Fljótleg ofngrilluð bleikja spekkuð fetaosti og einföldu kúskús salati

Í upphafi hverrar viku höfum við reynt að elda fiskrétti. Þessi var mjög svo vel heppnuð tilraun. Eins og ég hef nefnt oft áður hefur verið á brattann að sækja að fá góðan ferskan fisk hérna á Skáni. Helst er hægt að fá eldislax frá Noregi sem er mjög góður og svo er gott úrval af ýmsum flatfiskum sem eru sóttir hérna í kringum Suður Svíþjóð! Fljótlega eftir að við fluttum prófaði ég að kaupa frosinn fisk út í búð en það þurfti ekki marga bita áður en það fór beinustu leið í ruslið. Hef ekki keypt frosinn fisk útí búð eftir þann skandall. Hins vegar keyra hérna um fiskbílar og selja fisk á okurverði. En þó oft ansi góðan fisk! Fyrir nokkru komst ég síðan í kynni við íslenska konu sem selur íslenskan fisk í Malmö og er meira að segja farin að keyra heim - www.gallerifisk.se. 

Af henni keypti ég bæði þorskhnakka, löngu, skötusel og bleikju. Allt íslenskan fisk - og hefur smakkast alveg stórvel. Hef eldað allt nema lönguna. Á eftir að gera grein fyrir einhverjum af þessum réttum hérna á blogginu. Byrja þó á þessum.  

Fljótleg ofngrilluð bleikja spekkuð fetaosti með einföldu kúskús salati 

Þetta er sérstaklega einfaldur réttur. Bara að taka bleikjuna út úr frystinum og leyfa henni að aðþýðast í rólegheitunum. Fiskurinn var síðan penslaður með jómfrúarolíu, saltaður og pipraður og svo var um það bil 70 gr af fetaosti mulið yfir. Smá skvetta af agave sírópi og síðan handfylli af kapers. 

bleikja 

Ofninn var hitaður í 275 gráður og grillið blússhitað. 

bleikjaelduð 

Svona þunn flök þurfa ekki langa eldun undir grillinu - ekki meira en 7 mínútur. 

 leonardo trebbiano

Með matnum gæddum við okkur á hvítvínstári frá Ítalíu. Leonardo Trebbiano. Þetta er vín frá svæðunum í kringum Empoli, sem er mitt á milli Flórens og Pisa. Cantine Leonardo er samyrkjubú um 150 bænda sem framleiða nokkrar tegundir af víni. Þetta hvítvín er gert úr 100% Trebbiano þrúgum. Þetta vín er ljóst í glasi - sítrónutónar. Heldur þurrt vín, bragð af sítrónu og epli, létt sýra. Ágætt eftirbragð. Féll mjög vel að matnum.

Með matnum vorum bar ég fram einfalt kúskús salat. Kúskúsið var eldað eins og sagt er fyrir um á pakkanum. Steikti hálfa niðurskorna rauða papríku og aðra gula, hálfan rauðan lauk og 2 smáttskorin hvítlauksrif í jómfrúarolíu þangað til að grænmetið var farið að mýkjast. Þá var það hrært saman við kúskúsið, saltað og piprað. Nokkur græn blönduð salatlauf fengu síðan að fljóta með!

Gerðum líka ofureinfalda sýrðrjómasósu. 100 ml af léttum sýrðum rjóma var hrært saman við hálft hakkað hvítlauksrif, tsk af sírópi, safa úr hálfri sítrónu, salt og pipar. 

 bleikja&kúskús

Bon appetit!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband