Fyrir tveimur vikum var ég með innslag í helgarblaði moggans þar sem ég fjallaði um veislu sem ég hafði nýverið verið með. Þá var tengdafaðir minn, Eddi, og sambýliskona hans, Dóróthea, í heimsókn hjá okkur hérna í Lundi. Þau voru einstaklega heppin með veður og sólin lék við þau. Við gestgjafarnir reyndum að gera okkar besta að þeim liði sem best hjá okkur.
Þau voru hjá okkur yfir langa helgi og það var frábært að hafa þau hjá okkur. Við brugðum okkur meðal annars til Kaupmannahafnar á laugardeginum og röltum um, settumst niður á nokkrum stöðum, og glugguðum í bókina Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn eftir Björn Th. Björnsson sem er stórmerkileg lesning. Hvet fólk til að kynna sér þessa bók - hún dýpkar gönguferðirnar um borgina til muna!
Eftir frábæran dag enduðum við svo á Litla Apótekinu á Stóra Kaninkustræti og fengum fullkomlega misheppnaða máltíð. Hún var svo glötuð að ég setti langa færslu inn á Tripadvisor um heimsókn okkar. Eigandi staðarins var svo móðgaður við gagnrýnina að hann sendi mér kvörtunarbréf um kvörtun mína - þvílíkt og annað eins - ég hló bara! Allavega, sleppið því að fara þangað, það er úr nógu öðru að velja.
Á sunnudeginum héldum við því veislu heima og buðum upp á þríréttaðan matseðil og meðal annars þennan ljúffenga eftirrétt.
Flamberaðar crepes með jarðaberjasírópi, ferskum jarðaberjum og þeyttum rjóma
Hérna eru íslensku pönnukökurnar teknar í hæstu hæðir!
Fyrir fjóra
Fyrir pönnukökurnar
2 dl hveiti
1 msk sykur
1/4 tsk salt
1/4 tsk matarsódi
1/2 tsk vanilludropar
25 g brætt smjör
250 ml mjólk
2 egg
10 g smjör (aukalega)
Fyrir sírópið
75 g sykur
100 ml vatn
10 jarðaber
50 ml koníak
10 jarðaber
Þeyttur rjómi
Blandið þurrefnunum saman í skál. Hrærið egg og vanilludropa saman við ásamt mjólkinni. Bætið svo brædda smjörinu út í deigið og hrærið vel saman.
Hitið smjör á pönnukökupönnu og bakið pönnukökurnar, 8-10 stykki.
Setjið pönnukökurnar til hliðar.
Hellið sykrinum á pönnu ásamt vatninu og hitið að suðu. Hrærið vel á meðan og gætið þess að allur sykurinn leysist upp. Skerið jarðaberin niður og bætið úr í sírópið og látið krauma þangað til að sírópið er þykkt.
Setjið pönnukökurnar út á, eina í einu og brjótið upp á þær í ferninga.
Hellið svo koníakínu á pönnuna og kveikið í. Gætið þess að brenna ykkur ekki! Raðið á disk, setjið umfram sírópið með á pönnukökuna. Raðið niðursneiddum jarðaberjum ofan á og skreytið með þeyttum rjóma.
Njótið vel!
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:07 | Facebook
Athugasemdir
Önnur mynd aö ofan:
Þetta eru ekki fallegar pönnukökur, of hvítar, líklega of mikið af smjöri.
Ég nota frekar smjörlíki, hefur reynst mér betur.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.7.2014 kl. 11:51
Sæll Haukur
Pönnukökurnar voru frábærar. Þær voru líka tvísteiktar fyrst í smjöri og svo aftur í jarðaberjasírópinu. Hver og ein er jú ólík - sumar steikti ég meira en aðrar. :)
Um smjörlíki hef ég þetta að segja Smjörlíki er ekki mannamatur. Það er fjöldaframleitt rusl og ætti best heima þar - í ruslinu! Flettu upp hvernig það er framleitt og sjáðu svo til hvort þú notir það aftur.
Smjör er alltaf betra - alltaf!
með kveðju,
Ragnar
Ragnar Freyr Ingvarsson, 13.7.2014 kl. 16:27
Blessaður Ragnar Freyr.
Íslenskar pönnukökur eru svo sannarlega góðar. Helst vil ég hafa þær með rjóma, miklum rjóma, ný þeyttum og event. ögn af sultu.
Með hvaða sultu eða marmelaði mælir þú?
Ef smjörlíki er ekki manna matur, yrði ansi margt að flokkast eins. Hinsvegar er smjörlíki ekki alltaf smjörlíki, allt eftir tegund og framleiðslu. Forðast skal smjörlíki með trans fitu, en einnig mettaðri fitu. Sjá link fyrir neðan. Takk fyrir góða pistla.
http://www.zeit.de/2013/47/stimmts-margarine-butter
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.7.2014 kl. 18:00
Líst vel á þessar pönnukökur. Líta ljómandi vel út. Líklega prufa ég þessa aðferð einhverntíma. Tími þó líklega ekki koníaki í framkvæmdina og læt mér nægja þokkalegt brandy.
En ég er sammála Ragnari með smjörlíki. Slíkan óþverra býð ég hvorki mér né fjölskyldu minni upp á. Nota smjör eða olíu. Stundum blöndu af því tvennu. Yfirleitt nota ég þó ekki smjör við pönnukökubakstur, heldur olífuolíu, sólblómaolíu eða hnetuolíu.
En yfirleitt nota ég egg í pönnukökur og oftast sýróp í staðinn fyrir sykur. Best finnst mér að nota hlynsýróp ef ég hef það handbært, það gefur svo góðan keim, en "ómerkilegra" sýróp er engin höfuðsök.
G. Tómas Gunnarsson, 13.7.2014 kl. 18:52
Sæll Haukur
Takk fyrir að skilja eftir athugasemdir! Það er alltaf gaman að fá endurgjöf frá þeim sem lesa bloggið mitt.
Vil þó ítreka stöðu mína - ALLT SMJÖRLÍKI ER GLATAÐ. Það er engin ástæða til að éta smjörlíki. Smjör er alltaf betra. Alltaf. bragð, gæði, áferð, verkun, framleiðsla - ALLT.
lifðu heill!
Ragnar
Ragnar Freyr Ingvarsson, 13.7.2014 kl. 19:06
G. Tómas.
Ljáðist að nefna eggin í hráefalistanum - þakka ábendinguna!
Ragnar
Ragnar Freyr Ingvarsson, 13.7.2014 kl. 19:07
Tek undir þetta með koníakið, við eigum að skola því niður, en ekki hella niður.
Nóg er það nú dýrt hér á skerinu. Það er að verða luxus að fá sér eitt smá staup með kaffinu.
Mun næst breyta minni pönnuköku uppskrift og nota smjör, nota bene íslenskt smjör!
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.7.2014 kl. 19:22
Lýst vel á áform þín með smjörið Haukur!
mbk,
Ragnar
Ragnar Freyr Ingvarsson, 13.7.2014 kl. 19:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.