litinn, ilmur af þungum ávexti og sultu, á bragðið ávextir og sulta og eftirbragðið eikað og langt. Ekki skrítið að vínið hafi unnið gyllta glasið!
Svo er ekkert annað að gera en að njóta saman.
Það er ekki flókið að elda fyrir grillveislu!
Skál!
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 08:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.