25.3.2012 | 13:51
Grilluð pólenta með parmaosti og einföldu salati - veisla úr afgöngum!
Nýlega eldaði ég gómsæta lambaskanka með gorganzola polenta. Og sá réttur var algerlega gómsætur. En eins og svo oft áður þá eldaði ég of mikið af meðlæti. Þetta er krónískt vandamál í mínu eldhúsi! Það er engin nýlunda að ég eldi of mikið og ég reyni að vera nýtinn. Ég veit að tengdamóðir mín myndi snúa sér við í ógrafinni gröfinni ef hún vissi að ég færi ekki vel með afgangana - enda er nýtni dyggð.
Það er líka oft þannig að ég næ að snúa afgöngunum í eitthvað annað og stundum er það meira að segja spennandi. Fyrir ári síðan var ég áskrifandi að bandaríska blaðinu Bon appetit og þegar kynntar voru til leiks uppskriftir þá fylgdu oft með hugmyndir að því hvernig mætti nýta afganga. Mjög sniðugt.
Alltént þá er þetta svo örfærsla - mér fannst ég verða að skrifa um þetta þar sem maturinn smakkaðist svo vel. Og þar sem við borðuðum þetta í hádeginu daginn eftir var meira að segja hægt að notast við salatið sem hafði verið gert kvöldinu áður, sem meðlæti.
Grilluð pólenta með parmaosti og einföldu salati - veisla úr afgöngum!
Pólenta er malað maizenamjöl sem þenst verulega út þegar það er soðið í vatni. Við suðuna lætur það frá sér sterkju sem gerir það að verkum að það verður silkimjúkt þegar það er heitt. Þegar það kólnar stífnar það og tekur á sig brauðkennt form.
Ég hafði haft rænu á því að breiða það út á bretti áður en það kólnaði og geymdi það í ísskápnum yfir nóttina. Þetta var auðvitað engin sérstök eldamennska. Bara að skera pólentuna í þríhyrninga (ætli það hafi ekki verið það flóknasta). Pólentan hafði verið bragðbætt með gorgonzólaosti þannig hún var pökkuð af djúpum blámyglyosti! Fátt er jú betra!
Hitta pönnuna þannig að það nánast rjúki úr henni. Pensla síðan hverja sneið með smáræði af hvítlauksolíu. Grilla síðan í 1-2 mínútur á hvorri hlið, rétt til að fá rákir á yfirborðið og svo til að hita pólentuna í gegn.
Leggja á disk og setja smávegis af blönduðu salati með! Síðan þarf maður bara að vera rausnarlegur með parmaostinn. Þetta var meiriháttar hádegisverður!
Bon appetit.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.