29.3.2012 | 18:53
More Crepes! Gómsætar pönnukökur fylltar með súkkulaði og bönunum!
Það gerist stundum að maður gengur í gegnum svona tímabil, þ.e.a.s. í eldhúsinu - ég hef síðustu daga verið að ganga í gegnum svona pönnukökutímabil. Og það er ekki að ástæðulausu - pönnukökur eru alveg hreint ljúffengur matur. Og þá er það sama hvort maður eldar þær sem máltíð eða sem eftirrétt - niðurstaðan virðist bara vera ein; það er veisla framundan! Í síðustu viku gerði ég pönnukökur fylltar með heimagerðum rikottaosti og spínati, sem birtist í seinustu færslu og svo um helgina gerði ég galette með skinku, osti og steiktu eggi og hafði í sunnudagsmorgunverð.
Eins og svo oft áður gerði ég aðeins of mikið af deigi svo ég stakk því inn ísskáp svona til öryggis! Seinna um daginn varð mér síðan hugsað til ferðar okkar hjónanna til Parísar snemma síðastliðið sumar og þar gæddum við okkur einn eftirmiðdaginn á þunnri pönnuköku fylltri með nutella súkkulaði og bönunum - algerlega ljúffengt. Kannski hefði ég átt að nota eitthvað flottara súkkulaði til að rísa upp úr meðalmennskunni en það var eiginlega bara óþarfi - þetta var nógu ári gott!
More Crepes! Gómsætar pönnukökur fylltar með súkkulaði og bönunum!
Ég gerði nákvæmlega sömu uppskrift og í síðustu færslu nema að ég bætti við smá sykri. Ég setti einn bolla af hveiti, 1/2 tsk salt, 1/2 tsk lyftiduft, 1 msk olíu, 1 egg, 2 tsk sykur og einn bolla af mjólk og hrærði vel saman. Steikti á pönnu.
Þegar búið var að steikja pönnukökuna á annarri hliðinni var henni snúið og Nutella súkkulaðinu smurt á í þykku lagi. Þarna mætti auðvitað nota bráðið súkkulaði af hvaða gerð sem var - ég átti nutella og það var það sem við fengum í París og því var það notað. Síðan nokkrar sneiðar af sneiddum bönunum.
Þá var kökunni lokað með því að brjóta ósmurða hlutann yfir þann súkkulaðismurða. Steikt í smá stund og svo snúið aftur og steikt á hinni hliðinni.
Sett á disk og borið fram með tveimur vanilluískúlum og smáræði af myntu.
Borðað með áfergju og stunið reglulega á með (þetta er ekki leiðbeining heldur það sem gerist þegar maður gæðir sér á öðru eins sælgæti)!
Bon appetit!
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir frábært blogg.
Eitt skemmtilegasta og áhugaverðasta matarblogg sem ég hef lesið.
Endilega haltu áfram - hlakka til að lesa næstu færslur.
Bestu kveðjur.
Bryndís Sigurjónsdóttir (ástríðukokkur)
Akranes
Bryndis Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 15:38
Ég bakaði þessar í gærkvöld og hafði sem eftirrétt. Alveg fáránelga gott með góðum ís og hnetum út á.
Takk fyirr eðalblogg!
Margrét Rós Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 09:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.