9.2.2015 | 19:41
Ofnbakaðar marineraðar lambalærissneiðar með sítrónuberki og myntu á norður Afríska vísu
Ég lenti inn á spjallþræði í dag þar sem spurt var um uppskrifir að lambalærisneiðum. Margar ljúffengar uppástungur lentu inn á þræðinum en ég telfdi fram þessari uppskrift sem ég birti í Veislunni endalausu sem kom út núna fyrir jólin! Fyrst að ég var búinn að skella henni inn á FB var alveg gráupplagt að leggja hana líka inn á síðuna mína!
Í þessum rétti sameinast Norður-Afríka og Ísland á dásamlegan hátt. Íslenskar lambalærisneiðar og svo krydd sem einkenna matargerð Marokkó og Túnis og raunar Líbanons líka. Ég er þó nokkuð sannfærður um að þetta sé ekki réttur úr þeirra ranni en svona er það þegar ein menning mætir annarri.
Lamb er þó mjög fyrirferðamikið í matargerð Norður-Afríku þar sem sauðkindin er ekki þurftafrekt dýr og hefur haldið í þeim lífinu í gegnum aldirnar eins og okkur hér á norðurslóðum.
Það mætti alveg bæta við steyttum kóríanderfræjum án þess að rétturinn myndi bíða tjón af kannski verður hann bara betri?
Fyrir átta
8 fallegar lambalærissneiðar
5 msk jómfrúarolía
2 tsk paprikuduft
1 msk broddkúmen
2 tsk engiferduft
safi úr tveimur sítrónum
börkur af tveimur sítrónum
4 hvítlauksrif
salt og pipar
börkur af einni sítrónu að auki til skreytingar
myntulauf til skreytingar
- Hellið jómfrúarolíu í stórt eldfast mót
- Blandið saman við paprikudufti, steyttu broddkúmeni og engiferdufti.
- Saxið hvítlaukinn mjög smátt og bætið í eldafasta mótið.
- Raspið utan af tveimur sítrónum og kreistið safann út í kryddblönduna.
- Skolið og þerrið lambalærissneiðarnar og veltið þeim upp úr kryddblöndunni. Hendið niðursneiddum sítrónunum ofaná og marinerið að lágmarki í eina til tvær klukkustundir, helst yfir nótt.
- Bakið allt saman við 180 gráður í forhituðum ofni í 15-17 mínútur. Takið út einu sinni til að ausa vökvanum yfir.
- Raðið á fat, ásamt sítrónusneiðum og mokið safanum yfir. Skreytið með ferskum sítrónuberki og myntulaufum.
Berið fram með gufusoðnu grænmeti og tabbouleh (uppskriftir af þessum réttum er að finna í bókinni minni).
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt 10.2.2015 kl. 17:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.